Í bókinni ,,Geirfuglarnir“ eftir Árna Bergmann sem kom út hjá Máli og menningu 1982, og sem er skáldsaga í ,,endurminningastíl“ eins og fram kemur á bókarkápu, lætur hann það gerast á Suðurnesjum, að Bandaríkjamenn koma sér upp kafbátastöð.

Aðsiglingin er góð og ekki þurfi að skemma ,,neitt að ráði“ til að aðstaðan verði hin besta.

Nú eru uppi hugmyndir um að byggja flotaaðstöðu í Helguvík fyrir NATO flotann, sem við vitum að er stjórnað frá Bandaríkjunum að mestu, og er svo að sjá sem Árni hafi séð inn í framtíðina, þó sagan gerist í fortíðinni.

Og nú skulum við grípa lauslega niður í frétt Morgunblaðsins af málinu, þann 20.4.2020:

Vafalaust er það svo, að til að byggja flotahöfn í Helguvík þurfi ekki að skemma ,,neitt að ráði“ og þó þetta sé nú nær allt í véfréttastíl, þá er það nú svo að einn helsti ökugarpur alþingis er búinn að ,, vita til þess að samstarfsþjóðir […] [hafi] verið að „kalla eftir“ því að ráðist yrði í þetta verkefni. Þá kveðst […] bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ […], hafa heyrt af auknum áhuga bandalagsins á svæðinu.

Og oft er í holti heyrandi nær eins og þar stendur.

Og […] Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar, hefur sömuleiðis heyrt af áhuga á framkvæmdum í Helguvík […]. Hér ,,vita menn til“ og ,,kallað er eftir“ og ,,heyra af“ og ,,heyra [jafnvel] af áhuga“.

Og vegna þess að það geisar veirupest, þá leita menn allra leiða og sumir er áhugasamir en aðrir ekki:

,,Ásmundur Friðriksson og Friðjón Einarsson eru á einu máli um að kæmi til framkvæmda á þessari uppbyggingu hefði það mikilvæg efnahagsleg áhrif á svæðinu, þar sem óttast er að atvinnuleysi rjúki nú upp úr öllu valdi vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Að sögn Halldórs myndi uppbyggingin skapa störf bæði á framkvæmdatíma sem og til lengri tíma. Því sé harðærið nú kjörinn tími til þess að kanna þessa kosti, enda áætlanir þegar fyrir hendi. Ásmundur segir að umfang verkefnisins gæti verið allt að 16,5 milljarðar króna. Hann sakar bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar um að taka ekki af nægum krafti undir áhuga Reykjaneshafna á verkefninu.”

,,Harðærið” er kjörið til að ýta þessu verkefni af stað, þörfin er brýn og verst að einhverjir skuli vilja hugsa sig um áður en gengið sé af göflunum.

Ef til vill hafa þeir lesið bók Árna Bergmanns og vita hvernig fór fyrir kafbátastöðinni og nágrenni.

Líka getur verið að þeir hafi í huga fyrri glæfraspil bæjarstjórnarmanna sem settu sveitarfélag sitt á höfuðið. Hver veit? Ekki sá sem spyr.

Minnisvarðar um rangar ákvarðanir standa enn í Reykjanesbæ; milljarðar eru foknir út í veður og vind og verksmiðja stendur ónotuð og ryðgar hægt og rólega engum til gagns.

Samt ágætur vitnisburður um að gott getur verið að ganga hægt um gleðinnar dyr og hengja sig ekki hugsunarlaust á háls þess fyrsta sem býður gull og græna skóga.

Fyrir nú utan, að við erum alveg nægjanlega mikið tengd stríðsleikjum NATO, þó þetta bætist ekki við.Lokað er fyrir ummæli.