Ekki fram heldur afturábak

3. febrúar 2010

Aðalskipulag Flóahrepps hefur legið á borði umhverfisráðherra og beðið úrskurðar í fleiri mánuði en nokkur sem áhuga hefur á skilvirkri stjórnsýslu hefur áhuga á að muna. Nú er úrskurðurinn kominn og vitanlega varð hann nákvæmlega eins og búist hefði verið við af hinum vinstri-græna ráðherra, því vitanlega hafði enginn í raun búist við öðru en hann yrði nei. Spurningin var bara hver fyrirslátturinn yrði, hvað yrði hægt að grafa upp til að skýla sér á bakvið, því ekkert er hinum veruleikafirrtu VG- ingtum ver við en hugsanlega uppbyggingu og viðreisn atvinnulífsins. Þar á bæ er gert ráð fyrir að allir geti lifað á því að spá hver í annan á kostnað ríkissjóðs. Þau trúa því nefnilega enn að sjóðurinn sá sé ótæmandi. Uppsprettuna sem hann nærist á, og er viðhaldið af, muni aldrei þrjóta og að alltaf og ævinlega verði hægt að mjólka hið frjálsa atvinnulíf um nægt fé til að halda henni við.

 

Hvernig á því stendur að fólkið hugsar svona er ekki gott að segja. Ekki er menntunarskorti um að kenna, miklu frekar að hugsunin sé í blindgötu og þá vaknar hin áleitna spurning: Hvernig má það vera að flokkur af þessu tagi er í ríkisstjórn og fer með fjölda ráðuneyta? Hið skelfilega svar liggur í augum uppi: Þjóðin kaus þetta yfir sig. Ringluð og ráðvillt gerði hún það í síðustu kosningum. Gat ekki kosið hrun-,  helminga- og hermangsflokkana einu sinni enn. Lét ekki blekkjast af fagurgala þeirra sem leitt höfðu hana fram af brúnni, en í staðinn var atkvæðunum ráðstafað til þeirra sem ekki geta leitt hana eitt eða neitt. Ekki fram, ekki upp og ekki niður einu sinni, heldur afturábak, eins og komið hefur í ljós og hinn stjórnarflokkurinn er í klemmu, því enginn annar stjórnarkostur er í myndinni. Því miður.

 

Stjórnarseta Vinstri- grænna hefur sýnt sig að vera eitt allsherjar stórslys eins og margir höfðu svo sem búist við. Vegna ofstækiskenndar ESB andúðar, sem byggir á ómengaðri þjóðrembu í bland við minni-máttar-kenndan heimóttarskap, var brugðið á það ráð að slá á útrétta hönd Evrópusambandsins varðandi Icesave samningana, vegna þess eins að VG- ingar máttu ekki til þess hugsa að ESB ætti hlut að því að liðka fyrir réttlátri lausn, enda telja þeir allt af hinu illa sem þaðan kemur og það jafnvel þó það sé gott. Framgöngu umhverfisráðherrans þekkja allir orðið, þaðan kemur ekkert nýtt og ekkert á óvart: Allt er gert sem hægt er til að hindra svo sem verða má uppbyggingu atvinnulífsins. Njóli, hundasúrur og fjallagrös eru það sem þau trúa á fyrir utan það sem áður var á minnst: hinn ótæmandi Ríkissjóð.

 

Ekki er annað að sjá en að framtíð íslenskra stjórnmála sé fremur dökk. Framsóknarflokkurinn er nánast horfinn og það litla sem eftir er birtist sem frammíkallandi angurgapar, Sjálfstæðisflokkurinn sömuleiðis og Samfylkingin er sem þurfandi heimasæta sem engan finnur biðilinn sem mannsbragur er að. Forsetinn leikur sóló, rennir sér á skíðum og spjallar við fína fólkið eins og hann er vanur og ekkert nýtt í því, enda leikurinn vafalaust fyrst og fremst hugsaður til að fiska til baka vinsældir sem farnar voru að dvína.  

bolli-og-bjork-1998.jpg

 Bolli og Björk ásamt vinafólki á Kili sumarið 1998. 

Tímann hafa sumir hugsað sér sem línu sem ætti sér upphaf í óendanlegri fortíð og stefndi til óendanlegrar framtíðar. Steinn Steinarr orti um tímann:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

  Þau Bolli og Björk voru ekki bundin við tímann á þann hátt sem flestir eru. Hjá þeim var hann ekki hin knappa mælieining sem hrjáir svo marga í samfélagi nútímans. Þau áttu ævinlega nægan tíma, að minnsta kosti fyrir aðra, en hvernig fólk voru þau?

  Því er ekki hægt að svara í einni stuttri setningu og víst er að sitt sýnist hverjum þar um eins og gengur, en fyrir um það bil 20 árum var ég kynntur fyrir þeim. Bolli var þá eins og svo oft að skipuleggja, og í þetta sinn var hann að vinna að hestaferð norður um Kjöl á fyrirhugað Landsmót hestamanna. Ferð sem varð undanfari að stofnun Hestaferðafélagsins sem Bolli varð síðar heiðursfélagi í.

  Þegar ég kom sem gestur á heimili þeirra hjóna kynntist ég einstakri gestrisni eins og svo margir höfðu áður gert. Það var ekki eins og ókunnur maður væri kominn í heimsókn heldur einhver sem margoft hefði til þeirra komið.

  Þannig voru þau. Heimili þeirra var opið og þeir sem þar komu voru boðnir velkomnir frá fyrstu stundu. Eðlileg, notaleg og frjáls og ekki var spurt um stétt eða stöðu. Allir voru jafnir í þeirra augum. Enda var lífsskoðunin sú að enginn væri öðrum æðri.

  Bolli var maður sem ekkert aumt mátti sjá og það átti einnig við um Björk. Þau stóðu saman í því sem öðru, þó verkaskiptingin á heimilinu væri skýr.

  Bolli var maðurinn sem taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að liðka fyrir því að undirritaður kæmist í fyrirhugaða hestaferð ásamt dóttur, þó seint væru kynnt til sögunnar. Hann var maðurinn sem skipulagði ferðina í þaula, skipti henni upp í áfanga, pantaði gististaði og sá til þess að allur nauðsynlegur búnaður yrði til staðar.

  Hann taldi ekki eftir sér þegar hann vaknaði upp um miðja nótt í öðrum áfanga umræddrar ferðar, að læðast út þegar aðrir sváfu og aka 70 kílómetra til að sækja hlut sem hann mundi eftir að gleymst hafði daginn áður og var síðan mættur manna fyrstur í morgunkaffið.

  Hann var maðurinn sem fann upp á því að senda hesta sína í aðra ferð átta árum seinna og fela þá í umsjá ungrar konu sem hann vissi að langaði til að fara, en hafði ekki hesta né fé til að geta farið. Það var nefnilega svo nauðsynlegt að hreifa hestana, að það var sjálfsagt að hann greiddi kostnað hennar af ferðinni ef hún vildi vera svo góð að liðka fyrir hann hrossin og nota þau til ferðarinnar.

  Seinna þegar bróðir fyrrnefndrar konu tók upp á því að brasa við að koma sér upp smiðju, þá linnti Bolli ekki látum  fyrr en hann var búinn að finna í fórum sínum loftljós til að lýsa upp fyrirhugað smiðjuhús. Ljósin voru náttúrulega eitthvað sem Bolli þurfti alveg nauðsynlega að losna við og það væri bara greiði við hann, ef hinn ungi maður vildi vera svo góður að nýta sér þau!

 Hér eru aðeins nefnd  örfá dæmi um hvernig Bolli Sigurhansson brást við ef hann sá einhverja leið til að gera öðrum gott og hjálpa. Hann var einnig margfróður, vel lesinn og upplýstur maður sem gaman og fróðlegt var að ræða við. Þau Björk höfðu ferðast mikið um landið sitt og einnig þau höfðu farið til fjarlægra landa svo sem Japan og Indlands og margra fleiri.

  „Hún Björk mín grét nú dálítið í Delhi”, sagði Bolli við mig þegar ég sagði honum að við hjónin værum á leið þangað og ástæðan fyrir þeim tárum var vitanlega eymd hinna snauðu sem Björk fann svo mikið til með.

  Þannig voru þau, manneskjur sem fundu til með öðrum og vildu láta gott af sér leiða. Manneskjur sem gott var að þekkja og gott að eiga að.

  Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þeim, það var bæði gott og ekki síður skemmtilegt. Með þeim eru horfnir af sviðinu fulltrúar kynslóðar sem óðum er að hverfa. Kynslóðar sem mörgu kom til leiðar og lagði mikið af mörkum til að gera íslenskt samfélag að því sem það er í dag, en vel að merkja, átti engan þátt í að koma því í þau vandræði sem það er í núna.

Bolli Sigurhansson var fæddur 21. desember 1928 og lést 3. janúar 2010.Björk Dagnýsdóttir var fædd 8. júlí 1930 og  lést 5. maí 2008.

  Ég votta aðstandendum og vinum alla mína samúð, en eftir lifir minningin um gott fólk.

Grín, grátur og alsæla

28. janúar 2010

Sumir virðast hafa haldið að ég væri að grínast þegar ég setti pistilinn „Tillaga að lausn” inn á bloggið mitt þann 11. janúar. Einkum var það tillagan um að senda Bjarna Benidiktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr landi sem mun hafa vakið furðu. Reyndar var það nú ekki þannig að ég ætlaði þeim að vera verklausum í útlöndum, hreint ekki, því ég ætlaði þeim ekki minna hlutverk en það að bjarga icesave málinu í eitt skipti fyrir öll. Taldi mig hafa nokkra ástæðu til að ætla að þeim kumpánum yrði ekki skotaskuld úr því að koma málinu í trausta höfn eftir öll stóryrðin sem þeir hafa látið frá sér fara um það. Þetta er alveg greinilega misskilningur allt saman hjá mér miðað við undirtektirnar sem hugmyndin hefur fengið og ekki síst ef horft er til þess hve lítið þeim gengur að koma fram með raunhæfar lausnir á málinu. Sem sagt misheppnuð tillaga sem sýnt hefur sig að gengur ekki upp og þá er bara að taka því.

Á dögunum var haldinn fundur á vegum rannsóknarnefndar alþingis fyrir blaðamenn og er því ekki að neita að þar kom ýmislegt fram. Greint var frá því að skýrsla nefndarinnar yrði ekki minni en um 2000 síður og efnið svo krassandi að réttast væri að þjóðinni yrði gefið frí svo hún gæti öll á einu bretti lagst í lestur. Minna mátti það nú ekki vera. Reyfarinn „Karlmenn sem hata konur” er svo dæmi sé tekið um 600 blaðsíður ef rétt er munað og er þá ljóst að hér er um þrisvar sinnum meira rit að ræða. Hafi það farið fram hjá einhverjum þá er þetta að minnsta kosti í annað skiptið sem útgáfu skýrslunnar er frestað og er það vel. Best væri nefnilega að fresta útgáfunni fram undir næstu jól og gefa hana út þá á sem flestum tungumálum og náttúrulega ekki gleyma Zimbabisku; endilega láta hana fylgja með, því þangað virðast útrásar- og frjálshyggjusnillingarnir með hinn dagvistaða foringja sinn hafa sótt sér umtalsverðan efnivið í hrunsmíðina. Fram kom hjá höfundum skýrslunnar að efnið væri bæði dramatískt og ógnvekjandi svo hér er um að ræða reyfara sem örugglega slær í gegn. Nær öruggt er að hann mun seljast í miklu upplagi og skila góðum tekjum inn í íslenskt þjóðarbú. Tvö þúsund síðna reyfari sem bæði vekur hroll og getur fengið stútungskarla til að gráta getur ekki annað en slegið í gegn!

Forseti vor er á skíðum, ef það skildi hafa farið framhjá einhverjum, í smábæ með stóru torgi og á því torgi gerir hann alveg eins ráð fyrir að rekast á málsmetandi Breta og gott ef ekki Hollendinga líka. Eftir því sem lesa má á visir.is, þá hefur Ólafur rætt við blaðamenn af þessu tilefni og leitt þá í allan sannleika um hvernig málin standa á eyjunni með hinar óforsetavænu skíðabrekkur. Samkvæmt því sem lesa má, þá er allt á réttri leið hjá Mörlöndum og m.a. gengið komið svo langt niður að það er farið að verða þjóðinni til góðs og ef þetta er rétt þá er hér um einhverskonar hringferli að ræða, svona eins og þegar hundur bítur í rófuna á sér. Ólafur hlýtur að hafa rétt fyrir sér í þessu sem öðru, þ.e. þegar allt er orðið afspyrnu vont, þá er það fyrst orðið gott. Þeir sem ekki skilja þessa hagfræði verða bara að koma sér á námskeið í faginu sem örugglega verður haldið að Bessastöðum, þ.e. þegar Ólafur má vera að því að bregða sér af skíðunum. Þeir munu örugglega ekki telja það eftir sér að taka þátt í kennslunni þeir Styrmir, Davíð, Ragnar, Ásmundur, Sigmundur og Bjarni, þannig að allir sem vettlingi geta valdið ættu að drífa sig í Bessastaðaspekina.

Tillaga að lausn

11. janúar 2010

Alþingi íslendinga kom saman einn dag í síðustu viku og óhætt er að segja að landsmenn hafi fengið að finna af því smjörþefinn að þar hefur enginn neitt lært né neinu gleymt. Málflutningur þeirra Sigmundar og Davíðs, nei Bjarna vildi ég skrifað hafa, var á sömu nótum og fyrir áramót og alls ekki hægt að greina að þeir félagar fagni nýju ári með nýjum tækifærum. Öðru nær, í þeirra huga er allt svart og fremur einkennilega hljómaði það er Bjarni á samkuntu sjálfstæðismanna gerði að sínum hin fleygu orð Jóns Sigurðssonar og félaga: „Vér mótmælum allir”. Mörgum hefði eflaust fundist að betur hefði farið á því hjá Bjarna að hann hefði bara einfaldlega sagt: Ég mótmæli allur!

 

Staðan er sem sagt sú að enn er verið að tala um að ekki megi setja lögin um ríkisábyrgðina á icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu og ástæðurnar sem eru tilgreindar eru tvær.  Ef samningurinn verði samþykktur þá sé það alveg voðalegt vegna þess hve hann sé slæmur. Hin ástæðan á að vera að ef hann verði felldur þá sé allt í voða varðandi þjóðarhag, lánshæfi o.s.frv.. Á þessu hamra stjórnarandstæðingar og stjórnarsinnar ásamt ýmsum hagfræðingum og lögfræðingum innlendum sem erlendum á meðan aðrir með sömu menntun halda því fram að samningarnir séu eins góðir og hægt sé að búast við og að ólíklegt sé að lengra verði komist með hina hollensku og bresku „vini” okkar.  Venjulegt fólk, sem ekki getur stært sig af fyrrnefndum titlum, veit síðan ekki sitt rjúkandi ráð en stendur frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til málsins hafandi í huga, að niðurstaða þess getur skipt nær öllu fyrir þjóðina til framtíðar litið.

 

Bjarni, Sigmundur og fleiri halda því stöðugt fram að lausn sé til á málinu og hún sé ekki önnur en sú að semja upp á nýtt. Fara þurfi með nýja samninganefnd til Hollands og Bretlands, banka uppá hjá viðkomandi yfirvöldum og fá þau til að samþykkja þeirra hugmyndir að nýrri lausn. Ekki er gott að segja hver lausnin er því þeir hafa stungið upp á mörgu, eða allt frá því að íslendingar borgi ekkert til þess að þeir borgi eitthvað. Hugmyndir þeirra að nýjum samningi eru greinilega óljósar en ekki er hægt að halda því fram að þær séu engar. Þeir og fólkið sem með þeim dansar telur sig hafa lausnina í handraðanum og hún muni ná fram að ganga bara ef talað sé nógu hátt og greinilega, þannig að ekki fari framhjá Gordon og co. að svona skuli þetta nú vera og engan vegin öðru vísi. Með hæfilegri blöndu af stóryrðum og formælingum þá muni þetta allt ganga og viðskiptaveldin tvö lyppast niður og sjá sitt óvænna.

 

Vegna þessa er rétt að leggja til að ríkisstjórn Íslands gangi nú til verka og skipi höfðingjana tvo sem nýja formenn nýrrar samninganefndar, sem þar með yrði tvíhöfða, sem ekki mun af veita. Þeim verði einfaldlega falið að ganga á fund viðkomandi stjórnvalda og víst er að þeim verður ekki skotaskuld úr því. Hve oft hefur það ekki gerst að ólíklegustu menn hafi birst við rúmstokk Bretadrottningar svo dæmi sé tekið og því skyldi ekki verða upp lokið fyrir þeim í númer 10, fyrst hægt er að drekka morgunkaffi með Betu alls óboðinn og óforvarandis?

 

Komi nú þeir félagar og þeirra fólk með nýjan og huggulegan samning sem nánast öruggt er að þeir gera, þá er það auðvitað bara hið besta mál. Þjóðin losnar af klafanum, ekki er þörf á atkvæðagreiðslu um hinn vonda samning og þar myndu sparast um 200 milljónir, sem ættu að duga langt til að borga farareyrir nýju samninganefndarinnar. Framtíð hinnar íslensku þjóðar yrði bæði björt og glæsileg og það sem ekki er minnst um vert: Nokkrar vonir gætu staðið til að formennirnir tveir tækju gleði sína og yrðu ekki eins þjakaðir af svartsýni til framtíðar og þeir eru í dag. Ekki svo lítið atriði það.  

Skrattinn á veggnum

9. janúar 2010

Forseti lýðveldisins kvað upp þann úrskurð á dögunum að lög frá alþingi varðandi icesave skuldbindingarnar skyldu fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sannaðist þar hið fornkveðna að „lítil eru geð guma“, að lýðskrumið er númer eitt en þjóðarhagur einhverstaðar þar langt fyrir neðan í huga Bessastaðabónda. Stjórnarandstæðingar höfðu óskað eftir þessum úrskurði, en svo kynlega brá við að þegar þeim er orðið að ósk sinni þá leita þeir allra leiða til að hindra að hún verði að veruleika. Það er sem sagt talað tungum tveim og sitt með hverri og væri kannski nær að segja að þeir tali mörgum tungum og sitt með hverri þeirra og ekki nóg með það, hver tunga skiptir um málflutning með óreglulegu millibili sem enginn getur spáð fyrir um hvenær muni gerast.

 

Birgitta grét af gleði er synjun forsetans lá fyrir, tvær grímur runnu á Bjarna Benidiktsson og félaga og Sigmundur Davíð gladdist. Það kom ekki á óvart að Framsóknarforinginn gerði það, honum virðist líða best ef allt er á leiðinni norður og niður og helst lengra en það. Bjarni reynir nú í ofboði að koma því inn hjá fólki að mynda þurfi þverpólitíska samstöðu (svo!) um að leysa málið og lætur að því liggja að ekki þurfi annað til en að íslenskir pólitíkusar fallist í faðma, að þá muni icesave vandræðin nánast hverfa eins og dögg fyrir sólu. Virðist hann telja að er Bretar og Holllendingar verði vitni að þeim vinahótum muni þeir komast við og falla frá kröfum sínum í einskærri hrifningu yfir hve þroskaðir og ástríkir hinir íslensku stjórnmálamenn séu orðnir. Á eftir Bjarna trítla nú hinir minni spámenn, bæði hin grátbólgna Birgitta og Sigmundur bölsýni, því hvorugt má til þess hugsa að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslan sem þau svo heitt og innilega áður þráðu.

 

Það er nefnilega runnið upp fyrir þeim að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer, að frá þeirra sjónarhóli mun hún fara illa. Verði lögin samþykkt mun með tímanum sannast að hrakspár þeirra eiga ekki við rök að styðjast en verði þau felld, þá er allt í uppnámi varðandi icesave hörmungina og Ísland einangrað út í kuldanum í samfélagi þjóðanna og engan vegin séð hvernig úr þeirri flækju verður greitt.

 

Þeir sem málað hafa skrattann á vegginn eru að miklum hluta þeir sem áttu stærstan þátt í að skapa vandann og fóru mest í góðærinu. Nú þykjast þeir vilja glíma við vin sinn úr neðra, en þegar á herðir þá kemur í ljós að þau meina ekkert með því og geta í raun ekkert annað en talað. Þau sitja á koppnum en geta ekki gert það sem til er af þeim ætlast og hvað gera þau þá? Þau orga, það er það eina sem þau geta og það munu þau gera um ókomna tíð en eitt er víst, að hvernig sem þau láta þá geta þau ekki fengið heiminn til að lúta að sinni stjórn. Áður en þau verða fær um það þurfa þau að hafa getu til að stjórna sér sjálfum.

 

Að halda því fram að samstaða íslenskra stjórnmálamanna geti úr því sem komið er breitt einhverju er fals eitt því boltinn er ekki hjá þeim, boltinn er hjá íslensku þjóðinni og síðan má ekki gleyma því að samningurinn gengur ekki út á það að íslenskir stjórnmálamenn komi sér saman heldur að þjóðirnar þrjár Íslendingar, Holllendingar og Bretar geti komið sér saman og samningur milli þeirra liggur fyrir. Sá samningur verður ekki tekin upp bara af því stjórnarandstaðan á Íslandi hafi skipt um skoðun. Engu skiptir hvernig íslenskum stjórnarandstæðingum líður því er enginn að velta fyrir sér í Bretlandi né Holllandi. 

Það er hin ískalda staðreynd sem staðið er frammi fyrir. Það er skiljanlegt, að fyrrverandi sveitarstjórnarmaðurinn Kristján Júlíusson horfi með hrolli fram á að lögin verði felld með þeim afleiðingum að m.a. fjármögnum sveitarfélaganna sé í uppnámi.

 

„Í upphafi skyldi endirinn skoða“ var einu sinni sagt. Gott hefði verið ef Kristján, Bjarni og félagar hefðu haft það í huga er þeir lögðu upp í þann leiðangur sem svo ömurlegan endi hlaut, hefðu verið gagnrýnni, sjálfstæðari og ekki eins illa haldnir af blindri foringjadýrkun. Víst er þeim vorkunn að standa frammi fyrir þjóðfélagi í ómældum hremmingum og að hið fallna átrúnaðargoð sé vistað á daginn í Hádegismóum. Ef þeim er vorkunn, þá er hinum ekki síður vorkunn sem sitja uppi með afleiðingar 20 ára stjórnar flokks þeirra á efnahagsmálum þjóðarinnar án þess að hafa átt hinn minnsta þátt í að honum var falið að fara með þau mál.

Lýðskrum

5. janúar 2010

Hann reið með björgum fram hann Ólafur í sumar sem frægt er orðið. Reiðskjótinn ku hafa stigið fæti í holu með þeim afleiðingum að hann hnaut og Ólafur féll.

 

Það hefur margan hent að falla af baki og er svo sem ekki í frásögur færandi, en fall Ólafs í dag er sínu alvarlegra, afdrifaríkara og verra. Satt að segja væri betra að hann héldi sig við hinn fyrri sið, þ.e. þann að falla af baki hesta er honum sýnist svo, en láta ógert að falla sjálfur á prófinu og fella þjóð sína. Betra væri að hann leiddi hana götuna fram á veg, miðlaði henni af þekkingu sinni á alþjóðamálum og kunnáttu í hvernig samskiptum þjóða í millum sé háttað og best fyrir komið.

 

Líkast til er til of mikils ætlast að gera ráð fyrir að hann geri það, hann hefur líklega of lengi verið á turninum, fyrir ofan og utan alla venjulega baráttu fyrir lífinu. Glysið hefur líkast til verið full mikið og fjarlægðin frá hinum venjulega alþýðumanni mörg síðustu árin algjör, utan hvað hann hefur komið í glæsiheimsóknir og klappað börnum á kollinn og veifað almenningi með staðlað bros á andlitinu.

 

Hann hefur ekki þurft að berjast í því að skrapa saman til að eiga fyrir útborgun launa og væntanlega ekki þurft að standa frammi fyrir því að sannfæra bankastjórann um að bráðum muni koma betri tíð. Ekki þurft að endurtaka það aftur á næsta greiðsludegi, haldandi því fram að stjórnvöld séu nú að vinna í því að laga ástandið og þetta sé alveg að koma.

 

Nei, það er ekki veruleiki Ólafs. Veruleiki hans er allt annar s.s. einkaþotur, fimm stjörnu hótel og boðsferðir á kostnað íslenskrar alþýðu eða annarrar alþýðu að ógleymdu uppihaldi auðjöfra við hin ýmsu tækifæri. Hann þekkir nánast ekki annað en það sem fylgir hinni þægilegu áskrift að launum frá hinu opinbera. Þannig hefur það æxlast fyrir honum og því er ekki við því að búast að hann hafi mikla tilfinningu fyrir lífsbaráttu þeirra sem ekki eru í sömu stöðu og hann.

 

Það er gjá milli þings og þjóðar, en ekki bara þar, það er nefnilega að myndast gjá milli þeirra sem hafa allt sitt á þurru og hinna sem hafa það ekki. Þeirra sem ekki fá launin sín í áskrift og þurfa að hafa fyrir því að hafa eitthvað að gera og einnig hinna sem berjast við að halda fyrirtækjum sínum gangandi frá degi til dags.

 

Frést hefur að Ólafur sé á leið til Indlands. Þar í landi er boðið upp á útreiðar af ýmsu tagi og er t.d. fílareið afar vinsæl á þeim slóðum. Vonandi verður ferð Ólafs ánægjuleg í alla staði, glæsimenn og konur sem hann mun hitta á þeim slóðum hin bestu og óskandi að fátæk og betlandi alþýða þvælist ekki fyrir fyrirfólkinu.

 

Og ef Ólafur skyldi nú bregða sér í útreiðatúr á fíl í Indlandsferðinni þá er vonandi að skepnan verði vel valin og traust, að hann komi heill heim og geti horfst í augu við þjóðina norrænu sem hann skildi eftir í vanda eftir að hann féll fyrir lýðskruminu.

Tré sem fóru í súginn

27. desember 2009

 

Hinum nýja formanni Sjálfstæðisflokksins gengur illa að fóta sig á svelli stjórnmálanna og ekki er svo að sjá að reynsla hans af ýmis konar fimleikum á sviði viðskiptalífsins komi honum til góða í formannshlutverkinu. Bjarni hefur tekið þann kúrsinn að neita alfarið að horfast í augu við fortíðina og viðurkenna einfaldlega að foringjastjórnartaktar heyri fortíðinni til, hafi reynst illa og leitt þjóðina út í ófæru sem ekki sé útséð um hvernig ganga muni að komast uppúr.

 

Foringinn mikli, sá sem nýlega var rekinn frá Seðlabanka Íslands eftir að hafa ásamt félögum sínum með eftirminnilegum hætti komið þeirri stofnun á höfuðið, hafði orð á því í ræðu á landsfundi Flokksins að eftirsjá væri í þeim trjágróðri sem farið hefði í skýrslu nefndarinnar sem sjálfstæðismenn komu á laggirnar til að fara yfir afglöp Flokksins undanfarin ár. Upplýstist þar hve umhugað hinum mikla foringja er um náttúruna og hve hann metur hana meira en flokk þann sem hann hafði stjórnað með röggsemi í mörg ár.

 

Ekki verður því samt neitað að mörgum kom umhyggja Davíðs fyrir trjágróðrinum á óvart, margir höfðu nefnilega í einfeldni sinni reiknað með að maðurinn sæi kannski eftir ýmsu öðru og að það væri það sem á honum hvíldi. Á fundinum sannaðist hins vegar að aldrei skal ganga að neinu sem gefnu í lífinu og alls ekki þegar reynslurík mikilmenni eru annars vegar, enda stóðu fundarmenn upp sem einn maður og klöppuðu stórmenninu lof í lófa. Var það að vonum og löngu tímabært að sjálfstæðismenn opinberuðu hollustu sína svo eftir væri tekið. Hafði hann ekki bara staðið sig vel og var ekki allt eins og það átti að vera?

Slíkum spurningum var ekki varpað fram á fundinum. Það er nefnilega þannig, að á þeim bæ er ekki spurt spurninga, þar eru bara gefin svör, svör við óspurðum spurningum. Enginn fundarmanna hafði t.d. leitt hugann að þessu með trén og vafalaust nagaði nú margur skýrsluhöfunda sig í handarbökin fyrir að hafa ekki hugsað út í það (smjörklípu)atriði, en svona er nú lífið og til hvers eru miklir foringjar ef þeir veita mönnum ekki leiðsögn á viðkvæmum stundum?

 

Hafði Hann svo sem ekki alltaf haft svörin á reiðum höndum og leitt hjörðina þangað sem Hann vildi fara? Hvað vorum þau svo sem að vilja upp á dekk og hvers vegna hafði þeim ekki dottið í hug að spyrja hinn mikla leiðtoga áður en trén voru höggvin? Sjálfstæð hugsun þrífst ekki í Sjálfstæðisflokknum, það vissu þau alltaf, en í augnabliks gleymsku höfðu þau látið sér sjást yfir þá staðreynd og nú var bara eftir að sjá hvort það yrði fyrirgefið.

 

Leiðin til þess var valin og hana höfum við horft á hinn nýja formann feta með hjörðina í lest á eftir sér. Ákveðið var að feta sig eftir leið þröngsýni og hagsmunagæslu, nokkuð sem Flokkurinn kann og hefur svo lengi gert. Þjóðin skiptir ekki máli þegar hagsmunir Flokksins eru annars vegar, heldur hagsmunirnir og völdin. Þannig er það og hefur alltaf verið og hin margnefnda þjóð hefur fengið að fylgjast með hvernig Flokkurinn fer að í þeirri stöðu sem hann er búinn að koma henni í. Sýningin fer fram á alþingi og er í boði þjóðarinnar sem kostar líka leikendurna.    

 

Eftir glannalega og fyrirhyggjulausa siglingu sigldi skútan upp í fjöru og ekkert var fyrir stafni annað en brimsorfnir klettar. Skipstjórinn heldur því fram að hann hafi á síðustu stundu hrópað „hart í bak”, en áhöld eru um hvort það sé rétt, því líklegast er að hann hafi í einfeldni sinni trúað því að skútan færi jafnt yfir láð sem lög. Hann var orðinn því vanastur að honum væri hlítt möglunarlaust í blindni rétttrúnaðarins, því var það að er skipið stöðvaðist með brauki og bramli, þá neitaði hann að trúa að tími væri kominn til að fela öðrum að bjarga því sem bjargað yrði.

 

Það fór nú samt svo að aðrir tóku við og róa nú lífróður til að bjargar, en á móti situr nýr formaður Flokksins með sínu liði og gerir sem hann getur til að trufla áratakið í stað þess að stinga á. Minni spámenn annarra flokka, æða hins vegar um ráðvilltir og skelfingu lostnir, vitandi uppá sig skömmina vegna fylgispektar við strandkapteininn.  

Björgunarkúturinn og fjölin

14. desember 2009

Upp er risin sérkennileg deila milli eiganda DV og formanns Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benidiktssonar. Blaðið hefur að undanförnu greint frá hvernig Bjarni tengist hinni margumræddu útrás og svo er að sjá að formaðurinn hafi ætlað sér stóra hluti í þeim efnum, ef fréttir blaðsins eru réttar.

 

Bjarni mun sem sé hafa verið einn af þeim sem ætluðu að leggja heiminn undir sig eða a.m.k. einhverja sneið af jarðarkúlunni og til þess eru vitanlega tekin kúlulán, eins og kunnugt er. Ekki nema von að Bjarna hafi langað til að taka þátt í geiminu, enda félagsskapurinn ekki af verri endanum og eflaust hafa þeir flokksbræðurnir Tryggvi Þór og Bjarni Ben. talið sig vera í góðum málum. Bjarni, þrátt fyrir ungan aldur, ekki með öllu ókunnur atvinnurekstri eftir íslenska módelinu (N1) og Tryggvi, fyrrverandi bankastjóri, hámenntaður í fræðunum og þar að auki bæði klókur og snjall.

 

Félagsskapurinn við þá Wernerssyni  hefur örugglega verið Bjarna fremur hugnanlegur enda þar á ferð menn sem, ef eitthvað er að marka fréttir, hafa afar gott lag á að gera mikið úr litlu ef ekki engu og það hefur nú ekki þótt slæmt fram að þessu. Annað er svo það að „mikið vill meira” og svo er að sjá að ekki hafi verið nóg fyrir Bjarna að vasast í viðskiptunum, heldur virðist hann hafa komist að því, eins og svo margir af forverum hans, að best af öllu væri að fara líka með stjórn Sjálfstæðisflokksins. Fyrrverandi formenn Flokksins höfðu, þrátt fyrir náin tengsl viðskiptalífið, áreiðanlega ekki látið sig dreyma um þau stórvirki sem hinir ungu útrásarnjólar komu í framkvæmd síðustu ár, eða síðan Davíð hinn snjalli og hundtryggir fylgisveinar hans tóku öll völd í Flokknum.

 

Ýmislegt í þessu ferli öllu er enn á huldu og svo mun verða lengi enn og ekki mun það spilla fyrir að hylja og leyna ef þeim tekst í félagi við hinn hagsmunagæsluflokkinn Framsókn, að viðbættum nokkrum villuráfandi VG- ingum, að hrekja ríkisstjórnina sem nú situr frá. Því um það snýst þetta allt saman, málþófið um icesave og allt það annað sem þau hafa gert til að spilla framgangi mála á þinginu. Koma stjórninni frá og sjálfum sér að og taka síðan til við að hylja, svo mikið sem unnt er, allt það sem vísar á gamla gjörninga. Margt er það sem alls ekki má koma fram í dagsljósið, ef að líkum lætur og listinn yfir hvernig helmingaskiptaflokkarnir hafa farið með fjöregg þjóðarinnar síðustu áratugi er æði langur.

 

Nú er þá komið að því að hinn nýi formaður Flokksins vill feta í fótspor meistara síns og ráða því hvað um er fjallað í fréttum, en hann er bara ekki í sömu aðstöðu og meistarinn var forðum og getur því ekki sett lög á fréttaflutninginn. Það gat nú reyndar ekki hinn stórkostlegi meistari heldur er til átti að taka, þrátt fyrir allar undirlægjurnar sem í kringum hann þrifust. Forseti lýðveldisins greip þar í taumana og stöðvaði svívirðuna og einræðistilburðina og það hefur síðan leitt til þess að hinn fyrrverandi forsætisráðherra er í dagvistun í Hádegismóum og Morgunblaðið, blaðið sem átti að vernda með hinum margfrægu fjölmiðlalögum, verslast upp.

 

Það getur sem sagt verið snúið að vera formaður Sjálfstæðisflokksins, enda um snúinn flokk að ræða eins og frægt er orðið. Ekki er heldur víst að formaður Framsóknarflokksins sé mesti og besti leiðbeinandi hins unga leiðtoga, en varla birtast myndir úr sölum alþingis svo þeir sjáist ekki krunka þar saman. Að fara í geitarhús til að leita að ull þótti einu sinni ekki gott. Að leita leiðsagnar hjá þeim sem enga leiðsögn getur gefið er ekki vænlegt til árangurs.

 

Fjöl Framsóknarflokksins skolaði nefnilega á haf út í síðustu vorleysingum og hefur ekkert til hennar spurst síðan.   

Áfram Framsókn!!

1. október 2009

Þeir fóru mikinn Höskuldur og Sigmundur þar sem þeir stormuðu upp stéttina fyrir framan Stjórnarráðið í gær, enda lá þeim mikið á hjarta. Fótaburðurinn var svo glæsilegur að lengi mun í minnum verða haft og víst er að í framtíðinni munu allir helstu og glæsilegustu stóðhestar þjóðarinnar verða eftir þeim skírðir og gætu kynningar þá hljóðað eitthvað á þessa leið: Hér kemur Höskuldur frá Bakka á glæsilegu tölti – takið eftir fótaburðinum, hann er óvenju glæsilegur… eða: Sigmundur frá Túni er óvenju fallegur þar sem hann geysist fram völlinn og er hreint ekkert út á túni núna og þrátt fyrir að hann hafi skorið sig niður um 20% er hann alveg hreint glæsilegur á að horfa!

 

Já, þeim lá mikið á hjarta, þurftu að flýta sér, höfðu boðskap að flytja og höfðu ekki haft tækifæri til að fara í sparibuxurnar. Gallabuxurnar urðu að duga í þetta sinn, því nú lá mikið við, sjálft hjálpræðið beið rétt handan við hornið og þeir fluttu boðskap: Ekkert 20 (%) núna og heldur ekki 200 nei, heldur 2000 milljarðar voru svona rétt við það að skoppa upp úr rassvösum þeirra félaga og eins og stundum áður þá kom hjálpræðið að utan og í þetta skiptið frá Noregi. Það er að segja Framsóknarflokki þeirra Norðmanna; þeim rennur sem sagt til rifja hvernig komið er fyrir gömlu nýlendunni þeirra, vilja koma til bjargar, ekki með skipum í þetta sinn, heldur peningum í slíku magni að í skipsförmum gæti talist.

 

Þessu hlýtur fjármálaráðherrann að fagna, svo Noregselskandi sem hann er, enda er hann framsóknarmennskan uppmáluð í öðru veldi og þannig séð langt ofan við og yfirhafinn þá ungu menn sem í gær töltu svo glæsilega um völlinn. Vonandi er að sýrubaðið hafi ekki verið kalt og ekki heldur of súrt í Stjórnarráðinu og þeir félagar geti því í framtíðinni komið þjóð sinni til bjargar sem hingað til. Hollt er hverri þjóð… o.s.frv. og sannaðist það í gær. Framsókn hefur ráð undir rifi hverju 20% og 2000 milljarða, ekki málið; hugmyndabankinn er stór og það sem best er, ótæmandi í fjósinu því.

 

Heppnin elti fréttamennina í gær, hver sýningin elti aðra: Ögmundur með boginn og brostinn niðurskurðarhnífinn og síðan rúsínan í pylsuendanum: Höskuldur og Davíð á þessu glæsilega yfirferðartölti. Getur tæpast betra orðið.

Mútur og virkjanir

8. september 2009

Telja verður líklegt að þeir verði ekki verkefnalausir fulltrúar umhverfisins á næstunni. Fréttirnar streyma og svo er að sjá sem mörg sé músarholan fyrir þá sem ala vilja á tortryggni.

 

Mörður Árnason var ekkert að skafa utan af því í pistli sínum Eyjunni og kallaði það mútur að Landsvirkjun skyldi hafa greitt Flóahreppi fyrir útlagðan kostnað vegna skipulagsvinnu sem af því hlaust að Urriðafossvirkjun yrði sett á aðalskipulag. Ástæða þess að Mörður kemst að þessu er að Samgönguráðuneytið komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að hreppnum hefði ekki verið heimilt að taka við slíkum greiðslum og samkvæmt því hefði hreppurinn átt að senda reikninginn til fyrirtækisins eftir að skipulaginu var lokið. Vaknar þá sú spurning, hvort sveitarfélög sem lítilla sem engra hagsmuna eiga að gæta, eigi að leggja í kostnað vegna skipulagsvinnu sem þau hafa nær enga hagsmuni af að fram fari.

 

Eins og kunnugt er þá er lagaumhverfi þannig háttað að virkjanir skila einungis tekjum til þess sveitarfélags sem stöðvarhús virkjunarinnar er og af því sést að það getur ekki verið hagsmunamál fyrir Flóahrepp að virkjunin sé byggð, því hreppurinn mun í framtíðinni hafa litlar sem engar tekjur af framkvæmdinni. Þetta er umhverfið sem búið er við, Mörður hefur setið á þingi og þar hefði honum verið í lófa lagið að berjast fyrir breytingum á þessu lagaumhverfi. Ekki er vitað til að þingið hafi sýnt mikinn áhuga á málinu, þar hefur fólk verið upptekið við annað og að Mörður hafi ekki gengið fram í málinu getur hugsanlega stafað af því að hann hafi ef til vill ekki áhuga á að virkjað sé, þó gera megi ráð fyrir að hann kunni vel að meta þau þægindi sem rafmagninu fylgja.

 

Árna þáttur Finnssonar er annars eðlis að ýmsu leiti. Hann hefur til langs tíma verið í krossferð gegn öllu sem hann telur verða til þess að laska umhverfið og náttúru landsins. Óþreytandi hafur hann staðið vaktina og barist gegn flestu því sem mönnum hefur dottið í hug að gera til að skapa sér lífsviðurværi af nýtingu hvers kyns auðlinda og víst er rétt að taka undir með honum, að brýnt er að ganga gætilega um gleðinnar dyr í þeim efnum. Hann hefur, a.m.k. í seinni tíð, gert sér far um að vera málefnalegur í málflutningi og það hefur örugglega orðið til þess að meira sé á hann hlustað. Hitt er, að ekki hefur verið bent á það velferðarsamfélag sem ekki lifir af landi sínu, en vitanlega er ekki sama hvernig það er gert, en í seinni tíð virðist sem menn séu almennt sammála um rétt sé að ganga hægt um gleðinnar dyr í þeim efnum.

 

Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár hljóta í flestu tilliti að teljast einhverjar þær álitslegustu sem völ er á, sé á annað borð æskilegt að virkja vatnsföll. Umhverfisspjöll verða hverfandi, ekki síst vegna þess að ofar í ánni er þegar búið að byggja þau miðlunarmannvirki sem notast munu við fyrirhugaðar virkjanir, því liggur í augum uppi að hér er um vænlega virkjunarkosti að ræða og ekki síst með tilliti til umhverfisáhrifa, þar sem þau verða með minnsta móti.

 

Nú er sem sagt upplýst að það eru fleiri sveitarfélög en Flóahreppur sem fengið hafa greiðslur frá orkufyrirtækjum, því samkvæmt fréttinni um Orkuveitu Reykjavíkur, þá er svo að sjá að hinir ógurlegu glæpir, sem þeir félagar telja vera, séu nær þeim en margur hugði.

 

Eftir stendur hið augljósa, að bráðnauðsynlegt er að breyta lögum varðandi aðstöðugjöld af orkuverum, þannig að ekki skipti máli hvar stöðvarhúsið er, nema það sé vilji löggjafans að slíkum mannvirkjum verði framvegis fundinn staður á mörkum sveitarfélaga og þá væntanlega í árfarveginum miðjum!