Bændasamtök Íslands

22. janúar 2019

B. Í. eru samansett úr ýmsum greinum landbúnaðarins, s.s. félögum sauðfjárbænda, kúabænda, garðyrkjubænda, svínabænda, kjúklingabænda, hrossabænda, o.fl.

Bændasamtökin eru sem sagt hagsmunasamtök hinna ýmsu búgreina og nær allar bera þær nöfn þeirra greina sem um ræðir nema eitt þ.e.: ,,Félag ungra bænda”.
Til að fyrirbyggja misskilning, þá er um að ræða bændur sem telja sig vera ,,unga”, yngri en hina og eftir því sem hér kemur fram, búa með kýr og kindur.

Þessi hópur hefur náð svo langt í hagsmunabaráttu sinni að hann er orðinn sérstök deild innan Bændasamtakanna og hefur með því móti tryggt sauðfjárbændum og kúabændum aukið vægi í samtökunum frá því sem áður var. Hefur reyndar mörgum þótt misvægi búgreina ærið fyrir.

Fátítt, ef ekki óþekkt, er að svona sé að málum staðið í félagasamtökum sem sambærileg geta talist. Ekki hefur undirritaður orðið var við að til séu orðin sambærileg félög innan ASÍ eða SA.

Hugsanlega hefur hápunkti þessa fyrirkomulags verið náð þegar fyrrverandi landbúnaðarráðherra skipaði nefnd um endurskoðun búvörusamninga. Skipaði hann þá sérstakan fulltrúa frá Ungbændum og jók þar með skekkjuna sem fyrir var milli búgreina.

Í nefndinni voru fyrir fulltrúar frá Félagi kúabænda, sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, svínabænda… en enginn frá Félagi kjúklingabænda (sem framleiða og selja um 1/3 þess kjöts sem neytt er á íslenskum markaði) og heldur enginn, svo annað dæmi sé tekið, fulltrúi frá hrossabændum sem framleiða kjöt af hrossum og selja einnig lifandi hross til annarra landa.

Þetta ráðslag fyrrverandi landbúnaðarráðherra lifði ekki lengi eða lítið lengur en hann náði að sitja í embætti.

Ef stefna Bændasamtakanna er sú að beita brögðum af þessu tagi til að tryggja hinum ,,hefðbundnu” búgreinum algjör yfirráð yfir samtökunum, þá er hægt að benda þeim á, að vel má ganga lengra. Vel má hugsa sér að skipta hinum ,,hefðbundnu greinum upp í: Félög ungra, miðaldra og aldinna meðlima og jafnvel gætu hugmyndaríkir fundið upp á enn fleiri útfærslum. Og þegar svona væri komið gætu síðan þau sem hefðbundnari vildu vera, stofnað Landsamtök bænda, þ.e. þeirra bænda sem vinna vildu að framgangi sinna mála á málefnalegum grunni og án skrípaláta af þessu tagi.

Hér fyrir neðan eru klippur úr frétt af aðalfundi ,,Samtaka ungra bænda” eins og það er látið heita:

,,[…]Á fundinum var samþykkt stefnumótun samtakanna til næstu fimm ára […]. Á dagskrá fundarins voru […] ályktanir um afstöðu samtakanna til framleiðslustýringar í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.
[…]
Fundurinn telur að hagsmunum ungra bænda í mjólkurframleiðslu sé best varið með því að viðhalda framleiðslustýringu í greininni. […]
Fagna tilkomu markaðs með greiðslumark í
sauðfé[…]”

Lesa má fréttina í heild ef smellt er á tengilinn, en eins og sjá má er um að ræða aukaútgáfu af samtökum sauðfjár og kúabænda.

https://www.bbl.is/frettir/frettir/samtok-ungra-baenda-vilja-innlausnarmarkad-i-mjolkurframleidslu/20829/?fbclid=IwAR3evbWdmrPegUDbLz_4j_5BNJQchcYJ7mqs4wd-7gqBA8JbibicNFMJdvQ



Lokað er fyrir ummæli.