Minning: Kristinn Erlendsson

27. október 2013

Kristinn Erlendsson fæddist í Reykjavík 9. mars 1946. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2. september 2013.
Foreldrar hans voru Sigrún Kristinsdóttir, f. 1924, d. 2005, og Erlendur Sigurðsson, f. 1919, d. 2009. Kristinn var elstur sex alsystkina: Helga, f. 1948, d. 2009, Sigrún, f. 1949, Guðrún Lísa, f. 1950, Sturla, f. 1954, d. 2007, Elísabet, f. 1958. Hálfsystkin, samfeðra eru: Jónína, Lýður, Erlendur Örn, Hrafnkell og Aðalheiður. Maki Ásta Guðmundsdóttir, f. 1948. Börn hennar eru: Sigríður og Unnur Helga Kristjánsdætur. Fyrrverandi maki og barnsmóðir Kristins er Dagbjört Halldórsdóttir, f. 1947. Börn: Haraldur, f. 1971, dætur: Hafdís og Helena. Brynja, f. 1977, maki: Kristján Þórðarson, dætur: Katla Björt, Hekla Sól, Ingibjörg og Lára Daníela. Garðar, f. 1984, unnusta Sigríður Skagfjörð Sigurðardóttir, sonur: Axel Freyr.
Kristinn ólst upp í Bústaðahverfinu í Reykjavík ásamt systkinum sínum. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann í Vélskóla Íslands og útskrifaðist 1971. Þaðan fór hann í Tækniskóla Íslands og síðan til Álaborgar í Danmörku í framhaldsnám og útskrifaðist þaðan sem rekstrartæknifræðingur. Kristinn var nokkur ár á sjónum t.d. á Hörpu og Vatnajökli. Að námi loknu í Danmörku hóf hann störf hjá Félagi íslenskra iðnrekenda. Hann starfaði einnig í mörg ár í Málningarverksmiðjunni Hörpu. Kristinn stofnaði fiskverkunarfyrirtækið Ísfold í Reykjavík ásamt bróður sínum Sturlu Erlendssyni. Þeir fluttu síðar fyrirtækið til Eyrarbakka.
_ _ _

Það var að áliðnu sumri árið 1996 sem Hestaferðafélagið, sem við Kristinn vorum báðir félagar í, stóð fyrir ferð um norðvesturland. Áætlun um ferðina barst mér í bréfi með góðum fyrirvara, en ég var þá búinn að vera til sjós í millilandasiglingum um nokkur ár og hafði ekki átt þess kost að fara í ferðir félagsins um nokkurra ára bil. Ég sló til og hafði samband við Kristinn Dag Gissurarson, einn af skipuleggjendum ferðarinnar og spurðist fyrir um hvort fullbókað væri, svo var ekki og það varð úr að ég bókaði mig.
Þetta er í raun forsaga þess að kynni okkar Kristins Erlendssonar endurnýjuðust.

Það var stillt og fallegt veður við Langavatn og ferðafélagarnir gengnir náða, er við Kristinn gengum út í nóttina og tókum spjall saman, rifjuðum upp veruna í Vélskóla Íslands og sögðum hvor öðrum hvað á dagana hefði drifið eftir að skólagöngu okkar þar lauk.
Er við nutum næturkyrrðarinnar þarna við vatnið, þá tókum við eftir því að mikil ókyrrð var komin í ferðahrossin vegna mýbitsins sem á þau sótti og þar kom að drjúgur hluti þeirra setti sig á sund út í vatnið til að komast burt frá óværunni. Brugðumst við þannig við að undirritaður hljóp sem mest hann mátti með ópum og óhljóðum til að gera sem hægt væri til að stöðva flótta hrossanna, en Kristinn hraðaði sér og ræsti þau er í skála sváfu til að bregðast við og koma til hjálpar.

Fór svo að einungis lítill hópur hrossa slapp úr girðingunni, en telja má víst að engin hefðu þau verið eftir að morgni hefðum við Kristinn ekki verið á þessu næturrölti. Skemmst er frá því að segja að aldrei bar skugga á vináttu okkar eftir þetta.

Með tímanum tókum við upp þann sið að hringja í hvorn annan ef okkur lá eitthvað á hjarta sem okkur langaði til að ræða um og voru þær margar stundirnar sem við áttum þar sem við spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar og krufðum málin til mergjar.

Nú er sá tími liðinn að ég geti tekið upp símann og rætt við Kristinn um eitt eða annað og borið undir hann hvað honum finnist um þetta eða hitt málefnið, ekki er heldur lengur hægt að skiptast á skoðunum á Fésbók, né senda hvor öðrum ábendingar um áhugavert efni sem við höfum rekist á.

Svona líður tíminn og Kristinn er farinn þá leið sem allir fara á endanum og leitt var að geta ekki fylgt honum síðasta spölinn, en þá var ég fjarri, í öðru landi og gat engu um það breytt.

Kristinn var líflegur maður og hafði vakandi áhuga á flestu því sem í umhverfi hans var. Hann hafði mikinn áhuga á hestum, hestamennsku og þjóðmálum, reyndar öllu sem í umhverfi hans var. Kunni fjöldann allan af vísum og kvæðum og ef svo bar undir, þá fengu ég og aðrir að njóta þeirrar kunnáttu þegar við átti. Margar voru þær eftir bróður hans Sturlu sem er látinn, en þeir höfðu átt og rekið saman fyrirtækið Ísfold á Eyrarbakka og deilt með sér ánægjunni af að ferðast á hestum um landið.

Það er gaman að hafa átt þess kost að kynnast mörgu góðu og skemmtilegu fólki á lífsleiðinni. Kristinn Erlendsson var svo sannarlega einn af þeim sem gott var að kynnast, en jafnframt sárt að sakna. Eftir stendur minningin um manninn, þennan skemmtilega persónuleika, sem af prúðmennsku og notalegheitum auðgaði tilveruna fyrir þá sem áttu þess kost að njóta samvista hans.

Samúðarkveðjur sendi ég aðstandendum hans öllum.

Ingimundur Bergmann.

27. október 2013