Svo lengi lærir sem lifir.

6. september 2015

Um nokkra hríð hef ég vitað um hinn einlæga áhuga íslenskra verslunarmanna á að lífga upp á fábreytta matvörumarkað landsins okkar. Þeir hafa sem sé aftur og aftur verið að bjóða fram krafta sína til þess að flytja inn almennilegt kjöt frá útlöndum á lágu verði sem muni, bara ef þeir fái nú að gera eitthvað í málinu, koma kjörum þessarar þjóðar upp á allt annað og hærra og betra tilverustig en hún er á nú. Kjötið á sem sagt að verða bæði ódýrt og afspyrnu gott, væntanlega þegar fólk er búið að venjast hinum nýju gæðastöðlum sem farið mun verða eftir.

Margir kannast við thaílenska alifuglakjötið, sem matvöruverslunin Bónus hefur verið dugleg við að hafa á boðstólum. Kjöt það er, sem kunnugt er þeim sem reynt hafa, haldið þeirri náttúru að ekki þarf að hafa fyrir því að matreiða það þar sem þarlendir hafa af greiðasemi sinni bæði steikt það og soðið með kryddi og öllu tilheyrandi.

Í gær ákvað ég að slá upp grillveislu fyrir mig og mína ektafrú, og féll kylliflatur fyrir ungnautakjötssneiðum í kjötborði verslunarinnar Krónunnar á Selfossi, piparkrydduðum og í alla staði vel útlítandi og vandlega merktar: Upprunaland Danmörk. Með þessu var svo keypt ýmislegt annað góðgæti og eftir að heim var komið hófst eldamennskan. Allt gekk þokkalega, steikarkartöflur og grænmeti létu steikja sig eins og ekkert væri, en er kom að kjötinu kom babb í steikmeistarans bát.

Skemmst er frá því að segja að annað eins léttsteikt gúmmífóður hefur undirritaður ekki sett á sinn disk um ævina, sem þó er ekkert sérstaklega stutt orðin.

Eftir þessa reynslu ætla ég að leggja það til að kjötmarkaðsmálum verði sem allra minnst breytt að sinni, eða að minnsta kosti þar til að innkaupastjórar verslanakeðjanna sem ríkjandi eru á íslenskum matvörumarkaði hefur lærst að innkaupin eiga ekki bara að gerast undir þeim formerkjum að varan sé sem ódýrust í innkaupum svo hægt sé að græða sem mest á henni í endursölu, heldur að leggja sig fram að eiga viðskipti þar sem varan er góð og ósvikin að gæðum.