Nú líður að kosningum, frambjóðendur eru óðum að koma fram, kynna sig og hvað þeir standa fyrir og þá finnst mörgum eflaust spennandi að fylgjast með því hverjir núverandi þingmanna taka þá ákvörðun að draga sig í hlé frá þingstörfum. Sumra verður saknað en brottför annarra fagnað eins og gengur. Þar sýnist sitt hverjum.

Undirritaður hefur hugleitt dálítið hvað það sé helst sem móti afstöðu hans til þess hvort hann geti tekið eindregna afstöðu með eða á móti því fólki sem telur sig vera til þess bært, að taka sæti á Alþingi. Best af öllu telur hann vera að viðkomandi komi fram af einurð og hreinskilni, sé málefnalegur, sé ekki markaður af hagsmunagæslu og dragi ekki fjöður yfir það sem segja þarf.

Þess vegna er t.d. ekki hægt að lýsa yfir stuðningi við frambjóðendur í kosningum til Alþingis sem hafa lýst því yfir að þeir vilji hætta samningum við ESB og treysta sér ekki til að ganga til þess verks að ljúka stjórnarskrármálinu á þann veg að þjóðin verði eftir það með sæmilega stjórnarskrá. Er s.s. að því eð virðist, alveg sama um framtíð komandi kynslóða og vilja hjakka í sama farinu og verið hefur til þessa.

Það er einnig ómögulegt að styðja til þingsetu fólk sem unnið hefur að lausn Icesave- málsins af óheilindum og þekkist af því, að nú er það kvíðafullt vegna dómsmálanna sem það hefur kallað yfir þjóð sína.

Einnig getur verið örðugt að finna ástæðu til að styðja til þingsetu fólk sem haldið hefur því fram að ekki eigi að virkja Þjórsá, svo dæmi sé tekið og stokkið hefur upp á nef sér vegna flutnings á ógæfufólki frá Sogni að Kleppi; tekið þar með ímyndaða atvinnuhagsmuni fram yfir hagsmuni þeirra sem minna mega sín.

Þá er líka afar vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að fylgja þeim að málum sem tortímt hafa Lánasjóði landbúnaðarins, undir því yfirskini að bæta ætti stöðu Lífeyrissjóðs bænda, en ráðstöfuðu síðan fénu til annarra hluta eins og t.a.m. reiðhalla hist og her út um land.

Stjórnmálamenn sem hafa það á samviskunni að hafa barist fyrir byggingu Landeyjahafnar, Héðinsfjarðarganga og tveir plús tveir vegi milli Reykjavíkur og Selfoss hafa tæpast sýnt að þeir séu hæfir til að fara með fjármuni þjóðarinnar.

Það er heldur ekki verjandi að binda trúss sitt við fólk sem býður sig til forystu í samfélaginu og hefur helst af öllu talið það til nauðsynja að skuldbinda ríkissjóð vegna Vaðlaheiðarholunnar, sem þáverandi fjármálaráðherra hafði þó dug til að setja þau skilyrði, að málið stendur um þessar  mundir blessunarlega fast. Vonandi að svo verði, a.m.k. þangað til að þarfari verkefni finnast ekki.

Glórulitlar hugmyndir um uppbyggingu á spítalaferlíki við flugbrautarenda í Reykjavík eru heldur ekki traustvekjandi, koma til með að kosta óhemju fjármuni og hefur ekki verið sýnt fram á, að séu heppileg lausn á húsnæðisvanda Landspítalans og ef lausnin felst í rými, þá er staðsetningin í öllu falli augljóslega röng.

Til eru þeir ,,stjórnmálamenn“ sem halda því fram að hægt sé að gera svo öllum líki, láta eins og ríkissjóður sé yfirfullur af fé, enda hafi bara orðið eitthvað sem þeir kalla ,,svokallað hrun“.  Þeim er vitanlega ekki treystandi, þegar við vitum öll að raunin er allt önnur.

Hins vegar eru sem betur fer til áhugafullir stjórnmálamenn sem segja hlutina hreint út og hafa kjark og þor til að sleppa skruminu, falsinu og fláræðinu og taka þá áhættu sem í því felst að segja sannleikann. Vilja stefna fram á veg en ekki standa í stað. Segja sem satt er að við erum með æði margt niður um okkur sem þjóð og verðum að horfast í augu við þá staðreynd.

Slíkt fólk er hægt að styðja til forystu til að vinna að því verkefni að koma þjóðinni út úr erfiðleikunum og horfa til framtíðar vitandi að ef rétt er á málum haldið þá eru tækifærin til staðar; fleira til en fiskur, feitt kjöt og ferðafólk.

Við eigum vissulega góða framtíðarmöguleika ef tækifærin eru nýtt, í stað þess að standa í tilgangslausu þrefi um keisarans skegg. Hættum að telja okkur trú um, að, að okkur sé sótt af einhverjum utanaðkomandi vondum útlendingum, þeim hinum sömu og menn vilja samt allt til vinna að fá sem ferðamenn til landsins, í þeirri von að frá þeim hrjóti molar í okkar botnlausu hít.

Það hefur verið plagsiður stjórnmálamanna okkar að einblína, í hvert sinn, á einstök afmörkuð markmið: Síld, sauðfjárrækt, orkufrekan iðnað, ref, mink, fiskeldi, fjárplógsstarfsemi og nú í seinni tíð ferðamennsku. Allt ágæt verkefni (fyrir utan fjárglæfrastarfsemina), en afleitt ef ekki er hugað að nema einu þeirra hverju sinni.

Komum okkur upp úr hugsunarhætti gullgrafarans sem telur sér trú um að hann geti orðið ríkur, fljótt og örugglega og strax og þá mun okkur vel vegna.

,,hvergi betra”

2. ágúst 2012

Formaður Framsóknarflokksins skrifar gein í ,,Fréttablaðið“ í dag sem enginn er áhuga hefur á stjórnmálum ætti að láta framhjá sér fara. Hann kemur víða við og gullkornin hrynja úr penna hans hvert um annað þvert, glæsileg, glóandi og afar upplýsandi fyrir alla sem þolinmæði hafa til að lesa.

Hann telur vanda Evrópusambandsins vera evrunni (þ.e. ,,árinni“)að kenna.

Velgengni Íslands er, að hans mati, þrátt fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Óskilgreind ,,tækifæri Íslands“ meiri en líklegt sé að nokkurt  annað  land geti af státað.

Hann telur sig vita um stjórnmálamenn sem telji að íslenska þjóðin eigi: ,,enga framtíð nema almenningur tæki á sig hundruð milljarða króna skuldir fallinna banka og landið gengi svo í Evrópusambandið.“

Að þessu sögðu lýsir hann því hve vont sé, að umræðan snúist um að hagvöxtur hafi aukist og atvinnuleysi minnkað og er það að vonum þar sem það passar fremur illa inn í þá mynd sem hann reynir að draga upp.

Það er mat formannsins að batnandi gengi Íslands sé íslensku krónunni (enn er það ,,árin“ sem er gerandinn) að þakka. Hún er að mati Sigmundar bjargvætturinn sem okkur bjargar þegar á þarf að halda.

Við hin vitum í hverju björg krónunnar er fólgin: Nefnilega eiginleikanum til að (gengis)falla með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenn kjör og stöðu lána, jafnt almennings sem fyrirtækja.

Rétt er það hjá Formanninum að íslenska krónan býður uppá afar góða möguleika til peningaflutninga frá einum þjóðfélagshópi til annars. Það þykir honum líkast til góður kostur.  

Eftirfarandi setning fyrirfinnst í greininni og verður hún að teljast einkar vel lýsandi fyrir hve ,,glögga“ sýn maðurinn hefur á veruleikann: ,,Öllum brögðum og öllu afli stjórnvalda hefur verið beitt við að færa skuldir gjaldþrota fjármálafyrirtækja yfir á almenning.“ 

Hafa verður í huga að hér tjáir sig maður sem stefnir á stöðu forsætisráðherra og einnig að fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins, a.m.k. flestir, hafa reynt að halda sig nokkurn vegin réttu megin í meðferð sannleikans.

Að mati mannsins er ísl. krónan ekki með öllu gallalaus (svo!) og í framhaldinu kemur þetta:  ,,Sá stærsti birtist í stökkbreytingu á skuldum íslenskra heimila vegna verðtryggingarinnar“

Sé rétt munað, var verðtrygging lána tekin upp til að forða bönkum og fjármálakerfinu frá þroti og það var gert er Framsóknarflokkurinn sat við stjórnvölinn.

Var það kannski, að mati Sigmundar,  vesöl og ræfilsleg tilraun til að gera hið ómögulega þ.e., að hafa stjórn á hagkerfi lítillar þjóðar sem tæpast hefur burði til að stjórna sjálfri sér, hvað þá heiminum öllum eins og vonir stóðu til er fyrrverandi stjórnvöld (Framsóknar og Sjálfstæðisflokks) vildu fá fulltrúa í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Lokaorð greinarinnar eru: ,, verður hvergi betra að búa en á Íslandi.“ Bessastaðabóndinn gæti verið ánægður með stóryrðisrembu af þessu tagi, þó engin ástæða er til að efast um að gott getur verið að búa á Íslandi.

 ,,hvergi betra“ er hins vegar  innantómur þvættingur sem að engu er hafandi, aðeins dæmi um hugsunarhátt sem átti stóran þátt í því að við fórum fram af brúninni í hinu margnefnda Hruni.

Mál til að læra af?

24. apríl 2012

Er hægt að fá sig til að hlæja að því þegar dómur er kveðinn upp yfir manni fyrir eitthvert brot sem hann er talinn hafa framið? Varla. En ef hinum dæmda finnst dómurinn vera sprenghlægilegur? Er þá hægt að hlægja og samgleðjast honum yfir að hafa verið svo einstaklega heppinn að hafa hlotið dóm? Tæplega.

Í gær var kveðinn upp dómur í Landsdómi sem höfðaður var gegn fyrrverandi forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar. Hinn dæmdi lét þau orð falla, af því tilefni, að dómurinn væri hlægilegur; frekar óvenjulegt að dæmdir menn tjái sig með þessum hætti, en það gerði hann og hafði vitanlega fullan rétt til þess.

 Þó það nú væri, ekki hafði verið dæmt af manninum tjáningarfrelsið, ekki tilfinningahitinn og ekki heldur trúverðugleikinn gagnvart stjórnmálaflokknum sem hann var fulltrúi fyrir. Hann var eingöngu dæmdur fyrir að hafa sýnt andvaraleysi gagnvart hættu sem steðjaði að þjóðinni sem hann var í forsvari fyrir. Það var nú allt og sumt.

 Að sögn hins dæmda, var hefð fyrir því sem hann gerði, eða öllu heldur gerði ekki og því afar ósanngjarnt að vera að dæma nokkurn mann fyrir það. Sinnuleysi stjórnenda er sem sé hefðbundið og þar af leiðir, að það er sjálfsagt og eðlilegt og algjörlega ástæðulaust, að vera að fjargviðrast yfir því þó hefðinni sé haldið við.

Flestum finnst innst inni líkast til að Geir H. Haarde sé hinn mætasti maður; ljúfur og notalegur persónuleiki sem gott hljóti að vera að eiga að vini og það er hann örugglega. Ekki ástæða til að efast um það. Á honum var ekki að heyra að dómararnir sem dóminn kváðu upp væru neinir vinir hans. Hafi þeir verið það áður, þá eru þeir það tæpast nú. Frekar  að um væri að ræða pólitíska úlfa í dómarahempum, sem notað hefðu tækifærið til að koma pólitísku ,,klámhöggi“ á hann. Það getur varla talist trúverðug greining  á niðurstöðu dómsins, en mun víst verða úr því skorið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Fari svo að málið fari í þann farveg er því vitanlega ekki lokið og verður þá enn ein sagan endalausa fyrir okkur Íslendinga til að fylgjast með um ókomna tíð. Gott til þess að vita að við höfum það til að una okkur við á komandi síðkvöldum? Held ekki.

Best af öllu hefði vitanlega verið að málið hefði aldrei orðið til. Frjálshyggjuruglið hefði aldrei orðið að veruleika, Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið eðlilegur lítill smáflokkur eignaaðalsins í þjóðfélaginu, Framsóknarflokkurinn fyrir nokkru útdauður og kominn á safn sögunnar og að aðrir stjórnmálaflokkar þessa lands hefðu starfað af heilindum og að heill þjóðar sinnar án þess að vera sífellt að deila um keisarans skegg.

Þetta er ekki staðan og um það þarf því vart að ræða. Stór hluti þjóðarinnar trúði og treysti forystumönnum flokkanna tveggja fyrir fjöregginu og því fór sem fór. Landið varð nánast stjórnlaust og allskyns óvandaður lýður fékk tækifæri til að láta greipar sópa um allar helstu eigur þjóðarinnar sem voru skrældar innan þar til fátt eitt var eftir annað en hismið eitt.

Björn að baki Kára

13. apríl 2012

Eins og kunnugt er þá er komin upp sú staða að ESA hefur stefnt Íslandi vegna Icesave skuldbindinganna. Mál þetta hefur verið afar umdeilt meðal þjóðarinnar og síðast fór svo að um 2/3 hlutar alþingismanna samþykktu samning sem kenndur var við samningamanninn Lee Buchheit.Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þingsins fór svo að bóndinn á Bessastöðum ákvað að staðfesta ekki lögin og vísaði þeim til þjóðarinnar. Meirihluti hennar, með menn eins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Ögmund Jónasson ásamt fleirum í forystu, ákvað síðan í atkvæðagreiðslu að fella lögin og þar með samninginn. Þegar þar var komið mátti greina talsverðan óróa í liðinu sem að þessu hafði staðið og nú var talað um það af talsverðrum fjálgleik, að svo væri komið að nú yrði þjóðin að standa saman gegn hinu erlenda valdi sem að henni myndi sækja í framhaldi af höfnuninni.Þau sem helst hefðu óskað þess að samningurinn hefði verið samþykktur féllust flest á það; að úr því sem komið væri yrði að gera það besta sem unnt væri og vinna úr þeirri stöðu sem upp væri komin á þann veg sem vit og geta leyfði. Fyrrverandi efnahags og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason gekk síðan í að vinna málstað Íslands brautargengi og stóð sig svo vel í því verki, að er honum var fórnar í ráðherrakapli, þá voru það ekki síst þingmenn stjórnarandstöðunnar sem töldu óráð að víkja honum úr ríkisstjórninni, sem það vitanlega var.Einu hafði gilt hve margir vísir menn vöruðu við höfnun samninganna og hve mikið reynt var að beita skynsamlegum rökum til að fá fólk til að greiða atkvæði um þá á vitlegan hátt til að koma málinu út úr heiminum. Máli sem hangið hafði yfir þjóðinni eins og Demoklesar sverð, allt frá því að ógæfuliðið sem stjórnaði Landsbankanum eftir einkavinavæðinguna, stofnaði til innistæðureikninga með hinu lokkandi nafni Icesave. Allt kom fyrir ekki, samningurinn var felldur og auðséð sem fyrr segir að mörgum þeim sem kokhraustastir höfðu verið var brugðið, ekki síst formanni Framsóknarflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.Hafi Sigmundi verið brugðið þá, er honum verulega brugðið nú og framsóknarforinginn  er búinn að finna sér vindmyllu til að takast á við, en vopnabúnaðurinn er ámóta bitlaus og ryðgaður og hjá fyrirmyndinni. Fyrirmynd Sigmundar var hugumstór, tefldi hiklaust á tvær hættur og hikaði hvergi. Framsóknarforinginn hefur ekki þá eiginleika til að bera og kann hugsanlega betur við sig í tryggu skjóli. Hetjur íslenskrar fortíðar brugðust ókvæða við ef að þeim var veist, hjuggu þá mann og annan, ýmist í herðar niður eða hausar voru látnir fjúka. Þá þótti og gott að naga skjaldarrendur og orga kröftuglega með skælum, en ekkert slíkt stendur til hjá Sigmundi D. Gunnlaugssyni, því nú er úr honum allur móður og í því standi kann hann bara eitt ráð, kalla á hjálp, klaga og hanga í pilsfaldi ef ekki földum. Aumara getur það tæpast orðið. Hann er einfaldlega ,,búinn á því“, blaðran er sprungin, samanskroppin og vesöl.Hann er fúll út í ESB, það er reyndar ekkert nýtt. Það sem er nýtt í málinu, er að maðurinn sem talaði fyrir svo ótrúlega stuttu síðan af myndugleika um að best af öllu væri að málið yrði afgreitt fyrir dómstólum, er þegar að því kemur að það verði gert hræddur og þá hamast í honum litla framsóknarhjartað.Vitanlega er maðurinn hetja að vera formaður í því sem eftir er af því sem einu sinni var Framsóknarflokkur. Eða hvað?  Hugsanlega er ekki með öllu vonlaust að flokkurinn komist aftur að kjötkötlunum og geti þá tekið til við fyrri iðju, ef til vill með hinum helmingaskiptaflokknum Sjálfstæðisflokknum. Verði þá eitthvað eftir af eigum þjóðarinnar, gæti hugsanlega verið hægt að sölsa eitthvað pínulítið af því undir hinn víða pilsfald maddömunnar ef lukkan verður með í för. Til þess eru líkast til hrútarnir skornir.

Virkjanir í Þjórsá

22. mars 2012

Grein sem birtist á Vísir.is og í Sunnlenska fréttablaðinu í vikunni: 

Það var stórt skref í sögu mannkynsins þegar því tókst að beisla eldinn og hefur þeim sem það gerðu tæplega órað fyrir hve stórt skref var þar með búið að stíga til framþróunar. Sama má segja um þegar mönnum tókst í fyrsta sinn að virkja orku rennandi vatns, hvort heldur sem var til að framkvæma vinnu, eða til að hafa stjórn á hvernig það rynni um jörðina sem þeir voru að yrkja. Þannig hefur það alla tíð verið, frá því maðurinn náði þeim áfanga að smíða sér fyrstu verkfærin, að eitt hefur rekið annað á framfarabraut: Orka beisluð hvort sem fólst í rennandi vatni, blæstri vindanna eða skini sólarinnar, en þaðan er vitanlega öll sú orka komin sem beisluð hefur verið, þó að í fyrstu blasi það ekki alltaf við.   Margt hefur vitanlega breyst síðan mannskepnan steig sín fyrstu skref í átt til þeirra framfara sem hér var lýst og víst hefur margt af því sem við mennirnir höfum tekið okkur fyrir hendur ekki verið mjög gæfulegt, skoðað í ljósi sögunnar. Beislun orku hefur ekki alltaf verið til góðs og þarf ekki annað en leiða hugann að nokkrum undangengnum styrjöldum til að sannfærast um það, en hinu er ekki hægt að neita að margt hefur líka vel til tekist og æðimörg er sú orkuvinnsla sem bæði er til góðs og framfara. Sú var tíð að Reykjavík var hituð, fyrst með kolum, mó og öðru því sem til féll, eða þar til olían tók við áður en hitaveitan kom til sögunnar. Ótrúlega stutt er síðan hús í höfuðborginni voru kynt með olíu nær alfarið - og enn styttra er síðan því var hætt, að koma fyrir olíukatli í nýjum húsum til upphitunar þar til hitaveitan gæti síðan tekið við.Nú virðist svo komið, að nokkuð stórum hluta landsmanna finnist það sjálfgefið að búa við mengunarlausa orku í formi jarðhita og frá virkjunum í fallvötnum. En er það svo? Til að koma þessu svo fyrir hefur ýmislegt þurft til að koma, s.s. hugvit, verkþekking og ekki síst framsýni og  geta til að hrinda hlutunum í framkvæmd. Nú er hins vegar svo að sjá, að hluti þjóðarinnar telji þetta allt svo sjálfsagt, að nú sé hægt að setjast í helgan stein og hafa það náðugt og viðhorfið er oftast klætt í þann búning, að um áhuga fyrir ,,óspilltri“ náttúru landsins sé að ræða.  Sá áhugi er því miður nokkuð seint til sögunnar kominn, því ekki er mjög mikið eftir af óspilltri náttúru, en um það er hins vegar ekki deilt, að þar sem hún finnst, er vitanlega sjálfsagt og eðlilegt að fara varlega og gæta þess að spilla henni ekki að óþörfu. Ef marka má fréttir, þá mun standa til að framlengja líf núverandi ríkisstjórnar, með því að falla frá áformum um fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Um er að ræða þrjár til fjórar virkjanir eftir því hvernig talið er. Þrjár í neðri hluta árinnar að viðbættri einni miðlun sem auka mun afköst allra virkjananna. Um er að ræða einhverja hagstæðustu virkjanakosti sem völ er á, neikvæð umhverfisáhrif eru hverfandi og miðlanir fyrri virkjana koma til með að nýtast hinum nýju.  Ákvörðun um að falla frá þessum virkjunum gleður vafalaust umhverfisverndarsinna, en er um leið enn eitt dapurlegt dæmið um hve langt menn geta gengið til að ná fram kröfum sínum. Formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, lýsti á sínum tíma yfir hrifningu sinni á umræddum virkjunum og taldi þær góðan kost. Þar hafði hann vitanlega rétt fyrir sér, en það hafði hann hins vegar ekki þegar hann gaf gufuaflsvirkjunum til raforkuframleiðslu góða einkunn, því eins og alþjóð veit fylgir þeim mengun sem barist er við og að auki er nýting orkunnar afar lítil.

Fyrirhugaðar virkjanir eru einn hagkvæmasti virkjunarkostur sem í boði er, ekki síst vegna aukinnar nýtingar á vatnsmiðluninni í ánni. Virkjanirnar koma ekki til með að valda umhverfisspjöllum sem neinu nemur og gera í raun ekki annað en nýta enn betur rennsli árinnar sem að öðrum kosti fer, engum til gagns, óbeislað til sjávar.Umhverfisverndarsinnar hafa það að markmiði að helst ekkert verði virkjað, náttúran skuli njóti vafans (eins og þeir kalla það) og til frekari útskýringar á afstöðu sinni, skýla þeir sér bakvið, að allt sé þetta nú gert fyrir komandi kynslóðir. Sér til stuðnings hafa þeir fengið ýmsa utan úr heimi til að leggja málstaðnum lið, m. a. með óspektum á virkjanasvæðunum. Kalla þeir sig ,,aðgerðasinna“ og tilgangurinn mun eiga að helga meðalið.Gera má því skóna að er tímar líða og komandi kynslóðir líta til baka, muni þeim þykja afstaða svokallaðra verndunarsinna í besta falli brosleg er þeir taka til við að hrinda í framkvæmd því sjálfsagða, þ.e. að nýta orku árinnar og að þá muni verði litið með eftirsjá til þess tekjutaps sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir vegna kyrrstöðunnar. Nema sú undarlega staða komi upp, að orka verði einskis virði og þar af leiðandi ekkert við hana að gera. Flestum þykir það væntanlega ósennileg uppákoma og mun líklegra er að eftirspurn eftir umhverfisvænni, endurnýjanlegri orku fari vaxandi um ókomna tíð.

Það er dálítið merkilegt að það skuli þurfa einkaframtak úti í bæ til að taka saman skýrt og greinargott yfirlit yfir gjörningana varðandi Vafning, Glitni, Milestone og Sjóvá.

 

Í grein Hallgríms Helgasonar, sem birtist í DV 27. janúar, kemur fram að sú flétta var mestan part sett af stað til þess að forða því að Glitnir yrði opinberlega gjaldrota í byrjun árs 2008. Þess vegna hlýtur að mega draga þá ályktun að allir, eða a.m.k. flestir, sem að þessu máli komu, hafi vitað um stöðu bankans og afar erfitt er að hugsa sér að Bjarni Benediktsson hafi ekki vitað um stöðuna, eins virkur og hann var á sviðinu, bæði sem frammámaður í stjórnmálum og ekki síst í viðskiptalífinu.

 

Samkvæmt því sem lesa má í samantekt Hallgríms vissi Bjarni Benediktsson um stöðu Glitnis og að því gefnu, hlýtur Geir Haarde að hafa vitað það líka og þar með Davíð Oddson og aðrir bankastjórar Seðlabankans.

 

Hafi þetta verið þannig, að öll helsta forysta Sjálfstæðisflokksins hafi vitað hvert stefndi, en ekkert gert í stöðunni annað en  dansa Hrunadansinn, þá eru það svik af slíkri stærðargráðu að fáheyrt er. Svik við þá sjálfa, flokkssystkini sín, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinguna (sem þeir voru í samstarfi með í ríkisstjórn) og síðast en ekki síst, það samfélag sem þeir töldu sig vera að vinna fyrir.

 

Vitanlega er annar möguleiki líka: Það er með villtum og trylltum hugsunarhætti hægt að láta sér detta í hug að mennirnir hafi ekkert vitað og ekkert skilið; hafi bara í einhverskonar barnslegri einfeldni trúað á að allt sem þeir voru að gera væri rétt og gott: því ef tíðin væri ekki góð nú þegar, þá kæmi a.m.k. betri tíð innan skamms tíma.

 

Finnst einhverjum það líklegt að umræddir aðilar séu slíkir einfeldningar að þeir hafi ekkert skilið, skynjað og vitað? Eigum við sem byggjum þetta land, að trúa því að til forystu í Sjálfstæðisflokknum hafist nær eingöngu valist helberir kjánar?

 

Vissulega er það viðurkennt, lítið rætt og umborið að komið hefur fyrir að sloppið hafa inn á Alþingi fulltrúar á vegum flokksins sem almenningur hefur litið á sem kynlega kvisti, svona einhverskonar skraut í þá mannlífsflóru sem flokkurinn hefur boðið fram til lagagerðar fyrir þjóðina, en það er af og frá, að til greina komi að samþykkja það, að allir helstu forystumenn flokksins séu af því tagi.

 

Það er einfaldlega óhugsandi að umræða um þessi mál verði á þeim nótum að um óvita sé að ræða. Þvert á móti er hér verið að fjalla um menn með fullu viti samkvæmt öllum venjulegum skilningi, menn sem hljóta að teljast ábyrgir gerða sinna og í fullum færum að svara fyrir sig og taka afleiðingum af því sem gert hefur verið.

 

Ef til vill væri rétt að settur væri saman rannssóknarhópur til að fara ofan í saumana á starfsemi Sjálfstæðisflokksins undanfarna áratugi, þannig að fyrir liggi hvað fór fram og hvenær og hverjir voru þar að verki. Sumt er vitað um s.s. símhleranir hjá pólitískum andstæðingum flokksins og skjalabrennslur þeim tengdum, fyrir nú utan hermang og almenna hagsmunagæslu ákveðinna þjóðfélagshópa langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

 

Vel getur verið að ástæða sé einnig til að fara ofan í saumana á starfsemi annarra stjórnmálaflokka. Vafalaust væri það bara ágætt og kæmi þá væntanlega fram hvernig starfi þeirra hefur verið háttað. Þeir sem telja sig saklausa af öllu misjöfnu hafa tæpast neitt við slíka skoðun að athuga.

Að bæta gráu ofaná svart

19. janúar 2012

Mikill hvellur er orðinn vegna tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi þess efnis að ákæran á Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, verði felld niður. Óhætt mun að gera ráð fyrir að tillagan sé sett fram af a.m.k. tveimur ástæðum, annars vegar einfaldlega vegna þess, að almennt finnur fólk til með manni sem gott orð fer af, talinn er hvers manns hugljúfi og ekki búinn neinu því innræti sem réttlæti það að ætla honum illt. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að ekki þyki flutningsmanni verra að geta komið af stað úlfúð í hópi þeirra sem fyrst og fremst stóðu að því að virkja dómstól sem sofið hafði notalegum Þyrnirósarsvefni í um öld. Ekki síst þar sem gera má ráð fyrir að sumir séu farnir að sjá eftir að hafa átt þátt í að blása lífi í fyrirbrigðið.

 

Kosningin á Alþingi um málið var um margt athyglisverð. Hún var sannarlega flokkspólitísk á þann veg að vinstri grænir greiddu allir atkvæði sem einn maður, vildu öllum refsa og töldu sig vera í heilagri krossferð til að hefna harma fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Á hinum kantinum voru sjálfstæðismenn sem allir sem einn (einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og tíðkast í svona samtökum) greiddu atkvæði á þann veg að engum skyldi refsað, það væri hlutverk kjósenda og sama sinnis voru langflestir Samfylkingarþingmenn, en ekki allir.

 

Að ýmsu leyti virðingarvert viðhorf, því það er vitanlega þannig, að í lýðræðisríki þá velur almenningur fólk til að fara með stjórn landsins og að endingu er það sá hinn sami almenningur, sem axlar byrðarnar sem til falla vegna mistaka, hvort sem til verða vegna rangra ákvarðana, eða hvers annars sem hinum kosnu fulltrúum tekst að kalla yfir þjóð sína.  

 

Atkvæðagreiðslan á þingi fór sem sagt þannig að það var fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra til margra ára, sem einn var ákærður og málið fór þar með fyrir Landsdóm. Vinstri grænum til blendinnar ánægju, þar sem þeir vildu alla kæra, en flest öllum öðrum til lítillar kæti. Frammi fyrir þessari niðurstöðu var staðið og ekki annað að gera, úr því sem komið var, en að málið færi sína leið. Undu nú flestir ýmist glaðir eða súrir við sitt, vitandi það að lífið er einfaldlega þannig að ekki fer allt eins og hver og einn helst vildi.

 

Á dögunum var haldin heilmikil vakningarsamkoma ,,svokallaðs” Sjálfstæðisflokks þar sem menn stöppuðu stálinu hver í annan, ýmist hlógu eða grétu eftir atvikum, lýstu yfir stuðningi hver við annan, börðust, féllu í faðma og grétu fögrum tárum  yfir óförum og kosningatapi. Allt svona eins og gera má ráð fyrir á samkomu þar sem ekki vefst fyrir fólki að vera vinir þó þeir séu það kannski ekki í raun.

 

Gera má ráð fyrir að á þessum stað hafi fæðst sú einkennilega hugmynd að flytja tillögu á Alþingi sem fæli það í sér, að kæran á fyrrverandi forsætisráðherra yrði felld niður, dregin til baka, svona líkt og þegar börn að leik lýsa yfir að allt hafi þetta bara verið í plati.

 

Væntanlega er enginn sem heldur því fram að Geir H. Haarde sé hinn sanni sökudólgur varðandi hið ,,svokallaða” hrun sem hér varð á árunum 2006 til 2008. Vitanlega ekki og ef menn vildu endilega gera sér það til dundurs að vekja upp Landsdóm, þá hefði væntanlega verið best, að sem flestir meintu sökudólgarnir nytu þess vafasama heiðurs að fara fyrir hann. Þar var hins vegar einn hængur á: Sök helstu gerenda var nefnilega fyrnd, þeir horfnir til annarra starfa og ekkert hægt að gera í því, að lögum, annað en súpa það seiði sem bruggað hafði verið. Þetta verða allir að gera hvort sem þeir höfðu greitt snillingunum atkvæði sitt eða ekki. Þannig er lýðræðið og einræðið er eins og allir vita síst betra.

 

Flokksmenn lögfræðingaflokksins, hafa örugglega ekki gert ráð fyrir að siðlegt væri að taka fram fyrir hendur dómstóls sem væri í miðri umfjöllun máls og vafasamt að þeir hafi gert ráð fyrir né haft hugmyndaflug til að sjá, að með tillögunni myndu þeir draga fram í dagsljósið vingulshátt og dómgreindarleysi dómsmálaráðherrans. Það gerðu þeir hins vegar og að öllu skoðuðu er kannski bara gott að þeim hafi tekist það svona í leiðinni.

 

Við erum nokkur sem höfum verið þeirrar skoðunar að ráðherrann væri ekki eins mikill bógur og hann hefur viljað vera láta, munum þegar hann lagði niður skottið og flúði úr Heilbrigðisráðuneytinu er hann sá frammá hinn óhjákvæmilega niðurskurð sem fram undan var vegna óráðsíu undanfarinna ára.

 

Davíð Oddson var á sínum tíma gagnrýndur fyrir að tala til dómstóla, löglærður maðurinn, en nú skal gert betur: Mál sem komið er fyrir dómstól og er þar í vinnslu, skal af honum tekið og það er Ögmundur Jónasson ráðherra dómsmála sem einna harðast gengur fram í þeirri kröfu, vill bæta gráu ofan á svart og óttast afleiðingar gjörða sinna.

 

Það gæti nefnilega svo farið að Geir yrði bara sýknaður, en í leiðinni gæti líka ýmislegt það verið dregið fram í dagsljósið sem í myrkri hefur dvalið. Ögmundur óttast líklega hið fyrrnefnda, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hið síðarnefnda.

Hagfræði

4. janúar 2012

Fyrir hálfri öld var mér komið fyrir í sveit hjá afasystur minni Helgu Hrefnu Bjarnadóttur og manni hennar Hafsteini Markússyni á Vogatungu í Leirársveit. Þar var gott að vera og margar góðar stundirnar átti ég með Hafsteini er hann var að sinna störfum sínum. Þeim búnaðist vel, ráku rausnarbú og kunnu þá hagfræði sem reynst hafði vel um aldir: sinna vel því sem unnið var að og reyna, svo mikið sem unnt var, að afla lítið eitt meira en því sem eytt var.

Oft var gestkvæmt á bænum, enda í þjóðleið og búið rausnarbúi sem gott þótti að sækja heim. Mér er það minnistætt þegar Hafsteinn tók á móti ungmenni sem komið var í heimsókn til gamalla húsbænda sinna, hafði verið ,,vinnumaður” hjá þeim hjónum og var nú kominn til að rækta gömul kynni.

 

Tók Hafsteinn vel á móti honum eins og hann var vanur, spurði almæltra tíðinda og meðal annars þess hvað gesturinn ætlaði nú að fara að taka sér fyrir hendur. Sá kvaðst ætla í háskólanám. Hafsteini leist ekki illa á það, en sagði eitthvað á þessa leið og kvað nokkuð fast að orði: Það er nú gott góði minn, en bara að þú farir ekki að nema hagfræði.

 

Hinn reyndi bóndi hafði nefnilega tekið eftir því að fátt eitt gekk eftir af því sem svokallaðir hagfræðingar lögðu til; voru svona ámóta traustir í sínum ráðleggingum og veðurfræðingar þess tíma voru, að mati margra þeirra sem áttu allt sitt undir veðri og vindum.

 

Þetta var um 1960 og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, fjölmargt breyst, veðurspárnar orðnar til fimm, jafnvel sex daga, ámóta áreiðanlegar og dagsspáin var þá. Veðurfræðingarnir birtast nú daglega, með hjálp sjónvarpsins, inn í stofu hjá landsmönnum og útskýra gang lægða og hæða, allt á skiljanlegu máli og á svo ljósan hátt að flestir skilja. Veðurfræðin hefur þróast fram á veg, en hefur hagfræðin gert það? Er hún orðin skiljanlegri fræðigrein en hún var fyrir hálfri öld?

 

Útskýrt var á myndrænan hátt í Sjónvarpi allra landsmanna, að núverandi gjaldeyrisforði þjóðarinnar væri orðinn afar stór, hefði víst aldrei verið stærri, en að hann væri nánast allur tekinn að láni. Því mætti ekki eyða af honum og þó hann væri á vöxtum, þá væri það svo að greiða þyrfti mun meiri vexti til þeirra sem lánuðu gjaldeyrinn, heldur en það sem halaðist inn með því að lána hann öðrum.

 

Þetta er væntanlega hagfræði sem flestir skilja. Það felst ekkert ríkidæmi í því að taka dýrt lán í banka til þess eins að leggja það inn á reikning í öðrum eða sama banka á lægri vöxtum. Til hvers er þá verið að þessu?

 

Jú, það er gert til, að reyna að telja fólki trú um að ísl. krónan sé einhvers virði, þjóðin sé ekki á hausnum og að í framtíðinni verði hægt að fremja þann verknað, að aflétta gjaldeyrishöftum og nota krónuna eins og um alvöru mynt sé að ræða.

 

Halldór Ásgrímsson lét sig dreyma um Ísland sem fjármálamiðstöð, moldríkrar eyþjóðar í norður Atlantshafi, sem lifað gæti í vellystingum  á kostnað annarra þjóða, vegna þess að hún væri með innbyggða snilligáfu, sem nær engum öðrum væri gefin. Bessastaðabóndinn trúði þessu líka og trúir enn.

 

Spurningin er þá hvort við, sem erum bara nokkurn veginn ,,venjulegir” íbúar eylandsins, getum með einhverju móti trúað þessu líka og hvort við getum einnig talið okkur trú um að rétt sé gefið.

 

Hvort er líklegra að við, sem byggjum Ísland, séum bara nokkurn vegin eðlilegt fólk eða hitt, að við séum flestum öllum öðrum fremri?

,,gamlir hundar”

30. desember 2011

Einn líflegasti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og sá sem mest hefur endurnýjað sig er vafalaust Framsóknarflokkurinn. Nýr formaður, nýir þingmenn og látlaus hreyfing á hlutunum; einn kemur þá annar fer o.s.frv.

 

Nýorpnasti þingmaður flokksins Ásmundur Einar Daðason, fer mikinn á bloggi sínu og gengur svo langt að kalla félaga sína í pólitíkinni ,,gamla hunda”. Ljóst má vera að ef sú nafngift stenst, þá er Ásmundur væntanlega réttnefndur ,,Ungur hundur”, ef menn vilja endilega vera að hengja sig í indíánanöfn af þessu tagi. Spurning hlýtur að vera hvort rétt er að vera að nudda hinum fyrrum vesturheimska menningarheimi utan í íslenskt stjórnmálalíf með þessum hætti.

 

Stutt er síðan þingmaðurinn flutti búferlum frá Vinstri grænum og yfir í Framsóknarflokkinn og við blasir að honum hefur gengið frekar illa að fóta sig í sleipu gamla flórsins. Margur framsóknarmaðurinn kímir vafalaust í laumi yfir brölti hins unga þingmanns, unga í árum, en vissulega gamall og allt að því forn í hugsun, mundi víst margur vilja segja.

 

Þröngt er á jötunni og fremur takmarkað það sem gefið er á garðann hjá gamla miðflokknum og því er ekki eftir eins miklu að slægjast nú eins og áður var. Snorrabúð er stekkur orðin, ekkert Samband, engin útungunarstöð og ormagryfjurnar opnast hver af annarri, þannig að flestum er ljóst að gamli hentistefnuflokkurinn fór víða af sporinu og ef ekki flokkurinn sjálfur, þá að minnsta kosti ýmsir þeir sem trúnaðar nutu og störfuðu á hans vegum.

 

Framsóknarflokkurinn er nærri því að flosna endanlega upp. Formaðurinn bregst flestu því sem stuðningsmenn hans gerðu ráð fyrir að hann stæði fyrir og svo er komið að hann stendur fyrst og fremst fyrir efstastigs lýsingarorðaflaum, þeirrar gerðar sem nær því nánast að toppa Þór Saari þingmann Hreyfingarinnar, sem svo kallar sig og er þá langt til jafnað.

 

Inn í framsóknarsöfnuðinn flutti þingmaðurinn úr Dölunum og hefur vafalaust gert ráð fyrir, að þangað kominn, væri honum vís framinn. Það fór á annan veg eins og flestir vita, honum var einfaldlega komið fyrir á afviknum bás í þeirri von að þar léti hann lítið fyrir sér fara og hefur það gengið nokkurn vegin eftir. Af og til verður þó vart við lítils háttar brölt úr því horni, líkt og þegar kú, sem komin er að burði, stendur upp til þess eins að leggjast strax aftur, en þá á hina hliðina. Er þá, oftar en ekki, orðin svo upptendruð af tilvonandi burði að hún er hætt að muna eftir því að hún þurfi að halda áfram að jórtra

 

Svona getur nú farið fyrir ungum þingmanni sem tekur skakkan pól í hæðina, fyrr en varði er hann staddur í pólitísku svartholi, sem gleypir allt sem býðst, en engu hleypir út.

Það sem hann einn sá

22. nóvember 2011

Þau okkar sem lögðu það á sig að vaka eftir seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöld þurfa ekki að sjá eftir því. Þar var nefnilega dregið fram til birtingar viðtal, sem var þeim sem á horfðu, þvílík opinberun að leitun er á öðru eins.

Viðtalið var við dýrasta þingmann Sjálfstæðisflokksins, mann sem ætíð rís talsvert upp yfir umhverfi sitt og leggur eitthvað það til málanna sem eftir er tekið. Vonandi er að Sjónvarp allra landsmanna sjái sér fært að sýna manninn í viðtölum, sem og á annan veg, sem allra oftast. Því þegar hann tekur til máls, þá hefur hann ætíð eitthvað verulega mikið fram að færa og þó ekki hefji hann upp raust sína, þá er vafalaust flestum  ljóst að það er eingöngu vegna þess að hann er í augnablikinu upptekinn við að hugsa upp eitthvert snjallræði, þjóð sinni til bjargar og vegsemdar.

Í viðtali gærdagsins var þingmaðurinn spurður út í mál sem hvílt hefur talsvert þungt á almenningi og þá ekki síst þeim sem berjast í bönkum og baslast við að standa skil á lánum sem þeir hafa tekið til að geta haft þak yfir höfuð sér.

Þau sem farin voru að fyllast vonleysi, örvæntingu eða depurð, yfir að hið afburðagóða kerfi sem fundið var upp til tryggingar lánunum væri þeirrar gerðar að nær útilokað væri að greiða þau til fulls, fengu vegna hinnar ljómandi góðu, upplýsandi og greinargóðu orðræðu þingmannsins von. Svo ekki sé nú sagt fullvissu um, að ef hann og hinir frelsararnir í flokknum hans kæmust til valda, þá yrði hinu hroðalega skuldafargi af þeim létt.

Auðvitað. Hvernig stendur á því að engum hafði dottið þetta í hug fyrr? Vitanlega eru þeir bestir og færastir um að töfra til baka verðtryggingarkerfið og láta lánin gufa upp, þeir hinir sömu sem á sínum tíma fundu hið margrómaða kerfi upp. Fyrir nú utan það, að flokksbræður og systur hins mikilhæfa þingmanns, hafa af því langa reynslu að láta lán hverfa. Fram til þessa hafa það að vísu verið lán þeirra sem átt hafa mikið undir sér sem horfið hafa. Nú á hins vegar að nýta þá reynslu sem hann og félagar hans hafa náð sér í, allar götur frá því að stjórnmálaflokkurinn sem hann kennir sig við var stofnaður, í útþurrkun lána og ríkisvæðingu skulda fyrirmenna, svokölluðum almenningi til bjargar og hagsbóta.

Að hinni Vinstri- grænu- jafnaðarstjórn sem við völd situr skuli ekki hafa dottið snjallræðið í hug, er náttúrulega einungis til merkis um hve ófrjó hin vinstri sinnaða hugsun er. Þarna eru þau búin að rembast eins og rjúpan við staurinn, við að gera eitt og annað til lausnar á vandanum, en hefur ekki dottið í hug að leita ráða hjá þeim sem á sínum tíma bjuggu vandann til. Hvílíkt og annað eins! Er þessu fólki alls varnað? Vitanlega kann enginn betur að stöðva farartækið en sá sem hefur komið því af stað. Liggur það ekki í augum uppi þegar málið er skoðað, þó að vísu megi finna dæmi þess, að t.d. börn hafi fyrir slysni komið einhverju af stað fyrir hreinan barnaskap og ekki kunnað að stöðva það aftur. Það er náttúrulega allt annað mál og á augljóslega ekki við í þessu sambandi.

Þökk sé því Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir að hafa loksins rofið þögnina og svipt hulunni af formúlunni sem nota á í núverandi ástandi: Nefnilega fella bara einfaldlega niður óbærilegar skuldir, en leyfa þeim bærilegri að halda sér. Snjallt og augljóst, frábært og dýrðlegt; í einfaldleika sínum allt að því himneskt og alls ekki útilokað að þingmaðurinn hafi fengið vitrun sína á biblíulegum stað, svo snjöll er hún í einfaldleika sínum.

Til að alls réttlætis sé gætt, er rétt að taka það fram svo enginn misskilningur eigi sér stað, að hinn sjónum-hryggi þingmaður, var ekki alveg með það á tæru hvernig gjörningurinn yrði framinn þegar þar að kæmi. Hins vegar var auðskilið öllum, sem skilja vildu, að það væri bara minni háttar útfærsluatriði sem auðleyst yrði þegar á reyndi. Ekki yrði farið yfir lækinn til að sækja vatnið. Heldur yrði lækurinn einfaldlega þurrkaður upp.

Gott er að eiga góða að.