Landsvirkjun greiðir arð.
23. apríl 2020
Þegar að þrengir getur verið gott að vel sé búið; að eggin séu ekki öll í einni körfu, og nú sést hve rétt það er.
Samkvæmt því sem lesa má í vefritinu Kjarnanum, bregður svo við að Landsvirkjun greiðir 10 milljarða arð í ríkissjóð.
Vissulega er það sem dropi í það útgjaldahaf sem ríkissjóður stendur frammi fyrir þessa dagana, en eigi að síður: það munar um allt.
Og þá verður manni hugað til þeirra sem hafa haldið uppi sífelldu niðurnagi í garð virkjana, virkjanaframkvæmda, orkufrekra iðjuvera (s.s. álvera); þeirra sem lagt hafa sig fram um að kippa stoðum undan íslensku samfélagi.
Allt í nafni ,,umhverfisverndar” og ósnertrar náttúru sem þeir telja sig hafa fundið upp og að sé hreint út um allt, nema þar sem mannskepnan hefur stigið fæti. Sést yfir, að það er fleira sem veldur breytingum á náttúrunni en athafnir manna.
Og að sumt er það til hins verra, en annað til hins betra.
Náttúruöflin spyrja ekki Umhverfisráðuneytið um leyfi til að bylta sér og við þekkjum jarðskjálfta og eldgos, sem valdið geta stórfelldum breytingum á örfáum dögum og vikum og stundum mánuðum. Geta jafnvel staðið yfir í enn lengri tíma.
Við erum svo heppin að framsýnt fólk hefur stigið fram og drifið af stað framkvæmdir þjóðinni til hagsbóta þegar syrt hefur í álinn og þjóðin öll eða einstakir landshlutar, hafa verið í efnahagslægðum með meðfylgjandi atvinnuleysi og rýrum kjörum.
Þannig var staðan þegar farið var í að byggja Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík. Sama má segja þegar framsýnt fólk gekk fram til þess að koma atvinnulífi á Austfjörðum úr þeirri lægð sem það var búið að vera í um skeið. Niðurstaðan var að byggja Kárahnjúkavirkjun, glæsilegt mannvirki, og í tengslum við hana var byggt álverið í Reyðarfirði.
Gengið var í að virkja náttúruöflin þjóðinni til hagsbóta í þessum tilfellum og þau eru ágæt dæmi um það sem vel hefur tekist. Margt fleira mætti til taka en hér verður upptalningunni lokið í bili a.m.k., en við skulum samt ekki gleyma sjávarútvegnum, þar sem náttúruauðlind er nýtt á glæsilegan hátt og það svo að til fyrirmyndar er talin víða um heim.
Enn eru þau samt að, þau sem úr öllu vilja draga, telja flest ef ekki allt sem gert er ósæmileg inngrip í náttúruna og landið sjálft.
Náttúruöflin og náttúruna sem spyrja enga blekbusa um hvernig þau megi haga sér; gjósa og skjálfa og flæða, þegar þeim er mál og spyrja einskis.
Þar með er ekki sagt að gera megi hvað sem er og hvenær sem er, en við ættum að forðast að sökkva niður í kerfisdrepandi smásmugulega úrtölupólitík og gera það sem gera þarf til að gott sé að búa í landinu okkar.
Lifa í og af landinu og gera það á sem bestan hátt, en tryggja jafnframt að þeir sem sífellt sjá ekkert nema trén í skóginum - en alls ekki skóginn sjálfan - nái ekki að drepa allt í dróma.
Fiskað í gruggugu vatni.
5. apríl 2020
Stundum falla menn í að ,,fiska í gruggugu vatni“ og nú er sem veirufaraldurinn hvetji til slíkra drauma. Drauma um afturhvarf til fortíðar.
Fortíðarþrá Framsóknarflokksins er þekkt og hefur birst í ýmsum myndum, flokkurinn hefur a.m.k. tvö andlit og er þekktur fyrir hentistefnu af margvíslegu tagi.
Vegna þess hve tvöfalt roð flokksins er, getur vel verið að fullyrðing Sigurðar Inga Jóhannssonar standist, þ.e.a.s. að Framsóknarflokkurinn hafi barist fyrir þeirri stefnu lengi að loka landamærum. En flokkurinn hefur eins og við munum, líka barist fyrir opnun landamæra og því að auka innflutning landbúnaðarvara svo sem sannaðist ágætlega árið 2015.
Mörgum er minnisstæð einlæg gleði Sigurðar eftir að hann hafði lokið samningum við ESB um mikla rýmkun fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum. Innflutning þeirra búgreina sem líklega teljast vera ,,óhreinu börnin” í landbúnaðinum samkvæmt skilgreiningu Framsóknarflokksins.
Afurðir þeirra húsdýra sem ekki jarma og ekki ganga óheft um landið og ekki á heiðum uppi…
Því er óhætt að segja að öllu megi nú nafn gefa og líklega má segja að hér eigi vel við brot úr slagara, þar sem segir ,,bara þegar hentar mér” þegar því er haldið fram af formanni flokksins að:
,,„Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessari stefnu mjög lengi [,,að leggja áherslu á innlenda framleiðslu“]. Ég held að nú muni hljómgrunur fyrir slíkum sjónarmiðum vaxa og menn skilja af hverju við höfum verið að leggja áherslu á innlenda framleiðslu og þar með stuðning við bændur.“”(!)
Og síðan:
,,„Ég held reyndar að fyrirtækin okkar, og þá er ég ekki að tala um einstaka bændur því þeir eru í raun lítil fyrirtæki, heldur er ég að tala um afurðastöðvar í landbúnaði, enn frekar í sjávarútvegi, hafi ekki nægjanlega verið að horfa á nýsköpun, sækja fjármagn og koma með fjármagn og ýta undir þær hugmyndir sem þar eru.“
Ekki bændur því þeir eru lítil fyrirtæki, ekki menn sem reka lítil fyrirtæki og þetta er líka nokkuð gott: ,,sækja fjármagn og koma með fjármagn”.
Stjórnmálamenn tala stundum einkennilega, enda eru þeir að ,,prédika” og ,,boða” og við erum vön því!
Ekki er gott að segja hvað er best í þessu, en ef það sem kemur á eftir er ekki gott gullkorn, þá notum við bara einhverja ódýrari málma til viðmiðunar:
„Við eigum að forðast það að merkja alla peningana inn í háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að við verðum að horfa á það að koma nýsköpunarfjármunum lengra út á land.“
Er ekki verið að skjóta föstum skotum á varaformann Framsóknarflokksins og menntamálaráðherrann?
Skipti á búgreinum?
29. mars 2020
Í Morgunblaði dagsins (20.03.2020) er viðtal við nýlega kjörinn formann Bændasamtaka Íslands. Nú skal það ekki fullyrt hér að viðtalið sé endanlega lýsandi fyrir það sem koma skal.
Formaðurinn er nýlega tekinn við formennsku í samtökunum og vel getur verið að hann sé ekki fyllilega búinn að ,,máta stólinn” ef svo má segja. Þannig er, að Bændasamtökin eru ekki heildarsamtök landbúnaðarins í raun og hafa ekki verið um áratugaskeið, þó svo að reynt hafi verið að láta svo út líta. Nema að þarsíðasti formaður reyndi að breyta því að nokkru, og gerði sér far um að hafa samstarf og samvinnu við greinarnar sem alla tíð hafa verið utanveltu í samtökunum, þ.e.a.s. allar nema sauðfjárræktina, nautgriparæktina og garðyrkjuna og í þessari röð, og kannski hefur hrossaræktin fengið að fylgja með á góðum stundum.
Í fyrrnefndu viðtali bendir hinn nýkjörni formaður á, að vegna ástandsins sem er í heiminum vegna COVIT-19 finnist honum jákvætt, ef ríkisstjórnin sýni landbúnaðinum skilning. Og segir: ,,[…] Bændasamtökin og Samtök garðyrkjubænda haf[a] kallað eftir því að brugðist verði strax við takmörkun á innflutningi grænmetis með því að bæta í niðurgreiðslu flutnkostnaðar rafmagns og auka landgreiðslur til útiræktunar grænmetis. Þannig sé hægt að auka framleiðslu innanlands en það taki tíma.(svo!) Þá hafi Bændasamtökin óskað eftir auknum framlögum til Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins vegna þeirrar vinnu sem hún hafi lagt í vegna faraldursins en ekki sé hægt að innheimta hjá einstökum bændum.”
Formaðurinn var kjörinn á Búnaðarþingi nýlega og kemur úr röðum garðyrkjubænda og samkvæmt því sem hér segir er hugur hans talsvert bundinn við þá búgrein. Vill að ríkið takmarki innflutning á grænmeti og bæti í niðurgreiðslur til þeirrar greinar. Auk þess telur hann þörf á að fá framlög til styrktar rekstri Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins vegna vinnnu sem hún hafi ,,lagt í vegna faraldursins”. Hver sú vinna er eða var, kemur ekki fram í fréttinni, en fróðlegt hefði verið að fá það fram.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ein búgrein hefur fram til þessa verið rekin að stórum hluta, ef ekki stærstum, af ríkinu. Og nú er svo að sjá sem hinn nýkjörni formaður Bændasamtakanna og sá sem kemur úr garðyrkjunni, vilji koma þeirri búgrein í flokk með þeirri grein landbúnaðarins.
Óskandi að það sé ekki rétt skilið, en ef af verður: að þá fari ekki á sama veg og með þá sem nú er rekin með opinberri markaðsskrifstofu til útflutnings- og innanlandsbrölts við markaðssetningu afurðanna.
Að minsta kosti má reikna með því, að grænmetið verði ekki ræktað á uppblástnu hálendinu.
Verði það úr og að á sama veg fari, er sem ekkert hafi breyst við kjör til formennsku í samtökum bænda; við að fá til forystu fulltrúa úr annarri búgrein en sauðfjárræktinni, annað en, að nú verði það garðyrkjan í stað sauðfjárræktarinnar verði sett í fyrsta sætið og í framhaldinu á fjálög ríkisins.
Fari svo, eru vonir um að samtökin þróist til Bændasamtaka allra bænda, í stað hluta þeirra, farnar út um þúfur.
Hjólbörur úr steinsteypu.
16. mars 2020
Hjólbörur úr steinsteypu.
Sem barn man ég eftir stórum þungum heimasmíðuðum hjólbörum, sem voru með hjóli sem var lítið járnhjól úr steypujárni með gegnheilum og þunnum gúmmíborða.
Sá sem átti þessar börur var afi minn, stór og sterkur maður sem fór létt með að nota þetta verkfæri og það þó fullar væru af möl; hafði smíðað þær og raðað saman með því sem til var, enda efnin lítil en sjálfsbjargarviðleitnin næg. Fólk af þeirri kynslóð sem í heiminn kom um þar-síðustu aldamót reyndi að bjargast með því sem bauðst og hrópaði ekki í sífellu á aðra sér til bjargar eða til að kenna um.
Einkabíllinn var gamall Pontiac, sem við fórum á allar okkar ferðir og ég hafði það hlutverk að skipta í ,,þriðja“, svo því sé nú ekki gleymt! Sat vitanlega frammí og amma afturí og sjálfsagt hafa þau bæði haft lúmskt gaman að litla barnabarninu. Þetta var á þeim árum þegar ekki var búið að njörva samfélagið niður með reglugerðabunkum sem enginn sér yfir, né skilur til fulls.
Bílnum breytti afi minn síðan í pallbíl með því að skera aftan af húsinu, enda orðinn leiður á að troða þungum gaskútum inn í bílinn fyrir framan aftursætið. Hann var járnsmiður og var stundum að gera eitt og annað fyrir aðra, auk þess sem hann vann í Vélsmiðjunni Héðni hf.
En aftur að hjólbörunum.
Það er algjörlega útilokað að honum afa mínum hefði komið til hugar að smíða sér hjólbörur úr steinsteypu, því þó stór, sterkur og hraustur væri, hefði hann talið það óðs manns æði!
Afi var ekki menntaður í nýjustu tækni og vísindum þeirra tíma sem við sem nú erum á dögum, lifum á, en viss er ég um að hann hefði sett mörg spurningarmerki við að búa til bíla þar sem í væri troðið í hvert skúmaskot níðþungum rafgeymum til að rennireiðin kæmist með nokkrar hræður smá spotta og yrði þar síðan um langan tíma í hleðslu til að hægt væri að endurtaka leikinn og þannig koll af kolli.
Enn er ekki búið að finna upp rafgeymi sem er álíka þungur og bensíngeymir og inniheldur sambærilega orku og hann. Þetta vita allir sem vilja vita og jafnvel líka íslenskir ráðamenn sem gera það sér til öflunar vinsælda að fella niður skatta og gjöld af rafbílum, sem eru því miður mislukkuð fyrirbæri sem munu renna sitt skeið og hverfa, nema til komi uppfinningar sem engum sögum fer af.
Missum samt ekki móðinn, því líklegt er að lausnir séu handan við hornið t.d. í líki vetnis og metan og verði það raunin, mun sú lausn duga fyrir lítil sem stór ökutæki og brenna því sem er til óþurftar í andrúmsloftinu.
Skattleggjum rafbílana svo sem eðlilegt er með tilliti til vegaslits og gjalda sem eru lögð á önnur ökutæki og hættum að auka mismunun í samfélaginu með niðurfellingu gjalda fyrir þau efnameiri, á kostnað þeirra sem minna hafa handa milli.
Heimsóknin
5. september 2019
Við lifum á skrítnum tímum.
Í loftinu birtist svermur af flugvélum sem setjast síðan hver af annarri á flugvöllinn í Keflavík. Flugvöll sem einu sinni var herflugvöllur, þéttsetinn af herflugvélum vegna þess að það var stríð.
Nú er ekki stríð sem betur fer, ekki í okkar heimshluta, en ýmislegt gengur á annarsstaðar s.s. í Sýrlandi þar sem er alltaf sumar, en það er önnur saga.
Ein af flugvélunum ber af öðrum, er í raun farþegaflugvél og í henni er farþegi og fylgdarlið.
Þessi aðalfarþegi er bara aðal hér, þessa stundina, en ekki aðal heima hjá sér, því þar er hann ,,vara“ og svo það sé nú skýrt tekið fram þá er hann varaforseti; forseti sem gripið er til ef ef sá sem er aðal forfallast af einhverjum ástæðum, en það er ekkert sem kemur málinu við þessa stundina.
Taugaspenntir byssumenn stilla sér upp tilbúnir að grípa til sinna ráða ef einhver myndi gera sig líklegan til að vera með varasama hegðun af einhverju tagi.
Jakkafataklæddi varamaðurinn hittir íslenska ráðamenn utanríkisráðherra, borgarstjóra (sem kom á reiðhjóli varamanninum til furðu), forseta sem bar dularfullt armband og konu hans sem klædd var í hvítt (það mun tákna eitthvað), utanríkisráðherra (sem ekki meðtók boðskapinn varðandi belti og axlabönd eða var það braut og belti eða símaframleiðandi eða bara eitthvað annað? Hver veit þegar enginn veit?) og ekki má gleyma forsætisráðherra sem að sögn þeirra sem með fylgdust horfði beint í augu gestsins!
Og það var spjallað, sest í stóla og slegið á létta strengi.
Á eftir ræddu menn við blaðamenn og gesturinn sagði eitt, en íslenski utanríkisráðherrann annað, eins og: nokkrum sinnum ,,ónákvæmt“, enda ekki kominn á fríverslunarsamningur við USA-ið en slíkur er í gildi við Kína.
Grænland var ekki til sölu og vonandi ekki Ísland heldur og þó og hver veit ef vel er boðið?
Gesturinn fer og allt fellur í ljúfa löð, en heima situr aðalforsetinn og lætur sig dreyma um hve sætur og huggulegur forseti N-Kóreu sé inn við beinið og hve gaman væri að sprengja fellibyli í tætlur með kjarnorkusprengju og þegar hann nær því ekki fram: þá breytir hann bara ferð þeirra á veðurkortinu.
Segi menn svo að tíðindalaust sé hér á hjaranum og í heiminum öllum!
Bjargvættur þjóðar?
15. ágúst 2019
Guðfinna Harpa Árnadóttir formaður Landsambands sauðfjárbænda, ritar grein í Fréttablaðið til andsvara við grein sem Guðmundur Steingrímsson hafði áður ritað í sama blað.
Lesa má út úr grein Guðfinnu, að sauðfjárrækt er landbúnaður og að íslenskur landbúnaður er sauðfjárrækt og ætti það ekki að koma mörgum á óvart sem þekkja til.
Guðfinna segir sauðfjárræktina vera: ,,samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni” og virðast þau tengsl vera með einhverjum dularfullum hætti og þó ekki, því ferðamennirnir munu hafa smakkað lambakjöt samkvæmt könnun sem framkvæmd var af Icelandic Lamb og niðurstaðan varð sem vænta mátti: að það hefðu margir þeirra gert, þ.e. smakkað.
Nokkuð var fjallað um þessa merkilegu niðurstöðu í Bændablaðinu á sínum tíma og komst ritstjóri blaðsins m.a. að eftirfarandi niðurstöðu í umfjöllun sinni um málið:
,,Engin leið er að segja nákvæmlega til um hver neysla erlendra ferðamanna hefur verið á innlendu alifuglakjöti vegna þess að 11% af heildarsölunni er innflutt kjöt. Ekki frekar en hver neyslan hefur verið á innlendu nautakjöti eða svínakjöti.”
Sem sagt ,,engin leið“ komast að því hver neyslan væri á þessum kjöttegundum vegna þess að þær væru líka fluttar inn. Rétt er í þessu sambandi að rifja upp að erlendu ferðamennirnir voru ekki spurðir um neyslu að öðru leyti en því hvort kjötið hefði verið smakkað.
Bændablaðið hélt síðan áfram umfjöllun sinni og upplýsti lesendur um eftirfarandi:
,,Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt.”
Það er sem sagt ekki hægt, en er samt hægt!
Og tökum nú eftir, að ekki var spurt um þá kjöttegund sem mest er neytt af, það er að segja alifuglakjöt.
Líklegt er að í framtíðinni verði þessi könnun notuð sem skólabókardæmi um það hvernig ekki eigi að vinna könnun af þessu tagi. Það er að segja, ef hún þá verður talin þess virði.
Sauðfjárræktin, sem er til umræðu í greinum Guðfinnu og Guðmundar er í miklum vandræðum. Vandræðum sem stafa af því að enginn markaður finnst sem greitt getur það verð sem þarf fyrir þann þriðjung framleiðslunnar sem er umfram innanlandsþörf og sem er haldið uppi með greiðslum úr ríkissjóði.
Treyst er á að ríkissjóður greiði í fyrsta lagi það sem þarf til að varan seljist (beingreiðslur, gæðagreiðslur(!), ullartillegg o.fl.), en einnig það sem þarf til að eitthvað hafist fyrir útflutninginn sem um nokkur ár hefur numið um 1/3 af framleiðslunni.
Annar vandi er síðan undirliggjandi, þ.e.a.s. að framleiðendurnir neita að horfast í augu við vandamálið. Horfast ekki í augu við að of mikið sé framleitt, að erlendir markaðir skili ekki því verði sem þarf. Horfast ekki í augu við að búskaparhættirnir séu úreltir og ekki vænlegir til vinsælda. Að það sé t.d. ekki sjálfsagt, að aðrir girði sig af til að verjast fénaðinum sem þeir búa með en ekki öfugt, og að ekki sé eðlilegt að ríkissjóður sé að styrkja fólk sem stundar búgreinina sem sport en ekki sem atvinnuveg og fái síðan greiðslur úr ríkissjóði jafnt og þeir sem eru að reyna að skapa sér atvinnu af henni og síðast en ekki síst: Að kindum sé haldið til beitar á hálendi sem er að fjúka upp vegna skertrar gróðurþekju (og fleira mætti til telja).
Auðvitað þarf að vera matvælaframleiðsla í landinu, en það er af og frá að hana þurfi að stunda í stórum stíl sem gjafagjörning til útlanda og með dýrategund sem gefur af sér afar litlar afurðir á hverja framleiðslueiningu, fer illa með gróður og helst ekki innan girðinga nema að þær séu af dýrustu og vönduðustu gerð.
Formanns Landsambands sauðfjárbænda bíður það erfiða verkefni að finna farsæla leið til að leiða félaga sína út úr vandanum. En ekki að berjast í því, að halda þeim sem fastast inni í gildrunni sem þeir eru fastir í og vitanlega verða þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl, sem ábyrgð bera á að svo er komið sem komið er, að horfast í augu við stöðuna eins og hún blasir við.
Víst getur sú staða komið upp eins og dæmin sanna, að Ísland einangrist frá umheiminum að einhverju leiti. Sagan sýnir að það hefur gerst, en ef það gerist þá felst lausnin ekki í takmarkalítilli sauðfjárrækt. Málið er mun flóknara en svo.
_ _ _
Að lokum vil ég leyfa mér að birta þessa klippu úr grein Guðfinnu Hörpu til umhugsunar:
,,[…] skautað [er] framhjá flestum rökum fyrir því að styrkja innlenda landbúnaðarframleiðslu [í grein Guðmundar]. […] rök eins og eflingu atvinnu á Íslandi og þá sérstaklega atvinnu í dreifbýli […]. Um eða yfir 10 þúsund íslensk störf eru í landbúnaði eða tengd landbúnaði. Þessi störf skila ríki og sveitarfélögum tekjum eins og önnur störf. […]”
Síðan segir:
,,[…]lambakjötsframleiðsla, er samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni í gegnum metnaðarfulla veitingaþjónustu […] og er þar með verulega gjaldeyrisskapandi.”
Gott væri að fá frekari útskýringu á þessu, þ.e.hvernig lambakjötsframleiðsla verður gjaldeyrisskapandi?
C540E7687AAC39213EB7F4309FE538D6
Kindugt uppgræðslustarf
6. júní 2019
Icelandic Lamb birti auglýsingu á Facebook nýlega í formi myndar af fallegu fólki í fallegu umhverfi og allir í fallegum lopapeysum
Skrifstofan Icelandic Lamb er mönnuð fimm starfsmönnum, samkvæmt því sem fram hefur komið í Bændablaðinu. Hefur hún staðið sig svo vel í markaðssetningu á kindakjöti á erlendum mörkuðum að skortur mun vera orðinn á eftirsóttustu skrokkhlutunum. Það mun þó væntanlega eķki koma að sök, því borist hafa af því fréttir, að við því verði brugðist með innflutningi á kindakjöti frá Nýja Sjálandi.
Gott er til þess að vita að kolefnisjöfnun vegna þessara kindakjötsflutninga útflutningsskrifstofunnar, skuli vera svo markvisst og örugglega jöfnuð út, með flutningi á sams konar kjöti inn til Íslands. Kjöti sem flutt er svipaða vegalengd en öfuga leið. Það hlýtur að vinda ofan af þeirri loftmengun sem hlaust af útflutningnum. Mun jafnvel auka loftgæði og ef vel tekst til: núlla kolefnissporið!
Útflutningsskrifstofan fyrrnefnda og ríkisrekna, mun eķki standa að innflutningnum. Hennar hlutverk er að koma hinu einstaka íslenska kindakjöti á erlenda markaði og það gerir hún svo vel að tæpast verður betur gert. Og eins og fram hefur komið þá mun íslenskt kindakjöt nú vera á boðstólum vítt um heim og allt austur til og með Asíu fyrir dugnað og framtak nefndrar skrifstofu.
Með auglýsingunni fylgir mynd af vörumerki útflutningsstofunnar og skoði menn það vel má sjá, að það er talið íslensku sauðkindinni til ágætis, að hún hafi fengið að ráfa frjáls um landið síðan 874.
Það gerir hún enn og er því að vonum að þess sé getið í vörumerkinu.
Ráf íslensku kindarinnar á okkar tímum fer þannig fram að henni er, að mestu leyti, ekið upp fyrir afréttargirðingar og sleppt þar til að ráfa um gróðursnautt hálendið.
Samkvæmt því sem lesa má á Facebook í færslum sumra sauðfjárbænda, býr sauðkindin yfir þeim undraverða eiginleika að hún bæði eykur og bætir þann gróður sem hún slítur upp og græðir þannig landið sé þess þörf. Það er hins vegar alls ekki er víst að slík þörf sé til staðar. Því sé tekið mark á því hve gott ástand gróðurþekjunnar er á hálendi landsins að sögn a.m.k. sumra þessara færsluritara þar um, er slík umbóta og uppgræðslubeit alls óþörf.
Engin ástæða er til að efast um þessi sannindi, því eins og allir geta séð er sandfok af hálendinu yfir lönd og haf að mestu leyti hætt og það sem greinist stundum t.d. í sunnlenskum sveitum í því efni, mun vísast koma undan nagladekkjum bifreiða í Reykjavík.
Það mun fyrst fjúka til norðurs og þaðan til austurs áður en mistrið tekur að endingu stefnuna í suður og á Suðurlandið og eyðist þar.
Það er síðan af hálendiskindunum að segja, að þegar þær eru búnar að ljúka sér af í gróðurstarfi sínu, er þeim að hausti smalað saman með fjórhjólum, mótorhjólum, hestum og hundum og komið til heimahaga með flutningatækjum ýmiskonar og líkum þeim sem notuð eru til að koma þeim til uppgræðslustarfa sinna á hálendinu.
Umferðin sem smalamennskan veldur um hálendið, mun líkt og beit kindanna, hafa græðandi og eflandi áhrif á gróðurinn þar uppi, ólíkt því sem er með umferð villuráfandi þéttbýlisbúa og alræmdra útlendinga sem stundum álpast þar um, sjálfum sér og öðrum til vansa.
Þeir sem þraukað hafa það af að lesa þennan pistil til enda, eru vonandi einhverju nær um ganginn í náttúrunni og skilja líklega núna hvers vegna beita þarf fjalllömbunum á fóðurkál að hausti þegar þau eru komin til síns heima eftir fjallveruna:
Það er til að bæta þeim upp það sem þau lögðu til uppgræðslunnar á örfoka hálendi landsins.
Sem samt er ekki örfoka og jafnvel ekki uppblásið og þaðan af síður gróðursnautt og ekki einu sinni gróðurlítið, nema þá af völdum álfta og gæsa á einstöku blettum, ef marka má suma færsluritarana fyrrnefndu.
Í þessu efni gildir nefnilega nú sem ætíð:
Að vert er lambið launanna fyrir slátrun að hausti.
Er þetta leiðin sem við viljum vera á?
19. júní 2018
Er þetta leiðin sem við viljum vera á?
Fyrir rúmum 70 árum lauk seinni heimstyrjöldinni. Meðan á henni stóð leyfði ekki af að þjóðin okkar, hefði í sig og á. Siglingar með nauðsynjavöru frá Evrópu urðu hættulegar og gamlar viðskiptaþjóðir áttu nóg með sig. Þótti reyndar gott að fá fisk og var mörgum mannslífum fórnað í baráttunni við að koma honum á markað og fá eitthvað í staðinn, sem eyþjóðina vanhagaði um. Þjóð sem þá var mun fámennari en nú er og þjóðfélagið allt vanmáttugra en það sem við þekkjum. Kröfurnar voru líka minni og mörgum þótti gott ef þeir komust af frá einum degi til annars og höfðu í sig og á. Ekki var farið fram á mikið meira.
Nú er öldin önnur. Þjóðin fjölmennari, kröfurnar meiri, innviðirnir sterkari og svo virðist sem allt sem áður var, sé gleymt. Enginn, eða a.m.k. fáir, hugsa um matvælaöryggi, samgönguöryggi, né birgðastöðu nauðsynjavara: s.s. olíu, kornvöru o.s.frv.
Flutningaskipin, sem þjóðin lagði svo mikið á sig til að eignast í byrjun 20. aldar, teljast vera í íslenskri eigu, en samt sigla skipin öll undir erlendum fánum. Kornbirgðir til manneldis eða eldis búfénaðar eru nær engar, eldsneytisbirgðir sömuleiðis og áfram mætti telja. Lifað er frá degi til dags.
Stjórnvöld virðast telja matvælaframleiðslu í landinu vera aukaatriði, því allt eins megi flytja slíkan hégóma inn frá útlöndum. Kaupmennirnir muni sjá um það! Og til eru þeir sem eru svo sterkir í trú sinni á frelsi í viðskiptum, að þeir telja að það sé matvælaframleiðslu í landinu til góðs að þjarma sem mest að henni. Vitna í því efni til þess hve garðyrkjubændum hafi vegnað vel eftir að innflutningur á grænmeti var gefinn frjáls. Taka ekki með í þá jöfnu, hvað gert var til að jafna aðstöðumun garðyrkjubænda þegar svo var komið.
Telja jafnvel að Ísland geti gengið inn í Evrópusambandið án nokkurra skilyrða. Svo eru aðrir sem í orði eru andsnúnir inngöngu í það samband en gera síðan samninga við það sama samband, sem grafa undan matvælaframleiðslu þjóðar sinnar og telja það horfa til framfara! Vilja og stefna að því lækka tolla einhliða, svo sem nýlegt dæmi sannar varðandi (sér!)osta. Hika ekki við að greiða innlendri framleiðslu hvaða högg sem er til að fá ímyndaðri þörf sinni fullnægt.
Hvert erum við komin, þegar fólkið sem við veljum til að fara með stjórn lands og þjóðar hugsar ekki um hag þjóðarinnar sem því er treyst fyrir? Paufast um í kyrrþey við að prjóna saman tollasamninga við viðskiptasamband sem viðkomandi segist í orði ekki vilja neitt með hafa? Trommar upp allt að því í danssporum í beina útsendingu frétta til að lýsa því yfir að samningurinn sem hann var að undirrita sé allra meina bót og að nú skuli allir vera kátir! Og þá væntanlega líka þeir sem sjá tilveru sinni ógnað með óvæntum hætti. Þegar sá hinn sami lýsir því yfir í ræðu á degi sjómanna, að nú ætli hann að sjá til þess að íslensk flutningaskip fari undir íslenskan fána? Gerir síðan ekkert í málinu og er enn árum síðar samgönguráðherra og ekkert spyrst til málsins sem hann talaði svo fjálglega um fyrir nokkrum árum?
Samfélag okkar er margfalt sterkara, ríkara og upplýstara en það var þegar þjóðin var að stíga sín fyrstu skref inn í fullveldi.
Hyldýpið sem er milli almennings og nýrrar og gamallar yfirstéttar, kvótagreifa og tortólufólks og panama, nýríkra leigugróssera og fjármálafursta og örsnauðs fólks sem tæpast á í sig, og á ekki þak yfir höfuðið og stendur jafnvel í biðröðum í von um að fá eitthvað gefins að borða er svo yfirþyrmandi að engu tali tekur.
Við erum komin svo langt að þetta þarf örugglega ekki að vera svona.
Bændum brugðið
23. mars 2018
Þeim varð mörgum illa við bændunum sem hlustuðu á frjálshyggjuboðskap Kristjáns Þórs Júlíussonar er hann ávarpaði Búnaðarþing á dögunum. Svona álíka mikið brugðið og þegar flokksbróðir hans Pálmi Jónsson skellti á 200% kjarnfóðurskatti á einni nóttu hérna um árið.
Þá trúðu spekingarnir því, að með því að breyta íslensku grasi í köggla yrði það að kröftugum fóðurbæti og myndi reynast kúnum líkt og erlent kornfóður. Vitanlega gekk það ekki eftir og það vissu kúabændur, en það var annað og fleira sem lá undir steini.
Hugmyndin var nefnilega að ganga á milli bols og höfuðs á þeim vísi að fjölbreytni sem til var að verða í kjötframleiðslu á þessum tíma með tilkomu alifugla og svínakjötsframleiðslu. Í framhaldinu var síðan búið til umfangsmikið endurgreiðslu- og útreikninga skrímsli sem plantað var niður í höfuðstöðvum Bændasamtakanna. Sem betur fer er það allt saman liðin tíð og til þess eins í dag að læra af: víti til varnaðar.
Það sem bændur standa frami fyrir þessa mánuðina, er annars vegar svokallaður EFTA dómur sem gengur út á að kaupmönnum sé heimilt að flytja inn ferst kjöt, egg og mjólkurvörur, og hins vegar tollasamningur (a.m.k. stundum kenndur við Sigurð Inga Jóhannsson), frá 2015 sem gerður var til að liðka til fyrir sölu á kindakjöti.
Samningurinn gefur stórlega auknar heimildir til innflutnings á kjúklingakjöti, nautakjöti, svínakjöti og ýmsum mjólkurvörum inn til Íslands, í skiptum fyrir auknar heimildir fyrir kindakjötsútflutning frá Íslandi til Evrópusambandsins. Samningur þessi er að því leiti til marklaus, að ekki reynist vera til sá markaður í ESB fyrir kindakjöt, sem greitt getur framleiðslukostnað þeirrar kjöttegundar hér á landi. Það var reyndar vitað fyrir, þannig að gera má ráð fyrir að annað hafi hangið á kjötspýtu Sigurðar en látið var í veðri vaka. Hvað það var er hins vegar ekki með öllu ljóst og hvort hann var að þóknast versluninni með þessum samningi eða einhverju öðru verður ekki reynt að útskýra hér. Hins vegar muna margir eftir því þegar hann mætti óvænt í beina útsendingu á fréttum Ríkissjónvarpsins og tilkynnti að nú ,ættu allir að vera hressir‘, eins og hann mun hafa orðað það.
Það er ekki nýtt að íslenska stjórnmálamenn dreymi um að að selja kindakjöt úr landi með þokkalegum árangri. Sagan greinir frá óralöngu basli í þá veru langt aftur í tímann, og ef að líkum lætur má gera ráð fyrir að um ókomna tíð muni það þykja vænlegt til hagsældar fyrir íslenska þjóð að greiða með slíkri framleiðslu til útlendinga. Viðhorfið hefur lengst af verið að gott ráð við atvinnuvanda dreifbýlisins sé að framleiða kindakjöt og hefur þá engu skipt hvort markaður væri til fyrir framleiðsluna eða ekki.
Sauðfjárbændur hafa ítrekað bent á að finna þyrfti aðra lausn á byggðavandanum og stungið upp á ýmsum áhugaverðum verkefnum sem þeir gætu tekið að sér eins og s.s. skógrækt, umsjón með hálendinu, aðstoð við ferðamenn, viðhald girðinga o.fl. Á þær raddir hefur ekki verið hlustað.
Síðustu ár hefur kjötmarkaður verið í þokkalegu jafnvægi með þeirri undantekningu að umframframleiðsla hefur verið á kindakjöti sem nemur um þriðjung af framleiðslu. Nú er búið að finna lausn á þeim vanda, þar sem búið er að koma upp sérstakri stofnun á vegum ríkisins til að koma því kjöti til útlanda með góðu eða illu. Þar er því haldið á lofti sem dæmi um ágæti íslenskra búskaparhátta að sauðkindin hafi ráfað óheft um landið síðan árið 874. Finnst sumum sem sú fullyrðing standist ekki með öllu, og öðrum að hægt væri að halda ýmsu jákvæðara á lofti um þá skepnu sem öðrum fremur hefur haldið lífinu í mönnum í landinu á liðnum öldum. Hvað sem því líður, þá er íslenskt lambakjöt til sölu nú orðið vítt og breitt um heiminn og allt til Japan. Slíkur er krafturinn í þessari útbreiðsluherferð að menn mundu vart depla auga, þó af því fréttist, að hið ágæta lambakjöt væri orðin gjafavara í Nýja Sjálandi og Ástralíu. Það yrðu þá kannski kaup kaups, því þaðan er flutt kjöt handa hungruðum Íslendingum að naga i sig á jólahlaðborðum.
En blikur eru á lofti, því nú stefnir í að inn verði fluttar landbúnaðarafurðir sem ekki þurfa að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til íslensku framleiðslunnar, hvorki varðandi hreinleika né aðbúnað eldisdýra.
Þetta finnst núverandi ráðherra landbúnaðarmála vera bara harla gott og leggur til, að bændur skuli taka sér tak, standa sig í samkeppninni, nota sér útflutningstækifærin og muna að varan þeirra sé svo afbragðs góð, að útlendingar muni standa í röðum til að kaupa íslensku landbúnaðarframleiðsluna. Svona tala þeir sem staðið hafa í því áratugum saman að greiða af almannafé vegna útflutnings á kjöti til Evrópu og Ameríku og nú Asíu.
Nú eru sem sagt komnir aðrir tímar með blóm í haga fyrir alla aðra landbúnaðarframleiðslu; ekkert vandamál að flytja út allt hvað heita hefur: kjúklingakjöt, svínakjöt, nautakjöt og mjólkurafurðir hverskonar!
Engu máli skiptir, þó allur tilkostnaður sé mun meiri á íslensku framleiðslunni. Kröfurnar meiri, sýnatökur ítarlegri, kostnaður vegna öflunar erfðaefnis margfaldur, fóðurkostnaður hærri, bústofnarnir sumir afurðaminni, aðbúnaðarkröfur meiri og tryggingasjóður enginn, o.s.frv.
Allt skiptir þetta engu máli, því að mati ráðherrans er tilveran ámóta einföld og bankastjórans um árið sem hrópaði: Sjáið þið ekki snilldina? Og ráðherrann bætir við: Sjáið þið ekki tækifærin? Heimurinn liggur að fótum ykkar!
Auðvitað veit ráðherrann að erlendir ætla að flytja það eitt út, sem þeir þurfa helst að losna við og nóg er af í augnablikinu hjá þeim.
Sú var tíð að dönskum kaupmönnum var kennt nær allt illt. Nú eru þeir ekki lengur til staðar og það eru innlendir sem vilja flytja inn niðurgreidda afgangsframleiðslu erlendis frá og engu skiptir hvernig þeirri íslensku mun reiða af. Og íslenskir ,,stjórnmálamenn“ dingla með.
Hvað við tekur þegar erlendir eru ekki lengur aflögufærir, skiptir þá engu máli sem ekki nenna að hugsa fram fyrir tærnar á sér, en ólíklegt er, að þá muni hagsmunir eyþjóðar í ballarhafi verða hafðir í fyrirrúmi.
Líklegra en ekki að spurt verði sem svo: Af hverju framleiðið þið ekki það sem þið getið af landbúnaðarvörum til að uppfylla þarfir þjóðarinnar? Vissuð þið ekki að þið byggjuð á eyju langt frá öðrum landbúnaðarþjóðum?
Hugsanlega kæmi síðan til viðbótar: Þið eruð reyndar svo fá að við getum vel bætt þessu á okkur, en nú verðið þið að greiða uppsett verð. Það verð sem það kostar að framleiða vöruna.
Við ætlum nefnilega ekki lengur að fara þá leið sem þið hafið farið: að greiða niður matvöru í aðrar þjóðir.