Hin beiska loforðasúpa

26. mars 2014

Samkvæmt hugmyndafræði Framsóknarflokks hins nýja, tapaði Samfylkingin fylgi í síðustu kosningum vegna þess að hún vildi ekki taka þátt í innistæðulausum loforðaflaum Framsóknar.

Lofa fólki gulli og grænum skógum til þess eins að laða að sér fylgi frá þeim sem áttu í mestu erfiðleikunum.

Vissu að sjálfsögðu að loforðasúpuna yrði að svíkja eftir kosningar ef svo færi að flokkurinn fengi fylgi í samræmi við þær væntingar sem spunameistarar flokksins höfðu byggt upp.

Í málflutningi Framsóknarmanna, frá því eftir kosningar, hefur hvað eftir annað komið fram sú fróma ósk, að fólk skuli sýna þolinmæði og bíða rólegt eftir því hvað leyndist í loforðapakka ríkisstjórnarinnar þegar að því kæmi að hann yrði reiddur fram.

Nú hefur það gerst og við sjáum hvernig Framsókn flæmist á flótta undan ósannindahrönglinu sem hrannast upp í kringum hana.

Pakkinn er kominn fram og búið að opna hann og í ljós hefur komið að í honum leynist ekkert annað en svikasúpa af beiskara taginu: skuldirnar verða greiddar úr ríkissjóði og af sparifé almennings.

Það versta er að þetta stjórnmálaafl er að vinna þjóðinni stórtjón með gjörðum sínum og Sjálfstæðisflokkurinn dinglar með.Lokað er fyrir ummæli.