Um ,,veggjöld”

27. janúar 2019

Í héraðsblaðinu Suðra 10/01/2019, fjallar ritstjórinn um fyrirhugaða álagningu veggjalda. Í greininni rekur höfundur hvernig innheimtu er hagað núna, að af þeim um 50 milljörðum sem innheimt eru af bifreiðum og eldsneyti [öðrum en rafbílum] skila sér ekki nema um 25.000 milljónir til Vegagerðarinnar. Bendir einnig á að verði að auki tekin upp innheimta sú sem fyrirhuguð er í formi ,,veggjalda” verði um tvísköttun að ræða og að það verði ,,hluti landsmanna [sem] yrði sérstaklega fyrir ranglætinu”.

Ljóst er að fyrirhuguð veggjöld er skattheimta þeirrar gerðar sem leiðir síður en svo til tekjujöfnunar í samfélaginu; leggst jafnt á háa sem lága og gefur engum grið, líkt og eldsneytisskattarnir gera. Þá má líka flestum vera ljóst að það eru ekki hinir efnaminni sem rokið geta til og endurnýjað bíla sína með nýjum og eyðsluminni bifreiðum.

Þetta eru sem sagt afleitar hugmyndir sem augljóslega eru hristar fram úr ermi Sjálfstæðismanna. Þar á bæ er enginn sérstakur áhugi á samfélagi sem jafnar kjör og aðstöðu fólks óháð efnahag.

Vel má hugsa sér aðstæður sem réttlæta myndu veggjöld eins og núverandi samgönguráðherra hefur reyndar bent á. Aðstæður sem eru þannig, að fólk myndi hafa val: gæti valið gjaldskylda leið, líkt og var í Hvalfirði og hinsvegar aðra, sem lögð og fjármögnuð hefði verið með hefðbundnum hætti; jafnvel til umferðarjöfnunar t.d. í þéttbýli.

Ekki eins og fram hefur komið m.a. hjá Jóni Gunnarssyni formanni Samgöngunefndar, að veggjöld yrðu lögð á til einhverskonar vesællar tilraunar til að einangra höfuðborgarsvæðið í skattalegu tilliti. Hugmyndir sem virðast ganga út á að skattpína þau sem á suðvesturhorninu búa langt umfram aðra landsmenn.

Það er því líkast sem enn sé glóð í þeim glæðum sem áður glóðu, þegar gamla bændasamfélagið agnúaðist út í ,fólkið á mölinni’. Viðhorf sem virðist lifa góðu lífi í afstöðu sumra Framsóknarmanna utan af landsbyggðinni og birst hefur m.a. í hugmyndum um að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg.

Bændasamtök Íslands

22. janúar 2019

B. Í. eru samansett úr ýmsum greinum landbúnaðarins, s.s. félögum sauðfjárbænda, kúabænda, garðyrkjubænda, svínabænda, kjúklingabænda, hrossabænda, o.fl.

Bændasamtökin eru sem sagt hagsmunasamtök hinna ýmsu búgreina og nær allar bera þær nöfn þeirra greina sem um ræðir nema eitt þ.e.: ,,Félag ungra bænda”.
Til að fyrirbyggja misskilning, þá er um að ræða bændur sem telja sig vera ,,unga”, yngri en hina og eftir því sem hér kemur fram, búa með kýr og kindur.

Þessi hópur hefur náð svo langt í hagsmunabaráttu sinni að hann er orðinn sérstök deild innan Bændasamtakanna og hefur með því móti tryggt sauðfjárbændum og kúabændum aukið vægi í samtökunum frá því sem áður var. Hefur reyndar mörgum þótt misvægi búgreina ærið fyrir.

Fátítt, ef ekki óþekkt, er að svona sé að málum staðið í félagasamtökum sem sambærileg geta talist. Ekki hefur undirritaður orðið var við að til séu orðin sambærileg félög innan ASÍ eða SA.

Hugsanlega hefur hápunkti þessa fyrirkomulags verið náð þegar fyrrverandi landbúnaðarráðherra skipaði nefnd um endurskoðun búvörusamninga. Skipaði hann þá sérstakan fulltrúa frá Ungbændum og jók þar með skekkjuna sem fyrir var milli búgreina.

Í nefndinni voru fyrir fulltrúar frá Félagi kúabænda, sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, svínabænda… en enginn frá Félagi kjúklingabænda (sem framleiða og selja um 1/3 þess kjöts sem neytt er á íslenskum markaði) og heldur enginn, svo annað dæmi sé tekið, fulltrúi frá hrossabændum sem framleiða kjöt af hrossum og selja einnig lifandi hross til annarra landa.

Þetta ráðslag fyrrverandi landbúnaðarráðherra lifði ekki lengi eða lítið lengur en hann náði að sitja í embætti.

Ef stefna Bændasamtakanna er sú að beita brögðum af þessu tagi til að tryggja hinum ,,hefðbundnu” búgreinum algjör yfirráð yfir samtökunum, þá er hægt að benda þeim á, að vel má ganga lengra. Vel má hugsa sér að skipta hinum ,,hefðbundnu greinum upp í: Félög ungra, miðaldra og aldinna meðlima og jafnvel gætu hugmyndaríkir fundið upp á enn fleiri útfærslum. Og þegar svona væri komið gætu síðan þau sem hefðbundnari vildu vera, stofnað Landsamtök bænda, þ.e. þeirra bænda sem vinna vildu að framgangi sinna mála á málefnalegum grunni og án skrípaláta af þessu tagi.

Hér fyrir neðan eru klippur úr frétt af aðalfundi ,,Samtaka ungra bænda” eins og það er látið heita:

,,[…]Á fundinum var samþykkt stefnumótun samtakanna til næstu fimm ára […]. Á dagskrá fundarins voru […] ályktanir um afstöðu samtakanna til framleiðslustýringar í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.
[…]
Fundurinn telur að hagsmunum ungra bænda í mjólkurframleiðslu sé best varið með því að viðhalda framleiðslustýringu í greininni. […]
Fagna tilkomu markaðs með greiðslumark í
sauðfé[…]”

Lesa má fréttina í heild ef smellt er á tengilinn, en eins og sjá má er um að ræða aukaútgáfu af samtökum sauðfjár og kúabænda.

https://www.bbl.is/frettir/frettir/samtok-ungra-baenda-vilja-innlausnarmarkad-i-mjolkurframleidslu/20829/?fbclid=IwAR3evbWdmrPegUDbLz_4j_5BNJQchcYJ7mqs4wd-7gqBA8JbibicNFMJdvQ

Orkumálastjóri ritaði ágæta grein á dögunum, sem nokkuð hefur farið fyrir brjóstið á a.m.k. sumum þeirra sem telja sig vera vini umhverfisins meiri og mikilvægari, umfram það sem gerist og gengur.

Nokkur athyglisverð atriði koma fram í greininni sem vert er að halda til haga og ég ætla að leyfa mér að tína nokkur til hér:

1) Í greininni er þess geti að fram sé kominn efnarafall sem skilar 163 ha.

2) Að augu manna séu að opnast fyrir nýtingu lággildrar varmaorku og jarðhita.

3) ,,Það er rangt, sem haldið hefur verið fram, að rafmagnsframleiðsla okkar sé ótengd Evrópu. Við erum í samkeppni við önnur Evrópulönd um fjárfestingar í nýjum orkukrefjandi iðnaði og vörur sem eru framleiddar með íslenskri raforku fara inn á Evrópumarkaðinn í skjóli þeirra tollafríðinda sem við njótum innan EES. Þess vegna fylgist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grannt með fjárfestingum í virkjunum og flutningsvirkjum til þess að tryggja að einstök fyrirtæki séu ekki að fá óeðlilegar ívilnanir og fyrirgreiðslu sem líta má á sem ríkisstyrk. Meðan við viljum eiga þennan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins verður viðskiptalegt umhverfi á Íslandi að vera sambærilegt við það sem gildir í aðildarlöndunum. Það gildir líka um framleiðslu, sölu, flutning og dreifingu á raforku.”

4) ,,Söguleg gögn segja okkur að raforkuframleiðsla til stórnotenda skapi útflutningsverðmæti upp á 25 milljarða króna á ári. Til samanburðar þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2017 um 197 milljarðar króna. Það er því frekar auðvelt að greina hvaða hagvaxtarmöguleika við erum að útiloka með friðun einstakra virkjunarkosta.“

Í lok greinarinnar stingur höfundur upp á að menn panti ætíð rafmagnsbíl ef þeir panti sér leigubíl. Það gerir hann væntanlega í þeirri trú að um umhverfisvænan samgöngumáta sé að ræða. Vel getur verið að það sé rétt, en um það er deilt. Því hefur verið haldið fram að ekki sé allt sem sýnist í því efni, að umhverfismengunin við framleiðslu slíkra bíla sé umtalsvert meiri en við bensín og dieselbíla og það svo, að hin vistvæna orka sem notuð sé á rafbílana dugi ekki til að vinna á móti þeirri mengun sem af framleiðslu þeirra stafar.

Hins vegar er ekki um það deilt að sú vegalegnd sem hægt er að fara á rafbílum á hverri hleðslu, er til muna minni og að það tekur meiri tíma að hlaða rafbílinn en að dæla eldsneyti á þá sem það nota.

Höfundur stingur upp á að ef maður ætli til Egilstaða frá Reykjavík með leigubíl, ætti viðkomandi að panta sér rafbíl.

Hætt er við að slíkt ferðalag gæti orðið bæði tafsamt og leiðigjarnt, nema að viðkomandi hafi sérstaka ánægju af að dvelja á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Fyrir nú utan það, að tæplega er líklegt að pöntun leigubíla til slíkra langferða sé almenn.