Hafi það ekki legið fyrir áður, þá er það ljóst nú hvernig ríkisstjórnin ætlar að snúa sig út úr loforðavandanum.

Það kom vel fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að það ætlar að vefjast verulega fyrir stjórninni að hrista fram úr erminni hulduféð og vegna þessa vanda þarf að finna ráð; takið eftir ekki lausn.

Nú skal unnið að því að koma hlutunum svo fyrir að hægt verði að klína væntanlegum loforðasvikum á stjórnarandstöðuna. Bæði á hún að hafa skilað slæmu búi, sem er að því leitinu til satt, að enginn hélt öðru fram en að ríkissjóður stæði enn tæpt og væri með halla, en að því leitinu ósatt, að engar hagtölur hafa verið tíndar til sem sýna fram á annað en staða hans sé eins og gert var ráð fyrir og öllum mátti vera kunnugt.

Hitt er að loforðabýsnin sem rutt var út í kosningabaráttunni ætlar að reynast óframkvæmanleg eins og flestir vissu en vildu ekki vita, því skal nú búið svo um hnúta að það verði að forminu til þingið sem álykti um að staðið skuli við loforðasúpuna. Vandi stjórnarandstöðunnar er þá sá að ef hún leggst gegn slíkri tillögu, þá er hún í hlutverki geðstirða jólasveinsins sem ekkert setur í gluggann, en ef hún tekur undir, þá er hún orðin samábyrg fyrir óábyrgum gjörðum í meðferð fjármuna ríkisins.

Hafi einhvern tíma verið ástæða til að tala um smjörklípu, þá er nú ástæða til að tala um smjörklípu skreytta með þeyttum rjóma og sultuslettu.Lokað er fyrir ummæli.