Orka fyrir skip o. fl.

21. apríl 2020

Talsvert hefur verið rætt um að framleiða mætti olíu með ræktun repju og nota til að knýja skip.

Undirritaður telur sig minnast þess t.d. að formaður Framsóknarflokksins hafi gert það, auk þess sem hann hélt því eitt sinn á lofti í útvarpi, að innan tíðar yrðu flugvélar rafknúnar og Íslendingar yrðu í forystu varðandi þá merkilegu tækni.

Lítið hefur heyrst af þessum áhugaverðu möguleikum í seinni tíð, enda flugvélar flestar standandi á flughlöðum og verð á eldsneyti í sögulegu lágmarki, svo ekki sé nú meira sagt.

Á alnetinu safna skýrslur ekki ryki og þar má finna svo dæmi sé tekið samantekt í skýrslu, EFLU verkfræðistofu ORKUSKIPTI SKIPA Möguleikar á orkuskiptum á sjó, frá 05.11.2019, þar sem má lesa um margvíslega möguleika til framtíðar litið. M.a.er fjallað um möguleika sem felast í ræktun repju til orkuvinnslu.

Þar kemur fram að:

,,Rannsóknir Samgöngustofu sýna að hægt er að fá um hálft tonn af repjuolíu af einum hektara lands á hverju ári.”

Jafnframt:

,,Af þeim lífmassa sem fæst af hverjum hektara lands við repjuræktun, áætlar Samgöngustofa að um 15% séu olía, 35% hrat sem nýtist sem fóðurmjöl og 50% stönglar. CO2-bókhaldið helgast töluvert af því hvernig þessar afurðir eru meðhöndlaðar, sér í lagi stönglarnir. Hægt er að nýta þá á ýmsan hátt, t.d. með því að brenna þá sem orkugjafa eða plægja niður í landið aftur. Ljóst er að sé stönglunum brennt, losnar það CO2 sem plantan batt við vöxtinn, en óljóst er hvað gerist ef stönglarnir eru plægðir niður. Hugsanlega binst eitthvað af CO2 í næstu repjuuppskeru, en einnig getur verið að þeir rotni og losi þar með gróðurhúsalofttegundir. Áður en hægt verður að fullyrða að repjuræktun til skipaeldsneytis leiði til nettóbindingar þarf því að fara fram mun ítarlegri úttekt á losuninni þar sem tekið verður tillit til losunar vegna lífræns og tilbúins áburðar, afdrifa plöntuleifanna, framleiðslu tilbúins áburðar, framræslu lands og fleira.”

Stönglarnir gætu s.s. rotnað og myndað gróðurhúsalofttegundir og ýmislegt þarf að athuga betur.

Ekki hefur undirritaður séð í umfjöllun um málið að tekið sé tillit til þess hve mikil olía fer í að framleiða olíu með þessum hætti. Hugsanlega er það hverfandi m.v. ávinninginn, en sé svo, væri gott að það kæmi fram.

Síðan:

,,Helsti ókostur repjuolíunnar er sá, að hún telst fyrstu kynslóðar lífeldsneyti. Fyrstu kynslóðar lífeldsneyti nýta ræktunarland sem annars væri hægt að nýta til matvælaframleiðslu, og vegna þess hafa flest lönd ekki litið á fyrstu kynslóðar lífeldsneyti sem endurnýjanleg nema að takmörkuðu leyti. Í nýjustu tilskipun ESB um endurnýjanlegt eldsneyti kemur fram að ekki sé hægt að telja fram slíkt eldsneyti eftir 2030 sem framlag til skuldbindinga aðildarlanda árið 2030 um endurnýjanlegt eldsneyti. Þó er tekið fram að sé eldsneytið ræktað á landi sem hefur ekki verið nýtt til matvælaframleiðslu er hægt að telja það fram (þ.e. telja eldsneytið endurnýjanlegt).”

Sem sagt allt meira og minna í einhverju framsóknarplati.

Og helst hægt að jafna til við kenningar um að hagkvæmt sé að framleiða kjöt með nauðbeit dýrategundar, sem ekki er sérlega vel fallin til kjötframleiðslu, á uppblásnu landi og í landi sem stundum er sagt vera á mörkum hins byggilega heims.

Þó við séum ekki alveg sammála síðustu fullyrðingunni og getum bent á, því til staðfestingar, að vinsælt sé nú landið og gott í að búa, samfélagið frábært og að vorið komi alltaf á eftir vetri, með jarmandi yndislegum lömbum, þá efumst við um:

Að gott sé að fórna þúsundum hektara til framleiðslu á eldsneyti fyrir vélar, þegar ýmsir aðrir betri kostir eru í boði.Lokað er fyrir ummæli.