Að bæta gráu ofaná svart

19. janúar 2012

Mikill hvellur er orðinn vegna tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi þess efnis að ákæran á Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, verði felld niður. Óhætt mun að gera ráð fyrir að tillagan sé sett fram af a.m.k. tveimur ástæðum, annars vegar einfaldlega vegna þess, að almennt finnur fólk til með manni sem gott orð fer af, talinn er hvers manns hugljúfi og ekki búinn neinu því innræti sem réttlæti það að ætla honum illt. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að ekki þyki flutningsmanni verra að geta komið af stað úlfúð í hópi þeirra sem fyrst og fremst stóðu að því að virkja dómstól sem sofið hafði notalegum Þyrnirósarsvefni í um öld. Ekki síst þar sem gera má ráð fyrir að sumir séu farnir að sjá eftir að hafa átt þátt í að blása lífi í fyrirbrigðið.

 

Kosningin á Alþingi um málið var um margt athyglisverð. Hún var sannarlega flokkspólitísk á þann veg að vinstri grænir greiddu allir atkvæði sem einn maður, vildu öllum refsa og töldu sig vera í heilagri krossferð til að hefna harma fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Á hinum kantinum voru sjálfstæðismenn sem allir sem einn (einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og tíðkast í svona samtökum) greiddu atkvæði á þann veg að engum skyldi refsað, það væri hlutverk kjósenda og sama sinnis voru langflestir Samfylkingarþingmenn, en ekki allir.

 

Að ýmsu leyti virðingarvert viðhorf, því það er vitanlega þannig, að í lýðræðisríki þá velur almenningur fólk til að fara með stjórn landsins og að endingu er það sá hinn sami almenningur, sem axlar byrðarnar sem til falla vegna mistaka, hvort sem til verða vegna rangra ákvarðana, eða hvers annars sem hinum kosnu fulltrúum tekst að kalla yfir þjóð sína.  

 

Atkvæðagreiðslan á þingi fór sem sagt þannig að það var fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra til margra ára, sem einn var ákærður og málið fór þar með fyrir Landsdóm. Vinstri grænum til blendinnar ánægju, þar sem þeir vildu alla kæra, en flest öllum öðrum til lítillar kæti. Frammi fyrir þessari niðurstöðu var staðið og ekki annað að gera, úr því sem komið var, en að málið færi sína leið. Undu nú flestir ýmist glaðir eða súrir við sitt, vitandi það að lífið er einfaldlega þannig að ekki fer allt eins og hver og einn helst vildi.

 

Á dögunum var haldin heilmikil vakningarsamkoma ,,svokallaðs” Sjálfstæðisflokks þar sem menn stöppuðu stálinu hver í annan, ýmist hlógu eða grétu eftir atvikum, lýstu yfir stuðningi hver við annan, börðust, féllu í faðma og grétu fögrum tárum  yfir óförum og kosningatapi. Allt svona eins og gera má ráð fyrir á samkomu þar sem ekki vefst fyrir fólki að vera vinir þó þeir séu það kannski ekki í raun.

 

Gera má ráð fyrir að á þessum stað hafi fæðst sú einkennilega hugmynd að flytja tillögu á Alþingi sem fæli það í sér, að kæran á fyrrverandi forsætisráðherra yrði felld niður, dregin til baka, svona líkt og þegar börn að leik lýsa yfir að allt hafi þetta bara verið í plati.

 

Væntanlega er enginn sem heldur því fram að Geir H. Haarde sé hinn sanni sökudólgur varðandi hið ,,svokallaða” hrun sem hér varð á árunum 2006 til 2008. Vitanlega ekki og ef menn vildu endilega gera sér það til dundurs að vekja upp Landsdóm, þá hefði væntanlega verið best, að sem flestir meintu sökudólgarnir nytu þess vafasama heiðurs að fara fyrir hann. Þar var hins vegar einn hængur á: Sök helstu gerenda var nefnilega fyrnd, þeir horfnir til annarra starfa og ekkert hægt að gera í því, að lögum, annað en súpa það seiði sem bruggað hafði verið. Þetta verða allir að gera hvort sem þeir höfðu greitt snillingunum atkvæði sitt eða ekki. Þannig er lýðræðið og einræðið er eins og allir vita síst betra.

 

Flokksmenn lögfræðingaflokksins, hafa örugglega ekki gert ráð fyrir að siðlegt væri að taka fram fyrir hendur dómstóls sem væri í miðri umfjöllun máls og vafasamt að þeir hafi gert ráð fyrir né haft hugmyndaflug til að sjá, að með tillögunni myndu þeir draga fram í dagsljósið vingulshátt og dómgreindarleysi dómsmálaráðherrans. Það gerðu þeir hins vegar og að öllu skoðuðu er kannski bara gott að þeim hafi tekist það svona í leiðinni.

 

Við erum nokkur sem höfum verið þeirrar skoðunar að ráðherrann væri ekki eins mikill bógur og hann hefur viljað vera láta, munum þegar hann lagði niður skottið og flúði úr Heilbrigðisráðuneytinu er hann sá frammá hinn óhjákvæmilega niðurskurð sem fram undan var vegna óráðsíu undanfarinna ára.

 

Davíð Oddson var á sínum tíma gagnrýndur fyrir að tala til dómstóla, löglærður maðurinn, en nú skal gert betur: Mál sem komið er fyrir dómstól og er þar í vinnslu, skal af honum tekið og það er Ögmundur Jónasson ráðherra dómsmála sem einna harðast gengur fram í þeirri kröfu, vill bæta gráu ofan á svart og óttast afleiðingar gjörða sinna.

 

Það gæti nefnilega svo farið að Geir yrði bara sýknaður, en í leiðinni gæti líka ýmislegt það verið dregið fram í dagsljósið sem í myrkri hefur dvalið. Ögmundur óttast líklega hið fyrrnefnda, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hið síðarnefnda.Lokað er fyrir ummæli.