Nokkur orð um hin vammlausu

18. desember 2013

Hugsum okkur að við ætluðum að byggja álver.

Nokkur atriði þurfa að vera til staðar til að það geti orðið að veruleika, svo sem hráefni (súrál), starfsstöð á góðum stað, orka til að knýja verið, hafnaraðstaða og gott starfsfólk. Fleira mætti til telja.

Hvað af þessu var til staðar þegar framkvæmdir hófust við ,,svokallað” álver á Suðurnesjum?

Hráefni er flutt að um langan veg og komin er reynsla á hvernig að því skuli staðið.
Varðandi orkuna þá þarf hún að vera fyrir hendi og til þess að svo geti orðið, þurfa nokkur skilyrði að vera uppfyllt og eitt það helsta að orkan sé yfirleitt til, einhverstaðar, og að henni verði komið með tryggum hætti á vinnslustað.

Ekkert af ofantöldu var til staðar í þessu dæmi, nema, að hugsanlega var hægt að útvega súrálið.

Þessu til viðbótar hafði ,,gleymst” að gera ráð fyrir hafnaraðstöðunni fyrir skipin sem flytja skyldu hráefni að og afurðir frá verksmiðjunni og því var það að vællinn um fyrirgreiðslu Ríkisins og framlög til hafnarframkvæmda hófust á síðasta kjörtímabili.

Nú vill framsóknaríhaldið halda málinu til streitu og virkja til að virkja. Það vilja þau algjörlega án tillits til þess hvort það muni skila virkjunaraðilum hagnaði eður ei.

Þegar nær það eina sem Íslendingar leggja til í þessu dæmi er orkan til vinnslunnar, fyrir utan starfsmenn til starfa í álverinu, er svo að sjá að núverandi stjórnvöldum standi nákvæmlega á sama um hvort orkuframleiðslan skili arði. Hvers vegna er það? Hvort er verið að hugsa um þjóðarhag eða atkvæðaveiðar? Hangir eitthvað annað og óljósara á spýtunni? Spyr sá sem ekki veit.

En.

Miklir menn erum vér Mörlandar að hafa borið gæfu til að kjósa yfir okkur stjórn hinna vammlausu.

Það næsta sem hugsanlega gerist í stöðunni er að Birgir Ármannsson og Gunnar Bragi Sveinsson, sem eru í alkunnu fóstbræðralagi, taki höndum saman og stefni íslenska Ríkinu og orkufyrirtækjum þjóðarinnar fyrir að hafa ekki getað tryggt að allt ofangreint gengi upp samkvæmt formúlunni um að heimskum skuli á foraðið etja.
Hugsanlega fær Ragnheiður Elín Árnadóttir að vera með ef hún stendur sig vel í ,,hagsmunagæslunni“.