2020-04-18-2.png
Fyrir 50 eða jafnvel frekar 60 árum hefði maður trúlega getað sett sig í þær stellingar að þykjast geta skilið gjörning eins og þann sem hér er um að ræða.

Þá voru flestir bændur með sauðfé og byggðu afkomu sína að stórum hluta á því sem sauðkindin gaf af sér. Tímarnir hafa breyst og þau sem stunda landbúnað eru allskonar, og með margvíslegan búskap og hin gamla búgrein sem rekin er á styrkjum er ekki lengur búgreinin sem heldur uppi matvælaframleiðslu í landinu.

Í nútímanum er hún hluti af fjölbreyttri flóru búgreina og gera má ráð fyrir því að Eyfirðingurinn í ráðherrastólnum viti það. Þar um slóðir hafa um langa tíð verið stundaðar margvíslegar búgreinar og sauðfjárrækt, sem eflaust er þar stunduð líka, er einungis ein af þeim.

Nú hafa menn hjá Bændasamtökunum og í ráðuneyti landbúnaðarmála (ráðuneytinu sem Guðni Ágústsson telur vera þvísem næst gufað upp), komist að því að sauðfjárbændur hafi lent eitthvað sérstaklega illa í því að missa af ferðamannastraumnum!

Ver en aðrir bændur og jafnvel ver en aðrir landsmenn, svo sem sjá má af því, að til stendur að flýta greiðslum úr ríkissjóði. Greiðslum sem heita því fína nafni ,,stuðningsgreiðslur”. Ófínu nöfnin eru ,,gæðagreiðslur”, sem flestir landsmenn vita, að eru ekki greiðslur fyrir gæði af neinu tagi, svo sem sýnt hefur verið fram á í vísindalegri úttekt. Hitt orðið er ,,beingreiðslur”, sem er fallegt orð yfir það sem venjulega eru kallaðir styrkir.

Að þessu sögðu er rétt að taka fram að ekki er raunhæft, að mati undirritaðs, að gera ráð fyrir því að sauðfjárrækt sé stunduð án styrkja og samfélagið verður að gangast við því, ef menn vilja á annað borð geta gengið að þeirri kjöttegund vísri.

Þar með er ekki sagt, að réttlætanlegt sé að framleiða um þriðjung umfram innlenda markaðsþörf og flytja síðan það sem umfram er með samfélagslegum kostnaði á erlendra markaði.

Sauðfjárbændur hafa komið fram með áhugaverðar tillögur um endurbætur á styrkjakerfinu og samdrátt í framleiðslu, en lítið virðist hafa verið á það hlustað.

Það hlýtur að vera sárt fyrir sauðfjárbændur sem eru í framleiðslu til að skapa sér atvinnu, að horfa upp á það að úr ríkissjóði er varið fúlgum fjár í styrkveitingar til fólks sem er með kindur sem gæludýr og framleiðir einungis til eigin neyslu og rétt umfram það. Upplýsingar eru orðnar opinberar um þetta ráðslag eftir að Ólafur Arnalds prófessor náði því fram að þær væru opinberaðar.

Við vitum að til eru bændur í ótal búgreinum öðrum en sauðfjárrækt sem tengja ferðaþjónustu við búskap sinn og gera það með ýmsu móti. Þeir eiga ekki rétt á ,,gæðagreiðslum” og þó vitað sé að nautgripabændur fá tillegg frá ríkinu, þá hefur víst enginn verið svo hugmyndaríkur að láta sér detta í hug að greiða þeim gæðagreiðslur fyrir að beita gripunum á grasi gróið land.

Það gera þeir hvort sem er og vita að það er rétt og nauðsynlegt að gera, til að gripirnir skili afurðum. Og eru sumir hverjir líka með starfsemi á búum sínum, sem tengd er við ferðaþjónustu.

Síðan eru náttúrulega allar hinar búgreinarnar sem enga styrki fá, þær fá ekki ,,flýtingu“, enda engu til að dreifa sem hægt er að flýta og færi svo að þeim yrði léttur róðurinn með einhverjum ráðstöfunum ríkisvaldsins teldist það tíðindi.

Gera má samt ráð fyrir að eftir garðyrkjunni sé munað hjá Bændasamtökunum.

Eftirfarandi má lesa á vefnum bbl.is: ,,Flýta á stuðningsgreiðslum til sauðfjárbænda um nokkra mánuði vegna áhrifa af COVID-19. Þannig verða þeim greiðslum sem átti að greiða út 1. september og 1. október 2020 flýtt til 1. maí og 1. júní. Þetta er einkum gert til að mæta vandamálum þeirra bænda sem stunda aðra starfsemi einnig, eins og ferðaþjónustu.”

(Myndin fallega, sem fylgir þessari færslu er fengin af vef Landssambands sauðfjárbænda, þar sem sjá má sauðfé beitt á fóðurkál að hausti.)Lokað er fyrir ummæli.