Í fyrradag hitti ég veitingamann sem hafði verið með veitingastarfsemi á eyju í Miðjarðarhafi.

Sá hafði ekki getað fengið íslenskt dilkakjöt sem hann var vanur að heiman og þótti gott; vildi það hins vegar gjarnan og vissi að meira en nóg væri til af því.

Fyrst ekki var hægt að fá það íslenska suður þar, brá hann á það ráð að kaupa nýsjálenska lambahryggi sem voru í boði í heildsölunni sem hann var í viðskiptum við.

Úrbeinaði þá og gerði af þeim máltíðir eftir því sem best hann kunni.

Vegna þess að þessi fyrrverandi veitingamaður var af íslensku bergi brotinn og þekkti vel til íslensks lambakjöts, spurði ég hann hvernig það nýsjálenska hefði komið út, samanborið við það íslenska.

Afar vel, sagði hann og satt best að segja, betra og hryggirnir stærri vel fylltir og góðir í alla staði.

Og bragðið og mýktin, spurði ég, og lék forvitni á að vita hvort hins íslenska kryddjurtabragðs af hálendinu hefði ekki verið saknað.

Bara mjög gott og ef eitthvað var miklu betra, var svarið.

Ég renndi niður mínu íslenska stolti með íslensku Pepsí Max og spurði hvort það hefði nokkuð verið seigt?

Nei alls ekki.

Þar fór það!

Ræddum dálítið saman um seigt íslenskt lambakjöt í framhaldinu og sífellt lækkaði í Pepsí- flöskunni minni, sem nú er á leiðinni í endurvinnslu.



Lokað er fyrir ummæli.