Áhyggjur Björns

13. febrúar 2009

  Þegar þjóðin er að reyna að átta sig á hruninu, þegar skuldir heimilanna hafa vaxið fólki yfir höfuð, þegar atvinnuleysi er komið uppí hæstu hæðir, margfalt hærri en sést hefur í langan tíma, bankakerfið hrunið og fyrirtækin mörg hver gjaldþrota og orðspor þjóðarinnar er stórskert, þá hafa sjálfstæðismenn með Björn Bjarnason í broddi fylkingar áhyggjur, og krefjast skýrslu. Það er sem sé komið að því, að þeir telja, að skoða þurfi málið, eitthvað alvarlegt hafi gerst.

  Björn stendur í ræðustól alþingis og er alvörugefinn, enginn sem á horfir getur verið í minnsta vafa um, að eitthvað mjög slæmt hafi komið fyrir. Þunginn í málflutningnum er mikill og alvaran slík að athygli vekur og hvert skildi nú umræðuefnið í ræðunni vera. Er það ástandið á fjármálamörkuðunum eða atvinnuleysið, er það kannski gagnrýni á ríkisstjórnina, er eitthvað sem hún  ætti að gera öðruvísi, eða betur. Er þessi reyndi þingmaður að vanda um við flokksmenn sína sem hafa tileinkað og tekið sér til fyrirmyndar frammíkallahegðun sumra þeirra þingmanna sem áður voru í andstöðu, voru í stjórnarandstöðu er maðurinn sem nú stendur í púltinu var dómsmálaráðherra.

  Er hann kannski að reka á eftir því að eitthvað raunhæft verði gert í efnahagsmálunum til framtíðar litið, eins og til dæmis að sækja um aðild að ESB og taka upp evru. Nei, auðvitað er hann ekki að því, það er nefnilega nokkuð sem ekki má nefna, svoleiðis framsækni á ekki uppá pallborðið hjá flokkssystkinum hans, ekkert frammúrstefnukjaftæði á því heimili. Heimili þar sem húsbóndinn hefur ekki rænu á að taka upp símann til að hringja, líklegast vegna þess að hann hefur ekki vitað númerið hjá kollega sínum og ekki munað eftir hve liprar og flinkar að finna númer þær eru stúlkurnar á símanum.

  Björn er heldur ekki í púltinu til að biðjast afsökunar á að hann og flokkur hans hafi farið með stjórn efnahagsmálanna árum saman, hafi byggt upp og stýrt hagkerfi því sem er svo nöturlega komið í strand.      

  Nei, Björn er alltof áhyggjufullur til að hann geti verið að hugsa um svoleiðis hégóma og hann vill fá skýrslu frá utanríkisráðherra, um misskilning. Forseti þjóðarinnar hefur nefnilega fallið í þá gryfju, að spjalla við þýskan blaðamann og smáatriði í texta hafði skolast til, skolast til á þann veg, að Geir félagi Björns hefur líkast til glaðst við, svo ekki sé nú minnst á leiðtogann hinn eina og sanna.

  Blaðamaðurinn hafði það sem sagt eftir forsetanum, að íslenska þjóðin væri orðin blönk og gæti ekki borgað allt sem krafist er.

  Um misskilning virðist að ræða, en hvernig má það vera, að það fari svona fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum að forsetinn segi það sem þeir eru búnir að tala um í margar vikur?

  Er ef til svo auðvelt að skipta um hlutverk, að Björn hafi eitt andartak gleymt, hvoru megin línunnar í pólitíkinni hann stendur?

Sonur sólarinnar

9. febrúar 2009

  Hinn ástsæli sonur sólarinnar og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hefur svarað bréfinu og nú veit þjóðin hvað hann ætlar ekki að gera. Hann ætlar ekki að borga óreiðuskuldir, ekki ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ekki hætta í Seðlabankanum, ekki hætta í pólitík og ekki hætta að svara bréfum. Hann virðist ekki hafa getað hætt að upplifa sig sem formann Sjálfstæðisflokksins og ábyggilega ekki heldur sem borgarstjóra Reykjavíkur. Hér er um að ræða mann sem ekki hleypur frá hálfkláruðu verki og það er nú ekki gott, að flestra áliti, en að sjálfsögðu ekki allra, því söfnuðurinn snýst í kringum guð sinn.

  Já, söfnuðurinn gerir það og er svo sem ekki neitt einsdæmi, sagan greinir frá mörgum slíkum tilfellum, ekki bara mannkynsagan heldur íslandssagan líka. Fylgispekt Sjálfstæðismanna við foringja sinn er alþekkt og það sama má segja um framsóknarmenn svo dæmi séu tekin. Nefna má nöfn í þessu sambandi, eins og Jónas þann er kenndur var við Hriflu svo ekki sé minnst á Halldór Ásgrímsson sem flestir muna eftir. Ekki er gott að segja um hvað veldur, en oft endar þetta með því að hjörðin hrinur innan frá, eins og Framsókn er gott dæmi um, og er þá svo komið að engum virðist vera vært á toppnum. Ætli geti verið að það sé framundan hjá Sjálfstæðisflokknum?

  Sjálfstæðismenn hafa verið ólatir að nudda vinstri mönnum upp úr því að þeir séu ekki nægjanlega fylgispakir við foringja sinn og eru afar fundvísir á dæmi um slíkt. Vinstri menn svara því þá gjarnan til að þetta sé einungis til marks um að þeir hugsi meira sjálfstætt og að þeir hafi ekki þessa miklu þörf fyrir hinn sterka leiðtoga, en auðvelt er að finna mörg dæmi um, að er vinstrið er komið svo langt til vinstri, að það er farið að nálgast öfgahægrið þá kveiknar á þörfinni fyrir hinn mikla og óskeikula leiðtoga.

  Benda má sjálfstæðismönnum á, í þessari stöðu, að lesa þó ekki væri nema upphafið á bókinni AUSCHWITZ eftir Laurence Rees og hugleiða dálítið t.d. fyrsta kaflann.

  En víkjum aftur að hinum mikla leiðtoga, þeim sem ekki ætlar að hlaupa frá hálfkláruðu verki.      

  Það er búið með einstæðum árangri, slíkum að sagan kann vart að greina frá öðrum eins, að rústa bankakerfi þjóðarinnar, koma heimilunum á vonarvöl og fyrirtækjunum í rekstrarvanda slíkan að fá eða engin dæmi eru til um. Sjávarútvegurinn er á vonarvöl, iðnaðurinn líka, verslun og þjónusta í hvínandi vandræðum og landbúnaðurinn á hausnum. Bankarnir, gjaldþrota, Seðlabankinn líka og ef til siðs væri að tala um það, þá er ríkissjóður í sama hópi. Og ekki má gleyma því að þjóðin er búin að vera í yfirlýstu stríði við, og lýsa þar með yfir blessun sinni á eyðileggingu menningarverðmæta og manndrápum Bandaríkjanna í Írak.  

  Landflótti er hafinn og það þrátt fyrir alheimskreppu sem segir sína sögu um ástandið í landinu okkar góða, þjóðin er rúin trausti á alþjóðavettvangi og dæmi eru um að íslendingar erlendis segist vera annarrar þjóðar en þeir eru.

  Hverju á maðurinn eiginlega ólokið?

Allt sem við vildum vita

9. febrúar 2009

Allt sem við vildum vita um Sjálfstæðisflokkinn en þorðum ekki að spyrja um, hefur að undanförnu verið að koma í ljós. Við þurftum ekki að spyrja, þingmenn og aðrir „varðhundar valdsins” hafa séð um að upplýsa okkur. Það er nú endanlega upplýst hvers vegna stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gekk ekki, þrátt fyrir góð samskipti forystumannanna og eflaust góðan vilja þeirra til að láta gott af sér leiða fyrir bæði land og þjóð.

  Flokkurinn er eins og áður hefur komið fram ekki fyrir þjóðina, heldur öfugt, og þingmenn ásamt öðrum minni spámönnum telja meginatriðið vera að gæta hagsmuna hinna innvígðu, en annað er látið sitja á hakanum.

Söguskýring þeirra um hvernig uppúr slitnaði milli Sjálfstæðis  og Samfylkingar stenst ekki neina skoðun og ljóst má vera að það var Flokkurinn sem brást; þjóðinni aðallega en einnig sjálfum sér.

  Það að vilja ekki gera það sem gera þurfti, svo ömurlegt sem það er, var fyrst og fremst vegna óttans um að friði og ró þeirra sem plantað hafði verið hér og þar í kerfinu yrði raskað og það mátti ekki. Ástæða þess að ekki var hægt að samþykkja forsætisráðuneytið í höndum Samfylkingarinnar var náttúrulega einungis að þá var ekki hægt að gæta þeirra hagsmuna sem öllu ofar eru settir. Loforð um að tekið yrði til í stjórnsýslunni voru einungis til málamynda og til þess sett fram að blekkja. Nákvæmlega það sama hefði verið uppá teningnum ef komið hefði til þjóðstjórnar: þá hefði Flokkurinn, sem stærsti flokkurinn krafist þess að fara með forsætisráðuneytið til þess eins að gæta þessara sömu hagsmuna.

   Það sem sannar þessar fullyrðingar er framkoma þingmanna Flokksins er til umræðu komu frumvörp um tiltekt í Seðlabankanum og breytingu á greiðsluaðlögun. Úr pússi sínu dró þá fyrrverandi dómsmálaráðherra gamalt frumvarp nánast um sama efni og eyddi miklu púðri í innantómt karp um hvort hefði komið fyrr í sandkassann, hann eða núverandi dómsmálaráðherra, eins og að það væri nú það sem skipti þjóðina mestu máli á þessum tímum!

Það er haft eftir Halldóri Blöndal að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að endurnýja ásýnd Seðlabankans jaðri við einelti. Fílabeinsturninn sem sumir bitlingarnir lifa í er greinilega bæði gluggalaus og hljóðeinangraður, sambandslysið við umheiminn er algjört, ekki vottar fyrir iðrun og afneitunin er slík að minnir á kvikmyndina  -Allt í besta lagi- . Því er ástæða til að leiða hugann að því hvort að sumir fyrrverandi og núverandi stjórnmálamenn líti á stofnunina sem verndaðan vinnustað fyrir þá sem hættir eru í pólitík, eða vilja að minnsta kosti láta líta svo út að þeir séu það. Staðan er hins vegar sú núna að nauðsynlegt er að taka til í stofnuninni, endurskipuleggja hana og það án þess tillits til þess hvort menn telja bankann ábyrgan fyrir því hvernig til tókst við stjórn efnahagsmálanna.

VG er greinilega í hvínandi vandræðum í hinu nýja hlutverki, þau eru svo vön að vera á móti að hið nýja hlutverk fer þeim dálítið illa, svona eins og vansniðin flík. Steingrím langar greinilega til að banna hvalveiðar (enda eru þær atvinnuskapandi) og Kolbrún skilur ekki textann í stjórnarsáttmálanum þar sem m.a. er fjallað um ný álver. Hún virðist ekki hafa áttað sig á því að bygging álvers er margra ára verkefni og að því er ekki verið að fjalla um þau álver sem þegar eru í undirbúningi né byggingu, en hægt er að deila þeirri skoðun með henni, ef hún er til staðar, að æskilegt er að  meiri fjölbreytni sé í iðnaðaruppbyggingunni.

Ranghverfan

7. febrúar 2009

Þá eru sjálfstæðismennirnir komnir úr innhverfu íhuguninni og nú er ekki annað að sjá en að rangan sé farin að snúa út. Þau opinbera fyrir þjóðinni, það sem margir töldu sig reyndar vita, að Flokkurinn er ekki fyrir þjóðina, heldur er þjóðin fyrir flokkinn. Allir fyrir einn og einn fyrir alla, er boðorðið en á bara við um innvígða og innmúraða og afgangurinn af þjóðinni skiptir ekki minnsta máli. Þannig er komið fyrir flokknum sem kynnti sig sem Flokk allra landsmanna, hvílíkt öfugmæli!

Flokkurinn er farinn að líkjast fyrirbrigðinu Framsókn, þ.e. einhverskonar harðkjarna-félagsskapur um ekki neitt, eða hvað? Leynist í moldviðrinu kannski einhver tilgangur eftir allt saman, er bröltið kannski til einhvers ef betur er gáð. Já, ætli það ekki, hagsmunagæslan er ekki langt undan og rógsherferðirnar og vænisýkin hafa svo sannarlega tilgang. Þráhyggjan varðandi ESB og krónuna hafa líka sinn tilgang, sagan sýnir það.

Svo dæmi sé tekið þá er það ekki í fyrsta skipti núna sem sparifé landsmanna er rænt, það hefur verið gert áður og sannleikurinn er sá að hagstjórn þjóðarinnar hefur verið í molum nánast alla tíð, spurningin er fyrst og fremst um hvort það sé með vilja eða fyrir hreina heimsku að svo er. Dæmi hver fyrir sig og velji það sem viðkomandi finnst líklegra.

Virkjum Þjórsá!

7. febrúar 2009

Sjálfstæðismenn lögðust í innhverfa íhugun, flokkurinn hætti að virka og afleiðingin er komin í ljós: Steingrímur er fjármálaráðherra, Kolbrún er umhverfisráðherra o.s.frv.. Getur það glæsilegra orðið!

Nú berast hins vegar þær fréttir að Flokkurinn hafi bylt sér í bælinu og gömul frumvörp koma í ljós. Guð láti gott á vita.

Komnir eru þeir tímar að jafnvel VG liðið gæti hugsanlega áttað sig á því að nauðsynlegt er að framleiða til að afla tekna og gott til þess að hugsa að Steingrímur sé nú að leita að peningauppsprettunni í ríkissjóði.

Steingrímur benti einhverjusinni á að upplagt væri að virkja Þjórsá, kannski er núna komið að því! 

  Ekki er vitað með neinni vissu, hvað það er sem velur því að hestar geta tekið uppá því að vera það sem kallað er að þeir séu staðir og fást ekki með nokkru móti til að færa sig úr stað. Það eina sem við, sem höfum orðið fyrir því að sitja slíkan grip vitum, er að það er nánast sama til hvaða ráða er tekið, hrossið fæst ekki til að hreifa sig. Þetta er afskaplega leiðinleg uppákoma og fremur ömurlegt að horfa á eftir ferðafélögunum hverfa í fjarska á meðan ekkert gerist hjá manni sjálfum annað en það að gremjan hleðst upp. Ekki bætir nú úr skák ef maður er nú staddur út í miðri á sem þar að auki er í vexti og mikið getur legið við að haldið sé áfram en nei, hesturinn hreyfist ekki, lyftir aðeins taglinu lítið eitt og teðjar í ána.

  Þessu lík er sú staða sem uppi hefur verið í íslenskum stjórnmálum undanfarna mánuði, þ.e. stærsti og öflugasti(?) stjórnmálaflokkur landsins með innanborðs fjölda hæfileikafólks af ýmsum sviðum hefur birst sem bæði þver og staður og að því eð virðist úr tengslum við raunveruleikann. Ekki ósvipað og klárinn sem áður var nefndur: hingað er ég kominn, ætla ekki lengra og hér mun ég vera.

  Öll þekkjum við fumið og fátið sem greip um sig á þeim bæ er Glitni skorti skotsilfur og farsann sem á eftir fylgdi. Afleiðingarnar af hagstjórnarsnilli  Sjálfstæðisflokksins voru að koma í ljós með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina. Í framhaldinu neitaði forysta flokksins, að horfast í augu við það sem búið var að gerast og frægar eru yfirlýsingar Seðlabankastjórans um að nægir peningar væru til í landinu og að engin ástæða væri til að þjóðin færi að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Undir þetta tók núverandi formaður flokksins og virtist þar með enduróma rödd húsbónda síns að sumra mati.

  Tregða flokksins, sem virðist vera nærður beint í  æð frá Seðlabankastjóranum, að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), ákvarðanatökufælni varðandi ESB og að lokum það að geta ekki horfst í augu við kröfuna um að tekið yrði til í stjórnkerfinu hefur verið flestum augljós. Það var reyndar rokið til og tilkynnt um flýtingu á landsfundarhaldi þar sem fjallað yrði um afstöðuna til ESB og virtist þar með sem bikkjan væri að taka við sér, svo vitnað sé í líkinguna hér að framan,  en allt var það síðan blásið af og tilkynnt um að fundinum væri frestað og  síðan var áfram þumbast við varðandi tiltektina sem fyrr var nefnd. Flokkurinn var eins og svo oft áður settur framar þjóðinni sem hann var þó væntanlega stofnaður til að þjóna.   

  Því er það að við stöndum nú frammi fyrir því að verið er að dubba upp í ráðherraembætti það svartasta afturhald sem fyrirfinnst í íslenskum stjórnmálum. Þeim  sem gasprað hafa um að skila skuli lánunum frá IMF og fleirum, að því ógleymdu að vera á móti flest öllu sem til framfara horfir í atvinnumálum þjóðarinnar undir yfirskini náttúruverndar. Stjórnmálaafl sem virðist ekki hafa neina atvinnumálastefnu aðra en þá að tína skuli hundasúrur og njóla að ógleymdum fjallagrösum sem þeir hafa örugglega áhuga á. Rétt er þó að halda því til haga að Steingrímur J. formaður VG, Enver Hoxha Íslands?, lýsti því á sínum tíma því hve æskilegt væri að virkja Þjórsá.

  Þeir sem eru óhressir með þetta nýja stjórnarsamstarf, sem að því er virðist, er allt að því óumflýjanlegt vegna fyrrnefndrar kergju Sjálfstæðisflokksins, geta huggað sig við að það er til skamms tíma stofnað og því vonandi að VG nái ekki að gera mikið tjón.

  Vonandi er að þau hafi það ekki af að breyta Íslandi í Albaníu norðursins þó hugurinn standi kannski til þess.

Árshátíð

25. janúar 2009

  Það var haldin árshátíð í Andabæjaryfirbanka þrátt fyrir og kannski vegna þess að undirbankarnir voru komnir á hausinn og fyrirtækin líka og íbúarnir höfðu ekkert annað  að gera en að ráfa um götur og skemmta sér við trumbuslátt, bæði til þess að halda lífi í bænum og einnig til að halda á sér hita. Því var það að Jóakim aðalönd og félagar hans í yfirbankanum töldu mest áríðandi að koma nú saman til að halda árshátíð. Og hvað ætli þeir hafi nú verið að halda uppá?

  Jú, það var verið að halda uppá alveg einstakan árangur við að rústa Andabæjarsamfélaginu. Það hafði sem sagt tekist á undraverðan hátt að koma því á kaldan klakann, akkúrat eins og þeir Jóakim og félagar höfðu ætlað sér. Nánast allt var komið á vonarvöl; peningatankurinn var orðinn galtómur og ekki nóg með það heldur var komið á hann stærðar gat, þannig að nokkuð tryggt var að ef  að í hann kæmu peningar þá lækju þeir jafnharðan úr honum  og meira að segja var svo um hnúta búið að tryggt var að enginn gæti höndum komið yfir það sem þannig læki út.

  Einnig var búið að ganga frá því að vinabæirnir voru orðnir afhuga samskiptum við Andabæ og vildu sem minnst af honum vita, höfðu reyndar eindregið ráðlagt Jóakim að snúa sér til Plútó varðandi það að fylla á peningatankinn. Plútó hafði brugðist vel við og sent múrara til að múra í gatið og akkúrat núna var verið að gera tilraun með að setja í hann smá slatta af peningum og kanna hvort tankurinn læki.

  Þetta virtist allt vera á réttri leið og því var það að Jóakim bauð til árshátíðar, þar  var nú glaumur og gleði, matur góður og skemmtiatriðin líka. Ekki spillti það fyrir að Jóakim hélt eina af sínum frægu ræðum undir borðum, allir hlógu og vitanlega á réttum stöðum því svo var um hnúta búið að gefið var viðeigandi merki þegar það átti við.

  Eitt var samt dálítið skrítið við þetta allt saman og það var að mikill hluti skemmtiatriðanna fór fram utan dyra og höfðu gestirnir ekki hugsað fyrir því að þeir þyrftu að vera bæði úti og inni á sama tíma en svona vildu Jóakim og félagar hafa það vegna þess að þeir höfðu alltaf svo gaman af að koma á óvart.

  Árshátíðin lukkaðist vel, allir fóru saddir og glaðir heim að henni lokinni og svartklæddir þjónar með hjálma eins og í stjörnustríðsmynd fylgdu veislugestum til bíla sinna ef svo illa hafði tekist til að drykkirnir höfðu stigið þeim til höfuðs.

  Leikhúsi fáránleikans eru engi takmörk sett.

Enn eru þeir á fjósbitanum þeir félagar í VG og ekki eru þeir að öllu leyti sammála foringjarnir Steingrímur og Ögmundur, annar vill skila lánunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en í hinn er komið svo mikið eggjahljóð að hann getur alveg hugsað sér að gleyma öllum slíkum áformum.

Þeir reyna að egna fyrir Samfylkinguna og vilja mynda með henni ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn með sín lík í lestinni þykist vilja styðja slíkan gjörning.

Þetta ætti Samfylkingin að varast því að það mun leiða til glötunar, ekki bara fyrir Samfylkinguna heldur líka Íslensku þjóðina. Gleymum því ekki, að hverja skoðun sem við höfum á gjörðum Sjálfstæðisflokksins í fortíðinni, að það er einfaldlega þannig, eins og staðan er í dag, þá eru ekki nema tveir flokkar með mannafla til að taka á málunum og þeir eru við stjórn.

Gjörðir göturæsiskandídata á Austurvelli og við stjórnarráðið koma þessu ekkert við og eiga ekki að móta afstöðu manna til þjóðmála.

Fjósbitapólitík

22. janúar 2009

Þann 18. des. síðastliðinn birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu, ég held að hún eigi enn við og hér kemur greinin:

  Nú er fjör og nú er gaman, púkarnir á fjósbitanum fitna sem aldrei fyrr, allir eru gerðir tortryggilegir, nær allt er talið vafasamt og mikið má vera ef flestir eru ekki skyldir einhverjum, t.d. synir feðra sinna, og svo eru menn víst líka svilar sem mun vera það voðalegasta.

  Neikvæðnin ræður ríkjum, nornaveiðar eru stundaðar og það stjórnmálaafl sem út á þetta gerir blómstrar og þenst út eins og púkinn á bitanum forðum, Vinstri græn eru samkvæmt skoðanakönnunum orðin stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og því er það að þeir krefjast kosninga. Strax. Því fleiri slæmar fréttir sem berast, ekki er skortur á þeim, því betur þrífast þeir. Allt það slæma sem yfir okkur dynur er sem sagt hinum eða þeim að kenna, við komum hvergi nærri, nei við Vinstri græn erum ekki sek um að hafa dansað í kringum gullkálfinn. Þau eru á móti: ESB., evru, virkjunum, nema þær séu ekki komnar almennilega á dagskrá, álverum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv. Man einhver eftir einhverju sem þau eru ekki á móti?

  Ég man eftir einu: greiðslum úr ríkissjóði, já og öðru: hallareknu ríkisútvarpi, vafalaust mætti fleira finna en líklega er það flest þessu sama marki brennt.

  Fjölmiðlarnir dansa með og keppast um að flytja sem flestar neikvæðar fréttir, einkum þó Kastljós, Stöð 2 og að sjálfsögðu DV og kemur það svo sem ekki á óvart. Ríkisstjórnin sem reynir eins og hún getur að halda þjóðfélaginu gangandi er gerð tortryggileg á alla lund, Fjármálaeftirlitið líka, svo ekki sé minnst á Seðlabankann og einkum uppgjafa stjórnmálamann sem þar hangir á sínu eins og hundur á roði og á að bera alla ábyrgð á því hvernig komið er. Hver trúir því í alvöru og hvernig á það að leysa allan vanda að senda hann heim? Ekki að hann sé ómissandi, það er örugglega öðru nær, en að hann einn hafi valdið alþjóðlegri fjármálakreppu hlýtur að teljast nokkuð langsótt.

  Það er frekar auðvelt að vera stjórnmálamaður með völd á landstjórninni þegar allt leikur í lyndi, hægt er að selja öll blómlegustu fyrirtæki þjóðarinnar s.s. banka og síma og allt hvað heiti hefur og ekki spillir fyrir ef efnahagsumhverfið er almennt í heiminum gott. Svona eins og bóndi sem selur kýrnar sínar og hefur næg auraráð á meðan hann er að eyða því sem fyrir þær fæst, en verra er að taka við búinu þegar það sem þannig fékkst er allt búið og farið út í veður og vind. Því er heldur ekki að neita að æði mörg vorum við sem tókum þátt dansinum í kringum kálfinn gyllta og líkaði bara vel.

  Jafnmörg könnumst við ekkert við það í dag og nú er dæmt, hneykslast, rægt og mænt upp í Steingrím J. lemjandi ræðupúltið á Alþingi og allt að því froðufellandi af ofsa. Er ekki komið nóg af þessu og kominn tími til að gera eitthvað uppbyggilegra, snúa sér að því að leysa vandamálin í stað þess að ærast og ragna?

  Ekki er annað að sjá en að það séu margir í því að reyna að finna lausnir á málunum, vel menntað og gáfað fólk, við Íslendingar erum nefnilega svo heppin að eiga nóg af því. Það lætur kannski ekki eins hátt í því og hinum – en leggjum við hlustir.