Hagsmunamatið

22. febrúar 2019

Fyrir 12 árum tóku íslensk stjórnvöld þá ákvörðun að heimila innflutning á ófrystu kjöti og tveimur árum seinna staðfesti Alþingi þann gjörning. Hæstiréttur Íslands og EFTA dómstóllinn hafa komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES samningnum og hefur Ísland verið dæmt bótaskylt vegna þess.

Segja má að þetta hafi vomað yfir þjóðinni öll þessi ár. En eftir að dómarnir féllu, verið ljóst að ekki yrði undan því vikist að taka á málinu. Hagsmunir Íslands felast í því að eiga góðan aðgang að mörkuðum Evrópulandanna, en hagsmunir eru einnig þeir að vernda matvælaframleiðslu sem stendur mjög framarlega með tilliti til ,,hreinleika“. Auk þess sem bústofnar þjóðarinnar eru á margan, ef ekki flestan hátt, einstakir vegna þeirrar einangrunar sem þeir hafa búið við.

Stofnarnir eru að mestu lausir við marga sjúkdóma sem finnast á meginlandi Evrópu. Undantekningar eru samt sem áður nokkrar þar á, eins og flestir vita. Má nefna nokkur dæmi þar um eins og riðu, fjárkláða og mæðuveiki í sauðfé. Sumt hefur tekist að uppræta en annað ekki og a.m.k. einn aðfluttur pestarvaldur var kveðinn niður ef svo má segja. Grafinn í jörð og lúrir þar í sínum dvalargróum og eru þeir pestarblettir nú flestir og vonandi allir, merktir fyrir atorku og tilstuðlan Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis. Af þessu sést að við erum ekki óhult fyrir aðfluttum pestum ef óvarlega er farið og eitt dæmi þar um, er að fyrir nokkrum árum barst sjúkdómur í hrossastofninn og olli hitapest og umtalsverðu tjóni. Þurfti t.d. að aflýsa Landsmóti hestamanna þess vegna eins og margir eflaust muna.

Af þessu sést að búfjárstofnar landsins eru viðkvæmir vegna einangrunarinnar sem þeir hafa búið við og um leið einstakir. Flestir vita eflaust að íslensk hross eru eftirsótt erlendis vegna þess að þau eru stofn sem býr yfir einstökum eiginleikum, sem þróast hafa á hundruðum ára, kynslóð eftir kynslóð. Margir kunna að meta þessa eiginleika og þar eigum við búgrein sem hefur um áratugi verið útflutningsvara. Hross sem fjöldi útlendinga metur að verðleikum og kemur í þúsundatali til að sjá sýnda á landsmótum hestamanna.

Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að stunda búfjárhald sem að langmestu er laust við ýmsa sjúkdóma sem herja á fénað í flestum öðrum löndum. Ástæða þess að mál hafa þróast svo að það er hægt, er að landið er eyja langt fá öðrum löndum og að einmitt þess vegna, er landið að mestu óhult fyrir smiti annarstaðar frá. Í þessu felast verðmæti. Verðmæti sem ekki skyldi vanmeta.

Fyrir tólf árum undirgekkst þjóðin samninga sem íslenskir ráðamenn höfðu gert. Samninga sem fólu það í sér að þessum verðmætum skyldi, ef allt færi á versta veg, kasta á glæ; fórna fyrir aðra hagsmuni. Þeir hagsmunir hljóta að hafa verið miklir og vissulega voru þeir það. Samningarnir snerust um það að tryggja einni helstu útflutningsvöru þjóðarinnar fiskinum sem veiddur er á miðunum umhverfis landið, aðgang að innri markaði Evrópuþjóðanna. Þeir hagsmunir voru metnir svo miklir að þeir vægju þyngra á vogarskálum þjóðarinnar en sjálft matvælaöryggi hennar.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Bakteríur eru búnað að þróa með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum og vitað er að lyf hafa verið gefin í fóður dýranna. Til að fyrirbyggja sjúkdóma en einnig til að örva vöxt. Þessir búskaparhættir eru ekki stundaðir hérlendis, en nú standa íslenskir bændur frammi fyrir því að inn á að fara að flytja afurðir af dýrum sem alin eru upp með þessu móti. Fyrir þeim innflutningi standa heildsalar þjóðarinnar sem nú sem ætíð áður eiga þá hugsjón helsta að efla hag og heilsu(?) þjóðar sinnar með ,,hagstæðum“ innflutningi.

Við eigum að borða ódýran mat og litlu skiptir hvernig hann verður til, hvað í hann er sett eða hvaðan hann er kominn. Aðalatriðið er að hann sé ódýr afgangsvara stórra þjóða sem hafa vit á að framleiða sem þær geta af matvörum. Framleiða helst umfram þarfir svo ekki þurfi að líða skort og ekki treysta á aðra. Reynslan hefur kennt mönnum að fátt er meira áríðandi en að búa vel að sínu og hafa úr nægu að moða þegar boða skal til veislu og ekki síður hvunndags. Vita að ekki er gott að verða matarlaus og þurfa að treysta á aðra í því efni.

Við ættum svo sem að vita það líka og þurfum ekki að hugsa langt aftur.

Landbúnaðarráðherra er vandi á höndum; stendur frammi fyrir 12 ára gömlum gjörningi og þjóðin er orðin margdæmd fyrir að hafa ekki uppfyllt skilyrðin sem hún undirgekkst. Margt bendir reyndar til að ef heildsalarir hefðu ekki stefnt þjóð sinni fyrir íslenska og erlenda dómstóla: að þá hefði málið fengið að liggja í láginni; að erlendir hefðu séð í gegnum fingur sína með þá íslensku sérvisku að heimila ekki innflutning á kjöti nema að það væri frosið.
_ _ _

Hvernig getur staðið á því að 12 árum eftir að gerður er samningur af færustu mönnum þjóðarinnar við erlend ríki um viðskipti þeirra á milli, þá standi málin svona? Voru þeir kannski ekki svo færir ef grannt er skoðað? Ekki er skýringin sú að menn hafi gleymt málinu. Samtök atvinnulífsins (SA), hafa svo sannarlega haldið því vakandi, knúið á um, að heildsalar hópsins fengju vandræðalaust að flytja inn hrátt ófrosið kjöt. Ekki kjöt sem búið væri að sjóða eða reykja eða frysta, það var og er ekki nóg. Kjötið verður að vera ,,ferst“ ófrosið og tilbúið á grillið, ofninn eða pottinn, eða hráétið svo sem dæmi eru um að gert sé. Vildu og vilja ólmir notfæra sér þessa glufu í milliríkjasamningum til að stefna heilsufari manna og dýra í hættu.

Í von um fljóttekinn gróða.

Auðvitað vona allir að allt fari þetta nú vel. Að ekki verði um stóráföll að ræða vegna þessa. Vísindamenn hafa bent á hætturnar. Á það er ekki hlustað eða hvað? Er kannski hlustað en ekki hægt að komast með nokkru móti undan því að innleiða gjörninginn? Það hve það hefur dregist bendir til að ráðamenn hafi annað hvort ekki unnið vinnuna sína, eða hafi viljað fresta því í lengstu lög.

Frammi fyrir þessu er staðið og nú verða allir bestu menn þjóðarinnar að taka höndum saman og gera sem unnt er til að hindra að allt fari á versta veg. Þjóðin er sem betur fer ekki matarlaus og ef eitthvað skyldi nú vanta á veisluborðið, þá getum við treyst því að hinir hugumprúðu heildsalar okkar flytji inn það sem á vantar. Frosið kannski eða soðið. Alveg örugglega eitthvað gott, því þeir vilja ekki að neitt skorti og hugur þeirra stendur til að uppfylla allar hugsanlegar þarfir sem finnast.

Vilji þeir endilega standa í viðskiptum með hráar ófrosnar matvörur, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þeir fari í víking og stundi þá iðju meðal annarra þjóða.

Hagsmunir þjóðarinnar

22. febrúar 2019

Hagsmunum landbúnaðarins og þjóðarinnar virðist hafa verið fórnað árið 2007, til þess að Ísland ætti aðgang að innri markaði EES landanna fyrir sjávarafurðir.

Ótrúlegt verður að teljast, að íslenskur kjötmarkaður og eggja, hafi verið metinn svo mikilsverður af samningamönnum ESB/EES, að óhjákvæmilegt væri og knýjandi vegna hagsmuna Evrópulandanna, að fá óheftan aðgang að honum. Hafa verður í huga að íslenskur markaður er afar lítill mældur í samanburði við markað EES landanna; 500 milljón manna markaður á móti um 300 þúsund manna markaði. Hlutföllin eru m. ö. o. um 1/1700.

Líklegra er að það hafi annað hvort verið fordæmisgildið sem vegið hafi svona þungt af hálfu erlendu samningamanna, en einnig er ekki hægt að útiloka að fleira hafi komið til.

Hugsanlegt getur verið að menn hafi á þessum tíma annað hvort ekki gert sér grein fyrir hve mikið væri í húfi fyrir Ísland, eða að innlend öfl hafi knúið á. Hafi talið sínum hagsmunum betur borgið ef íslenskur kjötmarkaður opnaðist hindrunarlítið fyrir innflutningi.

Hafa verður í huga að innlendir aðilar hafi barist fyrir óheftum innflutningsmöguleikum á ófrosnu kjöti og eggjum. Flestir vita hverjir það eru og að um sérstakt áhugamál íslenskra heildsala með matvæli er um að ræða. Þeir virðast telja hag sínum best borgið með innflutningi af slíku tagi, láta í veðri vaka að í raun séu þeir að berjast fyrir hagsmunum neytenda; hagsmunir þeirra fljóti einungis með og að lokum verði ,,allir kátir”. (Svo vitnað sé í alræmd ummæli landbúnaðarráðherra frá árinu 2015).

Móast hefur verið við í 10 ár og dómar hafa fallið gegn Íslandi. Við því þarf að bregðast. Annað hvort með því að fá samninginn tekinn upp, sem afar ólíklegt að verði hægt, eða: gera eitthvað í þá veru sem landbúnaðarráðherra er nú að gera.

Stjórnvöldum er allt að því vorkunn. Látið hefur verið reka á reiðanum í 10 til 12 ár með samning sem gerður var 2007.

Í öllu falli má reikna með því að hugsjónir heildsalanna muni rætast. Þeir muni ná fram því markmiði sínu að frelsa þjóð sína undan þeirri fábreytni sem þeir telja að til staðar sé á íslenskum matvörumarkaði. Þeim hafa verið dæmdar bætur úr ríkissjóði eftir málaferli. Engum sögum fer af því að þeim bótagreiðslum hafi verið skilað til neytenda með einhverju móti. Hafi það verið gert, þá hefur það farið fremur hljótt.

Að minnsta kosti ekki hljómað eins kröftuglega og baráttusöngur þeirra í réttarsölum og fjölmiðlum á umliðnum árum.

Svo er að sjá sem þeir hafi unnið sigur og þeir hafa tjaldað tjöldum. Hvort sigurinn verður Pyrrhosarsigur og hvort í ljós mun koma að tjöldin hafi verið Pótemkintjöld, mun tíminn leiða í ljós. Vonandi verður ekki um þann ósigur að ræða sem margir vísindamenn óttast.

Enginn veit nefnilega hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Tólf spora kerfi landbúnaðarráðherra varðandi fyrirhugaðan innflutning hrárra og ófrystra kjötvara sem hann hefur lagt fram er óskalisti sem flestir ættu að geta tekið undir. Markmiðin eru í mörgu góð, ekki er hægt að neita því. Hvort hægt verður að ná þeim öllum fram er annað mál. Til dæmis er ekki líklegt að auðvelt verði að upplýsa erlenda ferðamenn, svo djúpt risti í vitund þeirra, um þá sérstöðu sem hér er varðandi matvæli.