Sauðir, fuglar hross og svín.

23. september 2011

Grein sem birtist í ,,Sunnlenska fréttablaðinu” 15/9. sl.

Verið er að auglýsa tilboðsverð á lambakjöti hjá verslunarkeðju einni þessa dagana á krónur 998,-  fyrir hvert kíló í heilum skrokkum. Bændurnir sem framleiða þetta kjöt fá í sinn hlut tæpan helming þessarar upphæðar. Þeir eru íslenskir og það eru Bændasamtök Íslands sem gæta hagsmuna þeirra.

Bændur í nágrannalöndum okkar fá nærri því það sama fyrir sinn snúð og það sem verslunarkeðjan býður kjötið á til viðskiptavina sinna, eða um 800,- kr. fyrir hvert kíló.

Enda er viðurkennt af flestum að lambakjöt sé þeirrar gerðar að ekki sé forsvaranlegt að verðleggja það sem einhverja ómerkilega ruslfæðu. Hvort fullyrðingin um að gæði hins íslenska kjöts séu slík að það standi öllu öðru kjöti af sauðkindum í heiminum framar skal hins vegar látið liggja á milli hluta.

Bændur fá ýmsar sporslur frá hinu opinbera til að brúa það bil sem er á milli þess sem þeir fá greitt fyrir innlegg sitt og þess sem þeir raunverulega þurfa til að endar nái saman, en eins og sýnt hefur verið fram á vantar talsvert upp á að sá stuðningur dugi. Þeir ná sem sagt ekki boðlegum launum út úr rekstrinum og eins og einn þeirra orðaði það við undirritaðan: geta hvorki lifað né dáið, því lítið fæst fyrir jarðirnar sé reynt að selja þær og í sumum tilfellum er tæpt á að ná fyrir skuldunum sem á þeim hvíla.

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá að nefna hve mikið ógæfuspor það var að ,,selja” Lánasjóð landbúnaðarins, sjóð sem rekinn var á allt öðrum og að mörgu leiti heilbrigðari grunni en flest sú peningastarfsemi sem stunduð er í dag. Félagslegum grunni, sem hentaði fremur illa í því frjálshyggjuæði sem hér ríkti um tíma og átti að lokum sinn þátt í að svo fór sem fór.

Markaðurinn

Íslenskur markaður er lítill, u.þ.b. ámóta og bærinn Århus í Danmörku. Bændur sem aðrir eru að reyna að lifa á því að framleiða og selja vörur á þessum markaði, en það er vitanlega augljóst að smæðin setur því skorður hve hagkvæm framleiðslan verður. Sauðfjárbændur hafa reynt þá leið að selja hluta af framleiðslu sinni úr landi, en eins og sýnt hefur verið fram á, skilar sú sala ekki því verði sem þarf til að framleiðslan standi undir sér.

Ekki er það sauðfjárræktin ein sem á í vanda á þessum örmarkaði og ýmislegt hefur orðið til þess að gera stöðu búgreinanna enn erfiðari en þurft hefði. Er það ef til vill aðeins  hrossaræktin sem stendur undir sér? Grein sem byggir að stórum hluta á útflutningi og væri sjálfsagt ekki í góðum málum ef eingöngu væri stólað á innanlandsmarkað.

Alifugla og svínarækt hefur á undanförnum árum lent í margvíslegum hremmingum, enda eru þær búgreinar þess eðlis, að fremur auðvelt er að auka framleiðsluna skyndilega og hefur það oft verið gert á undanförnum árum og þá langt umfram þarfir. Oftar en ekki hafa þær kjötbólur verið að undirlagi bankanna, sem bitur reynsla er fyrir að hafa alls ekki haft burði til að byggja ákvarðanir sínar á vitrænum grunni, en talið það að líkindum ,,tæra snilld” að efna til offramleiðslu.

Svínarækt- og alifugla

Undirritaður hefur afar takmarkaða þekkingu á svínaræktinni, en hefur ekki komist hjá því að taka eftir hvernig hún hefur þróast í æ stærri einingar sem fátt bendir til að henti íslenskum aðstæðum. Hvort þar er á ferðinni undirbúningur að framleiðslu til útflutnings í framtíðinni, t.d. eftir inngöngu í ESB er hugsanlegt - og er þá vottur um nýstárlega og nánast óþekkta framtíðarsýn í rekstri landbúnaðar á Íslandi.

Alifuglaræktin er ekki vonarljós í landbúnaðarflórunni, sé miðað við þá stöðu sem hún er í. Ásamt svínaræktinni býr hún við frekar litla innflutningsvernd, en hins vegar eru gerðar til hennar gríðarlegar kröfur um vörugæði m.v. það sem víðast annars staðar gerist. Grunnurinn undir þessari búgrein stendur vægast sagt tæpt og algjörlega vonlaust að grein sem byggir á fóðri sem er 50% dýrara en það sem gerist í nágrannalöndunum og daggömlum ungum til eldis sem eru tvöfalt og í sumum tilfellum þrefalt dýrari en þar gerist, geti staðist erlenda samkeppni.

Framtíðin

Þarf þetta að vera svona? Vitanlega ekki. Ýmislegt er hægt að gera en í þessum pistli verður ekki farið út í smáatriðin hvað það varðar, en margt bendir til, að hugsanlegt væri að efla a.m.k. sumar búgreinarnar á þann veg að þær þyrftu ekki að stóla á styrki, innflutningsvernd og höft. Ísland hefur nefnilega þá sérstöðu að vera til þess að gera einangrað frá umheiminum og með náttúrulega fjarlægðarvörn gegn smitsjúkdómum og það er einmitt þar sem möguleikarnir liggja m.a. Vel má hugsa sér að á Íslandi yrði stunduð framleiðsla á búvörum til útflutnings, til þjóða sem glíma við þéttbýlisvandavanda sem við erum laus við, en til að það sé hægt, þarf að raða spilunum upp að nýju og m.a. taka til í ýmsu því reglugerðarfargani sem séríslenskt er, en halda í það sem gott er og nauðsynlegt.

Vonandi bera bændaforystan og stjórnvöld gæfu til að hugsa málin upp á nýtt, út á við og einnig inn á við, þjóðinni til hagsbóta í komandi framtíð.