Það er dálítið merkilegt að það skuli þurfa einkaframtak úti í bæ til að taka saman skýrt og greinargott yfirlit yfir gjörningana varðandi Vafning, Glitni, Milestone og Sjóvá.

 

Í grein Hallgríms Helgasonar, sem birtist í DV 27. janúar, kemur fram að sú flétta var mestan part sett af stað til þess að forða því að Glitnir yrði opinberlega gjaldrota í byrjun árs 2008. Þess vegna hlýtur að mega draga þá ályktun að allir, eða a.m.k. flestir, sem að þessu máli komu, hafi vitað um stöðu bankans og afar erfitt er að hugsa sér að Bjarni Benediktsson hafi ekki vitað um stöðuna, eins virkur og hann var á sviðinu, bæði sem frammámaður í stjórnmálum og ekki síst í viðskiptalífinu.

 

Samkvæmt því sem lesa má í samantekt Hallgríms vissi Bjarni Benediktsson um stöðu Glitnis og að því gefnu, hlýtur Geir Haarde að hafa vitað það líka og þar með Davíð Oddson og aðrir bankastjórar Seðlabankans.

 

Hafi þetta verið þannig, að öll helsta forysta Sjálfstæðisflokksins hafi vitað hvert stefndi, en ekkert gert í stöðunni annað en  dansa Hrunadansinn, þá eru það svik af slíkri stærðargráðu að fáheyrt er. Svik við þá sjálfa, flokkssystkini sín, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinguna (sem þeir voru í samstarfi með í ríkisstjórn) og síðast en ekki síst, það samfélag sem þeir töldu sig vera að vinna fyrir.

 

Vitanlega er annar möguleiki líka: Það er með villtum og trylltum hugsunarhætti hægt að láta sér detta í hug að mennirnir hafi ekkert vitað og ekkert skilið; hafi bara í einhverskonar barnslegri einfeldni trúað á að allt sem þeir voru að gera væri rétt og gott: því ef tíðin væri ekki góð nú þegar, þá kæmi a.m.k. betri tíð innan skamms tíma.

 

Finnst einhverjum það líklegt að umræddir aðilar séu slíkir einfeldningar að þeir hafi ekkert skilið, skynjað og vitað? Eigum við sem byggjum þetta land, að trúa því að til forystu í Sjálfstæðisflokknum hafist nær eingöngu valist helberir kjánar?

 

Vissulega er það viðurkennt, lítið rætt og umborið að komið hefur fyrir að sloppið hafa inn á Alþingi fulltrúar á vegum flokksins sem almenningur hefur litið á sem kynlega kvisti, svona einhverskonar skraut í þá mannlífsflóru sem flokkurinn hefur boðið fram til lagagerðar fyrir þjóðina, en það er af og frá, að til greina komi að samþykkja það, að allir helstu forystumenn flokksins séu af því tagi.

 

Það er einfaldlega óhugsandi að umræða um þessi mál verði á þeim nótum að um óvita sé að ræða. Þvert á móti er hér verið að fjalla um menn með fullu viti samkvæmt öllum venjulegum skilningi, menn sem hljóta að teljast ábyrgir gerða sinna og í fullum færum að svara fyrir sig og taka afleiðingum af því sem gert hefur verið.

 

Ef til vill væri rétt að settur væri saman rannssóknarhópur til að fara ofan í saumana á starfsemi Sjálfstæðisflokksins undanfarna áratugi, þannig að fyrir liggi hvað fór fram og hvenær og hverjir voru þar að verki. Sumt er vitað um s.s. símhleranir hjá pólitískum andstæðingum flokksins og skjalabrennslur þeim tengdum, fyrir nú utan hermang og almenna hagsmunagæslu ákveðinna þjóðfélagshópa langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

 

Vel getur verið að ástæða sé einnig til að fara ofan í saumana á starfsemi annarra stjórnmálaflokka. Vafalaust væri það bara ágætt og kæmi þá væntanlega fram hvernig starfi þeirra hefur verið háttað. Þeir sem telja sig saklausa af öllu misjöfnu hafa tæpast neitt við slíka skoðun að athuga.

Að bæta gráu ofaná svart

19. janúar 2012

Mikill hvellur er orðinn vegna tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi þess efnis að ákæran á Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, verði felld niður. Óhætt mun að gera ráð fyrir að tillagan sé sett fram af a.m.k. tveimur ástæðum, annars vegar einfaldlega vegna þess, að almennt finnur fólk til með manni sem gott orð fer af, talinn er hvers manns hugljúfi og ekki búinn neinu því innræti sem réttlæti það að ætla honum illt. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að ekki þyki flutningsmanni verra að geta komið af stað úlfúð í hópi þeirra sem fyrst og fremst stóðu að því að virkja dómstól sem sofið hafði notalegum Þyrnirósarsvefni í um öld. Ekki síst þar sem gera má ráð fyrir að sumir séu farnir að sjá eftir að hafa átt þátt í að blása lífi í fyrirbrigðið.

 

Kosningin á Alþingi um málið var um margt athyglisverð. Hún var sannarlega flokkspólitísk á þann veg að vinstri grænir greiddu allir atkvæði sem einn maður, vildu öllum refsa og töldu sig vera í heilagri krossferð til að hefna harma fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Á hinum kantinum voru sjálfstæðismenn sem allir sem einn (einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og tíðkast í svona samtökum) greiddu atkvæði á þann veg að engum skyldi refsað, það væri hlutverk kjósenda og sama sinnis voru langflestir Samfylkingarþingmenn, en ekki allir.

 

Að ýmsu leyti virðingarvert viðhorf, því það er vitanlega þannig, að í lýðræðisríki þá velur almenningur fólk til að fara með stjórn landsins og að endingu er það sá hinn sami almenningur, sem axlar byrðarnar sem til falla vegna mistaka, hvort sem til verða vegna rangra ákvarðana, eða hvers annars sem hinum kosnu fulltrúum tekst að kalla yfir þjóð sína.  

 

Atkvæðagreiðslan á þingi fór sem sagt þannig að það var fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra til margra ára, sem einn var ákærður og málið fór þar með fyrir Landsdóm. Vinstri grænum til blendinnar ánægju, þar sem þeir vildu alla kæra, en flest öllum öðrum til lítillar kæti. Frammi fyrir þessari niðurstöðu var staðið og ekki annað að gera, úr því sem komið var, en að málið færi sína leið. Undu nú flestir ýmist glaðir eða súrir við sitt, vitandi það að lífið er einfaldlega þannig að ekki fer allt eins og hver og einn helst vildi.

 

Á dögunum var haldin heilmikil vakningarsamkoma ,,svokallaðs” Sjálfstæðisflokks þar sem menn stöppuðu stálinu hver í annan, ýmist hlógu eða grétu eftir atvikum, lýstu yfir stuðningi hver við annan, börðust, féllu í faðma og grétu fögrum tárum  yfir óförum og kosningatapi. Allt svona eins og gera má ráð fyrir á samkomu þar sem ekki vefst fyrir fólki að vera vinir þó þeir séu það kannski ekki í raun.

 

Gera má ráð fyrir að á þessum stað hafi fæðst sú einkennilega hugmynd að flytja tillögu á Alþingi sem fæli það í sér, að kæran á fyrrverandi forsætisráðherra yrði felld niður, dregin til baka, svona líkt og þegar börn að leik lýsa yfir að allt hafi þetta bara verið í plati.

 

Væntanlega er enginn sem heldur því fram að Geir H. Haarde sé hinn sanni sökudólgur varðandi hið ,,svokallaða” hrun sem hér varð á árunum 2006 til 2008. Vitanlega ekki og ef menn vildu endilega gera sér það til dundurs að vekja upp Landsdóm, þá hefði væntanlega verið best, að sem flestir meintu sökudólgarnir nytu þess vafasama heiðurs að fara fyrir hann. Þar var hins vegar einn hængur á: Sök helstu gerenda var nefnilega fyrnd, þeir horfnir til annarra starfa og ekkert hægt að gera í því, að lögum, annað en súpa það seiði sem bruggað hafði verið. Þetta verða allir að gera hvort sem þeir höfðu greitt snillingunum atkvæði sitt eða ekki. Þannig er lýðræðið og einræðið er eins og allir vita síst betra.

 

Flokksmenn lögfræðingaflokksins, hafa örugglega ekki gert ráð fyrir að siðlegt væri að taka fram fyrir hendur dómstóls sem væri í miðri umfjöllun máls og vafasamt að þeir hafi gert ráð fyrir né haft hugmyndaflug til að sjá, að með tillögunni myndu þeir draga fram í dagsljósið vingulshátt og dómgreindarleysi dómsmálaráðherrans. Það gerðu þeir hins vegar og að öllu skoðuðu er kannski bara gott að þeim hafi tekist það svona í leiðinni.

 

Við erum nokkur sem höfum verið þeirrar skoðunar að ráðherrann væri ekki eins mikill bógur og hann hefur viljað vera láta, munum þegar hann lagði niður skottið og flúði úr Heilbrigðisráðuneytinu er hann sá frammá hinn óhjákvæmilega niðurskurð sem fram undan var vegna óráðsíu undanfarinna ára.

 

Davíð Oddson var á sínum tíma gagnrýndur fyrir að tala til dómstóla, löglærður maðurinn, en nú skal gert betur: Mál sem komið er fyrir dómstól og er þar í vinnslu, skal af honum tekið og það er Ögmundur Jónasson ráðherra dómsmála sem einna harðast gengur fram í þeirri kröfu, vill bæta gráu ofan á svart og óttast afleiðingar gjörða sinna.

 

Það gæti nefnilega svo farið að Geir yrði bara sýknaður, en í leiðinni gæti líka ýmislegt það verið dregið fram í dagsljósið sem í myrkri hefur dvalið. Ögmundur óttast líklega hið fyrrnefnda, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hið síðarnefnda.

Hagfræði

4. janúar 2012

Fyrir hálfri öld var mér komið fyrir í sveit hjá afasystur minni Helgu Hrefnu Bjarnadóttur og manni hennar Hafsteini Markússyni á Vogatungu í Leirársveit. Þar var gott að vera og margar góðar stundirnar átti ég með Hafsteini er hann var að sinna störfum sínum. Þeim búnaðist vel, ráku rausnarbú og kunnu þá hagfræði sem reynst hafði vel um aldir: sinna vel því sem unnið var að og reyna, svo mikið sem unnt var, að afla lítið eitt meira en því sem eytt var.

Oft var gestkvæmt á bænum, enda í þjóðleið og búið rausnarbúi sem gott þótti að sækja heim. Mér er það minnistætt þegar Hafsteinn tók á móti ungmenni sem komið var í heimsókn til gamalla húsbænda sinna, hafði verið ,,vinnumaður” hjá þeim hjónum og var nú kominn til að rækta gömul kynni.

 

Tók Hafsteinn vel á móti honum eins og hann var vanur, spurði almæltra tíðinda og meðal annars þess hvað gesturinn ætlaði nú að fara að taka sér fyrir hendur. Sá kvaðst ætla í háskólanám. Hafsteini leist ekki illa á það, en sagði eitthvað á þessa leið og kvað nokkuð fast að orði: Það er nú gott góði minn, en bara að þú farir ekki að nema hagfræði.

 

Hinn reyndi bóndi hafði nefnilega tekið eftir því að fátt eitt gekk eftir af því sem svokallaðir hagfræðingar lögðu til; voru svona ámóta traustir í sínum ráðleggingum og veðurfræðingar þess tíma voru, að mati margra þeirra sem áttu allt sitt undir veðri og vindum.

 

Þetta var um 1960 og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, fjölmargt breyst, veðurspárnar orðnar til fimm, jafnvel sex daga, ámóta áreiðanlegar og dagsspáin var þá. Veðurfræðingarnir birtast nú daglega, með hjálp sjónvarpsins, inn í stofu hjá landsmönnum og útskýra gang lægða og hæða, allt á skiljanlegu máli og á svo ljósan hátt að flestir skilja. Veðurfræðin hefur þróast fram á veg, en hefur hagfræðin gert það? Er hún orðin skiljanlegri fræðigrein en hún var fyrir hálfri öld?

 

Útskýrt var á myndrænan hátt í Sjónvarpi allra landsmanna, að núverandi gjaldeyrisforði þjóðarinnar væri orðinn afar stór, hefði víst aldrei verið stærri, en að hann væri nánast allur tekinn að láni. Því mætti ekki eyða af honum og þó hann væri á vöxtum, þá væri það svo að greiða þyrfti mun meiri vexti til þeirra sem lánuðu gjaldeyrinn, heldur en það sem halaðist inn með því að lána hann öðrum.

 

Þetta er væntanlega hagfræði sem flestir skilja. Það felst ekkert ríkidæmi í því að taka dýrt lán í banka til þess eins að leggja það inn á reikning í öðrum eða sama banka á lægri vöxtum. Til hvers er þá verið að þessu?

 

Jú, það er gert til, að reyna að telja fólki trú um að ísl. krónan sé einhvers virði, þjóðin sé ekki á hausnum og að í framtíðinni verði hægt að fremja þann verknað, að aflétta gjaldeyrishöftum og nota krónuna eins og um alvöru mynt sé að ræða.

 

Halldór Ásgrímsson lét sig dreyma um Ísland sem fjármálamiðstöð, moldríkrar eyþjóðar í norður Atlantshafi, sem lifað gæti í vellystingum  á kostnað annarra þjóða, vegna þess að hún væri með innbyggða snilligáfu, sem nær engum öðrum væri gefin. Bessastaðabóndinn trúði þessu líka og trúir enn.

 

Spurningin er þá hvort við, sem erum bara nokkurn veginn ,,venjulegir” íbúar eylandsins, getum með einhverju móti trúað þessu líka og hvort við getum einnig talið okkur trú um að rétt sé gefið.

 

Hvort er líklegra að við, sem byggjum Ísland, séum bara nokkurn vegin eðlilegt fólk eða hitt, að við séum flestum öllum öðrum fremri?

,,gamlir hundar”

30. desember 2011

Einn líflegasti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og sá sem mest hefur endurnýjað sig er vafalaust Framsóknarflokkurinn. Nýr formaður, nýir þingmenn og látlaus hreyfing á hlutunum; einn kemur þá annar fer o.s.frv.

 

Nýorpnasti þingmaður flokksins Ásmundur Einar Daðason, fer mikinn á bloggi sínu og gengur svo langt að kalla félaga sína í pólitíkinni ,,gamla hunda”. Ljóst má vera að ef sú nafngift stenst, þá er Ásmundur væntanlega réttnefndur ,,Ungur hundur”, ef menn vilja endilega vera að hengja sig í indíánanöfn af þessu tagi. Spurning hlýtur að vera hvort rétt er að vera að nudda hinum fyrrum vesturheimska menningarheimi utan í íslenskt stjórnmálalíf með þessum hætti.

 

Stutt er síðan þingmaðurinn flutti búferlum frá Vinstri grænum og yfir í Framsóknarflokkinn og við blasir að honum hefur gengið frekar illa að fóta sig í sleipu gamla flórsins. Margur framsóknarmaðurinn kímir vafalaust í laumi yfir brölti hins unga þingmanns, unga í árum, en vissulega gamall og allt að því forn í hugsun, mundi víst margur vilja segja.

 

Þröngt er á jötunni og fremur takmarkað það sem gefið er á garðann hjá gamla miðflokknum og því er ekki eftir eins miklu að slægjast nú eins og áður var. Snorrabúð er stekkur orðin, ekkert Samband, engin útungunarstöð og ormagryfjurnar opnast hver af annarri, þannig að flestum er ljóst að gamli hentistefnuflokkurinn fór víða af sporinu og ef ekki flokkurinn sjálfur, þá að minnsta kosti ýmsir þeir sem trúnaðar nutu og störfuðu á hans vegum.

 

Framsóknarflokkurinn er nærri því að flosna endanlega upp. Formaðurinn bregst flestu því sem stuðningsmenn hans gerðu ráð fyrir að hann stæði fyrir og svo er komið að hann stendur fyrst og fremst fyrir efstastigs lýsingarorðaflaum, þeirrar gerðar sem nær því nánast að toppa Þór Saari þingmann Hreyfingarinnar, sem svo kallar sig og er þá langt til jafnað.

 

Inn í framsóknarsöfnuðinn flutti þingmaðurinn úr Dölunum og hefur vafalaust gert ráð fyrir, að þangað kominn, væri honum vís framinn. Það fór á annan veg eins og flestir vita, honum var einfaldlega komið fyrir á afviknum bás í þeirri von að þar léti hann lítið fyrir sér fara og hefur það gengið nokkurn vegin eftir. Af og til verður þó vart við lítils háttar brölt úr því horni, líkt og þegar kú, sem komin er að burði, stendur upp til þess eins að leggjast strax aftur, en þá á hina hliðina. Er þá, oftar en ekki, orðin svo upptendruð af tilvonandi burði að hún er hætt að muna eftir því að hún þurfi að halda áfram að jórtra

 

Svona getur nú farið fyrir ungum þingmanni sem tekur skakkan pól í hæðina, fyrr en varði er hann staddur í pólitísku svartholi, sem gleypir allt sem býðst, en engu hleypir út.

Það sem hann einn sá

22. nóvember 2011

Þau okkar sem lögðu það á sig að vaka eftir seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöld þurfa ekki að sjá eftir því. Þar var nefnilega dregið fram til birtingar viðtal, sem var þeim sem á horfðu, þvílík opinberun að leitun er á öðru eins.

Viðtalið var við dýrasta þingmann Sjálfstæðisflokksins, mann sem ætíð rís talsvert upp yfir umhverfi sitt og leggur eitthvað það til málanna sem eftir er tekið. Vonandi er að Sjónvarp allra landsmanna sjái sér fært að sýna manninn í viðtölum, sem og á annan veg, sem allra oftast. Því þegar hann tekur til máls, þá hefur hann ætíð eitthvað verulega mikið fram að færa og þó ekki hefji hann upp raust sína, þá er vafalaust flestum  ljóst að það er eingöngu vegna þess að hann er í augnablikinu upptekinn við að hugsa upp eitthvert snjallræði, þjóð sinni til bjargar og vegsemdar.

Í viðtali gærdagsins var þingmaðurinn spurður út í mál sem hvílt hefur talsvert þungt á almenningi og þá ekki síst þeim sem berjast í bönkum og baslast við að standa skil á lánum sem þeir hafa tekið til að geta haft þak yfir höfuð sér.

Þau sem farin voru að fyllast vonleysi, örvæntingu eða depurð, yfir að hið afburðagóða kerfi sem fundið var upp til tryggingar lánunum væri þeirrar gerðar að nær útilokað væri að greiða þau til fulls, fengu vegna hinnar ljómandi góðu, upplýsandi og greinargóðu orðræðu þingmannsins von. Svo ekki sé nú sagt fullvissu um, að ef hann og hinir frelsararnir í flokknum hans kæmust til valda, þá yrði hinu hroðalega skuldafargi af þeim létt.

Auðvitað. Hvernig stendur á því að engum hafði dottið þetta í hug fyrr? Vitanlega eru þeir bestir og færastir um að töfra til baka verðtryggingarkerfið og láta lánin gufa upp, þeir hinir sömu sem á sínum tíma fundu hið margrómaða kerfi upp. Fyrir nú utan það, að flokksbræður og systur hins mikilhæfa þingmanns, hafa af því langa reynslu að láta lán hverfa. Fram til þessa hafa það að vísu verið lán þeirra sem átt hafa mikið undir sér sem horfið hafa. Nú á hins vegar að nýta þá reynslu sem hann og félagar hans hafa náð sér í, allar götur frá því að stjórnmálaflokkurinn sem hann kennir sig við var stofnaður, í útþurrkun lána og ríkisvæðingu skulda fyrirmenna, svokölluðum almenningi til bjargar og hagsbóta.

Að hinni Vinstri- grænu- jafnaðarstjórn sem við völd situr skuli ekki hafa dottið snjallræðið í hug, er náttúrulega einungis til merkis um hve ófrjó hin vinstri sinnaða hugsun er. Þarna eru þau búin að rembast eins og rjúpan við staurinn, við að gera eitt og annað til lausnar á vandanum, en hefur ekki dottið í hug að leita ráða hjá þeim sem á sínum tíma bjuggu vandann til. Hvílíkt og annað eins! Er þessu fólki alls varnað? Vitanlega kann enginn betur að stöðva farartækið en sá sem hefur komið því af stað. Liggur það ekki í augum uppi þegar málið er skoðað, þó að vísu megi finna dæmi þess, að t.d. börn hafi fyrir slysni komið einhverju af stað fyrir hreinan barnaskap og ekki kunnað að stöðva það aftur. Það er náttúrulega allt annað mál og á augljóslega ekki við í þessu sambandi.

Þökk sé því Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir að hafa loksins rofið þögnina og svipt hulunni af formúlunni sem nota á í núverandi ástandi: Nefnilega fella bara einfaldlega niður óbærilegar skuldir, en leyfa þeim bærilegri að halda sér. Snjallt og augljóst, frábært og dýrðlegt; í einfaldleika sínum allt að því himneskt og alls ekki útilokað að þingmaðurinn hafi fengið vitrun sína á biblíulegum stað, svo snjöll er hún í einfaldleika sínum.

Til að alls réttlætis sé gætt, er rétt að taka það fram svo enginn misskilningur eigi sér stað, að hinn sjónum-hryggi þingmaður, var ekki alveg með það á tæru hvernig gjörningurinn yrði framinn þegar þar að kæmi. Hins vegar var auðskilið öllum, sem skilja vildu, að það væri bara minni háttar útfærsluatriði sem auðleyst yrði þegar á reyndi. Ekki yrði farið yfir lækinn til að sækja vatnið. Heldur yrði lækurinn einfaldlega þurrkaður upp.

Gott er að eiga góða að.

Nokkrir dagar án Davíðs

13. nóvember 2011

Í kynningu á Bylgjunni á þættinum ,,Sprengisandi” kom fram að rætt yrði við frambjóðendur til formanns hjá Sjálfstæðisflokknum og að þættinum lyki síðan með viðtali við seðlabankastjóra.

Sprengisandur byrjaði á viðtali við Bjarna Benediktsson og hafi hann kæra þökk fyrir, að eftir ótrúlega stutta hlustun tókst honum, vafningalaust, að koma undirrituðum inn í draumalandið. Náði þó að hlusta á byrjunina á viðtalinu og augljóslega hafði hann ekkert nýtt fram að færa þann tíma sem ég náði að hlusta.

Komið var að Hönnu Birnu þegar ritari var kominn til meðvitundar aftur. Byrjaði hún frekar rólega (á sinn mælikvarða), en ekki stóðu þau rólegheit lengi, því áður en varði var hún búin að setja (segulbandið?) á hraða sem augljóslega var talsvert yfir því sem upptakan hafði gert ráð fyrir og að lokum hljómaði hún eins og síbylja. Minnti flóðið á foss sem tekinn hefur verið upp á myndband og er síðan spilaður hratt, eða þá kyrramynd af fossi sem tekin hefur verið á það löngum tíma að vatnsbunurnar renna saman í eitt og mynda samfellt, óslitið flóð. Er það oft fallegt á mynd, en þegar um er að ræða samfellda bunu orða, sem vel að merkja, merkja ekki neitt, en eiga vitanlega að merkja eitthvað, þá kemur þetta ekki vel út. Í orðabununni náði ég þó að greina að frambjóðandinn sagði, í umræðu um Evrópusambandið að það væri eins og ,,brennandi hús” og að í Grikklandi kenndu allir evrunni um hvernig komið væri fyrir grískri þjóð.

Hér er komið að því að maður verður að falla fram og fagna því að hafa náð að greina, þó ekki væri nema eina setningu í bunulæk Hönnu Birnu. Gott hefði verið, ef stjórnandi þáttarins hefði haft rænu á að spyrja, hinn hraðmælta frambjóðanda, af þessu tilefni um hvernig hún vildi þá lýsa ástandinu á Íslandi í samanburði við hið ,,brennandi hús”, sem hún telur Evrópu vera vegna efnahagsástandsins sem þar ríkir. Er það kannski eitthvert misminni, eða martraðarkenndur draumur, að flokki hennar hafi tekist að koma efnahag Íslands í kaldakol og það svo rækilega að landið er búið að vera á framfæri alþjóðasamfélagsins í bráðum þrjú ár. Fyrir nú utan þá skráveifu sem hagsnillingum Sjálfstæðisflokksins tókst að velta yfir á útlendinga í afskrifuðum lánum, sem taldar eru nema a.m.k. 7 til 8 þúsund milljörðum króna.

Varðandi fullyrðingu frambjóðandans um Grikkland, er það að segja að hún er í besta falli ,,Sigmundsk”, því vitanlega er það ekki svo að ,,allir” grikkir kenni evrunni og ESB um hvernig komið er fyrir þjóð sinni. Flestir gera þeir sér vitanlega grein fyrir því að það voru ábyrgðarlaus stjórnvöld Grikklands sem gerði þjóðinni þennan grikk. Að kenna ESB um hvernig fór, er ámóta vitlaust og að kenna slökkviliðinu um eldinn sem það berst við að slökkva. Hugsanlega hefur Hanna Birna ekki mikinn áhuga á að beina umræðunni í þennan farveg, enda voru það íslensk stjórnvöld helmingaskiptaflokkanna sem komu Íslandi þangað sem það er nú.

Þættinum lauk Sigurjón síðan með því að fá til viðtals seðlabankastjórann okkar og var það frekar notalegt, að honum skildi ljúka með upplýsandi viðtali við fagmann eftir hið innantóma gaspur formannskandídatanna tveggja. Liggur við að finna megi til samúðar með væntanlegum landsfundarfulltrúum, að standa frammi fyrir valinu, en kannski þeir skili bara auðu, eins og svo oft áður.

Verksmiðjubú?

20. október 2011

Ritari átti þess kost að fara á fund í fyrradag og hlusta á erindi sem Björn Sigurbjörnsson fyrrv. ráðuneytisstjóri flutti. Fjallaði hann þar um regluverk Evrópusambandsins í landbúnaðarmálum og áhrif aðildar Íslands að sambandinu á íslenskan landbúnað. 

Björn kom með skilgreiningu á hugtaki sem æði oft hefur verið kastað fram í umræðum um landbúnaðarmál, án þess að fyllilega væri ljóst hvað átt væri við með notkun þess, nefnilega hugtakinu ,,verksmiðjubú”. Hélt hann því fram að verksmiðjubú væri búrekstur sem ekki þarfnast landnæðis nema lóðar fyrir húsin sem hýstu starfsemina og tilgreindi Björn sérstaklega alifugla og svínabú í því sambandi sem dæmi um starfsemi af því tagi sem hann væri að fjalla um. 

Ekkert er því til fyrirstöðu að útvíkka þessa skilgreiningu, ef mönnum sýnist svo og gæti þess vegna nær allur búrekstur fallið þar undir. Svo dæmi sé tekið, þá er ekkert því til fyrirstöðu að fá sér mátulega lóð undir fjárhús, eða fjós, hafa skepnurnar inni við fullkomnar aðstæður (engin rigning og rok, hríðarbyljir og hrakningar), kaupa að hey handa þeim og annað sem þær þyrftu með og þar með væri komið hið fullkomna ,,verksmiðju” fjár- eða kúabú. 

Kenningin er sú að ef bóndinn noti ekki nema óskilgreint lítið land undir starfsemi sína þá sé ekki um ,,land-búnað” að ræða heldur ,,verksmiðjurekstur”. Svona tala náttúrulega bara þeir sem lítið vita um verksmiðjurekstur, telja sig vita nær allt um landbúnað og vilja láta í það skína að sumar búgreinar séu á einhvern hátt ,,óhreinar” og að aðrar séu á einhvern hátt þeim æðri og hreinni. 

Sé kenningin skoðuð, kemur í ljós að hún á margt skylt við það sem stundum er haldið fram um að iðnaður sem ekki notar að öllu leiti íslenskt hráefni, sé þar með ekki íslenskur. Var, svo dæmi sé tekið, látið liggja að því í skýrslu sem nýlega var samin á vegum Landbúnaðarráðuneytisins.  

Umræðu af þessu tagi þarf að leggja af, því ef grannt er skoðað, er erfitt að finna verksmiðju sem ekki notast við innflutt hráefni af einhverju leiti og því síður búgrein sem  byggir ekki að meira eða minna leiti á erlendum aðföngum.  

Ekki einu sinni öruggt að framleiðslan á montfæði fyrir sérvitringa sem kölluð er lífræn, fullnægi skilyrðunum ef að er gáð.

Kristján L. Möller telur, sem vonleg er, að rétt sé að virkja í neðri Þjórsá. Hann er raunsæismaður og veit sem er, að hagur íslenskrar þjóðar verður ekki eingöngu bættur með því að bjóða ferðamönnum í fótabað, né pönnukökuát á Bessastöðum.

Atvinnuleysisvofan svífur yfir Suðurnesjum og hefur gert um hríð og því er það að Helguvíkurálversómyndin þarf að fara að komast í gagnið. Það fitnar enginn af því að horfa á beinagrind fyrirhugaðs álvers birtast í fréttamyndum.

Bygging þessa álvers er eins og flestir vita, sem vilja vita, eitt allsherjar klúður. Nær allt hefur farið á annan veg en ætlað var. Eða er ekki svo? Hver var ætlunin og hvert var uppleggið með framkvæmdinni?

Til að byggja og síðan reka álver þurfa nokkrir þættir að koma saman og mynda eina heild. Það hefur ekki gerst.

Svo virðist sem ekki hafi verið gengið frá, nær öllum þeim liðum sem gera þarf, þegar fjárfesting af þessari stærðargráðu er undirbúin. Orka var ekki tryggð, línulögn ekki heldur og á síðustu stundu dúkkaði það upp að ætlast væri til að Ríkið stæði straum af kostnaði hafnarframkvæmda í Helguvík.  

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, virðist trúa því að orkuframleiðsla, ein og sér, skapi arð. Þar veður hann í villu sem oftar, því orka er einskis virði nema einhver vilji kaupa hana. Hvort svo er í raun með Helguvíkurálverið, að þar sé fundinn kaupandi að orku sem er tilbúinn að greiða það sem hún kostar og meira til, er ritara ekki ljóst. Vonandi er það þannig, að ef fjármagn finnst til að virkja, þá sé um raunverulegan kaupanda að ræða. Það segir svo kannski það sem segja þarf um hvernig staðið hefur verið að þessu verkefni að ekki skuli vera fyllilega ljóst hvort svo sé.

Jón Gunnarsson og félagar hafa haft gott lag á að klúðra hlutunum. Þeir klúðruðu hagstjórn íslenska lýðveldisins á þann veg að skráð verður í sögubækur framtíðarinnar og Helguvíkurverkefnið er enn ein rósin í hið víðfeðma hnappagat sjálfstæðismanna.

Sauðir, fuglar hross og svín.

23. september 2011

Grein sem birtist í ,,Sunnlenska fréttablaðinu” 15/9. sl.

Verið er að auglýsa tilboðsverð á lambakjöti hjá verslunarkeðju einni þessa dagana á krónur 998,-  fyrir hvert kíló í heilum skrokkum. Bændurnir sem framleiða þetta kjöt fá í sinn hlut tæpan helming þessarar upphæðar. Þeir eru íslenskir og það eru Bændasamtök Íslands sem gæta hagsmuna þeirra.

Bændur í nágrannalöndum okkar fá nærri því það sama fyrir sinn snúð og það sem verslunarkeðjan býður kjötið á til viðskiptavina sinna, eða um 800,- kr. fyrir hvert kíló.

Enda er viðurkennt af flestum að lambakjöt sé þeirrar gerðar að ekki sé forsvaranlegt að verðleggja það sem einhverja ómerkilega ruslfæðu. Hvort fullyrðingin um að gæði hins íslenska kjöts séu slík að það standi öllu öðru kjöti af sauðkindum í heiminum framar skal hins vegar látið liggja á milli hluta.

Bændur fá ýmsar sporslur frá hinu opinbera til að brúa það bil sem er á milli þess sem þeir fá greitt fyrir innlegg sitt og þess sem þeir raunverulega þurfa til að endar nái saman, en eins og sýnt hefur verið fram á vantar talsvert upp á að sá stuðningur dugi. Þeir ná sem sagt ekki boðlegum launum út úr rekstrinum og eins og einn þeirra orðaði það við undirritaðan: geta hvorki lifað né dáið, því lítið fæst fyrir jarðirnar sé reynt að selja þær og í sumum tilfellum er tæpt á að ná fyrir skuldunum sem á þeim hvíla.

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá að nefna hve mikið ógæfuspor það var að ,,selja” Lánasjóð landbúnaðarins, sjóð sem rekinn var á allt öðrum og að mörgu leiti heilbrigðari grunni en flest sú peningastarfsemi sem stunduð er í dag. Félagslegum grunni, sem hentaði fremur illa í því frjálshyggjuæði sem hér ríkti um tíma og átti að lokum sinn þátt í að svo fór sem fór.

Markaðurinn

Íslenskur markaður er lítill, u.þ.b. ámóta og bærinn Århus í Danmörku. Bændur sem aðrir eru að reyna að lifa á því að framleiða og selja vörur á þessum markaði, en það er vitanlega augljóst að smæðin setur því skorður hve hagkvæm framleiðslan verður. Sauðfjárbændur hafa reynt þá leið að selja hluta af framleiðslu sinni úr landi, en eins og sýnt hefur verið fram á, skilar sú sala ekki því verði sem þarf til að framleiðslan standi undir sér.

Ekki er það sauðfjárræktin ein sem á í vanda á þessum örmarkaði og ýmislegt hefur orðið til þess að gera stöðu búgreinanna enn erfiðari en þurft hefði. Er það ef til vill aðeins  hrossaræktin sem stendur undir sér? Grein sem byggir að stórum hluta á útflutningi og væri sjálfsagt ekki í góðum málum ef eingöngu væri stólað á innanlandsmarkað.

Alifugla og svínarækt hefur á undanförnum árum lent í margvíslegum hremmingum, enda eru þær búgreinar þess eðlis, að fremur auðvelt er að auka framleiðsluna skyndilega og hefur það oft verið gert á undanförnum árum og þá langt umfram þarfir. Oftar en ekki hafa þær kjötbólur verið að undirlagi bankanna, sem bitur reynsla er fyrir að hafa alls ekki haft burði til að byggja ákvarðanir sínar á vitrænum grunni, en talið það að líkindum ,,tæra snilld” að efna til offramleiðslu.

Svínarækt- og alifugla

Undirritaður hefur afar takmarkaða þekkingu á svínaræktinni, en hefur ekki komist hjá því að taka eftir hvernig hún hefur þróast í æ stærri einingar sem fátt bendir til að henti íslenskum aðstæðum. Hvort þar er á ferðinni undirbúningur að framleiðslu til útflutnings í framtíðinni, t.d. eftir inngöngu í ESB er hugsanlegt - og er þá vottur um nýstárlega og nánast óþekkta framtíðarsýn í rekstri landbúnaðar á Íslandi.

Alifuglaræktin er ekki vonarljós í landbúnaðarflórunni, sé miðað við þá stöðu sem hún er í. Ásamt svínaræktinni býr hún við frekar litla innflutningsvernd, en hins vegar eru gerðar til hennar gríðarlegar kröfur um vörugæði m.v. það sem víðast annars staðar gerist. Grunnurinn undir þessari búgrein stendur vægast sagt tæpt og algjörlega vonlaust að grein sem byggir á fóðri sem er 50% dýrara en það sem gerist í nágrannalöndunum og daggömlum ungum til eldis sem eru tvöfalt og í sumum tilfellum þrefalt dýrari en þar gerist, geti staðist erlenda samkeppni.

Framtíðin

Þarf þetta að vera svona? Vitanlega ekki. Ýmislegt er hægt að gera en í þessum pistli verður ekki farið út í smáatriðin hvað það varðar, en margt bendir til, að hugsanlegt væri að efla a.m.k. sumar búgreinarnar á þann veg að þær þyrftu ekki að stóla á styrki, innflutningsvernd og höft. Ísland hefur nefnilega þá sérstöðu að vera til þess að gera einangrað frá umheiminum og með náttúrulega fjarlægðarvörn gegn smitsjúkdómum og það er einmitt þar sem möguleikarnir liggja m.a. Vel má hugsa sér að á Íslandi yrði stunduð framleiðsla á búvörum til útflutnings, til þjóða sem glíma við þéttbýlisvandavanda sem við erum laus við, en til að það sé hægt, þarf að raða spilunum upp að nýju og m.a. taka til í ýmsu því reglugerðarfargani sem séríslenskt er, en halda í það sem gott er og nauðsynlegt.

Vonandi bera bændaforystan og stjórnvöld gæfu til að hugsa málin upp á nýtt, út á við og einnig inn á við, þjóðinni til hagsbóta í komandi framtíð.     

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 24. ágúst 2011. 

Allmikil umræða hefur að undanförnu farið fram um málefni landbúnaðarins. Umfjöllun Þórólfs Mattíassonar prófessors, um landbúnaðarkerfið, sem fram kom eftir að sauðfjárbændur lögðu til að viðmiðunarverð á lambakjöti yrði hækkað um 25% hefur átt sinn þátt í því. Verð á lambakjöti kemur ekki allt fram við búðarborðið og ekki liggur fyrir hve mikið það þyrfti að hækka til að þokkalega lífvænlegt yrði að stunda framleiðsluna, en örugglega umtalsvert meira en það sem sauðfjárbændur lögðu til. Sauðkindin er ekki afurðamikil skepna og því verður lambakjötsverð að vera hátt, enda varan eftirsótt og af flestum talin hátíðar- og hágæðafæða.

 

Styrkir og lausaganga

Styrkjakerfi landbúnaðarins, einkum það sem að sauðfjárræktinni snýr, hefur  verið gagnrýnt og er það eðlilegt, þar sem tæplega er það svo, að búið sé að finna hina fullkomnu lausn í því efni og ef til vill er sá tími liðinn að þjóðin sætti sig við að framleiðslu á matvörum sé haldið uppi með styrkjum, höftum og millifærslum. Gildir þá einu hvort um er að ræða beingreiðslur, gæðastýringarálag, innflutningstolla eða framlög einstaklinga og hins opinbera til girðingaframkvæmda.

 

Svo sem kunnugt er, gengur sauðfé á Íslandi laust og óheft um þær lendur sem því sýnist í langflestum tilfellum og eigendur sauðfjár virðast enga ábyrgð bera á því tjóni sem fénaður þeirra veldur öðrum. Fjárheldar girðingar kosta mikla fjármuni, svo augljóst er að þar liggur mikið ómetið framlag til búgreinarinnar. Framlag sem kemur frá hinu opinbera en einnig þeim sem eru að reyna að verja eigur sínar og ræktun fyrir ágangi sauðkinda, sem enginn virðist bera ábyrgð á.  Framlagið til gæðastýringar, sem talið var upp hér að framan, er svo eitt ómerkilegasta fyrirbrigðið í þessum styrkjaskógi, því upplýst er (m.a. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins) að það hefur lítið sem ekkert með gæðastýringu að gera.

 

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið um styrki og framlög af ýmsu tagi, þá er flestum ljóst að sauðfjárbændur eru ekki að flá feitan gölt og ekki ólíklegt að þeir séu einna verst settir allra bænda hvað tekjur af starfsemi þeirra varðar. Því hlýtur að vera ljóst að finna verður ný úrræði. Finna nýjar leiðir til að tryggja þeim sem sauðfjárrækt stunda þokkalega afkomu og ekki síður góða sátt við samfélagið. Aðferð Bændasamtakanna að telja sér og reyna að telja öðrum trú um, að hér og nú, sé lifað í besta og fullkomnasta heimi allra heima gengur vitanlega ekki.

 

Hagfræði

Í Bændablaðinu sem út kom þann 7. júlí 2011 má lesa - í leiðara - eftirfarandi: ,,Innfluttur matur hefur hækkað um 62% en innlend búvara hækkaði ekki nema um 20%”. Og síðar: ,,..tollvernd [þ.e. ísl. kjötframleiðslu] verndar kaupmátt fólks…” (!). Séu þessar tölur réttar, sem settar eru fram af HB (Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtakanna?), þá sýna þær ljóslega hve illa hefur til tekist að tryggja stöðu bænda í því ölduróti sem gengið hefur yfir íslenskt samfélag undanfarin ár. Hvernig tollverndin virkar á þennan hátt, er hins vegar algjörlega óupplýst. Spennandi verður að fá þær útskýringar sem til þarf til að skilja megi kenninguna, sem samkvæmt þessu, hefur tryggt neytendum ódýrar landbúnaðarvörur, meðan bændur sitja eftir með sárt ennið, horfandi á eignir sínar rýrna og tekjur lækka.

 

Bændur eru neytendur jafnt og aðrir þegnar þessa land.  Því er algjörlega óumflýjanlegt að útskýrt verði hvernig tollun af þessu tagi tryggir hag neytenda. Ef rétt reynist, þá er sjálfgefið að taka verður upp harða tollastefnu á sem flestum sviðum, sérstaklega þegar framleidd er íslensk vara sambærileg þeirri sem tolluð er!

 

ESB fælnin

Ekki er furða þó bændaforystan berji sér á brjóst og þykist hafa gott gert og neiti alfarið að horfast í augu við að komið sé að því að stokka þurfi kerfið upp. Bændur hafa, svo dæmi sé tekið, horft á forystuna ausa fjármunum í pólitísk öfgasamtök eins og ,,Heimsýn” svo ekki sé nú minnst á nýlega bókaútgáfu um ESB,  meðan raunverulegir hagsmunir stéttarinnar eru látnir sitja á hakanum.

 

Ísland hefur sótt um inngöngu í Evrópusambandið og hafnar eru samningaviðræður þar um. Hvort af inngöngu verður eða ekki, ræðst fyrst og fremst af því hvort viðunandi samningur við sambandið næst. Bændasamtökin hafa hafnað þátttöku í því ferli og þar feta þar í spor Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra.

 

Eitt er að stjórnmálamaður leyfi sér að hafa trú, sem gengur framar þjóðarhagsmunum, en að Bændasamtökin geri slíkt er með öllu ólýðandi, þeim ber að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, hvort sem af inngöngu í Evrópusambandið verður eða ekki.