Lýðræði?

12. júlí 2018

Ég varð vitni að rökræðum um hvernig lýðræðið væri í Rússlandi nútímans um daginn. Einum fannst það vera viðunandi en öðrum að það vantaði talsvert á til að sæmilegt gæti talist. Þetta vakti hjá mér hugrenningar, og varðandi Rússa, þá er vert að hafa í huga, að frekar stutt er síðan Sovétríkin hurfu inn í móðu sögunnar og einnig hitt, að flest munum við vera sammála um að í því samfélagsformi sem þá var, hafi ekki verið það sem kalla má lýðræði. Að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem við flest leggjum í það orð.

Og vegna þess hve margir eru fúsir til að gagnrýna núverandi ástand í Rússlandi, þá varð mér hugsað sem svo: hvernig er þetta hjá þeim þjóðum sem búið hafa við ,,lýðræði”, t.d. frá lokum seinna stríðs?

Hversu djúpt ristir lýðræðið t.d. á Íslandi, Bretlandi, Ítalíu, Tyrklandi, Grikklandi, Spáni, Portúgal og Bandaríkjunum? Vissulega enginn tæmandi listi og alls ekki djúpt hugsaður. Í öllum þessum ríkjum sem ég taldi upp má hafa efasemdir um að gallalítið lýðræði ríki og svo er líka endalaust hægt að spyrja: Hvar byrjar lýðræðið og hvar endar það?

Í ríkjunum sem ég taldi upp ríkir gott og virkt lýðræði fyrir þá ríku og í krafti auðsins verða þeir voldugir, stjórna fjölmiðlum, og mata í krafti auðsins sem þeim gefst færi á að komast yfir, almenning á sjónarmiðum sem henta til ,,réttrar” skoðanamyndunar. Í sumum þeim ríkjunum sem ég nefndi af handahófi, getur verið varasamt að hafa ,,ranga” skoðun, skoðun sem þeim ríku og voldugu fellur ekki við og getur það birst í margvíslegri mynd í hverju hættan stafar. Allt frá því að viðkomandi eigi erfitt uppdráttar varðandi það að fá vinnu, eða frama í viðkomandi samfélagi. Fjármálastofnunum (bönkum) er jafnvel beitt til að kippa fótunum undan þeim sem ,,makka ekki rétt”. Getur einnig lýst sér þannig að opinber hagsmunasamtök undir stjórn manna sem lítils svífast, beiti sér miskunnarlaust á þann veg að kippt sé fótunum undan viðkomandi, einfaldlega vegna þess að hann hafi leyft sér að gagnrýna einhver samtök þeirra sem ,,komið hafa sér fyrir í samfélaginu“ eða bara einhverjar útstöðvar þeirra samtaka.

Mörg munum við vera sem ýmist könnumst við dæmi um misbeitingu valds í samfélaginu okkar, stundum af eigin reynslu eða afspurn. Og vegna þess hve algengt er í umræðunni, að slá því föstu að allt hafi farið versnandi í seinni tíð - að heimur versnandi fari – þá er rétt að taka það skýrt fram að undirritaður er alls ekki þeirrar skoðunar. Þvert á móti, þá er hægt að benda á mörg dæmi þess að misbeiting valds, sé jafnvel minni í nútímanum en áður var.

En aftur að upphafinu. Er lýðræðið gott eða slæmt í Rússlandi? Ætli ekki megi segja að hér séu settar fram einfaldar spurningar á flóknu máli. Máli sem getur verið verulega afstætt og svarað eftir því hvernig horft er á það sem spurt er um. Sé litið til sögunnar er það líklega a.m.k. alls ekki verra en það ,,lýðræði“ sem ríkti í óreiðunni fyrir daga núverandi stjórnvalda og þeirra sem þar áður fóru með völd. Og er þá vandséð hvort nokkurn tíma hafi þar verið betra ástand í þessum efnum en nú er!

Sé það rétt, má gera ráð fyrir að mörgum Rússanum muni þykja ástandið harla gott og að nútíminn sé nokkuð góður miðað við það sem áður var! Sé síðan saga rússnesku þjóðarinnar skoðuð, þá þarf líka umtalsverða forherðingu til að staðhæfa að svo sé ekki!

Þau okkar sem teljum að við búum við sæmilegt lýðræðið ættum að hafa í huga að fyrirbrigðið er viðkvæmt og vandmeðfarið sem skurnlaust egg sé og að sífellt þarf að vera að hlúa að því og vernda.

Allir sem einhvern tíma hafa haft í höndum egg sem hangir saman á skjallinu einu saman, ættu að vita, að það má lítið út af bregða til að illa geti farið. Lítið þarf til að ekkert egg verði til, eða með öðrum orðum að ekkert lýðræði verði til. Vegna þessa verður lýðræðisþjóðfélagið að vernda þá sem gagnrýna, en þeir verða að sama skapi að vera málefnalegir í gagnrýni sinni til að vernda lýðræðisþjóðfélagið.Lokað er fyrir ummæli.