Einn helsti fréttaskýringaþátturinn í fjölmiðlaflórunni mun teljast ,,Silfur Egils” og þar er iðulega tekið tali fólk  sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu. Ýmist er um það að ræða að fólk skiptist á skoðunum, á því sem Egill kallar ,,vettvang dagsins” , eða fólk er tekið tali og fjallað um sérstök mál sem það hefur sérþekkingu á. Oftar en ekki tekst Agli að velja saman til skoðanaskipta hópa sem túlkað geta ýmis sjónarhorn á því sem um er rætt og verður þá stundum snörp orðræða sem út úr því kemur.

 

Að undanförnu hefur Egill lagt sig fram um að fá til viðtals ýmsa spekinga utan úr heimi og er svo að sjá sem hann telji þá því betri, því minna sem þeir kunna í Íslensku. Nú er það auðvitað þannig að gott getur verið að leita út fyrir landsteinana – glöggt er gests augað – og allt það, en óneitanlega er stundum dálítið pínlegt að horfa uppá Egil er hann ræðir við þetta fólk, þegar það bunar út úr sér almæltum sannindum sem engum ættu að koma á óvart og ekki síður þegar bunan stendur útúr viðkomandi og augljóst virðist að um algjöra firru er að ræða. Hér verða einungis tekin til tvö dæmi, annað þegar stillt var upp við hlið Evu Joly náunga sem taldi sig hafa samið lög sem samþykkt voru sex árum áður en að hann kom til sögunnar. Hitt tilfellið sem ég tiltek er þegar Egill fékk ,,sérfræðing”, - því allt eiga þetta að vera miklir sérfræðingar - til að upplýsa það að ekki væri gott að taka meiri lán en menn þyrftu á að halda, né gætu staðið í skilum með. Óhætt mun að álykta sem svo að íslenska þjóðin viti fátt betur eftir þær hremmingar sem gengið hafa yfir undanfarna mánuði, en að ekki er gott að taka of mikil lán. Engin þörf er á að flytja inn ,,sérfræðinga” til að upplýsa það. Það hlýtur að vera jafn vitlaust að telja allt vit koma að utan eins og að líta svo á að ekkert vit sé að hafa nema innanlands, Meðalhófið hlýtur að vera best í þessu efni sem öðru og engin þörf er að flytja inn útlendinga til að segja okkur almælt sannindi, en hins vegar full þörf á að leita þekkingar. Vandinn er að velja og hafna.

 

Annað tilfelli af furðulegum fréttaflutningi (eða átti það að vera tilraun til fréttaskýringar), var þegar Sigmar tók Árna Pál félagsmálaráðherra, í viðtal í Kastljósi Sjónvarpsins. Viðtalið átti samkvæmt kynningu að fjalla um fyrirhuguð áform um að koma skikk á innheimtuaðferðir fjármögnunarfyrirtækja vegna bílakaupa landsmanna. Svo sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum hafa þau, mörg hver, gengið afar hart fram í innheimtunni og það svo, ef fréttir eru sannar, að dæmi munu vera um að fólk sé krafið um margfalt andvirði bílanna þegar svo er komið að þeir eru teknir af skuldurunum. Ekki var annað að heyra á Sigmari en að helsta áhyggjuefnið væri að, ef farið væri í aðgerðir til að taka á þessum málum, þá væri hætta á að þeir sem hann kallaði ,,auðmenn” gætu hagnast á gjörningnum. Það mætti sem sagt ekki gera neitt í málinu af ótta við að einhverjir óskilgreindir auðmenn gætu hugsanlega grætt á öllu saman og þá var svo að skilja, að engu skipti þótt hinir væru margfalt fleiri sem ekki teldust til auðmanna sem hefðu hag af að umræddum reglum væri breitt.

 

Stundum er það svo að ,,maður sér ekki skóginn fyrir trjám” og hér er þörf að staldra við. Hvað hefur Sigmar fyrir sér í því að umræddur hópur muni hagnast svo  á gerðinni að ástæða sé til að hafa slíkar áhyggjur? Getur ekki alveg eins verið að þeir, sem hann nefnir ,,auðmenn”, hafi í mörgum tilfellum einfaldlega snarað út fyrir kaupverði lúxusbílanna? Er ekki komið í ljós að þeir höfðu að því eð virðist ótakmarkaðan aðgang að lánsfé hjá bönkunum sem þeir þóttust eiga? Að lokum hverju skiptir það fyrir heildardæmið þótt einhverjir ,,auðmenn” kunni að hagnast? Er ekki aðalatriðið að koma þeim til hjálpar sem hjálpar eru þurfi og er það eitthvað nýtt að með í slíkum aðgerðum fljóti þeir með sem ekki þurfa. Undirritaður hefur til dæmis horft uppá það alla tíð að tryggingakerfið hefur verið misnotað af óvönduðum. Engum hefur samt dottið í hug í nokkurri alvöru að leggja það niður. Þannig er það og hefur alltaf verið, að þegar komið hefur verið upp kerfi/kerfum til aðstoðar þeim sem hjálpar eru þurfi, þá koma ýmsir á eftir og finna sér leið til að misnota aðstöðuna sér til hagsbóta. Það hins vegar réttlætir ekki að gefist sé upp og látið skeika að sköpuðu, verkefnin eru endalaus og mannskepnan breysk. Þannig er það og hefur alltaf verið og mun vafalaust alltaf verða.     

Og fúleggin springa..

10. mars 2010

Rétt um þrjár vikur eru til páska og því ekki seinna vænna að fúleggin springi framan í þjóðina. Það er þá meiri von til, að á hátíðinni sjálfri verði friður fyrir slíkum uppákomum. Það var látið heita svo að kosið væri um Icesave málið í kosningunum sem fram fóru um síðustu helgi. Hið rétta í því máli mun vera að kosningin hafi verið sjónarspil til þess eins að Bessastaðabóndinn gæti náð vopnum sínum gagnvart þjóð sinni, enda kom ekki annað út úr atburðinum en það, að Icesave-ið er áfram í sínu gamalkunna frosti sem aðferðafræði VG- foringjans kom málinu í. Þangað fór það og ekkert útlit er fyrir að þaðan muni það fara eitt eða neitt á næstunni. Fyrir því eru ýmsar ástæður og sú helsta: að nú liggur viðsemjendum Íslendinga ekkert á lengur, önnur er að Vinstri grænir geta ekki gert upp við sig hvaða skoðun þeir vilji hafa á málinu og sú þriðja er að stjórnarandstaðan spilar á þá líkt og púkinn á fjósbitanum í fullkomnu ábyrgðarleysi þeirra sem enga ábyrgð bera, né vilja bera.

 

Og nú berast þær fréttir, að til að koma á friði innan VG, standi til að taka Ögmund Jónasson inn í ráðherralið stjórnarinnar og sýnir það hve illa málum er komið. Össur svaraði því til í viðtali á dögunum að hann væri nú bara ráðherra á plani. Skondið svar, sem vísar í þekkta þáttaseríu er gengið hefur í sjónvarpi, en ekki átti undirritaður von á að svona stutt væri í að Bjarnfreðarson gengi inn á sviðið. Því ef Össur er starfsmaðurinn á plani, þá er Ögmundur augljóslega hin fræga aðalpersóna þáttanna, það er hinn títtnefndi Bjarnfreðarson. Samlíkingin er, ef að er gáð, ekki svo fráleit þar sem persóna þessi lítur á sig sem hreinræktaðan komma af gamla skólanum, er fastur fyrir og stendur á sínu. Þá er hann með þrætubókina á hreinu og algjör snillingur í því að firra sig ábyrgð.

 

Þannig eru málin þá að þróast. Þegar flestum finnst sem kominn sé tími á að endurnýja og fríska upp á ríkisstjórnina, hressa hana upp og gefa ferskari blæ, þá er það gert með því að víkja til hliðar einni forneskjunni fyrir aðra, þ.e. Jóni fyrir Ögmund. Nokkuð sem mun hressa bæta og kæta þá sem barist hafa í því að styðja stjórnina til góðra og nauðsynlegra verka, eða hvað? Halda menn ekki að það sé gaman að geta bent á það sem dæmi um hve bjart sé yfir ráðherraliðinu að Ögmundur Jónasson sé aftur orðinn ráðherra. Hvort menn hefi ekki tekið eftir því og nú verði allt gott: Vinstri grænir verði ljúfir sem lömb og muni ganga einhuga til þeirra verka sem gera þurfi, ekki þurfi fólk lengur að óttast sundurlyndisfjandann sem þar heldur til, því Ögmundur hafi nefnilega troðið kvikindinu ofaní skúffu og læst henni vel og vandlega.

 

Góð saga og ekki mikið verri en ýmsar aðrar sem ganga meðal þjóðarinnar, skemmtisaga en annað ekki. Fólki finnst nefnilega ekki lengur að stjórn landsins sé, né eigi að vera skopleikur í fáránleikastíl. Það er komið að því að almenningur er búinn að fá nóg og með fullri virðingu fyrir Ögmundi Jónassyni, þá er það bara þannig að flestir eru búnir að fá nóg af tuðinu, þrætubókarstaglinu og flaðrinu upp um stjórnarandstöðuflokkana.

 

Einkastríð Ögmundar er í besta falli pínlegt, kjánalegt og lyktar af falsi. Ef ætlunin er að ganga í að leysa málin þá verður að hafa dug og kjark til að gera það, en ekki vísa því stöðugt yfir á þá sem í raun hafa engan áhuga á að lausnin finnist.  

Hnykill í flækju

9. mars 2010

Haft hefur verið á orði að flækjustig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sé með hærra móti. Ekki að ófyrirsynju, því a.m.k. þeim sem ekki eru þar lausmúraðir og innblessaðir sýnist sem svo að þar sé hver höndin upp á móti annarri. Steingrímur J. hefur fremur litla stjórn á liði sínu, enda er það örugglega ekki auðvelt verk, þó ekki sé nema vegna þess að svo virðist sem flokkurinn samanstandi af þeim einum sem allt vita best. Flokki þar sem allir vilja ráða en enga ábyrgð bera. Hugsjónaeldurinn brennur á hverri sál í flokknum, kreddufestan er algjör og af því leiðir að getan til að stunda málamiðlanapólitík er afar lítil.

Þessu hafa þeir áttað sig á bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og nýtt sér afar vel. Þeir hafa leikið sér að VG líkt og tveir kettir væru að leika sér með bandhnykil og nú er svo komið að hnykillinn sá er allur kominn í flækju og vandséð hvort úr því verður hægt að greiða. Ögmundur Jónasson hefur til að mynda verið í afar sérkennilegum leiðangri, svo ekki sé meira sagt. Ekki síst eftir að hann hrökklaðist út úr ríkisstjórninni eftir að hafa ekki getað horfst í augu við hin ömurlegu verkefni sem við honum blöstu sem heilbrigðisráðherra. Eftir flóttann virðist sem hann hafi þá hugsjón helsta að koma foringja sínum í sem mest vandræði og þar með ríkisstjórninni. Þetta gerir hann undir því yfirskini að efnt skuli til samstöðu, einkanlega í Icesave málinu og um þetta tuðar hann í tíma og ótíma og lætur sem hann trúi því að stjórnarandstaðan muni vera tilkippileg í því efni.

Auðvitað veit Ögmundur jafnvel og allir aðrir að á þeim bæjum er ekki neinu slíku til að dreifa. Þar eru menn fyrst og fremst með hugann við hvernig hægt sé að koma ríkisstjórninni fyrir kattarnef. Þau sömu kattarnef sem að undanförnu hafa hamast í flokknum hans með þeim árangri að hann er nú orðinn tættur og togaður þannig að nánast engin mynd finnst á honum lengur. Þar hefur þeim gengið vel, aðferðin hefur lukkast að þeirra mati svo sem best má verða og því telja þau best að halda áfram á sömu braut og Ögmundur og félagar leggja þeim lið með framkomu sinni.

Allt er þetta gert undir því yfirskini að vanda þurfi til verka: Icesave þvælan skuli rædd út í það óendanlega væntanlega í þeirri auðtrú að með nógu miklum kjaftagangi muni koma að því að það takist að kveða drauginn niður. Sumir hinna Vinstri grænu trúa þessu vafalaust, en hrunsmiðirnir vita betur. Þau vita vel að Hollendingum og Bretum liggur ekkert á. Þeir eru hvort eð er ekkert að fá aurana neitt á næstunni. Hrunsmiðunum  gengur það eitt til að halda ríkisstjórninni í gíslingu Icesave-málsins og til þess eru VG-ingar einkar heppilegir. Þrátt fyrir að formaður þeirra hafi valið að fara þá leið að gefa Brussel viðmiðunum langt nef í þeim tilgangi að gera málið lystugra í augum félaga sinna, þá dugar það ekki til, þar eru svo margar skoðanir á lofti og undir þeirri sundrung kyndir stjórnarandstaðan.

Nýjasti bandamaður þeirra sem öllu vilja halda í frosti í íslensku hagkerfi er svo hesta- og skíðamaðurinn, bóndinn á Bessastöðum, sem farinn var að finna fyrir vinsældatapi vegna tengingarinnar við útrásarvíkingana svokölluðu, sem fékk alveg kjörið snilldartækifæri til að snúa taflinu sér í hag. Það gerði hann og vísaði bullinu til þjóðarinnar sem vitanlega sagði nei, þ.e. meirihluti þeirra sem á annað borð nenntu á kjörstað til að taka þátt í vitleysunni. Annað en nei kom tæpast til greina af ýmsum ástæðum: Nei við að borga óreiðuskuldir annarra, nei við að borga vexti, nei við að borga eftir samningi sem í raun var ekki lengur til, nei við Steingrímsleiðinni og síðast en ekki síst: Nei við stjórnarandstöðunni svo órökrétt sem það kann að virðast að reyna að nota tækifærið til þess.

Ekki er allt rökrétt sem sagt er og gert er nú um  stundir, til dæmis berast þær fréttir að nú sé svo komið að ekki nema þriðjungur þjóðarinnar æski inngöngu í ESB. Einkennileg afstaða í meira lagi þar sem samningaviðræður við Sambandið eru ekki einu sinni hafnar, en tónar vel inn í hugmyndarheim Heimssýnarliðsins. Þeirra hugarheimur virðist fyrst og fremst ganga út á að annað hvort einangra Ísland frá umheiminum, eða breyta því í heimsveldi. Hvorug hugmyndin er sérstaklega geðsleg, báðar hafa verið reyndar áður, sú seinni á afar ómarkvissan hátt til forna, en sú fyrri kom til af kringumstæðum sem enginn kærði sig um aðrir en hið erlenda vald sem þá ríkti.

Það innlenda vald sem sækist eftir því nú, er síst betra en það vald sem þá var ríkjandi. Ef eitthvað, þá er það einungis enn undirförlara, ósvífnara og óþjóðhollara og mun ekki geta makað krókinn á hermangi og helmingaskiptum nú eins og áður fyrr. Hvert halda menn að næringin verði þá sótt annað en til alþýðu landsins og því ríður á að hún láti ekki hafa sig að leiksoppi enn einu sinni.  

Jón á röngu róli?

4. mars 2010

 

Þessi pistill birtist í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

 

 

Lengi hef ég haft grunsemdir um að eitthvað væri bogið við tilveruna, að ekki sé allt sem sýnist og að jafnvel margt það sem við göngum að sem gefnu sé alls ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. Það þykir alveg sjálfsagt að halda því fram að klukkan sé þetta eða hitt, að það sé þessi eða hinn dagurinn. Vikan er svo sögð vera hér eða þar í röðinni af vikum ársins og síðan er því haldið blákalt fram að í ár sé, svo dæmi sé tekið árið 2010. Undantekning á því er sú, að gefinn er kostur á að í ýmsum öðrum samfélögum geti árið hugsanlega verið eitthvað annað.

 

Nú er svo komið að efasemdir mínar í þessu efni hafa aukist til muna og það svo að nú geng ég að því sem gefnu að tíminn sé mun margslungnara fyrirbrygði en haldið hefur verið að manni til þessa. Ýmislegt hefur nýlega komið upp sem bendir til að staðreyndin sé sú að tíminn standi í stað á vissum sviðum og eigi það jafnvel að fara afturábak ef svo ber undir. Hvernig þetta er í raun og veru veit ég vitanlega ekkert um, en nú skal greint frá hvernig á því stendur að ég er farinn að trúa þessu.

 

Það gerðist um daginn þegar ég átti leið um Selfoss að mér datt í hug að ég hefði lent í einhverskonar tímaflökti. Ég var þar á ferð og hafði ekki langt farið þegar ég mætti Lödu Sport bifreið, sem ekið var eftir veginum eins og ekkert væri eðlilegra, en stuttu seinna fylgdi á eftir Lada Topas, gamall kunningi, því ég átti einu sinni eina slíka, og rétt á eftir henni kom gamall Rússajeppi þeirrar gerðar sem yfirbyggðir voru af Íslendingum með tréhúsi. Allar voru þessar rennireiðar í venjulegu brúksstandi að sjá og því alls ekki um það að ræða að hér væru á ferð uppskveraðar dekurdrossíur frá Fornbílaklúbbnum.

Satt að segja taldi ég þetta bara skemmtilega tilviljun sem gaman hefði verið að verða vitni að, en það sem kippti mér niður á jörðina kom úr óvæntri átt, þaðan sem menn eru ekkert sérstaklega mikið að velta fyrir sér Afstæðiskenningunni né öðrum eðlisfræðilegum fyrirbrigðum. Það sem gerðist var að Búnaðarþing var sett með pompi og prakt, prúðbúnir bændur og ýmsir minni spámenn eins og Forsetinn, alþingismenn, ráðherrar og fleiri mættu á staðinn og það var einmitt ráðherra sem kippti mér niður á jörðina, nefnilega landbúnaðarráðherrann. Hann var þarna kominn í öllu sínu veldi, fullur af nútímalegum hugmyndum, visku og þroska og þar kom að hann tók til máls og leiddi þjóð sína í allan sannleikann um hvernig hún ætti að hugsa og ekki síður á hverju rétt og skylt væri að nærast.

 

Ráðherrann, Jón Bjarnason, hafði sem sagt tekið eftir því, að fjórir karlar sem staddir voru í einhverjum fjallakofa höfðu ekki nægjanlega löngun til að eta nestið sitt sem samanstóð af hinum margvíslegasta súrmeti, því er til verður eftir viðeigandi meðhöndlun á íslensku sauðkindinni. Niðurstaða karlanna fjögurra verður eftir nokkra umhugsun sú, að rétt sé að nota sér nýjustu samskiptatækni og panta sér pitsu til að seðja hungrið. Gengur það allt fljótt og vel, þökk sé hinu fullkomna dreifikerfi Símanns. Taka nú karlarnir gleði sína að nýju og hlakka  til að snæða bökuna með íslenskum osti, skinku, hakki, pepperoni og grænmeti, en vara sig ekki á því að þetta háttaleg hafði þeim alveg láðst að bera undir ráðherrann. Það er nefnilega þannig að ekki er sama súrt íslenskt og ósúrt íslenskt, því að hans áliti er súrmeti íslenskara en það sem ósúrt er og ætti kannski ekki að koma á óvart, svo súrir sem þeir geta verið félagarnir í Vinstri- grænum.

 

En hér er komin enn ein sönnunin fyrir því að það er ekki sama tími og tími og ekki er að efa að hinn röggsami ráðherra mun sjá til þess að íslensk þjóð haldi sig framvegis á hans tíma, sem augljóslega er ekki sá sami og þorri þjóðarinnar telur sig vera á. Spennandi verður að fylgjast með hvernig þessi mál koma til með að þróast í framtíðinni, það er að segja ef hún verður þá leyfð: Framtíðin.  

100 krónur íslenskar

1. mars 2010

Fyrir rétt rúmum 40 árum gerðust þau undur í lífi ritara að hann komst í fyrsta skipti yfir hafið sem skilur að Ísland og Evrópu. Það gerðist þannig að hann réði sig til starfa á íslensku flutningaskipi sem var í eigu SÍS níutíu og eitthvað prósent sáluga og fyrsta erlenda höfnin sem farið var til var í Danmörku, nánar til tekið Svendborg. Lítið sem ekkert var til af peningum er upp var lagt, en spurst hafði að danskir bankar væru tilkippilegir með að kaupa íslenska peninga ef þeir væru þannig formaðir að greyptir væru í hinn undursamlega eitt hundrað krónu seðil, sem í þá daga taldist allnokkur aur hjá mörlandanum.

 

Siglingin með hinu gamla flutningaskipi gekk nokkuð vel, blíðuveður alla leið og til Svendborgar vorum við komnir fyrr en varði. Gekk nú kotroskinn piltur í land í leit að dönskum banka til að skipta nokkrum íslenskum hundrað köllum fyrir danskar krónur. Bankinn fannst nokkuð vandræðalítið og var erindið borið upp, þ.e. íslenskir eðalseðlar til sölu fyrir danska. Það verður að segja það alveg eins og er að bankastarfsmenn í Danmörku árið 1969, í þessum Svendborgska banka, brugðust við af einstakri kurteisi og háttvísi er þeir útskýrðu að svona peninga, sem þeir hefðu reyndar aldrei áður séð, væri ekki höndlað með í þessari peningastofnun og það var meira að segja tekið fram að alls ekkert væri vitað um hvers virði gersemin væri. Hitt væri annað mál að frést hefði af því, að í Kaupmannahöfn væri til banki sem keypti slíka seðla, en það væri af og frá að gengið sem undirritaður kynnti frá Íslandi væri gilt. Þar mundi muna nokkrum tugum prósenta.

 

Hvers vegna er ég að segja frá þessu? Það er vegna þess að eftir að hafa horft og hlustað á þá Aðalstein Baldursson og Ásmund Einar Daðason í þættinum „Silfur Egils” á sunnudaginn var rifjaðist þetta upp. Í þættinum lögðust þeir félagar í þann málflutning að mæra íslensku krónuna á þeim forsendum að hið lága gengi hennar væri, ein bjartasta vonin sem sýndi og sannaði hve nauðsynlegt þetta fyrirbrigði væri. Skemmst er frá því að segja að stjórnandi þáttarins féll í hláturskast þeirrar gerðar sem einkenndi hinn fræga lögreglustjóra Dreyfus er frægur varð í myndunum um Bleika Pardusinn og lái honum hver sem vill.

 

Það kom vitanlega engum á óvart að Ásmundur Einar Daðason formaður Heimssýnar, héldi firrunni fram, en að Aðalsteinn Baldursson verkalýðsforingi frá Húsavík félli í þann pytt kom vissulega á óvart. Að óreyndu hefði verið hægt að halda, að maður sem sífellt er að slá um sig á vettvangi kjarabaráttunnar, jafnvel að leggja öðrum leiðtogum verkalýðsins lífsreglurnar, ræddi málið af meiri yfirvegun og raunsæi. Sannleikurinn er vitanlega sá að engin, alls engin, rök eru fyrir íslenskri krónu, eru ekki og hafa aldrei verið, önnur en þau að hún hentar ágætlega til verðmætaflutninga frá alþýðu til útgerðarauðvalds svo dæmi sé tekið. Til slíkra gjörninga er hún  ágæt, en ef ætlunin er að hér verði bærilegt þjóðfélag til framtíðar þá þarf ýmsu að breyta og afnám íslenskrar krónu er eitt af því sem fyrst þarf að hverfa.

 

Þessu verða verkalýðsforingjar sem aðrir, að gera sér grein fyrir og vitanlega sjá eflaust ýmsir þeirra sem vistað hafa sig í Heimsýn þetta líka, en ást þeirra á krónunni helgast af öðru eins og t.d. gamalli þjóðernisrómantík. Síðan eru líka þeir og þeim má ekki gleyma, sem eingöngu eru að hugsa um eigin hag og stundarhagsmuni og það eru þeir sem ráðið hafa til þessa. Fyrir þeim er ekki að þvælast þjóðernisrómantík né annað þessháttar og skyldu sem flestir hafa það í huga, verkalýðsforingjar sem aðrir.

Í síðasta pistli fjallaði ritari um að kona hefði komið Sigmundi Davíð úr jafnvægi, þ.e. þegar Ann Sibert lýsti skoðunum sem ekki féllu að hinum alfullkomna hugmyndaheimi framsóknarforingjans. Nú bregður svo við að maðurinn er samkvæmt fréttum svartsýnn varðandi stöðu icesave mála. Hins vegar kemur það einnig fram, að eftir að þau mál verði endanlega komin í óleysanlegan hnút, þá sé meira en líklegt að Sigmundur muni taka gleði sína að nýju.

 

Af þessu má ljóst vera að hugmyndaheimur Framsóknar og Vinstri- grænna fellur allvel saman nú um stundir og líkast til er kominn tími til að flokkarnir renni formlega saman í einn. Að því loknu er ekki að efa að allt verður gott í ranni þeirra sem fylgja vilja þeim að málum: Allir verða á móti öllum, allt verður ómögulegt eða hættulegt og ekki að efa að veislur þeirra verða með (ó)skemmtilegasta móti. Þar verður rifist og þráttað út í eitt, glaðværðin mun engan kvelja, þrætubókarlistin verður stunduð sem aldrei fyrr og málin verða rædd af endalausri óþolinmæði til engrar niðurstöðu.

 

Vonandi er að sem flestir þeirra sem vilja tilheyra niðurrifsöflum finni sér skjól hjá hinum nýja Framsóknar- vinstri- græna stjórnmálaflokki. Í þessum flokki gætu t.d. þeir fundið sér stað sem eiga sér þá lítt duldu ósk að Ísland breytist úr því sem það er, í það sem þá dreymir um að það verði, nefnilega heimsveldi. Einu sinni var það að fyrrverandi foringi Framsóknarflokksins lýsti þeirri von að Ísland yrði einhverskonar fjármálamiðstöð norðursins og því er engin ástæða til að ætla annað en þetta geti allt saman fallið ágætlega að hinum furðulega hugmyndaheimi fáránleikans sem fólkið hefur þróað með sér.   

 

Í þessum stjórnmálaflokki mundu allir þvælast fyrir öllum og því mundi þeim öllum líða vel að eigin ályti. Ekkert yrði gert, hvorki gott né illt og því gætu allir unað fúlir við sitt. Öllum liði vel í þessum versta heimi allra heima, það er að segja þeim sem fyndu sig í selskapnum. Sigmundur og Steingrímur gætu fallist í faðma í andhverfu kærleikans og það gætu einnig Svandís og Höskuldur, Atli og Eygló, Ögmundur og Vigdís og öll hin. Ekki er ólíklegt að heimóttarliðið úr Heimsýn gæti einnig fundið sína fjöru í þessum félagsskap. Þeir eru þar nú þegar í innileika þeir félagarnir Styrmir, Ásmundur og nokkrir fleiri sem eiga sér drauminn um íslenska og sem lægst skráða krónu og íslenska einangrun sem þeir ætla örugglega seinna meir að breyta í íslensk heimsyfirráð.

 

Skíða og hestamaðurinn, bóndinn á Bessastöðum er að sjálfsögðu sjálfkjörinn verndari og heiðursfélagi þessa nýja stjórnmálaflokks. Flokks sem á endanum mun breyta „stórasta” landi heims í það smáasta!

Foringi Framsóknarflokksins hefur farið mikinn undanfarna daga og eins og svo oft áður þá er það kona sem kemur karli úr jafnvægi. Konan er af erlendu bergi brotin og var valin vegna þekkingar sinnar til að sitja í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og heitir Ann Sibert. Að áliti framsóknarformannsins hefur konan misstigið sig herfilega og er þess vegna að engu hafandi og helst af öllu vill Sigmundur reka hana úr starfi.

 

Hvað skyldi það nú vera sem Ann Sibert hefur gert sem hefur komið manninum svona illilega úr jafnvægi? Jafnvægi sem sumum finnst ekki vera of mikið af í flokki hans eftir, og reyndar líka áður en hann tók þar við formennsku. Illt er að egna óstöðugan, hefur oft verið haft fyrir satt, en gott og æskilegt væri að þeir sem ekki eru í góðu jafnvægi láti ógert að taka að sér að standa í þeirri orrahríð sem fylgir því að veita stjórnmálaflokki forstöðu. Ekki síst á tímum eins og nú eru í íslensku samfélagi, tímum sem eru þannig að æskilegt er að a.m.k. forystumenn stjórnmálaflokka vandi sig í orðum og æði.

 

Ann Sibert skrifaði grein á vefrit þar sem hún færði fyrir því rök að Icesave  málið væri ekki eins stórhættulegt fyrir Ísland eins og haldið hefur verið fram. Niðurstaða hennar var sem sagt sú að það sem kæmi til með að falla á íslensku þjóðina væri ekki af þeirri stærðargráðu að framtíðarhagsmunum væri ógnað.

 

Sigmundur er ekki á sama máli og hvað gerir hann þá? Hann sýnir og sannar að framsóknareðlið er honum í blóð borið og í stað þess að mótmæla konunni með rökum leggur hann til að hún verði rekin þar sem skoðanir hennar séu ekki réttar. Sovét- rétttrúnaðar-framsóknar hugsunarhátturinn er samur við sig; sendiboðinn skal skotinn ef boðin eru ekki eins og viðtakandinn vill hafa þau.

 

Alexander Petterson lýsti því hvernig hann hefði hugsað sér að hindra hraðaupphlaup ef hann fengi tækifæri til: Það þyrfti að komast í boltann þegar hann væri ekki í höndum þess sem væri að sækja að markinu og það var nákvæmlega það sem hann gerði: hann fór í boltann. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði farið öðruvísi að. Hann hefði nefnilega farið í manninn, fellt kauða með einhverju framsóknaróbragði og séð til þess að hann gæti ekki framar ruðst fram.

 

Ef rétt er tekið eftir stendur til að halda námskeið á vegum Framsóknarflokksins um stjórnmál og mun mörgum þykja mál til komið. Það veldur hins vegar nokkrum áhyggjum að standa mun til að Sigmundur verði einn af leiðbeinendunum. Vonandi er það ekki rétt, því ekki er því að treysta að Framsóknarflokkurinn hverfi af sviðinu á næstunni og örugglega ekki fyrir næstu kosningar. Því leggur sá er þetta skrifar til að flokksmenn fái einhvern fyrrverandi formann til að messa yfir nýgræðingnum í stað Sigmundar, en þó engan af þeim sem nefndir eru í yfirskrift pistilsins og vitanlega er augljóst að sá fyrsttaldi verður tæpast fenginn til verksins.

 

Ekki verður vandi að finna fyrrverandi formenn þrátt fyrir það, svo illa sem þeir hafa enst hjá flokknum í seinni tíð og ef þeir þykja ekki boðlegir, þá hlýtur að vera hægt að notast við einhverja af fyrrverandi þingmönnum og konum sem hrakin hafa verið burt undanfarin ár án þess að það hafi skilað flokknum neinu jákvæðu.

 

Fólki sem gæti alveg eins tilheyrt Borgarahreyfingunni.           

Jón og ,,séra Jón”

17. febrúar 2010

Að undanförnu hefur verið í gangi umræða um lánveitingar úr bönkum landsins sem hlýtur að teljast afar áhugaverð a.m.k. fyrir hinn títtnefnda almenning. Það hefur nefnilega komið fram nokkuð sem margir vissu, en þó ekki fyrir víst, að ekki er sama Jón og annar með sama nafni sem nefndur hefur verið „séra” Jón. Þannig er að sérann í þessu tilfelli, er ekki prestur heldur einhver sem sýslar með fé sem oftast er tekið að láni og vitanlega er það allt annað en að meðhöndla viðkvæmar sálir sem eru að leita stóra sannleikans. Þetta „séra” sem klínt hefur verið á Jón gamla táknar sem sagt ekki annað en það að hann er  á allt öðrum stað í lífinu en hinn venjulegi Nonni.

 

Upplýst er að forréttinda Jón þarf ekki að setja önnur veð fyrir láni sem hann tekur í bankanum sínum en lánið sjálft og verður að segja það eins og er að það hlýtur að vera mikið lán í óláni að því sé þannig fyrir komið. Venjulegi Jóninn þarf nefnilega undantekningarlaust að setja eigur sjálfs síns að veði fyrir láninu og ef það dugar ekki til þá eigur barna sinna, foreldra, afa og ömmu eða eitthvað enn meira og liggur í augum uppi að það er hið mesta ólán. Vitanlega sjá allir að það er mun heppilegra að ekkert veð sé fyrir láninu annað en lánið sjálft, því ef illa fer og aurarnir tapast á Tortólu eða í einhverri annarri sjóræningjaparadís þá er ekki um að ræða nein eftirá leiðindi; aurarnir eru barasta horfnir, tíndir og tröllum gefnir og síðan ekki neitt meira með það. Nema að því náttúrulega ótöldu að alltaf má fá meira að láni hjá hinni örlátu lánastofnun, en vel að merkja það gildir bara um forréttinda Jón og rétt að taka það skýrt fram svo menn fari nú ekki að halda einhverja vitleysu.

 

Auðvitað er þetta ekki það sem hinir venjulegu Jónar kannast við úr sínu lífi. Þeirra veruleiki er allt annar eins og kunnugt er, en vegna þess hve ótraustir lántakendur þeir eru þá geta þeir ekki reiknað með að komist í stöðu forréttinda Nonnans. Hinn venjulegi alþýðu- Nonni verður ævinlega að tryggja í bak og fyrir allar sínar lántökur og þó það nú væri. Hann gæti nefnilega tekið uppá því að greiða ekki margfalt til baka það sem hann tók að láni og því er það að traust, tryggð og ábyrgð skal í hávegum höfð þegar hann er annars vegar. Hvernig halda menn að færi fyrir lánastofnunum ef alþýðu- Jónar tækju uppá að hafa það eins og kúlulána og veðleysu Jónarnir að greiða ekki til baka það sem þeir fengu að láni? Það færi ekki vel með hinar virðulegu peningastofnanir. Hvernig ættu þær þá að standa undir því að gefa forréttinda Jónum aurana sem þeir þurfa svo sárlega á að halda?

 

Vitanlega sjá allir sem vilja sjá, að slíkt gengur engan vegin. Það verður að vera eitthvert skipulag á hlutunum í þessu efni sem öðrum og því er það að Jón verður að átta sig á því að hans gleði felst í því að njóta þess hve séra Jóni vegnar vel og vegna þess hve velgengni hans  er ánægjuleg, að leggja bara enn harðar að sér í lífsbaráttunni til að geta greitt lánin, bæði sem hann tók sjálfur (að sjálfsögðu) og síðan einnig hin sem forréttinda Jón tók.

 

Annars fer allt í vitleysu eins og allir vita.  

Því var haldið fram í síðasta pistli þessa bloggara að eflaust yrði hægt að finna Svörtuloftum (Seðlabankahúsinu) verðugra hlutverk en það sem þau hafa gengt til þessa eftir að Seðlabankinn hefur sungið sitt síðasta vers. Það er þegar Íslenska krónan verður horfin á vit feðra sinna og aflóga stjórnmálamönnum hefur verið fundið eitthvað þarfara að gera en að fremja heimskupör á kostnað þjóðarinnar.

 

Það verður hins vegar að viðurkennast að ekki liggur í augum uppi hvernig nær gluggalaust, dökkt og forljótt peningamusteri getur orðið til gagns, en í gær kom vinur minn í heimsókn og laumaði að mér svo snjallri hugmynd að ég bara get ekki látið hjá líða að koma henni á framfæri. Hugmyndin gengur út á það að húsinu verði komið til gagns á alveg nýjan og frumlegan hátt, í stað þess að þar verði sýslað með einskis verðar Ísl. krónur þá verði sýslað með fólk, fólk sem fram að þessu hefur átt undir högg að sækja og nær hvergi átt höfði sínu að halla.

 

Hugmynd vinar míns gengur sem sagt út á að í stað þess að musteri Mammons verði rifið, jafnað við jörðu og eytt svo sem hugur margra gæti hugsanlega staðið til, þá verði það aldrei þessu vant nýtt þjóðinni til gagns og fyllt af fólki. Þannig hagar nefnilega til að í þægilegu göngufæri við þessa stofnun, sem lengst af hefur verið notuð til dagvistunar á úr sér gengnum stjórnmálamönnum, eru tvær stofnanir sem með beinum og óbeinum hætti munu falla afar vel að hinu nýja hlutverki Seðlabankahússins.

 

Stofnanirnar sem um er að ræða eru annars vegar Héraðsdómur Reykjavíkur og hins vegar Hæstiréttur Íslands. Hugmynd hins glögga vinar míns gengur sem sagt út á það að breyta Svörtuloftum í fangelsi fyrir það fólk sem ekki er talið hæft til að vera innan um íslenskan almenning, hvort heldur er um stundarsakir eða til framtíðarvistunar. Helstu og bestu rökin fyrir þessu telur vinur minn vera þó nokkur, fyrir nú utan það að byggingin sé í miðbænum miðjum. Eitt það fyrsta sem hann taldi henni til tekna, ef af yrði að hún fengi þetta nýja hlutverk, var að ekki myndi þörf á að byrgja glugga með rimlum, eins og svo sjálfsagt þykir að gera í slíkum mannvirkjum allmennt. Ég held raunar að þetta sé ekki alveg rétt hjá vini mínum, þ.e. að engir gluggar séu á húsinu, en geri alls ekki ráð fyrir að það verði neitt vandamál að leysa úr því, íslenskir járniðnaðarmenn geta vafalaust smíðað brúklega rimla á kumbaldann.

 

Útlit er fyrir að mikla og góða nýtingu á húsnæðinu ef af þessu verður, því nægt framboð er á glæpamönnum í íslensku samfélagi. Þeir eru til af öllum gerðum og stærðum og ef eitthvað vantar uppá þá er bara hægt að flytja þá inn eins og gert hefur verið með góðum árangri undanfarin ár og ekki má gleyma  því að við erum  frá öndverðu landflótta lýður sem á sínum tíma hefur víst ekki verið talin par fínn í Noregi. Því eru allar líkur á að framboð gistivina verði yfrið og húsið verði nánast ætíð fullsetið.

 

Það er svo aftur á móti allrar skoðunar vert fyrir til þess bæra sérfræðinga, hvernig á því stendur að sumir Íslendingar hafa ómælda þörf fyrir að flaðra upp um Norðmenn nútímans og helst af öllu fá þá til að bæta fyrir þá skömm sem ákveðin afsprengi íslensks frjálshyggjuátrúnaðar hafa valdið þjóðinni á erlendum vettvangi. Þar virðist vera á ferðinni einhverskonar röksemdafærsla á þá leið að betra sé að skammast sín mikið gagnvart einni þjóð heldur en minna gagnvart mörgum og sannast það hið fornkveðna: Að rökfestu og hugsnilli hinnar íslensku þjóðar eru engin takmörk sett.

Reynslan af VG

7. febrúar 2010

„Vinstri- græn”, hvað þýðir það? Þar sem um stjórnmálaflokk er að ræða, þá liggur nokkuð beint við að álykta sem svo að orðið „vinstri” standi fyrir einhverskonar sósíalisma, en þá vaknar spurningin: Fyrir hvað stendur „græn” í þessu sambandi? Niðurstaða ritara var á sínum tíma að hér væru saman komin þau sem vildu þjóðfélag sem byggðist á félagshyggju og jöfnuði og vildu einnig taka tillit til náttúrunnar á þann hátt að ekki væri yfir hana gengið að óþörfu. Háleit markmið og ekkert annað en gott um þau að segja, en fljótlega kom í ljós að í raun lá „fiskur undir steini” og alls ekki auðséð hvernig orðið „vinstri” getur átt við þessa stjórnmálahreyfingu.

 

Það segir sína sögu um hve þessi hugtök geta verið öll á reiki að stjórnmálamaðurinn Guðni Ágústson notaði orðið sósíalisti ævinlega sem skammaryrði um hina vinstri- grænu vini sína og taldi það skýra hve mjög þau væru á móti atvinnustarfsemi að þau væru sósíalistar. Þetta segir ef til vill meira um hve góður stjórnmálaskóli Framsóknarflokksins er, en hvernig hinir vinstri- grænu eru pólitískt innréttaðir, því eins og flestir vita þá gerðu hinir gömlu sósíalistar sér mjög vel grein fyrir því, að það að fólk hefði vinnu væri algjör undirstaða þess að einhver von væri til að hagur alþýðunnar gæti staðið til bóta og hér skilur á milli þeirra „vinstri- grænu” og raunverulegra vinstri stjórnmálaflokka. „Vinstri- græn” hafa nefnilega sýnt það og sannað með framgöngu sinni að þau hafa alls engan skilning á að fólk þurfi að hafa vinnu til að komast af. Helst er svo að sjá að í þeirra augum sé flest öll atvinnustarfsemi, a.m.k. sú sem ekki er rekin af hinu opinbera, af hinu illa, óhrein starfsemi sem sé að engu hafandi.

 

Nú er svo komið að þau eru búin að vera í stjórn á annað ár og ekki er hægt að segja að það hafi gengið vandræðalaust: Heilbrigðisráðherrann lagði niður skottið og sagði sig frá ráðherradómi á fremur vandræðalegan hátt, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann gengur oftast nær ekki í takt við hina stjórnarliðana og má reyndar þakka fyrir ef honum tekst að ganga í takt við sjálfan sig, heilbrigðisráðherrann, sú sem við tók af Ögmundi hinum brotthlaupna, er þekktust fyrir glórulaust ofstæki úr búsáhaldabyltingunni og umhverfisráðherrann er orðin fræg að endemum fyrir að leggja steina í götur allra þeirra framkvæmda sem hún getur með einhverju móti haft áhrif á. Nýjasta dæmið í þeim efnum er afgreiðsla hennar á skipulagsmálum hreppanna við vestanverða Þjórsá.

 

Formaður þessa flokks fer með eitt mikilvægasta ráðuneytið í ríkisstjórninni sem kunnugt er og þar hefur komið í hans hlut að fara fremstur varðandi samningana um Icesave málið og hvernig skildi það nú hafa gengið til hjá hinum vígreifa flokksformanni. „Verkin sýna merkin” og skemmst er frá því að segja að eftir liggur hörmungin ein. Vegna ESB andúðar sinnar tók hann málið út úr því sáttaferli sem það var komið í og hóf samninga við Hollendinga og Breta upp á sitt eindæmi. Blásið var á Brussel- viðmiðin og helst gæti maður haldið að Steingrími hafi gengið það til að sýna og sanna að hann og hans fólk gætu á einu augabragði komið í höfn máli sem aðrir hefðu ekki ráðið við.

 

Hvað er komið í ljós: Svo er að sjá sem samningurinn sé misheppnaður og flest sem bendir til að það hafi verið mikið lán að forsetinn neitaði að staðfesta lögin um ríkisábyrgðina. Það er illa komið fyrir þjóð sem þannig ver atkvæðum sínum að annað eins skaðræðisafl kemst til valda eins og hefur sýnt sig vera varðandi Vinstri- græn. Kostirnir voru raunar ekki margir því ekki var efnilegt að kjósa yfir sig flokkanefnurnar sem grófu þá gröf sem þjóðin er nú í og næg eru skrílslætin búin að vera á þingi þó Borgarar yrðu ekki fleiri, ekki svo að skilja að þau hafi ein staðið fyrir þeim. Nei, þar hafa sjálfstæðis- og ekki síst framsóknarliðar staðið fyllilega fyrir sínu og hljóta allir að sjá að komið er nóg af slíku.

 

Framsóknarmenn þurfa að leggjast í lúsarleit að flekklausum manni eða konu til að taka við forystu í flokknum og kannski tekst það, Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera slíkt hið sama og þar sem í þeim flokki eru mun fleiri en þeir sem sitja á þingi þá hlýtur það að takast. Í framhaldinu þarf síðan að taka höndum saman og leiða þjóðina út úr brimgarðinum, inn í ESB, losna við íslensku krónuna og Seðlabankann, því húsnæði hlýtur að vera hægt að finna verðugra hlutverk en að sýsla með handónýta gervipeninga sem enginn vill, né hefur nokkurn tíman viljað hafa eitt eða neitt með að gera.