Hugleiðingar um orkumál út frá grein.
2. janúar 2019
Orkumálastjóri ritaði ágæta grein á dögunum, sem nokkuð hefur farið fyrir brjóstið á a.m.k. sumum þeirra sem telja sig vera vini umhverfisins meiri og mikilvægari, umfram það sem gerist og gengur.
Nokkur athyglisverð atriði koma fram í greininni sem vert er að halda til haga og ég ætla að leyfa mér að tína nokkur til hér:
1) Í greininni er þess geti að fram sé kominn efnarafall sem skilar 163 ha.
2) Að augu manna séu að opnast fyrir nýtingu lággildrar varmaorku og jarðhita.
3) ,,Það er rangt, sem haldið hefur verið fram, að rafmagnsframleiðsla okkar sé ótengd Evrópu. Við erum í samkeppni við önnur Evrópulönd um fjárfestingar í nýjum orkukrefjandi iðnaði og vörur sem eru framleiddar með íslenskri raforku fara inn á Evrópumarkaðinn í skjóli þeirra tollafríðinda sem við njótum innan EES. Þess vegna fylgist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grannt með fjárfestingum í virkjunum og flutningsvirkjum til þess að tryggja að einstök fyrirtæki séu ekki að fá óeðlilegar ívilnanir og fyrirgreiðslu sem líta má á sem ríkisstyrk. Meðan við viljum eiga þennan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins verður viðskiptalegt umhverfi á Íslandi að vera sambærilegt við það sem gildir í aðildarlöndunum. Það gildir líka um framleiðslu, sölu, flutning og dreifingu á raforku.”
4) ,,Söguleg gögn segja okkur að raforkuframleiðsla til stórnotenda skapi útflutningsverðmæti upp á 25 milljarða króna á ári. Til samanburðar þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2017 um 197 milljarðar króna. Það er því frekar auðvelt að greina hvaða hagvaxtarmöguleika við erum að útiloka með friðun einstakra virkjunarkosta.“
Í lok greinarinnar stingur höfundur upp á að menn panti ætíð rafmagnsbíl ef þeir panti sér leigubíl. Það gerir hann væntanlega í þeirri trú að um umhverfisvænan samgöngumáta sé að ræða. Vel getur verið að það sé rétt, en um það er deilt. Því hefur verið haldið fram að ekki sé allt sem sýnist í því efni, að umhverfismengunin við framleiðslu slíkra bíla sé umtalsvert meiri en við bensín og dieselbíla og það svo, að hin vistvæna orka sem notuð sé á rafbílana dugi ekki til að vinna á móti þeirri mengun sem af framleiðslu þeirra stafar.
Hins vegar er ekki um það deilt að sú vegalegnd sem hægt er að fara á rafbílum á hverri hleðslu, er til muna minni og að það tekur meiri tíma að hlaða rafbílinn en að dæla eldsneyti á þá sem það nota.
Höfundur stingur upp á að ef maður ætli til Egilstaða frá Reykjavík með leigubíl, ætti viðkomandi að panta sér rafbíl.
Hætt er við að slíkt ferðalag gæti orðið bæði tafsamt og leiðigjarnt, nema að viðkomandi hafi sérstaka ánægju af að dvelja á hleðslustöðvum fyrir rafbíla. Fyrir nú utan það, að tæplega er líklegt að pöntun leigubíla til slíkra langferða sé almenn.