Stórveldi koma og fara.

25. apríl 2020

Sagan sýnir að ,,stórveldi” rísa og hníga.

Flestir þekkja hvernig Rómarveldi tærðist upp innan frá og svo fer fyrir þeim flestum að lokum.

Bretar tóku þá ákvörðun að þeir nenntu þessu ekki lengur og stofnuðu Breska samveldið.

Sovétríkin stóðu aldrei á sérlega sterkum fótum og teljast því ekki með, og mörg hafa þau risið ,,stórveldin” og lifað um hríð, en síðan flosnað upp.

Er nú komið að Bandaríkjunum að fara sömu leið?

Það er sem fjörbrot skaki þau síðustu árin:

Þau eru upp á Rússa komin varðandi geimstöðina, þ.e. að koma þangað fólki til og frá.

Iðnaðurinn sem eitt sinn þótti eftirsóknarverður, er ekki ,,inn”, utanríkismálin eru í klúðri og fleira mætti til telja.

Og svo kjósa þeir mann fyrir forseta sem við fylgjumst er með í forundran.

Mann sem flaðrar upp um Kim hinn norðurkóreska, hreytir ónotum í ,,vinaþjóðir”, ber víurnar í Grænland og Helguvík og leggur til að menn skoli sig að innan með sótthreinsi og baði sig að utan með útfjólubláu ljósi!

Og það sem var alvara í gær, er kaldhæðni í dag, og enginn veit hvað verður á morgun.

Jeltsín var veikur maður og hefði þurft á Vog.

En er til einhver stofnun sem er fær um að vinda ofan af þessum forseta?

Eru Bandaríkin ef til vill ekki það lýðræðisríki sem við höfum talið þau vera þegar betur er að gáð? Eru þau einungis auðræðisríki, þar sem ekki er spurt um vit, hæfni né getu?

Er ekki orðið tímabært að þeir hafa það fyrir atvinnu að snúast í kringum forseta Bandaríkjanna: hætti að sitja og mæna gagnrýnislaust og uppfullir af lotningu á meistarann og taki á málunum?

Séu þeir ekki færir um það, að þeir dragi sig þá í hlé og hleypi einhverjum sem eru með sæmilega fullu viti inn í Hvíta húsið?Lokað er fyrir ummæli.