Suðurlandsvegur

30. desember 2018

Hörmulegt slys á Suðurlandsvegi hefur enn einu sinni komið af stað umræðu um ástand þessa mannvirkis. Brýr eru gamlar og margar einbreiðar, vegurinn er mjór og kantar á slitlagi víða brotnir. Vegurinn er ójafn og missiginn og seint er gert við holur sem myndast þegar brotnar upp úr slitlagi.

Viðhald og endurbætur á veginum allar götur frá Keflavíkurflugvelli og austur um Suðurland, hefur verið vanrækt um margra ára bil. Ekki hefur verið lokið við tvöföldun vegarins frá flugvellinum og til Hafnarfjarðar og ekki bólar á breikkun frá Rauðavatni að Sandskeiði og enn er ekki byrjað á breikkun milli Hveragerðis og Selfoss, sem er alræmdur slysakafli. og ný brú yfir Ölfusá er enn einungis á umræðustigi.

Á þessari leið er flest það sem ferðamennirnir virðast sækja í að sjá og njóta, og það eru þeir sem hafa dregið þjóðarbúið upp úr því feni sem draumóralið Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ruddu því ofaní – óvart og óviljandi(!) – það var aldrei ætlunin: stefnan var sett á fjármálamiðstöð Norður- Atlantshafsins.

Ástand þessa samgöngumannvirkis er til skammar og sýnir hvernig viðhorf stjórnmálamanna hefur verið til þeirrar samgönguæðar sem einna mest mæðir á vegna ferðamannastraumsins.

Sé það ásetningur að halda veginum í þessu ástandi, í þeirri von að það flæmi ferðamennina ,,eitthvað annað“, væri hreinlegast að gefa það opinberlega út.

Þó þeir sem valist hafa til að stjórna landinu síðustu árin, haldi kannski að hægt sé að dreifa straumi ferðamannanna með því að vanrækja vegakerfið þar sem álagið er mest, þá vita flestir aðrir að þannig virkar þetta ekki.

Ferðamennirnir fara þangað sem það er sem þá langar til að sjá. Borða það sem þá langar til að borða. Gista þar sem þeir finna sér viðunandi gistingu. Rétt eins og flestir ættu að kannast við frá sjálfum sér.

Er það ekki þannig sem við viljum hafa það þegar við förum til annarra landa, að skoða það sem okkur langar til að sjá, fara þar um sem við þurfum að fara til að komast á þá staði sem við æskjum og velja síðan gistingu eftir smekk og aðstæðum?

Um veggjöld

29. desember 2018

Hugmyndin um innheimtu veggjalda gengur að mörgu leiti illa upp og engar trúverðugar útfærslur á hugmyndinni hafa komið fram. Sést það vel, ef hugsað er um það sem þarf að gera í dreifðum byggðum.

Að hægt verði að leysa vanda Landeyjahafnar með slíkum gjöldum (sem ég hef séð nefnt í umræðunni) er að mínu mati ekki raunhæft. Aldrei hefði verið farið út í þá framkvæmd ef menn hefðu hugsað málið og sýnt ábyrgð. Flest bendir til að Landeyjahöfn verði klafi á þjóðinni um ókomna tíð. Annað hvort þangað til að á þeim vandamálum sem þar er við að eiga finnst lausn, eða að menn fá nóg af, gefast upp á ,,höfninni“ og leita raunhæfrar lausnar. Sem t.d. gæti falist í því að tvær ferjur sigldu hvor á móti annarri milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.

Í fréttum að undanförnu hefur verið rætt um að bæta þurfi veginn á Strandir. Hvernig hugsa menn sér að greiða það með veggjöldum? Mörg slík dæmi mætti nefna.

Mikil þörf er á að byggja nýjar brýr víða um landið. Ýmist að endurnýja þær algjörlega og byggja tvöfaldar og/eða byggja einfaldar brýr þar sem það getur átt við og þá með því fyrirkomulagi að um sitt hvora akstursstefnuna sé að ræða á þeirri nýju og þeirri gömlu. Hvernig ætla menn að greiða þær framkvæmdir með veggjöldum?

Brýn þörf er á að breikka, jafna og aðskilja akstursstefnur á mörgum vegum, ekki síst á þjóðvegi 1. Hvernig ætla menn að greiða það með veggjöldum? Eru þeir sem boða þessa leið tilbúnir með útfærslu á því hvernig það verði gert?

Þó vel hafi gengið að greiða Hvalfjarðargöngin með veggjöldum, þá mega menn ekki láta það glepja sér sýn. Það sýnir okkur einungis, að þar sem líkur eru á mikilli umferð, getur gjaldheimta þessarar gerðar gengið upp.
Veggjöld geta s.s. átt við þar sem umferð er yfir einhverju skilgreindu lágmarki, þar sem hægt er að velja um leiðir og rétt er, að víða erlendis hafa menn farið þessa leið.

Vandséð er hins vegar, hvernig þau geta verið sú allsherjarlausn sem Jón og Sigurður og aðrir boðberar þessarar innheimtuaðferðar, eru að halda að fólki. Athyglisvert er, að ekki hefur verið komið fram með útfærslu á hugmyndinni. Einungis farið um hana almennum orðum og þá þannig að ekki er skýrt út hvert stefnan er sett.

Satt að segja ekki með öllu útilokað að eftir sé að hugsa málið til enda, að hugmyndin hafi verið gripin á lofti og síðan kastað fram í umræðuna. Jafnvel í þeirri von að sem flestir myndu stökkva á vagninn, telja að hér sé fundin lausn og síðan geti ríkisstjórnin haft frítt spil með framhaldið, útfærsluna og innheimturnar.

25. ágúst 2018

25. ágúst 2018

Lýðræði?

12. júlí 2018

Ég varð vitni að rökræðum um hvernig lýðræðið væri í Rússlandi nútímans um daginn. Einum fannst það vera viðunandi en öðrum að það vantaði talsvert á til að sæmilegt gæti talist. Þetta vakti hjá mér hugrenningar, og varðandi Rússa, þá er vert að hafa í huga, að frekar stutt er síðan Sovétríkin hurfu inn í móðu sögunnar og einnig hitt, að flest munum við vera sammála um að í því samfélagsformi sem þá var, hafi ekki verið það sem kalla má lýðræði. Að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem við flest leggjum í það orð.

Og vegna þess hve margir eru fúsir til að gagnrýna núverandi ástand í Rússlandi, þá varð mér hugsað sem svo: hvernig er þetta hjá þeim þjóðum sem búið hafa við ,,lýðræði”, t.d. frá lokum seinna stríðs?

Hversu djúpt ristir lýðræðið t.d. á Íslandi, Bretlandi, Ítalíu, Tyrklandi, Grikklandi, Spáni, Portúgal og Bandaríkjunum? Vissulega enginn tæmandi listi og alls ekki djúpt hugsaður. Í öllum þessum ríkjum sem ég taldi upp má hafa efasemdir um að gallalítið lýðræði ríki og svo er líka endalaust hægt að spyrja: Hvar byrjar lýðræðið og hvar endar það?

Í ríkjunum sem ég taldi upp ríkir gott og virkt lýðræði fyrir þá ríku og í krafti auðsins verða þeir voldugir, stjórna fjölmiðlum, og mata í krafti auðsins sem þeim gefst færi á að komast yfir, almenning á sjónarmiðum sem henta til ,,réttrar” skoðanamyndunar. Í sumum þeim ríkjunum sem ég nefndi af handahófi, getur verið varasamt að hafa ,,ranga” skoðun, skoðun sem þeim ríku og voldugu fellur ekki við og getur það birst í margvíslegri mynd í hverju hættan stafar. Allt frá því að viðkomandi eigi erfitt uppdráttar varðandi það að fá vinnu, eða frama í viðkomandi samfélagi. Fjármálastofnunum (bönkum) er jafnvel beitt til að kippa fótunum undan þeim sem ,,makka ekki rétt”. Getur einnig lýst sér þannig að opinber hagsmunasamtök undir stjórn manna sem lítils svífast, beiti sér miskunnarlaust á þann veg að kippt sé fótunum undan viðkomandi, einfaldlega vegna þess að hann hafi leyft sér að gagnrýna einhver samtök þeirra sem ,,komið hafa sér fyrir í samfélaginu“ eða bara einhverjar útstöðvar þeirra samtaka.

Mörg munum við vera sem ýmist könnumst við dæmi um misbeitingu valds í samfélaginu okkar, stundum af eigin reynslu eða afspurn. Og vegna þess hve algengt er í umræðunni, að slá því föstu að allt hafi farið versnandi í seinni tíð - að heimur versnandi fari – þá er rétt að taka það skýrt fram að undirritaður er alls ekki þeirrar skoðunar. Þvert á móti, þá er hægt að benda á mörg dæmi þess að misbeiting valds, sé jafnvel minni í nútímanum en áður var.

En aftur að upphafinu. Er lýðræðið gott eða slæmt í Rússlandi? Ætli ekki megi segja að hér séu settar fram einfaldar spurningar á flóknu máli. Máli sem getur verið verulega afstætt og svarað eftir því hvernig horft er á það sem spurt er um. Sé litið til sögunnar er það líklega a.m.k. alls ekki verra en það ,,lýðræði“ sem ríkti í óreiðunni fyrir daga núverandi stjórnvalda og þeirra sem þar áður fóru með völd. Og er þá vandséð hvort nokkurn tíma hafi þar verið betra ástand í þessum efnum en nú er!

Sé það rétt, má gera ráð fyrir að mörgum Rússanum muni þykja ástandið harla gott og að nútíminn sé nokkuð góður miðað við það sem áður var! Sé síðan saga rússnesku þjóðarinnar skoðuð, þá þarf líka umtalsverða forherðingu til að staðhæfa að svo sé ekki!

Þau okkar sem teljum að við búum við sæmilegt lýðræðið ættum að hafa í huga að fyrirbrigðið er viðkvæmt og vandmeðfarið sem skurnlaust egg sé og að sífellt þarf að vera að hlúa að því og vernda.

Allir sem einhvern tíma hafa haft í höndum egg sem hangir saman á skjallinu einu saman, ættu að vita, að það má lítið út af bregða til að illa geti farið. Lítið þarf til að ekkert egg verði til, eða með öðrum orðum að ekkert lýðræði verði til. Vegna þessa verður lýðræðisþjóðfélagið að vernda þá sem gagnrýna, en þeir verða að sama skapi að vera málefnalegir í gagnrýni sinni til að vernda lýðræðisþjóðfélagið.

(Með þessari færslu á að fylgja mynd sem sýnir að framleiðsla á kindakjöti veldur 50% meiri CO2 mengun en sú kjöttegund sem næst kemur, þ.e. nautakjötið. Ég finn enga leið til að setja myndina inn og ef einhver sem þetta les kann til þess ráð þá væri það vel þegið, hvort heldur er í athugasemdum hér fyrir neðan færsluna eða í tölvupósti á ingimbergmann@gmail.com)

Hefðu þau raunverulegan áhuga á að leggja sitt að mörkum, en geta samt haldið áfram að fullnægja þörf sinni fyrir að gefa ríkum þjóðum kjöt í matinn, sem framleitt er að stórum hluta með íslensku grasi, ættu þau að snúa sér að því að efla nautakjötsframleiðslu!

Engar líkur eru til að það verði gert, því frekar vilja þau neyða rafbíla upp á landsmenn, bíla sem gagnast dreifbýlisbúum afar illa og þéttbýlisbúum minna illa. Þá vilja þau framleiða rafmagn á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi með dísilrafstöðvum til að þóknast einkavinum umhverfisins. Hljóta að vilja hafa það svona, fyrst ekkert er gert í málinu.

Auðvitað eru litlar líkur til að vit væri í að framleiða nautakjöt hérlendis til útflutnings né nokkurt annað kjöt ef út í það er farið.

Það væri þó skömminni skárra, en að framleiða kjöttegund til að gefa ríkum þjóðum, sem mengar mest allra, og 50% meira en sú sem næst því kemst. Og halda síðan úti ríkisrekinni stofnun (Icelandic Lamb) til starfseminnar.

Nær það eina sem gert hefur verið af raunsæi til að minnka CO2 losun íslensku þjóðarinnar hefur verið gert af almenningi og útgerðarmönnum. Þeir hafa endurnýjað skipakost sinn af kappi og með því minnkað útblástur um tugi prósenta og algjörlega án aðkomu stjórnvalda. Þjóðin hefur einnig endurnýjað bílaflota sinn með sparneytnari vélum og rafmagnsbílum þar sem það hentar. Þá má ekki gleyma því að Reykjavíkurborg vinnur að áhugaverðu verkefni sem felst í því að taka í notkun strætisvagna sem ganga fyrir rafmagni.

Þetta gerist þrátt fyrir stjórnvöld og málfundafélagið við Austurvöll, sem við kjósum til ótt og títt án nokkurs sýnilegs árangurs, en ekki vegna þeirra.

Er þetta leiðin sem við viljum vera á?

Fyrir rúmum 70 árum lauk seinni heimstyrjöldinni. Meðan á henni stóð leyfði ekki af að þjóðin okkar, hefði í sig og á. Siglingar með nauðsynjavöru frá Evrópu urðu hættulegar og gamlar viðskiptaþjóðir áttu nóg með sig. Þótti reyndar gott að fá fisk og var mörgum mannslífum fórnað í baráttunni við að koma honum á markað og fá eitthvað í staðinn, sem eyþjóðina vanhagaði um. Þjóð sem þá var mun fámennari en nú er og þjóðfélagið allt vanmáttugra en það sem við þekkjum. Kröfurnar voru líka minni og mörgum þótti gott ef þeir komust af frá einum degi til annars og höfðu í sig og á. Ekki var farið fram á mikið meira.

Nú er öldin önnur. Þjóðin fjölmennari, kröfurnar meiri, innviðirnir sterkari og svo virðist sem allt sem áður var, sé gleymt. Enginn, eða a.m.k. fáir, hugsa um matvælaöryggi, samgönguöryggi, né birgðastöðu nauðsynjavara: s.s. olíu, kornvöru o.s.frv.

Flutningaskipin, sem þjóðin lagði svo mikið á sig til að eignast í byrjun 20. aldar, teljast vera í íslenskri eigu, en samt sigla skipin öll undir erlendum fánum. Kornbirgðir til manneldis eða eldis búfénaðar eru nær engar, eldsneytisbirgðir sömuleiðis og áfram mætti telja. Lifað er frá degi til dags.

Stjórnvöld virðast telja matvælaframleiðslu í landinu vera aukaatriði, því allt eins megi flytja slíkan hégóma inn frá útlöndum. Kaupmennirnir muni sjá um það! Og til eru þeir sem eru svo sterkir í trú sinni á frelsi í viðskiptum, að þeir telja að það sé matvælaframleiðslu í landinu til góðs að þjarma sem mest að henni. Vitna í því efni til þess hve garðyrkjubændum hafi vegnað vel eftir að innflutningur á grænmeti var gefinn frjáls. Taka ekki með í þá jöfnu, hvað gert var til að jafna aðstöðumun garðyrkjubænda þegar svo var komið.

Telja jafnvel að Ísland geti gengið inn í Evrópusambandið án nokkurra skilyrða. Svo eru aðrir sem í orði eru andsnúnir inngöngu í það samband en gera síðan samninga við það sama samband, sem grafa undan matvælaframleiðslu þjóðar sinnar og telja það horfa til framfara! Vilja og stefna að því lækka tolla einhliða, svo sem nýlegt dæmi sannar varðandi (sér!)osta. Hika ekki við að greiða innlendri framleiðslu hvaða högg sem er til að fá ímyndaðri þörf sinni fullnægt.

Hvert erum við komin, þegar fólkið sem við veljum til að fara með stjórn lands og þjóðar hugsar ekki um hag þjóðarinnar sem því er treyst fyrir? Paufast um í kyrrþey við að prjóna saman tollasamninga við viðskiptasamband sem viðkomandi segist í orði ekki vilja neitt með hafa? Trommar upp allt að því í danssporum í beina útsendingu frétta til að lýsa því yfir að samningurinn sem hann var að undirrita sé allra meina bót og að nú skuli allir vera kátir! Og þá væntanlega líka þeir sem sjá tilveru sinni ógnað með óvæntum hætti. Þegar sá hinn sami lýsir því yfir í ræðu á degi sjómanna, að nú ætli hann að sjá til þess að íslensk flutningaskip fari undir íslenskan fána? Gerir síðan ekkert í málinu og er enn árum síðar samgönguráðherra og ekkert spyrst til málsins sem hann talaði svo fjálglega um fyrir nokkrum árum?

Samfélag okkar er margfalt sterkara, ríkara og upplýstara en það var þegar þjóðin var að stíga sín fyrstu skref inn í fullveldi.

Hyldýpið sem er milli almennings og nýrrar og gamallar yfirstéttar, kvótagreifa og tortólufólks og panama, nýríkra leigugróssera og fjármálafursta og örsnauðs fólks sem tæpast á í sig, og á ekki þak yfir höfuðið og stendur jafnvel í biðröðum í von um að fá eitthvað gefins að borða er svo yfirþyrmandi að engu tali tekur.

Við erum komin svo langt að þetta þarf örugglega ekki að vera svona.

Í Bændablaðinu 8. júní 2018 á bls. 2 má lesa: ,,Alifuglakjöt er langvinsælasta kjötafurðin með 9.530 tonna sölu 2017“.

Hér virðist sem eitthvað hafi skolast til, því samkvæmt því sem lesa má um á vef Hagstofu Íslands, þá voru:
Birgðir af alifuglakjöti við árslok 2016: 593 tonn (Kjöt sem kemur til sölu á árinu 2017). Framleiðsla ársins 2017: 9.697 tonn. Flutt voru inn 1.398 tonn. Birgðir í lok 2017 voru taldar: 754 tonn. Að fengnum þessum upplýsingum lítur dæmið varðandi alifuglakjötið svona út:
593 + 9697 + 1398 – 754 = 10.880 tonn, sem er þá það magn sem seldist af alifuglakjöti á Íslandi árið 2017.

Umfjöllunin heldur síðan áfram og segir þar, að ,könnun‘ sem Icelandic Lamb mun hafa fengið Gallup til að gera, hafi vakið athygli og mun það ekki vera ofmælt. Reyndar er sagt þannig frá að í fljótu bragði gætu lesendur haldið, að Gallup hafi tekið það upp hjá sjálfu sér, að gera könnunina og er komist að orði með eftirfarandi hætti:
,,Könnun Gallup á neysluvenjum erlendra ferðamanna á Íslandi sem birt var í síðasta Bændablaði vakti mikla athygli.“(!)

Þá er þess getið að:
,,Komið hefur fram hörð gagnrýni á að í tölunum er ekki tekið tillit til neyslu á alifuglakjöti sem hefði mögulega getað breytt myndinni.“

Og síðan:
,,Þegar rýnt er í Hagstofutölur sést að innanlandssala á kindakjöti 2017 var 6.976 tonn, en 9.530 tonn af alifuglum og þar af nam innflutningur 1.398 tonnum.“
Hér kemur enn til sögunnar talan 9.530 tonn og mun hún vera af vef Hagstofunnar og heimildir vera Bændasamtök íslands, Matvælastofnun og Landssamband sláturleyfishafa. Bæti maður við þessa tölu því sem flutt var inn þá fæst tala sem lætur nærri að vera sú sem áður var getið (10.880 tonn) en munar þó um 48 tonnum, sem gæti verið lager heildsala ótalinn í gögnum Hagstofu. Hugsanlega er þar fundin skýringin og ætti að geta talist vera innan skekkjumarka. Niðurstaðan er þá sú að selt alifuglakjöt á landinu hafi verið um 10.900 tonn og að þar af hafi innflutt alifuglakjöt verið tæplega 1/8 hluti. Af þessu má ljóst vera að efla þarf alifuglarækt í landinu, þannig að uppfyllt verði þörfin fyrir þá kjötvöru.

Blaðið heldur umfjöllun sinni áfram með eftirfarandi hætti:
,,Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt. Alifuglakjöt var hins vegar ekki inni í dæminu. Könnunin gefur samt ágætar vísbendingar um hvað ferðamenn vilja upplifa.“
Ferðamennirnir voru ekki spurðir um alifuglakjötið og það er ástæðan fyrir því að það var ,,ekki […] inni í dæminu“. Þannig er, að þegar fólk tekur þátt í könnunum, þá svarar það spurningunum sem lagðar eru fyrir en fjallar ekki að öðru leiti um hlutina, nema sérstaklega sé gefinn kostur á því. Ekki hefur komið fram að slíkt hafi verið í boði og hefði svo sem litlu skipt, þó svo hefði verið. Varðandi seinustu setninguna, þá er það væntanlega oftast þannig að ferðamenn vilja ,,upplifa“ eitt og annað, það þekkja fjölmargir Íslendingar af eigin reynslu!

Grein blaðsins heldur áfram:
,,Í könnuninni má greina hvað ferðamenn vilja helst smakka, en hún segir samt ekkert um magnið sem neytt er [einmitt!]. Þá er heldur ekki sjálfgefið að alifuglakjöt hefði endilega skorað hátt miðað við spurninguna sem lögð var fram, jafnvel þótt alifuglakjöt gæti verið oftast á diski ferðamanna. Ástæðan er einfaldlega sú staðreynd að alifuglakjöt er orðið algengasti hversdagsmaturinn um allan heim. Ferðamenn nefna því líklega fremur í svona könnun upplifun sína af því að prófa eitthvað nýtt, heldur en að lýsa magni þess sem neytt er.“
Við þetta spjall blaðsins má ef til vil bæta því að könnun eins og þessi svarar tæplega því sem hér er fjallað um s.s. því hvað ferðamennirnir ,,helst vilja smakka“. Geta má þess að kindakjöt er framleitt víða um heim og þarf ekki langt að fara til að komast að því. Sama má segja um alifuglakjöt.
Hvort íslenskt kindakjöt sé betra eða verra en annarra þjóða kjöt sömu gerðar, er spurning um smekk og undirritaður hefur t.d. ekki getað gert upp við sig hvort svo sé og hefur hitt marga sem segja sömu sögu. Og þótt íslenskir kjúklingabændur hafi náð frábærum árangri í sínu eldi undanfarin ár, þá er ekki gott að segja hvort mönnum finnist bragðmunur vera á kjöti þeirra og kjúklingakjöti annarra þjóða.
Flestum mun finnast það gott sem þeir þekkja og hafa vanist og að deila um smekk þjónar engum tilgangi.

Grein Bændablaðsins er ítarlegri og geta áhugasamir kynnt sér hana í blaðinu eða á vef blaðsins bbl.is, en hér verður látið staðar numið umfjöllun um hana

Á blaðsíðu 8 í Bændablaðinu (9/5/2018) eru sagðar fréttir af aðalfundi Félags svínabænda, áður Svínaræktarfélags Íslands.

Á fundinum greindi Ingvi Stefánsson formaður félagsins frá að neytendur hefðu reynst svínabændum vel og beint kaupum sínum að íslensku svínakjöti. Þá greindi hann einnig frá því að geldingar væru nánast aflagðar og að hreinleiki framleiðslunnar væri góður.

Í annarri frétt á sömu síðu blaðsins er síðan sagt frá öðru og athyglisverðu máli sem til umfjöllunar var á fundinum. Varðar það uppgjör vegna þess hvernig komið er fyrir því sem einu sinni var Bjargráðasjóður, þ.e. búnaðardeild sjóðsins. Sjóðurinn fuðraði upp á sínum tíma og rekja sumir það til göngutúrs fyrrverandi forsætisráðherra. Sá hafði rölt um götur Siglufjarðar, slegið sig til riddara og lýst því yfir að stofna þyrfti ,,Hamfarasjóð“, til að taka á afleiðingum vatnsflóða í bænum. Ráðherranum hafði sést yfir að fyrir voru, annars vegar fyrrnefndur Bjargráðasjóður og síðan Viðlagasjóður sem stofnaður var í kjölfar gossins í Vestmannaeyjum.

Nú er verið að stofna ,,Velferðarsjóð BÍ“ upp úr reitunum af því sem áður var búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Svínabændur áttu uppsafnað fé í deildinni um 40 milljónir eða rétt um rúmlega þriðjung þess fjár sem í þessari deild sjóðsins var. Ætlunin er að leggja þessa fjármuni inn í fyrrnefndan Velferðarsjóð. Sérkennilegt mál sem vonandi er að finnist farsæl lausn á.

Formaður B.Í. hefur margoft bent á hve illa íslenskir bændur standi að vígi gagnvart tollfrjálsum innflutningi frá ESB og m.a. tiltekið að íslenskir bændur, ólíkt bændum í Evrópusambandinu, búi ekki við tryggingasjóð sem gripið gæti þá sem fyrir óvæntum áföllum verða. Hér er líkast til á ferðinni tilraun til að bregðast við því máli. Eins og flestir vita, þá er ekki við því að búast að íslensk stjórnvöld geri það, svo stefnulaus sem þau eru í landbúnaðarmálum. Væntanlega finnst farsæl lausn á þessu, lausn sem er þannig menn verði sáttir við. Aldrei er að vita hvenær óvænt áföll verða, áföll þar sem öflugan tryggingasjóð gæti þurft til bjargar. Í þessu efni þyrfti að afla upplýsinga um hvernig hinn evrópski sjóður er, því tryggja þarf að aðstaða íslenskra bænda sé í engu minni en þeirra sem þeim er ætlað að keppa við.

Þriðja fréttin af fundi Félags svínabænda, á sömu síðu blaðsins, greinir frá því að svína-, eggja- og kjúklingabændur fyrirhugi að ráða sameiginlegan framkvæmdastjóra sem verði jafnframt talsmaður búgreinanna. Hér er um að ræða mál sem nokkuð lengi er búið að vera til umræðu og óskandi að það komist sem fyrst í farsæla höfn.

Víst er að við erum mörg sem höfum verið þeirrar skoðunar að slagsíða sé á Bændasamtökunum. Þannig að þau séu meira tengd, í fyrsta lagi sauðfjárrækt og í öðru lagi nautgriparækt, en minna t.d. alifuglarækt og svínarækt. Þetta er rétt og þannig hefur það alfarið verið þar til formannsskipti urðu í samtökunum og núverandi formaður tók við. Samtökin eru þannig byggð upp, að það er fjöldi þeirra sem stunda viðkomandi búgrein sem ræður meiru við val í trúnaðarstöður en framleiðslumagn eða markaðshlutdeild búgreinanna. Þannig er svo dæmi sé tekið, enginn úr svínarækt né kjúklingarækt í stjórn Bændasamtakanna, þó þessar búgreinar séu með mesta markaðshlutdeild á innlenda markaðnum fyrir kjötvörur.

Þetta þyrfti að laga, t.d. með nýju kosningakerfi til trúnaðarstarfa í B.Í. Kerfi sem byggði á blönduðu kerfi fjölda bænda og framleiðslumagni búgreinanna, eða í einhverri annarri útfærslu sem menn geta komið sér saman um.

Undirritaður var formaður Félags kjúklingabænda um nokkurra ára skeið og naut góðs af ánægjulegu samstarfi við þá Hörð Harðarson, Björgvin Jón Bjarnason og Ingva Stefánsson formenn Félags svínabænda og er sannfærður um að greinarnar eiga marga sameiginlega hagsmuni.

Það er ánægjulegt að í höfn skuli vera að komast hugmyndin um sameiginlegan framkvæmdastjóra. Þegar hún kom fram, þá kynnti ég hana fyrir félögum mínum í stjórn F.k. og síðar á aðalfundi félagsins. Fékk hún ágætar undirtektir stjórnar félagsins, utan að einn stjórnarmaður lýsti talsverðum efasemdum, en sá var jafnframt formaður Félags eggjaframleiðenda.

Því var það, að ég átti ekki von á að það félag yrði með í þessu samstarfi, en ánægjulegt að það skuli hafa orðið niðurstaðan og óskandi að samstarf félaganna komi til með að verða farsælt og gefandi fyrir búgreinarnar allar.

Á svæðinu ,,Umræður um landbúnaðarmál“ á Facebook hefur borið á góma að það skorti á samstöðu milli búgreinanna (Petrína Þórunn Jónsdóttir) og satt er það, að samstaðan mætti vera meiri, bæði nú um stundir en einnig fyrr á tímum.

Áður fyrr voru búgreinarnar færri en nú og ekki eru nema nokkrir áratugir síðan. Þá var staðan sú að aðalgreinar landbúnaðarins voru: sauðfjárrækt og nautgriparækt til mjólkurframleiðslu að mestu en nautgripakjöt féll meira til vegna þeirrar stafsemi, en að um markvissa framleiðslu væri að ræða.

Ekki má ekki gleymast í þessu sambandi, að holdagripir af Galloway stofni voru fluttir inn fyrir margt löngu og er til skondin saga af því hvernig fyrsti kálfurinn kom til sögunnar. Þá sögu sagði mér ömmubarn konunnar sem bjargaði kálfinum nýfæddum frá förgun fyrir um 40 árum.

Seinna kom til sögunnar einangrunarstöðin í Hrísey og innflutningur í gegnum hana. Það hefur líkast til ekki verið góð ráðstöfun að leggja einangrunarstöðina niður og hefur örugglega tafið framþróun nautakjötsframleiðslunnar. Garðrækt má einnig nefna, aðallega kartöflur og rófur, lítils háttar svínarækt og hænsnarækt til eggjaframleiðslu. Seinna kom svo til sögunnar önnur alifuglarækt í smáum stíl til kjötframleiðslu, en það eru einmitt kjúklingaræktin og svínaræktin sem einna mest hafa blómstrað síðustu áratugina.

En aftur að samstöðunni og þar með ,,Bændasamtökum Íslands“, áður ,,Stéttasambandi bænda“ og ,,Búnaðarfélag Íslands“.

Þar til núverandi formaður Sindri Sigurgeirsson, var kosinn til formennsku í B.Í. má segja að samtökin hafi verið fyrst og fremst samtök kúa og sauðfjárbænda, þó svo ætti að heita að um samtök allra bænda væri að ræða. Aðrar búgreinar voru með að nafninu til og voru sumar hverjar það sem kalla mætti óhreinu börnin hennar Evu, s.s. alifuglarækt og svínarækt. Enn eimir eftir af þessu. Það má t.d. öllum vera ljóst að mikil skekkja er í samtökunum varðandi fulltrúafjölda, þar sem í engu er tekið tillit til framleiðslumagns búgreinanna, heldur eingöngu hve margir ,,bændur“ standa á bak við hverja grein.

Þegar kjötframleiðslugreinarnar, kjúklinga og svínarækt fóru að blómstra með vaxandi framleiðslu hafa eflaust margir í hinni gömlu og grónu kjötframleiðslugrein, sauðfjárræktinni, litið á þær sem ógn, séð að þjóðfélagið var að breytast og það töluvert hratt, í átt til þess sem er í nágrannalöndum varðandi neysluvenjur sem mörgu öðru.

Er Haraldur Benediktsson lét af formennsku og Sindri Sigurgeirsson tók við, hófst nýr kafli í sögu B.Í. enda miklar breytingar í farvatninu, sem leiddu til gjörbreyttrar félagsaðildar að samtökunum ásamt fleiru. Nú er staðan þannig, að Bændasamtökin eru regnhlífarsamtök allra búgreina, eiga og vonandi gera, að gæta hags þeirra allra, með víðri yfirsýn og það er einmitt það sem getur verið nokkuð snúið á stundum. Þó miklar breytingar hafi orðið, þá er það þó svo að mörgum kjúklingabændum og svínabændum finnst sem svo, að þeir njóti ekki jafnræðis í samtökunum, af þeim ástæðum sem fyrr voru nefndar.

Finna þarf lausn á þessu ástandi, t.d. með því að við mat til kosninga fulltrúa í trúnaðarstöður verði notast við blandað kerfi fjölda framleiðenda í búgreinum og framleiðslumagns til sölu á innanlandsmarkaði að teknu tilliti til ríkisframlaga til þeirra greina sem það á við um. Varðandi þær greinar sem ekki eru í kjötframleiðslu mætti hugsanlega notast við kerfi sem tæki tillit til veðmætis framleiðslunnar (að teknu tilliti til ríkisframlaga ef einhver eru) ásamt fjölda þeirra sem framleiðsluna stunda.

Tek fram, að þó ég varpi þessum hugmyndum fram hér, þá eru þær engan veginn fullhugsaðar, heldur einungis hugmyndir þess sem þetta ritar og til umhugsunar og ætlaðar til að styrkja Bændasamtökin til framtíðar litið. Reynist þær ekki gera það við nánari skoðun, eða jafnvel vera til skaða, þá þarf að breyta þeim eða leita annarra leiða. Við núverandi stöðu verður hins vegar ekki búið til lengdar. Það er t.d. engan vegin víst að við formannskjör í næstu framtíð, verði kosinn formaður með þá víðsýni sem núverandi formaður hefur sýnt í störfum sínum!

Ólíklegt er að sauðfjárrækt án alls ríkisstuðnings sé raunhæfur möguleiki hérlendis, fremur en svo víða annarsstaðar. Ekki má þó líta svo á að styrkja þurfi alla framleiðslu af þessu tagi og engin ástæða er til að eyða skattfé almennings í að styrkja tómstundabúskap með kindur. Undirritaður hefur af því margra ára reynslu, að vel er hægt að ala kindur til heimabrúks án alls ríkisframlags, ef aðstæður eru fyrir hendi. Þó ekki sé raunhæft að reikna með að framleiðslan sé án ríkisstyrkja, þá þýðir það þó ekki að hægt sé að líta á það sem framtíðarlausn að ,,selja“ afurðina á hrakvirði til útlanda; hlýtur að vera framtíðarmarkmið að laga framleiðsluna að markaðinum. Að laga markaðinn að framleiðslunni eins og nú eru uppi hugmyndir um, er tæpast raunhæfur kostur.

Það er vitanlega sársaukafullt að tapa markaðshlutdeild, en það er það sem hefur verið að gerast í sauðfjárræktinni. Þegar þjóðfélagsbreytingar verða þá er það hlutverk stjórnvalda að taka þannig á málum að stórir hópar fólks sitji ekki eftir horfandi fram á skerta afkomumöguleika. Hafa verður í huga að landbúnaður er starfsemi þar sem ekki er tjaldað til einnar nætur. Framleiðsluferlið er langt og þurfa stjórnvöld að vera vakandi og tilbúin til að grípa inn í, móta stefnu og milda skaðann svo sem hægt er og vera tilbúin til aðstoðar við að finna nýjar stefnur og nýjar leiðir.

Það hafa þau alls ekki gert og sannleikurinn er sá að enginn stjórnmálaflokkur hefur lagst í marktæka greiningu á stöðu landbúnaðarins. Ekki hefur verið spurt krefjandi spurninga um hvernig framtíðarsýnin skuli vera. Á að miða við að þjóðin sé sér í sem flestu sjálf sér næg varðandi matvælaframleiðslu? Á að taka tillit til sögunnar í því efni, t.d. einangrunar landsins á ófriðartímum og hvernig hægt sé að bregðast við í þeim efnum? Á að tryggja að í landinu séu lágmarks birgðir af olíum, hráefni til fóðurframleiðslu á búfjárfóðri, áburði o.s.frv. Á að stuðla að því að rekstrarumhverfi landbúnaðargreina sé sem líkast því sem gerist t.d. í Evrópulöndum, að teknu tilliti til náttúrufars og nauðsynjar varðandi verndun einstakra gamalla búfjárstofna nautgripa, sauðfjár, geita og hrossa?

Verði svörin við þessum spurningum neikvæð og það svo að niðurstaðan verði: Að best sé að láta reka á reiðanum og blanda sér í engu inn í þróunina, þá liggur hún alla vega fyrir, þó ógæfuleg sé að mati þess sem þetta ritar.

Hvað sem þessu líður, þá má öllum vera ljóst að það getur ekki gengið til lengdar, að í engu sé brugðist við þeirri stöðu sem uppi er í sauðfjárræktinni. Þar hefur um nokkurn tíma verið svo að búgreinin er rekin með styrkjum sem eru u.þ.b. +/- helmingur framleiðslukostnaðar og það er ýmissa hluta vegna varhugavert við að búa fyrir bændurna. Ekki er nefnilega gefið að stjórnvöld framtíðarinnar vilji taka þátt í slíku ráðslagi. Höfum líka í huga að framleitt er um þriðjung umfram innanlandsþarfir og það sem er umfram innanlandsþarfir, er selt til annarra landa með ríkisframlagi á hrakvirði m.v. framleiðslukostnað.

Sauðfjárbændur hafa komið fram með ágætar tillögur til lausnar á þessu ástandi. Ekki er svo að sjá sem á þær hafi verið hlustað, né heldur að til standi að gera það. Ríkið sem að stórum hluta rekur greinina víkur sér með öllu hjá því að taka þátt í að leysa vanda hennar; hefur ekki í sér nennu til þess, né svo mikið sem hlusta!

Það má öllum sem hugsa um þessi mál, vera ljóst, að svona geta hlutirnir ekki gengið til. Um er að ræða þá búgrein sem mannfrekust er, ef mér skýst ekki, þannig að það er fjöldi fólks sem um er að ræða og á allt sitt undir.

Eins og áður kom fram í þessum pistli, þá er framleiðsluferlið í landbúnaði langt og er þess ef til vill skemmst að minnast hverjar afleiðingarnar urðu, þegar svokallaðir eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum lögðu niður störf. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til allar frystigeymslur voru orðnar fullar af kjöti hjá svínabændum og kjúklinga. Dæmi voru reyndar um að til væru þeir dýralæknar sem töldu réttast að dýrin yrðu aflífuð á búunum og munaði litlu að svo færi. Eftirlitsdýralæknar eru starfsmenn Matvælastofnunar sem starfrækt er af Ríkinu, m.ö.o. opinberir starfsmenn!

Ég hef hér minnst talsvert á offramleiðslu sauðfjárræktarinnar og hún er til staðar og mest í umræðunni nú um stundir. Það er þó alls ekki þannig að sauðfjárbændur séu einir um að hafið staðið í þeim sporum.

Skemmst er að minnast þeirra tíma þegar offramleiðsla var í svína og kjúklingabúskap og þá má muna dæmi um offramleiðslu á mjólk og m.a.s. kartöflum á fyrri tíma, þannig að ljóst má vera að ýmsar greinar landbúnaðarins geta lent í slíkri stöðu á okkar litla og viðkvæma markaði fyrir landbúnaðarvörur.

Er búandi við þetta ástand til framtíðar, eða getur verið að það sé nokkurs virði að menn setjist niður og fari yfir málin með það að markmiði að finna betri og markvissari leiðir að því markmiði að íslenskur landbúnaður geti blómstrað í sátt við land og þjóð til framtíðar litið.

Verði það hins vegar niðurstaðan að best sé að flytja alla matvöru inn og treysta á guð og lukkuna varðandi framtíðina, þá er best að fá það fram. Þá liggur nefnilega fyrir að ekkert öryggi sé um að ræða. Ekkert sæmilega tryggt starfsumhverfi líkt því sem annarsstaðar gerist. Enginn tryggingarsjóður gegn óvæntum áföllum eins og er í ESB löndum, svo dæmi sé tekið. Það eina sem yrði sæmilega tryggt, ef að líkum lætur, er að meiri og ríkari kröfur yrðu gerðar á flestum sviðum til framleiðslunnar, aðstöðunnar við hana og eflaust sitthvað fleira sem mönnum tekst að láta sér detta í hug til að þrengja að bændum og búaliði. Fyrir nú utan, að sjálfgefið þykir að íslenskir bændur keppi við bændur annarra landa sem búa við betri rekstrarskilyrði.