Nýju ríkisstjórninni, sem ekkert varanlegt nafn virðist tolla við, hefur gengið afar vel að koma helstu hugðarefnum sínum til framkvæmda.
Lánasjóður námsmanna er orðinn að Lánasjóði Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisútvarpið verður gert að Ríkisútvarpi stjórnmálamanna, aðallega Framsóknar og Sjálfstæðis.
Bláfátækir útgerðar-kvóta-greifar hafa verið skornir úr snörunni og hafa í raun fengið ,,feita tékkann“.
Þá hefur bláfátækt stóreignafólk fengið eðlilega og sjálfsagða fyrirgreiðslu og þarf ekki lengur að basla við að taka þátt í að halda samfélaginu uppi.
Erfiðum og slítandi samningaviðræðum við ESB hefur verið hætt, enda óþolandi að ræða við fólk sem ekki skilur íslensku.
AGS hefur verið gefið langt og mikið nef, enda algjörlega ótækt að hann sé að skipta sér af því hvernig farið er með peningana sem hann lánaði Íslandi, samkvæmt lögmálinu um að ,,glatað er greitt lán“.
Skuldamál heimilanna hafa einnig verið leiðrétt með því að skipt var um skoðun á því hvort þyrfti að hafa áhyggjur af slíkum smámunum, þegar búið er að tryggja, að landið búi við hina einstöku íslensku krónu um ókomna tíð, sem ætíð kemur til bjargar þegar illa ætlar að fara í íslensku efnahagslífi.
Stjórnarandstaðan talar un ,,engar efndir, bara nefndir“ vegna þess að þeim er fyrirmunað að skilja hvernig hagkerfi virka, líkt og ,,sigldir“ hagfræðingar sem þykjast hafa vit á helst öllu sem snýr að íslensku aðstæðunum sem þeir botna vitanlega ekkert í og hafa enga yfirsýn yfir.Lokað er fyrir ummæli.