Tillaga að lausn

4. ágúst 2010

  Mikill og kröftugur hvellur hefur orðið að undanförnu vegna ráðningar á Umboðsmanni skuldara. Auglýst var eftir umsækjendum, tveir voru metnir hæfir og annar þeirra ráðinn.

Það sem hins vegar hafði farið framhjá þeim sem um ráðninguna sáu var, að auk annarra kosta, þá hafði sá hæfasti einn kost sem ótalinn var, s.s. að hann var einnig sérfræðingur í því sem kalla mætti skuldahvarf.

  Ekki ónýtur eiginleiki fyrir þann sem ætlar að taka það að sér að semja um skuldahvörf við peningastofnanir fyrir umbjóðendur hins nýja embættis. En ekki er allt sem sýnist. Þannig er, að á tímum hinnar nýju siðbótar í íslensku samfélagi, þá er ekki pláss fyrir hvað sem er og skuldahvarf er einmitt eitt af því sem ekki má, a.m.k. ef hvarfið fer fram úr öllu hófi. Vegna þessa varð niðurstaða málsins að hafna þeim aðila sem býr yfir umræddri reynslu og reyna að finna einhvern til starfans sem ekki hefur kunnáttu í skuldahvarfagaldri.

 

Af þessu öllu hefur spunnist mikil umræða og eins og staðan er á þessari stundu þá er ekki annað að sjá en auglýst verði að nýju eftir hinum títtnefnda Umboðsmanni, því sá sem hæfastur var talinn er farinn og sú sem næsthæfust var talin vera, er að því eð virðist farin í fýlu og þar sem aðrir umsækjendur voru ekki taldir hæfir, hlýtur að þurfa að finna einhverja nýja til starfans. 

Blaðurfulltrúi VG, Björn Valur Gíslason, fer mikinn í yfirlýsingum og telur ráðninguna hafa verið pólitíska og af gamla tímanum. Nokkuð athyglisverð yfirlýsing frá VG þingmanni og vissulega verð allrar skoðunar og kannski rétt í leiðinni að skoða sitthvað fleira. 

Skemmst er að minnast frekar sérkennilegs tölvupósts sem lak út frá aðstoðarmanni menntamálaráðherrans, en í póstinum kom fram að manninum var ákveðinn líkamspartur kvenna svo ofarlega í huga að hann gat ekki um annað hugsað er hann var í raun að fjalla um Magma málið. Líklega vill þingmaðurinn að menn séu nútímalegir og ef til vill er þankagangur af þessu tagi bara í takt við tímann og við hin sem ekki kunnum að meta orðbragðið bara gamaldags. Þær eru líkast til safaríkar umræðurnar á fundum hinna Vinstri grænu ef talsmátinn er í takt við þetta og gott ef hormónastarfssemi flugunnar á veggnum á fundum þeirra fer ekki úr skorðum, svo ekki sé nú talað um hina náttúrulegu og frjóu Vinstri grænu fundarmenn. 

Tillaga að lausn í málinu gæti verið þessi: Björn Valur verði ráðinn umboðsmaður, en þar sem ekki er vitað til að hann sé sérfræðingur í skuldahvarfi, þá verði honum útvegaður aðstoðarmaður sem sitthvað kann fyrir sér í þeim efnum, fyrrverandi Borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra, Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri, svo fátt eitt sé talið. Björn gæti tekið að sér að vera blaðurfulltrúi embættisins á meðan Davíð Oddson tæki að sér skuldahvörfin og þá ættu báðir að geta fundið sig í hlutverkunum. 

Davíð er eins og alþjóð veit bæði röskur og fylginn sér, lögfræðingur að mennt (eins og hann hefur margbent á) og sannkallaður reynslubolti í því að vinna menn á sitt band ef á þarf að halda. Minnast má peningaúttektarinnar úr Kaupþingi forðum, einkavinavæðingu bankanna og snöfurmannlegrar stjórnar á Seðlabankanum þar sem honum tókst með undraverðum hætti að láta peninga hverfa. Því þá ekki skuldir líka? 

Einn er sá kostur við þessa lausn sem ótalinn er og það er að báðir mennirnir eru á launum frá hinu opinbera þannig að kostnaður ætti að verða lítill sem enginn. Annar kostur er að báðir færu við þetta að vinna þjóð sinni gagn í stað ógagns. Björn Valur gæti hugsanlega farið út með ruslið í stað þess að vera sífellt að gaspra um ekki neitt á alþingi. Davíð yrði hins vegar í skuldahvarfinu, þaulvanur maðurinn og allir gætu unað glaðir við sitt, nema náttúrulega kvótagreifarnir sem stæðu frammi fyrir því að þurfa að finna nýjan ritstjóra.  

Það er þó alls ekki víst, því allt eins má gera ráð fyrir að Davíð gæti skrifað Staksteina og leiðara í hjáverkum milli þess sem hann slægi óþæga bankastjóra í  kollinn með reglustikunni.

Vinstri græna hnotan

28. júlí 2010

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um svokallað Magma mál. Málið snýst um það hvort kanadískum manni með bjartsýnisblindu á íslenskt hagkerfi sé heimilt að kaupa meirihluta í HS Orku á Suðurnesjum af kröfuhöfum banka, sem, er á reyndi, var ekkert annað en froða, enda stóð hann á grunni hins íslenska hagkerfis. Kerfis sem afar fáir vilja setja traust sitt á, nema vera annað hvort Vinstri grænir og/eða kvótagreifar til lands eða sjávar á Íslandi.

 

Að þessu sögðu verður að taka það fram að svo virðist að forstjóri Magma og félagar, hafi peningavit. Þeir munu hafa haft rænu á að kaupa svokallaðar aflandskrónur fyrir lítið í útlöndum og ætla síðan að nota þær til að greiða fyrir Geysi-græna góssið sem ævintýramenn úr íslenskri pólitík voru fyrir nokkrum árum búnir að einkavinavæða. Þetta hljómar ekki vel fyrir Vinstri græna, né aðra þá sem haldnir eru útlendingafælni og því eru taugar þeirra þandar. 

Að til skuli vera menn, búsettir í Kanada, sem hafi trú á að hægt sé að reka fyrirtæki á Íslandi, það þykir þeim ekki gott. Þau vilja nefnilega ríkisvæðingu á sem flestum sviðum og ef það er ekki hægt, t.d. vegna þess að ríkissjóður Íslands á ekki íslenska eðalkrónu, hvorki með gati né heila, þá finnst þeim bara alveg upplagt og sjálfsagt að ráðstafa fjármunum lífeyrissjóðanna til að klekkja á hinu kanadíska bjartsýnissvíni sem þau telja vera að ryðjast inn í hið heilaga íslenska samfélag. Bjartsýni hins kanadíska hefur sem sé smitað svo út frá sér að Steingrímur J.  telur fjármagni lífeyrissjóðanna best borgið í áhætturekstri á borð við HS Orku! 

Fólkið sem vill hafa allt sitt á þurru og ekkert gera, helst aldrei, hefur sem sagt fundið það út af visku sinni, að peningum annarra sé best borgið með því að spila með þá. Þarna sést inn að beini í Vinstri grænum. Fólkið sem vill hafa helst allt á vegum ríkisins, telur sjálfsagt að ,,hinir” borgi brúsann af  ríkisvæðingarhugmyndum þeirra. 

HS Orka, er sem stendur í eigu útlendinga, þó ekki sé almennt vitað nákvæmlega hverjir þeir eru og það er útlendingur sem er að reyna að kaupa fyrirtækið. Verði honum meinað um kaupin verður félagið bara áfram í erlendri eigu, hugmyndir um eitthvað annað eru bara vinstri grænir draumórar. Stjórnendur Magma hafa sýnt það viðskiptavit að kaupa íslenskar krónur fyrir lítið til að nota til kaupa á fyrirtækinu HS orku. Það sýnir að mennirnir hafa peningavit, nokkuð sem sárlega skortir í íslensku viðskiptalífi. 

Að Vinstri grænir skuli hafa allt á hornum sér varðandi kaup Magma á HS Orku, ætti eitt og sér að vekja fólk til umhugsunar um hvort ekki sé verið að gera eitthvað rétt varðandi fyrirtækið. Þegar Atli, Guðfríður, Ásmundur, Ögmundur og félagar hafa allt á hornum sér varðandi eitthvert mál, þá er allt eins líklegt að menn séu á réttri leið. 

Að stinga rannsóknarsnuði upp í hina vinstri grænu órólegu deild er bara gott og klókt, ekki er nema gott eitt um það að segja að flett verði ofan af því hvernig þessi hringekja fór af stað. Þau einu sem geta verið á móti slíkri rannsókn eru þau sem voru í ríkisstjórn þegar einkavæðingin hófst. Hér er nefnilega á ferðinni enn eitt dæmið um einkavinavæðingu þá sem stunduð var í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.  

Sjónvarp allra landsmanna brá á það ráð að hafa eingöngu listamenn í Kastljósinu miðvikudagskvöldið 28. júlí og var það einkar vel til fundið. Kvöldið áður hafði þjóðin nefnilega horft og hlustað á fjármálaráðherrann í sama þætti og ekki átt gott með að greina hvort þar fór Steingrímur J. Sigfússon, Georg Bjarnfreðarson eða bara hinn gamli og góði kunningi Ragnar Reykás.  

Hnotan sem Jóhanna varpaði í fang órólegu deildarinnar fór í flækju sem vonlegt var, það hefur aldrei gefist vel að hleypa köttum í hnotur; allt fer í flækju og enginn botnar neitt í neinu. Gerir kannski ekki svo mikið til þegar alvöru kisur eiga í hlut, en verður dálítið snúnara þegar þykjustunni kisur af vinstri grænu gerðinni eru gerendurnir.

Í hinu ríkisstyrkta ,,Bændablaði” sem kom út fimmtudaginn 8. júlí er heil blaðsíða lögð undir viðtal við Bjarna Benidiktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið er vitanlega í tilefni af því að Sjálfstæðisflokkurinn hélt Landsfund þar sem m.a. var samþykkt tillaga um að aðildarumsóknin að ESB yrði dregin til baka. Tillaga sem er svo barnaleg að ekki hefði hún komið á óvart ef að hefði staðið svokölluð ,,Hreyfing”.

  Hreyfingin er sem kunnugt er afsprengi Borgarahreyfingarinnar, þeirrar sem bauð fram í síðustu alþingiskosningum, fékk fjóra fulltrúa á þing, en var ekki fyrr komin þar inn að hún klofnaði í tvennt, einn hélt áfram að vera ,,borgari”, en hinir þrír sem eftir voru ákváðu, að því eð virðist, að vera á hreyfingu og þangað sækja þau víst nafnið.

  Bjarni stillir sér upp til myndatöku með krosslagðar hendur á brjósti sem, af sumum er talið vera til merkis um að búið sé að loka fyrir nýja strauma og það verður að segjast, að eftir lestur viðtalsins læðist að manni grunur um að það sé tilfellið. Þvergirðingsleg sjónarmið eru allsráðandi og vitanlega er það skýringin á, að einmitt þetta blað hampar hinum endurkosna formanni svo mjög.

  Flestum er ljóst að samþykktin hefur málað Sjálfstæðisflokkinn út í horn í málinu og að ástæða þess að hún var gerð er að á þinginu var samankomin hópur þeirra sem verja vilja hið gamla kvótagreifakerfi. Þeir hinir sömu og standa að Bændablaðinu og þar liggur skýringin á hinni takmarkalausu hrifningu blaðsins á Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Vinstri grænir hafa fram að þessu notið þess vafasama heiðurs að vera í uppáhaldi blaðsins, en nú er það breytt og hrifningin nær orðið til Sjálfstæðisflokksins líka.

  Líkt og barn sem óttast um að nammidagurinn verði ekki virtur, spyr blaðamaður hvort ekki sé nú alveg öruggt að ekki verði hvikað frá samþykktinni um að draga umsóknina til baka, ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Bjarni svarar skýrmæltur að vanda: ,,Jú, við myndum setja það mál í forgang.[…]…teljum við að þetta sé röng forgangaröðun”. Formaðurinn ætlar sem sagt að draga umsóknina til baka, en á greinilega dálítið erfitt með að segja það skýrt og greinilega vitandi að ef hann stæði frammi fyrir því að þurfa að taka ábyrga afstöðu sem ráðherra, þá er málið ekki svona einfalt, en gott að gaspra meðan engin ábyrgðin!

  Bændablaðið er orðið að viðhengi Morgunblaðsins og eflaust skýrir það aðdáun blaðsins á Sjálfstæðisflokknum að hluta. Helsta ástæðan er þó eflaust sú að hagsmunir kvótagreifablaðanna tveggja falla saman. Bæði blöðin eru að gæta hagsmuna forréttindaaðalsins á Íslandi, en alls ekki hagsmuna þjóðarinnar. Það er flestum ljóst að landbúnaður og sjávarútvegur taka ekki við vinnuafli framtíðarinnar nema að litlu leyti, það skiptir hins vegar hagsmunaklíkurnar engu máli. Það eru hagsmunir kvótagreifanna bæði til sjávar og sveita sem eru aðalatriði í málflutningi blaðanna beggja.

  Þeim sem finnst gaman og gott að borga verðtryggða og himinháa vexti, búa við ónýtan gjaldmiðil sem enginn tekur mark á og greiða fyrir aðföng til rekstrar á margföldu verði miðað við nágrannalöndin – berjast fyrir óbreyttu ástandi. Þau sem vilja reyna að breyta þessu og fleiru, styðja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, en ef ekki, þá að benda á eitthvað annað, því það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að það ástand sem ríkt hefur, ekki bara frá Hruninu, er nýjum kynslóðum ekki bjóðandi.

  Börnin okkar eiga annað og betra skilið en samfélag kolkrabba, smokkfisks, kvótagreifa og spilltra viðskiptamanna, að ógleymdum stjórnmálamönnum sem telja sitt æðsta hlutverk vera að gæta hagsmuna peningaaflanna. Aflanna sem steyptu þjóðinni fram af hengifluginu og eru þess algjörlega vanbúin að gera nokkuð til að mýkja lendinguna – gera ekkert annað en gaspra og stunda lýðskrum.

  Í Sunnlenska fréttablaðinu því sem út kom í síðustu viku er lítill greinarstúfur eftir þingmanninn Unni Brá Konráðsdóttur. Vonandi er að sem flestir hafi haft tækifæri til að lesa ritsmíðina, þó ekki sé nema vegna þess hve einlæg og opinská hún er.

  Í umræðunni að undanförnu hefur oftar en ekki komið fram að óskað er eftir ,,gegnsæi” og að helst allt sé uppi á borðinu. Flestir hafa eflaust talið að átt væri við í stjórnsýslunni, en nú er ljóst að til er a.m.k. einn þingmaður sem lítur svo á að rétt sé að opinberaðar séu bæði leyndustu hugsanir og þrár.

  Í pistlinum upplýsir Unnur hvers vegna hún hafi gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það sé vegna þess hve ,,karakter” flokksins sé góður og það er hinn margnefndi ,,karakter” sem ,,heillaði” og vegna hans er hún gengin til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

  Ekki kemur fram hjá Unni hvaða ,,karaktereinkenni” það eru hjá flokknum sem hrifu hana svo mjög á sínum tíma. Var það til að mynda afstaða hans til yfirgangs Bandaríkjanna er þau fóru eldi og eimyrju yfir fátækt Asíuríki? Var hún svona hrifin af stuðningi flokksins við innrásina í Írak, hermanginu, eða bara stjórn flokksins á efnahagsmálum þjóðarinnar? Stjórnsnillinni sem leiddi af sér hrunið svo sem alkunnugt er.

  Að sögn Unnar felst hinn einstaki ,,karakter” Sjálfstæðisflokksins í því að hann er ,,traustsins verður”, en ekki er víst að allir deili þeirri skoðun með henni. Ástæða er til að setja spurningarmerki við hve traustur flokkurinn sé nú um stundir. Formaðurinn nýtur ekki nema rétt rúmlega 60% fylgis á landsfundinum, fundi sem kallaður var saman til að kjósa nýjan varaformann, en eigi að síður þótti rétt að kjósa til öryggis um formanninn líka, svona eins og til að fá úr því skorið hvort flokksmenn mundu vefja sig um hann allir sem einn. Það gerðu sem sagt ekki nema sex af hverjum tíu.

 Unnur er afar hrifin af að flokksfundurinn skyldi álykta um að aðildarumsókn að ESB skyldi dregin til baka. Sem vonlegt er þá telur hún greinilega að slík samþykkt sé mikið afrek og verður að segja það eins og það er, að þar hefur hún rétt fyrir sér. Hafi markmið fundarins verið það helst að kynna flokkinn sem afturhaldsaman og þröngsýnan þjóðrembuflokk, þá tókst það vissulega mjög vel. Þjóðinni má nú ljóst vera að í Sjálfstæðisflokkinn verður ekki leitað eftir víðsýni, framsýni, né viðleitni til að leita eftir nýjum hugmyndum.

  Það er miður, að staðan í stjórnmálum þjóðarinnar skuli vera sú sem hún er. Er ekki nóg fyrir íslenska þjóð að sitja uppi með afturhaldsflokkinn Vinstri græn í ríkisstjórn, þó ekki bætist við annar enn verri afturhaldsflokkur í stjórnarandstöðu?

  Unnur Brá játar trú sína á sjálfstæði Íslands og telur að það verði best tryggt með yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar. Hún segir hins vegar ekkert um hverjir eiga að fara með þessi yfirráð. Á landsfundinum alræmda voru hins vegar mættir fulltrúar kvótagreifa til lands og sjávar og hin makalausa samþykkt ber þess merki og því hlýtur að mega draga þá ályktun að þannig vilji Unnur hafa það: Auðlindirnar í höndum handvalinna einkavina.

  Þingmaðurinn lýsir hrifningu sinni á ,,karakter” Sjálfstæðisflokksins og trú á ,,sjálfstæði Íslands”. Hvernig það fer saman er hins vegar óupplýst og vægast sagt vandséð.

Enn um lánamál

25. júní 2010

Þann 23. júní skrifaði undirritaður hugleiðingar vegna dóms hæstaréttar varðandi svokölluð gengistryggð lán. Pistillinn var ritaður í hálfgerðum galsa, en nú skal reynt að bæta um og bæta nokkru við.

 

Á þeim tíma sem liðið hefur frá því pistillinn ,,Lán í óláni” var ritaður hefur ýmislegt verið að ljóstrast upp sem ritari vissi ekki  um áður. Nú liggur t.d. ljóst fyrir, að það var ekki bara Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra sem vissi allan tíman að lánin voru ólögleg. Alls ekki. Það vissu líka þingmennirnir sem enn sitja á þingi og greiddu á sínum tíma atkvæði með setningu laganna þann 19. maí 2001 þeir: Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Pétur Blöndal. Það vissu líka margir burt flognir þingmenn s.s. Davíð Oddson, Halldór Ásgrímsson og Kristinn H. Gunnarsson.

 

Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson skuli vera á þessum lista yfir menn sem vissu, en þögðu þunnu hljóði og furðuleg grein hans í ,,Fréttablaðinu” á dögunum þar sem hann leggur til að dómurinn verði að engu hafður hlýtur að skoðast í því ljósi, að þar tjáði sig maður sem vissi meira en hann lét uppi.

 

Er hinn almenni neytandi fer í verslun til innkaupa, hvort sem verslunin er greiðasalan á horninu, viðskiptabanki hans eða allt þar á milli, þá gerir hann ráð fyrir að verið sé að höndla með löglega vöru. Því er það, að þau sem ginntust til að taka gengistryggðu lánin og í langflestum tilfellum eru ekki lögfrótt fólk, reiknuðu vitanlega með því að um væri að ræða löglega gjörninga. Flestir hafa eflaust hugsað sem svo, að gera mætti ráð fyrir að krónan gæti hugsanlega sveiflast ca. 10% eða svo til eða frá, en það er algjör ofætlan venjulegu fólki að reikna með því að krónugarmurinn allt að því hyrfi, sem hún hefði líkast til gert ef ekki hefði verið gripið inn í.

 

Ábyrgð þeirra sem að lagasetningunni stóðu er mikil, en mest er hún þeirra sem allan tímann vissu, að á hverjum einasta degi var verið að gera ólöglega og stórvarasama lánasamninga, en sátu hjá og þögðu. Þeir þrír sem hér voru áður nefndir eiga vitanlega ekki nema einn kost í stöðunni, þ.e. segja af sér þingmennsku og hafna öllum eftirlaunum frá þjóð sinni. Hinir 33 fyrrverandi þingmenn, ráðherrar og seðlabankastjórar verða vitanlega einnig að víkja úr núverandi embættum, ef einhver eru og afsala sér eftirlaunum. Ekki er hægt að ætlast til að þjóð sem enn á ný stendur frammi fyrir því að þurfa að endurfjármagna bankakerfi sitt geti sætt sig við neitt annað.

 

Hinir, þ.e. þeir sem stýrðu lánastofnununum af blindri græðgi og einskis svifust, brutu lög og vissu að þeir voru að gera það, koma ekki til með að eiga sjö dagana sæla. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að allir sem ábyrgð bera á hinum ólöglegu lánum verði látnir fara þegar í stað og í þeirra stað fengið til starfa fólk sem ekki hefur stundað brotastarfsemi svo vitað sé.

 

Þau sem vissu en þögðu og ekkert sögðu, voru á þingi þegar umrædd lög voru samþykkt, en sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, þurfa að skoða hug sinn vel. Hvers vegna sátu þau hjá? Það veit ritari ekki, en gott væri að fá það upplýst.

 

Það er að koma æ skýrar í ljós að reikningurinn sem þjóðin þarf að borga eftir stjórnarár Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verður stór. Afar stór. Einungis vextirnir af lánunum sem virkjuð voru á dögunum frá Norðurlöndunum og Póllandi er 12 milljónir á dag. Viðskilnaður flokkanna tveggja á sér engin dæmi í Íslandssögunni og verður vonandi lengi í minnum hafður.

Lán í óláni

23. júní 2010

Hvenær tekur maður lán og hvenær tekur maður ólán? Að taka íslenskt verðtryggt lán er ólán vegna verðtryggingarinnar, að taka óverðtryggt íslenskt lán er líka ólán vegna okurvaxta sem koma í stað verðtryggingar og að taka erlent lán, sem er raunverulega erlent, er líka ólán ef maður er íslendingur með tekjur í furðumyntinni ísl. krónur.

 

Líf hins skuldþyrsta íslendings er sem sagt fremur flókið, eða réttara sagt var það, þangað til hæstaréttardómurinn féll á dögunum og nú liggur það fyrir að ef maður er svo lánsamur að geta fundið einhvern lánfúsan og sem er nógu illa að sér í lögum, þá getur allt farið vel. Ólán verða að láni, svo er hinum vísu dómurum fyrir að þakka sem sáu villuna í lánasamningunum níu árum eftir að farið var að lána ólánin, sem nú virðast vera að breytast í lán fyrir lántaka, en að sama skapi martröð fyrir lánveitendur. Sannast þar hið fornkveðna að sá hlær best sem síðast hlær. Íslenskt peningakerfi er svo vitlaust, vanþróað og glært að ekki er til annars en hlæja að.

 

Stórasta land í heimi er þá bara það fáránlegasta þegar betur er að gáð, hafandi haft viðskiptaráðherra til margra ára sem fátt vissi kannski um viðskiptamál, en vissi þó að ekki mætti lána ólán sem tryggð væru í erlendri mynt og gætti þess vandlega að segja engum frá. Vafalaust rétt af Valgerði að þegja þunnu hljóði yfir vitneskjunni, því eflaust hefði enginn trúað framsóknarkonunni ef hún hefði opinberað sannleikann. Reynslan af stjórnsnilli framsóknarmanna enda slík, að fæstum hefði komið til hugar að taka mark á, ef varúðarorð hefðu komið úr þeirri áttinni - framsóknarmönnum fer víst flest annað betur en skynsamleg hagstjórn.

 

Deilt er um hver skuli borga. Lánveitendur vilja fá sitt og benda á Ríkið, sem eins og allir vita nema Vinstri grænir, er blankt. Gamall þingmaður og kunnur flokkaflakkari bendir á lánþegana og finnst þeir réttir til að borga, en þeir eru líka blankir og þar að auki nýbúnir að vinna málið fyrir hæstarétti. Það virðist hafa farið framhjá Kristni, enda ekki alltaf ljóst hvert hann er að fara í málflutningi sínum og er vorkunn þó hann ruglist dálítið í málinu, því hver gerir það ekki. Hundruð hámenntaðra lögfræðinga hefur í áranna rás legið yfir lánasamningunum sem til umræðu ertu og ekkert séð athugavert.

 

Merkilegt hve glögg Valgerður hin norðlenska er, að hafa tekið strax eftir veilunni og líklega eins gott að hún gætti þess að segja engum frá, því þá hefði þjóðin ekki getað sukkað eins verklega og raun ber vitni. Framsóknarmenn hafa haft þá skoðun að lán skuli ekki greiða heldur velta þeim yfir á aðra með alkunnum millifærslum. Hins vegar hafa þeir verið þeirrar skoðunar að ólán væru allt annarrar gerðar og því væri rétt og skylt að ólántakendur greiddu þau og því var það að þeir fundu upp hina alræmdu verðtryggingu sem enginn skilur, ekki einu sinni framsóknarmenn, sem þó hafa einstaka hæfileika til að greina kjarnann frá hisminu. Þeir sjá oft einfalda lausn á flóknum vandamálum og er tuttugu prósenta síbyljan gott dæmi þar um.

Frá því er greint í nýjasta tölublaði ,,Bændablaðsins” að nú sé því dreift með ,,Morgunblaðinu” og er það við hæfi.  Blað Bændasamtakanna styður að mestu sömu sjónarmið og blað sjávarkvótagreifanna og er gefið út af Bændasamtökunum. Rekstur þeirra er kostaður af þjóðinni og þau gefa út blaðið sem sent er inn á flest þau heimili landsins sem í dreifbýli eru, að öðru leyti liggur blaðið víða frammi og er fríblað. Minna má á að í landbúnaði ríkir kvótakerfi sem í flestu er jafn fáránlegt og óréttlátt og það sem er í sjávarútvegnum, þannig að sjónarmiðin í Hádegismóum og við Hagatorg falla eflaust í flestu saman.

  Morgunblaðinu er haldið úti til að berjast fyrir hagsmunum kvótagreifanna í sjávarútvegi og Bændablaðið er málgagn kvótagreifanna í landbúnaði og því er ekkert eðlilegra en að blöðunum sé slegið saman í eitt. Hagsmunirnir eru þeir sömu, kostunaraðilarnir eru einnig að hluta þeir sömu (þ.e. almenningur), þannig að í raun væri bara eðlilegast að blöðin rynnu saman í eitt og gæti nafn hins nýja blaðs þá t.d. Morgunbændablaðið eða kannski væri betra Bændamorgunblaðið. Hér með er lagt til að einhver hagur maður finni gott nafn á ritið, en vegna þess að gera má ráð fyrir að höfuðstöðvar hins nýja blaðs verði í Hádegismóum - ekki er svo líflegt í Bændahöllinni eftir að ráðstefnan góða var blásin þar af um árið - þá má hugsa sér að leggja til eitt nafn enn s.s.: Móabændablaðið.

  Þeir sem hrífast af íslenskri þröngsýni eins og hún gerist verst, nú eða best, eftir því hvernig á það er litið, geta nú glaðst yfir að hafa eignast málgagn sem stendur undir nafni, þ.e. þegar búið verður að finna því nýtt nafn. Í Sovétríkjunum sálugu var gefið út blað, sem reyndar kemur enn út og kallaðist ,,Rödd sannleikans” þegar einhver, sem taldi sig vera góðan í rússneskunni, fjallaði um ritið á gömlu Gufunni fyrir margt löngu. Hvort sú þýðing á nafninu ,,Pravda” er rétt ætlar ritari ekki um að dæma, en hins vegar var það haft fyrir satt að blað þetta væri ekki neitt sérstaklega góður fulltrúi fyrir sannar og áreiðanlegar fréttir á þeim tíma þegar Bréfsnef og  aðrir slíkir fulltrúar manngæsku og góðra gilda réðu ríkjum austur þar.

  Gera verður ráð fyrir að hið nýja sambræðslublað kvótahirðarinnar íslensku verði engu síðra en hið rússneska á sínum tíma og því er ekki neitt nema gott um það að segja að blöðin tvö renni saman. Það er vitanlega þægilegt að ganga að hlutunum á einum stað. ,,Einhvers staðar verða vondir að vera”, var víst sagt í eina tíð og alltaf er gott að geta gengið að hlutunum vísum. Þeir sem hafa hingað til talið sér trú um að ,,Bændablaðið” væri faglegt og hlutlægt blað, sem fjallaði um málefni landbúnaðarins á málefnalegan hátt sjá nú í gegnum grímuna. Það stendur nakið og rúið trausti líkt og keisarinn forðum.

  Hitt blaðið, hið gamla Morgunblað, hefur engu að tapa. Það traust, sem blaðið hafði þrátt fyrir allt skapað sér, fór forgörðum þegar blaðið komst í hendur kvótagreifanna og víst er að traustið jókst ekki við hin alræmdu ritstjóraskipti. Til að endurreisa blaðið þurfti að afskrifa nokkra milljarða sem að mestu féllu á íslensku þjóðina. Hefði blaðið haldið áfram að þróast í átt til víðsýns fjölmiðils eins og það hafði gert í mörg ár, hefði hugsanlega verið þess virði að endurreisa það, en svo fór ekki og ekki er því að treysta að vegur blaðsins aukist við samruna við Bændablaðið.

Unni Brá: Brá.

9. júní 2010

  Gott er til þess að vita að á Alþingi skuli sitja þingmenn sem alltaf og ævinlega eru tilbúnir að taka upp hanskann fyrir íslenska þjóð og ekki spillir að viðkomandi sitji á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Unnur Brá Konráðsdóttir er ein af þeim sem stendur á verði og gætir þess að ekkert það sé gert hérlendis né erlendis sem hrukkað eða gatað getur huluna sem breidd er yfir raunveruleikann, nefnilega þann að nákvæmlega engu máli skiptir hvort rætt er um hugsanlega aðild Íslands að ESB 17. júní eða hvern þann annan dag sem mönnum dettur í hug. Það er hins vegar einkar athyglisvert að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli finna fyrir ónotum af slíkri umræðu, flokksins sem ekkert á skylt við umræddan dag nema nafnið eitt.

  Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega alltaf verið flokkur ósjálfstæðisins, daðursins og hermangsins, að ógleymdri hagsmunagæslunni. Flokkurinn sem flaðraði af þvílíkum dugnaði upp um heimsveldið  í vestri að sárafá dæmi eru um annað eins í heimssögunni. Þegar Bandaríkin voru að murka lífið úr saklausri bændaþjóð í Asíu á síðustu öld, þá þótti Sjálfstæðisflokknum það bara gott. Þegar sama heimsveldi ruddist inn í Dóminíkanska lýðveldið var það líka bara gott og þegar fasistar steyptu löglegri stjórn Chile af stóli, þá var það Sjálfstæðisflokknum hreinasta ánægjuefni. Nýjast er svo það að flokkurinn styður og hefur alla tíð stutt hið ofbeldisfulla leppríki Bandaríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs og ekki er vitað um eitt einasta fólskuverk sem yfirvöld þar hafa framið sem Sjálfstæðisflokknum hafi ekki þótt afsakanlegt.

  Þingmaður sem situr fyrir Sjálfstæðisflokkinn er sem sé viðkvæmur fyrir 17. júní! Í hvaða heimi lifir konan? Veit hún ekki í hvaða stjórnmálaflokki hún er? Ef svo illa er komið fyrir henni, verður að gera þá kröfu til formanns Flokksins að hann hnippi í viðkomandi þingmann og vísi honum veginn, því ekki er gott ef þingmenn hins eðla flokks fara að brölta eftir mjóa veginum. Eins víst að á þeim vegi finnist ekki styrkir og vafningar svo sem þurfa þykir og því væntanlega best að vera ekkert að álpast á slíkar slóðir.

Sólin skín björt og fögur dag eftir dag, Eyjafjallajökull heldur í sér og hitastig daganna er sem um miðjan júlí sé á góðu ári, en sólin skín ekki alls staðar. Hún skín ekki í hjörtum fulltrúa spillingarflokkanna á alþingi, þeim líður illa og það svo að einn helsti fulltrúi Morfís- blaðursins er farinn að tala um smjörklípu og finnst þá sumum að verið sé að snúa faðirvorinu upp á andskotann.

  Enginn þarf að vera hissa á að hinn dagvistaði fyrrverandi Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri málgagns kvótagreifanna, hafi áhuga á að fjalla um allt það sem að þeirri stofnun snýr, nema vitanlega gjaldþrotið sem snilli ritstjórans leiddi yfir bankann og þar með þjóðina. Hitt vekur meiri furðu að ,,önnum” kafnir alþingismenn, sem vel að merkja eru fulltrúar þeirra sömu afla og ritstjórinn þjónar, skuli hafa tíma til að gaspra um ekkert í tíma og ótíma.

  Bankastjórar sem ekki höfðu staðið sig voru látnir taka pokann sinn (ekki einu sinni sviptir svimandi háum eftirlaunum) og í staðinn var ráðinn maður sem getið hafði sér gott orð með störfum sínum erlendis. Maðurinn var ráðinn til starfans á mun lægri launum en hinir brott viknu höfðu haft hver um sig, þannig að allir sjá að hagræði af mannaskiptunum er talsvert. Ekki bara vegna þess að fjármunir til launa viðkomandi sparist þegar fram líða stundir, því einhvern tíma kemur að því að þeir losni af spena ríkissjóðs, heldur ekki síður vegna þess að gera má ráð fyrir að bankanum verði betur stjórnað hér eftir en hingað til.

  Glæpur forsætisráðherra á að vera sá að hún hafi hlutast til um að laun hins nýja seðlabankastjóra yrðu það sæmileg að hugsanlegt væri að hann fengist til starfans. Hefði hún gert það væri það ekki annað en gott og blessað, fyrst hin ringlaða þjóð vill endilega vera að montast við að reka sjálfstætt hagkerfi, sem reyndar er fullreynt að hún ræður ekkert við.

  ,,Hagkerfi” íslensku þjóðarinnar hefur ekki verið neitt annað en prívat hagkerfi spillingarflokkanna tveggja Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Því þarf ekki að koma neinum á óvart hve mikinn áhuga flokkarnir hafa á að halda óskapnaðinum við. Það kemur vitanlega ekki til af öðru en áhuga á að halda við hinu rotna kerfi spillingar og sérhagsmuna.

  Eyðimerkurganga Samfylkingar með hið ráðvillta og allt að því galna VG lið verður helst réttlætt með því að hugsanlega verði hægt að höggva örlítið í rætur spillingaraflanna, en vegna þess hve ráðvilltir græningjarnir eru og fljótir til að flaðra upp um spillinguna – sbr. Heimsýnardaðrið - , þá er ekki nokkur minnsta von til að hægt verði að uppræta allt það illgresi sem plantað hefur sér niður í íslensku samfélagi.

  Spillingaröflin sem fyrrverandi formaður flokksins sem kennir sig við sjálfstæði var búinn að koma auga á áður en lýðveldið var stofnað, áður en flokkarnir tveir voru farnir að helmingaskipta á milli sín hermangi og kvóta. Áður en þeir fundu upp á að ræna þjóðina öllum helstu stofnunum til þess að gefa þær flokksgæðingum.

  Ekki furða að styrkþegunum finnist þeir hafa efni á að gapa og reyna  að níða skóinn niður af heiðarlegu fólki sem er að reyna að uppræta óþverrann sem þeir sáðu.

Shangri-la

28. maí 2010

  Svandís, Lilja, Ögmundur, Atli, Ásmundur, Jón, Álfheiður, Steingrímur… Svandís er ráðherra, það er Álfheiður líka og svo vitanlega Steingrímur, en ekki er víst alveg öruggt að Jón verði ráðherra til lengdar, þó hann sé það í dag. Landbúnaðar- Jón og sjávarútvegs er ekki alveg öruggur með að fá að halda stöðu sinni í ríkisstjórninni og víst er að eftirsjá verður að honum fyrir þau sem gaman hafa af uppákomum allskonar. Jón hefur nefnilega haft alveg einstakt lag á að vekja á sér athygli, en hvort það hefur verið honum og málaflokkum þeim sem hann fer með til framdráttar er annað mál, en íslenska þjóðin hefur alltaf gaman af sérkennilegum einstaklingum og kann því vel að meta þá takta sem Jón hefur tamið sér. Jón brosir ævinlega í viðtölum, líkt og Skötuselurinn sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, segir oft eitthvað skondið og furðulegt og þjóðin skemmtir sér.

  Forveri hans, sá sem var á undan Einari vestfirðingi, hafði það fyrir sið að kyssa bæði kýr og strúta til að vekja athygli á hve yndislegar þessar skepnur eru; fékk að vísu í magann af kossaflensinu við þá síðarnefndu, en það jafnaði sig allt saman. Jón gæti allt eins tekið til við að gera eitthvað í þessu líkt og er þá alveg öruggt að engum mun leiðast sem á horfir. Hver gæti t.d. ekki hugsað sér að horfa á Jón í faðmlögum við sætan og krúttlegan hrút sem ekki er búið að súrsa, nú eða þá gölt sem ekki er orðinn að beikoni. Huggulegur geithafur með laglegt hökuskegg tæki sig líka ábyggilega vel út í víðum faðmi Jóns, en ekki er víst að við fáum nokkurn tíma að njóta þessa og það er miður.

  Nú mun vera komið að því að hagræða í Stjórnarráðinu og finnst mörgum að það megi ekki seinna vera. Til stendur að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt og því er það að styttast mun í ráðherratíð Jóns, þessa uppáhalds allrar þjóðarinnar, en Jón getur þó alltaf gengið í Besta flokkinn hjá nafna sínum og þar á hann heima. Ekki vegna þess að hann sé svo góður í að segja aulabrandara, því enginn kemst með hælana þar sem Jón besti hefur tærnar í því efni, heldur vegna þess að Jón græni gæti dempað nafna sinn niður með súru þegar Jón besti gengur of langt í glöðu (sem hann náttúrulega gerir aldrei).

  En ef Jón gengur í Besta flokkinn, eða það sem betra væri, stofnar Besta flokksdeild fyrir norðan, hvað verður þá um félaga hans? Ásmundur gæti náttúrulega stofnað Bestu flokksdeild í Dölunum og auðvitað er bara sjálfsagt og eðlilegt að Svandís stofni mannasiðadeild á vegum Besta flokksins í Reykjavík. Álfheiður gæfi svo öllu liðinu heilbrigðisvottorð (ekki áminningu), Lilju, Ögmundi og Atla, ekki mun af veita. Ekki er gott að segja hvað verður um Steingrím ef þetta gengur eftir, hann hefur jú eiginlega ekki gert annað en reyna að vera til friðs eftir að hafa klúðrað Icesave- inu, en hugsanlegt er að finna mætti honum hlutverk í Brussel.

__ __ __

 

  Fyrrverandi útvarpsmaður steig fram og kvað upp úr með að samflokkskona hans, sem ekkert hafði til sakar unnið annað en vera dugleg við að afla fjár til að standa straum af kosningabaráttu sinni, skyldi útlæg úr pólitíkinni vera og segja af sér. Þáttagerðarmaðurinn telur sér greinilega trú um að sviðið verði hreinna fyrir framabrölt hans í pólitíkinni þegar borgarstjórinn fyrrverandi er farinn úr þeirri sömu tík. Vonandi er ekki verið að kasta steinum úr glerhúsi, tíminn mun leiða það í ljós. Lausir ganga hins vegar á eftirlaunum, kreistum undan nöglum almennings í landinu, vitringarnir þrír sem höfðu það af með snilli sinni að setja Seðlabankann á hausinn. Enginn nefnir þá og greinilegt er að ekki á við þeim að hrófla.

   Það hefur stundum þótt skynsamlegt að velja sér andstæðinga við hæfi og ekki mun vera verra ef þeir finnast innan eigin raða.