Á fésinu og víðar hefur dálítið borið á því að ýmsum finnist það hrósvert að Gunnar Bragi hafi verið á flandri austur í Úkraínu.

Það er ekkert nýtt né hrósvert við það að Framsókn baði sig í ljósi þeirra sem eru í vanda. Gerðu þau það ekki fyrir síðustu kosningar og nörruðu til sín atkvæði með falsi og lygum?

Gunnar Bragi sá bara gott tækifæri til að láta ljós sitt týra með för sinni til Úkraínu, notaði tækifærið til að baða sig þar í sviðsljósunum, því hver trúir því að það skipti nokkru minnsta máli austur þar, hvort hann sést eða sést ekki.

Hefði eins getað sent af sér mynd á korti sem hefði þó getað gert það gagn að loga eitt augnablik á bálköstum Maiden-torgs og auka þar ylinn um einn milljónasta úr gráðu eitt örlítið brot úr sekúndu.

Merkilegt að vilja styðja Úkraínu í viðleitni hennar til að tengjast Evrópusambandinu og halda sig frá Rússlandi, en berjast hins vegar eins og ljón fyrir því að Ísland halli sér sem mest að Rússlandi og Kína reyndar líka, en sem mest frá því sama Evrópusambandi.

Þegar augljóst og greinilegt samræmi verður í orðum og æði framsóknarforystunnar verður víst margur lostinn hinni makalausu ,,stórfurðu“ sem angrar formann Framsóknarflokksins hvað mest.

Hin beiska loforðasúpa

26. mars 2014

Samkvæmt hugmyndafræði Framsóknarflokks hins nýja, tapaði Samfylkingin fylgi í síðustu kosningum vegna þess að hún vildi ekki taka þátt í innistæðulausum loforðaflaum Framsóknar.

Lofa fólki gulli og grænum skógum til þess eins að laða að sér fylgi frá þeim sem áttu í mestu erfiðleikunum.

Vissu að sjálfsögðu að loforðasúpuna yrði að svíkja eftir kosningar ef svo færi að flokkurinn fengi fylgi í samræmi við þær væntingar sem spunameistarar flokksins höfðu byggt upp.

Í málflutningi Framsóknarmanna, frá því eftir kosningar, hefur hvað eftir annað komið fram sú fróma ósk, að fólk skuli sýna þolinmæði og bíða rólegt eftir því hvað leyndist í loforðapakka ríkisstjórnarinnar þegar að því kæmi að hann yrði reiddur fram.

Nú hefur það gerst og við sjáum hvernig Framsókn flæmist á flótta undan ósannindahrönglinu sem hrannast upp í kringum hana.

Pakkinn er kominn fram og búið að opna hann og í ljós hefur komið að í honum leynist ekkert annað en svikasúpa af beiskara taginu: skuldirnar verða greiddar úr ríkissjóði og af sparifé almennings.

Það versta er að þetta stjórnmálaafl er að vinna þjóðinni stórtjón með gjörðum sínum og Sjálfstæðisflokkurinn dinglar með.

Vegna frétta af B.Í.

18. mars 2014

Upplýst er orðið að Bændasamtök Íslands hafa ráðstafað umtalsverðum fjármunum til öfgasamtakanna ,,Heimssýn“.

Þetta er gert á sama tíma og B.Í. eru rekin með tugmilljóna tapi samkvæmt því sem fram kemur í Bændablaðinu.

Á sama tíma og fjöldi fólks gefur vinnuframlag sitt til félagsstarfa Bændasamtakanna og telur sig vera með því að vinna heildinni gagn.

Fyrir margt löngu fundu ,,stórhuga“ bændaforkólfar það út, af visku sinni, að ekkert væri nauðsynlegra fyrir bændur en byggja hótel í Reykjavík.

Töldu sig s.s. vera vel til þess fallna að standa í svoleiðis rekstri.

Hótel Saga reyndist þeim ekki nóg og því tóku þeir að sér rekstur Hótels Íslands líka.

Nú eru þeir búnir að skila Hótel Íslandi til bankans, en reka áfram Hótel Sögu, sem hefur væntanlega dugað samtökunum vel, þar til nýlega, að það rann upp fyrir þeim að rétt væri að fara með hluta starfseminnar í Hörpu til tilbreytingar.

Lukkaðist vel, en hefur væntanlega kostað sitt.

Ekki tókst B.Í. að hindra að Lánasjóður landbúnaðarins væri ,,seldur“ Landsbanka Íslands fyrir hrun.

Kannski var það ekki reynt, stór hluti andvirðisins átti að renna inn í Lífeyrissjóð bænda.

Reyndin varð sú að stór hluti fór í að styrkja byggingar reiðhalla vítt og breitt um landið.

Eru það einhver álög á Bændasamtökunum að þurfa sínkt og heilagt að vera í stórhuga fjárveitingum út og suður til verkefna sem ekkert hafa með hagsmuni bænda að gera?

Telja menn að bændur hafi það almennt svo yfirmáta gott að ekki verði gert betur og því sé best að snúa sér að öðru?