Bændablaðið berst mér í hendur með tveggja vikna millibili. Ánægjuleg sending sem berst í pósti og ég gæti helst ekki hugsað mér að vera án. Fyrir tveimur dögum barst mér nýtt eintak sem ég hef verið að grípa niður í.

Í blaðinu sem mér barst á dögunum, er á forsíðunni sagt frá ,,uppgangi villiminks“ í Skagafirði. Fram kemur að dýrin hafa þyngst um heilt kíló frá því sem áður mun hafa verið, eru orðin ,,yfir 4 kíló“ og með vígtennur sem eru um 3 cm að lengd! Þá er greint er frá því að minkar þessarar gerðar séu farnir að halda sig fyrir ofan 1000 metra hæð og jafnvel farnir að sjást í Svarfaðardal og fylgir sögunni, að svo sé komið að ,,hundarnir nái ekki lengur að drepa þessa stóru minka“ og er auðvelt að leggja trúnað á það.

Óvísindaleg mæling á vígtönnum tíkarinnar minnar leiddi til þeirrar niðurstöðu að tönnin væri ekki nema 10 til 13 millimetrar, eftir því hvernig mælt var og er hún (tíkin) þó í stærra lagi.

Hér er því greinilega um mikla vágesti að ræða sem tekið hafa stökkbreytingum varðandi líkamsstærð og vígbúnað!

Í inngangi að þessari umfjöllun Bændablaðsins er sagt frá því að ríkisrekstur veiða á þessum fénaði sé á þann veg: að ,,ráðnir minkaveiðimenn fái 7.200 fyrir unnin dýr og verðlaun verða 1.800 krónur(?).

Hins vegar eru veiðar á refum launaðar með 20.000 krónu framlagi fyrir ,,grendýr“ og 7.000 krónur fyrir ,,hlaupadýr og vetrarveiði“. ,,Verðlaun til annarra [en opinberra veiðimanna?] fyrir unninn ref verða 7.000 krónur“.

Það er sem sagt þannig, að ríkið heldur úti veiðum á refum, sem er dýrategund sem verið hefur á Íslandi frá ómunatíð og greiðir tiltölulega vel fyrir. Heldur einnig úti veiðimennsku á minkum sem eru nýlega fluttir inn í íslenska náttúru, af þeim sem minkarækt hafa stundað og vel að merkja, samkvæmt því sem sagt er frá í Bændablaðinu: Minkum sem hafa tekið upp á því að breytast í stórvaxin óargardýr skaðleg og hættuleg og eru þeirrar náttúru að þenjast út og vígbúast sem í vísindaskáldsögu sé.

Það er augljóslega skoðun stjórnvalda, að stefnt skuli að útrýmingu dýrategundar sem verið hefur í landinu í þúsundir ára og greiða tiltölulega vel fyrir veiðimennsku á dýrum þeirrar tegundar.

Hins vegar eru veiðar á dýrategund sem nýlega er flutt inn og er samkvæmt því sem fram kemur í frétt blaðsins, bæði stórhættuleg og skaðleg, illa launaðar í samanburðinum.

Halda mætti að stefnan sé sú, að breyta skuli náttúru landsins á sem flestum sviðum; flytja inn skaðvalda og útrýma þeim sem náð hafa jafnvægi í náttúru landsins og það kemur fram á fleiri sviðum. Það þykir sjálfsagt að beita sauðfé í lausagöngu nær hvar sem er og engar kvaðir eru lagðar á sauðfjárbændur um að þeir haldi fénaði sínum innan girðinga með tilheyrandi afleiðingum fyrir gróðurfar landsins. Það er látið svo heita að refaveiðum sé haldið úti til að sporna gegn því að refurinn leggist á sauðfé, sem vissulega getur gerst en er ekki algengt.

Höfum í huga að búfénaður okkar er ef grannt er skoðað, ekki hluti af þeirri dýraflóru sem hér var áður en landið byggðist.

Vinnum á minknum sem hingað er kominn af mannavöldum, höfum stjórn á beit húsdýranna – sauðkinda sem annarra – látum refinn í friði og friðum landið fyrir óþarfri beit og græðum það svo sem unnt er, komandi kynslóðum til hagsbóta.