Bændasamtök Íslands

22. janúar 2019

B. Í. eru samansett úr ýmsum greinum landbúnaðarins, s.s. félögum sauðfjárbænda, kúabænda, garðyrkjubænda, svínabænda, kjúklingabænda, hrossabænda, o.fl.

Bændasamtökin eru sem sagt hagsmunasamtök hinna ýmsu búgreina og nær allar bera þær nöfn þeirra greina sem um ræðir nema eitt þ.e.: ,,Félag ungra bænda”.
Til að fyrirbyggja misskilning, þá er um að ræða bændur sem telja sig vera ,,unga”, yngri en hina og eftir því sem hér kemur fram, búa með kýr og kindur.

Þessi hópur hefur náð svo langt í hagsmunabaráttu sinni að hann er orðinn sérstök deild innan Bændasamtakanna og hefur með því móti tryggt sauðfjárbændum og kúabændum aukið vægi í samtökunum frá því sem áður var. Hefur reyndar mörgum þótt misvægi búgreina ærið fyrir.

Fátítt, ef ekki óþekkt, er að svona sé að málum staðið í félagasamtökum sem sambærileg geta talist. Ekki hefur undirritaður orðið var við að til séu orðin sambærileg félög innan ASÍ eða SA.

Hugsanlega hefur hápunkti þessa fyrirkomulags verið náð þegar fyrrverandi landbúnaðarráðherra skipaði nefnd um endurskoðun búvörusamninga. Skipaði hann þá sérstakan fulltrúa frá Ungbændum og jók þar með skekkjuna sem fyrir var milli búgreina.

Í nefndinni voru fyrir fulltrúar frá Félagi kúabænda, sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, svínabænda… en enginn frá Félagi kjúklingabænda (sem framleiða og selja um 1/3 þess kjöts sem neytt er á íslenskum markaði) og heldur enginn, svo annað dæmi sé tekið, fulltrúi frá hrossabændum sem framleiða kjöt af hrossum og selja einnig lifandi hross til annarra landa.

Þetta ráðslag fyrrverandi landbúnaðarráðherra lifði ekki lengi eða lítið lengur en hann náði að sitja í embætti.

Ef stefna Bændasamtakanna er sú að beita brögðum af þessu tagi til að tryggja hinum ,,hefðbundnu” búgreinum algjör yfirráð yfir samtökunum, þá er hægt að benda þeim á, að vel má ganga lengra. Vel má hugsa sér að skipta hinum ,,hefðbundnu greinum upp í: Félög ungra, miðaldra og aldinna meðlima og jafnvel gætu hugmyndaríkir fundið upp á enn fleiri útfærslum. Og þegar svona væri komið gætu síðan þau sem hefðbundnari vildu vera, stofnað Landsamtök bænda, þ.e. þeirra bænda sem vinna vildu að framgangi sinna mála á málefnalegum grunni og án skrípaláta af þessu tagi.

Hér fyrir neðan eru klippur úr frétt af aðalfundi ,,Samtaka ungra bænda” eins og það er látið heita:

,,[…]Á fundinum var samþykkt stefnumótun samtakanna til næstu fimm ára […]. Á dagskrá fundarins voru […] ályktanir um afstöðu samtakanna til framleiðslustýringar í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.
[…]
Fundurinn telur að hagsmunum ungra bænda í mjólkurframleiðslu sé best varið með því að viðhalda framleiðslustýringu í greininni. […]
Fagna tilkomu markaðs með greiðslumark í
sauðfé[…]”

Lesa má fréttina í heild ef smellt er á tengilinn, en eins og sjá má er um að ræða aukaútgáfu af samtökum sauðfjár og kúabænda.

https://www.bbl.is/frettir/frettir/samtok-ungra-baenda-vilja-innlausnarmarkad-i-mjolkurframleidslu/20829/?fbclid=IwAR3evbWdmrPegUDbLz_4j_5BNJQchcYJ7mqs4wd-7gqBA8JbibicNFMJdvQ

Orkumálastjóri ritaði ágæta grein á dögunum, sem nokkuð hefur farið fyrir brjóstið á a.m.k. sumum þeirra sem telja sig vera vini umhverfisins meiri og mikilvægari, umfram það sem gerist og gengur.

Nokkur athyglisverð atriði koma fram í greininni sem vert er að halda til haga og ég ætla að leyfa mér að tína nokkur til hér:

1) Í greininni er þess geti að fram sé kominn efnarafall sem skilar 163 ha.

2) Að augu manna séu að opnast fyrir nýtingu lággildrar varmaorku og jarðhita.

3) ,,Það er rangt, sem haldið hefur verið fram, að rafmagnsframleiðsla okkar sé ótengd Evrópu. Við erum í samkeppni við önnur Evrópulönd um fjárfestingar í nýjum orkukrefjandi iðnaði og vörur sem eru framleiddar með íslenskri raforku fara inn á Evrópumarkaðinn í skjóli þeirra tollafríðinda sem við njótum innan EES. Þess vegna fylgist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grannt með fjárfestingum í virkjunum og flutningsvirkjum til þess að tryggja að einstök fyrirtæki séu ekki að fá óeðlilegar ívilnanir og fyrirgreiðslu sem líta má á sem ríkisstyrk. Meðan við viljum eiga þennan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins verður viðskiptalegt umhverfi á Íslandi að vera sambærilegt við það sem gildir í aðildarlöndunum. Það gildir líka um framleiðslu, sölu, flutning og dreifingu á raforku.”

4) ,,Söguleg gögn segja okkur að raforkuframleiðsla til stórnotenda skapi útflutningsverðmæti upp á 25 milljarða króna á ári. Til samanburðar þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2017 um 197 milljarðar króna. Það er því frekar auðvelt að greina hvaða hagvaxtarmöguleika við erum að útiloka með friðun einstakra virkjunarkosta.“

Í lok greinarinnar stingur höfundur upp á að menn panti ætíð rafmagnsbíl ef þeir panti sér leigubíl. Það gerir hann væntanlega í þeirri trú að um umhverfisvænan samgöngumáta sé að ræða. Vel getur verið að það sé rétt, en um það er deilt. Því hefur verið haldið fram að ekki sé allt sem sýnist í því efni, að umhverfismengunin við framleiðslu slíkra bíla sé umtalsvert meiri en við bensín og dieselbíla og það svo, að hin vistvæna orka sem notuð sé á rafbílana dugi ekki til að vinna á móti þeirri mengun sem af framleiðslu þeirra stafar.

Hins vegar er ekki um það deilt að sú vegalegnd sem hægt er að fara á rafbílum á hverri hleðslu, er til muna minni og að það tekur meiri tíma að hlaða rafbílinn en að dæla eldsneyti á þá sem það nota.

Höfundur stingur upp á að ef maður ætli til Egilstaða frá Reykjavík með leigubíl, ætti viðkomandi að panta sér rafbíl.

Hætt er við að slíkt ferðalag gæti orðið bæði tafsamt og leiðigjarnt, nema að viðkomandi hafi sérstaka ánægju af að dvelja á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Fyrir nú utan það, að tæplega er líklegt að pöntun leigubíla til slíkra langferða sé almenn.

Suðurlandsvegur

30. desember 2018

Hörmulegt slys á Suðurlandsvegi hefur enn einu sinni komið af stað umræðu um ástand þessa mannvirkis. Brýr eru gamlar og margar einbreiðar, vegurinn er mjór og kantar á slitlagi víða brotnir. Vegurinn er ójafn og missiginn og seint er gert við holur sem myndast þegar brotnar upp úr slitlagi.

Viðhald og endurbætur á veginum allar götur frá Keflavíkurflugvelli og austur um Suðurland, hefur verið vanrækt um margra ára bil. Ekki hefur verið lokið við tvöföldun vegarins frá flugvellinum og til Hafnarfjarðar og ekki bólar á breikkun frá Rauðavatni að Sandskeiði og enn er ekki byrjað á breikkun milli Hveragerðis og Selfoss, sem er alræmdur slysakafli. og ný brú yfir Ölfusá er enn einungis á umræðustigi.

Á þessari leið er flest það sem ferðamennirnir virðast sækja í að sjá og njóta, og það eru þeir sem hafa dregið þjóðarbúið upp úr því feni sem draumóralið Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ruddu því ofaní – óvart og óviljandi(!) – það var aldrei ætlunin: stefnan var sett á fjármálamiðstöð Norður- Atlantshafsins.

Ástand þessa samgöngumannvirkis er til skammar og sýnir hvernig viðhorf stjórnmálamanna hefur verið til þeirrar samgönguæðar sem einna mest mæðir á vegna ferðamannastraumsins.

Sé það ásetningur að halda veginum í þessu ástandi, í þeirri von að það flæmi ferðamennina ,,eitthvað annað“, væri hreinlegast að gefa það opinberlega út.

Þó þeir sem valist hafa til að stjórna landinu síðustu árin, haldi kannski að hægt sé að dreifa straumi ferðamannanna með því að vanrækja vegakerfið þar sem álagið er mest, þá vita flestir aðrir að þannig virkar þetta ekki.

Ferðamennirnir fara þangað sem það er sem þá langar til að sjá. Borða það sem þá langar til að borða. Gista þar sem þeir finna sér viðunandi gistingu. Rétt eins og flestir ættu að kannast við frá sjálfum sér.

Er það ekki þannig sem við viljum hafa það þegar við förum til annarra landa, að skoða það sem okkur langar til að sjá, fara þar um sem við þurfum að fara til að komast á þá staði sem við æskjum og velja síðan gistingu eftir smekk og aðstæðum?

Um veggjöld

29. desember 2018

Hugmyndin um innheimtu veggjalda gengur að mörgu leiti illa upp og engar trúverðugar útfærslur á hugmyndinni hafa komið fram. Sést það vel, ef hugsað er um það sem þarf að gera í dreifðum byggðum.

Að hægt verði að leysa vanda Landeyjahafnar með slíkum gjöldum (sem ég hef séð nefnt í umræðunni) er að mínu mati ekki raunhæft. Aldrei hefði verið farið út í þá framkvæmd ef menn hefðu hugsað málið og sýnt ábyrgð. Flest bendir til að Landeyjahöfn verði klafi á þjóðinni um ókomna tíð. Annað hvort þangað til að á þeim vandamálum sem þar er við að eiga finnst lausn, eða að menn fá nóg af, gefast upp á ,,höfninni“ og leita raunhæfrar lausnar. Sem t.d. gæti falist í því að tvær ferjur sigldu hvor á móti annarri milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.

Í fréttum að undanförnu hefur verið rætt um að bæta þurfi veginn á Strandir. Hvernig hugsa menn sér að greiða það með veggjöldum? Mörg slík dæmi mætti nefna.

Mikil þörf er á að byggja nýjar brýr víða um landið. Ýmist að endurnýja þær algjörlega og byggja tvöfaldar og/eða byggja einfaldar brýr þar sem það getur átt við og þá með því fyrirkomulagi að um sitt hvora akstursstefnuna sé að ræða á þeirri nýju og þeirri gömlu. Hvernig ætla menn að greiða þær framkvæmdir með veggjöldum?

Brýn þörf er á að breikka, jafna og aðskilja akstursstefnur á mörgum vegum, ekki síst á þjóðvegi 1. Hvernig ætla menn að greiða það með veggjöldum? Eru þeir sem boða þessa leið tilbúnir með útfærslu á því hvernig það verði gert?

Þó vel hafi gengið að greiða Hvalfjarðargöngin með veggjöldum, þá mega menn ekki láta það glepja sér sýn. Það sýnir okkur einungis, að þar sem líkur eru á mikilli umferð, getur gjaldheimta þessarar gerðar gengið upp.
Veggjöld geta s.s. átt við þar sem umferð er yfir einhverju skilgreindu lágmarki, þar sem hægt er að velja um leiðir og rétt er, að víða erlendis hafa menn farið þessa leið.

Vandséð er hins vegar, hvernig þau geta verið sú allsherjarlausn sem Jón og Sigurður og aðrir boðberar þessarar innheimtuaðferðar, eru að halda að fólki. Athyglisvert er, að ekki hefur verið komið fram með útfærslu á hugmyndinni. Einungis farið um hana almennum orðum og þá þannig að ekki er skýrt út hvert stefnan er sett.

Satt að segja ekki með öllu útilokað að eftir sé að hugsa málið til enda, að hugmyndin hafi verið gripin á lofti og síðan kastað fram í umræðuna. Jafnvel í þeirri von að sem flestir myndu stökkva á vagninn, telja að hér sé fundin lausn og síðan geti ríkisstjórnin haft frítt spil með framhaldið, útfærsluna og innheimturnar.

25. ágúst 2018

25. ágúst 2018

Lýðræði?

12. júlí 2018

Ég varð vitni að rökræðum um hvernig lýðræðið væri í Rússlandi nútímans um daginn. Einum fannst það vera viðunandi en öðrum að það vantaði talsvert á til að sæmilegt gæti talist. Þetta vakti hjá mér hugrenningar, og varðandi Rússa, þá er vert að hafa í huga, að frekar stutt er síðan Sovétríkin hurfu inn í móðu sögunnar og einnig hitt, að flest munum við vera sammála um að í því samfélagsformi sem þá var, hafi ekki verið það sem kalla má lýðræði. Að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem við flest leggjum í það orð.

Og vegna þess hve margir eru fúsir til að gagnrýna núverandi ástand í Rússlandi, þá varð mér hugsað sem svo: hvernig er þetta hjá þeim þjóðum sem búið hafa við ,,lýðræði”, t.d. frá lokum seinna stríðs?

Hversu djúpt ristir lýðræðið t.d. á Íslandi, Bretlandi, Ítalíu, Tyrklandi, Grikklandi, Spáni, Portúgal og Bandaríkjunum? Vissulega enginn tæmandi listi og alls ekki djúpt hugsaður. Í öllum þessum ríkjum sem ég taldi upp má hafa efasemdir um að gallalítið lýðræði ríki og svo er líka endalaust hægt að spyrja: Hvar byrjar lýðræðið og hvar endar það?

Í ríkjunum sem ég taldi upp ríkir gott og virkt lýðræði fyrir þá ríku og í krafti auðsins verða þeir voldugir, stjórna fjölmiðlum, og mata í krafti auðsins sem þeim gefst færi á að komast yfir, almenning á sjónarmiðum sem henta til ,,réttrar” skoðanamyndunar. Í sumum þeim ríkjunum sem ég nefndi af handahófi, getur verið varasamt að hafa ,,ranga” skoðun, skoðun sem þeim ríku og voldugu fellur ekki við og getur það birst í margvíslegri mynd í hverju hættan stafar. Allt frá því að viðkomandi eigi erfitt uppdráttar varðandi það að fá vinnu, eða frama í viðkomandi samfélagi. Fjármálastofnunum (bönkum) er jafnvel beitt til að kippa fótunum undan þeim sem ,,makka ekki rétt”. Getur einnig lýst sér þannig að opinber hagsmunasamtök undir stjórn manna sem lítils svífast, beiti sér miskunnarlaust á þann veg að kippt sé fótunum undan viðkomandi, einfaldlega vegna þess að hann hafi leyft sér að gagnrýna einhver samtök þeirra sem ,,komið hafa sér fyrir í samfélaginu“ eða bara einhverjar útstöðvar þeirra samtaka.

Mörg munum við vera sem ýmist könnumst við dæmi um misbeitingu valds í samfélaginu okkar, stundum af eigin reynslu eða afspurn. Og vegna þess hve algengt er í umræðunni, að slá því föstu að allt hafi farið versnandi í seinni tíð - að heimur versnandi fari – þá er rétt að taka það skýrt fram að undirritaður er alls ekki þeirrar skoðunar. Þvert á móti, þá er hægt að benda á mörg dæmi þess að misbeiting valds, sé jafnvel minni í nútímanum en áður var.

En aftur að upphafinu. Er lýðræðið gott eða slæmt í Rússlandi? Ætli ekki megi segja að hér séu settar fram einfaldar spurningar á flóknu máli. Máli sem getur verið verulega afstætt og svarað eftir því hvernig horft er á það sem spurt er um. Sé litið til sögunnar er það líklega a.m.k. alls ekki verra en það ,,lýðræði“ sem ríkti í óreiðunni fyrir daga núverandi stjórnvalda og þeirra sem þar áður fóru með völd. Og er þá vandséð hvort nokkurn tíma hafi þar verið betra ástand í þessum efnum en nú er!

Sé það rétt, má gera ráð fyrir að mörgum Rússanum muni þykja ástandið harla gott og að nútíminn sé nokkuð góður miðað við það sem áður var! Sé síðan saga rússnesku þjóðarinnar skoðuð, þá þarf líka umtalsverða forherðingu til að staðhæfa að svo sé ekki!

Þau okkar sem teljum að við búum við sæmilegt lýðræðið ættum að hafa í huga að fyrirbrigðið er viðkvæmt og vandmeðfarið sem skurnlaust egg sé og að sífellt þarf að vera að hlúa að því og vernda.

Allir sem einhvern tíma hafa haft í höndum egg sem hangir saman á skjallinu einu saman, ættu að vita, að það má lítið út af bregða til að illa geti farið. Lítið þarf til að ekkert egg verði til, eða með öðrum orðum að ekkert lýðræði verði til. Vegna þessa verður lýðræðisþjóðfélagið að vernda þá sem gagnrýna, en þeir verða að sama skapi að vera málefnalegir í gagnrýni sinni til að vernda lýðræðisþjóðfélagið.

(Með þessari færslu á að fylgja mynd sem sýnir að framleiðsla á kindakjöti veldur 50% meiri CO2 mengun en sú kjöttegund sem næst kemur, þ.e. nautakjötið. Ég finn enga leið til að setja myndina inn og ef einhver sem þetta les kann til þess ráð þá væri það vel þegið, hvort heldur er í athugasemdum hér fyrir neðan færsluna eða í tölvupósti á ingimbergmann@gmail.com)

Hefðu þau raunverulegan áhuga á að leggja sitt að mörkum, en geta samt haldið áfram að fullnægja þörf sinni fyrir að gefa ríkum þjóðum kjöt í matinn, sem framleitt er að stórum hluta með íslensku grasi, ættu þau að snúa sér að því að efla nautakjötsframleiðslu!

Engar líkur eru til að það verði gert, því frekar vilja þau neyða rafbíla upp á landsmenn, bíla sem gagnast dreifbýlisbúum afar illa og þéttbýlisbúum minna illa. Þá vilja þau framleiða rafmagn á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi með dísilrafstöðvum til að þóknast einkavinum umhverfisins. Hljóta að vilja hafa það svona, fyrst ekkert er gert í málinu.

Auðvitað eru litlar líkur til að vit væri í að framleiða nautakjöt hérlendis til útflutnings né nokkurt annað kjöt ef út í það er farið.

Það væri þó skömminni skárra, en að framleiða kjöttegund til að gefa ríkum þjóðum, sem mengar mest allra, og 50% meira en sú sem næst því kemst. Og halda síðan úti ríkisrekinni stofnun (Icelandic Lamb) til starfseminnar.

Nær það eina sem gert hefur verið af raunsæi til að minnka CO2 losun íslensku þjóðarinnar hefur verið gert af almenningi og útgerðarmönnum. Þeir hafa endurnýjað skipakost sinn af kappi og með því minnkað útblástur um tugi prósenta og algjörlega án aðkomu stjórnvalda. Þjóðin hefur einnig endurnýjað bílaflota sinn með sparneytnari vélum og rafmagnsbílum þar sem það hentar. Þá má ekki gleyma því að Reykjavíkurborg vinnur að áhugaverðu verkefni sem felst í því að taka í notkun strætisvagna sem ganga fyrir rafmagni.

Þetta gerist þrátt fyrir stjórnvöld og málfundafélagið við Austurvöll, sem við kjósum til ótt og títt án nokkurs sýnilegs árangurs, en ekki vegna þeirra.

Er þetta leiðin sem við viljum vera á?

Fyrir rúmum 70 árum lauk seinni heimstyrjöldinni. Meðan á henni stóð leyfði ekki af að þjóðin okkar, hefði í sig og á. Siglingar með nauðsynjavöru frá Evrópu urðu hættulegar og gamlar viðskiptaþjóðir áttu nóg með sig. Þótti reyndar gott að fá fisk og var mörgum mannslífum fórnað í baráttunni við að koma honum á markað og fá eitthvað í staðinn, sem eyþjóðina vanhagaði um. Þjóð sem þá var mun fámennari en nú er og þjóðfélagið allt vanmáttugra en það sem við þekkjum. Kröfurnar voru líka minni og mörgum þótti gott ef þeir komust af frá einum degi til annars og höfðu í sig og á. Ekki var farið fram á mikið meira.

Nú er öldin önnur. Þjóðin fjölmennari, kröfurnar meiri, innviðirnir sterkari og svo virðist sem allt sem áður var, sé gleymt. Enginn, eða a.m.k. fáir, hugsa um matvælaöryggi, samgönguöryggi, né birgðastöðu nauðsynjavara: s.s. olíu, kornvöru o.s.frv.

Flutningaskipin, sem þjóðin lagði svo mikið á sig til að eignast í byrjun 20. aldar, teljast vera í íslenskri eigu, en samt sigla skipin öll undir erlendum fánum. Kornbirgðir til manneldis eða eldis búfénaðar eru nær engar, eldsneytisbirgðir sömuleiðis og áfram mætti telja. Lifað er frá degi til dags.

Stjórnvöld virðast telja matvælaframleiðslu í landinu vera aukaatriði, því allt eins megi flytja slíkan hégóma inn frá útlöndum. Kaupmennirnir muni sjá um það! Og til eru þeir sem eru svo sterkir í trú sinni á frelsi í viðskiptum, að þeir telja að það sé matvælaframleiðslu í landinu til góðs að þjarma sem mest að henni. Vitna í því efni til þess hve garðyrkjubændum hafi vegnað vel eftir að innflutningur á grænmeti var gefinn frjáls. Taka ekki með í þá jöfnu, hvað gert var til að jafna aðstöðumun garðyrkjubænda þegar svo var komið.

Telja jafnvel að Ísland geti gengið inn í Evrópusambandið án nokkurra skilyrða. Svo eru aðrir sem í orði eru andsnúnir inngöngu í það samband en gera síðan samninga við það sama samband, sem grafa undan matvælaframleiðslu þjóðar sinnar og telja það horfa til framfara! Vilja og stefna að því lækka tolla einhliða, svo sem nýlegt dæmi sannar varðandi (sér!)osta. Hika ekki við að greiða innlendri framleiðslu hvaða högg sem er til að fá ímyndaðri þörf sinni fullnægt.

Hvert erum við komin, þegar fólkið sem við veljum til að fara með stjórn lands og þjóðar hugsar ekki um hag þjóðarinnar sem því er treyst fyrir? Paufast um í kyrrþey við að prjóna saman tollasamninga við viðskiptasamband sem viðkomandi segist í orði ekki vilja neitt með hafa? Trommar upp allt að því í danssporum í beina útsendingu frétta til að lýsa því yfir að samningurinn sem hann var að undirrita sé allra meina bót og að nú skuli allir vera kátir! Og þá væntanlega líka þeir sem sjá tilveru sinni ógnað með óvæntum hætti. Þegar sá hinn sami lýsir því yfir í ræðu á degi sjómanna, að nú ætli hann að sjá til þess að íslensk flutningaskip fari undir íslenskan fána? Gerir síðan ekkert í málinu og er enn árum síðar samgönguráðherra og ekkert spyrst til málsins sem hann talaði svo fjálglega um fyrir nokkrum árum?

Samfélag okkar er margfalt sterkara, ríkara og upplýstara en það var þegar þjóðin var að stíga sín fyrstu skref inn í fullveldi.

Hyldýpið sem er milli almennings og nýrrar og gamallar yfirstéttar, kvótagreifa og tortólufólks og panama, nýríkra leigugróssera og fjármálafursta og örsnauðs fólks sem tæpast á í sig, og á ekki þak yfir höfuðið og stendur jafnvel í biðröðum í von um að fá eitthvað gefins að borða er svo yfirþyrmandi að engu tali tekur.

Við erum komin svo langt að þetta þarf örugglega ekki að vera svona.

Í Bændablaðinu 8. júní 2018 á bls. 2 má lesa: ,,Alifuglakjöt er langvinsælasta kjötafurðin með 9.530 tonna sölu 2017“.

Hér virðist sem eitthvað hafi skolast til, því samkvæmt því sem lesa má um á vef Hagstofu Íslands, þá voru:
Birgðir af alifuglakjöti við árslok 2016: 593 tonn (Kjöt sem kemur til sölu á árinu 2017). Framleiðsla ársins 2017: 9.697 tonn. Flutt voru inn 1.398 tonn. Birgðir í lok 2017 voru taldar: 754 tonn. Að fengnum þessum upplýsingum lítur dæmið varðandi alifuglakjötið svona út:
593 + 9697 + 1398 – 754 = 10.880 tonn, sem er þá það magn sem seldist af alifuglakjöti á Íslandi árið 2017.

Umfjöllunin heldur síðan áfram og segir þar, að ,könnun‘ sem Icelandic Lamb mun hafa fengið Gallup til að gera, hafi vakið athygli og mun það ekki vera ofmælt. Reyndar er sagt þannig frá að í fljótu bragði gætu lesendur haldið, að Gallup hafi tekið það upp hjá sjálfu sér, að gera könnunina og er komist að orði með eftirfarandi hætti:
,,Könnun Gallup á neysluvenjum erlendra ferðamanna á Íslandi sem birt var í síðasta Bændablaði vakti mikla athygli.“(!)

Þá er þess getið að:
,,Komið hefur fram hörð gagnrýni á að í tölunum er ekki tekið tillit til neyslu á alifuglakjöti sem hefði mögulega getað breytt myndinni.“

Og síðan:
,,Þegar rýnt er í Hagstofutölur sést að innanlandssala á kindakjöti 2017 var 6.976 tonn, en 9.530 tonn af alifuglum og þar af nam innflutningur 1.398 tonnum.“
Hér kemur enn til sögunnar talan 9.530 tonn og mun hún vera af vef Hagstofunnar og heimildir vera Bændasamtök íslands, Matvælastofnun og Landssamband sláturleyfishafa. Bæti maður við þessa tölu því sem flutt var inn þá fæst tala sem lætur nærri að vera sú sem áður var getið (10.880 tonn) en munar þó um 48 tonnum, sem gæti verið lager heildsala ótalinn í gögnum Hagstofu. Hugsanlega er þar fundin skýringin og ætti að geta talist vera innan skekkjumarka. Niðurstaðan er þá sú að selt alifuglakjöt á landinu hafi verið um 10.900 tonn og að þar af hafi innflutt alifuglakjöt verið tæplega 1/8 hluti. Af þessu má ljóst vera að efla þarf alifuglarækt í landinu, þannig að uppfyllt verði þörfin fyrir þá kjötvöru.

Blaðið heldur umfjöllun sinni áfram með eftirfarandi hætti:
,,Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt. Alifuglakjöt var hins vegar ekki inni í dæminu. Könnunin gefur samt ágætar vísbendingar um hvað ferðamenn vilja upplifa.“
Ferðamennirnir voru ekki spurðir um alifuglakjötið og það er ástæðan fyrir því að það var ,,ekki […] inni í dæminu“. Þannig er, að þegar fólk tekur þátt í könnunum, þá svarar það spurningunum sem lagðar eru fyrir en fjallar ekki að öðru leiti um hlutina, nema sérstaklega sé gefinn kostur á því. Ekki hefur komið fram að slíkt hafi verið í boði og hefði svo sem litlu skipt, þó svo hefði verið. Varðandi seinustu setninguna, þá er það væntanlega oftast þannig að ferðamenn vilja ,,upplifa“ eitt og annað, það þekkja fjölmargir Íslendingar af eigin reynslu!

Grein blaðsins heldur áfram:
,,Í könnuninni má greina hvað ferðamenn vilja helst smakka, en hún segir samt ekkert um magnið sem neytt er [einmitt!]. Þá er heldur ekki sjálfgefið að alifuglakjöt hefði endilega skorað hátt miðað við spurninguna sem lögð var fram, jafnvel þótt alifuglakjöt gæti verið oftast á diski ferðamanna. Ástæðan er einfaldlega sú staðreynd að alifuglakjöt er orðið algengasti hversdagsmaturinn um allan heim. Ferðamenn nefna því líklega fremur í svona könnun upplifun sína af því að prófa eitthvað nýtt, heldur en að lýsa magni þess sem neytt er.“
Við þetta spjall blaðsins má ef til vil bæta því að könnun eins og þessi svarar tæplega því sem hér er fjallað um s.s. því hvað ferðamennirnir ,,helst vilja smakka“. Geta má þess að kindakjöt er framleitt víða um heim og þarf ekki langt að fara til að komast að því. Sama má segja um alifuglakjöt.
Hvort íslenskt kindakjöt sé betra eða verra en annarra þjóða kjöt sömu gerðar, er spurning um smekk og undirritaður hefur t.d. ekki getað gert upp við sig hvort svo sé og hefur hitt marga sem segja sömu sögu. Og þótt íslenskir kjúklingabændur hafi náð frábærum árangri í sínu eldi undanfarin ár, þá er ekki gott að segja hvort mönnum finnist bragðmunur vera á kjöti þeirra og kjúklingakjöti annarra þjóða.
Flestum mun finnast það gott sem þeir þekkja og hafa vanist og að deila um smekk þjónar engum tilgangi.

Grein Bændablaðsins er ítarlegri og geta áhugasamir kynnt sér hana í blaðinu eða á vef blaðsins bbl.is, en hér verður látið staðar numið umfjöllun um hana