Á blaðsíðu 8 í Bændablaðinu (9/5/2018) eru sagðar fréttir af aðalfundi Félags svínabænda, áður Svínaræktarfélags Íslands.

Á fundinum greindi Ingvi Stefánsson formaður félagsins frá að neytendur hefðu reynst svínabændum vel og beint kaupum sínum að íslensku svínakjöti. Þá greindi hann einnig frá því að geldingar væru nánast aflagðar og að hreinleiki framleiðslunnar væri góður.

Í annarri frétt á sömu síðu blaðsins er síðan sagt frá öðru og athyglisverðu máli sem til umfjöllunar var á fundinum. Varðar það uppgjör vegna þess hvernig komið er fyrir því sem einu sinni var Bjargráðasjóður, þ.e. búnaðardeild sjóðsins. Sjóðurinn fuðraði upp á sínum tíma og rekja sumir það til göngutúrs fyrrverandi forsætisráðherra. Sá hafði rölt um götur Siglufjarðar, slegið sig til riddara og lýst því yfir að stofna þyrfti ,,Hamfarasjóð“, til að taka á afleiðingum vatnsflóða í bænum. Ráðherranum hafði sést yfir að fyrir voru, annars vegar fyrrnefndur Bjargráðasjóður og síðan Viðlagasjóður sem stofnaður var í kjölfar gossins í Vestmannaeyjum.

Nú er verið að stofna ,,Velferðarsjóð BÍ“ upp úr reitunum af því sem áður var búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Svínabændur áttu uppsafnað fé í deildinni um 40 milljónir eða rétt um rúmlega þriðjung þess fjár sem í þessari deild sjóðsins var. Ætlunin er að leggja þessa fjármuni inn í fyrrnefndan Velferðarsjóð. Sérkennilegt mál sem vonandi er að finnist farsæl lausn á.

Formaður B.Í. hefur margoft bent á hve illa íslenskir bændur standi að vígi gagnvart tollfrjálsum innflutningi frá ESB og m.a. tiltekið að íslenskir bændur, ólíkt bændum í Evrópusambandinu, búi ekki við tryggingasjóð sem gripið gæti þá sem fyrir óvæntum áföllum verða. Hér er líkast til á ferðinni tilraun til að bregðast við því máli. Eins og flestir vita, þá er ekki við því að búast að íslensk stjórnvöld geri það, svo stefnulaus sem þau eru í landbúnaðarmálum. Væntanlega finnst farsæl lausn á þessu, lausn sem er þannig menn verði sáttir við. Aldrei er að vita hvenær óvænt áföll verða, áföll þar sem öflugan tryggingasjóð gæti þurft til bjargar. Í þessu efni þyrfti að afla upplýsinga um hvernig hinn evrópski sjóður er, því tryggja þarf að aðstaða íslenskra bænda sé í engu minni en þeirra sem þeim er ætlað að keppa við.

Þriðja fréttin af fundi Félags svínabænda, á sömu síðu blaðsins, greinir frá því að svína-, eggja- og kjúklingabændur fyrirhugi að ráða sameiginlegan framkvæmdastjóra sem verði jafnframt talsmaður búgreinanna. Hér er um að ræða mál sem nokkuð lengi er búið að vera til umræðu og óskandi að það komist sem fyrst í farsæla höfn.

Víst er að við erum mörg sem höfum verið þeirrar skoðunar að slagsíða sé á Bændasamtökunum. Þannig að þau séu meira tengd, í fyrsta lagi sauðfjárrækt og í öðru lagi nautgriparækt, en minna t.d. alifuglarækt og svínarækt. Þetta er rétt og þannig hefur það alfarið verið þar til formannsskipti urðu í samtökunum og núverandi formaður tók við. Samtökin eru þannig byggð upp, að það er fjöldi þeirra sem stunda viðkomandi búgrein sem ræður meiru við val í trúnaðarstöður en framleiðslumagn eða markaðshlutdeild búgreinanna. Þannig er svo dæmi sé tekið, enginn úr svínarækt né kjúklingarækt í stjórn Bændasamtakanna, þó þessar búgreinar séu með mesta markaðshlutdeild á innlenda markaðnum fyrir kjötvörur.

Þetta þyrfti að laga, t.d. með nýju kosningakerfi til trúnaðarstarfa í B.Í. Kerfi sem byggði á blönduðu kerfi fjölda bænda og framleiðslumagni búgreinanna, eða í einhverri annarri útfærslu sem menn geta komið sér saman um.

Undirritaður var formaður Félags kjúklingabænda um nokkurra ára skeið og naut góðs af ánægjulegu samstarfi við þá Hörð Harðarson, Björgvin Jón Bjarnason og Ingva Stefánsson formenn Félags svínabænda og er sannfærður um að greinarnar eiga marga sameiginlega hagsmuni.

Það er ánægjulegt að í höfn skuli vera að komast hugmyndin um sameiginlegan framkvæmdastjóra. Þegar hún kom fram, þá kynnti ég hana fyrir félögum mínum í stjórn F.k. og síðar á aðalfundi félagsins. Fékk hún ágætar undirtektir stjórnar félagsins, utan að einn stjórnarmaður lýsti talsverðum efasemdum, en sá var jafnframt formaður Félags eggjaframleiðenda.

Því var það, að ég átti ekki von á að það félag yrði með í þessu samstarfi, en ánægjulegt að það skuli hafa orðið niðurstaðan og óskandi að samstarf félaganna komi til með að verða farsælt og gefandi fyrir búgreinarnar allar.