Heimsóknin

5. september 2019

Við lifum á skrítnum tímum.

Í loftinu birtist svermur af flugvélum sem setjast síðan hver af annarri á flugvöllinn í Keflavík. Flugvöll sem einu sinni var herflugvöllur, þéttsetinn af herflugvélum vegna þess að það var stríð.

Nú er ekki stríð sem betur fer, ekki í okkar heimshluta, en ýmislegt gengur á annarsstaðar s.s. í Sýrlandi þar sem er alltaf sumar, en það er önnur saga.

Ein af flugvélunum ber af öðrum, er í raun farþegaflugvél og í henni er farþegi og fylgdarlið.

Þessi aðalfarþegi er bara aðal hér, þessa stundina, en ekki aðal heima hjá sér, því þar er hann ,,vara“ og svo það sé nú skýrt tekið fram þá er hann varaforseti; forseti sem gripið er til ef ef sá sem er aðal forfallast af einhverjum ástæðum, en það er ekkert sem kemur málinu við þessa stundina.

Taugaspenntir byssumenn stilla sér upp tilbúnir að grípa til sinna ráða ef einhver myndi gera sig líklegan til að vera með varasama hegðun af einhverju tagi.

Jakkafataklæddi varamaðurinn hittir íslenska ráðamenn utanríkisráðherra, borgarstjóra (sem kom á reiðhjóli varamanninum til furðu), forseta sem bar dularfullt armband og konu hans sem klædd var í hvítt (það mun tákna eitthvað), utanríkisráðherra (sem ekki meðtók boðskapinn varðandi belti og axlabönd eða var það braut og belti eða símaframleiðandi eða bara eitthvað annað? Hver veit þegar enginn veit?) og ekki má gleyma forsætisráðherra sem að sögn þeirra sem með fylgdust horfði beint í augu gestsins!
Og það var spjallað, sest í stóla og slegið á létta strengi.

Á eftir ræddu menn við blaðamenn og gesturinn sagði eitt, en íslenski utanríkisráðherrann annað, eins og: nokkrum sinnum ,,ónákvæmt“, enda ekki kominn á fríverslunarsamningur við USA-ið en slíkur er í gildi við Kína.

Grænland var ekki til sölu og vonandi ekki Ísland heldur og þó og hver veit ef vel er boðið?

Gesturinn fer og allt fellur í ljúfa löð, en heima situr aðalforsetinn og lætur sig dreyma um hve sætur og huggulegur forseti N-Kóreu sé inn við beinið og hve gaman væri að sprengja fellibyli í tætlur með kjarnorkusprengju og þegar hann nær því ekki fram: þá breytir hann bara ferð þeirra á veðurkortinu.

Segi menn svo að tíðindalaust sé hér á hjaranum og í heiminum öllum!