Nokkrir dagar án Davíðs

13. nóvember 2011

Í kynningu á Bylgjunni á þættinum ,,Sprengisandi” kom fram að rætt yrði við frambjóðendur til formanns hjá Sjálfstæðisflokknum og að þættinum lyki síðan með viðtali við seðlabankastjóra.

Sprengisandur byrjaði á viðtali við Bjarna Benediktsson og hafi hann kæra þökk fyrir, að eftir ótrúlega stutta hlustun tókst honum, vafningalaust, að koma undirrituðum inn í draumalandið. Náði þó að hlusta á byrjunina á viðtalinu og augljóslega hafði hann ekkert nýtt fram að færa þann tíma sem ég náði að hlusta.

Komið var að Hönnu Birnu þegar ritari var kominn til meðvitundar aftur. Byrjaði hún frekar rólega (á sinn mælikvarða), en ekki stóðu þau rólegheit lengi, því áður en varði var hún búin að setja (segulbandið?) á hraða sem augljóslega var talsvert yfir því sem upptakan hafði gert ráð fyrir og að lokum hljómaði hún eins og síbylja. Minnti flóðið á foss sem tekinn hefur verið upp á myndband og er síðan spilaður hratt, eða þá kyrramynd af fossi sem tekin hefur verið á það löngum tíma að vatnsbunurnar renna saman í eitt og mynda samfellt, óslitið flóð. Er það oft fallegt á mynd, en þegar um er að ræða samfellda bunu orða, sem vel að merkja, merkja ekki neitt, en eiga vitanlega að merkja eitthvað, þá kemur þetta ekki vel út. Í orðabununni náði ég þó að greina að frambjóðandinn sagði, í umræðu um Evrópusambandið að það væri eins og ,,brennandi hús” og að í Grikklandi kenndu allir evrunni um hvernig komið væri fyrir grískri þjóð.

Hér er komið að því að maður verður að falla fram og fagna því að hafa náð að greina, þó ekki væri nema eina setningu í bunulæk Hönnu Birnu. Gott hefði verið, ef stjórnandi þáttarins hefði haft rænu á að spyrja, hinn hraðmælta frambjóðanda, af þessu tilefni um hvernig hún vildi þá lýsa ástandinu á Íslandi í samanburði við hið ,,brennandi hús”, sem hún telur Evrópu vera vegna efnahagsástandsins sem þar ríkir. Er það kannski eitthvert misminni, eða martraðarkenndur draumur, að flokki hennar hafi tekist að koma efnahag Íslands í kaldakol og það svo rækilega að landið er búið að vera á framfæri alþjóðasamfélagsins í bráðum þrjú ár. Fyrir nú utan þá skráveifu sem hagsnillingum Sjálfstæðisflokksins tókst að velta yfir á útlendinga í afskrifuðum lánum, sem taldar eru nema a.m.k. 7 til 8 þúsund milljörðum króna.

Varðandi fullyrðingu frambjóðandans um Grikkland, er það að segja að hún er í besta falli ,,Sigmundsk”, því vitanlega er það ekki svo að ,,allir” grikkir kenni evrunni og ESB um hvernig komið er fyrir þjóð sinni. Flestir gera þeir sér vitanlega grein fyrir því að það voru ábyrgðarlaus stjórnvöld Grikklands sem gerði þjóðinni þennan grikk. Að kenna ESB um hvernig fór, er ámóta vitlaust og að kenna slökkviliðinu um eldinn sem það berst við að slökkva. Hugsanlega hefur Hanna Birna ekki mikinn áhuga á að beina umræðunni í þennan farveg, enda voru það íslensk stjórnvöld helmingaskiptaflokkanna sem komu Íslandi þangað sem það er nú.

Þættinum lauk Sigurjón síðan með því að fá til viðtals seðlabankastjórann okkar og var það frekar notalegt, að honum skildi ljúka með upplýsandi viðtali við fagmann eftir hið innantóma gaspur formannskandídatanna tveggja. Liggur við að finna megi til samúðar með væntanlegum landsfundarfulltrúum, að standa frammi fyrir valinu, en kannski þeir skili bara auðu, eins og svo oft áður.

Verksmiðjubú?

20. október 2011

Ritari átti þess kost að fara á fund í fyrradag og hlusta á erindi sem Björn Sigurbjörnsson fyrrv. ráðuneytisstjóri flutti. Fjallaði hann þar um regluverk Evrópusambandsins í landbúnaðarmálum og áhrif aðildar Íslands að sambandinu á íslenskan landbúnað. 

Björn kom með skilgreiningu á hugtaki sem æði oft hefur verið kastað fram í umræðum um landbúnaðarmál, án þess að fyllilega væri ljóst hvað átt væri við með notkun þess, nefnilega hugtakinu ,,verksmiðjubú”. Hélt hann því fram að verksmiðjubú væri búrekstur sem ekki þarfnast landnæðis nema lóðar fyrir húsin sem hýstu starfsemina og tilgreindi Björn sérstaklega alifugla og svínabú í því sambandi sem dæmi um starfsemi af því tagi sem hann væri að fjalla um. 

Ekkert er því til fyrirstöðu að útvíkka þessa skilgreiningu, ef mönnum sýnist svo og gæti þess vegna nær allur búrekstur fallið þar undir. Svo dæmi sé tekið, þá er ekkert því til fyrirstöðu að fá sér mátulega lóð undir fjárhús, eða fjós, hafa skepnurnar inni við fullkomnar aðstæður (engin rigning og rok, hríðarbyljir og hrakningar), kaupa að hey handa þeim og annað sem þær þyrftu með og þar með væri komið hið fullkomna ,,verksmiðju” fjár- eða kúabú. 

Kenningin er sú að ef bóndinn noti ekki nema óskilgreint lítið land undir starfsemi sína þá sé ekki um ,,land-búnað” að ræða heldur ,,verksmiðjurekstur”. Svona tala náttúrulega bara þeir sem lítið vita um verksmiðjurekstur, telja sig vita nær allt um landbúnað og vilja láta í það skína að sumar búgreinar séu á einhvern hátt ,,óhreinar” og að aðrar séu á einhvern hátt þeim æðri og hreinni. 

Sé kenningin skoðuð, kemur í ljós að hún á margt skylt við það sem stundum er haldið fram um að iðnaður sem ekki notar að öllu leiti íslenskt hráefni, sé þar með ekki íslenskur. Var, svo dæmi sé tekið, látið liggja að því í skýrslu sem nýlega var samin á vegum Landbúnaðarráðuneytisins.  

Umræðu af þessu tagi þarf að leggja af, því ef grannt er skoðað, er erfitt að finna verksmiðju sem ekki notast við innflutt hráefni af einhverju leiti og því síður búgrein sem  byggir ekki að meira eða minna leiti á erlendum aðföngum.  

Ekki einu sinni öruggt að framleiðslan á montfæði fyrir sérvitringa sem kölluð er lífræn, fullnægi skilyrðunum ef að er gáð.

Kristján L. Möller telur, sem vonleg er, að rétt sé að virkja í neðri Þjórsá. Hann er raunsæismaður og veit sem er, að hagur íslenskrar þjóðar verður ekki eingöngu bættur með því að bjóða ferðamönnum í fótabað, né pönnukökuát á Bessastöðum.

Atvinnuleysisvofan svífur yfir Suðurnesjum og hefur gert um hríð og því er það að Helguvíkurálversómyndin þarf að fara að komast í gagnið. Það fitnar enginn af því að horfa á beinagrind fyrirhugaðs álvers birtast í fréttamyndum.

Bygging þessa álvers er eins og flestir vita, sem vilja vita, eitt allsherjar klúður. Nær allt hefur farið á annan veg en ætlað var. Eða er ekki svo? Hver var ætlunin og hvert var uppleggið með framkvæmdinni?

Til að byggja og síðan reka álver þurfa nokkrir þættir að koma saman og mynda eina heild. Það hefur ekki gerst.

Svo virðist sem ekki hafi verið gengið frá, nær öllum þeim liðum sem gera þarf, þegar fjárfesting af þessari stærðargráðu er undirbúin. Orka var ekki tryggð, línulögn ekki heldur og á síðustu stundu dúkkaði það upp að ætlast væri til að Ríkið stæði straum af kostnaði hafnarframkvæmda í Helguvík.  

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, virðist trúa því að orkuframleiðsla, ein og sér, skapi arð. Þar veður hann í villu sem oftar, því orka er einskis virði nema einhver vilji kaupa hana. Hvort svo er í raun með Helguvíkurálverið, að þar sé fundinn kaupandi að orku sem er tilbúinn að greiða það sem hún kostar og meira til, er ritara ekki ljóst. Vonandi er það þannig, að ef fjármagn finnst til að virkja, þá sé um raunverulegan kaupanda að ræða. Það segir svo kannski það sem segja þarf um hvernig staðið hefur verið að þessu verkefni að ekki skuli vera fyllilega ljóst hvort svo sé.

Jón Gunnarsson og félagar hafa haft gott lag á að klúðra hlutunum. Þeir klúðruðu hagstjórn íslenska lýðveldisins á þann veg að skráð verður í sögubækur framtíðarinnar og Helguvíkurverkefnið er enn ein rósin í hið víðfeðma hnappagat sjálfstæðismanna.

Sauðir, fuglar hross og svín.

23. september 2011

Grein sem birtist í ,,Sunnlenska fréttablaðinu” 15/9. sl.

Verið er að auglýsa tilboðsverð á lambakjöti hjá verslunarkeðju einni þessa dagana á krónur 998,-  fyrir hvert kíló í heilum skrokkum. Bændurnir sem framleiða þetta kjöt fá í sinn hlut tæpan helming þessarar upphæðar. Þeir eru íslenskir og það eru Bændasamtök Íslands sem gæta hagsmuna þeirra.

Bændur í nágrannalöndum okkar fá nærri því það sama fyrir sinn snúð og það sem verslunarkeðjan býður kjötið á til viðskiptavina sinna, eða um 800,- kr. fyrir hvert kíló.

Enda er viðurkennt af flestum að lambakjöt sé þeirrar gerðar að ekki sé forsvaranlegt að verðleggja það sem einhverja ómerkilega ruslfæðu. Hvort fullyrðingin um að gæði hins íslenska kjöts séu slík að það standi öllu öðru kjöti af sauðkindum í heiminum framar skal hins vegar látið liggja á milli hluta.

Bændur fá ýmsar sporslur frá hinu opinbera til að brúa það bil sem er á milli þess sem þeir fá greitt fyrir innlegg sitt og þess sem þeir raunverulega þurfa til að endar nái saman, en eins og sýnt hefur verið fram á vantar talsvert upp á að sá stuðningur dugi. Þeir ná sem sagt ekki boðlegum launum út úr rekstrinum og eins og einn þeirra orðaði það við undirritaðan: geta hvorki lifað né dáið, því lítið fæst fyrir jarðirnar sé reynt að selja þær og í sumum tilfellum er tæpt á að ná fyrir skuldunum sem á þeim hvíla.

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá að nefna hve mikið ógæfuspor það var að ,,selja” Lánasjóð landbúnaðarins, sjóð sem rekinn var á allt öðrum og að mörgu leiti heilbrigðari grunni en flest sú peningastarfsemi sem stunduð er í dag. Félagslegum grunni, sem hentaði fremur illa í því frjálshyggjuæði sem hér ríkti um tíma og átti að lokum sinn þátt í að svo fór sem fór.

Markaðurinn

Íslenskur markaður er lítill, u.þ.b. ámóta og bærinn Århus í Danmörku. Bændur sem aðrir eru að reyna að lifa á því að framleiða og selja vörur á þessum markaði, en það er vitanlega augljóst að smæðin setur því skorður hve hagkvæm framleiðslan verður. Sauðfjárbændur hafa reynt þá leið að selja hluta af framleiðslu sinni úr landi, en eins og sýnt hefur verið fram á, skilar sú sala ekki því verði sem þarf til að framleiðslan standi undir sér.

Ekki er það sauðfjárræktin ein sem á í vanda á þessum örmarkaði og ýmislegt hefur orðið til þess að gera stöðu búgreinanna enn erfiðari en þurft hefði. Er það ef til vill aðeins  hrossaræktin sem stendur undir sér? Grein sem byggir að stórum hluta á útflutningi og væri sjálfsagt ekki í góðum málum ef eingöngu væri stólað á innanlandsmarkað.

Alifugla og svínarækt hefur á undanförnum árum lent í margvíslegum hremmingum, enda eru þær búgreinar þess eðlis, að fremur auðvelt er að auka framleiðsluna skyndilega og hefur það oft verið gert á undanförnum árum og þá langt umfram þarfir. Oftar en ekki hafa þær kjötbólur verið að undirlagi bankanna, sem bitur reynsla er fyrir að hafa alls ekki haft burði til að byggja ákvarðanir sínar á vitrænum grunni, en talið það að líkindum ,,tæra snilld” að efna til offramleiðslu.

Svínarækt- og alifugla

Undirritaður hefur afar takmarkaða þekkingu á svínaræktinni, en hefur ekki komist hjá því að taka eftir hvernig hún hefur þróast í æ stærri einingar sem fátt bendir til að henti íslenskum aðstæðum. Hvort þar er á ferðinni undirbúningur að framleiðslu til útflutnings í framtíðinni, t.d. eftir inngöngu í ESB er hugsanlegt - og er þá vottur um nýstárlega og nánast óþekkta framtíðarsýn í rekstri landbúnaðar á Íslandi.

Alifuglaræktin er ekki vonarljós í landbúnaðarflórunni, sé miðað við þá stöðu sem hún er í. Ásamt svínaræktinni býr hún við frekar litla innflutningsvernd, en hins vegar eru gerðar til hennar gríðarlegar kröfur um vörugæði m.v. það sem víðast annars staðar gerist. Grunnurinn undir þessari búgrein stendur vægast sagt tæpt og algjörlega vonlaust að grein sem byggir á fóðri sem er 50% dýrara en það sem gerist í nágrannalöndunum og daggömlum ungum til eldis sem eru tvöfalt og í sumum tilfellum þrefalt dýrari en þar gerist, geti staðist erlenda samkeppni.

Framtíðin

Þarf þetta að vera svona? Vitanlega ekki. Ýmislegt er hægt að gera en í þessum pistli verður ekki farið út í smáatriðin hvað það varðar, en margt bendir til, að hugsanlegt væri að efla a.m.k. sumar búgreinarnar á þann veg að þær þyrftu ekki að stóla á styrki, innflutningsvernd og höft. Ísland hefur nefnilega þá sérstöðu að vera til þess að gera einangrað frá umheiminum og með náttúrulega fjarlægðarvörn gegn smitsjúkdómum og það er einmitt þar sem möguleikarnir liggja m.a. Vel má hugsa sér að á Íslandi yrði stunduð framleiðsla á búvörum til útflutnings, til þjóða sem glíma við þéttbýlisvandavanda sem við erum laus við, en til að það sé hægt, þarf að raða spilunum upp að nýju og m.a. taka til í ýmsu því reglugerðarfargani sem séríslenskt er, en halda í það sem gott er og nauðsynlegt.

Vonandi bera bændaforystan og stjórnvöld gæfu til að hugsa málin upp á nýtt, út á við og einnig inn á við, þjóðinni til hagsbóta í komandi framtíð.     

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 24. ágúst 2011. 

Allmikil umræða hefur að undanförnu farið fram um málefni landbúnaðarins. Umfjöllun Þórólfs Mattíassonar prófessors, um landbúnaðarkerfið, sem fram kom eftir að sauðfjárbændur lögðu til að viðmiðunarverð á lambakjöti yrði hækkað um 25% hefur átt sinn þátt í því. Verð á lambakjöti kemur ekki allt fram við búðarborðið og ekki liggur fyrir hve mikið það þyrfti að hækka til að þokkalega lífvænlegt yrði að stunda framleiðsluna, en örugglega umtalsvert meira en það sem sauðfjárbændur lögðu til. Sauðkindin er ekki afurðamikil skepna og því verður lambakjötsverð að vera hátt, enda varan eftirsótt og af flestum talin hátíðar- og hágæðafæða.

 

Styrkir og lausaganga

Styrkjakerfi landbúnaðarins, einkum það sem að sauðfjárræktinni snýr, hefur  verið gagnrýnt og er það eðlilegt, þar sem tæplega er það svo, að búið sé að finna hina fullkomnu lausn í því efni og ef til vill er sá tími liðinn að þjóðin sætti sig við að framleiðslu á matvörum sé haldið uppi með styrkjum, höftum og millifærslum. Gildir þá einu hvort um er að ræða beingreiðslur, gæðastýringarálag, innflutningstolla eða framlög einstaklinga og hins opinbera til girðingaframkvæmda.

 

Svo sem kunnugt er, gengur sauðfé á Íslandi laust og óheft um þær lendur sem því sýnist í langflestum tilfellum og eigendur sauðfjár virðast enga ábyrgð bera á því tjóni sem fénaður þeirra veldur öðrum. Fjárheldar girðingar kosta mikla fjármuni, svo augljóst er að þar liggur mikið ómetið framlag til búgreinarinnar. Framlag sem kemur frá hinu opinbera en einnig þeim sem eru að reyna að verja eigur sínar og ræktun fyrir ágangi sauðkinda, sem enginn virðist bera ábyrgð á.  Framlagið til gæðastýringar, sem talið var upp hér að framan, er svo eitt ómerkilegasta fyrirbrigðið í þessum styrkjaskógi, því upplýst er (m.a. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins) að það hefur lítið sem ekkert með gæðastýringu að gera.

 

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið um styrki og framlög af ýmsu tagi, þá er flestum ljóst að sauðfjárbændur eru ekki að flá feitan gölt og ekki ólíklegt að þeir séu einna verst settir allra bænda hvað tekjur af starfsemi þeirra varðar. Því hlýtur að vera ljóst að finna verður ný úrræði. Finna nýjar leiðir til að tryggja þeim sem sauðfjárrækt stunda þokkalega afkomu og ekki síður góða sátt við samfélagið. Aðferð Bændasamtakanna að telja sér og reyna að telja öðrum trú um, að hér og nú, sé lifað í besta og fullkomnasta heimi allra heima gengur vitanlega ekki.

 

Hagfræði

Í Bændablaðinu sem út kom þann 7. júlí 2011 má lesa - í leiðara - eftirfarandi: ,,Innfluttur matur hefur hækkað um 62% en innlend búvara hækkaði ekki nema um 20%”. Og síðar: ,,..tollvernd [þ.e. ísl. kjötframleiðslu] verndar kaupmátt fólks…” (!). Séu þessar tölur réttar, sem settar eru fram af HB (Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtakanna?), þá sýna þær ljóslega hve illa hefur til tekist að tryggja stöðu bænda í því ölduróti sem gengið hefur yfir íslenskt samfélag undanfarin ár. Hvernig tollverndin virkar á þennan hátt, er hins vegar algjörlega óupplýst. Spennandi verður að fá þær útskýringar sem til þarf til að skilja megi kenninguna, sem samkvæmt þessu, hefur tryggt neytendum ódýrar landbúnaðarvörur, meðan bændur sitja eftir með sárt ennið, horfandi á eignir sínar rýrna og tekjur lækka.

 

Bændur eru neytendur jafnt og aðrir þegnar þessa land.  Því er algjörlega óumflýjanlegt að útskýrt verði hvernig tollun af þessu tagi tryggir hag neytenda. Ef rétt reynist, þá er sjálfgefið að taka verður upp harða tollastefnu á sem flestum sviðum, sérstaklega þegar framleidd er íslensk vara sambærileg þeirri sem tolluð er!

 

ESB fælnin

Ekki er furða þó bændaforystan berji sér á brjóst og þykist hafa gott gert og neiti alfarið að horfast í augu við að komið sé að því að stokka þurfi kerfið upp. Bændur hafa, svo dæmi sé tekið, horft á forystuna ausa fjármunum í pólitísk öfgasamtök eins og ,,Heimsýn” svo ekki sé nú minnst á nýlega bókaútgáfu um ESB,  meðan raunverulegir hagsmunir stéttarinnar eru látnir sitja á hakanum.

 

Ísland hefur sótt um inngöngu í Evrópusambandið og hafnar eru samningaviðræður þar um. Hvort af inngöngu verður eða ekki, ræðst fyrst og fremst af því hvort viðunandi samningur við sambandið næst. Bændasamtökin hafa hafnað þátttöku í því ferli og þar feta þar í spor Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra.

 

Eitt er að stjórnmálamaður leyfi sér að hafa trú, sem gengur framar þjóðarhagsmunum, en að Bændasamtökin geri slíkt er með öllu ólýðandi, þeim ber að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, hvort sem af inngöngu í Evrópusambandið verður eða ekki.

Velferð dýra

28. maí 2011

Grein sem birtist í Bændablaðinu 26. maí.

Að undanförnu hefur farið fram mikil og að mörgu leiti þörf umræða um velferð dýra. Þar hafa farið fremst í flokki, eftir því sem ritari hefur náð að fylgjast með, fólk frá samtökunum Velbú og ýmsir aðrir sem hafa inn í umræðuna dregist. Vonandi eru helst allir þeirrar skoðunar að ekki skuli slakað á varðandi dýravernd og að eftirlit með því að vel sé hugsað um þau dýr sem menn hafa sér til nytja eða ánægju sé í góðu lagi. Þó að umræðan að undanförnu hafi bæði verið þörf og góð, verður að segja það eins og er, að þar hefur einnig borið talsvert mikið á öfgafullum málflutningi og ekki er laust við að firringar hafi að nokkru gætt í framsetningu sumra þeirra sem fremstir hafa farið.

 

Það hlýtur, svo dæmi sé tekið, að teljast firring, þegar því er haldið fram að dýrin sem slík séu höfð á ,,boðstóli neytenda”, að fuglar bæði ,,kúki og pissi” (haldið fram af konu sem titlar sig dýralækni) og að kjúklingar sofi fjórar klukkustundir á sólarhring til að hámarka afköst. Gera má ráð fyrir að um sé að ræða vanþekkingu á því sem til umfjöllunar er. Væri vafalaust betra að viðkomandi kynntu sér málin betur áður en slíkar fullyrðingar eru settar fram. Þær eru ekki til þess fallnar að vinna þeim málstað sem barist er fyrir gagn.

 

Einnig er æskilegt að raunsæi komi að einhverju leiti við sögu þegar verið er að fjalla um þessi málefni. Er það til að mynda raunhæft að gera því skóna að alifuglaungar gangi lausir í íslenskri náttúru og ef menn gefa sér að svo sé: Hvernig á það að koma heim og saman, að fuglarnir tíni upp í sig bakteríur eins og salmonellu og Campylobacter, frjálsir  úti í náttúrunni  og ætlast svo til þess, að þær sömu bakteríur, gufi síðan á óútskýrðan hátt upp þegar fuglunum er slátrað. Vissulega má hugsa sér að íslenskum reglugerðum verði breitt á þann veg að þessar óværur verði heimilaðar í íslenskum vistvænum og lífrænum matvælum, en ef það er það sem menn vilja, þá er best að það komi skýrt og greinilega fram í umræðunni. 

 

Sá sem þetta ritar hefur dálitla reynslu af eldi og ræktun kjúklinga, en hefur auk þess fengist við annan og ,,hefðbundnari” búskap. Var öll sumur í sveit frá sex ára aldri og hefur átt þar heima frá því hann var unglingur. Ekki minnist hann þess að hafa kynnst á þessum tíma bændafólki sem vildi, eða ætlaði sér að fara illa með skepnur, þó auðvitað hafi gerst óhöpp og slys. Ekki hefur það þó verið vegna þess að bændur eða búalið, sem hann hefur kynnst, hafi að yfirlögðu ráði valdið þar um og í þau skipti sem hann man eftir að slíkt hafi gerst hefur viðkomandi venjulega tekið það afar nærri sér.

 

En að því raunhæfa, vistvæna og góða. Það er einlæg skoðun undirritaðs að það sé mannúðlegra, meira í ætt við dýravelferð og almenna skynsemi að sleppa nýklöktum kjúklingum inn í upphituð, rúmgóð, björt, loftræst, hrein og trygg hús, til að ala þá upp í, heldur en að sleppa þeim út harðneskjulega íslenska náttúru þar sem þeir væru berskjaldaðir fyrir nær öllu því sem má hugsa sér að geti orðið þeim að fjörtjóni. Það er ekki velferð, Velbú, né þaðan af síður lífrænt, þar sem ganga má að því vísu, að umrædd dýr, myndu ekki lifa slíka tilraunastarfsemi af. Það er heldur ekki raunhæft að reikna með því að kýr séu ekki hafðar í fjósum, eða a.m.k. við þau og sauðfé verður að reka í réttir að hausti og draga í dilka hvort sem mönnum líkar betur eða ver.

 

Höldum okkur við hið raunhæfa. Það er ekkert sem bendir til þess að mannskepnan hætti í náinni framtíð að halda búfé sér til nytja. Það hefur verið gert frá örófi alda og verður gert um langa framtíð. Förum vel með þann fénað sem haldinn er í þessum tilgangi og búum sem best að honum. Þau sem vilja ekki leggja sér kjöt til munns verða ekki neydd til þess og ekki er vitað til þess að nokkur hafi áhuga á að þröngva þeim til slíkrar neyslu.

 

Við hin sem viljum neyta afurða sem koma af húsdýrahaldi, vitum það afar vel, að bestu afurðirnar koma af fénaði sem vel hefur verið búið að og munum því með vali okkar að nokkru stuðla að góðri meðferð húsdýranna.

Venjulegt íslenskt fólk

13. apríl 2011

  Ritari hlustaði á Kristinn R. Ólafsson flytja ágætan pistil í síðdegisútvarpi Rásar 2 þann 12. apríl sl. Í pistlinum flutti hann þýðingu sína á grein sem Guðbergur Bergsson rithöfundur, hafði skrifað og fengið birta í spænskum vefmiðli. Best væri að Guðbergur snaraði greininni yfir á íslensku til að við landar hans gætum notið hennar til fulls, þ.e. þau okkar sem ekki eru í færum til að skilja spænskuna. Þá væri einnig æskilegt að þau sem vegna, þjóðrembu, stærilætis eða sannfæringar um að við Íslendingar séum öðrum þjóðum fremri í siðferði og öðrum góðum eiginleikum, hefðu það fyrir reglu að lesa grein Guðbergs fyrir svefninn sem flest kvöld næstu mánuði. Ekki síst forseti lýðveldisins (ekki stórveldisins) Íslands.

 

Að afloknum kosningum um Icesave-samninginn hefur farið af stað afar fjörug umræða sem er þeirrar gerðar að helst verður líkt við hið bágborna ástand sem komast má í eftir harða drykkju.  Einna verst virðast þeir vera haldnir sem mest létu á sér bera í aðdraganda kosninganna, í þeim tilgangi að ná því fram að samningurinn yrði felldur. 

Þau sem börðust fyrir því fengu sitt fram og ef allt væri með felldu væri ekkert óeðlilegt við það að fagnaðardansinn væri stiginn dag sem nótt með forseta lýðveldisins Íslands í broddi fylkingar.  

En það er ekki svo. 

Annað blasir við og engin sérstök ástæða að undrast það. Skömmin yfir að hafa orðið þess valdandi að samningurinn var felldur á grundvelli þjóðrembu og hroka, að ógleymdu því margnefnda ,,prinsippi” að ekki skuli greiða skuldir sem ,,aðrir” hafi stofnað til. Það er svo önnur saga, að þau sem hanga í þessu ,,sippi”, eru vitanlega alla daga að borga skuldir sem aðrir hafa stofnað til, hvort sem þeir eru kallaðir ,,óreiðumenn” eða ekki.  

Vanlíðanin er orðin slík að við hin sem mæltum með því að greitt væri atkvæði með JÁ- inu erum nú beðin þess lengstra orða að gera allt sem hægt er, til að það komi nú allt eins gott og mögulegt er, út úr klúðrinu sem þjóðin er búin að koma sér í, fyrir tilverknað sjálfumglaðs og sjálfhverfs Bessastaðabóndans. Nú eigum við sem sé að standa saman sem ein heild! Hefði mátt leiða hugann að því fyrr. 

Svo er komið að einn af talsmönnum NEI- afstöðunnar, Brynjar Níelsson hrl, heldur því nú fram að: … ,, Í lífinu er alltaf einhver áhætta og við getum sennilega öll verið sammála um að við getum aldrei vitað hvor leiðin er hagfelldari fyrir okkur”.  

Annað hljóð í strokknum en fyrir kosningar því þá skrifaði hann ásamt nokkrum starfsbræðrum sínum undir svohljóðandi texta: ,,Þær vita [Hollendingar og Bretar] að þær munu ekki ná fram kröfum sínum á hendur íslensku þjóðinni nema hún taki á sig skuldbindingar til að greiða með samningi.”

  Eitt í dag en annað á morgun. Nú er því svo haldið fram, bæði af forsetanum og fjármálaráðherranum o.fl., að allt verði greitt sem Bretar og Hollendingar eigi rétt á að fá.

 

Til hvers var þá kosið? Hví var ekki sagt já við samningnum? Er ef til vill eitthvað sem er hulið og ósagt  í þessu ferli öllu saman? Á leikurinn með fjöregg þjóðarinnar engan enda að taka?

Ekki af baki dottinn

6. apríl 2011

Grein sem birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

  Fjöregg íslensku þjóðarinnar er á flugi, líkt og bolti í blaki. Kastast af einum á annan í einhverskonar óreiðukenndum leik sem enginn veit nákvæmlega hvernig byrjaði né heldur hvers vegna er stundaður. Þeir vita það ekki heldur leikmennirnir, sem keppast við að halda egginu á lofti, en vita þó, að ef þeim tekst ekki að halda fjöregginu á flugi, þá fer illa. Þeir vita þetta allir sem leikinn stunda utan einn, þ.e. sá sem  ekki virðist mega til þess hugsa að honum ljúki. Vegna þess, að hann telur sér trú um að ef svo fer að eggið falli mjúklega til jarðar óskemmt og óbrotið muni ljósið - sem hann telur sér trú um að á hann skíni - dofna. Að hans áliti snýst tilveran nefnilega um, að hinn stórkostulegi og einstæði persónuleiki hans njóti sín. Annað skiptir máli.

 

Oft hefur hann lent í hremmingum og stundum fallið, en ávallt staðið upp aftur. Beðið um tilfinningalegt svigrúm og fengið, en nú þarf hann ekki á neinu slíku að halda. Nú er það þjóðin sem kaus hann sem þarf á svigrúmi að halda, því það er jú fjöreggið hennar sem leikmennirnir eru að basla við að halda óbrotnu eftir að þessi eini varpaði því í loft upp. Nú fylgjast þegnarnir með því - ekki í tilfinningalegu svigrúmi - heldur tilfinningalegu losti; hvort takast muni að halda fjöregginu óbrotnu.  

Á ýmsu hefur gengið og þrisvar hefur hann sagt nei og alltaf hefur hann fundið jafn mikið til sín. Fundið fyrir því að hann getur enn látið til sín taka. Á sínum tíma gerði hann á sér fáheyrða persónuleikabreytingu til þess að komast þangað sem hann er. Honum var það svo ótrúlega auðvelt og ekki spillti fyrir að keppinautarnir voru ekki æfðir í slíkum umskiptum.  Ekki spillti það heldur fyrir að mesti andstæðingur þess að hann kæmist þangað sem hann er núna kunni sér ekki hóf í baráttunni. Kannski hefði sá með hrífuna (eða var það sópur), haft hann í slagnum, ef hinn voðalegi fyrrverandi þetta og hitt og núverandi ritstjóri blaðs sem er við það að hverfa, hefði ekki beitt sér eins og hann gerði. 

Örlögin hafa sem sé hagað því svo, að nú eru þeir orðnir samherjar, félagar í andanum, á móti framtíðinni en ekki fortíðinni. Fortíðin er nefnilega að beggja áliti bara nokkuð góð, enda báðir komnir af léttasta skeiði og farnir að sjá liðna tíð í ljóma. Ekki er þó víst að þeir deili með sér ást og hrifningu á þjóð drekans. Þannig er að annar dýrkar drekann í austri en hinn í vestri og þannig bítur hvor í skottið á öðrum, svona líkt og hvernig fólk getur sameinast í félagsskapnum Heimsýn, sem nær víst er að báðir hafa hlýjar taugar til. 

En hann er ekki af baki dottinn, öðru nær, enda nóg komið af slíku og nú er stefnan tekin á að halda sig á baki þjóðarinnar og hún er nú þekkt af öðru en því, að hrista af sér sína bestu syni. Annað hvort væri það. Þjóðin sem þolað hefur móðuharðindi, hafísár og frostavetur fleiri en tölu verður á komið. Að ógleymdum landflótta sem hún hefur svo mikla reynslu af, bæði fyrr og nú. 

Það er reynsla kemur þjóðinni vel núna, þegar hin ólíku og þó svo undarlega líku öfl taka höndum saman og þá ríður á að tekin sé ábyrg afstaða í alvarlegu máli sem snertir framtíð þessarar þjóðar. Á hún að skríða inn í skel og neita að horfast í augu við raunveruleikann, eða takast á við tilveruna eins og hún kemur fyrir. Reisa skjaldborg, bíta í skjaldarrendur og segja nei, eða horfa fram á veginn, byggja upp framtíð fyrir komandi kynslóðir og segja ,,JÁ”.

Hvort ætli sé nú betra, að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og stefna fram á við, eða gera ráð fyrir að hægt sé að éta skildina, sem er hvort eð er búið að bíta í, þegar búið er að valda tjóni með gömlu íslensku þrjóskunni.       

  Samkvæmt því sem lesa má um í Fréttablaðinu verður hið íslenska landbúnaðarkerfi sett í frysti, þar til svo er komið að þjóðin er búin að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið. Inngangur fréttar Vísis er svohljóðandi: ,,Samninganefnd Íslands kynnir íslenskt landbúnaðarkerfi og sérstöðu þess fyrir samninganefnd ESB á rýnifundi í Brussel í dag”. Ástæður þessa eru sem kunnugt er afstaða Bændasamtaka Íslands til ESB- umsóknarinnar, ásamt einlægri hrifningu landbúnaðarráðherra á því millifærslukerfi sem við líði er í landbúnaðinum.  Á sínum tíma þótti það nokkuð sérstakt þegar Framsóknarflokkurinn fór fram með þá stefnu að rétt væri að Ísland gengi inn í ESB, en þó með því skilyrði að það yrði í raun þannig að Evrópusambandið gengi inn í Ísland. Nú er stefnan tekin á að Evrópusambandið tileinki sér íslensku peningaveituna sem fundin var upp fyrir íslenskan landbúnað.

Ómissandi ráðherra

  Ögmundur Jónasson hélt því fram í viðtali á Bylgjunni síðastliðinn laugardag að Jón Bjarnason væri ómissandi sem ráðherra og því mætti ekki halda áfram þeirri tiltekt sem hafin er í æðstu stjórnsýslu með fækkun ráðuneyta. Í sama viðtali hélt Ögmundur því einnig fram að úrganga hans úr ríkisstjórninni á sínum tíma, þegar hann var heilbrigðisráðherra, hefði verið gerð til að bjarga stjórninni. Þar með liggur það ljóst fyrir að allar hugmyndir um að skýringin hafi verið sú að hann hafi ekki haft kjark til að takast á við þau niðurskurðarverkefni sem við blöstu í hinu útgjaldaafreka ráðuneyti standast ekki. Jafnframt hlýtur að mega draga þá ályktun af þessum yfirlýsingum ráðherrans að endurkoma hans í ríkisstjórnina sé hreint ekki til þess gerð að koma henni til bjargar og líklegra verður að teljast að endurkoma Ögmundar sé alls ekki til þess hugsuð.

   Það er kunnara en frá þurfi að segja að ástandið í Vinstri græna flokknum er óbeysið og á stundum engu líkara en að flokkurinn sé aðeins regnhlífarsamtök fyrir fólk sem ekkert á sameiginlegt annað en að geta ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana vilja tveir þriðju hlutar flokksmanna ljúka viðræðum við ESB, samt er það stefna flokksins að þangað höfum við ekkert að sækja. Formaðurinn flokksins sér ekki sólina fyrir íslensku krónunni og á það sameiginlegt með Heimssýnarhópnum. Hvorki hann, né hópurinn sá, vill Ísland í ESB og hafa þau helst bent á þá lausn á augljósum vanda í íslenskri hagstjórn, að landið verði einhverskonar fylgiríki Noregs. Framsóknarforingjar hafa verið talsvert hallir undir þessar hugmyndir og ógleymanlegur er betlileiðangur þeirra Sigmundar Davíðs og Höskuldar til Noregs á sínum tíma. Frá Noregi berast þær fréttir að ríkidæmið sé búið að
gera þessa nágranna okkar svo viti firrta að þeir telji að hamingja og velferð norsku þjóðarinnar felist helst í níðingshætti gagnvart þeim sem ekki eru fæddir undir norskri sól. 

Framtíð þjóðar

  Forseti íslenska lýðveldisins hefur hins vegar þann háttinn á, á milli þess sem hann dundar sér við að hengja krossa á fólk fyrir að vinna vinnuna sína og tala af sér í viðtölum við erlenda fjölmiðla, að mæna bláeygur til Kína. Þangað vill hann sækja framtíð þjóðar sinnar enda eru kínversk stjórnvöld, eins og alkunnugt er, fremst í flokki þeirra sem virða mannréttindi og tjáningarfrelsi. Sannaðist það vel við afhendingu Nóbelsverlaunanna á dögunum þar sem stóll Nóbelsverðlaunahafans stóð auður, vegna þess að kínversku mannvinirnir sáu sér ekki fært að leysa hann úr haldi.

  Þeir eiga sitthvað sameiginlegt fjandvinirnir Davíð og Ólafur, þegar að er gáð. Báðir eru t.d. einlægir andstæðingar inngöngu í ESB. Hádegismóabóndinn virðist vilja að þjóðin loki sig af frá samfélagi þjóðanna en félagi hans frá Bessastöðum vill, sem fyrr segir, helst af öllu flytja Ísland til Asíu. Báðir eiga þeir það svo sameiginlegt að þekkja ekki sinn vitjunartíma, annar búinn að leika klappstýru fyrir útrásarvíkinga, en hinn yfirgaf sem kunnugt er Seðlabanka Íslands gjaldþrota.

Dýralíf

6. janúar 2011

  Að undanförnu hefur verið hægt að fylgjast með sálarástandi vinstri- grænna nánast í beinni útsendingu, bæði í útvarpi allra landsmanna, sem og öðrum fréttamiðlum. Undanfari þessarar einstöku opinberunar á þrætubókarsnilli og þvergirðingshætti hefur verið miklu lengri en kemur fram í fréttum, það er allar götur aftur til þess þegar nokkrir vinstri flokkar voru sameinaðir í þeim sem í dag heitir Samfylkingin. Eftir sátu þau sem töldu sig vera það langt til vinstri að þau gætu ekki undir nokkrum kringumstæðum tekið þátt í að starfa í stórum flokki þar sem sjónarmið jafnaðarmanna væru ríkjandi.

  

Hápunkti hinnar vinstri- grænu sálarkreppu virðist hafa verið náð á fundi í gömlu Morgunblaðshöllinni við Aðalstræti (hvar annarstaðar!). Fundi þar sem allir fimmtán þingmenn flokksins, eða flokkanna eftir því hvernig er á það litið, komu saman til að ræða það sem þau kalla skoðanaágreining. ,,Ágreiningur” er reyndar sérgrein Vinstri- græna flokksins eins og flestum mun vera kunnugt um sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum. Þar á bæ virðist það vera þannig að ef einhver mál koma upp sem taka þarf afstöðu til, að þá er fyrst af öllu kannað hvort ekki sé hægt að finna einhvern góðan flöt á því að ,,vera á móti” í málinu. Síðan er lagst í allskyns umræður og vangaveltur um málið og ekki linnt látum fyrr en gott ráð finnst til að geta verið því algjörlega andsnúinn.   

Það mun hafa verið vegna þessara eiginleika samstarfsflokksins sem  forsætisráðherra greip til þess að líkja því við ,,að smala köttum” að fá þingmenn VG til að taka þátt í atkvæðagreiðslu á ábyrgan hátt. En eins og flestum er ljóst þá hefur ábyrgðartilfinningin þróast upp í andhverfu sína hjá æði mörgum hinna vinstri- grænu hugsjónaberserkja. Því er það, að það sem flestum öðrum finnst sjálfsagt og rétt að gera, verður í þeirra huga það sem alls ekki má með nokkru mögulegu móti taka þátt í.  

Hér er um að ræða gamlan og gróinn kvilla sem margur hefur þurft að fást við. Hefur lausnin oft á tíðum falist í því að koma því inn hjá viðkomandi: að eitthvað þurfi að gera á þennan veginn eða hinn, hætta síðan ekki fyrr en hann er farinn að halda að honum hafi sjálfum dottið þetta í hug og er þar með orðinn heltekinn af hugmyndinni og í framhaldinu berst fyrir henni af mikilli elju. Þetta getur á stundum verið afar tímafrekt ferli eins og allir þekkja sem tekið hafa þátt í, en er oftar en ekki farsælt þegar átt er við einstaklinga sem eru haldnir þöngulhugsun og þvergirðingshætti.  

Vitanlega er ekki raunsætt að gera ráð fyrir að í ríkisstjórnarsamstarfi geti hlutirnir gengið fyrir sig með þessum hætti að öllu leyti, þó stundum geti þurft að grípa til slíkra ráða. Það verður þó að vera í algjörum undantekningartilfellum, því gera verður þá kröfu, að fólk sem situr á Alþingi og heldur um stjórnartaumana, sé að mestu leyti í þokkalegu standi.  

Af þessu má auðséð vera að stjórnarsamstarf við stjórnmálaflokk af þeirri tegund sem VG er getur ekki gengið nema í afar stuttan tíma, því eftir alveg ótrúlega stutta setu fara böndin að trosna. Þau bönd sem í raunverulegum stjórnmálaflokkum halda fólki saman þó ágreiningur komi upp um einstök atriði: hina sameiginlegu sýn flokksmanna á hvert stefna skuli. 

Þessu er ekki fyrir að fara hjá VG og því má ljóst vera að á þau verður ekki hægt að byggja stjórnarsamstarf til lengri tíma. Það nöturlega við stöðuna í íslenskum stjórnmálum nú um stundir er hins vegar það, að ekki er svo að sjá að hinir þverklofnu stjórnarandstöðuflokkar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu í nokkru standi til að koma að stjórn landsins.

  Af þeirri ástæðu situr þjóðin uppi með það að hafa í ríkisstjórn fólk sem engin sanngirni er að líkt sé við húsdýr, því þau eiga það bara alls ekki skilið.