Að bæta gráu ofaná svart

19. janúar 2012

Mikill hvellur er orðinn vegna tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi þess efnis að ákæran á Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, verði felld niður. Óhætt mun að gera ráð fyrir að tillagan sé sett fram af a.m.k. tveimur ástæðum, annars vegar einfaldlega vegna þess, að almennt finnur fólk til með manni sem gott orð fer af, talinn er hvers manns hugljúfi og ekki búinn neinu því innræti sem réttlæti það að ætla honum illt. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að ekki þyki flutningsmanni verra að geta komið af stað úlfúð í hópi þeirra sem fyrst og fremst stóðu að því að virkja dómstól sem sofið hafði notalegum Þyrnirósarsvefni í um öld. Ekki síst þar sem gera má ráð fyrir að sumir séu farnir að sjá eftir að hafa átt þátt í að blása lífi í fyrirbrigðið.

 

Kosningin á Alþingi um málið var um margt athyglisverð. Hún var sannarlega flokkspólitísk á þann veg að vinstri grænir greiddu allir atkvæði sem einn maður, vildu öllum refsa og töldu sig vera í heilagri krossferð til að hefna harma fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Á hinum kantinum voru sjálfstæðismenn sem allir sem einn (einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og tíðkast í svona samtökum) greiddu atkvæði á þann veg að engum skyldi refsað, það væri hlutverk kjósenda og sama sinnis voru langflestir Samfylkingarþingmenn, en ekki allir.

 

Að ýmsu leyti virðingarvert viðhorf, því það er vitanlega þannig, að í lýðræðisríki þá velur almenningur fólk til að fara með stjórn landsins og að endingu er það sá hinn sami almenningur, sem axlar byrðarnar sem til falla vegna mistaka, hvort sem til verða vegna rangra ákvarðana, eða hvers annars sem hinum kosnu fulltrúum tekst að kalla yfir þjóð sína.  

 

Atkvæðagreiðslan á þingi fór sem sagt þannig að það var fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra til margra ára, sem einn var ákærður og málið fór þar með fyrir Landsdóm. Vinstri grænum til blendinnar ánægju, þar sem þeir vildu alla kæra, en flest öllum öðrum til lítillar kæti. Frammi fyrir þessari niðurstöðu var staðið og ekki annað að gera, úr því sem komið var, en að málið færi sína leið. Undu nú flestir ýmist glaðir eða súrir við sitt, vitandi það að lífið er einfaldlega þannig að ekki fer allt eins og hver og einn helst vildi.

 

Á dögunum var haldin heilmikil vakningarsamkoma ,,svokallaðs” Sjálfstæðisflokks þar sem menn stöppuðu stálinu hver í annan, ýmist hlógu eða grétu eftir atvikum, lýstu yfir stuðningi hver við annan, börðust, féllu í faðma og grétu fögrum tárum  yfir óförum og kosningatapi. Allt svona eins og gera má ráð fyrir á samkomu þar sem ekki vefst fyrir fólki að vera vinir þó þeir séu það kannski ekki í raun.

 

Gera má ráð fyrir að á þessum stað hafi fæðst sú einkennilega hugmynd að flytja tillögu á Alþingi sem fæli það í sér, að kæran á fyrrverandi forsætisráðherra yrði felld niður, dregin til baka, svona líkt og þegar börn að leik lýsa yfir að allt hafi þetta bara verið í plati.

 

Væntanlega er enginn sem heldur því fram að Geir H. Haarde sé hinn sanni sökudólgur varðandi hið ,,svokallaða” hrun sem hér varð á árunum 2006 til 2008. Vitanlega ekki og ef menn vildu endilega gera sér það til dundurs að vekja upp Landsdóm, þá hefði væntanlega verið best, að sem flestir meintu sökudólgarnir nytu þess vafasama heiðurs að fara fyrir hann. Þar var hins vegar einn hængur á: Sök helstu gerenda var nefnilega fyrnd, þeir horfnir til annarra starfa og ekkert hægt að gera í því, að lögum, annað en súpa það seiði sem bruggað hafði verið. Þetta verða allir að gera hvort sem þeir höfðu greitt snillingunum atkvæði sitt eða ekki. Þannig er lýðræðið og einræðið er eins og allir vita síst betra.

 

Flokksmenn lögfræðingaflokksins, hafa örugglega ekki gert ráð fyrir að siðlegt væri að taka fram fyrir hendur dómstóls sem væri í miðri umfjöllun máls og vafasamt að þeir hafi gert ráð fyrir né haft hugmyndaflug til að sjá, að með tillögunni myndu þeir draga fram í dagsljósið vingulshátt og dómgreindarleysi dómsmálaráðherrans. Það gerðu þeir hins vegar og að öllu skoðuðu er kannski bara gott að þeim hafi tekist það svona í leiðinni.

 

Við erum nokkur sem höfum verið þeirrar skoðunar að ráðherrann væri ekki eins mikill bógur og hann hefur viljað vera láta, munum þegar hann lagði niður skottið og flúði úr Heilbrigðisráðuneytinu er hann sá frammá hinn óhjákvæmilega niðurskurð sem fram undan var vegna óráðsíu undanfarinna ára.

 

Davíð Oddson var á sínum tíma gagnrýndur fyrir að tala til dómstóla, löglærður maðurinn, en nú skal gert betur: Mál sem komið er fyrir dómstól og er þar í vinnslu, skal af honum tekið og það er Ögmundur Jónasson ráðherra dómsmála sem einna harðast gengur fram í þeirri kröfu, vill bæta gráu ofan á svart og óttast afleiðingar gjörða sinna.

 

Það gæti nefnilega svo farið að Geir yrði bara sýknaður, en í leiðinni gæti líka ýmislegt það verið dregið fram í dagsljósið sem í myrkri hefur dvalið. Ögmundur óttast líklega hið fyrrnefnda, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hið síðarnefnda.

Hagfræði

4. janúar 2012

Fyrir hálfri öld var mér komið fyrir í sveit hjá afasystur minni Helgu Hrefnu Bjarnadóttur og manni hennar Hafsteini Markússyni á Vogatungu í Leirársveit. Þar var gott að vera og margar góðar stundirnar átti ég með Hafsteini er hann var að sinna störfum sínum. Þeim búnaðist vel, ráku rausnarbú og kunnu þá hagfræði sem reynst hafði vel um aldir: sinna vel því sem unnið var að og reyna, svo mikið sem unnt var, að afla lítið eitt meira en því sem eytt var.

Oft var gestkvæmt á bænum, enda í þjóðleið og búið rausnarbúi sem gott þótti að sækja heim. Mér er það minnistætt þegar Hafsteinn tók á móti ungmenni sem komið var í heimsókn til gamalla húsbænda sinna, hafði verið ,,vinnumaður” hjá þeim hjónum og var nú kominn til að rækta gömul kynni.

 

Tók Hafsteinn vel á móti honum eins og hann var vanur, spurði almæltra tíðinda og meðal annars þess hvað gesturinn ætlaði nú að fara að taka sér fyrir hendur. Sá kvaðst ætla í háskólanám. Hafsteini leist ekki illa á það, en sagði eitthvað á þessa leið og kvað nokkuð fast að orði: Það er nú gott góði minn, en bara að þú farir ekki að nema hagfræði.

 

Hinn reyndi bóndi hafði nefnilega tekið eftir því að fátt eitt gekk eftir af því sem svokallaðir hagfræðingar lögðu til; voru svona ámóta traustir í sínum ráðleggingum og veðurfræðingar þess tíma voru, að mati margra þeirra sem áttu allt sitt undir veðri og vindum.

 

Þetta var um 1960 og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, fjölmargt breyst, veðurspárnar orðnar til fimm, jafnvel sex daga, ámóta áreiðanlegar og dagsspáin var þá. Veðurfræðingarnir birtast nú daglega, með hjálp sjónvarpsins, inn í stofu hjá landsmönnum og útskýra gang lægða og hæða, allt á skiljanlegu máli og á svo ljósan hátt að flestir skilja. Veðurfræðin hefur þróast fram á veg, en hefur hagfræðin gert það? Er hún orðin skiljanlegri fræðigrein en hún var fyrir hálfri öld?

 

Útskýrt var á myndrænan hátt í Sjónvarpi allra landsmanna, að núverandi gjaldeyrisforði þjóðarinnar væri orðinn afar stór, hefði víst aldrei verið stærri, en að hann væri nánast allur tekinn að láni. Því mætti ekki eyða af honum og þó hann væri á vöxtum, þá væri það svo að greiða þyrfti mun meiri vexti til þeirra sem lánuðu gjaldeyrinn, heldur en það sem halaðist inn með því að lána hann öðrum.

 

Þetta er væntanlega hagfræði sem flestir skilja. Það felst ekkert ríkidæmi í því að taka dýrt lán í banka til þess eins að leggja það inn á reikning í öðrum eða sama banka á lægri vöxtum. Til hvers er þá verið að þessu?

 

Jú, það er gert til, að reyna að telja fólki trú um að ísl. krónan sé einhvers virði, þjóðin sé ekki á hausnum og að í framtíðinni verði hægt að fremja þann verknað, að aflétta gjaldeyrishöftum og nota krónuna eins og um alvöru mynt sé að ræða.

 

Halldór Ásgrímsson lét sig dreyma um Ísland sem fjármálamiðstöð, moldríkrar eyþjóðar í norður Atlantshafi, sem lifað gæti í vellystingum  á kostnað annarra þjóða, vegna þess að hún væri með innbyggða snilligáfu, sem nær engum öðrum væri gefin. Bessastaðabóndinn trúði þessu líka og trúir enn.

 

Spurningin er þá hvort við, sem erum bara nokkurn veginn ,,venjulegir” íbúar eylandsins, getum með einhverju móti trúað þessu líka og hvort við getum einnig talið okkur trú um að rétt sé gefið.

 

Hvort er líklegra að við, sem byggjum Ísland, séum bara nokkurn vegin eðlilegt fólk eða hitt, að við séum flestum öllum öðrum fremri?