Minning: Kristinn Erlendsson

27. október 2013

Kristinn Erlendsson fæddist í Reykjavík 9. mars 1946. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2. september 2013.
Foreldrar hans voru Sigrún Kristinsdóttir, f. 1924, d. 2005, og Erlendur Sigurðsson, f. 1919, d. 2009. Kristinn var elstur sex alsystkina: Helga, f. 1948, d. 2009, Sigrún, f. 1949, Guðrún Lísa, f. 1950, Sturla, f. 1954, d. 2007, Elísabet, f. 1958. Hálfsystkin, samfeðra eru: Jónína, Lýður, Erlendur Örn, Hrafnkell og Aðalheiður. Maki Ásta Guðmundsdóttir, f. 1948. Börn hennar eru: Sigríður og Unnur Helga Kristjánsdætur. Fyrrverandi maki og barnsmóðir Kristins er Dagbjört Halldórsdóttir, f. 1947. Börn: Haraldur, f. 1971, dætur: Hafdís og Helena. Brynja, f. 1977, maki: Kristján Þórðarson, dætur: Katla Björt, Hekla Sól, Ingibjörg og Lára Daníela. Garðar, f. 1984, unnusta Sigríður Skagfjörð Sigurðardóttir, sonur: Axel Freyr.
Kristinn ólst upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík ásamt systkinum sínum. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í Vélskóla Íslands og útskrifaðist 1971. Þaðan fór hann í Tækniskóla Íslands og síðan til Álaborgar í Danmörku í framhaldsnám og útskrifaðist þaðan sem rekstrartæknifræðingur. Kristinn var nokkur ár á sjónum t.d. á Hörpu og Vatnajökli. Að námi loknu í Danmörku hóf hann störf hjá Félagi íslenskra iðnrekenda. Hann starfaði einnig í mörg ár í Málningarverksmiðjunni Hörpu. Kristinn stofnaði fiskverkunarfyrirtækið Ísfold í Reykjavík ásamt bróður sínum Sturlu Erlendssyni. Þeir fluttu síðar fyrirtækið til Eyrarbakka.
_ _ _

Það var að áliðnu sumri árið 1996 sem Hestaferðafélagið, sem við Kristinn vorum báðir félagar í, stóð fyrir ferð um norðvesturland. Áætlun um ferðina barst mér í bréfi með góðum fyrirvara, en ég var þá búinn að vera til sjós í millilandasiglingum um nokkur ár og hafði ekki átt þess kost að fara í ferðir félagsins um nokkurra ára bil. Ég sló til og hafði samband við Kristinn Dag Gissurarson, einn af skipuleggjendum ferðarinnar og spurðist fyrir um hvort fullbókað væri, svo var ekki og það varð úr að ég bókaði mig.
Þetta er í raun forsaga þess að kynni okkar Kristins Erlendssonar endurnýjuðust.

Það var stillt og fallegt veður við Langavatn og ferðafélagarnir gengnir náða, er við Kristinn gengum út í nóttina og tókum spjall saman, rifjuðum upp veruna í Vélskóla Íslands og sögðum hvor öðrum hvað á dagana hefði drifið eftir að skólagöngu okkar þar lauk.
Er við nutum næturkyrrðarinnar þarna við vatnið, þá tókum við eftir því að mikil ókyrrð var komin í ferðahrossin vegna mýbitsins sem á þau sótti og þar kom að drjúgur hluti þeirra setti sig á sund út í vatnið til að komast burt frá óværunni. Brugðumst við þannig við að undirritaður hljóp sem mest hann mátti með ópum og óhljóðum til að gera sem hægt væri til að stöðva flótta hrossanna, en Kristinn hraðaði sér og ræsti þau er í skála sváfu til að bregðast við og koma til hjálpar.

Fór svo að einungis lítill hópur hrossa slapp úr girðingunni, en telja má víst að engin hefðu þau verið eftir að morgni hefðum við Kristinn ekki verið á þessu næturrölti. Skemmst er frá því að segja að aldrei bar skugga á vináttu okkar eftir þetta.

Með tímanum tókum við upp þann sið að hringja í hvorn annan ef okkur lá eitthvað á hjarta sem okkur langaði til að ræða um og voru þær margar stundirnar sem við áttum þar sem við spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar og krufðum málin til mergjar.

Nú er sá tími liðinn að ég geti tekið upp símann og rætt við Kristinn um eitt eða annað og borið undir hann hvað honum finnist um þetta eða hitt málefnið, ekki er heldur lengur hægt að skiptast á skoðunum á Fésbók, né senda hvor öðrum ábendingar um áhugavert efni sem við höfum rekist á.

Svona líður tíminn og Kristinn er farinn þá leið sem allir fara á endanum og leitt var að geta ekki fylgt honum síðasta spölinn, en þá var ég fjarri, í öðru landi og gat engu um það breytt.

Kristinn var líflegur maður og hafði vakandi áhuga á flestu því sem í umhverfi hans var. Hann hafði mikinn áhuga á hestum, hestamennsku og þjóðmálum, reyndar öllu sem í umhverfi hans var. Kunni fjöldann allan af vísum og kvæðum og ef svo bar undir, þá fengu ég og aðrir að njóta þeirrar kunnáttu þegar við átti. Margar voru þær eftir bróður hans Sturlu sem er látinn, en þeir höfðu átt og rekið saman fyrirtækið Ísfold á Eyrarbakka og deilt með sér ánægjunni af að ferðast á hestum um landið.

Það er gaman að hafa átt þess kost að kynnast mörgu góðu og skemmtilegu fólki á lífsleiðinni. Kristinn Erlendsson var svo sannarlega einn af þeim sem gott var að kynnast, en jafnframt sárt að sakna. Eftir stendur minningin um manninn, þennan skemmtilega persónuleika, sem af prúðmennsku og notalegheitum auðgaði tilveruna fyrir þá sem áttu þess kost að njóta samvista hans.

Samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum hans öllum.

Ingimundur Bergmann.

27. október 2013

Illa upplýstur fulltrúi?

28. september 2013

Veruleikafirring afturkallastjórnarinnar kom fram með einkar skýrum hætti hjá svokölluðum ,,upplýsingafulltrúa“ hennar í þættinum Vikulokin rétt áðan.
Upplýsingafulltrúinn hélt því fram að ástandið hér væri nú harla gott borið saman við Kýpur, við gætum nefnilega tekið peningana okkar vandræðalaust út úr bönkum ef okkur sýndist svo.
Í raun er það þannig að eigi fólk peninga á reikningum í íslenskum bönkum, þ.e. erlenda peninga, þá fást þeir ekki afhentir, en í staðinn er fólkinu boðið uppá svokallaða íslenska peninga, ísl. kr., sem enginn vill hafa neitt með að gera, nema í landinu okkar góða.
Eigi maðurinn við íslenska peninga, þá er það varla neitt til að hæla sér af að þeir séu ekki hirtir af yfirvöldum ef fólki verður það á að leggja þá inn á reikning í banka.
Afstaða mannsins er einkar lýsandi fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til almennings og sú afstaða nær yfir alla sögu íslenska lýðveldisins.
Það geta menn kynnt sér m.a. með lestri kversins ,,Spegill Þjóðar“ eftir Njörð P. Njarðvík. Þar segir m.a. frá svívirðilegum þjófnaði framsóknaríhaldsins á eigum föður Njarðar og vitanlega er þar aðeins um eitt lítið dæmi af mörgum að ræða.
Það liggur í augum uppi hvers vegna hagsmunagæsluflokkunum er svo í mun að halda í íslenska krónu. Það er vegna þess að hún gefur nær takmarkalausa möguleika á tilfærslum og eignaupptökum eins og Geir Haarde lýsti svo ágætlega í sama þætti og taldi það einmitt vera einn af kostunum sem fylgdu því að búa við krónuna.
Geir er síður en svo einn um þessa skoðun, t.d. eru þjóðrembingarnir í VG sama sinnis, svo er einnig ástatt um hina lánlausu ríkisstjórn sem nú situr við völd, ríkisstjórn sem virðist eiga sér það helsta takmark að einangra landið sem mest og auka svo sem hægt er svokallaðan spekileka til annarra landa.

Flugvallarmálið.

31. ágúst 2013

Umræða sú er fram hefur farið að undanförnu um flugvöllinn í Vatnsmýrinni í Reykjavík hefur komið mér í skilning um eftirfarandi:

Vegna þess að ég kaus þann kost til búsetu að búa ,,úti á landi“, utan höfuðborgarsvæðisins, þá á ég skýlausan rétt á því að í Reykjavík sé flugvöllur á bæjarhlaði stærsta spítala landsins, jafnframt skal honum svo fyrirkomið að hann kljúfi borgina sem mest í tvennt.

Best væri að flugbraut væri komið fyrir meðfram Tjörninni austanverðri frá núverandi velli og að braut sú endaði í flughlaði og rampi sem lægi inn í Hörpu, þá væru slegnar tvær flugur í einu höggi: Þau sem lasburða væru, færu úr vélinni á stoppistöð við spítalann, en hin sem hress væru héldu áfram og fengju sér andlega og líkamlega hressingu í tónlistarhúsinu víðfræga.

Ef ég fengi nú einhverja slæmsku sem ég reiknaði ekki með þegar ég ákvað að setjast að í dreifbýlinu þá verður skilyrðislaust að byggja upp fullgildan flugvöll sem næst mér, hvar sem ég yrði staddur, undir slíkum kringumstæðum.

Auk þess verður að vera í næsta nágrenni við mig, alltaf og örugglega, fullbúið hátæknisjúkrahús með skurðstofuvakt allan sólarhringinn ásamt fæðingardeild, ef svo illa tækist til að ég yrði ófrískur og næði því að ganga með allan meðgöngutímann. Lukkaðist mér það ekki þyrfti eigi að síður að vera í næsta nágrenni við mig slík deild til að taka á móti fyrirburði.

Vegna þessa skora ég á ríkisstjórn Íslands, forseta vorn, pottberjendur og allt annað gott fólk að safnast saman sem fyrst á Tjarnarbakkanum í Reykjavík til að koma málstað mínum sem mest og best á framfæri og hætta hvergi fyrr en máefnið er komið farsællega í höfn og helst þannig að ,,dreifbýlið“ allt verði orðið að höfuðborg og Reykjavík verði ,,úti á landi“.

Eyþjóðin

1. júlí 2013

Sú var tíð að Íslendingar tóku það svo alvarlega að vera sjálfstæð þjóð að þeir ráku fjölda flutningaskipa, sem bæði fluttu vörur og olíu, að ógleymdum farþegum.

Margir rekstraraðilar gerðu þessi skip út og þau voru ýmist að flytja vörur að og frá landinu, en einnig voru þau í ýmsum verkefnum erlendis og sigldu um öll heimsins höf.

Fjöldi manna hafði atvinnu af að starfa á þessum skipum og enn fleiri höfðu framfæri sitt af rekstri þeirra.

Nú er öldin önnur, íslensk skipaútgerð er nánast aflögð, þau fáu skip sem í flutningum eru á vegum íslenskra aðila eru skráð undir erlenda hentifána.

Stólað er á að útlendingar sjái sér hag í að flytja olíur til landsins með skipum sem eru í þeirra eigu og með erlendum áhöfnum.

Þetta er vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki haft döngun í sér til að búa svo um, að hagkvæmt sé að skrá skipin undir íslenskan fána.

Flestir telja þeir sig samt vera afar mikla Íslendinga og sumir eru jafnvel svo þjakaðir af þjóðrembu að þeir geta tæpast tjáð sig opinberlega, án þess að belgja sig út í mikilmennsku og miklast yfir hve einstakt og merkilegt það sé að vera af víkingum kominn.

Telja jafnvel að annarra þjóða menn þurfi að ,,sanna sig“ fyrir Íslendingum.

Hvernig væri nú að þeir mönnuðu sig upp í að vera sæmilegir Íslendingar sjálfir, og sýndu það og sönnuðu fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu það?

Nýju ríkisstjórninni, sem ekkert varanlegt nafn virðist tolla við, hefur gengið afar vel að koma helstu hugðarefnum sínum til framkvæmda.
Lánasjóður námsmanna er orðinn að Lánasjóði Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisútvarpið verður gert að Ríkisútvarpi stjórnmálamanna, aðallega Framsóknar og Sjálfstæðis.
Bláfátækir útgerðar-kvóta-greifar hafa verið skornir úr snörunni og hafa í raun fengið ,,feita tékkann“.
Þá hefur bláfátækt stóreignafólk fengið eðlilega og sjálfsagða fyrirgreiðslu og þarf ekki lengur að basla við að taka þátt í að halda samfélaginu uppi.
Erfiðum og slítandi samningaviðræðum við ESB hefur verið hætt, enda óþolandi að ræða við fólk sem ekki skilur íslensku.
AGS hefur verið gefið langt og mikið nef, enda algjörlega ótækt að hann sé að skipta sér af því hvernig farið er með peningana sem hann lánaði Íslandi, samkvæmt lögmálinu um að ,,glatað er greitt lán“.
Skuldamál heimilanna hafa einnig verið leiðrétt með því að skipt var um skoðun á því hvort þyrfti að hafa áhyggjur af slíkum smámunum, þegar búið er að tryggja, að landið búi við hina einstöku íslensku krónu um ókomna tíð, sem ætíð kemur til bjargar þegar illa ætlar að fara í íslensku efnahagslífi.
Stjórnarandstaðan talar un ,,engar efndir, bara nefndir“ vegna þess að þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hagkerfi virka, líkt og ,,sigldir“ hagfræðingar sem þykjast hafa vit á helst öllu sem snýr að íslensku aðstæðunum sem þeir botna vitanlega ekkert í og hafa enga yfirsýn yfir.

Hafi það ekki legið fyrir áður, þá er það ljóst nú hvernig ríkisstjórnin ætlar að snúa sig út úr loforðavandanum.

Það kom vel fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að það ætlar að vefjast verulega fyrir stjórninni að hrista fram úr erminni hulduféð og vegna þessa vanda þarf að finna ráð; takið eftir ekki lausn.

Nú skal unnið að því að koma hlutunum svo fyrir að hægt verði að klína væntanlegum loforðasvikum á stjórnarandstöðuna. Bæði á hún að hafa skilað slæmu búi, sem er að því leitinu til satt, að enginn hélt öðru fram en að ríkissjóður stæði enn tæpt og væri með halla, en að því leitinu ósatt, að engar hagtölur hafa verið tíndar til sem sýna fram á annað en staða hans sé eins og gert var ráð fyrir og öllum mátti vera kunnugt.

Hitt er að loforðabýsnin sem rutt var út í kosningabaráttunni ætlar að reynast óframkvæmanleg eins og flestir vissu en vildu ekki vita, því skal nú búið svo um hnúta að það verði að forminu til þingið sem álykti um að staðið skuli við loforðasúpuna. Vandi stjórnarandstöðunnar er þá sá að ef hún leggst gegn slíkri tillögu, þá er hún í hlutverki geðstirða jólasveinsins sem ekkert setur í gluggann, en ef hún tekur undir, þá er hún orðin samábyrg fyrir óábyrgum gjörðum í meðferð fjármuna ríkisins.

Hafi einhvern tíma verið ástæða til að tala um smjörklípu, þá er nú ástæða til að tala um smjörklípu skreytta með þeyttum rjóma og sultuslettu.

Að skoða strimla

24. maí 2013

Grein sem birtist í Bændablaðinu 23. maí 2013.

Fulltrúar Samtaka verslunar og þjónustu hafa haldið sínu striki síðustu daga. Nú mælast þeir til þess að félagarnir tveir sem í stjórnarmyndunarviðræðum eru, gefi sér tíma til að skoða strimla úr verslunum. Góð hugmynd, að hvetja til að menn temji sér að fylgjast vel með verðlagi þeirra vara sem þeir kaupa.

Annars er það af SVÞ að frétta, að þrátt fyrir hugsjónaeldinn sem inni í þeim brennur og einlægan vilja til að geta lagt sitt að mörkum til að bæta hag landsmanna, þá er komið á daginn að þeir eru ekki færari um að reka verslanir sínar en svo, að úr þeim hverfur með dularfullum og óútskýrðum hætti mun meira vörumagn en annarstaðar gerist. Einnig hefur það verið upplýst að það þarf tvöfalt meira rými til að reka matvöruverslanir á Íslandi en það sem almennt er talið nauðsynlegt og verður því seint trúað að það sé vegna þess að íslenskir neytendur séu tvöfalt plássfrekari en neytendur annarra landa.

Miðað við verslunarrýmið, sem íslenskir matvörukaupmenn telja nauðsynlegt, hefur fjöldi íbúa landsins verið alvarlega vantalinn og er væntanlega ekki um að ræða færri íbúa í landinu en u.þ.b. þrjár milljónir en ekki þrjúhundruð þúsund svo sem fram til þessa hefur verið talið. Nokkuð margt bendir til að þetta geti verið rétt, enda eflaust ekki vandalaust að telja alla íbúa í svo stóru landi sem Íslandi. Land sem byggt er alls kyns íbúum og ekki öllum sýnilegum venjulegu fólki. Íslenskir kaupmenn eiga hrós skilið fyrir að hafa hugsað fyrir því, að þeir geti allir haft greiðan aðgang að matvöruverslun. Hins vegar er ekki svo að sjá að þeim sé eins vel til allra þeirra sem í landinu dvelja. Hugsanlega stafar það af því að hulduverurnar, sem ,,aukafermetrana“ í verslununum nýta sér, séu tvífættar eins og við hin.

SVÞ gengur hart fram í því að fá að flytja til landsins kjöt af svínum og hænsnfuglum og telja sig þannig geta bætt hag þjóðarinnar. Þeim sést hins vegar yfir, að ef opnað yrði fyrir hömlulausan og eftirlitslítinn innflutning af því tagi sem þá dreymir um, þá gætu fylgt með ýmsar lífverur sem svo smágerðar eru að ekki verða greindar með berum augum. Afleiðingarnar gætu orðið þær að íslenskir bústofnar yrðu fyrir verulegu áfalli. Það hafa áður verið gerðar tilraunir með slíkan innflutning og enn þann dag í dag er verið að berjast við afleiðingarnar af þeim skaða sem það olli. Það verður því að telja það afar varasamt að hlíta ráðum kaupmannanna, enda er ekki allt sem sýnist í málflutningi þeirra og því er ekki að treysta, að þegar til kastanna kæmi yrði varan sem þeir vilja fá að flytja hömlulaust inn eins örugg og æskilegt væri.

Komist íslensk stjórnvöld hins vegar að þeirri niðurstöðu að best sé að fela matvörukaupmönnum, í fákeppni sinni, að annast fæðuframboð í þeim mæli sem þeir sækjast eftir, þá þarf að finna flestum þeim sem landbúnað og úrvinnslu landbúnaðarvara stunda önnur úrræði til framfærslu, því vitanlega yrði ekki staðar numið við ,,hvíta“ kjötið eins og látið er í veðri vaka.

Velta má því upp hvort æskilegt sé að aflétta þeim kröfum sem gerðar eru til íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Þær leiða vissulega til aukins kostnaðar, en leiða á hinn bóginn til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Þetta þarf að vega og meta á yfirvegaðan hátt og hafa má í huga að Andrés Magnússon talsmaður SVÞ kvartaði undan því í útvarpsviðtali, að landbúnaðarvörur hefðu verið undanskildar í nýgerðum fríverslunarsamningi við Kína. Ef til vill felst framtíðin í því að ekki einungis íslenskur iðnaður og verkafólk keppi við þann vinnumarkað, heldur skuli landbúnaðurinn einnig taka þátt í því. Neytendum til listauka má benda á að ýmis hugguleg myndskeið má nálgast á alnetinu, þar sem sýnt er hvernig staðið er að aflífun dýra í þarlendum sláturhúsum.

Ef það verður hins vegar úr að til landsins verði flutt í ómældu magni matvara annarra þjóða, er rétt að menn geri sér grein fyrir því að afleiðingarnar geta orðið hrikalegar ef illa tekst til.

Að loknum kosningum.

28. apríl 2013

Er ekki rétt að þakka öllu því fólki sem lagði á sig ómælt erfiði og fórnaði tíma sínum í að berjast gegn því að spillingaröflin sigruðu kosningarnar?

Barátta þess skilaði árangri, því ef þau hefðu ekki fórnað sér í baráttuna þá hefðu hagsmunagæsluflokkarnir eflaust riðið enn feitari hesti úr hlaði en raun varð á.

Í framhaldi af niðurstöðunni byrja vafalaust helmingaskiptin og dúsupólitíkin.

Kvótaaðallinn, til sjávar og sveita, getur strokið svitann af enninu og glaðst yfir niðurstöðunni, fulltrúum þeirra fjölgar í þinghúsinu við Austurvöll.

,,Silfurskeiðabandalagið“ sem við blasir, mun væntanlega taka til við að skara eld að sinni köku með gamalkunnum aðferðum. Þeim sem flokkarnir tveir eru gamalreyndir í og hafa gefist þeim vel.

Íslenska samfélagið mun þegar á líður komast á vonarvöl eins og svo oft áður og ekki er því að treysta að framsóknaríhaldið geti til lengdar haldið samfélaginu gangandi með spillingar og sukkaðferðum.

Þegar allt verður komið í kaldakol mun þjóðin kjósa yfir sig stjórnmálaöfl sem standa fyrir raunveruleg gildi.

Það mun koma í þeirra hlut að rétta samfélagið við og að því loknu mun íslenska þjóðin kjósa yfir sig að nýju hin gömlu fjósbitaöfl, sem þykjast munu kunna ráð við hverjum vanda undir kjörorðinu: ,,Nú get ég“.

Svo er komið fyrir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum að mjólkurkýrin er geld, herinn fór til heimalandsins þrátt fyrir fræga ,,vináttu“ Davíðs og Bush og því verða þeir að halda mjólkandi þeirri sem þeir nærast á, þeirri sem þeir bjuggu til sjálfir, kúnni sem mjólkar auðlindir þjóðarinnar.

Nú er komin betri tíð með blóm í haga fyrir hagsmunagæsluöflin og ekki síður þá sem þau eru fulltrúar fyrir.

Innflutningur án takmarka.

17. apríl 2013

Öðru hvoru koma fram raddir um að hafinn skuli hömlulaus innflutningur á landbúnaðarvörum. Þykir ýmsum sem matarkarfan sé dýr hér á landi, hún sé ódýrari í nágrannalöndunum og víst er að ekki er hægt að bera á móti því, að í mörgum tilfellum er það svo. Samanburður af þessu tagi er hins vegar afar vandmeðfarinn, þó ekki sé nema vegna þess að bera verður saman sambærilega hluti. Það er snúið þegar bakgrunnur vörunnar er óljós, eins og t.d.: hvaða kröfur þurfti viðkomandi framleiðandi að standast.

Eitt það fyrsta sem í hugann kemur, þegar hugsað er til íslenskra verslunarmanna í innkaupaleiðöngrum erlendis, er hve lítið það er sem þeir geta boðist til að kaupa. Þeir koma frá landi sem er með afar fáa íbúa og ekki nóg með það, heldur eru þeir svo ólánsamir að alþekkt er að kjör landsmanna eru ekki neitt tiltakanlega slök í alþjóðlegum samanburði; kaupgetan svokallaða er sem sagt umtalsverð. Þarna eru strax komnar tvær ástæður til að gera kaupmanninum okkar erfiðara fyrir en ef hann væri frá öðru og fjölmennara ríki og það strax í upphafi leiðangursins sem er þó rétt að byrja. Eftir er að koma vörunni heim.

Þó ekki sé með sanni hægt að halda því fram að siglingar til eyjunnar okkar, sem er á Atlantshafshryggnum miðjum í Norður Atlantshafi séu stopular, mælt á þann kvarða sem gilti er einungis var talað um haust- og vorskip, þá er það samt sem áður svo, að landið er ekki í tengslum við flutningakerfi meginlandanna á þann hátt sem vera myndi ef takast mætti að drösla því dálítið til þannig að það yrði samfast annað hvort Evrópu, nú eða Ameríku ef mönnum hugnaðist það betur.

Það er illgerlegt að flytja Ísland til meginlandanna, því verður að flytja vöruna sem keypt er erlendis til Íslands. Það er að segja, ef ætlunin er að selja hana þar. Það er hins vegar ekki endilega nauðsynlegt, því hinn íslenski kaupmaður getur vitanlega selt það sem hann var að kaupa hvert sem hann vill og Ísland er ekki eina landið sem er í boði. Hann vill hins vegar, af einhverjum ástæðum, selja það sem hann er búinn að kaupa, á Íslandi og verður því að koma vörunni yfir hafið og það kostar peninga. Af ástæðum sem allir þekkja sem stundað hafa verslun, hefur hann hug á að fá til baka það sem hann lagði út og gott betur. Fá bæði það sem hann greiddi fyrir vöruna og að auki útlagðan kostnað við að koma henni á markað, sem hún er ekki nærri komin á þó komin sé á hafnarbakkann í Reykjavík . Ýmislegt er eftir sem ekki verður farið útí að telja upp hér, en á endanum vill hinn virðulegi verslunarmaður fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Það sem kaupmaðurinn veit eftir að hafa farið í þennan leiðangur er, að það getur fylgt því dálítið bras að stunda verslun og þjónustu á Íslandi, jafnvel eilítið meira bras á hverja vörueiningu en ef hann hefði haldið sig við stærra markaðssvæði.
Það hlýtur því að mega álykta að eitthvað annað en hrein gróðavon valdi því að hann vill selja vörur sínar á Íslandi. Á þessum vettvangi verður honum ekki ætlað annað en það ,,að römm sé sú taug…“ o.s.frv. Hann langar að eiga heima og starfa í landinu sínu og lái honum hver sem vill. Kaupmaðurinn er svo lánsamur að hann er ekki einn um þá skoðun, að gott geti verið að búa á þar. Ekki síst er það mikið lán fyrir hann, að á landinu hans búa, auk hans sjálfs, u.þ.b. 320000 manns sem hann getur snúið sér til sem líklegra kaupenda.
Þar býr sem sagt þjóð og hún er töluvert upptekin við að halda úti þjóðfélagi og því fylgir að fólkið í landinu er við ýmsan starfa, sumir eru verslunarmenn, en ekki allir, sem betur fer myndi kannski einhver segja. Sumir eru sjómenn aðrir bændur, þá finnast í landinu smiðir af öllu mögulegu tagi og svona mætti lengi telja því starfstéttirnar eru ótrúlega margar og fullvíst er að kaupmaðurinn okkar gleðjist í hjarta sínu yfir því hve fjölbreytt samfélagið hans er. Hann er samt ekki alveg ánægður og langar alveg óskaplega mikið til að flytja til landsins ódýr matvæli þjóð sinni til hagsbóta og í þessu vinnur hann vakinn og sofinn.

Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, eftir vandlega athugun, að matur sé nokkru dýrari í litla samfélaginu hans, en hann getur hugsanlega keypt hann á í útlöndum. Þá hefur hann einnig fundið það út, að bændur séu ekki allir þar sem þeir eru séðir, þeir séu a.m.k. tvennskonar, þ.e. annars vegar góðir og hins vegar vondir og það skiptist nánast að jöfnu kjötið sem hann borðar, þannig að ,,vondu“ bændurnir framleiði um helming þess sem kjöts sem hann setur ofan í sig og kjötið er af svínum og kjúklingum, dýrin eru höfð í húsum en ganga ekki uppum fjöll og firnindi og af því dregur hann þá ályktun, að eldi dýranna sé ,,iðnaður“. Líklega er það vegna þess að hann þekkir fremur lítið til iðnaðar að hann telur ,,iðnað“ vera af hinu illa. Í þessum hugrenningum sést kaupmanninum okkar yfir það að önnur dýr eru einnig höfð í húsum, sum mikið og önnur minna, en þar sem hann veit það ekki, þá hefur hann engar áhyggjur af því. Eins og allir vita þá er það einungis það sem við vitum um, sem við getum haft áhyggjur af, hitt er utan sviðsins ef svo má að orði komast.

Það er reyndar nokkuð margt sem kaupmanninum okkar sést yfir í þessu sambandi og t.d. sést honum algjörlega yfir þá staðreynd að matvara er ekki hvað sem er. Kjöt er, svo dæmi sé tekið, afurð af einhverju dýri sem alið hefur verið til þess að verða í fyllingu tímans að kjöti og kjöt verður ekki gott til neyslu, nema að farið sé með það eftir ákveðnum reglum. Til að þær reglur séu virtar hafa flestar þjóðir heimsins komið sér upp eftirliti með framleiðslunni. Reglurnar eru misjafnar eftir löndum, en í þeim löndum sem við þekkjum best, er um að ræða umtalsverðan ,,reglugerðaskóg og eftirlitskraðak“, eins og ég ímynda mér að títtnefndur kaupmaður myndi kalla það.

Á eyju kaupmannsins er talsvert um slíkar reglur neytendum til hagsbóta og öryggis - og gleymum því ekki að allir á eyjunni eru náttúrulega neytendur líka - en einnig er talsvert mikið um allskyns reglur og eftirlit til að vernda búfénaðinn sem þar er, sem öfugt við kaupmanninn, hefur ekki átt þess kost að ferðast til annarra landa og krækja sér í ýmsar miskræsilegar pestir. Af því leiðir, að dýrin eru í svipaðri stöðu og frumbyggjar Ameríku forðum, að hafa ekki mótstöðu gegn sjúkdómum sem herjað hafa annarstaðar og þarlendir dýrastofnar hafa náð að byggja upp mótstöðu gegn í aldanna rás.

Ekki svo að skilja að ekki hafi verið reynt að flytja inn til landsins ýmis dýr til kynbóta, það hefur verið gert um aldir með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið á hverjum tíma. Það getur kaupmaðurinn kynnt sér þegar hann má vera að. Gæti t.d. byrjað á að fara svo sem 900 ár aftur í tímann. Hvað gerðist þá og hvernig var brugðist við.

Það eru sem sagt alls kyns ljón í veginum til að kaupmaðurinn geti fengið ósk sína uppfyllta. Sjálfsagt er það miður, ekki síst vegna þess að óskin er sett fram af góðum hug, eins og hann tók sjálfur svo vel og vandlega fram.

Í lok þessa pistils er rétt að koma því á framfæri að skv. upplýsingum sem birtust í Fréttablaðinu þann 6. apríl sl. þá hefur vísitala kornvöru hækkað um rúm 80 stig á síðastliðnum fimm árum á meðan vísitala fuglakjöts hækkaði um rúm 30 stig. Samkvæmt sömu heimild hækkuðu raftæki um 45 stig á sama tíma. Fróðlegt væri að fá upplýst hvaða ástæður liggja þar að baki. Þá má og geta þess að föt eru talin hafa hækkað um 70 stig.

Til að kaupmaðurinn okkar geti aflað sér greinargóðra upplýsinga um hvað geti verið til ama við innflutning á kjötvörum er rétt að benda honum á að kynna sér t.d. meðfylgjandi tengla þegar hann má vera að og getur litið upp frá því göfuga áhugamáli sínu að bæta kaupmátt íslensku þjóðarinnar.

http://boli.bondi.is/fyrirlestrar/hadegi_3_april_2013/smitsjukdomastada_islensks_bufjar/ og http://boli.bondi.is/fyrirlestrar/hadegi_3_april_2013/innflutt_fersk_matvaeli_og_sykingarhaetta/