Urgur er í bændum eftir Búnaðarþingið sem haldið var á dögunum.

Þar var m.a. tekin ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi aðildargjalda og um það snýst umræðan og óánægjan. Sumum finnst óeðlilegt að gjöldin séu bundin við veltu búanna með því þrepaskipta fyrirkomulagi sem búið er að ákveða.

Það er eðlilegt, að mínu mati, að að gerðar séu athugasemdir við þá ákvörðun sem nú birtist bændum og tekin var á síðasta Búnaðarþingi.

Þar voru gerð veruleg mistök.

Mistökin felast í því, að ákveðið var að gera aðildargjöldin að Bændasamtökunum veltutengd í þrepum og upp að vissu marki, sem leiðir til þess að stærri aðilar fá sérstakan afslátt frá félagsgjöldum.

Engar fréttir hafa borist af því að breytt hafi verið fyrirkomulagi hvað varðar, skipan fulltrúa á Búnaðarþing, því sem kýs stjórn Bændasamtakanna, og er því hið raunverulega æðsta vald félagsskaparins.

Vægi atkvæða til kjörs á fulltrúum á þá samkomu fer í engu eftir aðildargjöldunum eins og þau eru sett upp og í raun er það þannig að hlutföllin eru öfug. Þ.e.a.s., að þeir sem ætlað er að greiða mest, njóta þess í engu hvað varðar möguleika til fulltrúavals á Búnaðarþing og þar með kjöri í stjórn Bændasamtakanna, nema að síður sé og er hægt að benda á mörg dæmi þar um.

Því má segja að ákvörðunin sé hvorki fugl né fiskur eins og hún er nú kynnt félögum í Bændasamtökunum og hvað fulltrúar á Búnaðarþingi voru að hugsa liggur ekki fyrir. Gera verður samt ráð fyrir að þau sem þar þinguðu hafi hugleitt málið. Hafi svo ekki verið, þá hafa þau brugðist hlutverki sínu og það gerðu þau reyndar hvort heldur er!

Sé ætlunin að vaða yfir á, gerist það ekki þannig að tekið sé eitt skref út í hylinn við bakkann og síðan staðnæmst þar; horft yfir á bakkann hinu megin og beðið í þeirri trú að hann komi til þess sem í hylnum stendur. Sá þarf alla vega að bíða mjög lengi og satt að segja frekar ólíklegt að honum endist örendið í bið sinni.

Eins og ég sé þá breytingu sem gerð var, þá hafa menn gert sér grein fyrir að breyta þyrfti uppbyggingu Bændasamtakanna og þarf engan að undra að svo hafi farið, því löngu var kominn tími til.
Það var bara byrjað á öfugum enda.

Sé ætlunin að fara í ferðalag, þá er gott að ákveða í upphafi hvert ætlunin sé að fara. Svo var ekki gert í þessu tilfelli og í því ákvörðunarleysi liggur ástæðan fyrir ólgunni sem uppi er.

Eðlilegast hefði verið að byrja á, eða jafnframt, að breyta uppbyggingu Búnaðarþings, þ.e. fulltrúavali á þingið. Hafi menn vilja gefa þinginu eins og það er núna framhaldslíf, að gera það þá að valdalausri samkomu áhugafólks um landbúnaðarmál, sem myndi þá koma saman sjálfstætt og án tengsla við Bændasamtökin.

Búnaðarþing eins og það sem nú er, er úr takti við landbúnaðinn í landinu og er arfur frá liðinni tíð. Vel getur verið að það hafi endurspeglað ástandið eins og það var fyrir hálfri öld eða svo, en við erum ekki þar!

Eðlilegast væri, ef niðurstaðan verður sú að halda skuli í Búnaðarþingið, að það verði kosið af félögum í Bændasamtökunum og að atkvæðavægi fari eftir félagsgjöldum, sem séu án þrepa og hámarks.

Það laðar ekki framleiðendur að samtökunum að þeir njóti ekki atkvæðisréttar í hlutfalli við gjaldið sem þeir greiða. Og vel getur verið að ef Bændasamtökin yrðu færð til nútímans, að aðilar sem standa utan þeirra núna, myndu þá sjá sér hag í að ganga til við liðs við þau.

Fyrirkomulagið eins og það er, gengur ekki upp og líklegast er að fulltrúar á síðasta Búnaðarþingi hafi ekki áttað sig á því. Hafi sést yfir að stíga verður skrefið til fulls. Að breyta aðildargjöldunum án þess að breyta vægi atkvæða stenst ekki og það hljóta menn að sjá við nánari skoðun.

Mér er ekki kunnugt hvort hægt sé að kalla saman aukabúnaðarþing, en sé það hægt, virðist augljóst að það verður að gera, því annars mun ákvörðunin sem tekin var varðandi aðildargjöldin leiða til þess að Bændasamtökin trosni, enn frekar og meira upp, en orðið er.

Stórveldi koma og fara.

25. apríl 2020

Sagan sýnir að ,,stórveldi” rísa og hníga.

Flestir þekkja hvernig Rómarveldi tærðist upp innan frá og svo fer fyrir þeim flestum að lokum.

Bretar tóku þá ákvörðun að þeir nenntu þessu ekki lengur og stofnuðu Breska samveldið.

Sovétríkin stóðu aldrei á sérlega sterkum fótum og teljast því ekki með, og mörg hafa þau risið ,,stórveldin” og lifað um hríð, en síðan flosnað upp.

Er nú komið að Bandaríkjunum að fara sömu leið?

Það er sem fjörbrot skaki þau síðustu árin:

Þau eru upp á Rússa komin varðandi geimstöðina, þ.e. að koma þangað fólki til og frá.

Iðnaðurinn sem eitt sinn þótti eftirsóknarverður, er ekki ,,inn”, utanríkismálin eru í klúðri og fleira mætti til telja.

Og svo kjósa þeir mann fyrir forseta sem við fylgjumst er með í forundran.

Mann sem flaðrar upp um Kim hinn norðurkóreska, hreytir ónotum í ,,vinaþjóðir”, ber víurnar í Grænland og Helguvík og leggur til að menn skoli sig að innan með sótthreinsi og baði sig að utan með útfjólubláu ljósi!

Og það sem var alvara í gær, er kaldhæðni í dag, og enginn veit hvað verður á morgun.

Jeltsín var veikur maður og hefði þurft á Vog.

En er til einhver stofnun sem er fær um að vinda ofan af þessum forseta?

Eru Bandaríkin ef til vill ekki það lýðræðisríki sem við höfum talið þau vera þegar betur er að gáð? Eru þau einungis auðræðisríki, þar sem ekki er spurt um vit, hæfni né getu?

Er ekki orðið tímabært að þeir hafa það fyrir atvinnu að snúast í kringum forseta Bandaríkjanna: hætti að sitja og mæna gagnrýnislaust og uppfullir af lotningu á meistarann og taki á málunum?

Séu þeir ekki færir um það, að þeir dragi sig þá í hlé og hleypi einhverjum sem eru með sæmilega fullu viti inn í Hvíta húsið?

Samgönguráðherra ritar pistil í Morgunblaðið 23.04.2020 og kemst að þeirri niðurstöðu að best sé að borða íslenskt.

Hefði hann ritað pistilinn haustið 2015, hefði hann eflaust komist að þeirri niðurstöðu að það væri nú ekki svo nauið, hvort étið væri íslenskt eða útlenskt.

Afstaða manna (sumra) fer nefnilega talsvert eftir því hvert og hvaðan vindurinn blæs í það og það skiptið.

Sú var tíð að ráðherrann, sem þá var landbúnaðarráðherra, byrsti sig við bændur sem voru þeirrar skoðunar sem hann er í dag, en kannski ekki á morgun eða hinn, og sagði með þjósti eitthvað á þá leið að þeir yrðu bara að spjara sig og standa sig í samkeppninni við innflutning á landbúnaðarafurðum frá ESB.

Vel að merkja, öðrum afurðum en lambakjöti, því til þess voru nefnilega hrútarnir skornir, að það átti að flytja út kindakjöt til Evrópusambandsins, en þaðan átti hinsvegar að flytja inn til Íslands ,,í staðinn” eins og það var orðaða, alifugla-, nauta- og svínakjöt auk osta.

Og þá var nú ekki verið að hafa áhyggjur af fjölónæmum bakteríum, né bændum, þ.e.a.s. öðrum en sauðfjárbændum, því á framsóknarbænum hafa menn alltaf miklar áhyggjur af blessaðri sauðkindinni. Nema að vísu ekki þegar hún ráfar um hálfsoltin og hrakin á íslenskum gróðursnauðum heiðum.

Framsóknaráhyggjur ná ekki þangað.

Það er nefnilega svo gaman að smala á haustin og kindin er jú, eins og flestir vita, til skemmtunar og reyndar líka til þess að ríkissjóður hafi eitthvað almennilegt við peningana að gera.

Landsvirkjun greiðir arð.

23. apríl 2020

Þegar að þrengir getur verið gott að vel sé búið; að eggin séu ekki öll í einni körfu, og nú sést hve rétt það er.

Samkvæmt því sem lesa má í vefritinu Kjarnanum, bregður svo við að Landsvirkjun greiðir 10 milljarða arð í ríkissjóð.

Vissulega er það sem dropi í það útgjaldahaf sem ríkissjóður stendur frammi fyrir þessa dagana, en eigi að síður: það munar um allt.

Og þá verður manni hugað til þeirra sem hafa haldið uppi sífelldu niðurnagi í garð virkjana, virkjanaframkvæmda, orkufrekra iðjuvera (s.s. álvera); þeirra sem lagt hafa sig fram um að kippa stoðum undan íslensku samfélagi.

Allt í nafni ,,umhverfisverndar” og ósnertrar náttúru sem þeir telja sig hafa fundið upp og að sé hreint út um allt, nema þar sem mannskepnan hefur stigið fæti. Sést yfir, að það er fleira sem veldur breytingum á náttúrunni en athafnir manna.

Og að sumt er það til hins verra, en annað til hins betra.

Náttúruöflin spyrja ekki Umhverfisráðuneytið um leyfi til að bylta sér og við þekkjum jarðskjálfta og eldgos, sem valdið geta stórfelldum breytingum á örfáum dögum og vikum og stundum mánuðum. Geta jafnvel staðið yfir í enn lengri tíma.

Við erum svo heppin að framsýnt fólk hefur stigið fram og drifið af stað framkvæmdir þjóðinni til hagsbóta þegar syrt hefur í álinn og þjóðin öll eða einstakir landshlutar, hafa verið í efnahagslægðum með meðfylgjandi atvinnuleysi og rýrum kjörum.

Þannig var staðan þegar farið var í að byggja Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík. Sama má segja þegar framsýnt fólk gekk fram til þess að koma atvinnulífi á Austfjörðum úr þeirri lægð sem það var búið að vera í um skeið. Niðurstaðan var að byggja Kárahnjúkavirkjun, glæsilegt mannvirki, og í tengslum við hana var byggt álverið í Reyðarfirði.

Gengið var í að virkja náttúruöflin þjóðinni til hagsbóta í þessum tilfellum og þau eru ágæt dæmi um það sem vel hefur tekist. Margt fleira mætti til taka en hér verður upptalningunni lokið í bili a.m.k., en við skulum samt ekki gleyma sjávarútvegnum, þar sem náttúruauðlind er nýtt á glæsilegan hátt og það svo að til fyrirmyndar er talin víða um heim.

Enn eru þau samt að, þau sem úr öllu vilja draga, telja flest ef ekki allt sem gert er ósæmileg inngrip í náttúruna og landið sjálft.

Náttúruöflin og náttúruna sem spyrja enga blekbusa um hvernig þau megi haga sér; gjósa og skjálfa og flæða, þegar þeim er mál og spyrja einskis.

Þar með er ekki sagt að gera megi hvað sem er og hvenær sem er, en við ættum að forðast að sökkva niður í kerfisdrepandi smásmugulega úrtölupólitík og gera það sem gera þarf til að gott sé að búa í landinu okkar.

Lifa í og af landinu og gera það á sem bestan hátt, en tryggja jafnframt að þeir sem sífellt sjá ekkert nema trén í skóginum - en alls ekki skóginn sjálfan - nái ekki að drepa allt í dróma.

Orka fyrir skip o. fl.

21. apríl 2020

Talsvert hefur verið rætt um að framleiða mætti olíu með ræktun repju og nota til að knýja skip.

Undirritaður telur sig minnast þess t.d. að formaður Framsóknarflokksins hafi gert það, auk þess sem hann hélt því eitt sinn á lofti í útvarpi, að innan tíðar yrðu flugvélar rafknúnar og Íslendingar yrðu í forystu varðandi þá merkilegu tækni.

Lítið hefur heyrst af þessum áhugaverðu möguleikum í seinni tíð, enda flugvélar flestar standandi á flughlöðum og verð á eldsneyti í sögulegu lágmarki, svo ekki sé nú meira sagt.

Á alnetinu safna skýrslur ekki ryki og þar má finna svo dæmi sé tekið samantekt í skýrslu, EFLU verkfræðistofu ORKUSKIPTI SKIPA Möguleikar á orkuskiptum á sjó, frá 05.11.2019, þar sem má lesa um margvíslega möguleika til framtíðar litið. M.a.er fjallað um möguleika sem felast í ræktun repju til orkuvinnslu.

Þar kemur fram að:

,,Rannsóknir Samgöngustofu sýna að hægt er að fá um hálft tonn af repjuolíu af einum hektara lands á hverju ári.”

Jafnframt:

,,Af þeim lífmassa sem fæst af hverjum hektara lands við repjuræktun, áætlar Samgöngustofa að um 15% séu olía, 35% hrat sem nýtist sem fóðurmjöl og 50% stönglar. CO2-bókhaldið helgast töluvert af því hvernig þessar afurðir eru meðhöndlaðar, sér í lagi stönglarnir. Hægt er að nýta þá á ýmsan hátt, t.d. með því að brenna þá sem orkugjafa eða plægja niður í landið aftur. Ljóst er að sé stönglunum brennt, losnar það CO2 sem plantan batt við vöxtinn, en óljóst er hvað gerist ef stönglarnir eru plægðir niður. Hugsanlega binst eitthvað af CO2 í næstu repjuuppskeru, en einnig getur verið að þeir rotni og losi þar með gróðurhúsalofttegundir. Áður en hægt verður að fullyrða að repjuræktun til skipaeldsneytis leiði til nettóbindingar þarf því að fara fram mun ítarlegri úttekt á losuninni þar sem tekið verður tillit til losunar vegna lífræns og tilbúins áburðar, afdrifa plöntuleifanna, framleiðslu tilbúins áburðar, framræslu lands og fleira.”

Stönglarnir gætu s.s. rotnað og myndað gróðurhúsalofttegundir og ýmislegt þarf að athuga betur.

Ekki hefur undirritaður séð í umfjöllun um málið að tekið sé tillit til þess hve mikil olía fer í að framleiða olíu með þessum hætti. Hugsanlega er það hverfandi m.v. ávinninginn, en sé svo, væri gott að það kæmi fram.

Síðan:

,,Helsti ókostur repjuolíunnar er sá, að hún telst fyrstu kynslóðar lífeldsneyti. Fyrstu kynslóðar lífeldsneyti nýta ræktunarland sem annars væri hægt að nýta til matvælaframleiðslu, og vegna þess hafa flest lönd ekki litið á fyrstu kynslóðar lífeldsneyti sem endurnýjanleg nema að takmörkuðu leyti. Í nýjustu tilskipun ESB um endurnýjanlegt eldsneyti kemur fram að ekki sé hægt að telja fram slíkt eldsneyti eftir 2030 sem framlag til skuldbindinga aðildarlanda árið 2030 um endurnýjanlegt eldsneyti. Þó er tekið fram að sé eldsneytið ræktað á landi sem hefur ekki verið nýtt til matvælaframleiðslu er hægt að telja það fram (þ.e. telja eldsneytið endurnýjanlegt).”

Sem sagt allt meira og minna í einhverju framsóknarplati.

Og helst hægt að jafna til við kenningar um að hagkvæmt sé að framleiða kjöt með nauðbeit dýrategundar, sem ekki er sérlega vel fallin til kjötframleiðslu, á uppblásnu landi og í landi sem stundum er sagt vera á mörkum hins byggilega heims.

Þó við séum ekki alveg sammála síðustu fullyrðingunni og getum bent á, því til staðfestingar, að vinsælt sé nú landið og gott í að búa, samfélagið frábært og að vorið komi alltaf á eftir vetri, með jarmandi yndislegum lömbum, þá efumst við um:

Að gott sé að fórna þúsundum hektara til framleiðslu á eldsneyti fyrir vélar, þegar ýmsir aðrir betri kostir eru í boði.

Í bókinni ,,Geirfuglarnir“ eftir Árna Bergmann sem kom út hjá Máli og menningu 1982, og sem er skáldsaga í ,,endurminningastíl“ eins og fram kemur á bókarkápu, lætur hann það gerast á Suðurnesjum, að Bandaríkjamenn koma sér upp kafbátastöð.

Aðsiglingin er góð og ekki þurfi að skemma ,,neitt að ráði“ til að aðstaðan verði hin besta.

Nú eru uppi hugmyndir um að byggja flotaaðstöðu í Helguvík fyrir NATO flotann, sem við vitum að er stjórnað frá Bandaríkjunum að mestu, og er svo að sjá sem Árni hafi séð inn í framtíðina, þó sagan gerist í fortíðinni.

Og nú skulum við grípa lauslega niður í frétt Morgunblaðsins af málinu, þann 20.4.2020:

Vafalaust er það svo, að til að byggja flotahöfn í Helguvík þurfi ekki að skemma ,,neitt að ráði“ og þó þetta sé nú nær allt í véfréttastíl, þá er það nú svo að einn helsti ökugarpur alþingis er búinn að ,, vita til þess að samstarfsþjóðir […] [hafi] verið að „kalla eftir“ því að ráðist yrði í þetta verkefni. Þá kveðst […] bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ […], hafa heyrt af auknum áhuga bandalagsins á svæðinu.

Og oft er í holti heyrandi nær eins og þar stendur.

Og […] Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar, hefur sömuleiðis heyrt af áhuga á framkvæmdum í Helguvík […]. Hér ,,vita menn til“ og ,,kallað er eftir“ og ,,heyra af“ og ,,heyra [jafnvel] af áhuga“.

Og vegna þess að það geisar veirupest, þá leita menn allra leiða og sumir er áhugasamir en aðrir ekki:

,,Ásmundur Friðriksson og Friðjón Einarsson eru á einu máli um að kæmi til framkvæmda á þessari uppbyggingu hefði það mikilvæg efnahagsleg áhrif á svæðinu, þar sem óttast er að atvinnuleysi rjúki nú upp úr öllu valdi vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Að sögn Halldórs myndi uppbyggingin skapa störf bæði á framkvæmdatíma sem og til lengri tíma. Því sé harðærið nú kjörinn tími til þess að kanna þessa kosti, enda áætlanir þegar fyrir hendi. Ásmundur segir að umfang verkefnisins gæti verið allt að 16,5 milljarðar króna. Hann sakar bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar um að taka ekki af nægum krafti undir áhuga Reykjaneshafna á verkefninu.”

,,Harðærið” er kjörið til að ýta þessu verkefni af stað, þörfin er brýn og verst að einhverjir skuli vilja hugsa sig um áður en gengið sé af göflunum.

Ef til vill hafa þeir lesið bók Árna Bergmanns og vita hvernig fór fyrir kafbátastöðinni og nágrenni.

Líka getur verið að þeir hafi í huga fyrri glæfraspil bæjarstjórnarmanna sem settu sveitarfélag sitt á höfuðið. Hver veit? Ekki sá sem spyr.

Minnisvarðar um rangar ákvarðanir standa enn í Reykjanesbæ; milljarðar eru foknir út í veður og vind og verksmiðja stendur ónotuð og ryðgar hægt og rólega engum til gagns.

Samt ágætur vitnisburður um að gott getur verið að ganga hægt um gleðinnar dyr og hengja sig ekki hugsunarlaust á háls þess fyrsta sem býður gull og græna skóga.

Fyrir nú utan, að við erum alveg nægjanlega mikið tengd stríðsleikjum NATO, þó þetta bætist ekki við.

Mér er minnisstætt þá ungur ég var, og starfaði sem vélstjóri á flutningaskipum, að erfitt gat verið að komast inn í Þorlákshöfn og eitt sinn var svo, að skip sem ég var búinn að ráða mig á komst ekki inn í höfnina. Eftir að það hafði lónað nokkra daga þar fyrir utan var því að lokum siglt til Reykjavíkur og hráefninu sem um borð var og átti að nota í húsdýrafóður, var síðan ekið á bílum til Þorlákshafnar.

Þetta var 1971.

Það er gott á tímum COVIT-19 að til séu þeir, sem vilja halda áfram, byggja upp og efla atvinnulíf og útflutning.

Hér greinir frá því að til standi að byggja stórt svínabú og efla laxeldi í Ölfusi.

Til staðar er höfnin í Þorlákshöfn og þangað sigla skip á milli Íslands og Evrópu í hverri viku.

Einnig munu vera uppi hugmyndir um að byggja nýja verksmiðju til fóðurframleiðslu fyrir húsdýrafóður í Þorlákshöfn og gaman verður ef þetta allt gengur eftir.

https://www.visir.is/g/2020200419965?fbclid=IwAR0Di7PFPnzEPsK-y6dtIRwyrBr_-39rzAB5zStqGhfwLKebLbMYG5yX210

Dagskráin fréttablað.

19. apríl 2020

Suðurland

Það kennir ýmissa grasa í Dagskránni fréttablaði Suðurlands.

Mögnuð mynd er á forsíðunni af því hvernig Suðurlandsundirlendið leit út eftir veðrið sem gekk yfir þann 5. apríl og þar er líka gleðileg frétt, þar sem sagt er frá því að fyrirtækið Jötunvélar, sem lenti í rekstrarerfiðleikum muni opna að nýju og með auknum krafti, auk þess sem fyrirtækið Aflvélar komi til með að flytja á Selfoss.

Grein er í blaðinu eftir umhverfisráðherra og önnur eftir Oddnýju Harðardóttur undir yfirskriftinni ,,COVID og Suðurland”, og á baksíðunni er sagt frá því að áfram verður haldið með breikkun og lagfæringu á Suðurlandsvegi að Biskupstungnabraut og í framhaldinu er einboðið að halda áfram með þann veg yfir Ölfusá.

Það er mál sem þolir ekki bið, því umferðarálagið á hinni gömlu og þröngu Ölfusárbrú er löngu orðið alltof mikið.

2020-04-18-2.png
Fyrir 50 eða jafnvel frekar 60 árum hefði maður trúlega getað sett sig í þær stellingar að þykjast geta skilið gjörning eins og þann sem hér er um að ræða.

Þá voru flestir bændur með sauðfé og byggðu afkomu sína að stórum hluta á því sem sauðkindin gaf af sér. Tímarnir hafa breyst og þau sem stunda landbúnað eru allskonar, og með margvíslegan búskap og hin gamla búgrein sem rekin er á styrkjum er ekki lengur búgreinin sem heldur uppi matvælaframleiðslu í landinu.

Í nútímanum er hún hluti af fjölbreyttri flóru búgreina og gera má ráð fyrir því að Eyfirðingurinn í ráðherrastólnum viti það. Þar um slóðir hafa um langa tíð verið stundaðar margvíslegar búgreinar og sauðfjárrækt, sem eflaust er þar stunduð líka, er einungis ein af þeim.

Nú hafa menn hjá Bændasamtökunum og í ráðuneyti landbúnaðarmála (ráðuneytinu sem Guðni Ágústsson telur vera þvísem næst gufað upp), komist að því að sauðfjárbændur hafi lent eitthvað sérstaklega illa í því að missa af ferðamannastraumnum!

Ver en aðrir bændur og jafnvel ver en aðrir landsmenn, svo sem sjá má af því, að til stendur að flýta greiðslum úr ríkissjóði. Greiðslum sem heita því fína nafni ,,stuðningsgreiðslur”. Ófínu nöfnin eru ,,gæðagreiðslur”, sem flestir landsmenn vita, að eru ekki greiðslur fyrir gæði af neinu tagi, svo sem sýnt hefur verið fram á í vísindalegri úttekt. Hitt orðið er ,,beingreiðslur”, sem er fallegt orð yfir það sem venjulega eru kallaðir styrkir.

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að ekki er raunhæft, að mati undirritaðs, að gera ráð fyrir því að sauðfjárrækt sé stunduð án styrkja og samfélagið verður að gangast við því, ef menn vilja á annað borð geta gengið að þeirri kjöttegund vísri.

Þar með er ekki sagt, að réttlætanlegt sé að framleiða um þriðjung umfram innlenda markaðsþörf og flytja síðan það sem umfram er með samfélagslegum kostnaði á erlendra markaði.

Sauðfjárbændur hafa komið fram með áhugaverðar tillögur um endurbætur á styrkjakerfinu og samdrátt í framleiðslu, en lítið virðist hafa verið á það hlustað.

Það hlýtur að vera sárt fyrir sauðfjárbændur sem eru í framleiðslu til að skapa sér atvinnu, að horfa upp á það að úr ríkissjóði er varið fúlgum fjár í styrkveitingar til fólks sem er með kindur sem gæludýr og framleiðir einungis til eigin neyslu og rétt umfram það. Upplýsingar eru orðnar opinberar um þetta ráðslag eftir að Ólafur Arnalds prófessor náði því fram að þær væru opinberaðar.

Við vitum að til eru bændur í ótal búgreinum öðrum en sauðfjárrækt sem tengja ferðaþjónustu við búskap sinn og gera það með ýmsu móti. Þeir eiga ekki rétt á ,,gæðagreiðslum” og þó vitað sé að nautgripabændur fá tillegg frá ríkinu, þá hefur víst enginn verið svo hugmyndaríkur að láta sér detta í hug að greiða þeim gæðagreiðslur fyrir að beita gripunum á grasi gróið land.

Það gera þeir hvort sem er og vita að það er rétt og nauðsynlegt að gera, til að gripirnir skili afurðum. Og eru sumir hverjir líka með starfsemi á búum sínum, sem tengd er við ferðaþjónustu.

Síðan eru náttúrulega allar hinar búgreinarnar sem enga styrki fá, þær fá ekki ,,flýtingu“, enda engu til að dreifa sem hægt er að flýta og færi svo að þeim yrði léttur róðurinn með einhverjum ráðstöfunum ríkisvaldsins teldist það tíðindi.

Gera má samt ráð fyrir að eftir garðyrkjunni sé munað hjá Bændasamtökunum.

Eftirfarandi má lesa á vefnum bbl.is: ,,Flýta á stuðningsgreiðslum til sauðfjárbænda um nokkra mánuði vegna áhrifa af COVID-19. Þannig verða þeim greiðslum sem átti að greiða út 1. september og 1. október 2020 flýtt til 1. maí og 1. júní. Þetta er einkum gert til að mæta vandamálum þeirra bænda sem stunda aðra starfsemi einnig, eins og ferðaþjónustu.”

(Myndin fallega, sem fylgir þessari færslu er fengin af vef Landssambands sauðfjárbænda, þar sem sjá má sauðfé beitt á fóðurkál að hausti.)

Í Morgunblaðinu 16.4.2020 er grein undir yfirskriftinni Litlar upplýsingar um tjón af völdum refa .

Samkvæmt því sem þar segir er árlegt refadráp á vegum hins opinbera á milli sex til sjöþúsund dýr.

Jafnframt kemur fram að tjón af völdum refa er ekkert samkvæmt skýrslum.

Og það er Umhverfisstofnun sem fer með umsjón refadrápsins!

Þá er sagt frá því að refir eru friðaðir (að nafninu til greinilega) samkvæmt lögum þar um.

Niðurstaðan er að hið opinbera heldur úti hernaði gegn eina villta og upphaflega íslenska spendýrinu og greiðir mönnum verðlaun fyrir að drepa það og greinilega í algjöru tilgangsleysi.

Veiðiaðferðirnar eru síðan sérstakur kapítuli, og í mörgu ekki sérlega geðslegar, svo sem eins og þegar áherslan er lögð á að drepa læðuna frá greninu, til þess að svelta yrðlingana til bana.

Allt er þetta gert til að ,,vernda” íslenskar sauðkindur sem valsa um í ,,gæðastýringu” íslenskra stjórnvalda, á meira og minna óbeitarhæfu landi og tilgangurinn með þeim búrekstri og búskaparháttum, er að útvega útlendingum ódýrt kindakjöt; ódýrt vegna þess að skattgreiðendur greiða að stórum hluta kostnaðinn við framleiðsluna.

Refir eru ekki hafðir til matar svo vitað sé, þannig að ekki er um dæmigerða niðurgreiðslu að ræða líkt og er með kindakjötið.

Tilgangsleysið er sem sé algjört eins og áður sagði.