Ranghverfan

7. febrúar 2009

Þá eru sjálfstæðismennirnir komnir úr innhverfu íhuguninni og nú er ekki annað að sjá en að rangan sé farin að snúa út. Þau opinbera fyrir þjóðinni, það sem margir töldu sig reyndar vita, að Flokkurinn er ekki fyrir þjóðina, heldur er þjóðin fyrir flokkinn. Allir fyrir einn og einn fyrir alla, er boðorðið en á bara við um innvígða og innmúraða og afgangurinn af þjóðinni skiptir ekki minnsta máli. Þannig er komið fyrir flokknum sem kynnti sig sem Flokk allra landsmanna, hvílíkt öfugmæli!

Flokkurinn er farinn að líkjast fyrirbrigðinu Framsókn, þ.e. einhverskonar harðkjarna-félagsskapur um ekki neitt, eða hvað? Leynist í moldviðrinu kannski einhver tilgangur eftir allt saman, er bröltið kannski til einhvers ef betur er gáð. Já, ætli það ekki, hagsmunagæslan er ekki langt undan og rógsherferðirnar og vænisýkin hafa svo sannarlega tilgang. Þráhyggjan varðandi ESB og krónuna hafa líka sinn tilgang, sagan sýnir það.

Svo dæmi sé tekið þá er það ekki í fyrsta skipti núna sem sparifé landsmanna er rænt, það hefur verið gert áður og sannleikurinn er sá að hagstjórn þjóðarinnar hefur verið í molum nánast alla tíð, spurningin er fyrst og fremst um hvort það sé með vilja eða fyrir hreina heimsku að svo er. Dæmi hver fyrir sig og velji það sem viðkomandi finnst líklegra.

Virkjum Þjórsá!

7. febrúar 2009

Sjálfstæðismenn lögðust í innhverfa íhugun, flokkurinn hætti að virka og afleiðingin er komin í ljós: Steingrímur er fjármálaráðherra, Kolbrún er umhverfisráðherra o.s.frv.. Getur það glæsilegra orðið!

Nú berast hins vegar þær fréttir að Flokkurinn hafi bylt sér í bælinu og gömul frumvörp koma í ljós. Guð láti gott á vita.

Komnir eru þeir tímar að jafnvel VG liðið gæti hugsanlega áttað sig á því að nauðsynlegt er að framleiða til að afla tekna og gott til þess að hugsa að Steingrímur sé nú að leita að peningauppsprettunni í ríkissjóði.

Steingrímur benti einhverjusinni á að upplagt væri að virkja Þjórsá, kannski er núna komið að því! 

  Ekki er vitað með neinni vissu, hvað það er sem velur því að hestar geta tekið uppá því að vera það sem kallað er að þeir séu staðir og fást ekki með nokkru móti til að færa sig úr stað. Það eina sem við, sem höfum orðið fyrir því að sitja slíkan grip vitum, er að það er nánast sama til hvaða ráða er tekið, hrossið fæst ekki til að hreifa sig. Þetta er afskaplega leiðinleg uppákoma og fremur ömurlegt að horfa á eftir ferðafélögunum hverfa í fjarska á meðan ekkert gerist hjá manni sjálfum annað en það að gremjan hleðst upp. Ekki bætir nú úr skák ef maður er nú staddur út í miðri á sem þar að auki er í vexti og mikið getur legið við að haldið sé áfram en nei, hesturinn hreyfist ekki, lyftir aðeins taglinu lítið eitt og teðjar í ána.

  Þessu lík er sú staða sem uppi hefur verið í íslenskum stjórnmálum undanfarna mánuði, þ.e. stærsti og öflugasti(?) stjórnmálaflokkur landsins með innanborðs fjölda hæfileikafólks af ýmsum sviðum hefur birst sem bæði þver og staður og að því eð virðist úr tengslum við raunveruleikann. Ekki ósvipað og klárinn sem áður var nefndur: hingað er ég kominn, ætla ekki lengra og hér mun ég vera.

  Öll þekkjum við fumið og fátið sem greip um sig á þeim bæ er Glitni skorti skotsilfur og farsann sem á eftir fylgdi. Afleiðingarnar af hagstjórnarsnilli  Sjálfstæðisflokksins voru að koma í ljós með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina. Í framhaldinu neitaði forysta flokksins, að horfast í augu við það sem búið var að gerast og frægar eru yfirlýsingar Seðlabankastjórans um að nægir peningar væru til í landinu og að engin ástæða væri til að þjóðin færi að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Undir þetta tók núverandi formaður flokksins og virtist þar með enduróma rödd húsbónda síns að sumra mati.

  Tregða flokksins, sem virðist vera nærður beint í  æð frá Seðlabankastjóranum, að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), ákvarðanatökufælni varðandi ESB og að lokum það að geta ekki horfst í augu við kröfuna um að tekið yrði til í stjórnkerfinu hefur verið flestum augljós. Það var reyndar rokið til og tilkynnt um flýtingu á landsfundarhaldi þar sem fjallað yrði um afstöðuna til ESB og virtist þar með sem bikkjan væri að taka við sér, svo vitnað sé í líkinguna hér að framan,  en allt var það síðan blásið af og tilkynnt um að fundinum væri frestað og  síðan var áfram þumbast við varðandi tiltektina sem fyrr var nefnd. Flokkurinn var eins og svo oft áður settur framar þjóðinni sem hann var þó væntanlega stofnaður til að þjóna.   

  Því er það að við stöndum nú frammi fyrir því að verið er að dubba upp í ráðherraembætti það svartasta afturhald sem fyrirfinnst í íslenskum stjórnmálum. Þeim  sem gasprað hafa um að skila skuli lánunum frá IMF og fleirum, að því ógleymdu að vera á móti flest öllu sem til framfara horfir í atvinnumálum þjóðarinnar undir yfirskini náttúruverndar. Stjórnmálaafl sem virðist ekki hafa neina atvinnumálastefnu aðra en þá að tína skuli hundasúrur og njóla að ógleymdum fjallagrösum sem þeir hafa örugglega áhuga á. Rétt er þó að halda því til haga að Steingrímur J. formaður VG, Enver Hoxha Íslands?, lýsti því á sínum tíma því hve æskilegt væri að virkja Þjórsá.

  Þeir sem eru óhressir með þetta nýja stjórnarsamstarf, sem að því er virðist, er allt að því óumflýjanlegt vegna fyrrnefndrar kergju Sjálfstæðisflokksins, geta huggað sig við að það er til skamms tíma stofnað og því vonandi að VG nái ekki að gera mikið tjón.

  Vonandi er að þau hafi það ekki af að breyta Íslandi í Albaníu norðursins þó hugurinn standi kannski til þess.

Árshátíð

25. janúar 2009

  Það var haldin árshátíð í Andabæjaryfirbanka þrátt fyrir og kannski vegna þess að undirbankarnir voru komnir á hausinn og fyrirtækin líka og íbúarnir höfðu ekkert annað  að gera en að ráfa um götur og skemmta sér við trumbuslátt, bæði til þess að halda lífi í bænum og einnig til að halda á sér hita. Því var það að Jóakim aðalönd og félagar hans í yfirbankanum töldu mest áríðandi að koma nú saman til að halda árshátíð. Og hvað ætli þeir hafi nú verið að halda uppá?

  Jú, það var verið að halda uppá alveg einstakan árangur við að rústa Andabæjarsamfélaginu. Það hafði sem sagt tekist á undraverðan hátt að koma því á kaldan klakann, akkúrat eins og þeir Jóakim og félagar höfðu ætlað sér. Nánast allt var komið á vonarvöl; peningatankurinn var orðinn galtómur og ekki nóg með það heldur var komið á hann stærðar gat, þannig að nokkuð tryggt var að ef  að í hann kæmu peningar þá lækju þeir jafnharðan úr honum  og meira að segja var svo um hnúta búið að tryggt var að enginn gæti höndum komið yfir það sem þannig læki út.

  Einnig var búið að ganga frá því að vinabæirnir voru orðnir afhuga samskiptum við Andabæ og vildu sem minnst af honum vita, höfðu reyndar eindregið ráðlagt Jóakim að snúa sér til Plútó varðandi það að fylla á peningatankinn. Plútó hafði brugðist vel við og sent múrara til að múra í gatið og akkúrat núna var verið að gera tilraun með að setja í hann smá slatta af peningum og kanna hvort tankurinn læki.

  Þetta virtist allt vera á réttri leið og því var það að Jóakim bauð til árshátíðar, þar  var nú glaumur og gleði, matur góður og skemmtiatriðin líka. Ekki spillti það fyrir að Jóakim hélt eina af sínum frægu ræðum undir borðum, allir hlógu og vitanlega á réttum stöðum því svo var um hnúta búið að gefið var viðeigandi merki þegar það átti við.

  Eitt var samt dálítið skrítið við þetta allt saman og það var að mikill hluti skemmtiatriðanna fór fram utan dyra og höfðu gestirnir ekki hugsað fyrir því að þeir þyrftu að vera bæði úti og inni á sama tíma en svona vildu Jóakim og félagar hafa það vegna þess að þeir höfðu alltaf svo gaman af að koma á óvart.

  Árshátíðin lukkaðist vel, allir fóru saddir og glaðir heim að henni lokinni og svartklæddir þjónar með hjálma eins og í stjörnustríðsmynd fylgdu veislugestum til bíla sinna ef svo illa hafði tekist til að drykkirnir höfðu stigið þeim til höfuðs.

  Leikhúsi fáránleikans eru engi takmörk sett.

Enn eru þeir á fjósbitanum þeir félagar í VG og ekki eru þeir að öllu leyti sammála foringjarnir Steingrímur og Ögmundur, annar vill skila lánunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en í hinn er komið svo mikið eggjahljóð að hann getur alveg hugsað sér að gleyma öllum slíkum áformum.

Þeir reyna að egna fyrir Samfylkinguna og vilja mynda með henni ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn með sín lík í lestinni þykist vilja styðja slíkan gjörning.

Þetta ætti Samfylkingin að varast því að það mun leiða til glötunar, ekki bara fyrir Samfylkinguna heldur líka Íslensku þjóðina. Gleymum því ekki, að hverja skoðun sem við höfum á gjörðum Sjálfstæðisflokksins í fortíðinni, að það er einfaldlega þannig, eins og staðan er í dag, þá eru ekki nema tveir flokkar með mannafla til að taka á málunum og þeir eru við stjórn.

Gjörðir göturæsiskandídata á Austurvelli og við stjórnarráðið koma þessu ekkert við og eiga ekki að móta afstöðu manna til þjóðmála.

Fjósbitapólitík

22. janúar 2009

Þann 18. des. síðastliðinn birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu, ég held að hún eigi enn við og hér kemur greinin:

  Nú er fjör og nú er gaman, púkarnir á fjósbitanum fitna sem aldrei fyrr, allir eru gerðir tortryggilegir, nær allt er talið vafasamt og mikið má vera ef flestir eru ekki skyldir einhverjum, t.d. synir feðra sinna, og svo eru menn víst líka svilar sem mun vera það voðalegasta.

  Neikvæðnin ræður ríkjum, nornaveiðar eru stundaðar og það stjórnmálaafl sem út á þetta gerir blómstrar og þenst út eins og púkinn á bitanum forðum, Vinstri græn eru samkvæmt skoðanakönnunum orðin stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og því er það að þeir krefjast kosninga. Strax. Því fleiri slæmar fréttir sem berast, ekki er skortur á þeim, því betur þrífast þeir. Allt það slæma sem yfir okkur dynur er sem sagt hinum eða þeim að kenna, við komum hvergi nærri, nei við Vinstri græn erum ekki sek um að hafa dansað í kringum gullkálfinn. Þau eru á móti: ESB., evru, virkjunum, nema þær séu ekki komnar almennilega á dagskrá, álverum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv. Man einhver eftir einhverju sem þau eru ekki á móti?

  Ég man eftir einu: greiðslum úr ríkissjóði, já og öðru: hallareknu ríkisútvarpi, vafalaust mætti fleira finna en líklega er það flest þessu sama marki brennt.

  Fjölmiðlarnir dansa með og keppast um að flytja sem flestar neikvæðar fréttir, einkum þó Kastljós, Stöð 2 og að sjálfsögðu DV og kemur það svo sem ekki á óvart. Ríkisstjórnin sem reynir eins og hún getur að halda þjóðfélaginu gangandi er gerð tortryggileg á alla lund, Fjármálaeftirlitið líka, svo ekki sé minnst á Seðlabankann og einkum uppgjafa stjórnmálamann sem þar hangir á sínu eins og hundur á roði og á að bera alla ábyrgð á því hvernig komið er. Hver trúir því í alvöru og hvernig á það að leysa allan vanda að senda hann heim? Ekki að hann sé ómissandi, það er örugglega öðru nær, en að hann einn hafi valdið alþjóðlegri fjármálakreppu hlýtur að teljast nokkuð langsótt.

  Það er frekar auðvelt að vera stjórnmálamaður með völd á landstjórninni þegar allt leikur í lyndi, hægt er að selja öll blómlegustu fyrirtæki þjóðarinnar s.s. banka og síma og allt hvað heiti hefur og ekki spillir fyrir ef efnahagsumhverfið er almennt í heiminum gott. Svona eins og bóndi sem selur kýrnar sínar og hefur næg auraráð á meðan hann er að eyða því sem fyrir þær fæst, en verra er að taka við búinu þegar það sem þannig fékkst er allt búið og farið út í veður og vind. Því er heldur ekki að neita að æði mörg vorum við sem tókum þátt dansinum í kringum kálfinn gyllta og líkaði bara vel.

  Jafnmörg könnumst við ekkert við það í dag og nú er dæmt, hneykslast, rægt og mænt upp í Steingrím J. lemjandi ræðupúltið á Alþingi og allt að því froðufellandi af ofsa. Er ekki komið nóg af þessu og kominn tími til að gera eitthvað uppbyggilegra, snúa sér að því að leysa vandamálin í stað þess að ærast og ragna?

  Ekki er annað að sjá en að það séu margir í því að reyna að finna lausnir á málunum, vel menntað og gáfað fólk, við Íslendingar erum nefnilega svo heppin að eiga nóg af því. Það lætur kannski ekki eins hátt í því og hinum – en leggjum við hlustir.

Draumaland Steingríms

21. janúar 2009

Þeir voru í Kastljósi áðan hjá Sigmari þeir Geir H. og Steingrímur J., athyglisvert og um margt upplýsandi spjall hjá þeim félögum og óskandi að sem flestir hafi fylgst með. Geir kom fram af yfirvegun og reyndi að koma að útskíringum á því sem gert hefði verið að undanförnu og til stæði að gera til að gera fólkinu í landinu lífið sem bærilegast miðað við þær kringumstæður sem uppi eru. Steingrímur var hins vegar við sitt gamla heygarðshorn, hafði nánast allt á hornum sér og fannst ýmist að of lítið hefði verið gert, nú eða  að það sem gert hefði verið hefði ekki verið það rétta. Eftir að Geir og Sigmar höfðu gengið nokkuð hart að Vinstri græna formanninum kom fram að hann heldur sig við það að skila beri láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með öðrum þeim lánum sem því munu fylgja og gera bara eitthvað annað eða með öðrum orðum breyta Íslandi í einhverskonar Norður-Kóreu Atlantshafsins. Gott var að fá þetta fram og liggur nú ljóst fyrir að það myndi jaðra við sturlun ef Samfylkingin gengi til samstarfs um ríkisstjórn með VG með stuðningi Framsóknar. Vinstri grænir eru einfaldlega ekki stjórnmálaflokkur sem hægt er að byggja á í nútímaþjóðfélagi.

  Umræðan fór fram í skugga mótmælaaðgerðanna sem staðið hafa yfir að undanförnu og hafa náð hámarki síðustu tvo daga. Ekki er líklegt að fólkið sem ráfað hefur um miðbæ Reykjavíkur og ornað sé við varðelda að undanförnu hafi gefið sér tíma til að fylgjast með spjalli þeirra félaga, enda afar upptekið við að ögra lögreglumönnum á milli þess sem það hendir eggjum, skyri og málningu á ýmsar vel valdar byggingar í miðborginni. Svo er líka sá möguleiki fyrir hendi að stemmingin í hópnum sé þannig að hugurinn standi ekki til að hlusta. Enda er  svo komið fyrir æði mörgum  í samfélaginu í dag að örvæntingin ein ræður ríkjum; vinnan farin, íbúðin að fara á uppboð og bíllinn til fjármögnunarfélagsins sem lánaði fé til kaupanna.

  Ömurleg staða sem allt of margir standa í og er auðvitað afleiðing af óráðsíu okkar sem þjóðar á undanförnum árum að ógleymdu því umhverfi sem stjórnvöld sköpuðu fyrir óprúttna fjárglæframenn til að valsa með fjöregg þjóðarinnar og jafnvel sjálfstæði og þessi stjórnvöld voru vitaskuld þau hin sömu og  einkavæddu bankana og símann og sátu í 16 ár í skjóli þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Það hefðu þau vitalega ekki gert nema af því að þjóðin endurnýjaði umboð flokkanna á fjögurra ára fresti og lýsti þar með yfir velþóknun á þeim stjórnarháttum sem ríktu í tíð þessara flokka.

Flokkur án fortíðar?

17. janúar 2009

Í dag komu saman sér til skemmtunar félagar í gamla Framsóknarflokknum eða því sem eftir er af honum. Það átti óneytanlega vel við að það skyldi bera  uppá sama dag og Einar K. Guðfinnsson ákvað að úthluta 30000 tonna kvóta til nokkurra vel valinna kvótagreifa.

Þannig er að kvótakerfið er skilgetið afkvæmi Framsóknarflokksins, flokksins sem helst svo makalaust vel á formönnum, flokksins sem býr nú um stundir við allt að því óbærilegt offramboð á mönnum sem eiga sér þá ósk helsta að verða formenn yfir leifunum af því sem einu sinni var. Flokksins sem afrekaði það að flæma Guðna Ágústson úr formannsstóli líklega vegna þess eins að hann er ekki spilltur af því eiginhagsmunapoti sem einkennt hefur flokkinn um langa hríð. Flokksins sem átti sinn þátt í að skapa það ömurlega ástand sem  ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir.

Það er óneytanlega merkilegt að hægt skuli vera að kalla saman hóp manna til að halda þing í þvílíkum flokksrústum sem hér er um að ræða á tímum sem eru þannig að flestir sem tengst hafa flokknum að ógleymdum höfuðbólinu sem kennir sig við sjálfstæði (hvílíkt öfugmæli) vildu helst óska þess að upplifun dagsins í dag sé bara martröð sem þau vakni sem fyrst af. En það munu þau því miður ekki gera og mun skömm þeirra verða greipt í sögu þjóðarinnar um ókomna tíð og væntanlega verða notuð í sögukennslu framtíðarinnar sem dæmi um víti til að varast.

Þau samþykktu það í dag að ræða mætti við ESB, svona eins og að tekin væri ákvörðun um það á heimili að horfa mætti á sjónvarpið sem hvort sem er væri logandi á.

Ekki er annað að sjá en flokkurinn sé kominn í stríð við bændur landsins eða að minnsta kosti Bændasamtökin en sem kunnugt er þá eru þau eindregið á móti öllum hugmyndum um inngöngu í Evrópusambandið og eru það að öllum líkindum ein bestu meðmæli sem Evrópusambandssinnar hafa fengið fyrir sínum hugmyndum.

Þannig er nú komið eftir markvissa aðför Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að fjármálakerfi þjóðarinnar að það er ein rjúkandi rúst og ekki er séð fyrir endann á hvernig eða hvort muni takast að slökkva eldana sem þessir flokkar kveiktu.

Ekki virðist annað vera hægt en að leita á náðir ESB og hefði eflaust átt að gera það fyrir löngu en þannig var með þessa flokka báða að mikilmennskan var slík að það var af þeirra hálfu ekki talið koma til greina og draumurinn var sá að koma á fót íslenskri fjármálamiðstöð sem öllu slægi við og eins og dæmin sanna var byggð upp svipað og píramídi sem stendur á hvolfi og ekki nóg með það er hvorki stagaður né studdur á nokkurn hátt!

Óneytanlega hefði það verið skemmtilegra að leita til ESB á meðan ástandið var betra og menn gátu staðið uppréttir í þeim leiðangri en það töldu fjármálasnillingarnir í framsókn og sjálfstæðisflokknum ekki koma til greina og því verðum við að sæta því að fara í leiðangurinn allt að því á hnjánum.

Vonandi er að samningamönnum okkar verði vel tekið ef til kemur ekki mun af veita eftir það hörmulega hrun sem flokkarnir tveir hafa kallað yfir þjóðina.

Þeir voru í Kastljósi í kvöld, Gísli Marteinn og Guðmundur Steingrímsson. Gísli er að eigin sögn fluttur til Edinborgar, líklega til að hefna fyrir hryðjuverkalögin en það var nú reyndar hinn breski  G. Brúnn sem stóð fyrir því og einhversstaðar rakst ég á að Skotar væru ekki neitt sérstaklega kátir með þann gjörning. 

   Annars var dálítið gaman að fylgjast með þeim félögum, annar þ.e. Gísli virkar eins og einhverskonar talvél sem blaðrað getur út í eitt og helsta vandamálið er að finna út hvernig hægt sé að stoppa fyrirbrigðið. Guðmundur gerði sér hins vegar far um að vera virðulegur og penn í umræðunni enda er hann kominn í framboð til formanns í hinum samhenta Framsóknarflokki og má með sanni segja að hann sé þar með kominn heim í heiðardalinn. Vonandi verður hann, ef hann nær kosningu, til að hressa uppá og koma á eindrægni í þeim pólitíska ruslahaug sem flokkurinn er í dag en ekki er ástæða til að halda að það verði létt verk í flokki sem býr við eilífar afsagnir og bakstungur sinna eigin manna. Nú er hins vegar svo komið að helst allir vilja vera formenn og það segir sína sögu um mannfæðina í flokknum að a.m.k. tveir hafa orðið að  ganga í hann til að geta boðið sig fram!

Krossgöturugl

3. janúar 2009

Lenti í því mér alveg að óvörum að heyra glefsu af þættinum Krossgötum í Ruv. núna eftir hádegi.

Svo virtist sem safnað hefði verið í þáttinn viðmælendum sem allir ættu það sameyinlegt að eiga sér þá hugsjón helsta að valda sem mestum skandal í samfélaginu, með því sem blessað fólkið telur sér trú um að séu mótmælaaðgerðir. Til dæmis að taka þá var það ekki talið tiltökumál að valdið hefði verið tjóni á búnaði Stöðvar2 þar sem að eigendur stöðvarinnar væru ,,glæpamenn”. Ekki heyrði ég að þessum málflutningi væri mótmælt af stjórnanda þáttarins, en víst getur það hafa farið framhjá mér. Það er sem sagt dómstóll götunnar skipaður þessu sjálfumglaða og að eigin áliti hugsjónafólki sem á að ráða för.

Einhverju gáfnaljósinu dettur í hug að dæma einhvern og kalla hann glæpamann og þá er hann það bara. Er það þetta sem við viljum að taki við þegar þjóðin rís uppúr öskustónni. Eru þetta hinir nýju vormenn Íslands, vonandi ekki, en gott er að viðkomandi opinberi sig í tíma þannig að hægt sé að varast.