Það sem hann einn sá

22. nóvember 2011

Þau okkar sem lögðu það á sig að vaka eftir seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöld þurfa ekki að sjá eftir því. Þar var nefnilega dregið fram til birtingar viðtal, sem var þeim sem á horfðu, þvílík opinberun að leitun er á öðru eins.

Viðtalið var við dýrasta þingmann Sjálfstæðisflokksins, mann sem ætíð rís talsvert upp yfir umhverfi sitt og leggur eitthvað það til málanna sem eftir er tekið. Vonandi er að Sjónvarp allra landsmanna sjái sér fært að sýna manninn í viðtölum, sem og á annan veg, sem allra oftast. Því þegar hann tekur til máls, þá hefur hann ætíð eitthvað verulega mikið fram að færa og þó ekki hefji hann upp raust sína, þá er vafalaust flestum  ljóst að það er eingöngu vegna þess að hann er í augnablikinu upptekinn við að hugsa upp eitthvert snjallræði, þjóð sinni til bjargar og vegsemdar.

Í viðtali gærdagsins var þingmaðurinn spurður út í mál sem hvílt hefur talsvert þungt á almenningi og þá ekki síst þeim sem berjast í bönkum og baslast við að standa skil á lánum sem þeir hafa tekið til að geta haft þak yfir höfuð sér.

Þau sem farin voru að fyllast vonleysi, örvæntingu eða depurð, yfir að hið afburðagóða kerfi sem fundið var upp til tryggingar lánunum væri þeirrar gerðar að nær útilokað væri að greiða þau til fulls, fengu vegna hinnar ljómandi góðu, upplýsandi og greinargóðu orðræðu þingmannsins von. Svo ekki sé nú sagt fullvissu um, að ef hann og hinir frelsararnir í flokknum hans kæmust til valda, þá yrði hinu hroðalega skuldafargi af þeim létt.

Auðvitað. Hvernig stendur á því að engum hafði dottið þetta í hug fyrr? Vitanlega eru þeir bestir og færastir um að töfra til baka verðtryggingarkerfið og láta lánin gufa upp, þeir hinir sömu sem á sínum tíma fundu hið margrómaða kerfi upp. Fyrir nú utan það, að flokksbræður og systur hins mikilhæfa þingmanns, hafa af því langa reynslu að láta lán hverfa. Fram til þessa hafa það að vísu verið lán þeirra sem átt hafa mikið undir sér sem horfið hafa. Nú á hins vegar að nýta þá reynslu sem hann og félagar hans hafa náð sér í, allar götur frá því að stjórnmálaflokkurinn sem hann kennir sig við var stofnaður, í útþurrkun lána og ríkisvæðingu skulda fyrirmenna, svokölluðum almenningi til bjargar og hagsbóta.

Að hinni Vinstri- grænu- jafnaðarstjórn sem við völd situr skuli ekki hafa dottið snjallræðið í hug, er náttúrulega einungis til merkis um hve ófrjó hin vinstri sinnaða hugsun er. Þarna eru þau búin að rembast eins og rjúpan við staurinn, við að gera eitt og annað til lausnar á vandanum, en hefur ekki dottið í hug að leita ráða hjá þeim sem á sínum tíma bjuggu vandann til. Hvílíkt og annað eins! Er þessu fólki alls varnað? Vitanlega kann enginn betur að stöðva farartækið en sá sem hefur komið því af stað. Liggur það ekki í augum uppi þegar málið er skoðað, þó að vísu megi finna dæmi þess, að t.d. börn hafi fyrir slysni komið einhverju af stað fyrir hreinan barnaskap og ekki kunnað að stöðva það aftur. Það er náttúrulega allt annað mál og á augljóslega ekki við í þessu sambandi.

Þökk sé því Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir að hafa loksins rofið þögnina og svipt hulunni af formúlunni sem nota á í núverandi ástandi: Nefnilega fella bara einfaldlega niður óbærilegar skuldir, en leyfa þeim bærilegri að halda sér. Snjallt og augljóst, frábært og dýrðlegt; í einfaldleika sínum allt að því himneskt og alls ekki útilokað að þingmaðurinn hafi fengið vitrun sína á biblíulegum stað, svo snjöll er hún í einfaldleika sínum.

Til að alls réttlætis sé gætt, er rétt að taka það fram svo enginn misskilningur eigi sér stað, að hinn sjónum-hryggi þingmaður, var ekki alveg með það á tæru hvernig gjörningurinn yrði framinn þegar þar að kæmi. Hins vegar var auðskilið öllum, sem skilja vildu, að það væri bara minni háttar útfærsluatriði sem auðleyst yrði þegar á reyndi. Ekki yrði farið yfir lækinn til að sækja vatnið. Heldur yrði lækurinn einfaldlega þurrkaður upp.

Gott er að eiga góða að.

Nokkrir dagar án Davíðs

13. nóvember 2011

Í kynningu á Bylgjunni á þættinum ,,Sprengisandi” kom fram að rætt yrði við frambjóðendur til formanns hjá Sjálfstæðisflokknum og að þættinum lyki síðan með viðtali við seðlabankastjóra.

Sprengisandur byrjaði á viðtali við Bjarna Benediktsson og hafi hann kæra þökk fyrir, að eftir ótrúlega stutta hlustun tókst honum, vafningalaust, að koma undirrituðum inn í draumalandið. Náði þó að hlusta á byrjunina á viðtalinu og augljóslega hafði hann ekkert nýtt fram að færa þann tíma sem ég náði að hlusta.

Komið var að Hönnu Birnu þegar ritari var kominn til meðvitundar aftur. Byrjaði hún frekar rólega (á sinn mælikvarða), en ekki stóðu þau rólegheit lengi, því áður en varði var hún búin að setja (segulbandið?) á hraða sem augljóslega var talsvert yfir því sem upptakan hafði gert ráð fyrir og að lokum hljómaði hún eins og síbylja. Minnti flóðið á foss sem tekinn hefur verið upp á myndband og er síðan spilaður hratt, eða þá kyrramynd af fossi sem tekin hefur verið á það löngum tíma að vatnsbunurnar renna saman í eitt og mynda samfellt, óslitið flóð. Er það oft fallegt á mynd, en þegar um er að ræða samfellda bunu orða, sem vel að merkja, merkja ekki neitt, en eiga vitanlega að merkja eitthvað, þá kemur þetta ekki vel út. Í orðabununni náði ég þó að greina að frambjóðandinn sagði, í umræðu um Evrópusambandið að það væri eins og ,,brennandi hús” og að í Grikklandi kenndu allir evrunni um hvernig komið væri fyrir grískri þjóð.

Hér er komið að því að maður verður að falla fram og fagna því að hafa náð að greina, þó ekki væri nema eina setningu í bunulæk Hönnu Birnu. Gott hefði verið, ef stjórnandi þáttarins hefði haft rænu á að spyrja, hinn hraðmælta frambjóðanda, af þessu tilefni um hvernig hún vildi þá lýsa ástandinu á Íslandi í samanburði við hið ,,brennandi hús”, sem hún telur Evrópu vera vegna efnahagsástandsins sem þar ríkir. Er það kannski eitthvert misminni, eða martraðarkenndur draumur, að flokki hennar hafi tekist að koma efnahag Íslands í kaldakol og það svo rækilega að landið er búið að vera á framfæri alþjóðasamfélagsins í bráðum þrjú ár. Fyrir nú utan þá skráveifu sem hagsnillingum Sjálfstæðisflokksins tókst að velta yfir á útlendinga í afskrifuðum lánum, sem taldar eru nema a.m.k. 7 til 8 þúsund milljörðum króna.

Varðandi fullyrðingu frambjóðandans um Grikkland, er það að segja að hún er í besta falli ,,Sigmundsk”, því vitanlega er það ekki svo að ,,allir” grikkir kenni evrunni og ESB um hvernig komið er fyrir þjóð sinni. Flestir gera þeir sér vitanlega grein fyrir því að það voru ábyrgðarlaus stjórnvöld Grikklands sem gerði þjóðinni þennan grikk. Að kenna ESB um hvernig fór, er ámóta vitlaust og að kenna slökkviliðinu um eldinn sem það berst við að slökkva. Hugsanlega hefur Hanna Birna ekki mikinn áhuga á að beina umræðunni í þennan farveg, enda voru það íslensk stjórnvöld helmingaskiptaflokkanna sem komu Íslandi þangað sem það er nú.

Þættinum lauk Sigurjón síðan með því að fá til viðtals seðlabankastjórann okkar og var það frekar notalegt, að honum skildi ljúka með upplýsandi viðtali við fagmann eftir hið innantóma gaspur formannskandídatanna tveggja. Liggur við að finna megi til samúðar með væntanlegum landsfundarfulltrúum, að standa frammi fyrir valinu, en kannski þeir skili bara auðu, eins og svo oft áður.