Urgur er í bændum eftir Búnaðarþingið sem haldið var á dögunum.

Þar var m.a. tekin ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi aðildargjalda og um það snýst umræðan og óánægjan. Sumum finnst óeðlilegt að gjöldin séu bundin við veltu búanna með því þrepaskipta fyrirkomulagi sem búið er að ákveða.

Það er eðlilegt, að mínu mati, að að gerðar séu athugasemdir við þá ákvörðun sem nú birtist bændum og tekin var á síðasta Búnaðarþingi.

Þar voru gerð veruleg mistök.

Mistökin felast í því, að ákveðið var að gera aðildargjöldin að Bændasamtökunum veltutengd í þrepum og upp að vissu marki, sem leiðir til þess að stærri aðilar fá sérstakan afslátt frá félagsgjöldum.

Engar fréttir hafa borist af því að breytt hafi verið fyrirkomulagi hvað varðar, skipan fulltrúa á Búnaðarþing, því sem kýs stjórn Bændasamtakanna, og er því hið raunverulega æðsta vald félagsskaparins.

Vægi atkvæða til kjörs á fulltrúum á þá samkomu fer í engu eftir aðildargjöldunum eins og þau eru sett upp og í raun er það þannig að hlutföllin eru öfug. Þ.e.a.s., að þeir sem ætlað er að greiða mest, njóta þess í engu hvað varðar möguleika til fulltrúavals á Búnaðarþing og þar með kjöri í stjórn Bændasamtakanna, nema að síður sé og er hægt að benda á mörg dæmi þar um.

Því má segja að ákvörðunin sé hvorki fugl né fiskur eins og hún er nú kynnt félögum í Bændasamtökunum og hvað fulltrúar á Búnaðarþingi voru að hugsa liggur ekki fyrir. Gera verður samt ráð fyrir að þau sem þar þinguðu hafi hugleitt málið. Hafi svo ekki verið, þá hafa þau brugðist hlutverki sínu og það gerðu þau reyndar hvort heldur er!

Sé ætlunin að vaða yfir á, gerist það ekki þannig að tekið sé eitt skref út í hylinn við bakkann og síðan staðnæmst þar; horft yfir á bakkann hinu megin og beðið í þeirri trú að hann komi til þess sem í hylnum stendur. Sá þarf alla vega að bíða mjög lengi og satt að segja frekar ólíklegt að honum endist örendið í bið sinni.

Eins og ég sé þá breytingu sem gerð var, þá hafa menn gert sér grein fyrir að breyta þyrfti uppbyggingu Bændasamtakanna og þarf engan að undra að svo hafi farið, því löngu var kominn tími til.
Það var bara byrjað á öfugum enda.

Sé ætlunin að fara í ferðalag, þá er gott að ákveða í upphafi hvert ætlunin sé að fara. Svo var ekki gert í þessu tilfelli og í því ákvörðunarleysi liggur ástæðan fyrir ólgunni sem uppi er.

Eðlilegast hefði verið að byrja á, eða jafnframt, að breyta uppbyggingu Búnaðarþings, þ.e. fulltrúavali á þingið. Hafi menn vilja gefa þinginu eins og það er núna framhaldslíf, að gera það þá að valdalausri samkomu áhugafólks um landbúnaðarmál, sem myndi þá koma saman sjálfstætt og án tengsla við Bændasamtökin.

Búnaðarþing eins og það sem nú er, er úr takti við landbúnaðinn í landinu og er arfur frá liðinni tíð. Vel getur verið að það hafi endurspeglað ástandið eins og það var fyrir hálfri öld eða svo, en við erum ekki þar!

Eðlilegast væri, ef niðurstaðan verður sú að halda skuli í Búnaðarþingið, að það verði kosið af félögum í Bændasamtökunum og að atkvæðavægi fari eftir félagsgjöldum, sem séu án þrepa og hámarks.

Það laðar ekki framleiðendur að samtökunum að þeir njóti ekki atkvæðisréttar í hlutfalli við gjaldið sem þeir greiða. Og vel getur verið að ef Bændasamtökin yrðu færð til nútímans, að aðilar sem standa utan þeirra núna, myndu þá sjá sér hag í að ganga til við liðs við þau.

Fyrirkomulagið eins og það er, gengur ekki upp og líklegast er að fulltrúar á síðasta Búnaðarþingi hafi ekki áttað sig á því. Hafi sést yfir að stíga verður skrefið til fulls. Að breyta aðildargjöldunum án þess að breyta vægi atkvæða stenst ekki og það hljóta menn að sjá við nánari skoðun.

Mér er ekki kunnugt hvort hægt sé að kalla saman aukabúnaðarþing, en sé það hægt, virðist augljóst að það verður að gera, því annars mun ákvörðunin sem tekin var varðandi aðildargjöldin leiða til þess að Bændasamtökin trosni, enn frekar og meira upp, en orðið er.Lokað er fyrir ummæli.