Landsvirkjun greiðir arð.
23. apríl 2020
Þegar að þrengir getur verið gott að vel sé búið; að eggin séu ekki öll í einni körfu, og nú sést hve rétt það er.
Samkvæmt því sem lesa má í vefritinu Kjarnanum, bregður svo við að Landsvirkjun greiðir 10 milljarða arð í ríkissjóð.
Vissulega er það sem dropi í það útgjaldahaf sem ríkissjóður stendur frammi fyrir þessa dagana, en eigi að síður: það munar um allt.
Og þá verður manni hugað til þeirra sem hafa haldið uppi sífelldu niðurnagi í garð virkjana, virkjanaframkvæmda, orkufrekra iðjuvera (s.s. álvera); þeirra sem lagt hafa sig fram um að kippa stoðum undan íslensku samfélagi.
Allt í nafni ,,umhverfisverndar” og ósnertrar náttúru sem þeir telja sig hafa fundið upp og að sé hreint út um allt, nema þar sem mannskepnan hefur stigið fæti. Sést yfir, að það er fleira sem veldur breytingum á náttúrunni en athafnir manna.
Og að sumt er það til hins verra, en annað til hins betra.
Náttúruöflin spyrja ekki Umhverfisráðuneytið um leyfi til að bylta sér og við þekkjum jarðskjálfta og eldgos, sem valdið geta stórfelldum breytingum á örfáum dögum og vikum og stundum mánuðum. Geta jafnvel staðið yfir í enn lengri tíma.
Við erum svo heppin að framsýnt fólk hefur stigið fram og drifið af stað framkvæmdir þjóðinni til hagsbóta þegar syrt hefur í álinn og þjóðin öll eða einstakir landshlutar, hafa verið í efnahagslægðum með meðfylgjandi atvinnuleysi og rýrum kjörum.
Þannig var staðan þegar farið var í að byggja Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík. Sama má segja þegar framsýnt fólk gekk fram til þess að koma atvinnulífi á Austfjörðum úr þeirri lægð sem það var búið að vera í um skeið. Niðurstaðan var að byggja Kárahnjúkavirkjun, glæsilegt mannvirki, og í tengslum við hana var byggt álverið í Reyðarfirði.
Gengið var í að virkja náttúruöflin þjóðinni til hagsbóta í þessum tilfellum og þau eru ágæt dæmi um það sem vel hefur tekist. Margt fleira mætti til taka en hér verður upptalningunni lokið í bili a.m.k., en við skulum samt ekki gleyma sjávarútvegnum, þar sem náttúruauðlind er nýtt á glæsilegan hátt og það svo að til fyrirmyndar er talin víða um heim.
Enn eru þau samt að, þau sem úr öllu vilja draga, telja flest ef ekki allt sem gert er ósæmileg inngrip í náttúruna og landið sjálft.
Náttúruöflin og náttúruna sem spyrja enga blekbusa um hvernig þau megi haga sér; gjósa og skjálfa og flæða, þegar þeim er mál og spyrja einskis.
Þar með er ekki sagt að gera megi hvað sem er og hvenær sem er, en við ættum að forðast að sökkva niður í kerfisdrepandi smásmugulega úrtölupólitík og gera það sem gera þarf til að gott sé að búa í landinu okkar.
Lifa í og af landinu og gera það á sem bestan hátt, en tryggja jafnframt að þeir sem sífellt sjá ekkert nema trén í skóginum - en alls ekki skóginn sjálfan - nái ekki að drepa allt í dróma.
Já eða nei, það er efinn.
9. apríl 2020
Ögmundur Jónasson ritar grein í Morgunblaðið í dag (9.4.2020) og ávarpar formann Framsóknarflokksins: Hvetur hann til að fylgja sannfæringu sinni og í fljótu bragði gæti einhverjum þótt sem ekki sé nú farið fram á mikið.
Ögmund langar til að hrósa formanninum en er ekki alveg sannfærður um að rétt sé að gera það; hefur verið að fletta blöðum og tímaritum og svo er að sjá sem Ögmundur sé ekki alveg viss.
Gleðst þó yfir því að í safninu hafi hann fundið tvær ,,prýðisgóðar“ greinar eftir foringjann sem birst hafi í Morgunblaðinu í nóvember 2018 og yfirskriftir þeirra munu vera: ,,Hugsum út fyrir búðarkassann“ og hin ,,Frelsi til heilbrigðis“.
Í báðum greinunum mun formaðurinn hafa varað við innflutningi á hráu kjöti eftir því sem Ögmundur segir og í þeirri síðarnefndu hefur hann eftir Sigurði:
,,Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum. Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja …„I told you so“.
Og eins og sjá má gerir formaðurinn ráð fyrir að Framsóknarmenn framtíðarinnar komi til með að tala ensku.
Í greininni þar sem Sigurður hvetur til hugsunar út fyrir búðarkassann, mun standa eftirfarandi texti samkvæmt Ögmundi:
„Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei.“
Framsókn segir nei, hvorki meira né minna! Og það er meira blóð í kúnni og tilvitnunin heldur áfram:
,,Á Íslandi höfum við verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.“
Bara nokkuð gott og hér getum við verið sammála.
Síðan kemur þetta:
,,Síðan breyttist eitthvað því nokkrum vikum síðar, eftir nokkra fundi í ríkisstjórn, sagði Sigurður Ingi, flokksformaður og ráðherra, skyndlega já.“
Sigurður sagði sem sé nei og síðan já. Við könnumst við það. Ögmundur veltir því fyrir sér hverju sé um að kenna og er það að vonum; telur að það geti ekki verið VG að kenna og að fyrst svo sé þá liggi Sjálfstæðisflokkurinn undir grun og spyr hvort hann hafi verið tilbúinn til að fórna lýðheilsuhagsmunum?
Ögmundur vill fá svör við því hversvegna Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn ,,gáfust upp í málinu“ og telur sig eiga rétt á svari og greininni lýkur með brýningu:
,, En þá er líka komið að kjarna erindis míns við Sigurð Inga Jóhannsson, […]. Ef þetta var þín sannfæring sem birtist í framangreindum skrifum þínum, sem ég hef trú á að hafi verið, þá er lag núna að taka málið upp að nýju! Hafi það verið rétt hjá þér í nóvember 2018 að „ um þetta “ (þ.e. hættu á að flytja inn sýklalyfjaónæmi) sé „ gríðarleg vakning um allan heim…“ þá má víst telja að ekki hafi dregið úr þeirri vakningu nú.
Þess vegna leyfi ég mér að segja, Sigurður Ingi Jóhannsson, fylgdu sannfæringu þinni! Gerirðu það áttu lof skilið, að öðrum kosti hlýtur fyrirvarinn sem nefndur var í upphafi að gilda.“
Upphafspunktur Ögmundar er árið 2018 en Sigurður er búinn að vera lengur í pólitík en síðan þá.
Hann var til dæmis landbúnaðarráðherra árið 2015 þegar hann samdi við Evrópusambandið um auknar innflutningsheimildir af ýmsu tagi. Þar má nefna auknar heimildir til aukins innflutnings á hráu kjöti af alifuglum, svínum og nautum auk osta.
Kjötið átti á þeim tíma að vera frosið en eigi að síður hrátt, óeldað og óhitameðhöndlað og ef Ögmundur er að hugsa um að með innflutningi á hráu kjöti geti borist bakteríur, sem vissulega getur gerst, þá er rétt að hafa í huga að bakteríur allflestar geymast ágætlega í frosti og sé frosið kjöt eldað er vaninn að þýða það upp fyrst.
Þannig að þar sem formaður Framsóknarflokksins spyr og svarar með orðunum: ,,Viljum við knýja þá [íslenska bændur] til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei.“
Sagði Framsókn nei, en gerði síðan allt annað.
Pólitíkin er stundum flókin og illskiljanleg, en að Framsókn segi nei og síðan já er kunnuglegt. Minnistætt er þegar Sigurður messaði yfir bændum á Hótel Selfossi eftir gerð fyrrnefndra samninga árið 2015 og hvatti þá til að standa sig.
Við munum sem heyrðum.
Fiskað í gruggugu vatni.
5. apríl 2020
Stundum falla menn í að ,,fiska í gruggugu vatni“ og nú er sem veirufaraldurinn hvetji til slíkra drauma. Drauma um afturhvarf til fortíðar.
Fortíðarþrá Framsóknarflokksins er þekkt og hefur birst í ýmsum myndum, flokkurinn hefur a.m.k. tvö andlit og er þekktur fyrir hentistefnu af margvíslegu tagi.
Vegna þess hve tvöfalt roð flokksins er, getur vel verið að fullyrðing Sigurðar Inga Jóhannssonar standist, þ.e.a.s. að Framsóknarflokkurinn hafi barist fyrir þeirri stefnu lengi að loka landamærum. En flokkurinn hefur eins og við munum, líka barist fyrir opnun landamæra og því að auka innflutning landbúnaðarvara svo sem sannaðist ágætlega árið 2015.
Mörgum er minnisstæð einlæg gleði Sigurðar eftir að hann hafði lokið samningum við ESB um mikla rýmkun fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum. Innflutning þeirra búgreina sem líklega teljast vera ,,óhreinu börnin” í landbúnaðinum samkvæmt skilgreiningu Framsóknarflokksins.
Afurðir þeirra húsdýra sem ekki jarma og ekki ganga óheft um landið og ekki á heiðum uppi…
Því er óhætt að segja að öllu megi nú nafn gefa og líklega má segja að hér eigi vel við brot úr slagara, þar sem segir ,,bara þegar hentar mér” þegar því er haldið fram af formanni flokksins að:
,,„Framsóknarflokkurinn hefur barist fyrir þessari stefnu mjög lengi [,,að leggja áherslu á innlenda framleiðslu“]. Ég held að nú muni hljómgrunur fyrir slíkum sjónarmiðum vaxa og menn skilja af hverju við höfum verið að leggja áherslu á innlenda framleiðslu og þar með stuðning við bændur.“”(!)
Og síðan:
,,„Ég held reyndar að fyrirtækin okkar, og þá er ég ekki að tala um einstaka bændur því þeir eru í raun lítil fyrirtæki, heldur er ég að tala um afurðastöðvar í landbúnaði, enn frekar í sjávarútvegi, hafi ekki nægjanlega verið að horfa á nýsköpun, sækja fjármagn og koma með fjármagn og ýta undir þær hugmyndir sem þar eru.“
Ekki bændur því þeir eru lítil fyrirtæki, ekki menn sem reka lítil fyrirtæki og þetta er líka nokkuð gott: ,,sækja fjármagn og koma með fjármagn”.
Stjórnmálamenn tala stundum einkennilega, enda eru þeir að ,,prédika” og ,,boða” og við erum vön því!
Ekki er gott að segja hvað er best í þessu, en ef það sem kemur á eftir er ekki gott gullkorn, þá notum við bara einhverja ódýrari málma til viðmiðunar:
„Við eigum að forðast það að merkja alla peningana inn í háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að við verðum að horfa á það að koma nýsköpunarfjármunum lengra út á land.“
Er ekki verið að skjóta föstum skotum á varaformann Framsóknarflokksins og menntamálaráðherrann?
Skipti á búgreinum?
29. mars 2020
Í Morgunblaði dagsins (20.03.2020) er viðtal við nýlega kjörinn formann Bændasamtaka Íslands. Nú skal það ekki fullyrt hér að viðtalið sé endanlega lýsandi fyrir það sem koma skal.
Formaðurinn er nýlega tekinn við formennsku í samtökunum og vel getur verið að hann sé ekki fyllilega búinn að ,,máta stólinn” ef svo má segja. Þannig er, að Bændasamtökin eru ekki heildarsamtök landbúnaðarins í raun og hafa ekki verið um áratugaskeið, þó svo að reynt hafi verið að láta svo út líta. Nema að þarsíðasti formaður reyndi að breyta því að nokkru, og gerði sér far um að hafa samstarf og samvinnu við greinarnar sem alla tíð hafa verið utanveltu í samtökunum, þ.e.a.s. allar nema sauðfjárræktina, nautgriparæktina og garðyrkjuna og í þessari röð, og kannski hefur hrossaræktin fengið að fylgja með á góðum stundum.
Í fyrrnefndu viðtali bendir hinn nýkjörni formaður á, að vegna ástandsins sem er í heiminum vegna COVIT-19 finnist honum jákvætt, ef ríkisstjórnin sýni landbúnaðinum skilning. Og segir: ,,[…] Bændasamtökin og Samtök garðyrkjubænda haf[a] kallað eftir því að brugðist verði strax við takmörkun á innflutningi grænmetis með því að bæta í niðurgreiðslu flutnkostnaðar rafmagns og auka landgreiðslur til útiræktunar grænmetis. Þannig sé hægt að auka framleiðslu innanlands en það taki tíma.(svo!) Þá hafi Bændasamtökin óskað eftir auknum framlögum til Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins vegna þeirrar vinnu sem hún hafi lagt í vegna faraldursins en ekki sé hægt að innheimta hjá einstökum bændum.”
Formaðurinn var kjörinn á Búnaðarþingi nýlega og kemur úr röðum garðyrkjubænda og samkvæmt því sem hér segir er hugur hans talsvert bundinn við þá búgrein. Vill að ríkið takmarki innflutning á grænmeti og bæti í niðurgreiðslur til þeirrar greinar. Auk þess telur hann þörf á að fá framlög til styrktar rekstri Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins vegna vinnnu sem hún hafi ,,lagt í vegna faraldursins”. Hver sú vinna er eða var, kemur ekki fram í fréttinni, en fróðlegt hefði verið að fá það fram.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ein búgrein hefur fram til þessa verið rekin að stórum hluta, ef ekki stærstum, af ríkinu. Og nú er svo að sjá sem hinn nýkjörni formaður Bændasamtakanna og sá sem kemur úr garðyrkjunni, vilji koma þeirri búgrein í flokk með þeirri grein landbúnaðarins.
Óskandi að það sé ekki rétt skilið, en ef af verður: að þá fari ekki á sama veg og með þá sem nú er rekin með opinberri markaðsskrifstofu til útflutnings- og innanlandsbrölts við markaðssetningu afurðanna.
Að minsta kosti má reikna með því, að grænmetið verði ekki ræktað á uppblástnu hálendinu.
Verði það úr og að á sama veg fari, er sem ekkert hafi breyst við kjör til formennsku í samtökum bænda; við að fá til forystu fulltrúa úr annarri búgrein en sauðfjárræktinni, annað en, að nú verði það garðyrkjan í stað sauðfjárræktarinnar verði sett í fyrsta sætið og í framhaldinu á fjálög ríkisins.
Fari svo, eru vonir um að samtökin þróist til Bændasamtaka allra bænda, í stað hluta þeirra, farnar út um þúfur.
Metum íslenskt sem vert er.
27. mars 2020
Á það hefur margoft verið bent af talsmönnum bænda og fleirum að ,gott væri heima hvað‘, að rétt væri af íslenskri þjóð að halla sér að íslenskum afurðum, en við misjafnar undirtektir.
Aðrir segja sem svo að það skerði kjör fólks að eiga ekki kost á að kaupa og neyta erlendra landbúnaðarafurða. Það er gilt sjónarmið svo langt sem það nær og ljóst er að ef innflutningur á erlendum landbúnaðarvörum væri einfaldlega bannaður, svo sem gert er í raun með t.d. kindakjöt, veldur það einkennilegri stöðu á markaði, svo það sé nú pent og gætilega orðað.
(Það þarf ekki að fjölyrða um ríkisreksturinn á sauðfjárræktinni, hvert hann er kominn og til hvers hann hefur leitt. Nægir þar að nefna markaðsinngrip, ofbeit, ríkisstyrki til gæludýrahalds, ríkisrekna markaðsskrifstofu til útflutnings og innanlandssölu, gríðarlega flókið og ógegnsætt styrkjakerfi, ,,gæðastýringu“ sem er nafnið tómt og fleira mætti til telja.)
Vegna viðskiptahagsmuna þjóðarinnar varðandi útflutningsvörur, var samið um innflutningsheimildir á landbúnaðarvörum fyrir nokkrum áratugum. Og síðan aukið við er núverandi formaður Framsóknarflokksins samdi um auknar heimildir fyrir innflutning á alifuglakjöti, nautakjöti, svínakjöti og ostum, í von(?!) um aukinn útflutning á kindakjöti til ESB. Sem ekki gekk eftir, enda engan markað að finna fyrir kindakjöt í því viðskiptasambandi, þ.e. markað sem greitt getur framleiðslukostnaðarverð íslensks kindakjöts.
Á endanum eru það neytendur sem ráða úrslitum og kaupa afurðir okkar bændanna ef verð og gæði afurðanna eru í lagi. Samt má ekki gleyma því að skilyrði þurfa að vera sem jöfnust hérlendis og í þeim löndum sem flutt er inn frá. Þar vantar mikið uppá, á mörgum sviðum og það er t.d. ekki tryggt að neytendur meti það sem skyldi, að ýmsar kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar og framleiðsluskilyrða eru strangar hér en þar.
Þeir vita sem rétt er að við höfum flest lifað af evrópskar landbúnaðarafurðir og það þó úr suður Evrópu væru!
Eða hafa lent í því líkt og undirritaður í veirufáti(!), að grípa danskar svínakótilettur í íslenskum umbúðum, en merktum sem danskar væru með örletri! Þær reyndust reyndar góðar svo sem við var að búast, en eigi að síður mun ég gæta mín betur næst!
Tryggjum svo sem unnt er að staða íslenskra bænda sé sambærileg við það sem gerist best. Hættum óþörfum ríkisrekstri og stöndum saman um íslenskt samfélag á sem heilbrigðustum grunni og eftir því sem við höfum best vit á.
Gerum eðlilegar og sanngjarnar kröfur til íslenskrar framleiðslu og búum henni sem best samkeppnisskilyrði. Munum að við búum á eyju í miðju N-Atlantshafi og því verður ekki breytt, nema með því að flytja af henni og það viljum við fæst og ekki nóg með það: það er fjöldi fólks sem vill flytja til okkar og telur að hér sé gott að búa.
Tökum því fagnandi og metum sem vert er, að hafa verið svo heppin að verða til í þessu góða landi.
Og vel á minnst: förum vel með landið okkar, og betur með það á morgun en í gær!
Hjólbörur úr steinsteypu.
16. mars 2020
Hjólbörur úr steinsteypu.
Sem barn man ég eftir stórum þungum heimasmíðuðum hjólbörum, sem voru með hjóli sem var lítið járnhjól úr steypujárni með gegnheilum og þunnum gúmmíborða.
Sá sem átti þessar börur var afi minn, stór og sterkur maður sem fór létt með að nota þetta verkfæri og það þó fullar væru af möl; hafði smíðað þær og raðað saman með því sem til var, enda efnin lítil en sjálfsbjargarviðleitnin næg. Fólk af þeirri kynslóð sem í heiminn kom um þar-síðustu aldamót reyndi að bjargast með því sem bauðst og hrópaði ekki í sífellu á aðra sér til bjargar eða til að kenna um.
Einkabíllinn var gamall Pontiac, sem við fórum á allar okkar ferðir og ég hafði það hlutverk að skipta í ,,þriðja“, svo því sé nú ekki gleymt! Sat vitanlega frammí og amma afturí og sjálfsagt hafa þau bæði haft lúmskt gaman að litla barnabarninu. Þetta var á þeim árum þegar ekki var búið að njörva samfélagið niður með reglugerðabunkum sem enginn sér yfir, né skilur til fulls.
Bílnum breytti afi minn síðan í pallbíl með því að skera aftan af húsinu, enda orðinn leiður á að troða þungum gaskútum inn í bílinn fyrir framan aftursætið. Hann var járnsmiður og var stundum að gera eitt og annað fyrir aðra, auk þess sem hann vann í Vélsmiðjunni Héðni hf.
En aftur að hjólbörunum.
Það er algjörlega útilokað að honum afa mínum hefði komið til hugar að smíða sér hjólbörur úr steinsteypu, því þó stór, sterkur og hraustur væri, hefði hann talið það óðs manns æði!
Afi var ekki menntaður í nýjustu tækni og vísindum þeirra tíma sem við sem nú erum á dögum, lifum á, en viss er ég um að hann hefði sett mörg spurningarmerki við að búa til bíla þar sem í væri troðið í hvert skúmaskot níðþungum rafgeymum til að rennireiðin kæmist með nokkrar hræður smá spotta og yrði þar síðan um langan tíma í hleðslu til að hægt væri að endurtaka leikinn og þannig koll af kolli.
Enn er ekki búið að finna upp rafgeymi sem er álíka þungur og bensíngeymir og inniheldur sambærilega orku og hann. Þetta vita allir sem vilja vita og jafnvel líka íslenskir ráðamenn sem gera það sér til öflunar vinsælda að fella niður skatta og gjöld af rafbílum, sem eru því miður mislukkuð fyrirbæri sem munu renna sitt skeið og hverfa, nema til komi uppfinningar sem engum sögum fer af.
Missum samt ekki móðinn, því líklegt er að lausnir séu handan við hornið t.d. í líki vetnis og metan og verði það raunin, mun sú lausn duga fyrir lítil sem stór ökutæki og brenna því sem er til óþurftar í andrúmsloftinu.
Skattleggjum rafbílana svo sem eðlilegt er með tilliti til vegaslits og gjalda sem eru lögð á önnur ökutæki og hættum að auka mismunun í samfélaginu með niðurfellingu gjalda fyrir þau efnameiri, á kostnað þeirra sem minna hafa handa milli.
Bjargvættur þjóðar?
15. ágúst 2019
Guðfinna Harpa Árnadóttir formaður Landsambands sauðfjárbænda, ritar grein í Fréttablaðið til andsvara við grein sem Guðmundur Steingrímsson hafði áður ritað í sama blað.
Lesa má út úr grein Guðfinnu, að sauðfjárrækt er landbúnaður og að íslenskur landbúnaður er sauðfjárrækt og ætti það ekki að koma mörgum á óvart sem þekkja til.
Guðfinna segir sauðfjárræktina vera: ,,samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni” og virðast þau tengsl vera með einhverjum dularfullum hætti og þó ekki, því ferðamennirnir munu hafa smakkað lambakjöt samkvæmt könnun sem framkvæmd var af Icelandic Lamb og niðurstaðan varð sem vænta mátti: að það hefðu margir þeirra gert, þ.e. smakkað.
Nokkuð var fjallað um þessa merkilegu niðurstöðu í Bændablaðinu á sínum tíma og komst ritstjóri blaðsins m.a. að eftirfarandi niðurstöðu í umfjöllun sinni um málið:
,,Engin leið er að segja nákvæmlega til um hver neysla erlendra ferðamanna hefur verið á innlendu alifuglakjöti vegna þess að 11% af heildarsölunni er innflutt kjöt. Ekki frekar en hver neyslan hefur verið á innlendu nautakjöti eða svínakjöti.”
Sem sagt ,,engin leið“ komast að því hver neyslan væri á þessum kjöttegundum vegna þess að þær væru líka fluttar inn. Rétt er í þessu sambandi að rifja upp að erlendu ferðamennirnir voru ekki spurðir um neyslu að öðru leyti en því hvort kjötið hefði verið smakkað.
Bændablaðið hélt síðan áfram umfjöllun sinni og upplýsti lesendur um eftirfarandi:
,,Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt.”
Það er sem sagt ekki hægt, en er samt hægt!
Og tökum nú eftir, að ekki var spurt um þá kjöttegund sem mest er neytt af, það er að segja alifuglakjöt.
Líklegt er að í framtíðinni verði þessi könnun notuð sem skólabókardæmi um það hvernig ekki eigi að vinna könnun af þessu tagi. Það er að segja, ef hún þá verður talin þess virði.
Sauðfjárræktin, sem er til umræðu í greinum Guðfinnu og Guðmundar er í miklum vandræðum. Vandræðum sem stafa af því að enginn markaður finnst sem greitt getur það verð sem þarf fyrir þann þriðjung framleiðslunnar sem er umfram innanlandsþörf og sem er haldið uppi með greiðslum úr ríkissjóði.
Treyst er á að ríkissjóður greiði í fyrsta lagi það sem þarf til að varan seljist (beingreiðslur, gæðagreiðslur(!), ullartillegg o.fl.), en einnig það sem þarf til að eitthvað hafist fyrir útflutninginn sem um nokkur ár hefur numið um 1/3 af framleiðslunni.
Annar vandi er síðan undirliggjandi, þ.e.a.s. að framleiðendurnir neita að horfast í augu við vandamálið. Horfast ekki í augu við að of mikið sé framleitt, að erlendir markaðir skili ekki því verði sem þarf. Horfast ekki í augu við að búskaparhættirnir séu úreltir og ekki vænlegir til vinsælda. Að það sé t.d. ekki sjálfsagt, að aðrir girði sig af til að verjast fénaðinum sem þeir búa með en ekki öfugt, og að ekki sé eðlilegt að ríkissjóður sé að styrkja fólk sem stundar búgreinina sem sport en ekki sem atvinnuveg og fái síðan greiðslur úr ríkissjóði jafnt og þeir sem eru að reyna að skapa sér atvinnu af henni og síðast en ekki síst: Að kindum sé haldið til beitar á hálendi sem er að fjúka upp vegna skertrar gróðurþekju (og fleira mætti til telja).
Auðvitað þarf að vera matvælaframleiðsla í landinu, en það er af og frá að hana þurfi að stunda í stórum stíl sem gjafagjörning til útlanda og með dýrategund sem gefur af sér afar litlar afurðir á hverja framleiðslueiningu, fer illa með gróður og helst ekki innan girðinga nema að þær séu af dýrustu og vönduðustu gerð.
Formanns Landsambands sauðfjárbænda bíður það erfiða verkefni að finna farsæla leið til að leiða félaga sína út úr vandanum. En ekki að berjast í því, að halda þeim sem fastast inni í gildrunni sem þeir eru fastir í og vitanlega verða þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaöfl, sem ábyrgð bera á að svo er komið sem komið er, að horfast í augu við stöðuna eins og hún blasir við.
Víst getur sú staða komið upp eins og dæmin sanna, að Ísland einangrist frá umheiminum að einhverju leiti. Sagan sýnir að það hefur gerst, en ef það gerist þá felst lausnin ekki í takmarkalítilli sauðfjárrækt. Málið er mun flóknara en svo.
_ _ _
Að lokum vil ég leyfa mér að birta þessa klippu úr grein Guðfinnu Hörpu til umhugsunar:
,,[…] skautað [er] framhjá flestum rökum fyrir því að styrkja innlenda landbúnaðarframleiðslu [í grein Guðmundar]. […] rök eins og eflingu atvinnu á Íslandi og þá sérstaklega atvinnu í dreifbýli […]. Um eða yfir 10 þúsund íslensk störf eru í landbúnaði eða tengd landbúnaði. Þessi störf skila ríki og sveitarfélögum tekjum eins og önnur störf. […]”
Síðan segir:
,,[…]lambakjötsframleiðsla, er samofin einni af okkar helstu útflutningsgreinum, ferðaþjónustunni í gegnum metnaðarfulla veitingaþjónustu […] og er þar með verulega gjaldeyrisskapandi.”
Gott væri að fá frekari útskýringu á þessu, þ.e.hvernig lambakjötsframleiðsla verður gjaldeyrisskapandi?
C540E7687AAC39213EB7F4309FE538D6
,,Bóndi er bústólpi - …“
28. desember 2016
Ein þeirra leiða sem menn geta farið til að koma vöru sinni á framfæri og gera hana girnilega í augum neytenda er að láta líta svo út sem um einstaka og endurbætta útgáfu frá því sem áður var í boði, sé að ræða. Einna best er ef hægt er að auðkenna hina nýju útgáfu á einhvern hátt, annað hvort með því að hún líti eitthvað öðruvísi út frá því sem áður var, eða og ekki er það verra: að skreyta hana, t.d. á umbúðum með uppslætti sem er þannig, að allir hljóti að geta séð að um nýja framleiðsluhætti sé að ræða. Framleiðsluhætti sem að auki séu á einhvern hátt til fyrirmyndar.
Flest höfum við séð dæmi um þetta vera til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Vara var kynnt til sögunnar á íslenskum markaði á þann hátt að hún sé til orðin með nýjum framleiðsluaðferðum sem í flestu tilliti séu betri en þær sem áður hafi verið notaðar við framleiðslu sambærilegra afurða. Aðbúnaður dýranna sem notuð sé til framleiðslunnar, sem í þessu tilfelli voru hænur, sé þannig að þær gangi frjálsar um í sinni vist, gott ef ekki hamingjusamar og jafnvel hamingjusamari en venjulegar hænur í sínu varpstreði lífsins. Og allt hefði þetta nú verið gott og blessað, ef hinar umræddu hænur hefðu getað borið vitni um, að fullyrðingarnar um ágæti aðbúnaðar þeirra væri eins og haldið var fram.
,,Vistvæn“ átti varan, þ.e. eggin sem um ræðir í þessu tilfelli, að vera. Ekki er undirrituðum kunnugt um hvernig það kom til að farið var að bjóða uppá skreytingu landbúnaðarvara með orðinu ,,vistvæn“. Hitt er ljóst að varan stóð ekki undir þeirri ímynd sem reynt var að skapa, sem eflaust var gert í þeirri von að markaðurinn gleypti vel og skilvirkt við hinum ,,vistvænu“ eggjum. Nú er hins vegar svo komið, að orðið hefur misst gildi sitt fyrir alla sem það hafa notað, hvort heldur sem þeir hafa staðið samviskusamlega að notkun sinni á því eða ekki.
Hver var innistæðan? Voru eggin betri? Hænurnar lukkulegri með tilveruna? Svarið er nei og eggin eru í besta falli eins og hver önnur hænuegg. Satt að segja virðist svo sem um hafi verið að ræða brellu til þess gerða, að geta kafað með kröftugum og markvissum hætti ofan í vasa neytenda. Það er stundað á fleiri sviðum og ýmislegt er gert til glepja og afvegaleiða almenning með það fyrir augum að ná árangri á þeim vettvangi. Í þessu tilfelli skilaði það framleiðendum eggjanna, eftir því sem fram hefur komið, allt að 40% hærra verði en annars fékkst á markaðnum.
Vitanlega er það þannig að bændur, sem virða góða og viðurkennda búskaparhætti, stunda búskap sinn bæði á vistvænan og lífrænan hátt. Hefur einhver rekist á randi sínu um sveitir landsins, á ólífrænar kýr, kindur, hross, minka, hænsni eða svín? Gera má ráð fyrir að flestir myndu svara því neytandi, þó ekki væri nema vegna þess, að erfitt er að ímynda sér búfénað öðruvísi en sem lífrænan, sé hann á annað borð dragandi lífsandann í sveitum landsins.
Því er það að bændafólk sem stundar sinn búskap vel og hirðir vel um fénað sinn, gerir það örugglega á vistvænan hátt. Enda er það þannig, að bændur og búalið uppskera eftir því hvernig þau búa að bústofni sínum. Uppskera eins og þau sá og þannig hefur það ætíð verið, hvað sem líður alls kyns lukkuriddurum sem ríða um héruð, sláandi um sig með allskyns orðagjálfri og nýyrðum.
Það gildir hið fornkveðna að: ,,Bóndi er bústólpi – bú er landstólpi -, því skal hann virður vel“. Að minnsta kosti ef hann uppfyllir það sem hér var talið.
Vörumst orðagjálfrið og treystum eftirlitstofnunum fyrir hlutverki sínu, þó þær séu vissulega ekki yfir gagnrýni hafnar, eins og dæmi undanfarinna ára sanna. Gagnrýnum hiklaust það sem okkur líkar ekki í verklagi þeirra og gerum það á eins málefnalegan hátt og við erum fær um, því þegar á allt er litið, þá eigum ekki annarra kosta völ en að treysta þeim fyrir hlutverki sínu. Vörumst að láta dómstól götunnar taka við hlutverki þeirra, eins og nú eru uppi raddir um. Í störfum þessara stofnana verður að ríkja trúnaður milli aðila. Rökstuddar ábendingar um bætur og betrun eru af hinu góða. Það getur dómstóll götunnar seint orðið.
Snotra
14. febrúar 2015
Það var dálítið farið að halla sumri (2014) þegar ég og konan mín vorum beðin að gæta tíkur sem sonur okkar og tengdadóttir eiga. Tíkin var hvolpafull og farin að nálgast got og það fylgdi með, að allt eins gæti svo farið, að gotið yrði á meðan hún væri í okkar vörslu. Það gekk eftir og í heiminn kom hópur að hrafnsvörtum hvolpum.
Einn þessara hvolpa eignaðist heimili hjá okkur og ólst þar upp.
Tíminn leið og eins og flestir vita, þá er það fremur krefjandi að ala upp hund, svona ekki ósvipað og að ala upp barn, en þó ekki eins að sjálfsögðu. Hvolpurinn vex og þroskast með undraverðum hraða, meðan börnin okkar mannanna þokast þetta hægt og bítandi. Hvolpurinn notar ekki bleyju, kopp, pela, né salernisskál og hefur takmarkaða stjórn á því hvar hann leggur af sér.
Krefjandi verkefni sem sagt, en tíminn vinnur með manni og eftir svo sem hálft ár má heita að erfiðleikarnir séu að baki, ef vel tekst til.
Við vorum heppin, allt gekk upp, hún Snotra okkar var orðinn sóma hundur. Hundur sem gætti vel og skilmerkilega að öllum hreinlætiskröfum, bæði sín og annarra, lagði af sér á afviknum stöðum utandyra og valdi sér skjól innan um trén til að tæma blöðruna.
Sómahundur, ljúfur og kátur, sem fagnaði manni hlýlega í hvert sinn sem fundum bar saman, sem vitnalega var æði oft í sveitalífinu.
Allt hafði gengið svo vel og framtíðin brosti við ungri, þroskaðri og fallegri tík sem hafði í hálfan sjöunda mánuð verið að kynnast veröldinni. Veröld sem í fyrstu hafði verið framandi og furðuleg í augum lítils dýrs, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið að vera allt í einu komið í þennan heim.
Hún sýndi þeim sem önnuðust um hana alla þá hlýju og vináttu sem dýr þessarar tegundar eru svo einstaklega lagin við að láta í ljós; fagnaði okkur á morgnana og bara satt að segja, hvar sem fundum bar saman. Gerði sig jafnvel líklega til að tala við okkur, þó raddböndin væru ekki sem heppilegust til þeirra nota.
Gerðist æ áræðnari varðandi könnun umhverfisins og kíkti jafnvel í heimsókn til dóttur okkar sem býr handan vegarins sem liggur um sveitina okkar. Það var okkur ekki vel við, en freistingin, að leika við kynsystkin sín þar á bæ var nær ómótstæðileg og því fór sem fór.
Um morgun, fyrir birtingu, barst hringing frá skólabílstjóra sem átti leið um, þess efnis að rétt væri að athugað yrði hvort ekki hefði verið ekið yfir hund á veginum, því það lægi dauður hundur á honum miðjum.
Það var gert og þar var hún Snotra okkar komin, líflaus og illa farin.
Einhver sem átt hafði leið um hafði orðið fyrir því óláni að keyra á þennan stóra hund og miðað við ummerki, laska bílinn sinn en ekki getað gefið sér tíma til að huga að dýrinu, sem hann hafði ekið á, né heldur að hirða upp brotin úr bílnum.
Nema það hafi verið hann sem hreinsaði þau út fyrir vegbrúnina?
Hver veit?
Við munum hins vegar hugsa hlýlega til hennar Snotru, með þakklæti fyrir þær ánægjustundir sem hún gaf okkur.
Kergja sem veldur stjórnarslitum
29. janúar 2009
Ekki er vitað með neinni vissu, hvað það er sem velur því að hestar geta tekið uppá því að vera það sem kallað er að þeir séu staðir og fást ekki með nokkru móti til að færa sig úr stað. Það eina sem við, sem höfum orðið fyrir því að sitja slíkan grip vitum, er að það er nánast sama til hvaða ráða er tekið, hrossið fæst ekki til að hreifa sig. Þetta er afskaplega leiðinleg uppákoma og fremur ömurlegt að horfa á eftir ferðafélögunum hverfa í fjarska á meðan ekkert gerist hjá manni sjálfum annað en það að gremjan hleðst upp. Ekki bætir nú úr skák ef maður er nú staddur út í miðri á sem þar að auki er í vexti og mikið getur legið við að haldið sé áfram en nei, hesturinn hreyfist ekki, lyftir aðeins taglinu lítið eitt og teðjar í ána.
Þessu lík er sú staða sem uppi hefur verið í íslenskum stjórnmálum undanfarna mánuði, þ.e. stærsti og öflugasti(?) stjórnmálaflokkur landsins með innanborðs fjölda hæfileikafólks af ýmsum sviðum hefur birst sem bæði þver og staður og að því eð virðist úr tengslum við raunveruleikann. Ekki ósvipað og klárinn sem áður var nefndur: hingað er ég kominn, ætla ekki lengra og hér mun ég vera.
Öll þekkjum við fumið og fátið sem greip um sig á þeim bæ er Glitni skorti skotsilfur og farsann sem á eftir fylgdi. Afleiðingarnar af hagstjórnarsnilli Sjálfstæðisflokksins voru að koma í ljós með hroðalegum afleiðingum fyrir þjóðina. Í framhaldinu neitaði forysta flokksins, að horfast í augu við það sem búið var að gerast og frægar eru yfirlýsingar Seðlabankastjórans um að nægir peningar væru til í landinu og að engin ástæða væri til að þjóðin færi að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Undir þetta tók núverandi formaður flokksins og virtist þar með enduróma rödd húsbónda síns að sumra mati.
Tregða flokksins, sem virðist vera nærður beint í æð frá Seðlabankastjóranum, að snúa sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), ákvarðanatökufælni varðandi ESB og að lokum það að geta ekki horfst í augu við kröfuna um að tekið yrði til í stjórnkerfinu hefur verið flestum augljós. Það var reyndar rokið til og tilkynnt um flýtingu á landsfundarhaldi þar sem fjallað yrði um afstöðuna til ESB og virtist þar með sem bikkjan væri að taka við sér, svo vitnað sé í líkinguna hér að framan, en allt var það síðan blásið af og tilkynnt um að fundinum væri frestað og síðan var áfram þumbast við varðandi tiltektina sem fyrr var nefnd. Flokkurinn var eins og svo oft áður settur framar þjóðinni sem hann var þó væntanlega stofnaður til að þjóna.
Því er það að við stöndum nú frammi fyrir því að verið er að dubba upp í ráðherraembætti það svartasta afturhald sem fyrirfinnst í íslenskum stjórnmálum. Þeim sem gasprað hafa um að skila skuli lánunum frá IMF og fleirum, að því ógleymdu að vera á móti flest öllu sem til framfara horfir í atvinnumálum þjóðarinnar undir yfirskini náttúruverndar. Stjórnmálaafl sem virðist ekki hafa neina atvinnumálastefnu aðra en þá að tína skuli hundasúrur og njóla að ógleymdum fjallagrösum sem þeir hafa örugglega áhuga á. Rétt er þó að halda því til haga að Steingrímur J. formaður VG, Enver Hoxha Íslands?, lýsti því á sínum tíma því hve æskilegt væri að virkja Þjórsá.
Þeir sem eru óhressir með þetta nýja stjórnarsamstarf, sem að því er virðist, er allt að því óumflýjanlegt vegna fyrrnefndrar kergju Sjálfstæðisflokksins, geta huggað sig við að það er til skamms tíma stofnað og því vonandi að VG nái ekki að gera mikið tjón.
Vonandi er að þau hafi það ekki af að breyta Íslandi í Albaníu norðursins þó hugurinn standi kannski til þess.