Björgunarkúturinn og fjölin

14. desember 2009

Upp er risin sérkennileg deila milli eiganda DV og formanns Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benidiktssonar. Blaðið hefur að undanförnu greint frá hvernig Bjarni tengist hinni margumræddu útrás og svo er að sjá að formaðurinn hafi ætlað sér stóra hluti í þeim efnum, ef fréttir blaðsins eru réttar.

 

Bjarni mun sem sé hafa verið einn af þeim sem ætluðu að leggja heiminn undir sig eða a.m.k. einhverja sneið af jarðarkúlunni og til þess eru vitanlega tekin kúlulán, eins og kunnugt er. Ekki nema von að Bjarna hafi langað til að taka þátt í geiminu, enda félagsskapurinn ekki af verri endanum og eflaust hafa þeir flokksbræðurnir Tryggvi Þór og Bjarni Ben. talið sig vera í góðum málum. Bjarni, þrátt fyrir ungan aldur, ekki með öllu ókunnur atvinnurekstri eftir íslenska módelinu (N1) og Tryggvi, fyrrverandi bankastjóri, hámenntaður í fræðunum og þar að auki bæði klókur og snjall.

 

Félagsskapurinn við þá Wernerssyni  hefur örugglega verið Bjarna fremur hugnanlegur enda þar á ferð menn sem, ef eitthvað er að marka fréttir, hafa afar gott lag á að gera mikið úr litlu ef ekki engu og það hefur nú ekki þótt slæmt fram að þessu. Annað er svo það að „mikið vill meira” og svo er að sjá að ekki hafi verið nóg fyrir Bjarna að vasast í viðskiptunum, heldur virðist hann hafa komist að því, eins og svo margir af forverum hans, að best af öllu væri að fara líka með stjórn Sjálfstæðisflokksins. Fyrrverandi formenn Flokksins höfðu, þrátt fyrir náin tengsl viðskiptalífið, áreiðanlega ekki látið sig dreyma um þau stórvirki sem hinir ungu útrásarnjólar komu í framkvæmd síðustu ár, eða síðan Davíð hinn snjalli og hundtryggir fylgisveinar hans tóku öll völd í Flokknum.

 

Ýmislegt í þessu ferli öllu er enn á huldu og svo mun verða lengi enn og ekki mun það spilla fyrir að hylja og leyna ef þeim tekst í félagi við hinn hagsmunagæsluflokkinn Framsókn, að viðbættum nokkrum villuráfandi VG- ingum, að hrekja ríkisstjórnina sem nú situr frá. Því um það snýst þetta allt saman, málþófið um icesave og allt það annað sem þau hafa gert til að spilla framgangi mála á þinginu. Koma stjórninni frá og sjálfum sér að og taka síðan til við að hylja, svo mikið sem unnt er, allt það sem vísar á gamla gjörninga. Margt er það sem alls ekki má koma fram í dagsljósið, ef að líkum lætur og listinn yfir hvernig helmingaskiptaflokkarnir hafa farið með fjöregg þjóðarinnar síðustu áratugi er æði langur.

 

Nú er þá komið að því að hinn nýi formaður Flokksins vill feta í fótspor meistara síns og ráða því hvað um er fjallað í fréttum, en hann er bara ekki í sömu aðstöðu og meistarinn var forðum og getur því ekki sett lög á fréttaflutninginn. Það gat nú reyndar ekki hinn stórkostlegi meistari heldur er til átti að taka, þrátt fyrir allar undirlægjurnar sem í kringum hann þrifust. Forseti lýðveldisins greip þar í taumana og stöðvaði svívirðuna og einræðistilburðina og það hefur síðan leitt til þess að hinn fyrrverandi forsætisráðherra er í dagvistun í Hádegismóum og Morgunblaðið, blaðið sem átti að vernda með hinum margfrægu fjölmiðlalögum, verslast upp.

 

Það getur sem sagt verið snúið að vera formaður Sjálfstæðisflokksins, enda um snúinn flokk að ræða eins og frægt er orðið. Ekki er heldur víst að formaður Framsóknarflokksins sé mesti og besti leiðbeinandi hins unga leiðtoga, en varla birtast myndir úr sölum alþingis svo þeir sjáist ekki krunka þar saman. Að fara í geitarhús til að leita að ull þótti einu sinni ekki gott. Að leita leiðsagnar hjá þeim sem enga leiðsögn getur gefið er ekki vænlegt til árangurs.

 

Fjöl Framsóknarflokksins skolaði nefnilega á haf út í síðustu vorleysingum og hefur ekkert til hennar spurst síðan.   

Áfram Framsókn!!

1. október 2009

Þeir fóru mikinn Höskuldur og Sigmundur þar sem þeir stormuðu upp stéttina fyrir framan Stjórnarráðið í gær, enda lá þeim mikið á hjarta. Fótaburðurinn var svo glæsilegur að lengi mun í minnum verða haft og víst er að í framtíðinni munu allir helstu og glæsilegustu stóðhestar þjóðarinnar verða eftir þeim skírðir og gætu kynningar þá hljóðað eitthvað á þessa leið: Hér kemur Höskuldur frá Bakka á glæsilegu tölti – takið eftir fótaburðinum, hann er óvenju glæsilegur… eða: Sigmundur frá Túni er óvenju fallegur þar sem hann geysist fram völlinn og er hreint ekkert út á túni núna og þrátt fyrir að hann hafi skorið sig niður um 20% er hann alveg hreint glæsilegur á að horfa!

 

Já, þeim lá mikið á hjarta, þurftu að flýta sér, höfðu boðskap að flytja og höfðu ekki haft tækifæri til að fara í sparibuxurnar. Gallabuxurnar urðu að duga í þetta sinn, því nú lá mikið við, sjálft hjálpræðið beið rétt handan við hornið og þeir fluttu boðskap: Ekkert 20 (%) núna og heldur ekki 200 nei, heldur 2000 milljarðar voru svona rétt við það að skoppa upp úr rassvösum þeirra félaga og eins og stundum áður þá kom hjálpræðið að utan og í þetta skiptið frá Noregi. Það er að segja Framsóknarflokki þeirra Norðmanna; þeim rennur sem sagt til rifja hvernig komið er fyrir gömlu nýlendunni þeirra, vilja koma til bjargar, ekki með skipum í þetta sinn, heldur peningum í slíku magni að í skipsförmum gæti talist.

 

Þessu hlýtur fjármálaráðherrann að fagna, svo Noregselskandi sem hann er, enda er hann framsóknarmennskan uppmáluð í öðru veldi og þannig séð langt ofan við og yfirhafinn þá ungu menn sem í gær töltu svo glæsilega um völlinn. Vonandi er að sýrubaðið hafi ekki verið kalt og ekki heldur of súrt í Stjórnarráðinu og þeir félagar geti því í framtíðinni komið þjóð sinni til bjargar sem hingað til. Hollt er hverri þjóð… o.s.frv. og sannaðist það í gær. Framsókn hefur ráð undir rifi hverju 20% og 2000 milljarða, ekki málið; hugmyndabankinn er stór og það sem best er, ótæmandi í fjósinu því.

 

Heppnin elti fréttamennina í gær, hver sýningin elti aðra: Ögmundur með boginn og brostinn niðurskurðarhnífinn og síðan rúsínan í pylsuendanum: Höskuldur og Davíð á þessu glæsilega yfirferðartölti. Getur tæpast betra orðið.

Mútur og virkjanir

8. september 2009

Telja verður líklegt að þeir verði ekki verkefnalausir fulltrúar umhverfisins á næstunni. Fréttirnar streyma og svo er að sjá sem mörg sé músarholan fyrir þá sem ala vilja á tortryggni.

 

Mörður Árnason var ekkert að skafa utan af því í pistli sínum Eyjunni og kallaði það mútur að Landsvirkjun skyldi hafa greitt Flóahreppi fyrir útlagðan kostnað vegna skipulagsvinnu sem af því hlaust að Urriðafossvirkjun yrði sett á aðalskipulag. Ástæða þess að Mörður kemst að þessu er að Samgönguráðuneytið komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að hreppnum hefði ekki verið heimilt að taka við slíkum greiðslum og samkvæmt því hefði hreppurinn átt að senda reikninginn til fyrirtækisins eftir að skipulaginu var lokið. Vaknar þá sú spurning, hvort sveitarfélög sem lítilla sem engra hagsmuna eiga að gæta, eigi að leggja í kostnað vegna skipulagsvinnu sem þau hafa nær enga hagsmuni af að fram fari.

 

Eins og kunnugt er þá er lagaumhverfi þannig háttað að virkjanir skila einungis tekjum til þess sveitarfélags sem stöðvarhús virkjunarinnar er og af því sést að það getur ekki verið hagsmunamál fyrir Flóahrepp að virkjunin sé byggð, því hreppurinn mun í framtíðinni hafa litlar sem engar tekjur af framkvæmdinni. Þetta er umhverfið sem búið er við, Mörður hefur setið á þingi og þar hefði honum verið í lófa lagið að berjast fyrir breytingum á þessu lagaumhverfi. Ekki er vitað til að þingið hafi sýnt mikinn áhuga á málinu, þar hefur fólk verið upptekið við annað og að Mörður hafi ekki gengið fram í málinu getur hugsanlega stafað af því að hann hafi ef til vill ekki áhuga á að virkjað sé, þó gera megi ráð fyrir að hann kunni vel að meta þau þægindi sem rafmagninu fylgja.

 

Árna þáttur Finnssonar er annars eðlis að ýmsu leiti. Hann hefur til langs tíma verið í krossferð gegn öllu sem hann telur verða til þess að laska umhverfið og náttúru landsins. Óþreytandi hafur hann staðið vaktina og barist gegn flestu því sem mönnum hefur dottið í hug að gera til að skapa sér lífsviðurværi af nýtingu hvers kyns auðlinda og víst er rétt að taka undir með honum, að brýnt er að ganga gætilega um gleðinnar dyr í þeim efnum. Hann hefur, a.m.k. í seinni tíð, gert sér far um að vera málefnalegur í málflutningi og það hefur örugglega orðið til þess að meira sé á hann hlustað. Hitt er, að ekki hefur verið bent á það velferðarsamfélag sem ekki lifir af landi sínu, en vitanlega er ekki sama hvernig það er gert, en í seinni tíð virðist sem menn séu almennt sammála um rétt sé að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum.

 

Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár hljóta í flestu tilliti að teljast einhverjar þær álitslegustu sem völ er á, sé á annað borð æskilegt að virkja vatnsföll. Umhverfisspjöll verða hverfandi, ekki síst vegna þess að ofar í ánni er þegar búið að byggja þau miðlunarmannvirki sem notast munu við fyrirhugaðar virkjanir, því liggur í augum uppi að hér er um vænlega virkjunarkosti að ræða og ekki síst með tilliti til umhverfisáhrifa, þar sem þau verða með minnsta móti.

 

Nú er sem sagt upplýst að það eru fleiri sveitarfélög en Flóahreppur sem fengið hafa greiðslur frá orkufyrirtækjum, því samkvæmt fréttinni um Orkuveitu Reykjavíkur, þá er svo að sjá að hinir ógurlegu glæpir, sem þeir félagar telja vera, séu nær þeim en margur hugði.

 

Eftir stendur hið augljósa, að bráðnauðsynlegt er að breyta lögum varðandi aðstöðugjöld af orkuverum, þannig að ekki skipti máli hvar stöðvarhúsið er, nema það sé vilji löggjafans að slíkum mannvirkjum verði framvegis fundinn staður á mörkum sveitarfélaga og þá væntanlega í árfarveginum miðjum!

Kviðristan

17. júlí 2009

Í gær fór fram atkvæðagreiðsla á þingi um hvort sækja ætti um inngöngu í Evrópusambandið. Kosningunni var sjónvarpað og átti undirritaður þess kost að fylgjast með útsendingunni. Hér á Suðurlandsundirlendinu, þar sem undirritaður býr, skein sól í heiði, varla bærðist hár á höfði og hitinn var rétt innan við 20 stigin. Við hér í Flóanum höfum stundum á orði þegar hitamælirinn er farinn að sýna stigin þetta mörg, að nú sé tæpast vinnuveður; enda er það svo að flestum verður erfitt að vinna líkamlega vinnu í miklum hita og sól.

 

En í sjónvarpi allra landsmanna var myndavélinni beint inn í þingsalinn við Austurvöll og hafi verið heitt í Flóanum, þá var það ekkert annað en hrímkuldi  miðað við það sem virtist vera í fundarsalnum. Þar var hiti í mönnum og það svo mikill að mér var hugsað til þess að vonandi færi nú ekki svo að einhver dytti niður úr hitaslagi, þarna í beinni útsendingu. Atkvæðagreiðslan fór þannig fram að haft var svokallað nafnakall, sem felst í því að nöfn manna eru kölluð upp og viðkomandi spurður hvort hann eða hún segi já eða nei og oftar en ekki kemur viðkomandi upp í púlt og gerir grein fyrir atkvæði sínu, svona eins og til afsökunar á því að hann greiði atkvæði á þennan eða hinn veginn.

 

Allt gekk þetta nokkuð vandræðalaust fyrir sig, utan hvað einstaka var svo heitt í hamsi að orðin þvældust fyrir þeim, komu ekki í þeirri röð sem viðkomandi hefði kosið og í einu tilfelli upplýsti þingmaður í algjöru hugsunarleysi hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á hans heimili, það er að segja flokknum og nefndi í því sambandi bæði svipuhögg og handjárn. Orð þessi hittu vitanlega hann sjálfan fyrir, ekki síst vegna þess að margir félagar hans höfðu algjörlega snúið við blaðinu í mörgum efnum. Í dag vildu þeir hafa þjóðaratkvæðagreiðslur, svo margar að varla varð tölu á komið um viðkomandi mál, en eins og flestir muna hafa þær verið mikið eitur í beinum Sjálfstæðisflokksins fram að þessu. Skemmst er að minnast er forseti lýðveldisins hafnaði því að staðfesta svokölluð fjölmiðlalög, að þá máttu þeir ekki til þess hugsa að þjóðin greiddi atkvæði um lögin. Þá verður því heldur ekki neitað að marga rámar í hve mótfallnir þeir voru öllum breytingum á stjórnarskránni sem til umræðu voru fyrir síðustu kosningar, en þær voru einmitt hugsaðar til að auðvelda slíkar atkvæðagreiðslur. Héldu þeir á þeim tíma margar ræður til að hindra slíka ósvinnu, einar 600 að sögn og drógu hvergi af sér. Nú eru þeir sem sagt annarrar skoðunar í þeim efnum sem öðrum og vilja hafa slíkar kosningar sem flestar og þeir í Flokknum sem áður vildu ólmir ganga inn í ESB- ið eru nú skyndilega búnir að missa allan áhuga á því.

 

Borgarar eru þeir kallaðir á þingi sem illu heilli komust fjögur á þing í síðustu kosningum. Þáttur þeirra í sýningunni var all sögulegur svo ekki sé meira sagt. Þau voru á sínum tíma kosin á þing m.a. vegna afstöðu sinnar til ESB; höfðu lýst sig fylgisfólk þess að Ísland gengi inn í samband Evrópuþjóðanna, en höfðu algjörlega óvart gleymt að gera kjósendum sínum grein fyrir því að þau meintu ekkert með því, né væntanlega neinu öðru sem þau höfðu boðað í kosningabaráttunni. Nú var atkvæði þeirra til sölu hæstbjóðanda á vettvangi stjórnmálanna, með þeirri undantekningu þó að Þráinn Bertelsson var trúr sinni sannfæringu og greiddi atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu eins og flestir höfðu líklega búist við af honum. Flokkssystir hans skaut sig hins vegar í fótinn er hún hafði á orði að þetta allt saman væri ógeðslegt; orð sem nær einmitt ágætlega yfir framkomu Borgaranna í þessu máli. Nú eru þau búin að fremja einhverja þá svakalegustu pólitíska kviðristu sem sést hefur á pólitískum vettvangi, rúin öllu trausti og orð þeirra að engu hafandi.     

Viljinn til að hylja

5. júlí 2009

Undanfarnar vikur hefur verið hægt að fylgjast með því hvernig þörfin til að komast hjá því að horfast í augu við afleiðingar stjórnartímabils Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur þjakað þá þingmenn sem sitja í nafni þessara flokka. Engu er líkara en þeir hafi ekki verið á nokkurn hátt meðvirkir í að búa til það umhverfi efnahagsmála sem svo illa hefur reynst og valdið að stórum hluta hruninu sem yfir hefur dunið. Afneitunin er slík að er foringinn, hinn eini og sanni, sá sem allt veit, allt getur og gerir betur en annað fólk, að eigin áliti, fer frammúr sér með yfirlýsingar og vaðal sem í raun gerir ekki annað en opinbera ábyrgð hans á hvernig komið er, þá dettur þeim ekki í hug að koma honum til hjálpar og segja sem svo: Við berum nú líka ábyrgð á hvernig komið er, þetta er ekki allt þér að kenna. Nei, hann er látinn sitja einn uppi með skömmina, sem hann finnur reyndar ekki á eigin skinni, þannig að líklega er ofætlan að gera því skóna að félagar hans finni til sinnar ábyrgðar.

 

Stjórnarandstaðan er ekki með í spilinu í dag og virðist ekki heldur hafa verið með áður en ósköpin dundu yfir. Vissulega er það hlutverk stjórnarandstöðu að veita aðhald, stíft, málefnalegt og helst af öllu uppbyggilegt. Á það hefur nær ætíð skort og er núverandi andstaða ekkert einsdæmi í því sambandi, en núna eru engir venjulegir tímar, því frá lýðveldisstofnun hefur annað eins eða sambærilegt ekki yfir dunið. Á slíkum tímum hefði verið hægt að búast við að stjórnmálamenn væru ekki í hinu gamla fari, að þeir kæmu fram af meiri yfirvegun og reyndu að láta gott af sér leiða. Því er ekki að heilsa, því miður og við getum ekki reiknað með að stjórnarandstaðan bæti það upp sem á vantar hjá stjórnarliðum. Að minnsta kosti er ekki hægt að sjá að þinglið andstöðunnar sé í nauðsynlegu jafnvægi til að geta starfað þannig; þar eru hróp, frammíköll og svívirðingar það sem þau helst hafa til málanna að leggja.

 

Hvers vegna? Hvað veldur þessari framgöngu? Hafa þau eitthvað að fela, er eitthvað sem þau vilja ekki að upplýsist og komi upp á yfirborðið? Óttast þau kannski að rannsókn mála leiði í ljós ábyrgð þeirra á því hvernig komið er, að víða leynist fiskur undir steini varðandi hvernig stjórnsýslunni var hagað í tíð þeirra. Það sem upplýst var fyrir kosningar um risaframlög til flokkanna var ef til vill aðeins toppurinn á ísjakanum.

 

Við erum mörg sem teljum að svo sé, en ekki er víst að núverandi stjórnarandstaða deili með okkur áhuganum á að allt komi upp á borðið sem miður hefur farið. Kannski það sé ástæðan fyrir framgöngu þeirra, að þau vilji allt til vinna að sundra núverandi ríkisstjórn og setjast sjálf við stjórnvölinn og geta þar með verið í betri aðstöðu til að hylja og sópa undir teppið. Það getur hins vegar reynst skammgóður vermir, því á endanum kemur sannleikurinn í ljós. Þau ættu að leiða hugann að því að oft er best að ljúka óþægilegum málum af og byrja að nýju með hreint borð.

Vikulokin

2. maí 2009

Þátturinn „Í vikulokin” var í útvarpinu áðan, gestir þáttarins voru þau Gylfi Arnbjörnsson, Gísli Tryggvason og Jórunn Frímannsdóttir, ýmislegt athyglisvert kom fram í umræðum þeirra og umfjöllun um málefni líðandi stundar.

 

Talsvert var fjallað um tillögu Gísla Tryggvasonar sem hann setti fram nýlega varðandi uppkaup húsnæðislána og kynnti í Sjónvarpi og víðar nýlega. Tillagan er talsvert keimlík tillögu Framsóknarflokksins sem sett var fram í aðdraganda kosninganna og gekk út á að fella niður fimmtung af skuldum jafnt yfir og þótti æði mörgum, sem vonlegt var, að bæri keim af ýmsum öðrum tillögum þeirra sem settar hafa verið fram í kosningabaráttu og ekki þótt standast vitræna skoðun. Ein þeirra hlaut meira að segja brautargengi með fulltingi Sjálfstæðisflokksins, þ.e. tillagan um 90% lán til húsnæðiskaupa. Aðrar hugmyndir framsóknarmanna hafa sem betur fer ekki fengið undirtektir að neinu marki og er full ástæða til að fagna því, nógu slæmar voru afleiðingarnar af 90% ruglinu.

 

Gylfi Arnbjörnsson benti á í umræðunni að húsnæðislánin væru fjármögnuð að langmestu leiti með fjármunum lífeyrissjóðanna og því yrði það sjóðunum dýrt ef hugmyndir Gísla næðu fram að ganga. Jafnframt virtist hann hafa eðlilegar efasemdir um að rétt væri að slá striki yfir skuldir þeirra sem hefðu til þeirra stofnað til kaupa á hjólhýsum og annarri fjárfestingu af því tagi. Sjónarmið sem flestir geta líklega tekið undir: Því, af hverju að skerða kjör lífeyrisþega til þess að þurrka út skuldir sem stofnað var til vegna slíkra fjárfestinga og síðan hafa verið færðar yfir á húseignir sem veð. Sighvatur Björgvinsson skrifaði grein í Fréttablaðið um tillögur Gísla og niðurstaða hans var að þær væru ekki mikils virði.

 

Í máli Jórunnar komu fram viðhorf sem vert er að benda á og var það fyrst og fremst tvennt sem ég hnaut um. Hin unga kona greindi frá því, að hún ætti nærri 12 ára dóttur og stúlkunni þætti ekki gott að þurfa að hlusta á fréttir af Ameríkuflensunni sem nú gengur yfir heiminn og var svo að skilja, að hún væri þeirrar skoðunar að börn hefðu ekki gott af að heyra allar þær neikvæðu fréttir sem nú berast inn á heimili landsmanna. Er víst að þetta sé rétt, að best sé að halda börnunum utan við það sem á gengur, vernda þau frá öllu því óþægilega sem á dynur? Ég er ekki viss um það, held að það geti verið gott fyrir börnin að fylgjast með, en vel að merkja, hinir fullorðnu verða vitanlega að vera til staðar til ábendingar og upplýsingar um fréttirnar, tilbúnir að leiðbeina og hjálpa börnunum til að skilja hvað er um að ræða. Fram kom í máli Jórunnar, að hún sér margt jákvætt í tilveru okkar íslendinga og lagði hún áherslu á að við gleymdum ekki því jákvæða og að teknu tilliti til þeirra orða, held ég að henni sé ekki neinn sérstakur vandi á höndum, hún er örugglega fullfær um að upplýsa dóttur sína og leiðbeina, er fréttir berast.

 

Annað það sem Jórunn vakti máls á var, að hún ætti erfitt að skilja hvers vegna stjórnarsáttmáli hefði ekki verið tilbúinn milli Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir kosningar og lýsir það afar litlum skilningi á málinu. Fyrirfram er ekki hægt að vita hvað kemur upp úr kjörkössum, könnunum er engan vegin að treysta og sannaðist það einmitt mjög vel í nýafstöðnum kosningum, þar sem að í stað þess að Sf. og VG. yrðu nánast jöfn, kom í ljós að mun fleiri treystu Samfylkingunni en einangrunarsinnunum í Vinstri grænum. Staða flokkanna eftir kosningar er allt önnur en skoðanakannanir höfðu bent til og hvernig í ósköpunum hefði átt að vera hægt að búa tilsáttmála sem gerði ráð fyrir öllum hugsanlegum niðurstöðum. Ljóst er að himin og haf skilur á milli flokkanna í ESB málum og reyndar fleiri, en vonandi ná menn niðurstöðu og hafa þroska til að taka rökum, þjóð sinni til hags.

N1(H5?)

30. apríl 2009

Af og til berast fréttir sem eru þess eðlis að þær lýsa upp tilveruna og í einstaka tilfelli vekja mann til umhugsunar um hve gott við íslendingar eigum.

 

Með vinnusemi og einstakri elju hefur helstu hetjum Flokksins tekist að sanna fyrir alþjóð hve snjallir og ómissandi þeir eru. Hæfni þeirra í fyrirtækjarekstri er slík, að sáralitlar líkur eru til að Agnes hin ógurlega fari að agnúast út í þá, enda blóð þeirra blátt og flest annað eins og það á að vera.

 

Einu sinni var til olíufélag, í daglegu tali kallað Esso, en hét raunverulega Olíufélagið hf. og var í eigu hermangsfyrirtækisins Reginn hf., allt loddi þetta við hinn fræga framsóknarsmokkfisk. Rekstur þessa fyrirtækis hafði til margra ára gengið ágætlega og vandamálið var helst það hvernig hagnaði af starfseminni yrði fyrir komið, svo breyttist þetta og upp spratt fyrirbrigðið N1.

 

BNT hf er núverandi eigandi félagsins og búið er að sameina það Bílanausti hf., þannig að hægt er að rekast á N1 vítt og breitt um landið öllum til ánægju og yndisauka. Þarna sameinast helmingaskiptaflokkarnir og hlýtur að vera kátt á hjalla hjá þeim Sigmundi Davíð og Bjarna Benidiktssyni, er þeir koma saman í grill og öl á góðri stundu til að gleðjast yfir góðum árangri í rekstri félagsins.

 

Félagið tapaði ellefu hundruð milljónum á síðasta ári og hlýtur það að teljast góður árangur í tapsamfélaginu, einkum ef haft er í huga hve erfitt hefur reynst að tapa á olíusölu. Þetta er vitanlega ekki eins góður árangur og hjá Árvakri, enda ekki saman að jafna, svo miklir reynsluboltar í rekstri sem þar eru annars vegar, bæði innmúraðir og innvígðir og ekki má gera lítið úr þeim Bjarna og félögum, þó þeir hafi ekki náð jafn langt og þar tókst, árangurinn er góður miðað við reynslu og fyrri störf.

 

Það þótti líka ástæða til að verðlauna þá félaga og fékk Bjarni tæpar 5 milljónir og aðrir ýmist meira eða minna. Af tillitssemi við kjósendur var uppgjörinu haldið leyndu fram yfir kosningar, enda alveg ástæðulaust að gera nokkuð til að trufla þær!!

 

Nú er sem sagt búið að birta allt, allt komið upp á yfirborðið, eins og Bjarni hefur svo oft áður tjáð sig um að nauðsynlegt og sjálfsagt sé að gera.

 

Tapið gott og árangursríkt og allir geta unað glaðir við sitt!!

Draugur í flagi?

10. apríl 2009

  Í Bændablaðinu, sem kom út miðvikudaginn 8. apríl á blaðsíðu 8, er umræðuvettvangur sem í fljótu bragði virðist vera fyrir aðsendar greinar. Tvær þeirra eru merktar „Evrópumál” og eru allrar athygli verðar, en eins og mörgum er kunnugt hefur allnokkur umræða farið fram á vettvangi blaðsins um það málefni að undanförnu. Bændasamtökin hafa tekið þá afstöðu til ESB að vera alfarið á móti því að sótt sé um inngöngu, þar sem þau telja að hag bænda sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Um þetta má að sjálfsögðu deila, en niðurstaða samtakanna er þessi, Bændablaðið er gefið út af þeim og er í eigu Bændasamtaka Íslands.

  Önnur greinin sem ber yfirskriftina „Vill ESB landbúnaðinn burt?” er rituð af Önnu Margréti Guðjónsdóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og eins og yfirskriftin ber með sér, veltir hún spurningunni sem í henni felst fyrir sér og eftir að hafa farið yfir málið leggur hún áherslu á að Bændasamtökin komi að því að undirbúa samningsmarkmið Íslands, er þar að kemur.

  Fyrir einskæra tilviljun ber svo við að í sama blaði og á sömu blaðsíðu er grein eftir starfsmann Bændasamtakanna, Jón Viðar Jónmundsson, þar sem hann fer mikinn og leynir sér ekki að afstaða hans til málsins er sú sama og samtakanna.

  Jón dregur hvergi af sér og ræðir um „Drauga[r] um hábjartan dag”, en það munu vera að hans sögn, þeir sem vilja sækja um inngöngu í ESB. Þetta er fyrirsögn greinarinnar og gefur vísbendingu um hvað muni á eftir fylgja og ef hún er lesin rekst lesandinn á, svo dæmi séu tekin, fullyrðingar eins og að fylgjendur ESB aðildar telji að „þjóðarinnar bíði nánast tortíming” ef ekki verði gengið í Evrópusambandið. Skömmu síðar hnykkir Jón á því að Bændasamtökin telji íslenskan landbúnað hafa fátt þangað að sækja. Þá hefur hann áhyggjur af að „mikið skorti á lýðræðislega ákvarðanatöku” hjá sambandinu, sem hann telur einkennast af skrifræði og gríðarlegri miðstýringu og er ekki annað en gott eitt um það að segja að starfsmaður Bændasamtakanna hafi áhyggjur af því atriði.

  Í framhaldinu dregur Jón síðan þá ályktun, að ef Ísland gerðist aðili að sambandinu, þá yrði það „arðrændur og vanþróaður útkjálki”, sem hann greinilega telur að ekki sé í dag. Vitanlega má starfsfólk Bændasamtakanna hafa hverja þá skoðun á stöðu þjóðarinnar sem því sýnist, en draga má í efa að þeir séu margir sem taki undir með Jóni hvað þetta varðar. Að minnsta kosti er líklegt að þeir séu til sem telji að þjóðin hafi verið arðrænd og að það arðrán hafi gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að hún sé ekki inna Evrópusambandsins.

  Jón Viðar notar síðan tækifærið til að koma á framfæri aðdáun sinni á Einari Má Guðmundssyni, sem hann telur vera mikinn viskubrunn varðandi uppruna og tilveru sambandsins og upplýsir að þeir félagar telji það ekki vera „Lionsklúbb” og væri fróðlegt að fá að vita hvernig Lionshreyfingin  tengist þessu umræðuefni.

  Í niðurlagi greinarinnar kemst hann svo að þeirri niðurstöðu, að gamlir draugar þjóðarinnar, þau Þorgeirsboli, Skotta og Móri, séu horfin af sviðinu og að í stað þeirra séu komnir aðrir sem heiti Björgvin, Ólína og Árni Páll og verður ekki annað ráðið af textanum en að Jón sakni þeirra eldri og lítist ekki á þá nýju. Hann nefnir Bjarna Harðarson í þessu sambandi, en eins og mörgum er kunnugt er hann mikill fróðleiksbrunnur um verur af öðrum heimi. Ef það er tilfellið að Bjarni hafi komist að því að hinir fornu draugar séu horfnir, þá er ekki gott um það að deila, en víst er að margir landsmenn munu sakna þessara gömlu kunningja og ekki er öruggt að allir sætti sig við hvarf þeirra og er óskandi að Bændasamtökin eigi þar ekki hlut að máli.

  Að starfsmaður samtakanna noti aðstöðu sína til að líkja þjóðþekktum einstaklingum við drauga í blaði þeirra verður að teljast fremur smekklaust. Slíkur málflutningur getur varla talist samtökunum til sóma og er ekki víst að allir bændur kæri sig um að umræðuvettvangur þeirra sé misnotaður á þennan hátt.

Á haugnum

2. apríl 2009

  Á Íslandi er ár hanans. Ár hins hrokafulla monthana, hanans sem hreykir sér efst á haugnum og lætur mikið fyrir sér fara. Hanans sem galar yfir hirð sinni og ætlast til að eftir sér sé tekið, að hópurinn líti upp til hans og lúti honum af lotningu.

  Hann stendur á haugnum, rótar í honum og sletturnar ganga í allar áttir, jafnt á gamla fylgispaka og innvígða, sem hina sem hópnum þykir og hefur alltaf þótt sjálfsagt að ata auri. Það kemur þeim því mjög á óvart þegar slettunum er beinlínis beint að þeim, því hinum hrokafulla monthana sést ekki yfir hið augljósa: að þeir höfðu ekki gert neitt af viti. Líklega er ekkert gert af viti í því haughúsi sem þeir eru staddir í og því er það að gamli yfirhaninn hefur rétt fyrir sér: að það sé með öllu ástæðulaust að höggva skóg í pappír, til að skrifa hugrenningar þeirra á.

  Alveg jafnt og það sem gamli foringjahaninn hefur fram að færa, þá er það allt einskis virði, þau eru aðeins komin þarna saman til að gala, baða út vængjunum og róta þegar til þess er ætlast. Allt er þetta eitt sjónarspil, ekki er gert ráð fyrir að neitt komi út úr samkundunni annað en það sem áður hefur verið ákveðið við sömu kringumstæður. Allt skal vera óbreitt, það hefur gefist svo vel, þeirra heimur er besti heimur allra heima og því er alls ekki ástæða til að hrófla við neinu. Því að vera að því þegar allt er svona gott, eða hefur einhver yfir einhverju að kvarta?

  Nei, svo er ekki og þó, það var nefnilega ekki hlustað á hinn virðulega aurslettuhana, að hans áliti og því er hann óvenju fúll og sletturnar fara vaxandi. Reyndar aukast þær svo mjög að það er farið að vera óþægilegt að vera of nálægt, hrokahaninn er orðinn úfinn og sletturnar berast víða og margar fara þær út úr haughúsinu og hitta fyrir þá sem síst skildi, því nú er hann allt í einu orðinn sá sem varaði við, sá sem enginn hlustaði á, haninn sem vildi þjóð sinni vel og át bara vínber, er önnur og ómerkari hænsn keyptu sér Audi.

  Já, hvað sagði hann ekki.

  Hm, það er nú málið: sagði hann eða sagði hann ekki, það er spurningin í dag en ekki sú sem svo mörg þeirra sem stödd eru í haughúsinu spyrja sig:

  Elskar hann mig eða elskar hann mig ekki?

  Aðalatriðið er samt það sama og alltaf hefur verið, að ata sem mestum auri, um það eru þau þó alveg viss um.

  Því, það sem hefur verið, verður áfram, ekki breyta, ekki breyta, ekki, ekki, ekki…….  

Að bogna en ekki brotna

26. mars 2009

Sjálfstæðismenn eru komnir saman á landsfund og er það vonum seinna. Fróðlegt verður að sjá hvort þeir hafa í sér rænu til að taka afstöðu til framtíðarinnar, það er nokkuð sem hefur vafist fyrir þeim fram að þessu.

Þrjóska þeirra er búin að koma þjóðinni í vandræði sem eru af áður ókunnri stærðargráðu, þjóðin horfir nú framan í hroðalegar afleiðingar þess að hafa treyst þeim fyrir landsmálunum undanfarna áratugi. Óskandi væri að hinn 2000 manna kór já bræðra og systra sem samankominn er á landsfundinum hafi nú í sér þá einurð að hrista af sér heimóttarskapinn og þvergirðingsháttinn, horfi til framtíðar og átti sig á að hinir íhaldssömu heimastjórnartilburðir eru runnir sitt skeið á enda.

Ungt fólk í landinu okkar góða þarf að eiga sér einhverja framtíð, framtíð sem er af öðru tagi en hundasúru- og ullarlagðapólitík VG og Sjálfstæðisflokksins. Stefna þessara flokka hefur leitt til glötunar, en rétt er hjá Geir að það voru afar stór mistök að flaðra upp um Framsóknarugluliðið.

Auðvitað er til hæfileikafólk í Sjálfstæðisflokknum og nú verður flokkurinn að virkja það til starfa og gömlu brýnin að fara eftir eðlisávísuninni og draga sig í hlé. Íslenska þjóðin þarf á því að halda, að nýtt og hæfileikaríkt fólk komi fram á völlinn, VG hefur tekið þá ákvörðun að halda sig áfram við súruna, Samfylkingin er klár, Sjálfstæðisflokkurinn er undir feldi og Framsókn er að gufa upp og má það ekki seinna vera.

Afstaða Bjarts á ekki við í nútímanum, er afstaða til lífsins sem hver einstaklingur getur tekið fyrir sig sjálfan, en ekki stjórnmálaflokkur fyrir þjóð sína.