Nú líður að kosningum, frambjóðendur eru óðum að koma fram, kynna sig og hvað þeir standa fyrir og þá finnst mörgum eflaust spennandi að fylgjast með því hverjir núverandi þingmanna taka þá ákvörðun að draga sig í hlé frá þingstörfum. Sumra verður saknað en brottför annarra fagnað eins og gengur. Þar sýnist sitt hverjum.

Undirritaður hefur hugleitt dálítið hvað það sé helst sem móti afstöðu hans til þess hvort hann geti tekið eindregna afstöðu með eða á móti því fólki sem telur sig vera til þess bært, að taka sæti á Alþingi. Best af öllu telur hann vera að viðkomandi komi fram af einurð og hreinskilni, sé málefnalegur, sé ekki markaður af hagsmunagæslu og dragi ekki fjöður yfir það sem segja þarf.

Þess vegna er t.d. ekki hægt að lýsa yfir stuðningi við frambjóðendur í kosningum til Alþingis sem hafa lýst því yfir að þeir vilji hætta samningum við ESB og treysta sér ekki til að ganga til þess verks að ljúka stjórnarskrármálinu á þann veg að þjóðin verði eftir það með sæmilega stjórnarskrá. Er s.s. að því eð virðist, alveg sama um framtíð komandi kynslóða og vilja hjakka í sama farinu og verið hefur til þessa.

Það er einnig ómögulegt að styðja til þingsetu fólk sem unnið hefur að lausn Icesave- málsins af óheilindum og þekkist af því, að nú er það kvíðafullt vegna dómsmálanna sem það hefur kallað yfir þjóð sína.

Einnig getur verið örðugt að finna ástæðu til að styðja til þingsetu fólk sem haldið hefur því fram að ekki eigi að virkja Þjórsá, svo dæmi sé tekið og stokkið hefur upp á nef sér vegna flutnings á ógæfufólki frá Sogni að Kleppi; tekið þar með ímyndaða atvinnuhagsmuni fram yfir hagsmuni þeirra sem minna mega sín.

Þá er líka afar vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að fylgja þeim að málum sem tortímt hafa Lánasjóði landbúnaðarins, undir því yfirskini að bæta ætti stöðu Lífeyrissjóðs bænda, en ráðstöfuðu síðan fénu til annarra hluta eins og t.a.m. reiðhalla hist og her út um land.

Stjórnmálamenn sem hafa það á samviskunni að hafa barist fyrir byggingu Landeyjahafnar, Héðinsfjarðarganga og tveir plús tveir vegi milli Reykjavíkur og Selfoss hafa tæpast sýnt að þeir séu hæfir til að fara með fjármuni þjóðarinnar.

Það er heldur ekki verjandi að binda trúss sitt við fólk sem býður sig til forystu í samfélaginu og hefur helst af öllu talið það til nauðsynja að skuldbinda ríkissjóð vegna Vaðlaheiðarholunnar, sem þáverandi fjármálaráðherra hafði þó dug til að setja þau skilyrði, að málið stendur um þessar  mundir blessunarlega fast. Vonandi að svo verði, a.m.k. þangað til að þarfari verkefni finnast ekki.

Glórulitlar hugmyndir um uppbyggingu á spítalaferlíki við flugbrautarenda í Reykjavík eru heldur ekki traustvekjandi, koma til með að kosta óhemju fjármuni og hefur ekki verið sýnt fram á, að séu heppileg lausn á húsnæðisvanda Landspítalans og ef lausnin felst í rými, þá er staðsetningin í öllu falli augljóslega röng.

Til eru þeir ,,stjórnmálamenn“ sem halda því fram að hægt sé að gera svo öllum líki, láta eins og ríkissjóður sé yfirfullur af fé, enda hafi bara orðið eitthvað sem þeir kalla ,,svokallað hrun“.  Þeim er vitanlega ekki treystandi, þegar við vitum öll að raunin er allt önnur.

Hins vegar eru sem betur fer til áhugafullir stjórnmálamenn sem segja hlutina hreint út og hafa kjark og þor til að sleppa skruminu, falsinu og fláræðinu og taka þá áhættu sem í því felst að segja sannleikann. Vilja stefna fram á veg en ekki standa í stað. Segja sem satt er að við erum með æði margt niður um okkur sem þjóð og verðum að horfast í augu við þá staðreynd.

Slíkt fólk er hægt að styðja til forystu til að vinna að því verkefni að koma þjóðinni út úr erfiðleikunum og horfa til framtíðar vitandi að ef rétt er á málum haldið þá eru tækifærin til staðar; fleira til en fiskur, feitt kjöt og ferðafólk.

Við eigum vissulega góða framtíðarmöguleika ef tækifærin eru nýtt, í stað þess að standa í tilgangslausu þrefi um keisarans skegg. Hættum að telja okkur trú um, að, að okkur sé sótt af einhverjum utanaðkomandi vondum útlendingum, þeim hinum sömu og menn vilja samt allt til vinna að fá sem ferðamenn til landsins, í þeirri von að frá þeim hrjóti molar í okkar botnlausu hít.

Það hefur verið plagsiður stjórnmálamanna okkar að einblína, í hvert sinn, á einstök afmörkuð markmið: Síld, sauðfjárrækt, orkufrekan iðnað, ref, mink, fiskeldi, fjárplógsstarfsemi og nú í seinni tíð ferðamennsku. Allt ágæt verkefni (fyrir utan fjárglæfrastarfsemina), en afleitt ef ekki er hugað að nema einu þeirra hverju sinni.

Komum okkur upp úr hugsunarhætti gullgrafarans sem telur sér trú um að hann geti orðið ríkur, fljótt og örugglega og strax og þá mun okkur vel vegna.



Lokað er fyrir ummæli.