Samgönguráðherra ritar pistil í Morgunblaðið 23.04.2020 og kemst að þeirri niðurstöðu að best sé að borða íslenskt.

Hefði hann ritað pistilinn haustið 2015, hefði hann eflaust komist að þeirri niðurstöðu að það væri nú ekki svo nauið, hvort étið væri íslenskt eða útlenskt.

Afstaða manna (sumra) fer nefnilega talsvert eftir því hvert og hvaðan vindurinn blæs í það og það skiptið.

Sú var tíð að ráðherrann, sem þá var landbúnaðarráðherra, byrsti sig við bændur sem voru þeirrar skoðunar sem hann er í dag, en kannski ekki á morgun eða hinn, og sagði með þjósti eitthvað á þá leið að þeir yrðu bara að spjara sig og standa sig í samkeppninni við innflutning á landbúnaðarafurðum frá ESB.

Vel að merkja, öðrum afurðum en lambakjöti, því til þess voru nefnilega hrútarnir skornir, að það átti að flytja út kindakjöt til Evrópusambandsins, en þaðan átti hinsvegar að flytja inn til Íslands ,,í staðinn” eins og það var orðaða, alifugla-, nauta- og svínakjöt auk osta.

Og þá var nú ekki verið að hafa áhyggjur af fjölónæmum bakteríum, né bændum, þ.e.a.s. öðrum en sauðfjárbændum, því á framsóknarbænum hafa menn alltaf miklar áhyggjur af blessaðri sauðkindinni. Nema að vísu ekki þegar hún ráfar um hálfsoltin og hrakin á íslenskum gróðursnauðum heiðum.

Framsóknaráhyggjur ná ekki þangað.

Það er nefnilega svo gaman að smala á haustin og kindin er jú, eins og flestir vita, til skemmtunar og reyndar líka til þess að ríkissjóður hafi eitthvað almennilegt við peningana að gera.Lokað er fyrir ummæli.