Garðar Eymundsson

Sumarið eftir að ég fermdist var ég eins og alltaf áður frá sex ára aldri ,,í sveit“ og að þessu sinni á norðurlandi. Dag einn var ég kallaður inn og sagt að það væri maður í símanum sem vildi tala við mig. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, það var ekki verið að hringja milli landshluta á þessum árum nema tilefni væri til. Í símanum var maður er sagðist heita Garðar Eymundsson, byggi á Seyðisfirði með sinni fjölskyldu og að hann langaði til að bjóða mér í heimsókn er vist minni lyki í sveitinni að liðnu sumri, þ.e. þegar ég væri kominn heim til Reykjavíkur.

Samtalið kom satt að segja töluverðu róti á hug unglingsins, sem fram til þessa hafði aðeins vitað það eitt, að til væri faðir í öðrum landshluta. Móðurforeldrarnir höfðu tekið að sér foreldrahlutverkið og hugtakið ,,pabbi“ var framandi. Kom að vísu stundum fyrir að ég væri spurður af skólafélögunum spurninga eins og: Áttu engan pabba? Og þegar tunga vafðist um tönn þá: Það er skrýtið, allir eiga pabba og síðan: Afi þinn er ekki pabbi þinn! Já, vitanlega! En afi nægði mér og að honum var ég hændur sem væri hann faðir minn.

Heim fór ég í lok sumars og aldrei þessu vant kvíðinn. Átti nú virkilega að fara að þvæla mér austur á land? Þangað sem ég þekkti engan. Til að hitta mann sem ég þekkti ekki, nema að afi sagði stutt og laggott þegar ég spurði hann út úr, líklegast eftir eina af yfirheyrslunum í skólanum: Pabbi þinn var ekkert verri en aðrir strákar.

Heim var ég kominn, en ekkert sérstaklega upprifinn yfir því að fara í reisu austur á firði og gerði hvað ég gat til að komast undan því, þar til að önnur hringing kom til sögunnar. Að þessu sinni var það Ríkarður stjúpi minn, sem var í símanum og tók mig á spjall og vék að því hvort ég væri að huga að ferðalagi. Ég sagði sem var að það vildi ég helst af öllu láta ógert. Í mér væri kvíði og mig langaði ekki að hitta mann sem ég þekkti ekki nokkurn skapaðan hlut. Skemmst er frá því að segja að Rikki, eins og hann var ævinlega kallaður, sagði mér að hann þekkti til pabba míns af afspurn. Hann væri vel látinn maður sem af færi gott orð, ég skildi engu kvíða, það væri með öllu óþarft að bera kvíðboga fyrir að hitta hann og hans fólk, ég skildi bara vera með öllu óhræddur og eftir því sem á samtalið leið hurfu allar áhyggjur og ég var brátt á leið austur á Seyðisfjörð.

Þar hitti ég nú í fyrsta skipti föðurfjölskyldu mína sem á þessum tíma voru þau Garðar og Karólína Þorsteinsdóttir og systkinin þrjú, Ómar, Sævar og Gréta og síðar bættist Júlíana við.

Þessu fólki hefði ég alveg verið til í að kynnast fyrr!

Ég var borinn á höndum í þessari fyrstu heimsókn, dálítið forvitinn og dálítið feiminn og óöruggur. Fékk að kynnast samfélagi sem var mér framandi. Sjávarplássi sem ég hafði oft heyrt talað um en aldrei séð og unglingurinn sem aldrei hafði séð skóg sá nú í fyrsta skipti Hallormsstaðaskóg!

Seinna urðu ferðirnar fleiri, símtölin fleiri og með tímanum myndaðist samband sem mér og mínum hefur verið kært. Ég eignaðist þarna fjölskyldu til hliðar við mína gömlu fjölskyldu; fólk sem gaman var að hitta og eiga samskipti við.

Sumarið 1971 fórum ég og konan mín Þórunn Kristjánsdóttir, í ferð norður um land og austur á Seyðisfjörð. Það voru hennar fyrstu kynni af föðurfólki mínu og óhætt er að segja að Þórunn, Garðar og Kalla og systkini mín náðu vel saman og áttu afar gott samband æ síðan.

Síðar varð það fastur liður að kíkja í heimsókn þegar ég var farinn að vera til sjós á millilandaskipum sem stundum fóru inn á Seyðisfjörð; koma í óvænt innlit, spjalla við Köllu um landsins gagn og nauðsynjar og njóta gestrisni hennar væri hún ein heima eða ef beðið var eftir að pabbi kæmi heim.

Þegar hann kom heim úr sinni vinnu, þá var oftar en ekki að hann gaf sér tíma til að fara með mig til að sýna mér ýmislegt, svo sem vinnustaðinn og vinnuteikningarnar. Byggingarnar sem verið var að byggja; fara í bíltúr um bæinn og þá var saga sögð! Öll virtust þessi hús eiga sér sögu líkt og bærinn sjálfur sem á sér mikla sögu frá fyrri tíð. Ógleymanlegur er bíltúrinn sem hann fór með mig í til að sýna mér norðurströnd fjarðarins. Þá var nú betra að halda sér fast! Alltaf var þess vandlega gætt í þessum ökuferðum að öryggisbeltin væru vandlega spennt og hjá honum var það einnig tryggilega gert, það er að segja fyrir aftan bak, þá þagnaði bjallan og allt var eins og það átti að vera!

Eftir að pabbi var hættur störfum og aldurinn farinn að færast yfir og við Þórunn í heimsóknum hjá honum og Köllu, þá fór hann að segja mér frá forfeðrum sínum. Mömmu sinni og pabba, uppruna þeirra og sitthverju fleiru sem var ómetanlegt að heyra, en einnig var gaman að því hve vel hann fylgdist með því sem var um að vera í þjóðfélaginu. Hann lá ekki á skoðunum sínum og talaði tæpitungulaust, sagði sína meiningu í meitluðum og velvöldum orðum. Sjaldan voru þau orð stór, heldur miklu frekar að orðunum væri þannig raðað að merkingin yrði stór, þó hitt gæti líka komið fyrir ef honum var verulega misboðið.

Á Seyðisfirði tengdist Ísland við útlönd um sæstreng um það leiti sem sunnlenskir bændur vildu tengjast umheiminum um loftskeyti og fóru í frægan útreiðatúr í tilefni þess. Aðrir tímar og önnur átök.

Nú er Seyðisfjörður, bærinn sem honum þótti svo vænt um breyttur. Í stað þess sem áður var, er komin ferja sem gengur milli Íslands og Evrópu, neisti sem þarf að blása lífi í með að tengja Seyðisfjörð vegakerfi landsins með jarðgöngum. Þau munu koma fyrr eða síðar og þá verður Fjarðarheiðin ekki til trafala. Lifna mun yfir bæ sem á undir högg að sækja og býr yfir einhverri traustustu höfn sem um getur. Ekki má heldur gleyma því að lífleg og blómstrandi listsköpun á sér stað í bænum og það var Garðar Eymundsson að öðrum ólöstuðum, sem átti svo drjúgan þátt í að kveikja það líf.

Kalla horfir nú á bak eiginmanni sínum og hefur mikils að sakna og margs að minnast. Samband þeirra kom mér fyrir sjónir sem afar fallegt og hlýtt. Talsvert ólíkar persónur sem náðu samt fullkomlega saman og áttu sér sameiginlegt markmið. Hann var byggingameistari og hefur komið að gerð margra mannvirkja, en hann átti líka önnur áhugamál sem hann hafði gaman af að tala um, eins og t.d. stangveiði, skák, steinasöfnun og myndlist.

Myndir sem hann ýmist teiknaði eða málaði munu vera víða til. Efst eru mér í huga teikningarnar af fjallahring Seyðisfjarðar sem hann teiknað og vann til bókar ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni og fleiru góðu fólki. Það var skemmtileg og eftirminnileg ferð, að aka á Seyðisfjörð fyrir um átta árum til að vera viðstaddur útgáfuhátíð höfðingjanna tveggja og annarra sem að henni stóðu.

Afi hafði rétt fyrir sér og meira en það. Pabbi var góður ,,strákur“ sem ég, kona mín og börn, nutum samverunnar með og sem gott er að minnast.

Hafi þau þökk fyrir Ríkarður og Karólína, hann fyrir að hafa talið í mig kjark og hún fyrir að hafa lagt sig fram um að halda tengslunum við.

Þökk fyrir allt.

Ingimundur, Þórunn og fjölskylda.

Það náði því ekki að vera ár á milli þeirra Garðars föður míns og Karólínu Þorsteinsdóttur. Hún var borin til grafar 10. febrúar síðastliðinn (2018); þau stóðu alla tíð þétt saman og voru oftar en ekki nefnd í sömu andrá og þess vegna þykir mér sjálfgefið að bæta þeim fátæklegu minningarorðum sem við hjónin settum saman um Köllu hér við.

Minning Karólínar Þorsteinsdóttur:

Í dag verður borin til grafar Karólína Þorsteinsdóttir, Kalla, eiginkona föður míns Garðars Eymundssonar og móðir fjögurra hálfsystkina minna.

Það var fermingarárið mitt sem ég hitti þau Garðar og Köllu í fyrsta skipti fyrir um 55 árum. Þau höfðu boðið mér til sín austur á Seyðisfjörð. Skemmst er frá því að segja að móttökurnar urðu ógleymanlegar og sama má síðan segja um öll þau skipti sem á eftir komu.

Tíminn leið og 1971 lögðum við Þórunn upp í ferð til Seyðisfjarðar til að hitta þau og efna til kynna milli þeirra og hennar. Ógleymanlegt var það ferðalag og fengum við höfðinglegar móttökur eins og við mátti búast. Kalla og Þórunn náðu afar vel saman og sama má segja um pabba. Þarna myndaðist það góða samband sem við hjónin nutum alla tíð síðan.

Börn okkar Þórunnar komu í heiminn eitt af öðru og í Köllu eignuðust þau ömmu, sem ætíð var ,,Kalla amma“. Ömmu sem þau minnast með mikilli hlýju.

Heimsóknirnar urðu fleiri eftir því sem árin liðu, bæði vegna þess að við fundum að til þeirra var gott og gefandi að koma, en einnig vegna ýmissa tilefna eins og gengur og þá var yndislegt í þau skipti þegar þau komu í heimsókn til okkar.

Á þeim tíma þegar ég vann á flutningaskipum, kom það nokkrum sinnum fyrir að skipin komu til Seyðisfjarðar. Þegar svo bar undir, var gott að fá sér göngutúr og banka upp á hjá þeim Köllu og föður mínum. Stundum bar svo við að hann var að heiman vegna vinnu sinnar og þegar þannig stóð á, naut maður þess að tylla sér niður og spjalla við Köllu. Hún kunni þá list að hlusta og þegar hún síðan lagði sitt til málanna, var ekki komið að tómum kofunum. Hún var með sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum sem og öðrum málum og tjáði sig þannig að eftir var tekið.

Nú er hún Snorrabúð stekkur og engin Kalla og enginn Garðar til að hitta í þessu gamla höfuðbóli austfirskra bæja. En maður kemur í manns stað, og þegar við Þórunn vorum á ferð um Austfirði síðastliðið sumar og komum á Seyðisfjörð, urðum við vitni að því að afa og ömmubörnin voru gengin í verkin; farin að lagfæra það sem farið var að láta á sjá og áhuginn og trúin á að hægt væri að ná árangri, fegra og bæta, leyndi sér ekki.

Þannig voru þau Garðar og Kalla, þeim þótti vænt um bæinn sinn og vildu honum allt það besta. Vonandi rætist draumur þeirra í því efni og kannski koma göng sem myndu þá tengja einhverja bestu höfn landsins við landið allt og verða firðinum og landshlutanum sem var þeim svo kær sú lyftistöng sem á vantar.
Blessuð sé minning Köllu og þökk sé henni fyrir hvernig hún auðgaði líf okkar. Hún var okkur afar kær.

Ingimundur og Þórunn.

Minning: Kristinn Erlendsson

27. október 2013

Kristinn Erlendsson fæddist í Reykjavík 9. mars 1946. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2. september 2013.
Foreldrar hans voru Sigrún Kristinsdóttir, f. 1924, d. 2005, og Erlendur Sigurðsson, f. 1919, d. 2009. Kristinn var elstur sex alsystkina: Helga, f. 1948, d. 2009, Sigrún, f. 1949, Guðrún Lísa, f. 1950, Sturla, f. 1954, d. 2007, Elísabet, f. 1958. Hálfsystkin, samfeðra eru: Jónína, Lýður, Erlendur Örn, Hrafnkell og Aðalheiður. Maki Ásta Guðmundsdóttir, f. 1948. Börn hennar eru: Sigríður og Unnur Helga Kristjánsdætur. Fyrrverandi maki og barnsmóðir Kristins er Dagbjört Halldórsdóttir, f. 1947. Börn: Haraldur, f. 1971, dætur: Hafdís og Helena. Brynja, f. 1977, maki: Kristján Þórðarson, dætur: Katla Björt, Hekla Sól, Ingibjörg og Lára Daníela. Garðar, f. 1984, unnusta Sigríður Skagfjörð Sigurðardóttir, sonur: Axel Freyr.
Kristinn ólst upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík ásamt systkinum sínum. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í Vélskóla Íslands og útskrifaðist 1971. Þaðan fór hann í Tækniskóla Íslands og síðan til Álaborgar í Danmörku í framhaldsnám og útskrifaðist þaðan sem rekstrartæknifræðingur. Kristinn var nokkur ár á sjónum t.d. á Hörpu og Vatnajökli. Að námi loknu í Danmörku hóf hann störf hjá Félagi íslenskra iðnrekenda. Hann starfaði einnig í mörg ár í Málningarverksmiðjunni Hörpu. Kristinn stofnaði fiskverkunarfyrirtækið Ísfold í Reykjavík ásamt bróður sínum Sturlu Erlendssyni. Þeir fluttu síðar fyrirtækið til Eyrarbakka.
_ _ _

Það var að áliðnu sumri árið 1996 sem Hestaferðafélagið, sem við Kristinn vorum báðir félagar í, stóð fyrir ferð um norðvesturland. Áætlun um ferðina barst mér í bréfi með góðum fyrirvara, en ég var þá búinn að vera til sjós í millilandasiglingum um nokkur ár og hafði ekki átt þess kost að fara í ferðir félagsins um nokkurra ára bil. Ég sló til og hafði samband við Kristinn Dag Gissurarson, einn af skipuleggjendum ferðarinnar og spurðist fyrir um hvort fullbókað væri, svo var ekki og það varð úr að ég bókaði mig.
Þetta er í raun forsaga þess að kynni okkar Kristins Erlendssonar endurnýjuðust.

Það var stillt og fallegt veður við Langavatn og ferðafélagarnir gengnir náða, er við Kristinn gengum út í nóttina og tókum spjall saman, rifjuðum upp veruna í Vélskóla Íslands og sögðum hvor öðrum hvað á dagana hefði drifið eftir að skólagöngu okkar þar lauk.
Er við nutum næturkyrrðarinnar þarna við vatnið, þá tókum við eftir því að mikil ókyrrð var komin í ferðahrossin vegna mýbitsins sem á þau sótti og þar kom að drjúgur hluti þeirra setti sig á sund út í vatnið til að komast burt frá óværunni. Brugðumst við þannig við að undirritaður hljóp sem mest hann mátti með ópum og óhljóðum til að gera sem hægt væri til að stöðva flótta hrossanna, en Kristinn hraðaði sér og ræsti þau er í skála sváfu til að bregðast við og koma til hjálpar.

Fór svo að einungis lítill hópur hrossa slapp úr girðingunni, en telja má víst að engin hefðu þau verið eftir að morgni hefðum við Kristinn ekki verið á þessu næturrölti. Skemmst er frá því að segja að aldrei bar skugga á vináttu okkar eftir þetta.

Með tímanum tókum við upp þann sið að hringja í hvorn annan ef okkur lá eitthvað á hjarta sem okkur langaði til að ræða um og voru þær margar stundirnar sem við áttum þar sem við spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar og krufðum málin til mergjar.

Nú er sá tími liðinn að ég geti tekið upp símann og rætt við Kristinn um eitt eða annað og borið undir hann hvað honum finnist um þetta eða hitt málefnið, ekki er heldur lengur hægt að skiptast á skoðunum á Fésbók, né senda hvor öðrum ábendingar um áhugavert efni sem við höfum rekist á.

Svona líður tíminn og Kristinn er farinn þá leið sem allir fara á endanum og leitt var að geta ekki fylgt honum síðasta spölinn, en þá var ég fjarri, í öðru landi og gat engu um það breytt.

Kristinn var líflegur maður og hafði vakandi áhuga á flestu því sem í umhverfi hans var. Hann hafði mikinn áhuga á hestum, hestamennsku og þjóðmálum, reyndar öllu sem í umhverfi hans var. Kunni fjöldann allan af vísum og kvæðum og ef svo bar undir, þá fengu ég og aðrir að njóta þeirrar kunnáttu þegar við átti. Margar voru þær eftir bróður hans Sturlu sem er látinn, en þeir höfðu átt og rekið saman fyrirtækið Ísfold á Eyrarbakka og deilt með sér ánægjunni af að ferðast á hestum um landið.

Það er gaman að hafa átt þess kost að kynnast mörgu góðu og skemmtilegu fólki á lífsleiðinni. Kristinn Erlendsson var svo sannarlega einn af þeim sem gott var að kynnast, en jafnframt sárt að sakna. Eftir stendur minningin um manninn, þennan skemmtilega persónuleika, sem af prúðmennsku og notalegheitum auðgaði tilveruna fyrir þá sem áttu þess kost að njóta samvista hans.

Samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum hans öllum.

Ingimundur Bergmann.

bolli-og-bjork-1998.jpg

 Bolli og Björk ásamt vinafólki á Kili sumarið 1998. 

Tímann hafa sumir hugsað sér sem línu sem ætti sér upphaf í óendanlegri fortíð og stefndi til óendanlegrar framtíðar. Steinn Steinarr orti um tímann:

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

  Þau Bolli og Björk voru ekki bundin við tímann á þann hátt sem flestir eru. Hjá þeim var hann ekki hin knappa mælieining sem hrjáir svo marga í samfélagi nútímans. Þau áttu ævinlega nægan tíma, að minnsta kosti fyrir aðra, en hvernig fólk voru þau?

  Því er ekki hægt að svara í einni stuttri setningu og víst er að sitt sýnist hverjum þar um eins og gengur, en fyrir um það bil 20 árum var ég kynntur fyrir þeim. Bolli var þá eins og svo oft að skipuleggja, og í þetta sinn var hann að vinna að hestaferð norður um Kjöl á fyrirhugað Landsmót hestamanna. Ferð sem varð undanfari að stofnun Hestaferðafélagsins sem Bolli varð síðar heiðursfélagi í.

  Þegar ég kom sem gestur á heimili þeirra hjóna kynntist ég einstakri gestrisni eins og svo margir höfðu áður gert. Það var ekki eins og ókunnur maður væri kominn í heimsókn heldur einhver sem margoft hefði til þeirra komið.

  Þannig voru þau. Heimili þeirra var opið og þeir sem þar komu voru boðnir velkomnir frá fyrstu stundu. Eðlileg, notaleg og frjáls og ekki var spurt um stétt eða stöðu. Allir voru jafnir í þeirra augum. Enda var lífsskoðunin sú að enginn væri öðrum æðri.

  Bolli var maður sem ekkert aumt mátti sjá og það átti einnig við um Björk. Þau stóðu saman í því sem öðru, þó verkaskiptingin á heimilinu væri skýr.

  Bolli var maðurinn sem taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að liðka fyrir því að undirritaður kæmist í fyrirhugaða hestaferð ásamt dóttur, þó seint væru kynnt til sögunnar. Hann var maðurinn sem skipulagði ferðina í þaula, skipti henni upp í áfanga, pantaði gististaði og sá til þess að allur nauðsynlegur búnaður yrði til staðar.

  Hann taldi ekki eftir sér þegar hann vaknaði upp um miðja nótt í öðrum áfanga umræddrar ferðar, að læðast út þegar aðrir sváfu og aka 70 kílómetra til að sækja hlut sem hann mundi eftir að gleymst hafði daginn áður og var síðan mættur manna fyrstur í morgunkaffið.

  Hann var maðurinn sem fann upp á því að senda hesta sína í aðra ferð átta árum seinna og fela þá í umsjá ungrar konu sem hann vissi að langaði til að fara, en hafði ekki hesta né fé til að geta farið. Það var nefnilega svo nauðsynlegt að hreifa hestana, að það var sjálfsagt að hann greiddi kostnað hennar af ferðinni ef hún vildi vera svo góð að liðka fyrir hann hrossin og nota þau til ferðarinnar.

  Seinna þegar bróðir fyrrnefndrar konu tók upp á því að brasa við að koma sér upp smiðju, þá linnti Bolli ekki látum  fyrr en hann var búinn að finna í fórum sínum loftljós til að lýsa upp fyrirhugað smiðjuhús. Ljósin voru náttúrulega eitthvað sem Bolli þurfti alveg nauðsynlega að losna við og það væri bara greiði við hann, ef hinn ungi maður vildi vera svo góður að nýta sér þau!

 Hér eru aðeins nefnd  örfá dæmi um hvernig Bolli Sigurhansson brást við ef hann sá einhverja leið til að gera öðrum gott og hjálpa. Hann var einnig margfróður, vel lesinn og upplýstur maður sem gaman og fróðlegt var að ræða við. Þau Björk höfðu ferðast mikið um landið sitt og einnig þau höfðu farið til fjarlægra landa svo sem Japan og Indlands og margra fleiri.

  „Hún Björk mín grét nú dálítið í Delhi”, sagði Bolli við mig þegar ég sagði honum að við hjónin værum á leið þangað og ástæðan fyrir þeim tárum var vitanlega eymd hinna snauðu sem Björk fann svo mikið til með.

  Þannig voru þau, manneskjur sem fundu til með öðrum og vildu láta gott af sér leiða. Manneskjur sem gott var að þekkja og gott að eiga að.

  Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að kynnast þeim, það var bæði gott og ekki síður skemmtilegt. Með þeim eru horfnir af sviðinu fulltrúar kynslóðar sem óðum er að hverfa. Kynslóðar sem mörgu kom til leiðar og lagði mikið af mörkum til að gera íslenskt samfélag að því sem það er í dag, en vel að merkja, átti engan þátt í að koma því í þau vandræði sem það er í núna.

Bolli Sigurhansson var fæddur 21. desember 1928 og lést 3. janúar 2010.Björk Dagnýsdóttir var fædd 8. júlí 1930 og  lést 5. maí 2008.

  Ég votta aðstandendum og vinum alla mína samúð, en eftir lifir minningin um gott fólk.