Niðurstaða kosninganna liggur fyrir í Reykjavík eftir ótrúlega ömurlega frammistöðu talningagengisins á þeim bæ, lélegustu kjörsókn sem um getur, ömurlegustu kosningabaráttu sem efnt hefur verið til, þar sem tekist var á um fasisk sjónarmið Framsóknarmanna í Reykjavík og að lokum eitt dapurlegasta kosningakvöld Sjónvarpsins sem menn muna eftir. Byrjaði með amerískri útgáfu af ,,Bleika pardusnum“ og lauk síðan með hallærislegu kosningasjónvarpi sem byggðist á júróvískum tónlistartilburðum.

Sigurvegari kosninganna var Samfylkingin með Dag B. Eggertsson í forystu og hinn nýi fas- rasista flokkur Framsóknar.

Sjálfstæðisflokkurinn hélt sjó miðað við það sem við hafði verið búist undir stjórn leiðtogans frá Ísafirði og eini raunhæfi meirihlutahópurinn sem raunhæft virðist að mynda, miðað við niðurstöðu kosninganna, er að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn taki höndum saman.

Nefnt hefur verið að Samfylkingin, Björt framtíð, Píratar og Vinstri græn geti myndað meirihluta, en það er tæpast raunhæfur kostur m.v. framgöngu fulltrúa VG á síðasta kjörtímabili. Öfgafull afstaða til Orkuveitunnar leysir ekki vanda hennar og hætt er við að fjögurra flokka meirihluti af þessu tagi yrði erfiður í framkvæmd.

Síðan er vissulega sá möguleiki fyrir hendi að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, VG, Píratar og Björt framtíð myndi saman ofur- meirihluta; kæmu sér saman um að vinna af heilindum í að koma borgini út úr vandamálunum sem vissulega eru enn til staðar, þrátt fyrir styrka stjórn á síðasta kjörtímabili.

Þá yrði öfgaflokkurinn einn um andstöðuhlutverkið, sem væri vissulega ekki slæmur kostur á kjörtímabilinu, en gæti orðið til að blása í hann auknu lífi í næstu kosningum og miðað við málatilbúnað Framsóknar væri það síður en svo heillavænleg niðurstaða.

Niðurstaðan er sem sagt flókin, bíður upp á ýmsa möguleika til meirihlutamyndunar og raunar er allt opið, nema það að hinn tækisfærissinnaði öfgaflokkur sem bauð fram í nafni Framsóknar verður klárlega ekki með í meirihlutasamstarfi af neinu tagi, nema ætlunin sé að kynna Íslendinga sem alheimsviðundur á alþjóðavettvangi.

Reykjavík er höfuðborgin, þar er löngu komið nóg af skrípaleikjum og því verður að vanda til við myndun meirihluta og ekki síður þarf sá meirihluti sem myndaður verður að vanda störf sín og framgöngu.

Dansinn

18. maí 2014

Vonandi er að trylltur dans sem stiginn var af þingflokki Framsóknarflokksins við þinglok, nú nýlega, hafi ekki slæmar afleiðingar.

Kjánahrollur hríslast um þjóðina og flestir stara á myndina í fullkomnu orðleysi. Er þetta fólkið sem heldur um stjórnartaumana? Hvað gerðist, hví láta þau svona?

Það var dansað í Hruna.

Það sem gerðist var að loforð, sem flokkurinn gaf þjóðinni fyrir kosningar og gekk út á að í sjóði föllnu bankanna yrðu sóttir 300 milljarðar, sem síðan yrðu notaðir til að greiða niður áhvílandi lán á íbúðarhúsnæði landsmanna, var ekki efnt.

Það var dansað í Alþingishúsinu.

Óþarft er að fjölyrða um þetta makalausa loforð, það er flestum kunnugt, bæði þeim sem lögðu á það trúnað að unnt yrði að standa við það og einnig hinum sem töldu að það væri ekkert annað en loforðasúpa, kokkuð af spunameisturum Framsóknarflokksins í tilefni kosninga.

_ _ _

Loforðasúpan skilaði flokknum góðum árangri í kosningunum, stórum þingflokki og forystu í ríkisstjórn með leiðitaman og valdaþyrstan Sjálfstæðisflokkinn í taumi. Nú skildi tekið til hendinni og hafist var handa.

Álögum yrði létt af hinum efnameiri, virðisaukaskattur af gistiþjónustu lækkaður, skattar á nýtingu helstu auðlindar þjóðarinnar lækkaðir…

Enn var dansað.

Fyrirhuguðu samstarfi við Evrópusambandið með inngöngu hætt, strax og tekið upp nánara samband við Kína og Rússland.

Hófst þá öðruvísi dans sem stóð vikum saman, mótmæladans fyrir utan Alþingishúsið.

Framsóknarflokkurinn hrökklaðist til baka í málinu og Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði.

Þá var ekki dansað.

Fundin var aðferð til að kokka loforðasúpuna margfrægu:
Þjóðin ætti að borga sjálf sín lán, en með glænýrri aðferð. Sumir ættu að borga sumt fyrir suma og aðrir ættu að borga skuldir sínar sjálfir með sparifé, sem þeir þyrftu líklega ekki að nota hvort sem væri, það væri nefnilega alls óvíst að þeir næðu þeim aldri að þeir þyrftu nokkurn tíma á þeim sparnaði að halda.

Þóttust nú menn hafa vel gert.

Og því var dansað með aldursforsetann fremstan í flokki, þessa sem veit allt um saffran og kóreander.

ESB o.fl.

6. maí 2014

Margur hefur nefnt í umræðunni að undanförnu, að ríkisstjórnin eigi að standa við loforðið um skuldaniðurfellinguna og er það að vonum.

Í því sambandi er vert að hafa í huga að loforðið um skuldaniðurfellingu var aldrei annað en lygavefur, búinn til í þeim eina tilgangi að komast til valda. Hægt er að hafa ýmsar skoðanir á því hve smekklegt það sé, að halda því að fólki sem er í vandræðum, að til sé einföld og þægileg lausn á vandanum. Lausn sem ekki muni koma neins staðar niður, nema þá hjá ,,vondum“ eigendum gömlu bankanna.
_ _ _

Því hefur verið haldið fram að nú sé svo komið, að umræðan um Evrópusambandið sé orðin ,,þreytt“ og rétt sé að hvíla hana og ræða frekar um efndir á loforðunum fyrrnefndu, en þá er á það að líta að ESB málið snýst um það hvort hér verði búandi til framtíðar fyrir ungt og vel menntað fólk.

Horfast þarf í augu við það að Íslendingar eru landflótta í þúsundavís og svo verður til frambúðar, ef ekki tekst að uppræta það úr þjóðarsálinni að ekki megi um annað hugsa, þjóðinni til framfæris, en sjávarútveg, landbúnað, stóriðju og það nýjasta, ferðaþjónustu.

Þessi naumhyggja, í hugsun um atvinnumál, hangir eins og klafi á íslenskri þjóðarsál.

Hafi þau þökk sem ruddu brautina fyrir nýrri hugsun með nýrri von um að unnt yrði að hugsa málin upp á nýtt og reyna að koma þjóðinni út úr heimóttarskapnum og minnimáttarkenndinni.

Umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var og er, gott innlegg í það að snúa ofan að innhverfri hagsmunagæslupólitík sem hefur skaðað íslenskt þjóðarbú um áratugi.

Höfum líka í huga að sú tíð er liðin að hægt sé að lifa á sníkjum frá stórveldum; seinni heimstyrjöldinni er löngu lokið, eftirstríðsárunum líka og bandaríski herinn fór þegar honum hentaði, hvað sem íslenskir ráðamenn þusuðu og belgdu sig.

Þangað verður ekki, a.m.k. ekki um sinn, sótt hermangsfé, þótt einhver kynni að hafa til þess ríka löngun.

Jóhönnustjórnin

11. apríl 2014

Hvað eftir annað fara menn fram með fullyrðingar um að síðasta ríkisstjórn hafi verið ein sú versta í sögu þjóðarinnar, nú síðast Sveinn Andri Sveinsson.

Þó ég hafi ekki verið sérstakur aðdáandi Jóhönnu verð ég þó að koma því að, að menn skyldu leiða hugann að því hvernig ástandið var þegar hún tók að sér það lítt öfundsverða hlutverk að leiða Samfylkinguna og verða forsætisráðherra í ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem fékk það hlutverk að reyna að koma Íslandi á lappirnar eftir að óvandaðir menn úr helmingaskiptaflokkunum, voru búnir að brjóta fjöregg þjóðar sinnar í óstjórns-græðgi og mikilmennskubrjálæði.

Áttu sér, svo dæmi sé tekið, þann draum að gera Ísland að fjármálamiðstöð norðursins.

Ríkisstjórn Jóhönnu, í góðu samstarfi við AGS, hafði það af, að endurfjármagna að mestu leiti samfélagið og þar með talið Seðlabankann sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafði ásamt fleirum stýrt í gjaldþrot.

Eitt það þýðingarmesta sem Jóhönnustjórnin afrekaði var að fá í gegn að sótt yrði um inngöngu í ESB, þrátt fyrir að afturhaldsöfl úr flestum öðrum flokkum en Samfylkingunni, berðust hatrammlega gegn því.

Frjálshyggjuæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafði, svo fátt eitt sé talið, orðið til þess að allir bankar landsins voru fallnir, flestir sparisjóðirnir og a.m.k. eitt tryggingafélag líka.

Helstu fyrirtæki landsins voru á horriminni og í raun gjaldþrota, heimilin líka.

Búið var, í nafni frjálshyggju, að ræna flestum ríkisfyrirtækjunum og koma þeim í hendur ævintýramanna: bönkum, sjóðum, Símanum, o.fl.
Margt fleira mætti til tína, en í ljósi þess að nú eru helmingaskiptaflokkarnir aftur komnir til valda, og þess sem komið hefur í ljós um hvert það leiðir, þá er undirritaður stoltur að hafa stutt Samfylkinguna til góðra verka, þjóðinni til hagsbóta.

Vitanlega getur enginn verið ánægður með allt sem gert er, og t.d. átti Samfylkingin alls ekki að fylgja eftir Davíðs og Dóra- ruglinu varðandi hina veruleikafirrtu eftirsókn eftir vindi: sæti í öryggisráði S.Þ.

Á fésinu og víðar hefur dálítið borið á því að ýmsum finnist það hrósvert að Gunnar Bragi hafi verið á flandri austur í Úkraínu.

Það er ekkert nýtt né hrósvert við það að Framsókn baði sig í ljósi þeirra sem eru í vanda. Gerðu þau það ekki fyrir síðustu kosningar og nörruðu til sín atkvæði með falsi og lygum?

Gunnar Bragi sá bara gott tækifæri til að láta ljós sitt týra með för sinni til Úkraínu, notaði tækifærið til að baða sig þar í sviðsljósunum, því hver trúir því að það skipti nokkru minnsta máli austur þar, hvort hann sést eða sést ekki.

Hefði eins getað sent af sér mynd á korti sem hefði þó getað gert það gagn að loga eitt augnablik á bálköstum Maiden-torgs og auka þar ylinn um einn milljónasta úr gráðu eitt örlítið brot úr sekúndu.

Merkilegt að vilja styðja Úkraínu í viðleitni hennar til að tengjast Evrópusambandinu og halda sig frá Rússlandi, en berjast hins vegar eins og ljón fyrir því að Ísland halli sér sem mest að Rússlandi og Kína reyndar líka, en sem mest frá því sama Evrópusambandi.

Þegar augljóst og greinilegt samræmi verður í orðum og æði framsóknarforystunnar verður víst margur lostinn hinni makalausu ,,stórfurðu“ sem angrar formann Framsóknarflokksins hvað mest.

Hin beiska loforðasúpa

26. mars 2014

Samkvæmt hugmyndafræði Framsóknarflokks hins nýja, tapaði Samfylkingin fylgi í síðustu kosningum vegna þess að hún vildi ekki taka þátt í innistæðulausum loforðaflaum Framsóknar.

Lofa fólki gulli og grænum skógum til þess eins að laða að sér fylgi frá þeim sem áttu í mestu erfiðleikunum.

Vissu að sjálfsögðu að loforðasúpuna yrði að svíkja eftir kosningar ef svo færi að flokkurinn fengi fylgi í samræmi við þær væntingar sem spunameistarar flokksins höfðu byggt upp.

Í málflutningi Framsóknarmanna, frá því eftir kosningar, hefur hvað eftir annað komið fram sú fróma ósk, að fólk skuli sýna þolinmæði og bíða rólegt eftir því hvað leyndist í loforðapakka ríkisstjórnarinnar þegar að því kæmi að hann yrði reiddur fram.

Nú hefur það gerst og við sjáum hvernig Framsókn flæmist á flótta undan ósannindahrönglinu sem hrannast upp í kringum hana.

Pakkinn er kominn fram og búið að opna hann og í ljós hefur komið að í honum leynist ekkert annað en svikasúpa af beiskara taginu: skuldirnar verða greiddar úr ríkissjóði og af sparifé almennings.

Það versta er að þetta stjórnmálaafl er að vinna þjóðinni stórtjón með gjörðum sínum og Sjálfstæðisflokkurinn dinglar með.

Vegna frétta af B.Í.

18. mars 2014

Upplýst er orðið að Bændasamtök Íslands hafa ráðstafað umtalsverðum fjármunum til öfgasamtakanna ,,Heimssýn“.

Þetta er gert á sama tíma og B.Í. eru rekin með tugmilljóna tapi samkvæmt því sem fram kemur í Bændablaðinu.

Á sama tíma og fjöldi fólks gefur vinnuframlag sitt til félagsstarfa Bændasamtakanna og telur sig vera með því að vinna heildinni gagn.

Fyrir margt löngu fundu ,,stórhuga“ bændaforkólfar það út, af visku sinni, að ekkert væri nauðsynlegra fyrir bændur en byggja hótel í Reykjavík.

Töldu sig s.s. vera vel til þess fallna að standa í svoleiðis rekstri.

Hótel Saga reyndist þeim ekki nóg og því tóku þeir að sér rekstur Hótels Íslands líka.

Nú eru þeir búnir að skila Hótel Íslandi til bankans, en reka áfram Hótel Sögu, sem hefur væntanlega dugað samtökunum vel, þar til nýlega, að það rann upp fyrir þeim að rétt væri að fara með hluta starfseminnar í Hörpu til tilbreytingar.

Lukkaðist vel, en hefur væntanlega kostað sitt.

Ekki tókst B.Í. að hindra að Lánasjóður landbúnaðarins væri ,,seldur“ Landsbanka Íslands fyrir hrun.

Kannski var það ekki reynt, stór hluti andvirðisins átti að renna inn í Lífeyrissjóð bænda.

Reyndin varð sú að stór hluti fór í að styrkja byggingar reiðhalla vítt og breitt um landið.

Eru það einhver álög á Bændasamtökunum að þurfa sínkt og heilagt að vera í stórhuga fjárveitingum út og suður til verkefna sem ekkert hafa með hagsmuni bænda að gera?

Telja menn að bændur hafi það almennt svo yfirmáta gott að ekki verði gert betur og því sé best að snúa sér að öðru?

2 + 2

13. febrúar 2014

Grundvallarreglur stærðfræðinnar voru teknar til umræðu af bankastjóra Seðlabanka Íslands.

Í viðtali við fréttamenn sá hann ástæðu til að minna á að reglan um 2+2 sé enn í gildi, en af tillitssemi við formann Framsóknarflokksins og fylgilið hans, lét hann útkomuna liggja milli hluta.

Þar sem ritara þykir frekar vænt um framsóknarmenn og hefur af þeim góða reynslu, telur þá vel viljað fólk sem öllum vill gott gera og láta gott af sér leiða, verður hann að lýsa yfir ánægju sinni með að ekki var lengra gengið í að leiða jöfnuna til lykta.

Flest vitum við að 2+2 gefur niðurstöðuna fjóra, það er þó ekki alltaf eins og kunnugt er, en reglan er eigi að síður góð og gild og á almennt vel við varðandi það sem venjulegt fólk er að fást við.

Þar stendur nú einmitt hnífurinn í vorri kú, eða gíraffa, ef einhver vill heldur hafa það svo.

Venjulegt fólk, þessir hversdagslegu brauðstritarar sem við flest erum, það getur sætt sig við að 2+2 = 4 og jafnvel líka að 2 x 2 = 4, hvernig sem það má nú vera að það gangi upp.

Fyrir daga Sigmundu var það ekki tiltakanlegt vandamál, langflestir sættu sig orðalaust við að svona væri þetta bara.

Það er hins vegar liðin tíð.

Nú eru komnir nýir tímar með nýju fólki, Sigmundi, Bjarna, Frosta, Vigdísi, Gunnari Braga og öllum hinum sem poppuðu upp á Alþingi þjóðinni til ómældrar blessunar.

Nú eru komnir þeir tímar að ýmsar skemmtilegar og líflegar reglur hafa tekið við:

Í fáum orðum mætti ef til vill orða það þannig að ,,allt verður af engu“ og ,,að engu“ bara ef rétt er að farið og svo auðvitað, og ekki má gleyma því, ,,að sólin kemur upp í Kína“ og einnig hitt sem mönnum hefur lengi sést yfir ,,að sólin sest (auðvitað) í Evrópu“.

Af þessu má ljóst vera að seðlabankastjórinn hefur rangt fyrir sér. Hann hefur ekki fylgst með þróuninni, tileinkað sér hin nýju vísindi, þarf að fara í endurhæfingu.

Utanríkisráðherrann mun, í góðu samstarfi við bóndann á Bessastöðum og í samvinnu við mannkynsfrelsarana í drekaríkinu sjá um það, enda þeir austur það í góðri æfingu við endurhæfingar af ýmsu tagi.

Það liggur sem sé fyrir og mátti staðfestast fyrr, að stærðfræðin er úrelt, hagfræðin líka og einnig allar hinar fræðigreinarnar sem við, sem um þetta höfðum alltaf óljósan grun og tókum því engin próf í neinni þeirra, eru bull eitt og að engu hafandi.

Nokkur orð um hin vammlausu

18. desember 2013

Hugsum okkur að við ætluðum að byggja álver.

Nokkur atriði þurfa að vera til staðar til að það geti orðið að veruleika, svo sem hráefni (súrál), starfsstöð á góðum stað, orka til að knýja verið, hafnaraðstaða og gott starfsfólk. Fleira mætti til telja.

Hvað af þessu var til staðar þegar framkvæmdir hófust við ,,svokallað” álver á Suðurnesjum?

Hráefni er flutt að um langan veg og komin er reynsla á hvernig að því skuli staðið.
Varðandi orkuna þá þarf hún að vera fyrir hendi og til þess að svo geti orðið, þurfa nokkur skilyrði að vera uppfyllt og eitt það helsta að orkan sé yfirleitt til, einhverstaðar, og að henni verði komið með tryggum hætti á vinnslustað.

Ekkert af ofantöldu var til staðar í þessu dæmi, nema, að hugsanlega var hægt að útvega súrálið.

Þessu til viðbótar hafði ,,gleymst” að gera ráð fyrir hafnaraðstöðunni fyrir skipin sem flytja skyldu hráefni að og afurðir frá verksmiðjunni og því var það að vællinn um fyrirgreiðslu Ríkisins og framlög til hafnarframkvæmda hófust á síðasta kjörtímabili.

Nú vill framsóknaríhaldið halda málinu til streitu og virkja til að virkja. Það vilja þau algjörlega án tillits til þess hvort það muni skila virkjunaraðilum hagnaði eður ei.

Þegar nær það eina sem Íslendingar leggja til í þessu dæmi er orkan til vinnslunnar, fyrir utan starfsmenn til starfa í álverinu, er svo að sjá að núverandi stjórnvöldum standi nákvæmlega á sama um hvort orkuframleiðslan skili arði. Hvers vegna er það? Hvort er verið að hugsa um þjóðarhag eða atkvæðaveiðar? Hangir eitthvað annað og óljósara á spýtunni? Spyr sá sem ekki veit.

En.

Miklir menn erum vér Mörlandar að hafa borið gæfu til að kjósa yfir okkur stjórn hinna vammlausu.

Það næsta sem hugsanlega gerist í stöðunni er að Birgir Ármannsson og Gunnar Bragi Sveinsson, sem eru í alkunnu fóstbræðralagi, taki höndum saman og stefni íslenska Ríkinu og orkufyrirtækjum þjóðarinnar fyrir að hafa ekki getað tryggt að allt ofangreint gengi upp samkvæmt formúlunni um að heimskum skuli á foraðið etja.
Hugsanlega fær Ragnheiður Elín Árnadóttir að vera með ef hún stendur sig vel í ,,hagsmunagæslunni“.

Ritstjóri á flugi.

29. nóvember 2013

Í gein í Fréttablaðinu þann 23. nóvember s.l. tekur ritstjóri blaðsins málefni íslenskrar kjúklingaframleiðslu og innflutning á kjúklingakjöti til umfjöllunar. Margt er þar ofsagt og sumt er ekki rétt með farið.

Ólafur Stephensen byrjar grein sína á fullyrðingu um að íslenskir kjúklingaframleiðendur hafi breitt afstöðu sinni til innflutnings á kjúklingakjöti. Hið rétta er að þeir hafa ekki haft neitt með það að gera. Um það var samið á sínum tíma að leyfður yrði innflutningur til landsins á ýmsu kjöti og þar á meðal kjúklingum, til að liðka fyrir að tollar á útflutt ísl. lambakjöt yrðu felldir niður.

Seinna í greininni setur Ólafur fram þessa fullyrðingu:
,, Samt gilda strangari reglur um innfluttan kjúkling en innlendan“.
Hafi Ólafur kynnt sér málið, veit hann að fullyrðingin er röng. Kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis erlendra kjúklinga eru til þess að þeir komist nær því að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.

Ólafur lýsir yfir mikilli ánægju með að gerðar séu ríkar kröfur til að íslenskir kjúklingar séu lausir við salmonellu. Það kemur skemmtilega á óvart, því greinin gengur að öðru leiti út á að sýna fram á hve nauðsynlegt það sé, að heimilaður verði hömlulaus innflutningur á kjúklingakjöti, sem gera verður ráð fyrir að Ólafur viti vel, að ekki eru gerðar kröfur um að uppfylli heilbrigðiskröfur í sama mæli og gert er hérlendis. Hvort hinar íslensku kröfur séu réttar og eðlilegar og hvort og hvernig þeim er framfylgt, er hins vegar mál sem hafa má ýmsar skoðanir á.

Er til að mynda rétt að urða allt kjúklingakjöt sem salmonella hefur borist í? Ólafur bendir réttilega á, að hægt er að gera það að heilnæmri neysluvöru með þeirri einföldu aðferð m.a., að sjóða eða steikja kjötið. Íslendingar hafa valið þann kost að urða slíkt kjöt, líklega vegna þess að þeir telja sig öðrum þjóðum fremri í matvælaframleiðslu, en leitun er að þjóðum sem leifa sér slíka sóun á verðmætum. Hitt er annað mál að seint verður lögð of mikil áhersla á að matvara á neytendamarkaði sé góð og heilbrigð, laus við óhollar örverur og lyfjaleifar. Íslenskir kjúklingabændur hafa náð að uppfylla þær kröfur með árangri sem þeir geta verið stoltir af, svo sem nýlegar rannsóknir sýna.

Ólafur veður elginn í greininni og lætur sem hann sé að fjalla um málefni sem hann viti allt um, en þegar að er gáð, kemur í ljós að umfjöllun hans gerir í raun ekki annað en upplýsa vanþekkingu, nema að skrifað sé gegn betri vitund. Satt að segja verður að telja það líklegra, því fram til þessa hefur Ólafur verið talinn vel upplýstur um það sem hann hefur valið sér að fjalla um.

Með góðum óskum til ritstjórans sem valdi þann kost að fljúga í átt til sólar og ósk um að hann fari þar ekki of nærri, með kunnum afleiðingum.

Formaður Félags kjúklingabænda.
Ingimundur Bergmann.