Um ,,veggjöld”

27. janúar 2019

Í héraðsblaðinu Suðra 10/01/2019, fjallar ritstjórinn um fyrirhugaða álagningu veggjalda. Í greininni rekur höfundur hvernig innheimtu er hagað núna, að af þeim um 50 milljörðum sem innheimt eru af bifreiðum og eldsneyti [öðrum en rafbílum] skila sér ekki nema um 25.000 milljónir til Vegagerðarinnar. Bendir einnig á að verði að auki tekin upp innheimta sú sem fyrirhuguð er í formi ,,veggjalda” verði um tvísköttun að ræða og að það verði ,,hluti landsmanna [sem] yrði sérstaklega fyrir ranglætinu”.

Ljóst er að fyrirhuguð veggjöld er skattheimta þeirrar gerðar sem leiðir síður en svo til tekjujöfnunar í samfélaginu; leggst jafnt á háa sem lága og gefur engum grið, líkt og eldsneytisskattarnir gera. Þá má líka flestum vera ljóst að það eru ekki hinir efnaminni sem rokið geta til og endurnýjað bíla sína með nýjum og eyðsluminni bifreiðum.

Þetta eru sem sagt afleitar hugmyndir sem augljóslega eru hristar fram úr ermi Sjálfstæðismanna. Þar á bæ er enginn sérstakur áhugi á samfélagi sem jafnar kjör og aðstöðu fólks óháð efnahag.

Vel má hugsa sér aðstæður sem réttlæta myndu veggjöld eins og núverandi samgönguráðherra hefur reyndar bent á. Aðstæður sem eru þannig, að fólk myndi hafa val: gæti valið gjaldskylda leið, líkt og var í Hvalfirði og hinsvegar aðra, sem lögð og fjármögnuð hefði verið með hefðbundnum hætti; jafnvel til umferðarjöfnunar t.d. í þéttbýli.

Ekki eins og fram hefur komið m.a. hjá Jóni Gunnarssyni formanni Samgöngunefndar, að veggjöld yrðu lögð á til einhverskonar vesællar tilraunar til að einangra höfuðborgarsvæðið í skattalegu tilliti. Hugmyndir sem virðast ganga út á að skattpína þau sem á suðvesturhorninu búa langt umfram aðra landsmenn.

Það er því líkast sem enn sé glóð í þeim glæðum sem áður glóðu, þegar gamla bændasamfélagið agnúaðist út í ,fólkið á mölinni’. Viðhorf sem virðist lifa góðu lífi í afstöðu sumra Framsóknarmanna utan af landsbyggðinni og birst hefur m.a. í hugmyndum um að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg.



Lokað er fyrir ummæli.