Það er dálítið merkilegt að það skuli þurfa einkaframtak úti í bæ til að taka saman skýrt og greinargott yfirlit yfir gjörningana varðandi Vafning, Glitni, Milestone og Sjóvá.

 

Í grein Hallgríms Helgasonar, sem birtist í DV 27. janúar, kemur fram að sú flétta var mestan part sett af stað til þess að forða því að Glitnir yrði opinberlega gjaldrota í byrjun árs 2008. Þess vegna hlýtur að mega draga þá ályktun að allir, eða a.m.k. flestir, sem að þessu máli komu, hafi vitað um stöðu bankans og afar erfitt er að hugsa sér að Bjarni Benediktsson hafi ekki vitað um stöðuna, eins virkur og hann var á sviðinu, bæði sem frammámaður í stjórnmálum og ekki síst í viðskiptalífinu.

 

Samkvæmt því sem lesa má í samantekt Hallgríms vissi Bjarni Benediktsson um stöðu Glitnis og að því gefnu, hlýtur Geir Haarde að hafa vitað það líka og þar með Davíð Oddson og aðrir bankastjórar Seðlabankans.

 

Hafi þetta verið þannig, að öll helsta forysta Sjálfstæðisflokksins hafi vitað hvert stefndi, en ekkert gert í stöðunni annað en  dansa Hrunadansinn, þá eru það svik af slíkri stærðargráðu að fáheyrt er. Svik við þá sjálfa, flokkssystkini sín, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinguna (sem þeir voru í samstarfi með í ríkisstjórn) og síðast en ekki síst, það samfélag sem þeir töldu sig vera að vinna fyrir.

 

Vitanlega er annar möguleiki líka: Það er með villtum og trylltum hugsunarhætti hægt að láta sér detta í hug að mennirnir hafi ekkert vitað og ekkert skilið; hafi bara í einhverskonar barnslegri einfeldni trúað á að allt sem þeir voru að gera væri rétt og gott: því ef tíðin væri ekki góð nú þegar, þá kæmi a.m.k. betri tíð innan skamms tíma.

 

Finnst einhverjum það líklegt að umræddir aðilar séu slíkir einfeldningar að þeir hafi ekkert skilið, skynjað og vitað? Eigum við sem byggjum þetta land, að trúa því að til forystu í Sjálfstæðisflokknum hafist nær eingöngu valist helberir kjánar?

 

Vissulega er það viðurkennt, lítið rætt og umborið að komið hefur fyrir að sloppið hafa inn á Alþingi fulltrúar á vegum flokksins sem almenningur hefur litið á sem kynlega kvisti, svona einhverskonar skraut í þá mannlífsflóru sem flokkurinn hefur boðið fram til lagagerðar fyrir þjóðina, en það er af og frá, að til greina komi að samþykkja það, að allir helstu forystumenn flokksins séu af því tagi.

 

Það er einfaldlega óhugsandi að umræða um þessi mál verði á þeim nótum að um óvita sé að ræða. Þvert á móti er hér verið að fjalla um menn með fullu viti samkvæmt öllum venjulegum skilningi, menn sem hljóta að teljast ábyrgir gerða sinna og í fullum færum að svara fyrir sig og taka afleiðingum af því sem gert hefur verið.

 

Ef til vill væri rétt að settur væri saman rannssóknarhópur til að fara ofan í saumana á starfsemi Sjálfstæðisflokksins undanfarna áratugi, þannig að fyrir liggi hvað fór fram og hvenær og hverjir voru þar að verki. Sumt er vitað um s.s. símhleranir hjá pólitískum andstæðingum flokksins og skjalabrennslur þeim tengdum, fyrir nú utan hermang og almenna hagsmunagæslu ákveðinna þjóðfélagshópa langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

 

Vel getur verið að ástæða sé einnig til að fara ofan í saumana á starfsemi annarra stjórnmálaflokka. Vafalaust væri það bara ágætt og kæmi þá væntanlega fram hvernig starfi þeirra hefur verið háttað. Þeir sem telja sig saklausa af öllu misjöfnu hafa tæpast neitt við slíka skoðun að athuga.