Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag (9/12) 

Áhugasamt fólk um málefni landbúnaðarins hefur að undanförnu geta fylgst með undarlegri deilu sem komin er upp milli Bændasamtaka Íslands (BÍ), annars vegar og Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins hins vegar .

  Upphaf málsins má rekja til þess að ,,Fréttablaðið” átti á dögunum viðtal við formann samninganefndar þeirrar sem skipuð var til að koma fram fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart Evrópusambandinu í samningaferlinu sem hafið er vegna umsóknar Íslands. Í viðtalinu kom fram að ekki þykir gott að BÍ skuli kjósa að standa utan við ferlið og kjósi að senda ekki fulltrúa sína til starfa við svokallaða rýnivinnu sem fram fer við að bera saman stöðu mála á Íslandi annars vegar og ESB hins vegar.

  Bændasamtökin hafa, sem kunnugt er, tekið þá afstöðu að þau séu á móti inngöngu Íslands í ESB og af þeirri ástæðu sé réttast að koma hvergi nærri samningaferlinu, væntanlega með það í huga að ,,enginn sé þar kenndur þar sem hann komi ekki”. Deila má um hversu málefnaleg þessi afstaða er og eins hvort hún þjóni hagsmunum bænda. Hafa verður í huga að svo gæti farið að Ísland gangi til liðs við ESB hvort sem bændum líkar það vel eða illa. Má því eins líta svo á, að betra sé að taka þátt í að gera þá samninga sem unnið er að og reyna með því hafa áhrif á þá til hins betra fyrir bændur - byggja þannig undir greinina til framtíðar - því ef svo fer að ekkert verður af inngöngu Íslands, hefur þó ekki gerst annað en það að BÍ hafi lagt sitt af mörkum til að treysta hag stéttarinnar.

  Vegna þessa er kominn upp fyrrnefndur krytur milli ráðuneytisins og bændasamtakanna og deilan snýst um það hvorir séu með ólund, bændaforingjarnir eða ráðuneytismenn. Í viðtali blaðsins við Harald Benediktsson heldur Haraldur því fram að ,,allt sé þetta Jóni að kenna” (þ.e. Jóni Bjarnasyni).  Jón lætur svo upplýsingafulltrúa sinn (Bjarna Harðarson) svara fyrir sig í sama blaði nokkru seinna  og sá er hreint ekki á því að rétt sé með farið, því að ráðuneytið sé einmitt á kafi í hinni títtnefndu rýnivinnu.

  Þar hafa menn það: Hvorugur vill kannast við að vera með ólund, sem vonlegt er. Hvorki ráðuneytið né Bændasamtökin geta nefnilega leyft sér slíka framkomu; ekki á opinberum vettvangi og ekki heldur að tjaldabaki. Þeim ber báðum skylda til að vinna að málinu af heilindum, hvort sem þeim líkar betur eða ver. Ráðuneytinu vegna þess að um umsókn Íslands að Evrópusambandinu var samið við stjórnarmyndunina og hún síðan samþykkt af Alþingi, en Bændasamtökunum vegna þess að þau eiga að gæta hagsmuna bænda, sem a.m.k. sumir hverjir eru ekki alveg sannfærðir um að þau séu að gera nægjanlega vel.

  Í ,,Bændablaðinu” er greint frá svokölluðum ,,bændafundum” sem haldnir hafa verið víðs vegar um landið að undanförnu og í frásögnum af fundunum kemur fram að ekki eru allir bændur jafn vissir um að afstaða samtakanna sé rétt, (að taka ekki þátt í samningaferlinu). Vitanlega er fullkomlega eðlilegt að bændur hafi af því nokkrar áhyggjur. Sjálfsagt hlýtur að vera að Bændasamtökin gæti hagsmuna bænda, í þessu efni sem öðru er að stéttinni snýr, en feli það hlutverk ekki einhverju fólki út í bæ, sem hugsanlega hefur ekki eins mikla þekkingu á málefnum stéttarinnar og gera má ráð fyrir að samtökin hafi.

  Ekki hefur alltaf gefist vel að BÍ sofni á verðinum þegar málefni bændastéttarinnar eru annars vegar og í því sambandi má minna á hvernig komið er fyrir því sem áður hét ,,Lánasjóður landbúnaðarins”, sjóður sem að hluta var rekinn á félagslegum grundvelli, en er nú gufaður upp í því dæmalausa frjálshyggjubrölti sem stundað var. Það er ljót saga sem bændur og ríkissjóður Íslands súpa nú seyðið af.

  Gera verður þá kröfu til Bændasamtaka Íslands, að þau skipti þegar í stað um afstöðu til samninganefndarinnar, taki þátt í því starfi sem þar fer fram og leggi sitt af mörkum til að samningarnir sem unnið er að, verði sem bestir fyrir land og þjóð, bændur jafnt sem aðra þegna þessa lands.

Hver er sínum gjöfum líkur

4. nóvember 2010

  Ríkisútvarpið greindi frá því í vikunni að Bændasamtökin hefðu látið dálítið fé af hendi rakna til félagsskapar sem kallar sig ,,Heimssýn”. Félagsskapur þessi er forustumönnum bænda frekar kær og það er bóndi úr Dölunum sem veitir félagsskapnum forstöðu. Í pistli sem undirritaður sendi frá sér á dögunum og birtist m.a. í Fréttablaðinu, var sagt að mörg væri hún matarholan sem leyndist í styrkjakerfi landbúnaðarins. Nú er staðfest af Haraldi Benediktssyni  formanni Bændasamtakanna, eftir viðtal í Ríkisútvarpinu, að það var ekki orðum aukið.

  Kærleikurinn sem félagið Heimssýn nýtur af hálfu Bændasamtakanna virðist stafa af því að félagsskapur þessi á það sameiginlegt með forustumönnum bænda að vilja ekki að Ísland verði ekki eitt af aðildarlöndum Evrópusambandsins. Þar falla hugir saman, að vilja halda Íslandi utan samfélags þeirra þjóða sem því standa þó næst. Um það sameinast kvótahafar til lands og sjávar, ásamt öldruðum pólitíkusum sem finna hjá sér hvöt til að taka þátt í leiknum og berjast gegn því sem líklegt er að geti orðið þjóðinni til hagsbóta. Ekki rekur ritara minni til að nokkur þessara aðila hafi lagt það á sig að benda á einhverja aðra og betri leið til lausnar á þeim vanda sem augljóslega blasir við þegar litið er til framtíðar. Með þeirri undantekningu þó, að formaður Heimssýnar virðist telja að hjálpræðið sé helst að sækja til Bandaríkjanna, ekki ólíkt forseta lýðveldisins, að því frátöldu að hann sér sólina helst rísa í Kína.

  Heimsýnarsamtökunum ætti að vera þokkalega borgið með svo traustan bakhjarl sem Bændasamtökin eru. Samtök sem virðist ekkert muna um að rétta félagsskapnum ómælda styrki, bæði hrein peningaframlög og óbein. Frétt Ríkisútvarpsins upplýsti að styrkurinn til Heimssýnar hefði verið í þrennu lagi, þ.e. fimm hundruð þúsund til félagsins til almennrar starfsemi, önnur fimm hundruð þúsund til að greiða auglýsingastofu og að síðustu ókeypis ótilgreint auglýsingapláss í Bændablaðinu. Ekki er að efa að það á eftir að koma sér vel, þar sem Bændablaðinu er nú dreift með Morgunblaðinu, sem þrátt fyrir myndarlegan taprekstur, gefur líklega ekki auglýsingaplássið þó málstaðurinn sé eflaust eigendum þess hjartfólginn.

  Formaður Bændasamtakanna gerði sér tíðrætt um ,,aðréttur” í leiðara Bændablaðsins fyrir nokkru og nú liggur loks fyrir hvað raunverulega var átt við: Bændasamtökin taka ekki við ,,aðréttum” heldur er það þannig að það eru þau sem stunda það að veita ,,aðréttur”, því ekki var annað hægt að skilja, af orðum formannsins, en að styrkveitingin til Heimsýnar væri einungis lítið brot af þeirri rausn sem iðulega hryti af nægtaborði Bændasamtakanna til hinna ýmsu félagasamtaka sem þeim væru þóknanleg.

  Almennir bændur, sem margir hverjir hafa ekki of miklu úr að moða, hljóta að furða sig á því að slík sé gnóttin af óþörfu fé í fórum samtaka þeirra, að hægt sé að spreða því að geðþótta í alls kyns verkefni sem engin grein er gerð fyrir, eða að minnsta kosti er ekki á lofti haldið.

  Það hlýtur að vera hægt að ætlast til að Bændasamtökin geri grein fyrir hvernig þessum málum hefur verið háttað á liðnum árum. Hverjir hafa fengið framlög og hvenær? Til hvers er ætlast af hálfu Bændasamtakanna, ef einhvers, af þeim félagasamtökum sem formaðurinn vísaði til að styrki hefðu fengið og hvaða sjónarmið hafi ráðið því hverjir fengu þessa styrki?

Hrun, órói og ,,sátt”.

5. október 2010

  Það á ekki af þessari þjóð að ganga. Hún kaus, með bros á vör, yfir sig vanhæfa stjórnmálamenn kjörtímabil eftir kjörtímabil, sem að endingu sigldu skútunni, ekki bara í strand heldur fram af brúninni, þaðan sem hún féll að endingu í björgunarnet alþjóðasamfélagsins (IMF).

  Þeir ágætu menn gætu hafa sagt eitthvað á þessa leið: Allt í lagi, ykkur verður bjargað með peningum sjóðsins, en þið verðið að átta ykkur á nokkrum staðreyndum svo það geti gengið.

 

  1. Víkingatíminn er liðinn fyrir löngu.
  2. Þið eruð ekki nema rúmar 300 000 hræður í afar stóru landi.
  3. Þorskurinn og ýsan eru ekki gerð úr gulli og ekki heldur kindin.
  4. Fjölmargir utan Íslands eru búnir að tapa stórfé á ævintýramennsku ykkar manna.

 

  Og síðast en ekki síst: þið verðið að sýna lágmarksvott af ábyrgðartilfinningu með smáskvettu af iðrun saman við og þreyja síðan Þorrann og Góuna í þrjú til fjögur ár án þess að krefjast þess að á hverju heimili sé Rover eða Audi, fjórhjól, snjósleðar, sumarbústaður, hesthús, gæðingar og utanlandsferð allrar fjölskyldunnar til sólarlanda. Þið þurfið ekki sjö háskóla, né heldur sjúkrahús á hverja krummaskuð o.s.frv.. Þið þurfið að vinna ykkur út úr þeirri óráðsíu sem þið hafið komið ykkur í, á nokkrum árum og að þeim tíma liðnum þá ætti þetta allt saman að fara að lagast. Gleymið ekki heldur, að það er hægt að leigja sér húsnæði, slíkt hefur verið gert í nágrannalöndum ykkar um árabil og gefið góða raun.

  Þeir komu og réttu fram hjálpandi hönd, en ekki gekk öllum vel að skilja að tímar Davíðs og Dóra væru liðnir, né heldur að allur glaumurinn og gleðin hefði verið reist á sandi.

  Það kom líka ýmislegt fleira, eins og eldgos og hestapest sem komu illa við ferðaiðnaðinn, að ógleymdri síldarpest sem gerði þá ágætu skepnu frekar ólystuga svo ekki sé nú meira sagt. Margar þeirra sukkfjárfestinga, sem ráðist hafði verið í á tímum félaganna tveggja og liðsmanna þeirra, komu líka í hausinn á þjóðinni. Framkvæmdir sem allar líkur eru á að muni sjúga til sín ómælda fjármuni um ókomna tíð s.s.: Harpa, Siglufjarðargöng og Landeyjahöfn.

__ __ __

  Á Austurvelli koma síðan saman pottberjendur hoppandi, hrópandi og gólandi, grýtandi eggjum, golfkúlum og grjóti stjórnvöldum til hressingar og uppörfunar, að þeir telja, en fyrst og fremst meiðandi saklausa lögreglumenn og skemmandi eignir þjóðarinnar og þar með að sjálfsögðu sjálfra sín.

  Þar mætir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og er líklega að mótmæla því að fá ekki að sitja lengur á þingi. Þar mæta líka skuldlitlar eignamanneskjur og eru vafalaust að mótmæla háum fasteignasköttum og þar mæta líka sparifjáreigendur til að mótmæla lágum vöxtum og einnig mætir líka fólk sem er eingöngu komið til að njóta ástandsins og þjóna eðli sínu, en:

  Síðast en ekki síst mætir þarna fólk sem lent hefur í verulegum erfiðleikum vegna ástandsins og veit ekki sitt rjúkandi ráð, búið að tapa öllu sínu, eða sér fram á að gera það. Það er fólkið sem þarf að hlusta á, hugsa um, og gera allt sem hægt er til að bjarga úr hremmingunum.

  Vissulega er verið að reyna að gera það við afar erfiðar aðstæður, en gera verður betur og óþolandi er fyrir fólk í þessari stöðu að þurfa að horfa uppá að verið sé að fella niður milljarðaskuldir gamalla vildarvina höfðingjanna tveggja, þó svo það hafi kannski slysast til að kjósa þá yfir sig. Enginn getur ætlast til að fólk sem er að sjá á eftir öllu sínu þoli slíkt.

  Rætt er um það núna bæði hátt og í hljóði að ná þurfi sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þ.e. þjóðar og kvótahafa. Betra er að engin sátt náist en að samið verði um að forréttindahóparnir komi til með að halda sínu, haldi áfram að mergsjúga almenning eins og verið hefur í áratugi. 

Hvenær tekur maður við ,,aðréttum” og hvenær tekur maður ekki við ,,aðréttum”, það er vandinn, að minnsta kosti ef maður er í forsvari fyrir íslenska bændastétt. Þetta er eitt af því sem vefst talsvert fyrir leiðtoga Bændasamtakanna þegar hann fjallar um þau framlög Evrópusambandsins sem hann gefur hið skáldlega nafn aðréttur í Bændablaðinu.

 

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands, ritar leiðarann í Bændablaðinu í síðustu viku og kvartar þar yfir því að ESB stundi það að bjóða bændum, það sem hann kallar ,,aðréttur”. Aðréttur þessar þykir honum ekki góðar, þar sem þær hafi mögulega þann tilgang að fá bændur til að hugsa málin upp á nýtt, þ.e. hvað varðar afstöðuna til mögulegrar inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hvers vegna formanninum fellur illa að bændur fái nýja sýn á framtíðina miðað við inngöngu þjóðarinnar í sambandið er ekki gott að skilja og rík ástæða til að hann skýri betur en gert hefur verið, hvers vegna það er svo slæmt að íslenskir bændur hugsi sjálfstætt?

 

Af þessu tilefni ritar Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins leiðara þar sem hann fer yfir það í nokkrum liðum hvernig hinar títtnefndu aðréttur hafi runnið greiðlega um hendur bænda á umliðnum árum. Nefnir hann þar nokkur dæmi s.s. styrk til vöruhönnunar á Austurlandi úr ull, skógarafurðum og leðri, þjálfun smala og eflingu atvinnuþátttöku kvenna í landbúnaði. Líklega er ekkert af þessu gott að mati bændaforingjans, en jafnvíst að þeim hefur þótt gott sem nutu. Þarna er um að ræða ýmis verkefni sem bændaforustan hefur, þrátt fyrir allt, séð sér hag í að nýta, bændum og þjóðinni til hagsbóta. Augljóslega felst mótsögn í hinni nýju afstöðu Bændasamtakanna miðað við hve sjálfsagt þeim hefur þótt að þiggja framlög frá ESB fram til þessa.

 

Í tilefni af þessu sendi BÍ bréf með yfirskriftinni ,,Beiðni um að staða landbúnaðar í samningaferli Íslands við ESB verði skýrð” til Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, þar sem kvartað er m.a. yfir aðréttunum. Bréfið ættu sem flestir að lesa þar sem í því birtist á afar skýran hátt hvernig BÍ tekur afstöðu til Evrópumálanna. Vitnað er í Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra og eftir honum haft að aðlögunarferli að Evrópusambandinu sé hafið og virðist ekki þurfa frekar vitnanna við, að mati bændaforustunnar. Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra, hefur margoft lýst því yfir að hann telji ekki koma til greina að Ísland gangi í ESB og í því ljósi getur hann varla talist traust heimild um hvernig beri að túlka á hvaða stigi viðræður við sambandið eru staddar. Yfirlýsingar hans um að ,,aðlögunarferli” sé hafið, verða að skoðast í því ljósi að þar er að tjá sig maður sem er ákveðinn í að taka ímyndaða hagsmuni fárra fram yfir hagsmuni heildarinnar. Ekki er gott til þess að vita fyrir bændur, að bændaforustan sæki sér helst leiðsögn í þann suðupott öfgaskoðana og kreddufestu sem Vinstri- grænu stjórnmálasamtökin eru.

 

Komið hefur fram að eitt af því sem ESB hefur sett út á varðandi landbúnaðarkerfið íslenska, er að ekki sé auðvelt að sjá hvernig því fjármagni sem ráðstafað er til að styrkja íslenskan landbúnað sé varið. Við lestur fyrrnefnds bréfs læðist að sá grunur, að það fari dálítið fyrir brjóstið á bændaforustunni að hugsanlega verði þar gerð breyting á: að greiðslur verði auðraktari og kerfið gert opið og gegnsætt.  Það er nefnilega kunnara en frá þurfi að segja að í millifærslukerfinu íslenska og er þá ekki eingöngu átt við landbúnaðarkerfið, leynist mörg matarholan, sem þeim einum er kunnugt um sem innvígðir eru.

 

Bændaforustan hefur barist gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið með oddi og egg og beitt þar fyrir sig ýmsum rökum sem fæst standast skoðun ef að er gáð. Það er öllum ljóst að landbúnaður er stundaður í löndum Evrópusambandsins allt frá Miðjarðarhafi og norður til Finnmerkur. Undirritaður dvaldi í austurrískri sveit á dögunum og sá þá með eigin augum hve landbúnaður dafnar þar vel og ekki síður hitt, hve frelsi austurrískra bænda er á ýmsum sviðum meira en  íslenskra. Afurðir sínar selja þeir beint til neytenda, ef þeim sýnist svo, hvort heldur um er að ræða kjöt, kartöflur, egg eða mjólk og mjólkurafurðir svo sem osta sem þeir framleiða sjálfir á búum sínum. Vafalaust er það allt undir eðlilegu heilbrigðiseftirliti og þess gætt að rétt og vel sé farið með vöruna, en ekki stunduð sú ofstjórn sem sjálfsögð þykir hér á landi.

 

Í málflutningi sínum hefur BÍ meðal annars haldið því fram að tryggja verði matvælaöryggi íslensku þjóðarinnar og talið að það verði best gert með því að halda Íslandi utan við ESB. Það er svo gjarnan látið fylgja með: að ef samgöngur til landsins einhverra hluta vegna stöðvist, þá sé gott að eiga matvælaframleiðslu sem duga muni þjóðinni í slíkum þrengingum.

 

Málflutningur af þessu tagi stenst ekki skoðun. Ef svo færi að samgöngur til landsins stöðvuðust, þá háttar þannig til að eitt það fyrsta sem færi úr skorðum er landbúnaðurinn. Ekki yrði flutt inn korn, olía, vélar, né varahlutir til þeirra. Engin áburðarverksmiðja er í landinu og víst er að ekki kæmi áburður til landsins án samgangna. Þá má einnig geta þess, að ekki er vansalaust hve lítt hefur verið hugsað um að nýta búfjáráburð, en vonandi stendur það til bóta, þó ekki sé nema vegna þess hve áburðarverð hefur rokið upp að undanförnu. Af þessu má ljóst vera að landbúnaðarframleiðsla myndi nær stöðvast, fyrir nú utan allt annað sem úr skorðum gengi við slíka uppákomu.

 

Enginn áhugi virðist vera á því hjá íslenskri þjóð, né ráðamönnum hennar, að tryggja siglingar til landsins. Það sést af því að ekki eitt einasta flutningaskip er undir íslenskum fána, þau eru öll skráð erlendis og verða eflaust tekin til þjónustu fyrir þær þjóðir ef aðstæður af því tagi sem BÍ hefur haldið á lofti í umræðunni um matvælaöryggi yrðu að raunveruleika. Nágrannaþjóðir okkar brugðust við útflöggun kaupskipaflotans fyrir mörgum árum, en íslenska þjóðin virðist ekki hafa metnað til þess. Því eru skipin skráð erlendis og þeir Íslendingar sem á þeim starfa skráðir til heimilis utan landsteinanna. Hætt er við að forfeður og formæður okkar, þau sem í fátækt söfnuðu hlutafé til að geta stofnað skipafélag og keypt skip til að tryggja siglingar til og frá landinu, yrðu forviða ef þau gætu séð hvernig komið er fyrir því gamla baráttumáli.

 

Ef til þess kemur að Ísland gengur til samstarfs við ESB er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að íslenskum bændum komi til að vegna vel í því samstarfi og jafnvel betur en í því kerfi sem boðið hefur verið uppá hingað til. Kerfi þar sem flestir kostnaðarliðir til almenns rekstrar eru um það bil tvöfalt til margfalt hærri en tíðkast hjá nágrannaþjóðum.  Kerfi sem boðið hefur uppá okurvexti, ofurverðlagningu á fóðurvörum og fjölmörgum öðrum rekstrarvörum og ekki má gleyma síendurteknum gengisfellingum með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðina alla, bændur jafnt sem aðra.

 

Ljóst er að málflutningur Bændasamtaka Íslands stenst ekki og kominn er tími til að þau snúi sér frekar að því að huga að hagsmunum íslenskra bænda innan Evrópusambandsins, ef til þess kemur að Ísland verði eitt af ríkjum þess, en að mála samtökin út í horn með málflutningi sem ekki þjónar hagsmunum þeirra sem þau þó eiga að þjóna. 

Um síðustu mánaðarmót dvaldi ritari með konu sinni í góðum hópi nokkurra landa í vikutíma í dal í Austurríki. Ánægjuleg dvöl sem lengi verður minnst. Nær engar fréttir bárust af Íslandi og nöfn eins og  Jón Bjarnason, Steingrímur J., Ögmundur, Lilja Móses., Bjarni Benidiktsson og Sigmundur Davíð heyrðust aldrei nefnd. Óneitanlega var það mikill léttir að vera laus við Íslandsvilluna.

 

Í sveitinni þarna suður frá var dvalið innan um frjálsa bændur sem ekki eru þjakaðir af kúgunarkerfi eins og því sem tekið var upp fyrir margt löngu hér á landi til að koma Korpúlfsstaðabúinu fyrir kattarnef. Kerfi sem hefur verið haldið vel og vandlega við síðan. Fróðlegt var að verða vitni að því hve frjálsir bændurnir þarna eru og hve gott þeir hafa það – Austurríki er jú í ESB. 

 

Málflutningur íslensku Bændasamtakanna hefur gengið út á, að með inngöngu í Evrópusambandið væri það sjálfgefið að íslenskir bændur kæmust umsvifalaust á vonarvöl, heftir í helsi hins evrópska reglugerðarbákns og ekki nóg með það, heldur yrðu barnungir afkomendur þeirra skráðir í hulduher sambandsins, þannig að eftir eina kynslóð yrði búskaparbasli á Íslandi sjálfhætt, þó ekki væri nema vegna nýliðunarvanda! Her þennan hefur að vísu enginn heyrt né séð aðrir en bændur, en það sannar bara betur en flest annað tilveru hans og voðalega ætlan!

 

Hótelið sem við dvöldum á keypti kjöt, kartöflur, mjólk, egg og hvaðeina af bændum í nágrenninu og ekki var annað að sjá en öllum heilsaðist vel af þeirri vöru. Ekkert bar á því að maturinn stæði þversum í mannskapnum þó sölumeðferðin væri eins óíslensk og hugsast gat. Allt eins víst að sú hafi verið skýringin: að frjáls matvæli séu bara ágæt og  ekki verri en íslenskt reglugerðarfóður.

 

Þarna var húsdýraáburður borinn á tún og akra eftir að hafa brotið sig í hrúgum sem næst fyrirhuguðum notkunarstað og það án þess að nokkur fengi hland fyrir hjartað vegna lyktar eða sjónmengunar, enda gerir fólk á þessum slóðum sér eflaust grein fyrir því, að í því sem dýrin leggja af sér felast verðmæti sem rétt er og sjálfsagt að nýta. Sannindi sem á allra síðustu tímum hafa verið að renna upp fyrir æ fleiri landbúnaðarköppum íslenskum.

 

Á slóðum þeirra Heiðu og Péturs er náttúrufegurð afar mikil. Fjöllin eru feikihá og skógi vaxin nær upp á tinda, lækir renna, vatnið ferskt og gott beint úr krana og snyrtimennskan er allsráðandi. Helst að rekast mætti á eina og eina bjór eða gosdollu, sem gos og bjórþambendur höfðu vegna sljóvgunar ,,misst” út um bílgluggann í vegarkanti hraðbrautar. Lá við að Íslendingurinn yrði feginn að rekast á tengingu sem vísaði heim. Þeir eru þá sem sé ekki alfullkomnir þarna frekar en annarsstaðar.

 

Er heim var komið tóku við gamalkunnug stef:

 

Forseti lýðveldisins sér framtíðina fyrir sér í Kína. Mannréttindafrömuðirnir og hálaunagreiðendurnir sem þar sitja að völdum, munu fátt vita æskilegra til að taka í kjöltu sér en Ísland, enda kunna þeir eflaust vel að meta framlag þjóðarinnar til eflingar hagkerfis Evrópu. Það framtak kostaði íslensku þjóðina að vísu efnahagslega sjálfstæðið, en það finnst risanum í austri eflaust ekki verra. Á Alþingi ræðir fólk um það mest og lengst og í sem flestum orðum, hvernig ,,lögum” verði komið yfir þá stjórnmálamenn sem stóðu vaktina þegar Hrunið hvolfdist yfir. Árna og Geir, Ingibjörgu og Björgvin, en að sjálfsögðu  ekki Davíð og Halldór, né Valgerði og ekki heldur Finn Ingólfs, né þau önnur sem bjuggu til það umhverfi sem gerði það að verkum að íslenska Hrunið varð svo afdrifaríkt sem raun varð.

 

Miklir menn erum við Mörlandar og aldrei munum við verða í vandræðum með að finna réttlætinu góðan farveg.

Ráðherraraunir

19. ágúst 2010

  Jón flýr allt og alla og sérstaklega fréttamenn sem spyrja leiðinlegra spurninga, en Gylfi flýr engan enda munurinn sá, að Jón Bjarnason hefur vondan málstað að verja en Gylfi er í björgunarsveitinni sem er að reyna hvað hún getur til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl. Aðförinni að Gylfa virðist vera lokið, a.m.k. í bili, en ekki er eins víst að Jón sé sloppinn, enda ekki ástæða til.

  Annars hefur það verið dálítið fræðandi um mannlegt eðli, að eftir að reynt var að taka upp opnari stjórnsýslu og hafa meira uppi á yfirborðinu þegar ákvarðanir eru teknar af stjórnvöldum, þá gerist það æ oftar að ráðist er að þeim sem eru að gera sitt besta til að bæta og laga íslenskt samfélag. Samt virðast allir, a.m.k. í orði, vera þeirrar skoðunar að full þörf sé að breyta til og langflestir sakna ekki þeirra tíma þegar Davíð og Halldór fóru með völdin í bókstaflegum skilningi þess orðs.

  Núna þegar þeir eru blessunarlega farnir frá, þá hafa þeir hæst sem lægst höfðu á stjórnartíma þeirra félaga. Nú er fundið að nær öllu sem gert er, flest allt er ómögulegt, ef ekki af illum hvötum gert. Hvernig liti það út ef að í hvert sinn sem kalla þyrfti til slökkvilið og lögreglu þá streymdi að hópur fólks, líkt og við Héraðsdóm Reykjavíkur á dögunum þegar réttað var í máli níumenninganna svokölluðu, og gerði allt til bölvunar sem hægt væri.

  Gagnrýni er vissulega bæði góð og þörf, en henni þarf að beita á sanngjarnan hátt til að ekki missi marks og er þá komið að upphafsorðum þessa pistils.

  Jón Bjarnason hefur að mati ritara komið afar illa fyrir í viðtölum sem fréttamenn hafa lokkað hann í þar sem þeir hafa gripið hann á förnum vegi. Frægast er líklega þegar hann hentist eins og einhverskonar manngert jójó til og frá þegar rætt var við hann fyrir utan Ráðherrabústaðinn og umræðuefnið var fækkun ráðuneyta. Auðséð var og heyrt að maðurinn átti í mestu erfiðleikum með að ræða efnið sem til umræðu var, þ.e. fyrirhugaða fækkun ráðuneytanna. Flestum sem á heyrðu var vitanlega ljóst að óþægindi umræðuefnisins fyrir Jón voru þau, að hann sér fram á, að ef fækkað verður, þá er líklegast að ráðherraferli hans sé þar með lokið.

  Hitt tilfellið, sem er mun nýlegra, er þegar verið var að ræða við hann um kvótafrumvarpið varðandi mjólkurframleiðsluna. Það þótti Jóni ekki gott að ræða og ekki nema von. Ráðherrann sem hefur það á sinni könnu að koma fyrir kattarnef kvótakerfi því sem er í sjávarútvegi, var þarna kominn í þá lítt öfundsverðu stöðu að verja og reyndar herða til muna helsið sem komið var á af Framsóknar og bændaklíkunni á sínum tíma. Kerfi sem á einu augabragði hlóð undir valda aðila í bændastétt, en kippti eins snögglega grundvellinum undan öðrum sem ekki voru í náð klíkunnar.

  Jón Bjarnason getur nú tekið gleði sína að nýju, þ.e. hafi hann á annað borð, áttað sig á því að skugga hafi á hana fallið, því nú er hann búin að fá stuðning, sem kemur alls ekki úr óvæntri átt. Formaður Framsóknarflokksins ruddist fram á ritvöllinn á dögunum til þess eins að berjast fyrir og ,,rökstyðja” að í raun væri frelsi íslenskra bænda mest þegar það væri minnst. Framsóknarlegra getur það víst ekki orðið og minnir á söguna af manninum með kaffibollann: Hann gat alls ekki skilið af hverju bollinn datt sífellt ef hann sleppti á honum takinu og fannst alls ekki gefið að þó hann hefði dottið einu sinni, eða oftar, þá væri víst að slíkt henti næst þegar hann sleppti takinu.

  Já, það er ekkert einfalt mál að vera Framsóknarmaður.   

Ráðherra á flótta

10. ágúst 2010

  Þrír af fagráðherrum ríkisstjórnarinnar hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu og hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með því, en misjafnlega komast þeir frá þeirri raun. Þegar þau Katrín Júlíusdóttir iðnaðar og orkumálaráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra gera sér lítið fyrir og taka Helga Seljan í netta kennslustund í almennum mannasiðum, þá leggur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra á flótta undan fréttamönnum og veit eflaust að hann hefur slæman málstað að verja.

  Fram til þessa hefur margur litið svo á að hagsmunagæsluflokkarnir væru tveir, þ.e. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, en nú hefur staðan breyst og þeir eru greinilega orðnir þrír þar sem Vinstri grænir eru augljóslega komnir í þann hóp. Þegar svona er komið þá er kannski ekki nema von að ritstjóri ,,Fréttablaðsins” ákalli flokk sinn með svohljóðandi orðum: ,, Og hvað með sjálfstæðismenn… […]…Geta þeir kannski kreist upp lítið, hugrakkt tíst í þágu neytenda?”.

  Já, er nema von að örvæntingin geri vart við sig hjá fylgismönnum flokkanna þriggja, horfandi á, að öll fyrirheit um að tekin yrði upp hagsmunagæsla fyrir almenning, en ekki bara fyrir hagsmunahópa, eru vegin og metin og léttvæg fundin. Engum kemur á óvart að Framsóknarflokkurinn telji sitt helsta hlutverk vera að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í bændastétt. Það kemur heldur ekki mörgum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn líti svo á að hans helsta hlutverk sé að gæta hagsmuna kvótaaðalsins í útgerðinni, sem og auðstéttarinnar í landinu almennt.

  Það sem kemur frekar á óvart, er að Vinstri grænir skuli telja það sitt æðsta hlutverk í stjórnmálum, þegar flokkurinn er loksins kominn til valda, að gæta þessara hagsmuna framar öðrum. Þjóðrembingsafstaða þeirra varðandi ESB málið er vitanlega vel kunn, svo og hin alkunna útlendingafælni sem þeir eru haldnir, en það hefur ekki legið fyrir skýrt og klárt fyrr en nú að þjóðrembingurinn, er þegar betur er að gáð, ekkert annað en yfirskin. Afstaðan byggist greinilega fyrst og fremst á því að stunda hagsmunagæslu fyrir fyrrnefndan aðal.

  Skipan togaraskipstjórans Björns Vals Gíslasonar sem varaformanns í nefnd um endurskoðun um stjórn fiskveiða, manns sem launaður er af Brimi hf., þrátt fyrir að sitja á alþingi, sýnir vel hvernig VG ætlar að móta stefnu sína í þeim málum. Greinilega er litið svo á, á Vinstri græna bænum, að hagsmunir flokksins fari þrátt fyrir allt saman með hagsmunum útgerðaraðalsins í landinu.

  Og nú liggur fyrir að Vinstri grænir telja hagsmunum þjóðarinnar best borgið með því að vernda kvótaaðalinn til sveita. Jón Bjarnason fer að vísu undan í flæmingi þegar reynt er að ræða við hann um málið, en það sama verður ekki sagt um formanninn Steingrím J., sem af alkunnri rökfimi tekur undir málflutning félaga síns án þess að roðna meira en venjulega.

  Framsóknarflokkarnir eru sem sagt orðnir tveir og kemur víst ekki mörgum á óvart, hitt er öllu óljósara, hve margir Vinstri grænu flokkarnir eru, en fróðlegt verður að fylgjast með hvernig málin þróast hjá þeim.

  Ætla má að einhverjir úr hópnum fylgi Ögmundi í eyðimerkurgöngu hans meðal fallinna frumbyggja Ameríku og kvalara þeirra. Ekki er að efa að femínistar allra heima munu fylkja sér um Atla, meðan einkaeigendur umhverfisins hópa sig um Svandísi og lýðskrumarar allra landa mynda flokk með Lilju Mósesdóttur.  

Tillaga að lausn

4. ágúst 2010

  Mikill og kröftugur hvellur hefur orðið að undanförnu vegna ráðningar á Umboðsmanni skuldara. Auglýst var eftir umsækjendum, tveir voru metnir hæfir og annar þeirra ráðinn.

Það sem hins vegar hafði farið framhjá þeim sem um ráðninguna sáu var, að auk annarra kosta, þá hafði sá hæfasti einn kost sem ótalinn var, s.s. að hann var einnig sérfræðingur í því sem kalla mætti skuldahvarf.

  Ekki ónýtur eiginleiki fyrir þann sem ætlar að taka það að sér að semja um skuldahvörf við peningastofnanir fyrir umbjóðendur hins nýja embættis. En ekki er allt sem sýnist. Þannig er, að á tímum hinnar nýju siðbótar í íslensku samfélagi, þá er ekki pláss fyrir hvað sem er og skuldahvarf er einmitt eitt af því sem ekki má, a.m.k. ef hvarfið fer fram úr öllu hófi. Vegna þessa varð niðurstaða málsins að hafna þeim aðila sem býr yfir umræddri reynslu og reyna að finna einhvern til starfans sem ekki hefur kunnáttu í skuldahvarfagaldri.

 

Af þessu öllu hefur spunnist mikil umræða og eins og staðan er á þessari stundu þá er ekki annað að sjá en auglýst verði að nýju eftir hinum títtnefnda Umboðsmanni, því sá sem hæfastur var talinn er farinn og sú sem næsthæfust var talin vera, er að því eð virðist farin í fýlu og þar sem aðrir umsækjendur voru ekki taldir hæfir, hlýtur að þurfa að finna einhverja nýja til starfans. 

Blaðurfulltrúi VG, Björn Valur Gíslason, fer mikinn í yfirlýsingum og telur ráðninguna hafa verið pólitíska og af gamla tímanum. Nokkuð athyglisverð yfirlýsing frá VG þingmanni og vissulega verð allrar skoðunar og kannski rétt í leiðinni að skoða sitthvað fleira. 

Skemmst er að minnast frekar sérkennilegs tölvupósts sem lak út frá aðstoðarmanni menntamálaráðherrans, en í póstinum kom fram að manninum var ákveðinn líkamspartur kvenna svo ofarlega í huga að hann gat ekki um annað hugsað er hann var í raun að fjalla um Magma málið. Líklega vill þingmaðurinn að menn séu nútímalegir og ef til vill er þankagangur af þessu tagi bara í takt við tímann og við hin sem ekki kunnum að meta orðbragðið bara gamaldags. Þær eru líkast til safaríkar umræðurnar á fundum hinna Vinstri grænu ef talsmátinn er í takt við þetta og gott ef hormónastarfssemi flugunnar á veggnum á fundum þeirra fer ekki úr skorðum, svo ekki sé nú talað um hina náttúrulegu og frjóu Vinstri grænu fundarmenn. 

Tillaga að lausn í málinu gæti verið þessi: Björn Valur verði ráðinn umboðsmaður, en þar sem ekki er vitað til að hann sé sérfræðingur í skuldahvarfi, þá verði honum útvegaður aðstoðarmaður sem sitthvað kann fyrir sér í þeim efnum, fyrrverandi Borgarstjóri, þingmaður, forsætisráðherra, Seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri, svo fátt eitt sé talið. Björn gæti tekið að sér að vera blaðurfulltrúi embættisins á meðan Davíð Oddson tæki að sér skuldahvörfin og þá ættu báðir að geta fundið sig í hlutverkunum. 

Davíð er eins og alþjóð veit bæði röskur og fylginn sér, lögfræðingur að mennt (eins og hann hefur margbent á) og sannkallaður reynslubolti í því að vinna menn á sitt band ef á þarf að halda. Minnast má peningaúttektarinnar úr Kaupþingi forðum, einkavinavæðingu bankanna og snöfurmannlegrar stjórnar á Seðlabankanum þar sem honum tókst með undraverðum hætti að láta peninga hverfa. Því þá ekki skuldir líka? 

Einn er sá kostur við þessa lausn sem ótalinn er og það er að báðir mennirnir eru á launum frá hinu opinbera þannig að kostnaður ætti að verða lítill sem enginn. Annar kostur er að báðir færu við þetta að vinna þjóð sinni gagn í stað ógagns. Björn Valur gæti hugsanlega farið út með ruslið í stað þess að vera sífellt að gaspra um ekki neitt á alþingi. Davíð yrði hins vegar í skuldahvarfinu, þaulvanur maðurinn og allir gætu unað glaðir við sitt, nema náttúrulega kvótagreifarnir sem stæðu frammi fyrir því að þurfa að finna nýjan ritstjóra.  

Það er þó alls ekki víst, því allt eins má gera ráð fyrir að Davíð gæti skrifað Staksteina og leiðara í hjáverkum milli þess sem hann slægi óþæga bankastjóra í  kollinn með reglustikunni.

Vinstri græna hnotan

28. júlí 2010

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um svokallað Magma mál. Málið snýst um það hvort kanadískum manni með bjartsýnisblindu á íslenskt hagkerfi sé heimilt að kaupa meirihluta í HS Orku á Suðurnesjum af kröfuhöfum banka, sem, er á reyndi, var ekkert annað en froða, enda stóð hann á grunni hins íslenska hagkerfis. Kerfis sem afar fáir vilja setja traust sitt á, nema vera annað hvort Vinstri grænir og/eða kvótagreifar til lands eða sjávar á Íslandi.

 

Að þessu sögðu verður að taka það fram að svo virðist að forstjóri Magma og félagar, hafi peningavit. Þeir munu hafa haft rænu á að kaupa svokallaðar aflandskrónur fyrir lítið í útlöndum og ætla síðan að nota þær til að greiða fyrir Geysi-græna góssið sem ævintýramenn úr íslenskri pólitík voru fyrir nokkrum árum búnir að einkavinavæða. Þetta hljómar ekki vel fyrir Vinstri græna, né aðra þá sem haldnir eru útlendingafælni og því eru taugar þeirra þandar. 

Að til skuli vera menn, búsettir í Kanada, sem hafi trú á að hægt sé að reka fyrirtæki á Íslandi, það þykir þeim ekki gott. Þau vilja nefnilega ríkisvæðingu á sem flestum sviðum og ef það er ekki hægt, t.d. vegna þess að ríkissjóður Íslands á ekki íslenska eðalkrónu, hvorki með gati né heila, þá finnst þeim bara alveg upplagt og sjálfsagt að ráðstafa fjármunum lífeyrissjóðanna til að klekkja á hinu kanadíska bjartsýnissvíni sem þau telja vera að ryðjast inn í hið heilaga íslenska samfélag. Bjartsýni hins kanadíska hefur sem sé smitað svo út frá sér að Steingrímur J.  telur fjármagni lífeyrissjóðanna best borgið í áhætturekstri á borð við HS Orku! 

Fólkið sem vill hafa allt sitt á þurru og ekkert gera, helst aldrei, hefur sem sagt fundið það út af visku sinni, að peningum annarra sé best borgið með því að spila með þá. Þarna sést inn að beini í Vinstri grænum. Fólkið sem vill hafa helst allt á vegum ríkisins, telur sjálfsagt að ,,hinir” borgi brúsann af  ríkisvæðingarhugmyndum þeirra. 

HS Orka, er sem stendur í eigu útlendinga, þó ekki sé almennt vitað nákvæmlega hverjir þeir eru og það er útlendingur sem er að reyna að kaupa fyrirtækið. Verði honum meinað um kaupin verður félagið bara áfram í erlendri eigu, hugmyndir um eitthvað annað eru bara vinstri grænir draumórar. Stjórnendur Magma hafa sýnt það viðskiptavit að kaupa íslenskar krónur fyrir lítið til að nota til kaupa á fyrirtækinu HS orku. Það sýnir að mennirnir hafa peningavit, nokkuð sem sárlega skortir í íslensku viðskiptalífi. 

Að Vinstri grænir skuli hafa allt á hornum sér varðandi kaup Magma á HS Orku, ætti eitt og sér að vekja fólk til umhugsunar um hvort ekki sé verið að gera eitthvað rétt varðandi fyrirtækið. Þegar Atli, Guðfríður, Ásmundur, Ögmundur og félagar hafa allt á hornum sér varðandi eitthvert mál, þá er allt eins líklegt að menn séu á réttri leið. 

Að stinga rannsóknarsnuði upp í hina vinstri grænu órólegu deild er bara gott og klókt, ekki er nema gott eitt um það að segja að flett verði ofan af því hvernig þessi hringekja fór af stað. Þau einu sem geta verið á móti slíkri rannsókn eru þau sem voru í ríkisstjórn þegar einkavæðingin hófst. Hér er nefnilega á ferðinni enn eitt dæmið um einkavinavæðingu þá sem stunduð var í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.  

Sjónvarp allra landsmanna brá á það ráð að hafa eingöngu listamenn í Kastljósinu miðvikudagskvöldið 28. júlí og var það einkar vel til fundið. Kvöldið áður hafði þjóðin nefnilega horft og hlustað á fjármálaráðherrann í sama þætti og ekki átt gott með að greina hvort þar fór Steingrímur J. Sigfússon, Georg Bjarnfreðarson eða bara hinn gamli og góði kunningi Ragnar Reykás.  

Hnotan sem Jóhanna varpaði í fang órólegu deildarinnar fór í flækju sem vonlegt var, það hefur aldrei gefist vel að hleypa köttum í hnotur; allt fer í flækju og enginn botnar neitt í neinu. Gerir kannski ekki svo mikið til þegar alvöru kisur eiga í hlut, en verður dálítið snúnara þegar þykjustunni kisur af vinstri grænu gerðinni eru gerendurnir.

Í hinu ríkisstyrkta ,,Bændablaði” sem kom út fimmtudaginn 8. júlí er heil blaðsíða lögð undir viðtal við Bjarna Benidiktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið er vitanlega í tilefni af því að Sjálfstæðisflokkurinn hélt Landsfund þar sem m.a. var samþykkt tillaga um að aðildarumsóknin að ESB yrði dregin til baka. Tillaga sem er svo barnaleg að ekki hefði hún komið á óvart ef að hefði staðið svokölluð ,,Hreyfing”.

  Hreyfingin er sem kunnugt er afsprengi Borgarahreyfingarinnar, þeirrar sem bauð fram í síðustu alþingiskosningum, fékk fjóra fulltrúa á þing, en var ekki fyrr komin þar inn að hún klofnaði í tvennt, einn hélt áfram að vera ,,borgari”, en hinir þrír sem eftir voru ákváðu, að því eð virðist, að vera á hreyfingu og þangað sækja þau víst nafnið.

  Bjarni stillir sér upp til myndatöku með krosslagðar hendur á brjósti sem, af sumum er talið vera til merkis um að búið sé að loka fyrir nýja strauma og það verður að segjast, að eftir lestur viðtalsins læðist að manni grunur um að það sé tilfellið. Þvergirðingsleg sjónarmið eru allsráðandi og vitanlega er það skýringin á, að einmitt þetta blað hampar hinum endurkosna formanni svo mjög.

  Flestum er ljóst að samþykktin hefur málað Sjálfstæðisflokkinn út í horn í málinu og að ástæða þess að hún var gerð er að á þinginu var samankomin hópur þeirra sem verja vilja hið gamla kvótagreifakerfi. Þeir hinir sömu og standa að Bændablaðinu og þar liggur skýringin á hinni takmarkalausu hrifningu blaðsins á Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Vinstri grænir hafa fram að þessu notið þess vafasama heiðurs að vera í uppáhaldi blaðsins, en nú er það breytt og hrifningin nær orðið til Sjálfstæðisflokksins líka.

  Líkt og barn sem óttast um að nammidagurinn verði ekki virtur, spyr blaðamaður hvort ekki sé nú alveg öruggt að ekki verði hvikað frá samþykktinni um að draga umsóknina til baka, ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Bjarni svarar skýrmæltur að vanda: ,,Jú, við myndum setja það mál í forgang.[…]…teljum við að þetta sé röng forgangaröðun”. Formaðurinn ætlar sem sagt að draga umsóknina til baka, en á greinilega dálítið erfitt með að segja það skýrt og greinilega vitandi að ef hann stæði frammi fyrir því að þurfa að taka ábyrga afstöðu sem ráðherra, þá er málið ekki svona einfalt, en gott að gaspra meðan engin ábyrgðin!

  Bændablaðið er orðið að viðhengi Morgunblaðsins og eflaust skýrir það aðdáun blaðsins á Sjálfstæðisflokknum að hluta. Helsta ástæðan er þó eflaust sú að hagsmunir kvótagreifablaðanna tveggja falla saman. Bæði blöðin eru að gæta hagsmuna forréttindaaðalsins á Íslandi, en alls ekki hagsmuna þjóðarinnar. Það er flestum ljóst að landbúnaður og sjávarútvegur taka ekki við vinnuafli framtíðarinnar nema að litlu leyti, það skiptir hins vegar hagsmunaklíkurnar engu máli. Það eru hagsmunir kvótagreifanna bæði til sjávar og sveita sem eru aðalatriði í málflutningi blaðanna beggja.

  Þeim sem finnst gaman og gott að borga verðtryggða og himinháa vexti, búa við ónýtan gjaldmiðil sem enginn tekur mark á og greiða fyrir aðföng til rekstrar á margföldu verði miðað við nágrannalöndin – berjast fyrir óbreyttu ástandi. Þau sem vilja reyna að breyta þessu og fleiru, styðja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, en ef ekki, þá að benda á eitthvað annað, því það hlýtur að vera hverjum manni ljóst að það ástand sem ríkt hefur, ekki bara frá Hruninu, er nýjum kynslóðum ekki bjóðandi.

  Börnin okkar eiga annað og betra skilið en samfélag kolkrabba, smokkfisks, kvótagreifa og spilltra viðskiptamanna, að ógleymdum stjórnmálamönnum sem telja sitt æðsta hlutverk vera að gæta hagsmuna peningaaflanna. Aflanna sem steyptu þjóðinni fram af hengifluginu og eru þess algjörlega vanbúin að gera nokkuð til að mýkja lendinguna – gera ekkert annað en gaspra og stunda lýðskrum.