Draumaland Steingríms

21. janúar 2009

Þeir voru í Kastljósi áðan hjá Sigmari þeir Geir H. og Steingrímur J., athyglisvert og um margt upplýsandi spjall hjá þeim félögum og óskandi að sem flestir hafi fylgst með. Geir kom fram af yfirvegun og reyndi að koma að útskíringum á því sem gert hefði verið að undanförnu og til stæði að gera til að gera fólkinu í landinu lífið sem bærilegast miðað við þær kringumstæður sem uppi eru. Steingrímur var hins vegar við sitt gamla heygarðshorn, hafði nánast allt á hornum sér og fannst ýmist að of lítið hefði verið gert, nú eða  að það sem gert hefði verið hefði ekki verið það rétta. Eftir að Geir og Sigmar höfðu gengið nokkuð hart að Vinstri græna formanninum kom fram að hann heldur sig við það að skila beri láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með öðrum þeim lánum sem því munu fylgja og gera bara eitthvað annað eða með öðrum orðum breyta Íslandi í einhverskonar Norður-Kóreu Atlantshafsins. Gott var að fá þetta fram og liggur nú ljóst fyrir að það myndi jaðra við sturlun ef Samfylkingin gengi til samstarfs um ríkisstjórn með VG með stuðningi Framsóknar. Vinstri grænir eru einfaldlega ekki stjórnmálaflokkur sem hægt er að byggja á í nútímaþjóðfélagi.

  Umræðan fór fram í skugga mótmælaaðgerðanna sem staðið hafa yfir að undanförnu og hafa náð hámarki síðustu tvo daga. Ekki er líklegt að fólkið sem ráfað hefur um miðbæ Reykjavíkur og ornað sé við varðelda að undanförnu hafi gefið sér tíma til að fylgjast með spjalli þeirra félaga, enda afar upptekið við að ögra lögreglumönnum á milli þess sem það hendir eggjum, skyri og málningu á ýmsar vel valdar byggingar í miðborginni. Svo er líka sá möguleiki fyrir hendi að stemmingin í hópnum sé þannig að hugurinn standi ekki til að hlusta. Enda er  svo komið fyrir æði mörgum  í samfélaginu í dag að örvæntingin ein ræður ríkjum; vinnan farin, íbúðin að fara á uppboð og bíllinn til fjármögnunarfélagsins sem lánaði fé til kaupanna.

  Ömurleg staða sem allt of margir standa í og er auðvitað afleiðing af óráðsíu okkar sem þjóðar á undanförnum árum að ógleymdu því umhverfi sem stjórnvöld sköpuðu fyrir óprúttna fjárglæframenn til að valsa með fjöregg þjóðarinnar og jafnvel sjálfstæði og þessi stjórnvöld voru vitaskuld þau hin sömu og  einkavæddu bankana og símann og sátu í 16 ár í skjóli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Það hefðu þau vitalega ekki gert nema af því að þjóðin endurnýjaði umboð flokkanna á fjögurra ára fresti og lýsti þar með yfir velþóknun á þeim stjórnarháttum sem ríktu í tíð þessara flokka.

Flokkur án fortíðar?

17. janúar 2009

Í dag komu saman sér til skemmtunar félagar í gamla Framsóknarflokknum eða því sem eftir er af honum. Það átti óneytanlega vel við að það skyldi bera  uppá sama dag og Einar K. Guðfinnsson ákvað að úthluta 30000 tonna kvóta til nokkurra vel valinna kvótagreifa.

Þannig er að kvótakerfið er skilgetið afkvæmi Framsóknarflokksins, flokksins sem helst svo makalaust vel á formönnum, flokksins sem býr nú um stundir við allt að því óbærilegt offramboð á mönnum sem eiga sér þá ósk helsta að verða formenn yfir leifunum af því sem einu sinni var. Flokksins sem afrekaði það að flæma Guðna Ágústson úr formannsstóli líklega vegna þess eins að hann er ekki spilltur af því eiginhagsmunapoti sem einkennt hefur flokkinn um langa hríð. Flokksins sem átti sinn þátt í að skapa það ömurlega ástand sem  ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir.

Það er óneytanlega merkilegt að hægt skuli vera að kalla saman hóp manna til að halda þing í þvílíkum flokksrústum sem hér er um að ræða á tímum sem eru þannig að flestir sem tengst hafa flokknum að ógleymdum höfuðbólinu sem kennir sig við sjálfstæði (hvílíkt öfugmæli) vildu helst óska þess að upplifun dagsins í dag sé bara martröð sem þau vakni sem fyrst af. En það munu þau því miður ekki gera og mun skömm þeirra verða greipt í sögu þjóðarinnar um ókomna tíð og væntanlega verða notuð í sögukennslu framtíðarinnar sem dæmi um víti til að varast.

Þau samþykktu það í dag að ræða mætti við ESB, svona eins og að tekin væri ákvörðun um það á heimili að horfa mætti á sjónvarpið sem hvort sem er væri logandi á.

Ekki er annað að sjá en flokkurinn sé kominn í stríð við bændur landsins eða að minnsta kosti Bændasamtökin en sem kunnugt er þá eru þau eindregið á móti öllum hugmyndum um inngöngu í Evrópusambandið og eru það að öllum líkindum ein bestu meðmæli sem Evrópusambandssinnar hafa fengið fyrir sínum hugmyndum.

Þannig er nú komið eftir markvissa aðför Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að fjármálakerfi þjóðarinnar að það er ein rjúkandi rúst og ekki er séð fyrir endann á hvernig eða hvort muni takast að slökkva eldana sem þessir flokkar kveiktu.

Ekki virðist annað vera hægt en að leita á náðir ESB og hefði eflaust átt að gera það fyrir löngu en þannig var með þessa flokka báða að mikilmennskan var slík að það var af þeirra hálfu ekki talið koma til greina og draumurinn var sá að koma á fót íslenskri fjármálamiðstöð sem öllu slægi við og eins og dæmin sanna var byggð upp svipað og píramídi sem stendur á hvolfi og ekki nóg með það er hvorki stagaður né studdur á nokkurn hátt!

Óneytanlega hefði það verið skemmtilegra að leita til ESB á meðan ástandið var betra og menn gátu staðið uppréttir í þeim leiðangri en það töldu fjármálasnillingarnir í framsókn og sjálfstæðisflokknum ekki koma til greina og því verðum við að sæta því að fara í leiðangurinn allt að því á hnjánum.

Vonandi er að samningamönnum okkar verði vel tekið ef til kemur ekki mun af veita eftir það hörmulega hrun sem flokkarnir tveir hafa kallað yfir þjóðina.

Þeir voru í Kastljósi í kvöld, Gísli Marteinn og Guðmundur Steingrímsson. Gísli er að eigin sögn fluttur til Edinborgar, líklega til að hefna fyrir hryðjuverkalögin en það var nú reyndar hinn breski  G. Brúnn sem stóð fyrir því og einhversstaðar rakst ég á að Skotar væru ekki neitt sérstaklega kátir með þann gjörning. 

   Annars var dálítið gaman að fylgjast með þeim félögum, annar þ.e. Gísli virkar eins og einhverskonar talvél sem blaðrað getur út í eitt og helsta vandamálið er að finna út hvernig hægt sé að stoppa fyrirbrigðið. Guðmundur gerði sér hins vegar far um að vera virðulegur og penn í umræðunni enda er hann kominn í framboð til formanns í hinum samhenta Framsóknarflokki og má með sanni segja að hann sé þar með kominn heim í heiðardalinn. Vonandi verður hann, ef hann nær kosningu, til að hressa uppá og koma á eindrægni í þeim pólitíska ruslahaug sem flokkurinn er í dag en ekki er ástæða til að halda að það verði létt verk í flokki sem býr við eilífar afsagnir og bakstungur sinna eigin manna. Nú er hins vegar svo komið að helst allir vilja vera formenn og það segir sína sögu um mannfæðina í flokknum að a.m.k. tveir hafa orðið að  ganga í hann til að geta boðið sig fram!

Krossgöturugl

3. janúar 2009

Lenti í því mér alveg að óvörum að heyra glefsu af þættinum Krossgötum í Ruv. núna eftir hádegi.

Svo virtist sem safnað hefði verið í þáttinn viðmælendum sem allir ættu það sameyinlegt að eiga sér þá hugsjón helsta að valda sem mestum skandal í samfélaginu, með því sem blessað fólkið telur sér trú um að séu mótmælaaðgerðir. Til dæmis að taka þá var það ekki talið tiltökumál að valdið hefði verið tjóni á búnaði Stöðvar2 þar sem að eigendur stöðvarinnar væru ,,glæpamenn”. Ekki heyrði ég að þessum málflutningi væri mótmælt af stjórnanda þáttarins, en víst getur það hafa farið framhjá mér. Það er sem sagt dómstóll götunnar skipaður þessu sjálfumglaða og að eigin áliti hugsjónafólki sem á að ráða för.

Einhverju gáfnaljósinu dettur í hug að dæma einhvern og kalla hann glæpamann og þá er hann það bara. Er það þetta sem við viljum að taki við þegar þjóðin rís uppúr öskustónni. Eru þetta hinir nýju vormenn Íslands, vonandi ekki, en gott er að viðkomandi opinberi sig í tíma þannig að hægt sé að varast.

Fyrsta færslan

1. janúar 2009

Umhverfis þetta og umhverfis hitt.Jæja, þá er maður farinn að blogga og hér kemur gamalt efni sem á svo sem við í dag, skelli því inn til prufu, kann nefnilega ekkert á þetta en vonandi lærist það!

 

                                                                                                                                                                                      Að undanförnu hafa svonefndir umhverfissinnar farið mikinn í umræðu um þjóðfélagsmál og er jafnvel svo að skilja sem þessi sjálfskipuðu talsmenn guðsgrænnar náttúru telji sig einir þess umkomna að tala máli hennar í tíma og ótíma.Einna frægastur er líklega Ómar nokkur Ragnarsson, grínisti sem kominn er á efri ár og lagði það á sig að sullast um á bátsskel á uppistöðulóni við Kárahnjúka sem frægt varð.Það má ekki virkja við Kárahnjúka, þó reyndar sé nú búið að því, ekki við Hágöngur, Fljótin í Skagafirði, rennsli Þjórsár og svo mætti lengi telja. Sérstaklega er þessu hægri-vinstri-græna fólki uppsigað við, að því er virðist, allt sem hægt er að tengja við iðnað af einhverju tagi. Svokölluð stóriðja er efst á blaði en sjálfsagt er ekki langt í það að allur annar iðnaður verði tekinn fyrir. Ekkert virðist mega iðja annað en tína fjallagrös, spóka sig á gönguskóm á fjallstoppum og góna með heilagri andakt út í loftið vitandi það að launin koma í pósti frá hinu opinbera úr þeirri óþrjótandi peningauppsprettu sem þar er. En hvernig er röksemdafærslan? 

Skoðum það nánar.Skagafjarðarfljótin: Því er náttúrulega haldið fram að um einstakar náttúruperlur sé að ræða, eins og það séu nú einhver ný tíðindi, þar að auki verði ekki hægt eftir virkjun þeirra að stefna ferðamönnum í lífshættu með svokallaðri flúðasiglingu. Svo koma rökin, sem sé þau að rafmagnið verði að nota innan héraðs en ekki flytja það burt til annars og að því er virðist óæðra fólks. Hvaðan skyldi nú koma það rafmagn sem Skagfirðingar  nota, er það kannski framleitt innan Skagafjarðarhéraðs? Þetta heimóttarlega viðhorf hefur einnig verið áberandi á fleiri stöðum og það  er ekki svo að Skagfirðingar séu einir um það. Halda menn kannski að það gangi upp að framleiðsluvörur Skagafjarðar og annara héraða verði eingöngu á markaði innan sveitar? „Hollur er heimafenginn baggi” og allt það en er þetta ekki einum of langt gengið. Sunnlendingar sumir hverjir hafa rætt um það bæði hátt og lengi að ósanngjarnt sé að þar sé framleiddur stór hluti af raforku landsins en ekki notaður innan héraðs. Enginn hefur samt getað bent á hvernig það ætti að gerast og flestir sem komnir eru af barnsaldri vita að suðurströndin er ein samfelld hafnleysa. 

Eitt það nýjasta í málflutningi umhverfisfasistanna er svo það að tala niður til iðnaðarmanna og telja þá ,,gráa” (og væntanlega guggna?) og verður það að teljast óvenju ósvífinn málflutningur af hálfu fólks sem vill láta taka sig alvarlega í þjóðmálaumræðu og helst af öllu komast inn á þing og taka þar með þátt í lagasetningu.  

Undirritaður átti þess kost  síðastliðið sumar að fara í kynnisferð um álverið í Straumsvík, álver sem við ættum að vera stolt af ef eitthvað er. Það verður að segjast eins og er að allt var það til fyrirmyndar hvað varðar umgengni og aðbúnað starfsmanna og getum við ekki bara verið stolt af að því er stjórnað af konu, glæsilegum fulltrúa „hins veika kyns”? Miðað við það sem þar var að sjá þá held ég að svokölluðum umhverfissinnum  væri nær að snúa sér að hefðbundnari atvinnuvegum þessarar þjóðar, hvernig er t.d. háttað umgengni landbúnaðar og sjávarútvegs um náttúru  landsins, hvað með uppblástur á hálendi og víðar og rústun togaraútgerðar á hafsbotninum með botnvörpum að ógleymdum drauganetum, brottkasti og fleira mætti sjálfsagt telja.  

Þáttur fjölmiðla í öllu þessu er líka allnokkur. Hver kannast ekki við glamrið að undanförnu eins og t.d.: Bændur við Þjórsá fagna niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði. Ekki er sagt hverjir, hve margir og fleirtöluorðið „bændur” getur þess vegna þýtt aðeins tveir bændur, kannski fleiri, hver veit en víst er að verið er að láta að því liggja að bændur almennt séu ánægðir með niðurstöðu kosninganna. Varðandi Þjórsárvirkjanirnar skyldu menn hafa í huga að það er búð að margvirkja ána og það sem fyrirhugað er í viðbót skiptir nánast engu máli, um er að ræða lítil inntakslón sem nánast að öllu leiti eru í núverandi farvegi árinnar. Urriðafoss, líklega eini foss (ef foss skyldi kalla) landsins sem á sér sérstakan talsmann, mun að einhverju leiti hverfa en þar sem hann er lítið annað en nafnið eitt, þá er ekki mikill missir að því. 

Fyrir skömmu komu fram hugmyndir um að leggja heilsársveg yfir Kjöl, veg sem ef vel tækist til myndi létta á umferðarþunga á þjóðvegi 1. Ekki var að því að spyrja, hárin nánast risu á umhverfissinnum, sem svo kalla sig, helst var svo að skylja að ekki mætti ræða hugmyndina, hvað þá meira. Ekki svo að hún sé gallalaus en mætti eflaust lagfæra og ef vel tekst til komast að vitrænni niðurstöðu. Alla vega er full ástæða til að leita leiða til að létta umferðarálaginu af hringveginum eftir því sem unnt er. Er eitthvað sérstaklega heillandi við rykmökkinn og drulluausturinn sem er á núverandi Kjalvegi? Þau sem tóku þátt í því að mynda Samfylkinguna gerðu það í þeirri von að með því yrði hægt að þoka góðum málum fram á veg. En sumir tóku þann kost að ganga til liðs við hreyfingu sem kallast Vinstri græn. Það hefur orðið hlutskipti þeirra að berjast gegn nánast öllu sem til framfara horfir og æði oft undir yfirskini náttúruverndarsjónarmiða. Formaður þeirra var einu sinni landbúnaðar og samgönguráðherra, ef einhver er nú búinn að gleyma því, þau sem það muna, muna ef til vill að hann gerðist katólskari en páfinn í reglufestu er hann var kominn í ráðherrastólinn. 

Því er að ástæða er til að hvetja fólk til að hugsa sig vel um áður en það kastar atkvæðum sínum í komandi alþingiskosningum á glæ með því að kjósa öfgaflokkana hvort sem er til hægri eða vinstri, hvort heldur þeir kenna sig við frjálslyndi, flokkur sem daðrar leynt og ljóst við rasisma, eða þá sem telja sig hafa höndlað stóra sannleikann varðandi umhverfismálin. Það er ekki langt í atvinnuleysi og afturhald ef þau komast til áhrifa í landsmálunum. 

Ingimundur Bergmann