Þórðargleði

13. maí 2010

Þessa dagana ríkir gleði í íslensku samfélagi, en sú gleði er ekki einlæg og fölskvalaus. Það er komin út skýrsla sem rekur hvernig svo fór sem fór, að spilling, græðgi, sérhygli og skeytingarleysi um hag náungans varð alls ráðandi meðal svo alltof margra. Ekkert sem þar er fram dregið hefur komið þeim verulega á óvart sem fylgst hafa með í samfélaginu undanfarna áratugi.

 

En Skýrslan er ekki ein á ferð, síður en svo. Á sínum tíma var skipaður ,,Sérstakur saksóknari” til að fara yfir málin og sækja til saka þá sem við ætti og árangurinn af störfum hans er óðum að koma í ljós. Jakkafataklæddir ,,peningamenn” eru hver af öðrum leiddir í tukthús til að vera þar í geymslu á meðan mál þeirra eru til frekari skoðunar.

 

Skilanefndir eru einnig að störfum og frá þeim berast fregnir smátt og smátt og ekki allar fagrar frekar en við er að búast. Skilanefnd Glitnis virðist vera komin einna lengst, að minnsta kosti er svo komið að búið er að stefna einum aðalleikaranum á sviði peningaleikhússins og er þetta er ritað vantar það helst að finna heimilisfang hins fræga manns til að hægt sé að birta honum stefnu. Fjölmiðlum hefur hins vegar tekist að hafa samband við manninn og ef eitthvað er að marka það sem eftir honum er haft, þá er þetta allt saman runnið undan rifjum Davíðs ritstjóra og fyrrum borgarstjóra, alþingismanns, forsætisráðherra og Seðlabankastjóra m.m..  Afreksmaðurinn í Hádegismóum ber sem sagt ábyrgð á þessu öllu ef marka má Bónusbóndann. Ekki gott um að dæma fyrir oss óinnvígða, armur bláu handarinnar mun vera langur og kannski er lengd hans næg til þess að framvegis megi henni kenna um allt illt sem hendir.

 

Hvort sem armur hinnar bláu handar er langur eður ei, þá er hitt víst að armur laganna er það og því munu flestir vera fegnir, en greinilega ekki allir. Til eru þeir sem vilja fá að hegða sér eins og þeim sjálfum sýnist. Virðast telja að þeir séu á einhvern hátt yfir það hafnir að þurfa að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Reynt var að rétta yfir slíkum hóp í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur og gekk það heldur stirðlega vegna skrílsláta sem hópur fólks hafði uppi þar á staðnum. Ekki er annað vitað en þetta sama fólk vilji að réttað sé yfir fjárglæframönnunum, yfir þá á réttvísin að ná, en ekki þau sem svívirtu Alþingi. Lögin eiga að því eð virðist að ná einungis yfir suma en ekki aðra. Hvert er stefnt?

 

Hetjurnar hugprúðu, sem létu öllum illum látum við Alþingishúsið og víðar, eru þá ekki hugprúðari en svo, að þegar kemur að því að taka afleiðingum gerða sinna telja þær sig vera á einhvern yfirskilvitlegan hátt hafnar yfir lög og rétt. Er það sem þau vilja þá þannig að lög landsins gildi bara um suma en ekki aðra og er það framtíðarlandið sem þau sjá fyrir sér?

 

Hvernig halda menn að hefði farið ef lögreglan og síðan almennir borgarar hefðu ekki gripið í taumana þegar skrílslætin stóðu sem hæst? Gera má ráð fyrir að Alþingishúsið og Hótel Borg væru rústir einar að viðbættu Stjórnarráðinu og eflaust fleiri stofnunum. Ef svo illa hefði tekist til, gætu hin hugdjörfu í sakborningastúku Héraðsdóms líklega glaðst yfir vel unnu verki og  drægi það væntanlega ekki úr ánægjunni, að gera má ráð fyrir að samfélagið væri að mestu orðið samfélag ómennskunnar. Var Hrunið ef til vill ekki nóg fyrir þetta fólk?

 

Gott er til þess að vita að þessi sjálfskipaði her alþýðunnar skuli eiga sér aðdáendur og stuðningsmenn hjá Vinstri- grænum. Það er ekkert sem kemur á óvart. Þau vilja sjá um sína, gæta þeirra og vernda. Ást þeirra á skrílnum er eins og við var að búast, því sagt er: að sækist sér um líkir. Það hefur þá sannast.     

Þau okkar sem horfðu á sjónvarpsfréttir á sunnudagskvöldið urðu vitni að allsérstæðum atburði þegar fréttamaður gerði tilraun til að eiga vitrænt samtal við ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Atburðurinn átti sér stað á planinu fyrir framan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, en þar var ráðherraliðið að koma saman til fundar á óvenjulegum tíma og því var það, að fundurinn hafði vakið áhuga fréttamanna.

 

Þar kom að ráðherra sá sem kynnt hefur sig til sögunnar sem sérlegan fulltrúa súrmetisins að því viðbættu að vera bæði titlaður landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra mætti á staðinn og er ekki að orðlengja að þar upphófst ein pínlegasta sýning á taugaspennu sem sést hefur í sjónvarpi. Ýmsar hafa þær verið uppákomurnar, en þessi slóg þeim flestum við, því maðurinn sem öllum þessum titlum er hlaðinn virtist vera gjörsamlega úti á túni ef ekki bara - í súru.

 

Í stuttu máli gekk leikritið þannig fyrir sig að fréttamaðurinn spurði sem svo hvernig ráðherranum litist á hagræðingu í stjórnarráðinu, þá sem felur það í sér að fækka ráðherrum um þrjá og sameina ráðuneytin. Svar ráðherranns var eitthvað á þá leið að hann hefði verið að spjalla við bændur á öskusvæðunum og ekki hefði nú veitt af að hressa þá dálítið upp. Þar hefði nú verið mikil aska o.s.frv.. Eftir að hafa fimbulfambað í þessum dúr, gerði maðurinn sig líklegan til að skunda í burtu, en furðu lostinn fréttamaðurinn krafði svara við spurningu þeirri sem upp hafði verið borin og eins og ýtt hefði verið á takka stóð bunan út úr ráðherranum að nýju. Sýningunni lauk síðan á því að ráðherrann gekk afturábak í átt að bústaðnum og mátti öllum ljóst vera að þar fór maður sem ekki var í góðu jafnvægi.

 

Hvað skyldi það hafa verið sem kom hinum virðulega ráðherra út af sporinu?  Eldgosið, kreppan, icesave? Nei, ekkert af þessum smámálum hvíldi svo þungt á honum þessa stundina, það var allt annað sem á honum hvíldi. Það sem hafði komið manninum svo algjörlega úr jafnvægi, var sú þungbæra staðreynd að líkast til væri ráðherradómur hans senn á enda og öllum væri sama, nema honum sjálfum og þeim sem vörpuðu öndinni léttar hugsandi sem svo: Að senn væri einni forneskjunni færra í íslenskri stjórnsýslu.

_ _ _

 

Ráherrann sem ekki þorði að láta sjá sig á auglýstum fundi daginn áður var flokkssystir Jóns, umhverfisráðherrann, sú sem uppnámi hefur valdið með framkomu sinni í garð Flóahrepps. Konan hafði boðað komu sína á fund í hreppnum, en þegar til kastanna kom þorði hún ekki að mæta og sendi flokksbróður sinn Atla Gíslason í staðinn. Atli reyndist vera of önnum kafinn til að mega vera að því að sinna slíkum erindum, en fór þó örstutt í pontu og lét sig síðan hverfa eftir að hafa svarað einni eða tveimur spurningum sem að honum var beint.

 

Þegar þarna var komið var Flóabúum ljóst að mikil og þung ábyrgð hvílir á hinum vinstri grænu fulltrúum umhverfisins og er engu líkara en að þeir séu við það að sligast undan þunganum og erfiðinu sem á þau hefur hlaðist.

_ _ _

 

Vinstri- græn vilja af algjörlega óútskýrðum ástæðum losna við ópólitísku ráðherrana úr ríkisstjórninni. Nema skýringin sé sú að þeim standi af þeim ógn. Ógn þess sem finnur til vanmáttar, er hann ber sig saman við þann hæfileikaríka. Vonandi tekst þeim ekki að hrekja þau á braut og óskandi að Samfylkingin hafi getu til að standa gegn slíkum hugmyndum.

Ef ekki getur farið að styttast í núverandi stjórnarsamstarfi.   

Meira um traust

7. maí 2010

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um traust, hvernig það verði til, hvernig best sé að byggja það upp og láta það endast. Sitt sýnist hverjum sem vonlegt er, því um er að ræða fremur þokukennt hugtak sem ekki er gott að festa hendur á. Sumir treysta á mátt sinn og megin, meðan aðrir telja öruggara að treysta á guð almáttugan, en víst er að flestir verða að treysta á eitthvað, en hvernig verður traust til?

 

Kannanir hafa sýnt að traust er fremur lítið á alþingismönnum, en svo annað dæmi sé tekið þeim mun meira á lögreglunni og er svo að sjá sem traustið á henni hafi aukist mjög eftir að hún tókst á við lýðinn fyrir utan Alþingishúsið í búsáhaldabyltingunni. Ekki er samt alveg öruggt að óhætt sé að álykta sem svo, að ef þingmenn hefðu mannað sig upp í að stíga fram og ganga til liðs við lögregluna, að þá hefði traustið á þeim aukist að sama skapi. Hreint ekki því öruggt má telja að við það hefði lýðurinn espast upp um allan helming og skeytt skapi sínu bæði á lögreglunni og þingmönnum og í framhaldinu hvorugum aðilanum treyst.

 

Hins vegar virðist sem pottberjendur hafi kunnað nokkuð vel að meta framgöngu þeirra þingmanna sem gengu út úr þinghúsinu til að blanda sér í hóp búsáhaldahersins. Að minnsta kosti er ekki annað að sjá en stuðningur við V.G. hafi aukist í beinu hlutfali við ábyrgðarleysi þeirra og nú er það talið þeim helst til tekna, að aldrei hafi þeir gert neitt misjafnt vegna þess að þeir gerðu vitanlega aldrei neitt og sá sem ekkert gerir, gerir ekkert rangt, eða hvað?

 

Hvort er betra aðferð til að skapa sér traust, að puða daginn langan við að leita leiða til að breyta og lagfæra regluverkið um meðferð skuldamála í þeim tilgangi að bjarga almenningi út úr feninu, eða að stökkva fram eins og köttur á bráð, í hvert sinn sem tækifæri gefst til að vinna sér stundarvinsældir og frægð eins og Lilja Mósesdóttir hefur hvað eftir annað gert sig seka um undanfarið. Á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar einkum Árni Páll félagsmálaráðherra, streða í raunheimi við að finna lausnir á vanda heimilanna slær hún um sig með eilífum og draumkenndum einleikstilburðum, eins og til að sanna að samlíkingin um VG og Kattholt sér rétt, sem hún vissulega er.

 

Hefði þjóðin borið gæfu til að fá ekki fjármálaráðherra sem er með Evrópufælni, landbúnaðarráðherra sem fastur er í súrmetinu, umhverfisráðherra sem sér ekki út fyrir naflann á umhverfisofstæki sínu og heilbrigðisráðherra sem þjakaður er af valdhroka, væri eflaust öðruvísi um að litast í íslensku samfélagi. Gera mætti ráð fyrir að icesave þvælan væri leyst, þjóðin væri á hraðferð inn í Evrópusambandið og atvinnulífið farið að mjakast af stað.

 

Á meðan fréttamennirnir eru uppteknir við að velta sér upp úr því hvort Seðlabankastjórinn hefur 400 þúsundunum meira eða minna blæðir þjóðinni, m.a. vegna þess að enn er verið að greiða fyrrverandi Seðlabankastjórum, sem samkvæmt Skýrslunni reyndust vanhæfir til starfa, himinhá eftirlaun. Enginn talar um það nema Þorvaldur Gylfason og er það ekki í fyrsta skiptið sem hann er eins og hrópandinn í eyðimörkinni.

 

Það eru víst ekki miklar líkur til að á hann verði hlustað nú fremur en endranær, því það er íslenskri þjóð margt annað betur gefið en að hlíta góðum ráðum, eins og sannast hefur svo rækilega.   

Traust

2. maí 2010

Eftir að hrun bankakerfis þjóðarinnar hófst á haustdögum árið 2008 hefur svo brugðið við að ólíklegasta fólk er farið að ræða um stjórnmál. Um nokkuð langan tíma fram að því hafði það ekki verið vel séð að rætt væri um pólitík og hafði jafnvel þótt bæði hallærislegt og gamaldags.

Allt var svo yfirmáta gott í ,,stórasta” landi í heimi að ekki var talin þörf á að fólk, svona almennt talað, væri að fimbulfamba um málefni sem betur væru komin í faðmi alvitringa eins og t.d. Davíðs Oddssonar. Þeir sem ekki kunnu að haga sér hvað þetta varðar voru svo einfaldlega lagðir niður, eða að minnsta kosti stofnanir þeirra, samanber Þjóðhagsstofnun og hafðir voru uppi tilburðir til að þagga niður í öðrum, sem ekki voru tilbúnir til að fylgja hinni ,,réttu” línu. Hver man t.d. ekki eftir því hvernig reynt var að þagga niður í forstöðumanni Félagsvísindastofnunar H.Í. er hann sýndi fram á með vísindalegri úttekt að skattbyrði hefði aukist á lágtekjufólki á sama tíma og skattar á hinum betur megandi hefðu lækkað.

Alþingismaðurinn Pétur Blöndal lét, svo eitt dæmi sé tekið, hafa sig í það að koma fram í Kastljósi til þess að halda því fram að svart væri hvítt hvað þetta varðar og gott ef hann notaði ekki tækifærið til að mæra enn einu sinni eignabóluna með því að segja sem svo: Sjáið þið ekki hvað þetta er gott, þó skuldirnar hjá fólki séu alltaf að aukast þá er það bara af hinu góða vegna þess að eignirnar eru alltaf að hækka í verði…  Spóla sem réttast væri að spiluð væri við upphaf hvers fundar hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Og nú er talað um traust.

Hver spekingurinn eftir annan kemur fram og segir sem svo að það sé ekki neitt traust eftir í samfélaginu, traustið sé farið og einkanlega það traust sem fólk hafi borið til stjórnmálamanna. Það var og. Hér er eitthvað málum blandið, því bæði er að það er nokkuð óljóst hve mikið traustið var sem borið var til þeirrar stéttar fyrir Hrun og eins hitt að svo er að sjá sem traust það sem borið er til Hrunflokkanna sé bara nokkuð bærilegt þessa dagana.

Hrunflokkur númer eitt hlýtur að teljast vera Sjálfstæðisflokkurinn og ekki er að sjá að það vefjist neitt fyrir formanninum að halda um það bil 30% fylgi. Það hlýtur að mega túlka sem svo að þrír af hverjum tíu telji flokkinn traustsins verðan. Viðhengið Framsóknarflokkurinn, sá sem lék hlutverk rakkans í tólf ár er síðan með um og í kringum 10%, sem vitanlega er ekkert sérstaklega langt frá því sem hann hefur haft, þó það hafi stundum verið meira.

Með öðrum orðum: Tæplega helmingur þjóðarinnar telur þá sem leiddu hana inn á veg glötunarinnar vera traustsins verða! Svipað hlutfall telur að vandinn sé útlendingum að kenna, þeir sitji um hina einstöku íslensku afburðaþjóð og vilji koma henni á kaldan klakann. Þar fer  Bessastaðabóndinn fyrir, gefandi í skyn að ef allt um þrýtur, þá sé nú alltaf góður möguleiki á að Katla gamla vakni af dvalanum og sendi umheiminum þá kveðju sem mikilmennskubrjálaðir Íslendingar geti ekki sjálfir komið frá sér. Lengra verður tæpast komist í því að kalla á Kölska sér til fulltingis.

Sagt er að hver þjóð fái þá stjórn sem hún á skilið, ætli það geti ekki verið tilfellið?

Hinir kusklausu

20. apríl 2010

,,Skýrslan” kom þá út á endanum. Risavaxið plagg sem margir voru búnir að bíða eftir. Undirritaður hafði allt eins búist við því að útgáfu hennar yrði frestað að minnsta kosti fram að næstu jólum og hefði svo farið, þá hefðu ekki aðrar bækur við hana keppt. En hún er sem sagt loksins komin út; mikið verk, vel unnið og merkilegt að sögn þeirra sem lesið hafa og reyndar er ekki alveg laust við að grunur læðist um að ef til vill hafi ekki allir þeir sem lýst hafa aðdáun sinni á verkinu, lesið það spjalda á milli.

 

Útgáfan hefur orðið ýmsum hvatning til að grýta steinum og eflaust gera það margir út glerhúsi. Það standa nefnilega yfir nornaveiðar í íslensku samfélagi. Krafan er að helst allir sem nálægt því komu að stjórna þjóðfélaginu víki og gildir þá einu hvort umrædd persóna hefur í raun gert eitthvað af sér eða ekki. Svo dæmi sé tekið voru í boði lán til starfsmanna í Kaupþingi sem þeir gátu fengið til að kaupa hlutabréf í bankanum. Fáránlegur gerningur, settur á svið til þess eins að skrúfa upp bréf bankans langt umfram raungengi. Glæpur vissulega, en glæpurinn var þeirra sem stjórnuðu bankanum, en varla almennra starfsmanna sem í mörgum tilfellum létu vafalaust einungis undan þrýstingi yfirboðara sinna.

 

Hinir kusklausu og vammlausu geysast, berja sér á brjóst og benda hneykslaðir á þá sem í peningafenið féllu, en sést yfir að í mörgum tilfellum var það kannski ekki annað en heppni sem bjargaði þeim sjálfum frá því að lenda í því sama.

 

Ekki svo að skilja að hægt sé að mæla græðginni bót. Vitanlega fór hún langt framúr hófi og afleiðingarnar blasa við hvert sem litið er, en innantómar nornaveiðar bæta ekki neitt. Hvað gerði svo sem Þorgerður Katrín rangt? Ekki tók hún lánið, heldur maður hennar og því er dálítið hæpið, svo ekki sé meira sagt, að dæma hana svo hart sem gert hefur verið og er ekki að vita nema bjálkar leynist í glyrnum sumra hinna dómhörðustu.

 

Og hvað gerði Björgvin G. sem réttlætir það að hann segi af sér sem ráðherra, þingflokksformaður og síðan víki af þingi. Hver var glæpurinn? Jú hann var fyrst og fremst sá að sitja í ríkisstjórn sem var í skugga fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og rétt er það að þar hefði hann líkast til ekki átt að vera frekar en aðrir Samfylkingarmenn. Ýmislegt er óupplýst í því máli og verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig því framvindur.

Sökin hlýtur að vera fyrst og fremst þeirra sem mótuðu regluverkið í samfélaginu þannig að í raun var ekki um neinar reglur að ræða. Frumskógarlögmálið eitt var látið gilda og þess eins gætt að ,,réttir” aðilar sætu við kjötkatlana. Það eru vitanlega formennirnir tveir sem stjórnuðu hrunflokkunum, Framsókn og Sjálfstæðis, sem mesta ábyrgðina bera, að ógleymdum hinum hundtryggu og fylgispöku þingmönnum þeirra sem nær allt létu yfir sig ganga gagnrýnislaust. Þessir flokkar breytast ekkert til batnaðar þótt Þorgerður sé hrakin af vettvangi og mun  líklegra er að Sjálfstæðisflokkurinn batni ekki við það.

 

Hinir kusklausu VG- ingar berja sér á brjóst og dáðst að hreinleika sínum. Telja sig óspjallaða með öllu en óspjöllun þeirra er vitanlega fyrst og fremst komin til af því að þeir gerðu ekki neitt, komu hvergi að neinu nema því þá helst, að stunda hina alþekktu íslensku fjósbitapólitík er hrunið var orðið. Er þeir voru komnir í ríkisstjórn að loknum kosningum tóku síðan aðrir að sér dvölina á fjósbitanum og sannaðist þar, sem svo oft áður ,,að maður kemur í manns stað” þó ekki sé það alltaf til gagns.

Í fljótu bragði lítur út fyrir að á þingi Íslendinga starfi fjórir stjórnmálaflokkar, en ekki er alltaf allt sem sýnist og draga má í efa að svo sé í raun. Hlutverk þeirra er að minnsta kosti æði misjafnt og undanfarna áratugi hefur það verið þannig að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur eru fyrst og fremst í hagsmunagæslu á meðan hinir – Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag að ógleymdum ýmsum minni flokksafbrigðum voru aðallega í því að rótast í hugsjónaeldi, sem að mestu gekk út á að þar plokkaði hver augun úr öðrum. Á þessu hefur á síðustu árum orðið breyting með tilkomu Samfylkingarinnar sem stofnuð var gagngert í þeim tilgangi að binda enda á þá gjörningahríð sem ríkt hafði meðal vinstri manna.

 

Eftir sat hins vegar hópur fólks sem ekki telur sig geta átt samleið með öðrum jafnaðarmönnum. Þau virðast telja að hinn eini sanni rétttrúnaður felist í afstöðu þeirra og að aðrir fari villu vegar. Vegna þessa tóku þau það til bragðs að stofna sérstakan flokk um sjónarmið sín og til að flokkurinn höfðaði sem best til þeirra sem sérstaklega bera hag náttúrunnar fyrir brjósti var flokknum valið hið furðulega nafn: Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

 

Ekki er auðséð að flokkurinn hafi risið undir nafni, a.m.k. ekki varðandi „vinstri” hlutann í nafninu. Það felst ekki neitt sérstaklega mikil vinstrimennska í því að vera alltaf og ævinlega á móti hugmyndum sem skapað geta atvinnu fyrir vinnandi alþýðu, en sú afstaða hefur verið gegnumgangandi í málflutningi þeirra. Nú eru þau komin í ráðherrastólana og ef einhver hefur haldið að þá myndu þau sýna ábyrgð, fer hinn sami villur vegar eins og sést vel á vinnubrögðum umhverfisráðherranns. Hann hefur sýnt, með vinnubrögðum sínum, að hjá hinum Vinstri- grænu - hvað svo sem það stendur fyrir - er allt við það sama og þar situr allt fast í kreddufestunni.

 

Þessu hafa þau kynnst sem unnið hafa að skipulagsmálum í hreppunum við neðanverða Þjórsá og þau hafa einnig kynnst því sem hafa verið að reyna að þoka áfram framkvæmdum á Suðurnesjum. Örlítil glæta virðist þó hafa smogið inn í hugarheim ráðherrans síðustu daga, því nú hafa borist fréttir af að hún hafi samþykkt vegaframkvæmdir sem tengjast virkjununum og væri svo sem ekkert nema gott um það að segja, ef  ekki kæmi annað til. Þannig er nefnilega að framkvæmdirnar sem um ræðir, tengjast fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum og skipulagið er kostað af framkvæmdaraðilanum. Kostunarþátturinn var það sem ráðherrann setti svo mjög fyrir sig er hún hafnaði skipulagi því sem tók til virkjanaframkvæmdanna, en nú virðist það ekki lengur fara fyrir hið vinstri græna brjóst ráðherranns.

 

Hinn kusklausi flokkur VG, hreykir sér af því að hafa hvergi nálægt komið stjórn landsmálanna undanfarin ár og landsmenn mega þakka forsjóninni fyrir það. Framkoma flokksins, eftir að hann komst illu heilli í ríkisstjórn, bendir ekki til að það kunni góðri lukku að stýra að hafa hann við stjórnvölinn. Dæmin blasa við. Hér var drepið á stjórnsýsluafrek ráðherrans sem fer með umhverfismálin, en stóra málið var ekki nefnt: Icesave. Flokkurinn hefur reynst vera fullkomlega ófær um að afgreiða það mál og kemur víst fáum á óvart.   

 

Að VG hreyki sér af kuskleysi varðandi bankahrunið er í besta falli ódýrt. Þeir sem ekkert gera, ekkert geta hugsað sér að gera og jafnvel geta ekki látið sér detta neitt í hug að gera. Gera vitanlega ekkert rangt, eða hvað? Afstöðuvilla þeirra til lífsins felst einmitt í því að þora aldrei að stíga skrefin sem stíga þarf, af ótta við að taka röng skref. Þeim sést yfir þá einföldu staðreynd að afstaðan felur í sér stöðnun eins og æ betur er að koma í ljós.

Hringavitleysa

9. apríl 2010

Frá því er greint á vef Mbl.is að búið sé að finna upp kindur sem rýi sig sjálfar og hlýtur það að teljast góð nýjung í allri kreppunni. Næsta skref verður eflaust að ræktaðar verði upp kindur sem éti sig sjálfar og verður þá varla lengra komist í að fullkomna landbúnaðinn. Ekki ónýtt, ef vel tekst til, því þá geta bankar landsins í framhaldinu átt von á að svínaræktin fylgi í kjölfarið og svínin éti sitt eigin beikon, hamborgarahrygg og svínarif.

Þegar landbúnaðurinn verður kominn á þetta stig verður ,,offramleiðsla” fortíðarhugtak sem afar og ömmur framtíðarinnar þurfa að skýra út fyrir barnabörnum sínum með mikilli fyrirhöfn. Bankastarfsemi verður hins vegar vafalaust áfram jafnvitlaus og oftast áður og þar á bæjum geta menn dundað sér við að framleiða svín fyrir svín – eins og kannski hefur alltaf verið gert – án þess að nokkur von sé um að framleiðslan skili hagnaði. Áfram verður hægt, sem ávallt áður, að halda starfseminni gangandi með naglakreistum á almenningi meðan hinir útvöldu tútna út.

Þegar hér verður komið, verður málum landbúnaðarins best komið undir viðskiptaráðuneyti, enda svínaríið hvort eð er komið til bankanna. Hinn hugumstóri og vopnfimi súrmetisaðdáandi í landbúnaðarráðuneytinu getur þá ásamt meðreiðarsveini sínum úr Dölunum snúið sér að öðru, flestum til léttis, nema vitanlega framsóknarmönnum allra flokka, þeim sem ætíð vilja hafa allt eins og það hefur verið frá fornu fari. Hinum, þeim sem léttir við breytinguna, mun líða betur sem því nemur að forneskjan minnkar og hagkvæmni eykst í rekstri samfélagsins.

Atvinnuleysi mun, svo dæmi sé tekið, hverfa mjög auðveldlega og ef eitthvað skyldi nú fara á því að bera, þá er ekki annað að gera en skella mannskapnum í svínarækt eða kinda og allir munu una glaðir við sitt. Hvað getur svo sem verið göfugra en að framleiða svín fyrir svín og prjóna flíkur úr sjálfprjónandi ull af sjálfrúnum kindum?

Fyrirmyndin að þessum starfsháttum liggur fyrir. Bankastarfsemi á Íslandi varðar veginn. Þar hefur ætíð verið haft að leiðarljósi að sem minnst vit sé í því sem gert er, því er hægt að sækja sér þangað ómældan fróðleik um hringavitlausa starfshætti ef á þarf að halda.

Ef það dugar ekki til þá má bregða á það ráð að koma á samsteypustjórn Sjálfstæðis, Framsóknar og Vinstri grænna, því slík samsuða leysir allan vanda með því að búa til annan verri og þá verður allt gott, eða er það ekki?

_ _ _

Fréttir berast nú af því að haustmaður Íslands sé flúinn úr landi og að ekki sé von á honum heim aftur alveg í bráð. Hvort hinn sérkennilega og fylgispaka málpípa hans og einn einarðasti talsmaður frjálshyggju og einkavinavæðingar er farinn líka hefur ekki spurst.

Er kannski komið að því, að aðrar og stærri þjóðir fái nú að njóta hæfileika íslensku  snillinganna?

Er annar þáttur útrásarinnar kannski að hefjast?

Fyrrverandi dýramálaráðherra, sem nú orðið talar mest til landa sinna af Klörubar á Kanarí, talar fyrir því að stofnuð verði „sérstök öldungadeild fyrrverandi alþingismanna”. Telur Guðni heppilegt að hinir afdönkuðu stjórnmálamenn komi saman með reglubundnum hætti til að miðla af reynslu sinni. Líkast til er ætlunin að miðlað verði kunnáttu í: Hermangi, helmingaskiptum, einkavinavæðingu, þjóðrembu (d: öryggisráðið og innrásin í Írak), undirlægjuhætti við herraþjóðina, ráni á eigum almennings með gengisfellingum og margt fleira mætti telja. Hvernig framkalla skuli algjört hrun á hagkerfi heillar þjóðar verður eflaust ofarlega á listanum og af því sést að hugmyndin er algjörlega ómissandi og verður að komast í framkvæmd sem allra fyrst eða hitt þó heldur. Guðni áttar sig ekki á því að íslenska þjóðin þarf á öllu öðru að halda en gamaldags íslenskri pólitík, hagsmunagæslu og fyrirgreiðslu. Það er löngu komið nóg af slíku.

_ _ _

Ísland er ekki skógi vaxið land og því er víst að leikritið um dýrin í skóginum hefur ekki verið skrifað með það í huga. Það er hins vegar annað mál, að hrifning Íslendinga af hinum ýmsu dýrategundum er slík að með ólíkindum hlýtur að teljast. Örstutt er síðan að Skötuselurinn var á allra vörum og gullfiskar og hænsn hafa notið mikillar hylli í umræðunni undanfarna mánuði.

 

Það fer eftir ýmsu í hvaða sambandi þessir félagar okkar úr lífríkinu eru nefndir og hefur það bæði verið til hóls og niðrunar. Þannig þykir frekar gott að vera við ,,hestaheilsu”, en hins vegar þykir ekki nein sérstök upphefð í því að vera sagður ,,vera með gullfiskaminni” og þó hundinum sé hampað í tíma og ótíma fyrir tryggð og góðar gáfur er víst ekki mjög fínt að vera ,,hundslegur”. Steininn tekur þó úr hvað varðar rangsleitnina í líkindamálinu þegar komið er að vinsælustu jólasteikinni, því ef virkilega þarf að úthúða einhverjum þá er hann sagður ,,svínslegur” og ekki nóg með það, því ekki þykir verra ef hægt er að segja um hann: að viðkomandi sé sóði sem svín. Svínin eru, eins og flestir vita, einhverjar hreinlegustu skepnur sem mannskepnan hefur valið sér til samneytis, þannig að ósanngjarnari getur samanburðurinn ekki orðið. Ekki er þó vitað til að svínin hafi kallað saman fund til að fjalla um málið, en líklega fer að koma að því.

 

Á dögunum komst forsætisráðherra þjóðarinnar svo að orði, að það að hóa saman þingmönnum samstarfsflokksins ,,væri eins og að smala köttum”. Smellin samlíking sem nær allir áttuðu sig samstundis á hve rétt er, því nær ómögulegt er að smala kvikindunum. Ein leið er að vísu fær því hægt er að skelfa kisurnar svo mjög að þær hlaupi endanlega á dyr og leggist út og verði eftir það útigangskettir, en það telst víst ekki vel lukkuð smölun að tapa öllu út í veður og vind. Þegar svo er komið er talið sjálfsagt, að það sem einu sinni voru malandi kisur, séu réttdræpir útlagar og jafnvel gerðir út sérstakir leiðangrar í þeim tilgangi.

_ _ _

 

Jóhönnu er vandi á höndum. Ekki vill hún að svo illa fari að órólega deildin í samstarfsflokknum gerist urðarkettir og því á hún ekki annan kost en að strjúka þeim og klóra í þeirri von að þeir gerist samstarfsfúsir, láti malið nægja og vinni að öðru leiti vinnuna sína.

 

Yfirfressinu í þessu vinstri græna Kattholti er einnig vandi á höndum því það er að honum sótt. Þar fer fyrir gamall þrætubókarkisi sem ekki má vanmeta, en hann er ekki einn á ferð; einn er úr Dölunum og annar úr höfuðborginni og marga fleiri mætti telja. Foringinn þarf því að gæta að sér og halda þeim í hæfilegri fjarlægð, án þess þó að slík styggð komi að þeim að þeir hrökkvi í burtu og komi sér upp sínum prívat kisuhóp.

 

Vinstri grænir héldu fund um ummæli forsætisráðherrans, ekki hefur mikið spurst út, um hvað var malað, en málið er greinilega tekið alvarlega, því hvatamaður fundarins var dýramálaráðherrann sjálfur. Orð forsætisráðherrans vega að vonum þungt í dýraríkinu sem annars staðar og því er ekki að undra að þeir hafi komið saman til malfundar félagarnir í flokki vinstri grænna.

 

Vitanlega er öllum nema vinstri grænum löngu orðið ljóst, að flokkur þeirra er ekki samstarfshæfur í ríkisstjórn, vandinn er bara sá að aðrir kostir hafa ekki verið í stöðunni. Nú er kominn tími til að málin verði skoðuð að nýju og til dæmis kannað hvort Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að átta sig nægjanlega mikið til þess að hann geti talist samstarfshæfur. Hugsandi sjálfstæðismenn eru vissulega til og nú þarf að koma í ljós hvort þeir eru nægjanlega margir til þess að flokkurinn virki. 

Skötuselurinn brosir

29. mars 2010

Hann brosir breitt, enda kjafturinn glæsilegur, hvernig sem á er litið, víður og vel tenntur og hentar einkar vel til síns brúks. Það hafði aldrei að honum hvarflað, þar sem hann lúrir og bíður eftir næringunni að frægðarsól hans ætti eftir að skína svo skært og sterkt sem raun ber vitni. Hvernig hefði honum svo sem átt að detta í hug, að hann ætti eftir að verða bæði frægur og vinsæll.

 

Líklega veit hann minnst um það sjálfur, hve frægur hann er orðinn og eflaust hefur hann enga hugmynd um hve tilvera hans hefur megnað að hækka blóðþrýsting mannveranna. Satt að segja snýst líf hans fyrst og fremst um það að lifa af og líklega veltir hann því ekki fyrir sér hve yndislegt og göfugt það er, að vera étinn í endalausum matarveislum. Þaðan af síður leiðir hann hugann að því hve gaman það verði að vera fluttur út eftir að hafa  verið drepinn. Nei, hann spekúlerar ekki svo mjög í þessu, enda heimur hans allmjög frábrugðinn heimi þeirra sem á yfirborðinu búa, svo frábrugðinn að hann hefur ekki hugmynd um að til sé LÍÚ., né nokkur önnur hagsmunasamtök. Það hefur nefnilega ekki verið til siðs að stofna til bandalaga þarna niðri og peningar hafa ekki verið innleiddir og samfélagið er fremur fábrotið.

 

Samt er svo komið, að líf þessa munnstóra og brosmilda náunga hefur öðlast algjörlega nýjan tilgang, göfugan og að mörgu leyti merkan. Það hefur komið í hans hlut að kollvarpa tilveru kvótagreifa og gefa lífi ráðherra á eyjunni aukið gildi. Viðkomudugnaður skötunnar, sem ekki er skata og selsins, sem ekki er selur, hefur fært ráðherranum vopn í hendur í baráttunni við greifana og aldrei þessu vant eru ráðherrar, þingmenn ríkisstjórnarinnar, fylgismenn og margir fleiri sammála. Sammála um að drepa hið brosmilda dýr, éta það síðan og það sem ekki verður komist yfir að éta, verður flutt til annarra landa.

 

Svona geta nú vegir lífsins verið óútreiknanlegir. Af því að fiskur í sjónum gerist duglegur við að eðla sig og fjölga - þrátt fyrir að hafa aldrei átt þess kost að bregða sér á súlustað til upplyftingar og örvunar -, þá fer nánast allt á annan endann. Fram til þessa hefur hann stólað á að hans stóri og allt að því sjálfstæði kjaftur sæi til þess að tryggt verði að hann komist af og verði ekki étinn. Kjafturinn gagnast honum best til að éta aðra. Allt er í heiminum hverfult og hann sem hefur verið svo duglegur við að éta og fjölga sér, sér nú fram á að það verði til einskis. Hinum nýju þjóðfélagsþegnum verður útrýmt af dýrategund, sem býr ekki einu sinni í hafinu og aldrei hafði honum dottið í hug að það væri aðalatriði málsins hver fengi að njóta þess heiðurs að veiða hann, drepa og éta.

 

Einfaldur og saklaus skötuselur getur ekki alltaf skilið hve lífið er flókið. Kannski eins gott. Hann unir nefnilega glaður við sitt þrátt fyrir og kannski vegna þess að hann þekkir ekki LÍÚ og SA, né önnur samtök mannskepnunnar. Það þykir gott að vera vinsæll, en hvort það er gott að vera vinsæll til þess að verða drepinn og étinn er ekki víst og líklega kemur það út á eitt fyrir skötuselinn hver það verður sem náðarinnar nýtur. Hann bara brosir sínu blíðasta og bíður eftir næstu bráð og það gera þeir vafalaust líka sem vilja fá að veiða hann, það er að segja: Bíða eftir næstu bráð, en ekki eins öruggt með brosið.

__ __ __

 

Ráðherra súrmetisins og sjávarútvegs hefur nýlega tekið þá ákvörðun að aldrei þessu vant verði kvótagreifum Íslands ekki færður aukinn veiðiréttur á skötuselnum á silfurfati. Þess í stað verði væntanlegir veiðendur  að greiða fyrir réttinn og í framhaldi af því hrína greifarnir líkt og frekir dekurkakkar og telja illa með sig farið. Hér stígur ráðherrann skref í átt til breytinga á íslensku samfélagi sem ástæða er til að styðja. Það er löngu tímabært að afnema núverandi kerfi og hvert eitt skref sem stigið er á þeirri leið er í rétta átt. Átt frá forréttindasamfélaginu.

Á árunum 1873 til 1905 flutti 1/5 hluti þjóðarinnar til Vesturheims í leit að betri lífsskilyrðum. Fólkið flúði allsleysi og örbyrgð sem var slík, að nútímafólk á ekki gott með að setja sig í þau spor. Flest hefðu eflaust kosið að eiga áfram heima á Íslandi ef upp á það hefði verið boðið, en það var ekki gert. Hið niðurnjörvaða, aldagamla bændasamfélag hafði enga burði til að taka á vandanum, atvinnulífið var fábreitt og hafði sáralítið þróast frá landnámi.

 

Því er oft haldið fram að íslenskt samfélag sé stéttlaust. Þannig er það vitanlega ekki og hefur aldrei verið og kjörorð Sjálfstæðisflokksins ,,stétt með stétt” og ekki síður slagorð málgagns flokksins „blað allra landsmanna”, eru ekkert annað en ómerkilegar blekkingar til þess eins ætlaðar að slá ryki í augu fólks.  Í lok 19. aldar hugsaði íslensk eignastétt fyrst og fremst um eigin hag – gat kannski lítið meira – og því var það að hin snauða lágstétt átti nær engan annan kost en að flytja úr landi.

 

Samfélagið var, rétt eins og nú, byggt var upp á því að arðræna hina eignalausu og niðursettu með illa launuðum þrældómi og lítilsvirðingu. Til eru óteljandi sögur af því hvernig hinir betur settu svo sem  jarðeigendur, klerkar, hreppstjórar og embættismenn, níddust á þeim sem minnimáttar voru, bæði í orði og æði. Nauðganir, barsmíðar og vinnuharka voru daglegt brauð, veruleiki sem ekki varð undan vikist. Því var það að fjölmargir tóku þann eina kost sem í boði var að leggja út í óvissuna, flýja eymdina og finna sér stað í öðru landi í von um betra líf.

 

Þannig var staðan þá og þó ýmislegt hafi breyst, þá er æði margt líkt með því sem nú er. Eignastéttin og meðreiðarsveinar hennar eru til dæmis söm við sig og hugsar fyrst og fremst um að raka til sín þeim verðmætum sem til eru í þjóðfélaginu. Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt dæmi, þar vilja þau engu breyta. Hvers vegna? Vitanlega vegna þess að aðgangur og einokun þeirra á auðlindinni er ein undirstaða auðsins. Fyrirhugaðar breytingar á stöðu skuldara gagnvart eignastéttinni fara örugglega ekki vel í þau heldur og hvers vegna skyldi það vera? Getur verið að þeim finnist að ógn stafi af því að alþýðan fái betri stöðu gagnvart þeim, líkt og bændaaðlinum forðum?

Í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins kemur þetta nokkuð vel fram og augljóst er að skjálfti er kominn í eignaelítuna og kvótagarkana. Þeim finnst að sér sótt og því þétta þau raðirnar og Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með um 40% fylgi. Þessu ættu menn að veita athygli. Annar hagsmunagæsluflokkurinn er að þjappa sér saman, líkt og hjörð sem er ógnað af utanaðkomandi hættu. Hitt vekur furðu, að hinn  hagsmunagæsluflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, stendur í stað og raunar mun gert ráð fyrir að hann tapi einu þingsæti samkvæmt þessari talnaleikfimi. Yfirstétt landsins finnst að stöðu sinni sé ógnað, að ekki sé tryggt að hér eftir sem hingað til verði samfélagið sérstaklega sniðið að hennar þörfum.

 

Þau sem settu þjóð sína á höfuðið vilja nú samt sem áður ekki finna á eigin skinni fyrir afleiðingunum. Peningamarkaðssjóðunum var á sínum tíma ,,bjargað” í þágu hinna ríku, því ekki getur það hafa verið gert fyrir þá sem ekkert í þeim áttu, en auðvitað er það ekki nóg. „Mikill vill meira” og gera má ráð fyrir að stríðið sé rétt að byrja, að nú muni eignastéttin gera það sem hún getur til að ná vopnum sínum og þó ekki væri nema vegna þess, þurfa fulltrúar hinna, þeirra sem ekki velta sér í skuldlausum stóreignum, né liggja með fúlgur fjár í Tortólum heimsins, að standa saman. Ekki gengur að hlaupa eftir villuljósum, né vefjast í valkvíða og ákvarðanafælni. Það er enn í fullu gildi hið fornkveðna: að þegar íhaldið skjallar skyldu menn vara sig og hugsa sinn gang.

 

Það þurfa þau að hafa í huga sem flaðra upp um þjóðrembingsfólkið í Heimsýn og það þurfa þau líka að hafa í huga, sem ekki hafa kjark til að taka einarða afstöðu í Icesave málinu. Að telja sér trú um að sjálfstæðismenn- eða framsóknar taki heiðarlega afstöðu í því máli er ekkert annað en blekking, sem haldið er uppi af þeim sem bjuggu vandann til og eiga sér þá einu ósk, að komast aftur til valda í stjórnarráðinu, til þess eins að geta tekið til við að hylja slóð sína.

 

Gömlu hermangs og helmingaskiptaflokkarnir vilja engu breyta sem verður til þess að skerða  forréttindin sem þeir hafa skapað sér á umliðnum áratugum. Því er það að gera verður ráð fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar séu í raun eitur í þeirra beinum, þó ekki væri nema vegna þess, að þær miða að því að skapa samfélag þar sem forréttindum hinnar gömlu eignastéttar verða settar skorður.

 

Máltækið segir „að þangað leiti klárinn sem hann er kvaldastur” og ef niðurstaðan verður sú að hrunflokkarnir komast aftur til valda má til sanns vegar færa að það sé rétt.