Hagsmunir þjóðarinnar

22. febrúar 2019

Hagsmunum landbúnaðarins og þjóðarinnar virðist hafa verið fórnað árið 2007, til þess að Ísland ætti aðgang að innri markaði EES landanna fyrir sjávarafurðir.

Ótrúlegt verður að teljast, að íslenskur kjötmarkaður og eggja, hafi verið metinn svo mikilsverður af samningamönnum ESB/EES, að óhjákvæmilegt væri og knýjandi vegna hagsmuna Evrópulandanna, að fá óheftan aðgang að honum. Hafa verður í huga að íslenskur markaður er afar lítill mældur í samanburði við markað EES landanna; 500 milljón manna markaður á móti um 300 þúsund manna markaði. Hlutföllin eru m. ö. o. um 1/1700.

Líklegra er að það hafi annað hvort verið fordæmisgildið sem vegið hafi svona þungt af hálfu erlendu samningamanna, en einnig er ekki hægt að útiloka að fleira hafi komið til.

Hugsanlegt getur verið að menn hafi á þessum tíma annað hvort ekki gert sér grein fyrir hve mikið væri í húfi fyrir Ísland, eða að innlend öfl hafi knúið á. Hafi talið sínum hagsmunum betur borgið ef íslenskur kjötmarkaður opnaðist hindrunarlítið fyrir innflutningi.

Hafa verður í huga að innlendir aðilar hafi barist fyrir óheftum innflutningsmöguleikum á ófrosnu kjöti og eggjum. Flestir vita hverjir það eru og að um sérstakt áhugamál íslenskra heildsala með matvæli er um að ræða. Þeir virðast telja hag sínum best borgið með innflutningi af slíku tagi, láta í veðri vaka að í raun séu þeir að berjast fyrir hagsmunum neytenda; hagsmunir þeirra fljóti einungis með og að lokum verði ,,allir kátir”. (Svo vitnað sé í alræmd ummæli landbúnaðarráðherra frá árinu 2015).

Móast hefur verið við í 10 ár og dómar hafa fallið gegn Íslandi. Við því þarf að bregðast. Annað hvort með því að fá samninginn tekinn upp, sem afar ólíklegt að verði hægt, eða: gera eitthvað í þá veru sem landbúnaðarráðherra er nú að gera.

Stjórnvöldum er allt að því vorkunn. Látið hefur verið reka á reiðanum í 10 til 12 ár með samning sem gerður var 2007.

Í öllu falli má reikna með því að hugsjónir heildsalanna muni rætast. Þeir muni ná fram því markmiði sínu að frelsa þjóð sína undan þeirri fábreytni sem þeir telja að til staðar sé á íslenskum matvörumarkaði. Þeim hafa verið dæmdar bætur úr ríkissjóði eftir málaferli. Engum sögum fer af því að þeim bótagreiðslum hafi verið skilað til neytenda með einhverju móti. Hafi það verið gert, þá hefur það farið fremur hljótt.

Að minnsta kosti ekki hljómað eins kröftuglega og baráttusöngur þeirra í réttarsölum og fjölmiðlum á umliðnum árum.

Svo er að sjá sem þeir hafi unnið sigur og þeir hafa tjaldað tjöldum. Hvort sigurinn verður Pyrrhosarsigur og hvort í ljós mun koma að tjöldin hafi verið Pótemkintjöld, mun tíminn leiða í ljós. Vonandi verður ekki um þann ósigur að ræða sem margir vísindamenn óttast.

Enginn veit nefnilega hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Tólf spora kerfi landbúnaðarráðherra varðandi fyrirhugaðan innflutning hrárra og ófrystra kjötvara sem hann hefur lagt fram er óskalisti sem flestir ættu að geta tekið undir. Markmiðin eru í mörgu góð, ekki er hægt að neita því. Hvort hægt verður að ná þeim öllum fram er annað mál. Til dæmis er ekki líklegt að auðvelt verði að upplýsa erlenda ferðamenn, svo djúpt risti í vitund þeirra, um þá sérstöðu sem hér er varðandi matvæli.Lokað er fyrir ummæli.