Nýju ríkisstjórninni, sem ekkert varanlegt nafn virðist tolla við, hefur gengið afar vel að koma helstu hugðarefnum sínum til framkvæmda.
Lánasjóður námsmanna er orðinn að Lánasjóði Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisútvarpið verður gert að Ríkisútvarpi stjórnmálamanna, aðallega Framsóknar og Sjálfstæðis.
Bláfátækir útgerðar-kvóta-greifar hafa verið skornir úr snörunni og hafa í raun fengið ,,feita tékkann“.
Þá hefur bláfátækt stóreignafólk fengið eðlilega og sjálfsagða fyrirgreiðslu og þarf ekki lengur að basla við að taka þátt í að halda samfélaginu uppi.
Erfiðum og slítandi samningaviðræðum við ESB hefur verið hætt, enda óþolandi að ræða við fólk sem ekki skilur íslensku.
AGS hefur verið gefið langt og mikið nef, enda algjörlega ótækt að hann sé að skipta sér af því hvernig farið er með peningana sem hann lánaði Íslandi, samkvæmt lögmálinu um að ,,glatað er greitt lán“.
Skuldamál heimilanna hafa einnig verið leiðrétt með því að skipt var um skoðun á því hvort þyrfti að hafa áhyggjur af slíkum smámunum, þegar búið er að tryggja, að landið búi við hina einstöku íslensku krónu um ókomna tíð, sem ætíð kemur til bjargar þegar illa ætlar að fara í íslensku efnahagslífi.
Stjórnarandstaðan talar un ,,engar efndir, bara nefndir“ vegna þess að þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hagkerfi virka, líkt og ,,sigldir“ hagfræðingar sem þykjast hafa vit á helst öllu sem snýr að íslensku aðstæðunum sem þeir botna vitanlega ekkert í og hafa enga yfirsýn yfir.

Hafi það ekki legið fyrir áður, þá er það ljóst nú hvernig ríkisstjórnin ætlar að snúa sig út úr loforðavandanum.

Það kom vel fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að það ætlar að vefjast verulega fyrir stjórninni að hrista fram úr erminni hulduféð og vegna þessa vanda þarf að finna ráð; takið eftir ekki lausn.

Nú skal unnið að því að koma hlutunum svo fyrir að hægt verði að klína væntanlegum loforðasvikum á stjórnarandstöðuna. Bæði á hún að hafa skilað slæmu búi, sem er að því leitinu til satt, að enginn hélt öðru fram en að ríkissjóður stæði enn tæpt og væri með halla, en að því leitinu ósatt, að engar hagtölur hafa verið tíndar til sem sýna fram á annað en staða hans sé eins og gert var ráð fyrir og öllum mátti vera kunnugt.

Hitt er að loforðabýsnin sem rutt var út í kosningabaráttunni ætlar að reynast óframkvæmanleg eins og flestir vissu en vildu ekki vita, því skal nú búið svo um hnúta að það verði að forminu til þingið sem álykti um að staðið skuli við loforðasúpuna. Vandi stjórnarandstöðunnar er þá sá að ef hún leggst gegn slíkri tillögu, þá er hún í hlutverki geðstirða jólasveinsins sem ekkert setur í gluggann, en ef hún tekur undir, þá er hún orðin samábyrg fyrir óábyrgum gjörðum í meðferð fjármuna ríkisins.

Hafi einhvern tíma verið ástæða til að tala um smjörklípu, þá er nú ástæða til að tala um smjörklípu skreytta með þeyttum rjóma og sultuslettu.