Jón og ,,séra Jón”

17. febrúar 2010

Að undanförnu hefur verið í gangi umræða um lánveitingar úr bönkum landsins sem hlýtur að teljast afar áhugaverð a.m.k. fyrir hinn títtnefnda almenning. Það hefur nefnilega komið fram nokkuð sem margir vissu, en þó ekki fyrir víst, að ekki er sama Jón og annar með sama nafni sem nefndur hefur verið „séra” Jón. Þannig er að sérann í þessu tilfelli, er ekki prestur heldur einhver sem sýslar með fé sem oftast er tekið að láni og vitanlega er það allt annað en að meðhöndla viðkvæmar sálir sem eru að leita stóra sannleikans. Þetta „séra” sem klínt hefur verið á Jón gamla táknar sem sagt ekki annað en það að hann er  á allt öðrum stað í lífinu en hinn venjulegi Nonni.

 

Upplýst er að forréttinda Jón þarf ekki að setja önnur veð fyrir láni sem hann tekur í bankanum sínum en lánið sjálft og verður að segja það eins og er að það hlýtur að vera mikið lán í óláni að því sé þannig fyrir komið. Venjulegi Jóninn þarf nefnilega undantekningarlaust að setja eigur sjálfs síns að veði fyrir láninu og ef það dugar ekki til þá eigur barna sinna, foreldra, afa og ömmu eða eitthvað enn meira og liggur í augum uppi að það er hið mesta ólán. Vitanlega sjá allir að það er mun heppilegra að ekkert veð sé fyrir láninu annað en lánið sjálft, því ef illa fer og aurarnir tapast á Tortólu eða í einhverri annarri sjóræningjaparadís þá er ekki um að ræða nein eftirá leiðindi; aurarnir eru barasta horfnir, tíndir og tröllum gefnir og síðan ekki neitt meira með það. Nema að því náttúrulega ótöldu að alltaf má fá meira að láni hjá hinni örlátu lánastofnun, en vel að merkja það gildir bara um forréttinda Jón og rétt að taka það skýrt fram svo menn fari nú ekki að halda einhverja vitleysu.

 

Auðvitað er þetta ekki það sem hinir venjulegu Jónar kannast við úr sínu lífi. Þeirra veruleiki er allt annar eins og kunnugt er, en vegna þess hve ótraustir lántakendur þeir eru þá geta þeir ekki reiknað með að komist í stöðu forréttinda Nonnans. Hinn venjulegi alþýðu- Nonni verður ævinlega að tryggja í bak og fyrir allar sínar lántökur og þó það nú væri. Hann gæti nefnilega tekið uppá því að greiða ekki margfalt til baka það sem hann tók að láni og því er það að traust, tryggð og ábyrgð skal í hávegum höfð þegar hann er annars vegar. Hvernig halda menn að færi fyrir lánastofnunum ef alþýðu- Jónar tækju uppá að hafa það eins og kúlulána og veðleysu Jónarnir að greiða ekki til baka það sem þeir fengu að láni? Það færi ekki vel með hinar virðulegu peningastofnanir. Hvernig ættu þær þá að standa undir því að gefa forréttinda Jónum aurana sem þeir þurfa svo sárlega á að halda?

 

Vitanlega sjá allir sem vilja sjá, að slíkt gengur engan vegin. Það verður að vera eitthvert skipulag á hlutunum í þessu efni sem öðrum og því er það að Jón verður að átta sig á því að hans gleði felst í því að njóta þess hve séra Jóni vegnar vel og vegna þess hve velgengni hans  er ánægjuleg, að leggja bara enn harðar að sér í lífsbaráttunni til að geta greitt lánin, bæði sem hann tók sjálfur (að sjálfsögðu) og síðan einnig hin sem forréttinda Jón tók.

 

Annars fer allt í vitleysu eins og allir vita.  

Því var haldið fram í síðasta pistli þessa bloggara að eflaust yrði hægt að finna Svörtuloftum (Seðlabankahúsinu) verðugra hlutverk en það sem þau hafa gengt til þessa eftir að Seðlabankinn hefur sungið sitt síðasta vers. Það er þegar Íslenska krónan verður horfin á vit feðra sinna og aflóga stjórnmálamönnum hefur verið fundið eitthvað þarfara að gera en að fremja heimskupör á kostnað þjóðarinnar.

 

Það verður hins vegar að viðurkennast að ekki liggur í augum uppi hvernig nær gluggalaust, dökkt og forljótt peningamusteri getur orðið til gagns, en í gær kom vinur minn í heimsókn og laumaði að mér svo snjallri hugmynd að ég bara get ekki látið hjá líða að koma henni á framfæri. Hugmyndin gengur út á það að húsinu verði komið til gagns á alveg nýjan og frumlegan hátt, í stað þess að þar verði sýslað með einskis verðar Ísl. krónur þá verði sýslað með fólk, fólk sem fram að þessu hefur átt undir högg að sækja og nær hvergi átt höfði sínu að halla.

 

Hugmynd vinar míns gengur sem sagt út á að í stað þess að musteri Mammons verði rifið, jafnað við jörðu og eytt svo sem hugur margra gæti hugsanlega staðið til, þá verði það aldrei þessu vant nýtt þjóðinni til gagns og fyllt af fólki. Þannig hagar nefnilega til að í þægilegu göngufæri við þessa stofnun, sem lengst af hefur verið notuð til dagvistunar á úr sér gengnum stjórnmálamönnum, eru tvær stofnanir sem með beinum og óbeinum hætti munu falla afar vel að hinu nýja hlutverki Seðlabankahússins.

 

Stofnanirnar sem um er að ræða eru annars vegar Héraðsdómur Reykjavíkur og hins vegar Hæstiréttur Íslands. Hugmynd hins glögga vinar míns gengur sem sagt út á það að breyta Svörtuloftum í fangelsi fyrir það fólk sem ekki er talið hæft til að vera innan um íslenskan almenning, hvort heldur er um stundarsakir eða til framtíðarvistunar. Helstu og bestu rökin fyrir þessu telur vinur minn vera þó nokkur, fyrir nú utan það að byggingin sé í miðbænum miðjum. Eitt það fyrsta sem hann taldi henni til tekna, ef af yrði að hún fengi þetta nýja hlutverk, var að ekki myndi þörf á að byrgja glugga með rimlum, eins og svo sjálfsagt þykir að gera í slíkum mannvirkjum allmennt. Ég held raunar að þetta sé ekki alveg rétt hjá vini mínum, þ.e. að engir gluggar séu á húsinu, en geri alls ekki ráð fyrir að það verði neitt vandamál að leysa úr því, íslenskir járniðnaðarmenn geta vafalaust smíðað brúklega rimla á kumbaldann.

 

Útlit er fyrir að mikla og góða nýtingu á húsnæðinu ef af þessu verður, því nægt framboð er á glæpamönnum í íslensku samfélagi. Þeir eru til af öllum gerðum og stærðum og ef eitthvað vantar uppá þá er bara hægt að flytja þá inn eins og gert hefur verið með góðum árangri undanfarin ár og ekki má gleyma  því að við erum  frá öndverðu landflótta lýður sem á sínum tíma hefur víst ekki verið talin par fínn í Noregi. Því eru allar líkur á að framboð gistivina verði yfrið og húsið verði nánast ætíð fullsetið.

 

Það er svo aftur á móti allrar skoðunar vert fyrir til þess bæra sérfræðinga, hvernig á því stendur að sumir Íslendingar hafa ómælda þörf fyrir að flaðra upp um Norðmenn nútímans og helst af öllu fá þá til að bæta fyrir þá skömm sem ákveðin afsprengi íslensks frjálshyggjuátrúnaðar hafa valdið þjóðinni á erlendum vettvangi. Þar virðist vera á ferðinni einhverskonar röksemdafærsla á þá leið að betra sé að skammast sín mikið gagnvart einni þjóð heldur en minna gagnvart mörgum og sannast það hið fornkveðna: Að rökfestu og hugsnilli hinnar íslensku þjóðar eru engin takmörk sett.