Á fésinu og víðar hefur dálítið borið á því að ýmsum finnist það hrósvert að Gunnar Bragi hafi verið á flandri austur í Úkraínu.

Það er ekkert nýtt né hrósvert við það að Framsókn baði sig í ljósi þeirra sem eru í vanda. Gerðu þau það ekki fyrir síðustu kosningar og nörruðu til sín atkvæði með falsi og lygum?

Gunnar Bragi sá bara gott tækifæri til að láta ljós sitt týra með för sinni til Úkraínu, notaði tækifærið til að baða sig þar í sviðsljósunum, því hver trúir því að það skipti nokkru minnsta máli austur þar, hvort hann sést eða sést ekki.

Hefði eins getað sent af sér mynd á korti sem hefði þó getað gert það gagn að loga eitt augnablik á bálköstum Maiden-torgs og auka þar ylinn um einn milljónasta úr gráðu eitt örlítið brot úr sekúndu.

Merkilegt að vilja styðja Úkraínu í viðleitni hennar til að tengjast Evrópusambandinu og halda sig frá Rússlandi, en berjast hins vegar eins og ljón fyrir því að Ísland halli sér sem mest að Rússlandi og Kína reyndar líka, en sem mest frá því sama Evrópusambandi.

Þegar augljóst og greinilegt samræmi verður í orðum og æði framsóknarforystunnar verður víst margur lostinn hinni makalausu ,,stórfurðu“ sem angrar formann Framsóknarflokksins hvað mest.Lokað er fyrir ummæli.